23.4.2025 | 16:25
Lagarfljótsormurinn og Hringur
Þegar dagarnir voru hvað dimmastir í vetur hafði blaðamaður samband við mig út af Lagarfljótsorminum. Hann spurði mig hvort ég og félagi minn værum tilbúnir til að segja opinberlega frá tilveru hans, en honum hafði verið sagt að fáir vissu betur hvernig hann hefði orðið til á kaupfélagsveggnum.
Mig grunaði strax að hann hefði heyrt úti í bæ, að við félagarnir hefðum sagt að ekki væri allt með felldu í 100 ára sögu Kaupfélags Héraðsbúa, -og þar með orminn á kaupfélagsveggnum. Félagi minn hefur sagt að flest í þeirri bók sé lygi.
Það kom til þegar ég spurði hann á kaffistofunni á okkar vinnustað hvers vegna engin mynd væri af honum í 100 ára afmælisbók Kaupfélags Héraðsbúa, -manns sem unnið hefði hjá kaupfélaginu frá 12 ára aldri fram undir fimmtugt, eða allt þar til að það fór á hausinn í hinu svokallaða hruni.
Kaupfélag Héraðsbúa fór reyndar ekki í gjaldþrot, svo því sé haldið til haga, rekstur þess var yfirtekin af Samkaup og N1. Það þótti smekklegra að láta sem svo að kaupfélagið hefði verið lagt niður á 100 ára afmælinu, -sett ofaní í skúffu sem á engan samastað lengur.
Félagi minn sagði að honum hefði ekki komið til hugar að láta þá sem með lygina fóru hafa myndir og sagðist hafa harðbannað þeim að birta myndir af sér í þessu afmælisriti sem kom út eftir öll ósköpin sem gengu yfir Ísland.
Ég tók undir með honum að ekki væri allt rétt í bókinni. Þó að mætti greina mig á mynd, væri hvergi á mig minnst, ekki einu sinni varðandi orminn hans Hrings. Þó gerð væru skil á í bókinni hvaða pollar að því grjótkasti komu, mig minnti það vera aðrir pollar og ef ekki væri um misminni að ræða þá væri sá kafli allavega ekki alveg sannleikanum samkvæmur.
Þannig að einn morgunninn i svartasta skammdeginu hafði ég afmælisritið með mér í vinnuna og lagði á kaffistofuborðið fyrir framan félaga minn. Hann sagði: -Hvað á ég eð gera við þetta, ég hef einu sinni opnað þessa bók því mér var gefin hún svo ég kunni ekki við annað, en það breytir ekki því að þar sem ég opnaði hana var logið svo ég lokaði henni og ætla ekki opna aftur.
Ég sagði honum að nú gæfist okkur tækifæri á að leiðrétta smá villu, hvort hann væri ekki til í það að koma með mér til rannsóknablaðamanns. Eftir að hafa sagt honum um hvað málið snérist sagði hann að það kæmi ekki til greina því hann hefði ekki komið nálægt þessum Lagarfljótsormi.
Nú hverjir voru það þá; -hváði ég. - það varst þú og bróðir bakarans sem mulduð í hann gjótið; -sagði félagi minn. - Hvað hét hann; -spurði ég illa þjáður af elliglöpum, -mig minnti að það hefði verið sonur bakarans. - Nei; -sagði félagi minn, -það var bróðir hans hann var bara svo miklu yngri en bakarinn að það héldu margir að hann væri sonur hans.
- Og hvað hét hann; -þráspurði ég alveg blankur á milli eyrnanna. - Hann hét ábyggilega það sama og frændi þinn í Ástralíu. - Helgi. - Já heitir hann Helgi, nei veistu ég man bara ekki hvað hann hét, en hann kom hingað austur eitt sumar úr Reykjavík og fékk vinnu eins og margir aðrir pollar hjá Völundi í trésmiðju kaupfélagsins.
Ég hafði svo samband við Hrólf Gunnlaugsson kolleika minn í steypunni, sem er fyrir löngu hættur að steypa, og spurði hann hvort hann myndi eitthvað eftir orminum hans Hrings á kaupfélagsveggnum. Því mig minnti að við hefðum einhvertíma talað um þetta kolleikarnir með Braga heitnum Guðjónssyni. Hvort það gæti verið að Bragi hafi múrað orminn upp á kaupfélagsvegginn með Hring. -Nei það var ég; -sagði Hrólfur.
Með þetta fór ég til blaðamanns Austurgluggans og útkoman fór út um þúfur eins vænta mátti og má sjá hér.
Annars set ég þetta hér inn í tilefni sumardagsins fyrsta, til minningar um bræðurna frá Haga í Aðaldal, þá Hring og Völund Jóhannessyni, sannkallaða vormenn Íslands síðustu aldar, sem víluðu ekki fyrir sér að taka með sér pottorma til stórvirkja þó þeir væru varla vaxnir upp úr grjótkastinu.
Um leið óska ég lesendum gleðilegs sumars.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning