Sjóræningjarnir -og silfrið hennar Siggu minnar

Skúfhólkur

Það vita það kannski fleiri en kæra sig um, að á Íslandi hefur í gegnum tíðina búið gríðarlega vel efnað fólk. Svokallaðir landnámsmenn höfðu í farteskinu ógrynni silfurs og annarra gersema, auk ættatalanna sem mátti rekja til konunga 1000 ár aftur í tímann. Stöðugt bættist í þennan sjóð framan af öldum, með góðu eða illu líkt og börn og silfur Egils sanna. Nú má segja sem svo að genaþursið í Vatnsmýrinni sé það eina sem gerir sér mat úr þessum landnámsauði með því að selja genamengi landans til auðróna lyfjaiðnaðarins.

Enn í dag, -og þrátt fyrir þræls eðlið, eru Íslendingar samt taldir til ríkustu þjóða veraldar. En ekki breytir það samt því að silfrinu og ættartölunum var stolið og þjóðin átti sínar hörmunga aldir þar sem svo svarf að hún var nálægt því að hverfa úr sjóði þjóðanna. Hvað um allt gamla ættarsilfrið varð vekur forvitni fárra nú á tímum. Íslendingar eru á ný við það að hverfa af sjónarsviðinu á dögum auðræðis, og nú annaðhvort í glópalinn eða kirkjugarðana, -fátækir af öðru en digital tölum.

Fólk á mínum aldri man leifar ættarsilfursins, -enga fjársjóði, -en silfur stokkabeltið, -nælan og -hólkurinn – á mótum skotts og skúfs í húfunni. Þetta dugði til að gera upphlutinn hennar ömmu að dýrgrip. Silfurborðbúnaður -hnífur, -gaffall og -skeið með ígröfnum stöfum þóttu merki um menningararf þegar til siðs var að gefa börnum silfurskeið í skírnargjöf, meir að segja erfðu mín börn sinnar ættar silfurskeiðar samkvæmt nafni.

stokkabelti

Það má segja að á seinni öldum hafi það komið í hlut kvenna að gæta Íslandssilfursins. Því sem ekki hafði þegar verið stolið á öldum helsisins, -ættarsilfursins. Amma eftirlét yngri systur minni upphlutinn, ekki bara vegna þess að þær væru al-nöfnur, ekki síður vegna þess að þær voru áþekkar að stærð. Þessi upphlutur er nú í S-Frakklandi og hefur verið þar í áratugi og ekki veit ég hvort systir hefur nokkurtíma skartað honum.

Ekki er svo langt síðan að þingkona á Alþingi mætti í til þings í hluta upphlutar ömmu sinnar. Sem sönn alþingiskonan hafði hún nútíma vætt þjóðbúninginn  með því að klæðast buxum neðan upphlutar vestisins, -skreytt ættarsilfrinu. Hvort það hefur verið gert í virðingaskini við gömlu konuna eða þjóðaþingið er ekki gott í að spá, en hún allavega stal senunni með því að fótum troða í buxur þjóðlegri hefðinni.

Já ég hef verið að lesa rán, galdra og geðveiki undanfarið, -verið að lesa mig niður í 17. öldina. Til þess taldi ég sjóræningja, silfur og galdra best til fallna, -enda sú 17. stundum kölluð brennuöldin. Ég komst fljótt að því að galdrafárið var ekki beinlínis vegna galdurs og geðveiki, heldur var þetta aldafar tilkomið vegna endalausra sjórána. Hugmyndafræði galdrabrennanna má telja innflutt trúarbragðaofstæki í kjölfari siðaskiptanna, komið frá spænska rannsóknarréttinum sem barðist við fjölmenningu í dulargerfi Íslams, sem of langt mál er að gera grein fyrir í stuttum pistli.

Það sem maður áttar sig ekki á í fljótu bragði er sú staðreynd, -að Danir eru mestu sjóræningjar sem að Íslandsströndum hafa komið. Eins og má lesa í þessu mbl fréttaviðtali við Steinunni Kristjánsdóttir fornleifafræðing. Hún gaf út um þessi hugðarefni sín m.a. í bókinni Leitin að klaustrunum. Fyrstu áratugina eftir siðaskiptin voru heilu skipsfarmarnir af dýrgripum úr silfri fluttir frá Íslandi til Kaupmannahafnar.

Steinunn segir; -"Það er tvisvar sinnum minnst á sjóræningjaskip þar sem þau herja á Ísland en Danakonungur stöðvar það, líklega því hann sjálfur vildi komast yfir silfrið, frek­ar en að verja fólkið. Að minnsta kosti upplifi ég það þannig við lestur skjalanna." Spurning hvort lukkupotturinn hún Kristrún forsæta, ætti ekki allavega taka eins og eitt Trump á Rósenborgar silfurljónin við fraukuna Fredriksen áður en anað er í ESB. Það var ekki einungis svo að Danir afvopnuðu landann og hirtu silfrið. Bókmenntirnar með ættartölunum fóru sömu leið, þó svo að við höfum fengið eitthvað af  því lesefni til baka.

Nú virðast málsmetandi Íslendingar vilja láta erlent vald stela af okkur krónunni, -landinn að mestu búinn að gleyma því, að hvorki gekk né rak að komast úr moldarkofunum með þeirri Dönsku eða Skandinavíska ríkisdalnum þar á undan. Það var ekki fyrr en u.þ.b. þegar sú íslenska tók við, -moldarkofarnir að hruni komnir, að eitthvað fór að rofa til, -í upphafi 20. aldarinnar. Húsakostur landsmanna tók svo stakkaskiptum uppúr 1919 með Íslensku krónunni. Þess vegna er ágætt að kynna sér sögu landans í gegnum aldirnar og halda henni til haga þó svo það bjargi ekki öðru héðan af en hugsanlega ósýnilegri stafrænni krónu.

Silfur kaleikar

Píslarsaga séra Jóns Magnússonar er um galdur og geðveiki en Jón fékk feðga brennda á báli í Skutulsfirði, -á Skipeyri þar sem Ísafjarðarflugvöllur er nú. Um það þegar séra Jón tók við Eyrarkirkju árið 1644, sem er þar sem nú er Ísafjarðarbær, -stendur þetta: -Það hefur verið hrörlegt umhorfs í Eyrarkirkju þótt hún héngi uppi, væri sögð "vel standandi", enda hafði kirkjunni ekki verið bættur til fulls skaði úr biskupstíð Gísla Jónsonar, 1579, þegar enskir sjóreyfarar stálu fjölda muna og gengu berserksgang í kirkjunni, brutu gólf, altari og bekki. Greina heimildir frá því að ræningjar þessir hafi nauðgað konum og drepið fjóra menn, en samkvæmt einni þeirra tókst kvenfólki að verða tveimur þeirra að bana.

Píslarsagan hefur að geima bréf, dóma og vísitasíur, auk þess einstaka hugarflugs um galdra sem fór fram í höfði séra Jóns Magnússonar, og hann setti á blað. Í vísitasíu 16. ágúst 1653, meira en 60 árum eftir að sjóræningjarnir voru á ferð í Eyrarkirkju er silfurkaleiks kirkjunnar sárt saknað auk annarra dýrgripa, og ekki fyrr en í vísitasíu árið 1675, tæpum hundrað árum eftir sjóránin, sem sómasamlegur kaleikur er talin aftur kominn í kirkjuna. Píslarsaga séra Jóns Magnússonar eru rúmar 400 bls. af torkennilegu efni á menntamáli 17. aldar, og því engin áhlaupalesning, -en hún þykir einstök í sinni röð.

Það má geta sér þess til að leifar þess Íslandssilfurs, sem sjóræningjar danska kóngsins náðu ekki um, hafi alþjóðlegur lýður sjóræningja gert sér far um að nálgast norður í höf. Þegar heimildir eru skoðaðar um hvaða sjóræningjar voru á ferð í Eyrarkirkju þá má sjá í Öldinni 16. -hans Jóns Helgasonar, að sjóræningjar plöguðu Vestfirði sumarið 1579. Þar eru þeir sagðir Hollenskir og foringi þeirra William Smidt. Þeir rændu Rauðasand tóku menn gíslingu og sigldu með þá til Patreksfjarðar og kröfðust lausnargjalds. Fóru, -á meðan ættingjar skröpuðu saman ættarsilfrinu, norður á firði og rændu og drápu menn í Súgandafirði auk þess að nauðga þeim konum sem þá listi á leiðinni.

6840759750_5f655593dc

Ræningjar þessir stoppuðu við í Skutulsfirði vegna byr-leysis inn Djúp, þar höfðu þeir fregnað að fólk ætti sjóði silfurs. þar sem hægt væri að krefjast lausnargjalds og biðu á Eyri á meðan þess var aflað. Heimildirnar herma að tveir þessara sjóræningja hafi verið drepnir af vestfirskum konum.

Hjónin á Ögri fengu skipstjóra frá Holsetalandi til að fara á fund ræningjanna með lausnargjald, sem safnað var. Um hálftunna af smíðasilfri og slegnum peningum, þar á meðal kvensilfur á allt að þrettán kvenbúninga. Þetta dugði sjóræningjunum ekki og tóku þeir eiða um að meira yrði afhent seinna í Hollandi á gjaldaga sem þeir settu. Annars kæmu þeir árið eftir sjö sinnum verri.

Rétt er að skoða sjórán 17. aldarinnar í ljósi siðaskipta 16. aldar, þó svo að þau gerist áratugum síðar. -Og þá sér í lagi Baskavígin, sem á eftir komu og þykja með ógeðfelldari níðingsverkum sem framin hafa verið af Íslendingum.

Þegar á þessa óöld sjórána leið, þvarr silfrið á heimilum landsmanna og dæmi þess að heimilisfólki hafi þá verið stolið svo hundruðum skipti, flutt úr landi og selt í þrældóm, -þar sem það eina sem gat bjargað því þaðan var lausnargjald kóngsins í Kaupmannahöfn.

IMG_9297

Þegar svokallaðir Tyrkir rændu Berunes við Berufjörð var eitthvað eftir að silfri á heimilum landsmanna, -allavega á Berunesi. En þar bjuggu Bjarni Jónsson silfursmiður og Sigríður Einarsdóttir, dóttir séra Einars Sigurðssonar prests í Eydölum, sem frægur er fyrir að hafa ort eitt af helgiljóðum Íslendinga sem enn er sungið eftir að það verður heilagt, -Nóttin var sú ágæt ein.

Heimilisfólkið á Berunesi flúði í ofboði undan Hundtyrkjanum yfir Strandarfjöllin í Breiðdal, -til ættingjanna á Eydölum. Þjóðsagan segir að orðið hafi að skilja eftir gamlar og veikburða kellingar heima í bæ. Þeim hafði verið komið fyrir á milli þils og veggja svo Tyrkir finndu þær ekki. Sjóræningjarnir brutu upp kistur og koffort í bænum og fundu silfrið, létu það glamra úr greipum sér aftur í kistuna til að bera á brott með sér.

-Ja, svona átti það að fara, silfrið hennar Siggu minnar! -datt upp úr einni kellingunni. Þetta heyrði Hundtyrkinn og misstu hún við það lífið snarlega. – Já þær mættu alveg leiða hugann að því kellingarnar, -af öllum kynjum, ekki síður en þær sem kenna sig við valkyrjur og spranga um síðbuxna, hvernig ættarsilfrið er til komið og hvers vegna formæður þeirra hafa varðveitt það í þjóðbúningnum allt fram á þennan dag.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband