Móráð skipstjóri

Móráð skipstjóri

Svona til að skerpa tímanna tákn má rifja upp að sumarið 1627 voru gerðar þrjár innrásir hér á landi, -einhverjar verstu hernaðaraðgerðir sem landinn hefur mátt þola. Árásirnar voru engin tilviljun. Um aðdraganda þeirra segir svo í heimildum:

– Historian sjálf byrjast þannin. Af upptökum þeirra ferðalags, kunna menn ekki að segja með fullum sanni. Þó hafa nokkrir sem frá þeim hafa sloppið það svo fortalið að tveir af þeim æðstu í Tyrkjans veldi hafi veðsett það hvorir við aðra hvort mögulegt vera mundi að sækja til Íslands þann minnsta hellustein – þeir þessu kappi fram héldu gjörði annar þeirra út tólf skip sem reisa skyldu til Íslands – þar heyrst hefur eftir þeim grimmu morðingjum að eitt barn héðan skyldi kosta í Asíulöndum 300 dali.

Ætla mætti að 12 skip hafi lagt úr höfn í Barbaríinu og sigld áleiðis til Íslands. Heimildir eru til um fjögur skip af þessum toga sem komu að íslandsströndum þetta sumar. Eitt til Grindavíkur tvö til Austfjarða, þar sem það þriðja bættist við úr hafi þegar þau skip héldu suður með landi til Vestmannaeyja. Leiðangrar þessir voru tveimur skipum ríkari þegar haldið var til baka og höfðu í lestum skipanna um 400 Íslendinga sem seldir voru á þrælamörkuðum Barbarísins.

Ósennilegt verður samt að teljast að tveir af æðstu mönnum Tyrkjaveldis hafi skipulagt árásirnar. En skipstjórarnir voru báðir kallaðir Murate Reis upp á Barbarísku, en Murate eru algeng Arabísk og Tyrknesk nöfn, -reis er orð yfir skipstjóri.

Það er meir að segja ólíklegt að þessir tveir sjóræningja kapteinar hafi lagt á ráðin í sameiningu um Íslandsferðina sumarið 1627. Sá fyrri kom í júní, skömmu fyrir Jónsmessu, -til Grindavíkur og rændi bæði Danska kaupstaðinn og hertók Danskt kaupskip, -auk þess að hernema 15 Grindvíkinga.

Síðan sigldi sá kapteinn tvískipa vestur fyrir Reykjanes inn á Skerjafjörð og gerði atlögu að Bessastöðum sem mistókst. Skotið var að skipunum þegar þau nálguðust Seiluna, hörfuðu þau þá frá og annað þeirra, -sjóræningja skipið, tók niðri á Lönguskerjum.

Þegar skipið losnaði var haldið vestur undir Snæfellsnes, og eru talin hafa verið áformuð sjórán við Vesturland. En hætt hafi verið við þegar vart var við herskip sem fylgdu erlendum fiskiskipum hér við land. Var þá stefnan tekin suður í haf til heima hafnar, -Salé í Marokkó.

Annar leiðangur og öllu ískyggilegri kom upp að Austfjörðum stuttu síðar þetta sumar. Voru þar á ferð tvö skip, -annað firna stórt. Þau komu inn á Berufjörð 6. júlí um sólarupprás og köstuðu akkerum úti á firðinum, -milli Djúpavogs sunnan fjarðar, og Beruness norðan fjarðar. (Sé tekið mið af Júlíanska tímatalinu, sem var notað til 1700, þá hefur dagsetningin verið 16. júlí.)

Djúpivogur

Djúpivogur, gömlu Dönsku verslunarhúsin til vinstri, Strandarfjöll ofan Beruness sjást yfir þokuröndina, handan fjarðar á Berufjaðarströnd. Sjóræningjaskipin köstuðu akkerum þar sem farþegaskip gera það þessi árin og setja fleiri hundruð farþega í land á léttabátum

Skotið var strax út bátum og farið að Dönsku verslunarhúsunum á Djúpavogi og allt fólk þar hertekið í svefnrofunum, -ásamt skipverjum Dansks kaupskips. Farið var með þetta fólk út í skipin. Skömmu síðar voru bátar sendir til beggja átta út frá skipunum, bæði til Djúpavogs og Beruness. Talið er að um 300 þrautþjálfaðir hermenn hafi tekið þátt í aðgerðinni.

Strax varð ljóst hvað fyrir þessu liði vakti. Komst hluti af þeim sem vöknuð voru á Berunesi til fjalls, -upp í þokuna sem lá niður í miðjar hlíðar. Þaðan yfir fjöllin til Breiðdals, ekki voru samt allir svo heppnir á Berunesi og varð gamalt fólk og veikburða fyrir barðinu á Barbörunum og lét þar líf sitt. Eða svo segja sagnir frá fyrstu landtöku þessa liðs á Berufjarðarströnd;

– og hittu fyrst smalann frá Berunesi, hvör er var hálfvaxinn piltur, Páll að nafni. Hann tóku þeir og reyrðu böndum og létu liggja svo í vegi fyrir sér til þess þeir færu aftur til baka. – þann pilt er þeir fyrst fundu, hann lá bundinn í einu klettaeinstigi til þess þeir héldu aftur til skips, tóku hann síðan og skáru fyrir þvert andlitið, flettu svo augabrúnunum ofan fyrir augun. Síðan skáru þeir hans báða huppa fyrir neðan síðurnar og lét hann þar sitt líf, þar sem síðan kallast Pálsgjögur.

Ekki er meiningin að gera atburðarásinni í landi tæmandi skil í þessum pistli enda má um hana fræðast í Tyrkjaránssögu. Pistlinum er ætlað að varpa ljósi á hverjir voru skipstjórar þessara skipa og hverskonar illþýði áhafnir þeirra höfðu að geyma.

Skipin héldu síðar austur með fjörðum þar til þau snéru við Reyðarfjörð. Úr hafi kom svo þriðja skipið og hélt þessi floti suður með landinu allt til Vestmannaeyja með afleiðingum sem flestir þekkja. Því þegar þessi herflokkur kom til Vestmannaeyja voru aðfarirnar hrikalegar og flestar lýsingar óhugnaðurinn einn.

Þegar skipin yfirgáfu Eyjar hafði þessi her tekið vel á fjórða hundrað manns í lestar skipanna og drepið um fimmtíu í landi, -fyrir austan og í Eyjum. Í kveðjuskyni smöluðu þeir gamalmennum inn í Dönsku verslunarhúsin og lögðu að þeim eld. Þegar skipin sigldu út með Heimakletti flutu lík í kjölfarinu. 

– þeir tóku að kveikja eldinn sinn í hvoru húsi, en sem þar var fyrir þeim ein kona sem þoldi ei að ganga með þeim herteknu gripu þeir hana strax með sínu tvævetru barni og köstuðu báðum á bálið. En sem hún og barnskepnan veinuðu, kallandi á guð sér til hjálpar, grenjuðu þeir með óhljóðum, hrindandi þeim með spjótsoddum inn í bálið sem þau út skriðu, og pikkuðu svo líkamina í brunanum.

Tyrkja Gudda

Já hverjir voru þessir Muratar sem fóru fyrir þessum óaldalýð, og hvaðn komu þeir? -í sumum íslenskum textum eru þessir skipstjórar kallaðir Amórað og Mórað Fleming. Kemur skýrt fram að þarna er ekki um sama manninn að ræða, og sennilegast tvo svo til óskylda leiðangra.

Talsverðar heimildir eru um Murate Reis (Amórað) frá Salé í Marokkó, þann sem fór fyrir árásinni á Grindavík. Sá maður hét upphaflega Jan Jansson og var frá Haarlem í Hollandi. Hann hafði verið hertekin af sjóræningjum úr Barbaríinu þegar hann var á skipi á Lanzerote á Kanaríeyjum. Síðan seldur á þrælamarkaði í Salé.

Jan Janson gerðist trúskiptingur, enda það eina leiðin til að eiga mannsæmandi líf sem þræll í Barbaríinu. Hann nýtti fljótlega kunnáttu sína og gerðist sjóræningi sem vann sig upp í að verða virtur flotaforingi í Salé.

Talsvert er til um Jansson m.a. vegna þess að hann skrifaði bréf til yfirvalda í Englandi og reyndi að fá þar hæli, en það var því sem næst vonlaust fyrir Múslima á þessum tíma að fá hæli í Evrópu, hvað þá trúskiptinga sem stundað höfðu sjórán. Vitað er að hann kom til Hollands og hitti fjölskildu sína, en þar hafði hann verið kvæntur og átti börn áður en hann var seldur í þrældóm.

Ein Hollensk dóttir Jans Jansson heimsótti hann til Marokkó og settist að í nágreni Salé um tíma. Hann var margkvæntur í Marokkó og á m.a. afkomendur í Ameríku sem settust í fyrstu að í New York sem þá hét New Amsterdam. Murat Reis komst ekki aftur til Evrópu hann endaði sína ævi sem ríkur maður í Marokkó.

Uppruni hins Murat Reis (Mórað Fleming) er meira á huldu og það eru m.a. íslenskar heimildir sem gera það full ljóst að um tvo menn er að ræða þegar Murate Reis er annars vegar. Til eru heimildir í Algeirsborg um mikinn flotaforingja sem kallaður var Murate Flamenco Reis. Sá var upprunalega frá Antwerpen.

Talið er að Fleming hafi verið atvinnulaus málaliði úr stríðum Evrópu. Hann hafi siglt til Alsír, gerst þar trúskiptingur, tekið upp nafnið Murate og farið fyrir sjóránum frá Algeirsborg, enda var það ábatasamt. Fram kemur í sögnum af Tyrkjaráninu að stór hluti áhafna hans hafi verið Evrópumenn, m.a. Danir, Englendingar og Þjóðverjar.

Sagnir úr Vestmanneyjum geta þess hvað þessir Evrópumenn voru miskunnarlausir, mun verri en norður Afríku mennirnir sem í áhöfnunum voru. Einn Danskur maður er sértaklega nafngreindur og talinn hafa verið oft áður við Ísland og leiðangrinum til ráðuneytis.

Á suðvestur Írlandi í bænum Baltimore var gerð svipuð innrás fjórum árum seinna, eða 20. júní 1631, -um sumarsólstöður. Norður-Írski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Des Ekin hefur kafað í það sjórán og gefið út um það bók sem heitir: The Stolen Village - Baltimore and the Barbary Pirates.

baltimore cove

Baltimore, -The Cove er fyrir miðri mynd

Des Ekin kemst að þeirri niðurstöðu að sá sem þar fór hafi verið Morate Reis. Hann telur að vísu að Morate Reis sé einn og sami maðurinn, Jan Janson, -og hafi bæði verið flotaforingi í Salé og Algeirsborg. Íslenskir heimildir sanna það að þessir Muratar voru sitt hvor maðurinn og sá sem rændi Baltimore var Móráð Fleming, það sést á því að hann átti heimahöfn í Algeirsborg í Alsír þar sem hann seldi fólkið frá Baltimore á þrælamarkaði.

Í Baltimore var rænt 109 manns, sem er svipaður fjöldi og við Berufjörð. Það sérstaka við Baltimore ránið er að fólkið sem hertekið var þar voru einungis Englendingar, en ekki Írar eins og ætla mætti, þetta sást m.a. á nöfnunum.

Fólk sem var selt á þrælamarkaði var yfirleitt nafngreint og haldið um það bókhald í Barbaríinu. Því stór hluti af ágóða mansals gátu verið lausnagjöld að heiman. Ekki er vitað nema um tvær konur frá Baltimore sem snéru aftur.

Bókin Stolen Village er yfir 400 bls og frekar torlesin en vel þess virði að halda athyglinni til enda. Því ránin í Baltimore virðast hafa verið þaulskipuleg aðgerð. Sá hluti bæjarins sem var rændur, var fátækt fiskimannaþorp og sá hluti byggður Englendingum. Þeir höfðu fengið þar ábúð samkvæmt flókinni atburðarás og samningi í 21 ár.

Des Ekin leiðir að því sannfærandi líkum eftir skriflegum skjölum þessa tíma, sem allt of langt mál er að gera skil í stuttum pistli, að Írskur landeigandi, sem bjó þá á Spáni, hafi gert samning við Murate Reis um að fjarlægja Enska fólkið úr bænum.

Því Englendingarnir virtust hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að fólkið þyrfti ekki að yfirgefa The Cove í Baltimore samkvæmt samningnum, það ætti því sem næst orðið landið samkvæmt úrskurði Enskra yfirvalda þess tíma.

Það var svo upp á dag, 21 ári eftir að samningurinn var gerður, og hann þann dag útrunninn, -sem Murate Reis kom með flota sinn og rændi þann hluta Baltimore sem kallaðist The Cove og var byggður Englendingum. Aðra hluta Baltimore lét hann í friði.

Það sem Enskum yfirvöldum undraði mest var að sjóræningarnir skildu ekki ráðast á bæ í nágreninu, sem var mun ríkari. En þar voru reyndar Ensk varðskip til varnar því þeir vissu af  Murate Reis rásandi um með skip sín við strendur suður Englands og Írlands.

Það má því fastlega gera að því skóna að Tyrkjaránin við Íslands strendur sumarið 1627 hafi verið þrælskipulögð hernaðaraðgerð. Þó svo ekki sé víst að þessir tveir Muratar hafi verið þeir sem veðjuðu. Murate frá Marokkó virðist hafa verið annars eðlis. 

Í áhöfnum Móráð Fleming flotaforingja frá Alsír voru allra þjóða kvikindi. Hans hertækni var að yfirvinna aðstæður með fjölmenni og lamandi ógn. Þeir sem sýndu minnsta vott um mótþróa voru umsvifalaust drepnir eða misþyrmt á grimmilegan hátt.

Svo sögðu sumar heimildir úr Eyjum að það hafi verið Íslendingur sem lóðsaði 300 hermenn upp á Heimaey. Á stað þar sem heimamenn áttu sér þess síst von að ókunnugt herliðið kæmist á örskotsstund í land. Þar heitir nú Ræningjatangi.

Ræningjatangi

Brimurð og Ræningjatangi á sunnanverðri Heimaey þar sem 300 hermenn tóku land sumarið 1627

Skógabók segir m.a. svo frá hörmungum Eyjakvenna þegar ræningjarnir fóru um Heimaey: -"Tvær kvensniftir urðu eftir sem seinfærar voru. Önnur þeirra kvenna hafði tvö börn, þau með móðurinni emjuðu ógurlega, en þeir tóku börnin og brutu þeirra háls í sundur, síðan hvört bein mölvuðu þeir í sundur við klettana og köstuðu þeim síðar í sjó, en móðurina með gríðarlegum hljóðum svo ei mátti standast það að heyra. En þeir tóku hana með hinni, lágu þær í þessum hörmungum sem þær höfðu, höfðu þær svo með sér að Dönsku húsum"

Heimildir:

Skógabók

Reisubók Ólafs Egilssonar

Karl Smári Hreinsson

Corsairs and Captives/Adam Nichols

Stolen Village/Des Ekin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Afskaplega fróðleg lesning og eins og oft hefur komið fram í samtölum okkar Magnús, þá erum við alveg sannfærðir um að Íslendingar voru með í ráðum. í ránunum á Austfjörðum, Grindavík og Vestmannaeyjum, sérstaklega á Austfjörðum er ekki fyrir hvern sem er að sigla og sleppa óskaðaður frá...... 

Jóhann Elíasson, 9.3.2025 kl. 06:12

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir hólið Jóhann, -já um þetta höfum við rætt að siglingaleiðir við austurströndina s.s. Papeyjarálar og við Skrúð eru varla fyrir ókunnuga á stórum skipum.

Hvað þá skipum án siglingatækja sem hafa vindinn einan við stjórn, enda ert þú gamall togaraskipstjóri við Íslandsstrendur.

Þú átt nú þinn þátt í fróðleik þessa pistils, bæði með samtölum og fyrir að hafa komið mér til að lesa bókina um Baltimore.

Magnús Sigurðsson, 9.3.2025 kl. 07:02

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég var nú aldrei togaraskipstjóri, en ég var töluvert stýrimaður fastur annar stýrimaður og leysti af sem fyrsti.......

Jóhann Elíasson, 9.3.2025 kl. 11:20

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

þakka þér fyrir að leiðrétta þetta hjá mér Jóhann.

Magnús Sigurðsson, 9.3.2025 kl. 11:40

5 identicon

Og þangað sótti Hallgrímur ambátt sína. Sennilega eini maðurinn á þessum tíma sem keypti sér kynlífsþræl. Nú er þetta orðið ansi algengt.

jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 9.3.2025 kl. 13:36

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Jósef, ég get nú ómögulega gert að því að mér finnst þessi athugasemd þín alveg sérstaklega ósmekkleg og óviðeigandi.   Vonandi hefur þú einhverjar heimildir sem staðfesta þetta en ég hef ekki séð neitt sem staðfestir þessi orð þín en eins og ég hef sagt áður hef ég ekki rekist á neitt sem staðfestir að séra Hallgrímur hafi greitt fyrir Guðríði Símonardóttur og værir þú maður að meiri ef þú skrifaðir aðra færslu á þessa síðu þar sem þú biðjir afsökunar á þessum ummælum.....

Jóhann Elíasson, 9.3.2025 kl. 14:57

7 identicon

Jóhann. Eftir því sem ég hef heyrt þá borgaði hann lausnargjald. Heldurðu virkilega að hann hafi bara fengið hana gefins af þrælahaldaranum. Að sjálfsögðu bið ég ekki afsökunar . Það liggur fyrir að hann tók sér hana sem konu og þetta er ekkert öðruvísi en þegar menn fara til Tælands og borga far fyrir konu til að koma með sér heim til íslands og giftast sér. Það má bara greinilega ekki tala um þetta vegna þess að þetta var nú einusinni prestur.

jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 9.3.2025 kl. 15:54

8 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það kemur hvergi fram í neinum skriflegum heimildum, sem ég hef séð að HANN hafi greitt lausnargjald og heldur finnst mér þú óforskammaður að ætla að þrjóskast við og bæta ekki fyrir þessi meiðandi ummæli þín en eins og segir SKÖMMIN ER ÞÍN.....

Jóhann Elíasson, 9.3.2025 kl. 16:18

9 identicon

Biðs afsökunar á þessu Jóhann. Var að lesa á wikipedia að það var víst konungur danmerkur sem leysti nokkra íslendinga úr haldi og þar með talið Guðríði. 

jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 9.3.2025 kl. 16:24

10 Smámynd: Jóhann Elíasson

Jósef, þú átt ekki að biðja mig afsökunar heldur Magnús Sigurðsson eiganda síðunnar og lesendur hennar og ekki síst afkomendur séra Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur, því þú veittist að æru látins fólks, sem ekki var í stöðu til að verja sig......

Jóhann Elíasson, 9.3.2025 kl. 18:25

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég sé að þú hefur greinilega vitkast Jósef, -óþarfi að bryðja mig sérstaklega afsökunar frekar en aðra Íslendinga. 

En svona til að segja eitthvað um kynlífsþrælinn þá fékk Guðríður Símonardóttir ekki Tyrkja Guddu nafnbótina alveg upp úr þurru, þó svo að hún ætti þá nafnbót alls ekki skilið í niðrandi merkingu.

Eins og þú bendir á þá var greitt fyrir hana lausnargjald af því opinbera. Hún var ásamt þeim Íslendingu sem voru keyptir úr Barbaríinu 1636 sett á skólabekk til að komast aftur inn í íslenskt samfélag þá tæplega fertug.

Þar fór ungur maður með fræðsluna sem hét Hallgrímur Pétursson, sem þá hafði verið í námi í Kaupmannahöfn. Eins og stundum gerist þá drógu þau sig saman og hún varð með barni.

Það sem var við þetta að athuga var að Guðríður var gift manni í Vestmanneyjum, Eyjólfi Sölmundarsyni, sem hún hafði ekki séð þá í tæp 10 ár. Þetta þótti samt ekki gott af þeim skötuhjúunum, eins og þú rétt getur ímyndað þér.

Ef mér skjöplast ekki þá er einhversstaðar sagt að þetta hafi bjargast fyrir horn því Eyjólfur lést veturinn sem Guðríður var í skólanum hjá Hallgrími.

Séra Hallgrímur Pétursson, sem var 18 árum yngri en Guðríður, á samt að hafa iðrast, og angur hans byrst í ljóði.

Lifnaðinn minn svo ljótan finn,

lagabrot hef ég framið,

aum bölvun sú mig angrar nú,

er ég mér hef samið...

Þetta breytir samt ekki því að þau Hallgrímur Pétursson og Guðríður Símonardóttir eru eitthvert mesta sómafólk sem Ísland hefur alið.

Í því ljósi hve ævi þeirra gaf okkur sem þjóð, þó ekki léki lánið við þau, eru ummæli þín vanhugsuð og rétt hjá Jóhanni að benda þér á að biðjast  afsökunar á þeim.

Magnús Sigurðsson, 9.3.2025 kl. 19:41

12 Smámynd: FORNLEIFUR

Salam Bina Munah Magnus. Nú hefur þú heldur hringmúrað, líkt og skóarar hringsóla. Des Eikin er alls ekki sagnfræðingur og bækur hans eru einu sinni skemmtiefni og að miklum hluta til skáldskapur. Bók hans ber vitni um það og er algjör vaðall. Jan Jansson, sá sem til Íslands kom, hét upphaflega Jan Janszoon. Þú verður að fara rétt með nöfn, þótt Írinn gerir það ekki. Murad Reis var algengt nafn/titill og var að minnsta kosti einn skipstjórnarmanna í Barbaríunu með sama nafn, Albani að uppruna og tók sér heitið Murad Reis (eldri). Albaninn dó löngu fyrir Tyrkjaránin á Íslandi. Murad Reis frá Antwerpen er algjör uppspuni eða misskilningur Eikins. Hins vegar eru afkomendur  Jans Janszoons í Ameríku margir og frægir og komnir af syni hans Ton (Antonius/Anthony Johnson) sem Jan átti með blökkukonu. Fornleifur vinur minn hefur m.a. reynt, en án árangurs, að fræða Íslendinga um afkomendur hans Jans Janszoons, sjá hér: https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1383622/. Eins langar mig að biðja þig að lesa þessa grein, þar sem ég kenni íslenskum múslíma eitt og annað sem hann vissi ekki: https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/2236756/

FORNLEIFUR, 10.3.2025 kl. 08:39

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já hún snýst nú samt Fornleifur, -þó búið sé að múra heilan hring með múrskeiðinni.

Mér datt bara ekki i hug að það þyrfti að taka það sérstaklega fram að til væru Muratar eldri og yngri þegar ég setti þessa steypu á blað, ekki frekar en að Tyrkja Gudda væri ekki kynlífsþræll frá Tælandi.

Varðandi Des Ekin, -ef þú ert þá að tala um hann, því rétt verður að fara með nöfn segir þú, -þá er Baltimore hluti þessa pistils einmitt til að leiðrétta Ekin (en ekki Eikin) ef innihald þess hluta hefur farið framhjá þér.

Varðandi nútímastafsetningu þá er það þannig orðið hér á landi, -Fornleifur, þó þú kannski vitir það ekki þarna úti í Köpen með teskeiðina að vopni, að búið er að afnema Z úr íslensku og OO endaleysan hefur aldrei verið viðhöfð, en því ertu sennilega búin að gleyma af langri útisetu.

En ef það huggar þig þá notar Des Ekin, sá sá sem ég tók sérstaklega fram að væri blaðamaður og rithöfundur, einmitt sömu ZOO stafsetninguna og þú þegar hann safsetur Jan Janson. 

Ef þú vildir gera mér þann heiður að lesa pistilinn aftur, þá kæmistu að því að hann er um tvo Móráða sem hingað komu sumarið 1627. Hvorki um Murate eldri, eða yngri né alla hina.

Það sem sagnfræðingar, fornleifafræðingar og steypukallar eiga sameiginlegt er að geta ekki sett saman frásögn um viðfangsefni eigin atvinnu,- þess vegna skrifum við pistla um Móráða.

-Eða hver heldurðu að myndi nenna að líta inn á þessa síðu ef það væru bara steypuuppskriftir á henni?

Reyndar þá var það sagnfræðingur sem gróf upp upplýsingarnar um Móráðinn Jan Janson, en ekki Des Ekin. -Og annar sagnfræðingur sem skrifar ljómandi læsilegar bækur gróf upp það sem til er um Móraðinn Fleming, svo því sé haldið til haga.

En þetta kemur allt fram í heimildum sem getið er neðanmáls, sem þið fræðingarnir eru svo hrifnir að að vitna til, þó þið nennið sjaldnast að lesa annað en velluna upp úr ykkur sjálfum frekar en steypa væri hjá okkur steypuköllunum.

Þetta eru ljómandi skemmtilegir pistlar sem þú gefur hér slóðir á, -sérstaklega er sá um uppþvottaburstana trúverðugur. En ég er ekki eins sannfærður um hinn jafnvel þó svo Jan Janson sé stafsettur bæði með Z og OO.

Þakka þér fyrir ljómandi skemmtilegar ábendingar og skemmtileg skrif í gegnum tíðina Vilhjálmur, -bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 10.3.2025 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband