Hátíðarkvöldverður

Vegna hátíðar ljóssins

verður rjúpan ekki friðuð

með öðru en útrýmingu

-úr þessu

Þangað til hangir hún

á bláþræði

í skugga þakskeggsins

sem jólaskraut

frá liðinni tíð

-í gula baggabandinu

sem varð keldusvíninu

að aldurtila um árið

 

Fyrir um það bil tveimur árum datt ég í ljóðlestur og hef varið drjúgum tíma í að lesa mig í gegnum ljóðabækur, -vissi ekki að ég ætti orðið tugi ljóðabóka, en þær hafa safnast að mér eins og þjóðsögur í gegnum tíðina og hefur þess mátt sjá merki hér á síðunni undanfarin ár.

Jafnframt þessum lestri ljóða alvöru skálda, þá hef ég látið eftir mér að birta eitt og eitt frumsamið ljóð. En ég hef um nokkurra ára skeið skrifað hjá mér örstuttar endaleysur, sem kvikna oftast upp úr engu, og mér finnast þess verðar að skoða seinna.

Um ljóðið hér að ofan, sem mætti flokka undir frekar nöturlegan kveðskap, má það helst segja að það hafi orðið til undir áhrifum frá Gyrði Elíassyni, þegar ég var að lesa eina af ljóðabókum hans.

Þetta árið ákvað ég að birta eitt frumsamið ljóð hér á síðunni í hverjum mánuði, þau hafa reyndar orðið fleiri en í upphafi var ætlað, -en nú læt ég staðar numið. 

Það hefur komið skemmtilega á óvart hversu vel þessum ljóða hugleiðingum mínum hefur verið tekið og ber mér að þakka fyrir það sérstaklega. 

Ég vil í tilefni hátíðar ljóssins óska þeim, sem eiga það til að líta inn á þessa síðu, -gleðilegra jóla, árs og friðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég leit inn og óska þér gleðilegra jóla !

Helga Kristjánsdóttir, 21.12.2024 kl. 06:38

2 identicon

Sömuleiðis Magnús

bestu óskir til þín og fjölskyldu þinnar um gleðileg jól og farsælt komandi ár.  Og hafðu miklar þakkir fyrir þína góðu bloggpistla.

Ps.  Haltu áfram með ljóðagerðina.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.12.2024 kl. 10:49

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk sömuleiðis, Magnús, ekki gleyma að tröllskessan Stúfur býr ekki langt frá þér ásamt sínu slegti, en hún er núna í heimsókn hjá stóra bróður sínum Letihaugi.

Guðjón E. Hreinberg, 21.12.2024 kl. 12:10

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk sömuleiðis Magnús, gleðilega hátíð, ljós og friðar.

Tek svo undir með skáldinu.

En eru þessi gulu baggabönd ekki löngu orðin ófáanleg nema á Þjóðminjasafninu eftir að Tækniminjasafnið á Seyðis fór í aur og drullu út í sjó?

Það er nú samt blessuð blíðan þessa dagana.

Kveðja úr logninu í neðra.

Ómar Geirsson, 21.12.2024 kl. 18:07

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir kveðjurnar kæru vinir, -mér fannst rétt að setja kveðju; jóla, árs og friðar, -óspjallaða í loftið áður en valkyrjustjórnin skaðaði stemminguna á þessum stysta degi ársins, -en ég náði ekki að hnoða saman ljóð í dag, það gerði andleysið.

Mér sýnist við vera að uppskera al-slemm femínismans um þessar mundir, -sannkallaða hátíð valkirkjunnar. Já, Grýla verður vonandi Stúfur um þessar vetrarsólstöður hjá letihaugi vini okkar í Álfaborginni, en þær setjist ekki þar upp varanlega Leppa, Skreppa og Leiðindaskjóða.

Varðandi gula baggabandið þá var það þannig á meðan rjúpan hékk sem tákn í þakskegginu í aðdraganda hátíðar ljóssins, þá höfðu gárungarnir grun um að sumar kæmu afturgengnar upp úr frystikistunni ár eftir ár, -og þær rjúpur þekktust á bandinu sem þær héngju í, eftir að gula baggabandið komst á þjóðminjasafnið.

Megi ljós frelsarans hanga blíðlega í ykkar þakskeggi um jólahátíðina.

Magnús Sigurðsson, 21.12.2024 kl. 19:44

6 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ég gúgglaði smalann Þorkel í Öxnadal eftir að hafa lesið bók Arnaldar Indriðasonar, Ferðalok. Fann þá þessar færslur þínar

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244877/
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244879/
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244880/
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244882/
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244885/

Er forvitinn um hvort e-r gögn sem hönd er á festandi séu til um þetta mannshvarf og rannsókn á því.
Virðist helst vera þjóðsögur,munnmælasögur og draugasögur þótt það sé ekki lengra síðan en fyrri hluti 19. aldar þegar atburðurinn átti sér stað.

Pétur Þorleifsson , 29.12.2024 kl. 14:11

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Pétur, -gögnin um smalann eru víða í þjóðsögunum og sagnaþáttum.

Hvað spurningu þína varðar; -nei ekki svo ég viti, og um einu "rannsóknina" í þessum máli má lesa í Sópdyngju.

Þar bar "vitorðsmaðurinn" því við, að það sem hann hefði sagt öðrum um málið og eftir honum var jafnóðum skráð, -hefði verið fyllerísrugl.

Nei ég veit ekki til þess að það hafi farið fram nein rannsókn. En örlög beggja smalanna geta samt eftir sem áður verið jafn sönn.

Magnús Sigurðsson, 29.12.2024 kl. 18:21

8 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Sæll Magnús

Já,í Ferðalokum er þetta um Stebba svera vinnumann á Þverbrekku. Hann sagði Páli á Bakka frá morðinu fimmtán árum áður og tók framburðinn svo til baka hjá fulltrúa sýslumanns og þar við sat.Er of seint að komast að hinu sanna í kirkjugarðinum á Bægisá ?
Arnaldur hlýtur að hafa lesið Sópdyngju.

 

Pétur Þorleifsson , 29.12.2024 kl. 19:20

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég hef ekki lesið Arnald, -en kæmi ekki á óvart að hann hafi lesið Sópdyngju ef hann minnist á þetta, því að ég best veit er hún besta heimildin um örlög Þorkels smala.

Það er oftar en okkur grunar sem þjóðsögur og sagnaþættir eru haldgóðar heimildirnar um kjör fólks í landinu á árum áður, þó svo að það þurfi að lesa á milli lína stundum.

Mér áskotnaðast t.d. tvö hefti, sem heita Dulsýnir, -eftir Sigfús Sigfússon. þar eru athygliverðar sagnir frá hans eigin ævi, sem hvergi koma fram í þjóðsaganasafni hans, þær segja mér mikið af mínu næsta nágrenni fyrir rúmri öld, þó svo að það hafi ekki verið meining dulsagnanna.

Það er oftar en ekki sem sannleikurinn er sagna bestur þar sem hans er síst að leita.

Ánægjulegt að frétta að Arnaldur skuli feta slóð þjóðsagnanna við að gera grein fyrir raunverulegu umhverfi þjóðskáldsins. 

Magnús Sigurðsson, 29.12.2024 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband