Draugafæla – á hvert heimili

Draugstafur; -rist  þennan staf á hríseik eða rauðgreni og munt þú sjá drauginn. Stafur til varnar galdri og koma fyrir afturgöngur.

Fyrst skal ganga þrjú krossspor og síðan taka loga af brennisteini, sem legið hefur í messuvíni og ediki, blönduðu saman til helminga. Skal rjóða því á iljar sér og hendur. Ef draugurinn er sýnilegur, þá er ekki annað en að marka honum hring afsíðis, þar sem ekki er nálægt mannvegi. Logandi brennisteinninn skal vera í öllum hringnum. Er svo draugnum skipað að halda sig innan hringsins, þar til sá tími kemur, sem tiltekin skal vera. Varast skal að segja neinum frá þessu, því þá er tiltækið ónýtt.

IMG_9332 c

Það má segja að mynd með uppskrift af draugfælu þyrfti að vera til á hverju heimili, svona rétt eins og Drottin blessi heimilið myndir voru í mínu ungdæmi. -Og hvers vegna segi ég það ? ? ? , , ,-til áminningar um sjónvarpið og snjalltæknina sem engin virðist ráða við að setja mörk. 

Skoðun mín á Draugatrú er í raun og veru sú, að það, sem við köllum draug, sé hugarfóstur, kraftur, sem maður skapar með einbeittri hugsun í ákveðnu markmiði. Þessi kraftur geti tekið á sig form, og hægt sé að senda hann á ákveðinn stað og halda honum við með sömu hugsun af öðrum mönnum.

Ég hef oft ekki getað varist þeirri hugsun, hvort það væru ekki draugar, sem að mestu stjórna heiminum. Gæti það átt sér stað að slíkar verur gætu tekið sér bústað í svo nefndum leiðtogum, sem yrðu persónugervingar þessara afla.

Gæti það staðist, að á bak við okkar heitu og köldu styrjaldir stæðu verur, sem við hefðum magnað sjálfir og ætlað öðrum, en líkur sækir líkan heim. 

Það er staðreynd, að við eigum bæði segulþráð og sjónvarp. - Væri það þá fjarri sanni, að hin ósýnilega tilvera ætti í fórum sínum hliðstæð tæki?

Þessa skoðun á draugatrú setti Halldór Pétursson fram upp úr miðri síðustu öld, -fyrir daga íslensks sjónvarps og allrar snjalltækni. Halldór er sennilega eini Íslendingurinn sem hefur skrifað og fengna útgefna, -ævisögu draugs.

 

Heimildir:

Galdraskræða Skugga

Ævisaga Eyjasels Móra


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ef "dragafælan" getur komið þessari ríkisstjórnarnefnu fyrir kattarnef, þá er ég meira en tilbúinn til að prófa hana, þó ekki væri nema fyrir það.......

Jóhann Elíasson, 5.4.2025 kl. 10:00

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég veit ekki hvernig hún virkar á ríkisstjórnir Jóhann, -draugurinn á bak við þær er í stjórnsýlunni.

Þetta blessaða leikaralið stjórnsýslunnar skrifar ekki einu sinni undir lengur að mér skilst.

En hún gæti virkað á boðskapinn frá þessu liði, og á eftir líður okkur eins og við séum í sumarfríi.

Magnús Sigurðsson, 5.4.2025 kl. 10:41

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Djúpt efni og vel hugsað.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 5.4.2025 kl. 13:38

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já Guðjón,-þessi hugleiðing Halldóra Péturssonar er djúpahugsuð með tilliti til áreitis dagsins í dag þó hún sé  meira en sex áratuga gömul.

Galdur með sínum draugagangi hefur sjaldan verið eins ágengur og í dag, í gegnum það sem við köllum fjölmiðla og snjalltækni, heldur okkur uppteknum og upplýstum frá sekúndu til sekúndu, rétt eins og draugnum í galdrastafnum.

Það eru samt fæstir sem vilja heyra gamla djúphugsaða speki um draugagang, -hvað þá guðs orð og sunnudagamessur.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 5.4.2025 kl. 16:11

5 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Svolengi sem messuvínið helst óbrjálað má allt annað sjálfu sér yfir hoppa og svo mætti hafa Halldór í huga þar sem hann segir: "Hver sem trúir á draug, sér draug".

Guðni Björgólfsson, 5.4.2025 kl. 18:19

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er nú einmitt málið Guðni, hver sem trúir á draug sér draug, á meðan aðrir sjá það helst í stöðunni að bjarga heiminum með stríðsæsingum.

Þess vegna er svo mikilvægt að halda messuvíninu óbrjáluðu með því að blanda það alls ekki meira en til helminga með ediki.

Marka draugnum hring úr logandi brennisteini svo sjá megi hvaðan stríðsæsingarnar eru ættaðar.

Það er best gert í dag með því að slökkva á snjall-væddri síbyljunni, svona eitthvað svipað og þegar við fórum í sumarfrí og sunnudagsmessur upp úr miðri síðustu öld.

Magnús Sigurðsson, 5.4.2025 kl. 19:30

7 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sammála hverju orði - þú veist að áhugi minn vaknaði fyrir fáeinum misserum á hamskiptum og hamhlaupum og að slíkt var eins og fjarlægt úr vitund okar "nútímafólks."

Þessi færsla er djúp[vitur] og maður þarf að geyma og endurlesa, það eru örpúnktar í henni sem hreyfa við slitrum sem sýna sig ekki í einni svipan.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 5.4.2025 kl. 20:11

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Man eftir þessu með hamskiptin, Guðjón, -það er margt í okkar tungumáli sem minnir á þau s.s. einhamur, hamrammur,hamhleypa og óhemja ofl ofl.

Þó svo að málvísindadeild ríkisins sveipi hamaskipta merkinguna óreiðu. s.s. að óhemja sé orð yfir magn eða mikið af einhverju, þá er þetta enn í þjóðsögunum.

Við eigum ennþá vættasögurnar,álfasögurnar, draugasögurnar og hamskiptasögurnar. Ég held að Völsungasaga sé vel til þess fallinn að átta sig á hamskiptum.

Þar er sagt frá því þegar Sigmundur og Sinfjötli lágu úti sem varúlfar í Rúmeníu, af dvergnum Andvara og fossbúanum Otri bróður Fáfnis og Regins.

Það sem meira er að í þeirri sögu er sagt frá einum frægasta galdrastafnum, Ægishjálmi sem nota bene var í fjársjóði Fáfnis.

Ég varð allavega margs vísari á Völsungasögu þó svo að ég hafi aldrei lesið eða séð Hollywood útgáfu Tolkines. 

Enda held ég að það eigi það sama við Völsungasögu og Sturlungasögu, -maður verður að lláta sig hafa það að lesa originalinn með allri ættfræðinni ætli maður að ná til botns.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 5.4.2025 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband