1.5.2025 | 05:38
Ægishjámur
Fjón þvæ ég af mér fjanda minna, rán og reyði ríkra manna.
Ægishjálmur er örugg vörn við reiði höfðingja eins formálinn hér að ofan hermir. Stafurinn hefur mikla virkni.
Í Völsunga sögu kemur fram að ægishjálmurinn var í fjársjóði Fáfnis, -drekans sem Sigurður drap. Fjársjóðurinn varð Sigurði Fáfnisbana ekki til gæfu, en með Sigurði og Svanhildi dóttur hans hefði ætt Völsunga liðið undir lok, ef ekki væri fyrir laundóttir Sigurðar og Brynhildar, -konunnar sem Sigurður sveik.
Völsunga saga er besta heimildin um ægishjálm og hefur sagan verið nafnabrunnur á Íslandi í gegnum tíðina. Enda er sagt að Íslendingar séu flestir komnir út af Sigurði Fáfnisbana í gegnum Áslaugu kráku dóttur Brynhildar og Sigurðar.
Aragrúi algengra nafna kemur fram í sögunni t.d. Atli, Helgi, Högni, Heimir, Gunnar, Guttormur, Sigmundur, Áslaug, Bera, Brynhildur, Grímhildur, Guðrún, Guðný, Hjördís, Svanhildur ofl ofl.
Svo mikið hefur verið sagt um ægishjálm hér á þessari síðu á undanförnum árum að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta bæta enn í.
-En virka galdrastafir á við ægishjálm nútímanum? Já það get ég vottað, ægishjálmur virkar þegar skerpa skal það sem skiptir máli við að losna undan fjandskap auðræðisins, -má samantekt um það sjá hér.
Heimildir:
Galdraskræða Skugga
Völsunga saga
Ps. Undanfarið hef ég birt nokkra galdrastafi úr Galdraskræðu Skugga. Þessa stafi teiknaði ég eftir forskrift þeirrar bókar og málaði. Kona, sem má sjálfsagt segja að sé fjölfróð, -ráðlagði mér að mála ægishjálm til að upplifa virkni hans betur. Það gerði ég fyrir 13 árum síðan um leið og ég aflaði mér upplýsinga um stafinn. Síðar málaði ég fleiri galdrastafi og hef ég birt hluta úr þeim málverkum með hverju bloggi um galdrastafi að undanförnu, -þ.e.a.s. sjálfan stafinn.
Athugasemdir
Þetta er áhrifaríkt.
... og áhugavert.
Guðjón E. Hreinberg, 1.5.2025 kl. 12:40
Eitt sinn sagði Terence McKenna, "there are bold shamans and there are old shamans, but there are no old bold shamans."
Ég glotti, því sumir "young bold and talented" hafa komist yfir skriður og kletta dulfræðistranda ... en þetta var samt rétt hjá honum ... því "old bold and scarred" myndu ekki kenna ímyslegt.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 1.5.2025 kl. 13:26
sorrý - ýmislegt -
Guðjón E. Hreinberg, 1.5.2025 kl. 13:26
Takk fyrir Guðjón, -ekkert að fyrirverða sig fyrir ypsílonið.
Þessi galdrastafur leynir á sér, -þó svo ótrúlegt sé er hann stærsta sýnilega tákn Vatíkansins.
Bestu kveðjur, -og tak fyrir lesturinn.
Magnús Sigurðsson, 1.5.2025 kl. 13:44
Mér þykir leitt að ég er lengi að taka við mér að koma með athugasemd við þetta sem ég vissulega hef mikinn áhuga á. En þetta er sennilega frægasti galdrastafurinn svo maður verður eiginlega kjaftstopp af virðingu. Hvað er meira hægt að segja eða bæta við þessa skýru lýsingu og síðan snjallar athugasemdir?
Já ég er nokkuð viss um að treysta má á áhrifin. Þessi galdrastafur er vissulega mikilvægur í nútímanum. Við lifum á gróðahyggjutímum. Ægir var sjávarguð. Ætli nafnið þýði að hann veiti vernd eins og hjálp gagnvart valdi auðræðis?
Magnús, pistlarnir þínir eru einstaklega góð viðbót við flóruna hérna og enginn nema þú ert fær um þessi efnistök.
Jæja, hafðu það gott í fríinu sem þú lýstir í athugasemd við pistil Guðjóns sem ég las líka.
En maður saknar einnig sterku pistlanna þinna um pólitíkina. Kjarnyrtari gerast þeir varla.
Beztu kveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 10.5.2025 kl. 06:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.