Frummaður, gervigreind og safety kit

Ég fór í Húsasmiðjuna í vikunni, sem varla er í frásögur færandi, nema fyrir hvers ég varð vísari. Þar sá ég ungan mann sem varla hefði náð að verið kallaður blámaður á árum áður, en allavega múlatti, -og blökkumaður í mínu ungdæmi. Auk þess að hitti vin minn vísindamanninn.

Við tókum spjallið. Hann nýkominn á tíræðisaldurinn og var að leita sér að húfu, ekki að sú gamla væri orðin svo slitin en það væri öruggara að eiga nýja ef þessar öndvegis innfluttu húfur hættu að fást. Mér varð á orði; -slitna húfur, tínir maður þeim ekki bara?

Við ræddum blessaða innflutta góssið á lága verðinu og innflutta vinnuaflið sem héldi okkur gangandi, enda ég að ná í ódýr heyrnaskjól fyrir Rúmenana sem eru á minni könnu. Hann sagði að hann vissi að Pólverjarnir hefðu þreföld laun á Íslandi miðað við Pólland.

-Já og heldurðu að íslensk skúringakona gæti lifað á þeim hér á landi; -spurði ég. –Nei aldeilis útilokað; -sagði hann; -enda skiptir það ekki nokkru máli, því þó Pólverjarnir sendu hverja krónu heim til sín fáum við skattana og það vantar alltaf fólk.Jha so; -sagði ég, -ég þekki þetta hef verið í steypunni allt mitt líf.

Ég fann ódýr heyrnaskjól, og enn ódýrara Safety kit með heyrnaskjólum, öryggisgleraugum og rykgrímu, frábær kaup 3 fyrir 1 á betra verði en bara ein heyrnaskjól. Dreif mig út með þessi góðu kaup. Úti á plani sá ég unga blökkumanninn aftur og nú við næstu verslun með útbreitt blað í fanginu rýnandi í það og rétta sig svo upp og horfa yfir ræktarlendur Egilsstaðamanna.

Jha so; -hugsaði ég, -hann hefur tekið Bændablaðið í Húsasmiðjunni. Enda geta blökkumenn nú til dags allt eins verið íslensku mælandi Íslendingar. Og þó ég sé orðin gamall og skorpinn eins og krít hvítur hundask, , , , (-nei maður má nú ekki hugsa svona það er bara rasismi), þá er barnabörnin mín sælleg með sitt blandaða blóð. Ég braut svo ekki meira heilann um þetta og brunaði með Safety kit-ið til Rúmenana.

Á leiðinni til baka í gegnum bæinn sá ég svo unga manninn í ett skiptið enn, og þá standa við gangbraut á einum fjölförnustu gatnamótum bæjarins, og hafði hann breitt út fangið með blaðinu sem hann var að rýna í. Ég keyrði hægt fram hjá, til öryggis, -og sá þá að hann var með landakort en ekki Bændablaðið.

Þá aldeilis dagaði yfir mig, eins og kaninn hefði sagt. Svo ég fór greitt yfir nesið, norður fyrir fljót og alla leið í steypuverksmiðjuna. Þar hitti ég fljótlega vin minn steypubílstjórann, en við höfum verið félagar í steypunni frá því að grjótkasti og kofasmíði bernsku áranna lauk.

Ég sagði við vin minn; -hvað heldurðu að ég hafi séð? -og sagði honum svo farir mínar sléttar. -Hefurðu séð eitthvað þessu líkt síðasta áratuginn eða svo. Uppréttan mann með landakort skimandi í allar áttir, og það á tímum þegar allir ana viðstöðulaust áfram hoknir yfir snjallsímann sinn með eyrnaskjól?

-Já veistu; -sagði vinur minn á steypubílnum, -ég mætti fólki um daginn sem var stopp úti í kanti og hafði breitt úr landakorti yfir mælaborðið. -Það er einhver djöfullinn að ske, en ég átta mig bara ekki á hvað það getur verið; -sagði hann.

-Jha so; -sagði ég, -ætli þetta fólk sé kannski að reyna að finna í sér frummanninn án aðstoðar gervigreinds snjallmennis.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Nýlega fékk ég grannann til að smúla stéttina hjá mér - til að skola burt afgangi af óétnum fuglamat og slíku. Garðslangan mín fúnaði í vetur, svo, tja.

Verkið hjá honum tók fimm mínútur, en hann er kynslóð yngri en ég, og ég segi við hann, að ég vilji að stéttin líti vel út vegna vinkvenna sambýliskonu hans, svo þær haldi ekki að ér sé eintómur sóðaskapur.

Þær taka ekkert eftir slíku, svarar hann, því þær sjá ekkert sem er utan við snjallsímann á trýninu, síðan hnussaði í unga manninum og hann kláraði að smúla.

Svo kannski, hver veit, kannski. Því ég held að innan um sé ennþá til fólk, yngra en við sem munum eftir náttúrulegu lífi, fólk sem smíðar kannski siðmenningu upp úr 2040.

Guðjón E. Hreinberg, 23.3.2025 kl. 16:42

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir skemmtilega dæmisögu, -það er jú von að því að virðist.

Ég er svo svakalega sérvitur að ég hef aldrei fengið mér snjallsíma, veit að ég yrði ekkert skárri en aðrir með svoleiðis töfra tæki, síspjallandi við gervigreindina og tryði ekki nokkrum lifandi manni ef það fengist ekki staðfest á gúggúl.

En það er gaman að heyra af því að til séu ungt fólk sem gera sér grein fyrir hvað glepur, hef vitað nokkrum sem segjast ætla að flýja, en þekki engan sem hefur sloppið, þetta er jú snjalltækni með Austur-Þýska laginu.

Magnús Sigurðsson, 23.3.2025 kl. 18:47

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Yndislegur Magnús minn, yndislegur.

Takk fyrir mig.

Kveðja úr áttleysunni með sinn kuldadumbung að neðan.

Ómar Geirsson, 24.3.2025 kl. 07:56

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Ómar, -já nú er hann dumbungssvalur enda 18 bræður öskudags liðnir.

Kveðja úr efra.

Magnús Sigurðsson, 24.3.2025 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband