29.3.2025 | 05:36
Angurgapi - íslenskur galdrastafur
Ristur á hlemm eða keraldsbotn. Einhver allra rammasti galdrastafur sem til er.
Maður var í Skagafirði sem kallaður var Galdra-Björn. Hann átti illt útistandandi við marga í héraðinu og þóttist ávallt eiga sín í að hefna á þeim með ýmsum gjörningum. Eitt af því var það að hann risti angurgapa á kjaraldshlemm og sendi svo hlemminn á stað til að drepa fénað fyrir fjandmönnum sínum. Hlemmurinn rann á rönd víða um héraðið og drap fé bænda hrönnum saman því hver skepna sem hlemminn sá lá þegar dauð. Hlemmurinn snerist svo snart að ekki varð auga á fest né á hann lesið, en það þóttust kunnáttumenn skilja að ef einhverjum tækist að lesa ristingarnar á honum sem sáust svo óglöggt af því hann snerist svo ótt að þær hlupu í eina hringiðu fyrir auganu, að þá mundi þessu meini af létta. Loksins tókst galdramanni einum út í Fljótum að lesa á hlemminn; féll hann þá um koll og hreyfðist ekki eftir það né vann neinum tjón framar.
Ef ekki væri fyrir Galdraskræðu Skugga væri lítið vitað um útlit angurgapa. Í Þjóðsögum JÁ eru þó myndir af rúnum sem honum tilheyra og lítil mynd af hring með striki í gegnum, sem gæti átt að vera hringlaga hlemmur með priki í gegnum miðjuna.
Þetta leiðir hugann að skopparakringlu sem segir frá í Píslarsögu séra Jóns Magnússonar. En þar segir séra Jón frá Þuríði Jónsdóttir(þá 18 ára) þegar Jón faðir hennar og bróðir voru brenndir á báli fyrir galdur á Skipeyri þann 10. apríl 1656, -þar sem Ísafjaðarflugvöllur er nú. Þeir voru dæmdir á bálið 9. apríl, brenndir 10.apríl og séra Jón fékk hluta Kirkjubóls, heimili fjölskyldu Þuríðar, með dómi í miskabætur þann 11. apríl.
Þuríður á að hafa, samkvæmt því sem séra Jón Magnússon ritaði í Píslarsöguna, - hlegið á brennudaginn með glensi og skrítlyrðum, dinglað fót við stokk og leikið að skopparakringlu, þótt vandalausir menn grétu óhamingju fjölskyldunnar; heyrist að sjálf óvættin hafi frændfræknari fundist, ritar séra Jón: Skessunni Medea er viðbrugðið, þó bar henni nokkuð til síns ræktarleysis.
Á eftir telur séra Jón Magnússon sig hafa orðið fyrir einhverjum rammasta galdri frá Þuríði og skrifaði píslarsögu sína því til sanninda merkis, er hann stóð í málaferlum til að fá Þuríði dæmda á bálið rétt eins og þá feðga. En það tókst honum reyndar ekki.
Það virðist einnig vera búið að glata merkingu orðsins angurgapi ef marka má orðaforða Árnastofnunar. En þar er angurgapi sagður fáráðlingur, örviti, hálfviti og ýmislegt í þeim dúr, þó kemur orðið ofstækismaður einnig fyrir í upptalningunni.
Ef farið er í orðsifjarnar þá er angur; -kvíði, vanlíðan, hugarstríð og fleira þess háttar. Gapi er væntanlega eitthvað sem gapir. -Rætin galdur þótti að reisa níðstöng með gapandi höfði.
Rétt eins og hrosshausinn sem Egill Skallagrímsson reisti á stöng til höfuðs konungshjónunum Eiríki blóðöxi og Gunnhildi í Noregi á sínum tíma, þar sem hann hét á landvættir Noregs að koma því hyski úr landi.
Einnig var til sá ótuktar galdur að reisa vindgapa á stöng, -gapandi lönguhaus með rúnakefli í kjaftinum, til að gera óveður að mönnum á sjó.
Þannig að ekki er ólíklegt að séra Jón Magnússon hafi talið sig hafa orðið fyrir angurgapa Þuríðar Jónsdóttir þegar hann stóð í því stórræði að rita fleirhundruð blaðsíðna Píslarsögu sína sem sönnunargagn í málaferlum gegn Þuríði.
Píslarsaga séra Jóns Magnússonar þykir með athygliverðari heimildum um fyrri tíma sálarháska.
Heimildir:
Galdraskræða Skugga
Píslarsaga séra Jóns Magnússonar
Árnastofnun
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þetta Magnús. Það vill svo til að sumt sem tengist þessu hef ég verið að rekast á og hef grúskað í öðru lengi sem tengist þessu.
Orðasifjar Ásgeirs Blöndals tel ég aðeins fyrir byrjendur því það er hægt að grafa miklu, miklu dýpra, og þar til mann sundlar og efinn fer að sækja að manni.
Ég er með bók í smíðum um Esus og hef þurft að velta við öllum steinum og þeir finnast þó ætíð fleiri þannig að ég læri alltaf eitthvað nýtt.
Angur-gapi er jú samsett orð.
Var að horfa á myndband nýlega þar sem fræðimaður rannsakaði orðið Ginnungagap. Bar hann það saman við orðið Chaos úr grísku og telur þau orð merkja það sama. Síðan hef ég gert aðrar rannsóknir sem benda til að Esus sé Ginnungagap eða Chaos sem frumguð. Það er þó svo óskiljanlegt að kannski kemst maður aldrei að raunverulegri merkingu á bakvið slíkt. Þessi forna trú var svo djúp og óskiljanleg að það er furðulegt.
En Gap og Chaos merktu upphaflega munnur og það hafa orðsifjafræðingar stutt nokkuð vandlega, nema einhverskonar vindur eða gjóla á að hafa leikið um þessa munna og þetta munu hafa verið munnar risa og þessi Esus því risi af því tagi í fyrndinni áður en hann breyttist og varð geðþekkari guð og skiljanlegri.
Þessu tengt er svo aftur sköpunarsaga Biblíunnar, að blása vindi eða anda í fólk og skapa þannig líf, og svo orð Guðs sem verður efni og sköpun eða eitthvað slíkt. Þannig að hér er komið ævafornt stef og torskilið.
Ég hunza fullkomlega skýringar Árnastofnunar um að orðið þýði bjáni. Það er einatt svo að þegar fólk hefur eyðilagt heilagleikann forna þá breytist það sjálft í bjána og sér bara bjána í kringum sig.
Gapi er því flóknara orð en virðist í fyrstu.
Enn fremur kafa ég dýpra ofaní orðið angur.
Það getur þýtt fjörður eða vík. Broddur, ange, fornenska, minnir á anguis á latínu sem er snákur, dreki.
Gaulverjar og drúíðar voru ekta galdramenn.
Myndir af rúnum og galdrastöfum í nútímanum tel ég líka hæpnar.
Rétt eins og með bókmenntirnar eru búið að þvo burt úr þessu máttinn.
Ef angurgapinn var og er eins máttugur og honum er þarna lýst býst ég við að egypzka táknið ankh sé fyrri hlutinn eða eitthvað áþekkt, en það var egypzkur kross nokkurskonar sem átti að tákna líf. Rúnir og galdrastafir geta þannig annaðhvort magnað eitthvað slíkt eða snúið við.
Gapið er óreiðan í eðli sínu, eða frumtómið.
Mínar rannsóknir hafa verið að útskýra fyrir mér vestræna menningu og hvaðan hún fékk máttinn, eða þessa sögu frá því Rómverjar urðu fyrirmynd Bandaríkjanna og annarra heimsvelda.
Rómverjum tókst að beizla frumkraftana, en nú er komið á þá óreiða vegna eiðrofa, sem Guðjón er meiri sérfræðingur í því hann hefur tilfinningu fyrir gyðinglegu og kabbalísku ritunum sem eiginlega afrituðu þetta orði til orðs með meiri nákvæmni en varðveittist annarsstaðar.
Það er rétt sem Guðjón Hreinberg hefur skrifað um hrun menningarinnar, held ég nokkurnveginn, og siðinn sem er horfinn, sá kristni jafnt sem hinn heiðni.
Angurgapi er eftir því sem ég kemst næst bæði til tjóns og lækninga, eins og svona rúnir og stafir eru svo oft ef rétt er gert.
Þetta með að lesa á hlemminn finnst mér athyglivert.
Þetta er eins og með rúnirnar. Þær var hægt að rista hverjar ofan í aðra til eflingar.
Orðið gap eða gapi er eitt það máttugasta sem við eigum í íslenzkunni. Við sjáum það til dæmis á nútímanum þar sem gapið vex, óreiðan, kaosið.
Orðasifjunum er ég sterkastur í held ég. Angur-gapi er merkilegt galdrayrði þar sem það spennir saman tveimur ólíkum og andstæðum orðum. Angur er skylt slanga og angi, eða höggormur, en slöngur voru bæði tákn fyrir lækningar til forna og svo galdur og vísindi. Það var seinna sem þetta var barið niður, með kristni og slíku.
Angur-gapi er þannig í sjálfu sér galdur í orðinu sjálfu eða spenna, eins og í tvíóðu í rafkerfi. Fyrri hlutinn er tengdur lækningum, slöngum, og skipulagi, þekkingu, seinni hlutinn er tengdur tóminu, chaosinu, gapið.
Ég held að það sé rétt hjá mér að það sé svo tengt rúnunum sem eru á angurgapanum og svo í kringum sem stilla af virknina.
Þessi blíðlynda mynd sem þú sýnir geymir víst einhverja parta, en ekki þetta upprunalega held ég, nema að litlu leyti.
Þessar pælingar hjálpa mér með Esus og rannsóknina á honum.
Ég hef of mikið verið að einbeita mér að goðafræðinni í kringum hann.
Þar sem hann er allavega að hluta til Chaos í eðli sínu, þá þarf að hjálpa fólki að beita honum gegn því Chaosi sem er í pólitíkinni í dag, niðurrifinu og slíku.
En Ginnungagap tengist þessu alveg pottþétt.
Þetta eru mínir uppáhaldspistlar frá ykkur Guðjóni, þegar þið kafið í svona fræði.
Beztu kveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 29.3.2025 kl. 07:49
Þakka þér fyrir innihaldsríka athugasemd Ingólfur, -það er búið að vera áhugavert að fylgjast með Esusar pistlunum þínum og orðsifjunum þeim tengdum, eins og ég hef sagt þér áður.
Þessi athugasemd hjálpar mikið því þú skilgreinir gapið svo vel með því að velta upp óreiðunni sem mér hafði komið til hugar að gera grein fyrir með skopparakringlu samlíkingunni.
Eins kemur þú vel inn á tvíeggja náttúru angurgapans, til góðs og ills, og með það hvernig þarf að lesa lagskiptingu galdrastafa, sem eru kallaðar bandrúnir af þjóðsagnariturum.
Ég held að það sé alveg rétt hjá þér að angurgapinn er ekki síður til góðs en slæms og það sé einmitt þegar þú kannt að lesa þig eftir bandinu eða í gegnum lagskiptinguna sem hún verður nothæf. Eins og kemur reyndar að nokkru fram í þjóðsögunni úr Skagafirði hér að ofan.
Eina myndin sem ég veit til af angurgapa er í Galdraskræðu Skugga. Mín aðferð til að lesa stafina var að teikna þá upp mála á striga og eru myndir sem fylgja þessum bloggum hluti úr stærri myndum.
Ég mun væntanlega birta nokkra galdrastafi úr Galdraskræðu Skugga í viðbót, sem eru í málvekunum mínum. En þessi galdrastafa efrigrennslan fór að mestu fram fyrir 10-15 árum síðan.
Takk kærlega fyrri athugasemdina hún stækkaði skilning minn á angurgapa. Gangi þér vel með bókina, varaðu þig samt á að feta sömu slóð og bókin Keltar, sem lofaði góðu, en fór síðan út um víðan völl í orðsifjunum.
Það sem liggur ljóst fyrir manni sjálfum þarf ekki að vekja skilning eða áhuga annarra og því má nota bloggið til að fá viðbrögð og gagnlegar upplýsingar rétt eins og þessa góðu athugasemd frá þér.
Með bestu kveðju.
Magnús Sigurðsson, 29.3.2025 kl. 08:42
Sjálfur hef ég meiri áhuga á KRAFTAVERKUM Í NAFNI KRISTS
heldur en galdrastöfum:
https://contact.blog.is/blog/vonin/entry/2300862/
Dominus Sanctus., 29.3.2025 kl. 10:01
Það hafa vonandi sem flestir Dominos Sanctus, -svo lengi sem boðskap Krists er notaður til góðs.
Það hefur samt örlað á því af og til að krafti Krists hafi verið beitt á svipaðan hátt og segir í þjóðsögunni úr Skagafirði hér að ofan. Má þá minnast orða Bush yngri þegar hann beitti rangsnúningi og hóf stríð gegn hryðjuverkum, með fororðinu; -sá sem er ekki með oss er á móti oss.
Það má því segja að það sem er til á bókfelli úr kenningu Krists hafi verið notuð á svipaðan hátt og galdrastafir í gegnum tíðina. En það gerir kenningu frelsarans ekkert verri, -aðeins mennina sem rangsnúa henni.
Takk fyrir athugasemdina og viðhaltu áhuganum.
Með bestu kveðju.
Magnús Sigurðsson, 29.3.2025 kl. 10:47
Ungur listanemi endurgerði Galdraskræðu fyrir fáeinum árum. Fallega gert verk, en að mínu mati áfátt með ýmsu móti. Var eitt sinn hætt kominn að endurgera verkið sjálfur, en er ekki viss hvort nokkur geti það.
{https://www.behance.net/gallery/8489955/The-remaking-of-Galdraskraedha#
Bestu kveðjur
Guðjón E. Hreinberg, 29.3.2025 kl. 14:46
Já einmitt Guðjón, -fallega gert verk, og vert.
Ég varð mér út um þá bók, því upprunalega Galdraskræðan er fjölritað handrit sem Skuggi gaf út í 300 eintökum sem jólagjafir til vina sinna 1940, og því ekki einu sinni fáanleg í fornbókabúðum.
Ég hef aldrei séð orginalinn og styðst því við endurútgáfu Lestofunnar frá 2013 með endurgerðum ungra listamanna. Eins og ég sagði við Ingólf þá notaði ég olíumálningu og striga til að lesa mig í gegnum lagskiptingu galdrastafana.
Þannig er hægt að gefa hverju lagi lit og sjá betur í gegnum galdrastafinn. En auðvitað verður honum alltaf áfaátt, því að draga upp galdrastaf er alltaf persónulegur gjörningur huga og handa í vissum tilgangi.
Var eitt sinn hætt kominn að endurgera verkið sjálfur; -segirðu. Þetta vekur mér verulegan áhuga. Áttu einhverja af þessum 300 Jólagjöfum Skugga, eða hefurðu séð þannig frumrit?
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 29.3.2025 kl. 16:43
Sæll Magnús.
Verk Skugga hafa alltaf annað slagið sést í Bokin.is enda eru þar á fleti
m.a. Ari Braga og aðstoðarmaður hans, Eiríkur. Fullyrða má að öllu farsælli verði tapast fundnir í Vesturálfu.
Með ósk um gæfu og gengi.
Guðni Björgólfsson, 29.3.2025 kl. 23:29
Ég átti tvö fjölrit, sem ég man ekki lengur hvernig mér áskotnuðust, og las dálítið í þeim, enda mikill aðdáandi Skugga. Á þessum fjölritum var handritað númer, talsvert hærri tala, og tekið fram að hvert handrit væri handnúmerað af honum sjálfum.
Ég losaði mig við þessi tvö eintöku, því það fylgdi þeim drasl frá fyrri eigendum. En ég kannaði hvernig Skuggi rannsakaði sig í þetta, og er sammála honum í að vinna hefði mátt dýpra verk.
Er hrifinn af litaverkinu sem þú ýjar að, einnig að hugleiðingum varðandi "gap" en vann talsvert í "g***" orðum á sínum tíma þegar ég hafði áhuga á sumu sem ég snerti ekki í dag.
Þá væri áhugavert að skilja rúnalyklana sem Skuggi ræðir t.d. í Brísingameni, en ýjaði einnig að s.s. í Skammir og vafalaust víðar.
Allt verulega áhugavert rannsóknarefni.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 30.3.2025 kl. 02:52
... gleymdi að taka fram, að það er ástæða fyrir að Jochum handgerði handritið, og þeir sem hafa viljað endurvinna verkið, skilja það ekki.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 30.3.2025 kl. 02:54
Þakka þér fyrir ábendingarnar Guðni, -já það má lengi leita og ekki ólíklegt að maður muni finna.
Oft hefur það komið mér á óvart hvað finnst í fornbókaverslunum og ekki síður hverskonar bókmenntir má fá fyrir næstum ekkert á nytjamörkuðum. Oft á tíðum ómetanlegar gersemar.
Oft þá sagnaþættir gefnir út af vanefnum um veröld sem ógerningur væri að fá innsýn í án þess að einhver hefði lagt það á sig að skrifa um það sínum tíma, sem hver maður vissi á þeim tíma, en engum datt í hug að væri eða yrði merkilegt.
Ef það væri ekki fyrir þesskonar bókmenntir þá sætum við uppi með innrætta sögu útgefna af valdhöfum, -rétt eins og opinberlega keyptu Medíu dagsins í dag sem á að koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu en hefur verið uppvís að því breiða út stærstu falsfréttirnar.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 30.3.2025 kl. 07:06
Þakka þér fyrir svarið Guðjón, -var alls ekki sjálfgefið, og það eru upplýsingar í þessu.
Það grefst sennilega enginn fyrir um galdur án þess að hafa orðið fyrir honum, og vissulega er samt eftir sem áður réttast að láta kyrrt liggja.
Hvað varðar teikningar ungu listamannanna, þá er þar um sálarlaus mótív að ræða, gerð eftir teikningum Skugga, -sem er ágætt út af fyrir sig og nær þangað sem það nær.
En eins og ég kom inn á hér að ofan þá er það að draga upp galdrastaf persónulegur gjörningur huga og handa. Og rétt betra að gera það hvorki sér né öðrum til tjóns. Því það hefur afleiðingar.
Ég á kannski eftir að koma betur inn á mína reynslu af galdrastöfum eftir því sem ég birti fleiri, -í hugleiðingum. Virkni þeirra hefur reynst mér til góðs, -ég er kominn það langt upp í afdalinn að ég þarf ekki lengur að flýja.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 30.3.2025 kl. 07:26
Sæll Magnús.
Dæmin þessa er að finna í fornsögunum t.d. Eglu og Fóstbræðrasögu og Grettissögu auk annarra.
A-Evrópa á langtum lengri sögu í þessu tilliti og hefur því miður þjáðst vegna þessa fargans til þessa dags og leitt til að vita, - já,þetta lifir góðu lífi enn í dag.
Guðni Björgólfsson, 30.3.2025 kl. 18:24
Sæll Guðni, -ég hef ekki lesið Fóstbræðrasögu.
Ef ég man rétt þá fór ekki vel fyrir þeim sem varð Gretti að aldurtila þrátt fyrir verðlaunin, því fóstra þess manns beitti galdri.
Sá missti svo höfuðið í Miklagarði þegar bróðir Grettis hefndi. Gott ef slík fordæða var ekki bönnuð á landinu bláa á eftir.
Nei menn skildu ekki beita galdri til ills hvort sem það er í austurvegi eða annarsstaðar. -það kemur í hnakkann á þeim sem það gerir líkt og búmmerang.
Egill var náttúrulega einstakur í sinni röð, kunnáttumaður fram í fingurgóma, eða eins og einn Norðmaður orðaði við mig; -Egil var ingen kriger, han var en poet.
Takk fyrir ábendinguna.
Magnús Sigurðsson, 30.3.2025 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning