8.6.2025 | 05:23
Gervigreindur guð á Hvítasunnu
Þarf að beina bænum til guðs? -nú Þegar gervigreindar sviðsmyndir poppa upp úr spálíkani mennskunnar með alla snjalla möguleika. -Þarf ekki bara að velja?
-Eða er gervigreindin kannski blekking? -Já, gervigreindi snjallheimurinn er ein allsherjar blekking. En þannig er sannleikurinn samt oftast sagður. Orð eru til alls fyrst, í upphafi var orðið, -eða þannig.
Blekking þýðir ekki endilega að eitthvað sé fræði- eða siðferðilega rangt, heldur að eitthvað komi sem vitneskja inn í vitundina án raunverulegrar skynjunar, -án innsýnar, upplifunar og reynslu.
Gervigreindi sannleikurinn er á sama báti og trúarbrögðin, -þegar trúað er á brögð án þess að upplifa boðskap þeirra á eigin skinni, -án notkunar í eigin hugar- og reynsluheimi.
Til að vera heill þarf allan skala tilverunnar, -heilaga þrenningu. Faðirinn-skapara tilverunnar, soninn-frelsara kærleikans, og heilagan anda-gleðina til góðra verka. -Greind sem sem kemst í framkvæmd frá hug og hjarta.
Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það því að Guðs ríki er innra með yður. (Lúkasarguðspjall 17.20-21)
Samkvæmt þessum orðum guðspjallsins á Hvítasunnu er guðsríki hvorki fjarlægt né gervigreint. -Guð er þrí-einn og býr í einum og sama manninum.
Athugasemdir
GUð ALMÁTTUGUR hlýtur alltaf að vera utan allra kerfa
eins og skipulagðra trúarbragða og gervigreinda í tölvum,
þó svo að hann kannski setji sig í beint samband við fólk á jörðinni,
sem að gæti höndlað slíka nærveru,
og væri tilbúið að taka á móti nýjum BOÐSKAP frá GUÐI sjálfum.
Besta dæmið um slíka tengiliði gætu verið
Móses, Búdda, Kristur og kannski fleiri sem að sjaldan er minnst á.
----------------------------------------------------------------------------
Í tilefni af HVÍTASUNNUDEGINUM sem að er í dag:
Gæti HEILAGUR ANDI birst fólki í nútímanum
með einhverjum hætti?
https://contact.blog.is/blog/vonin/category/2293/
Dominus Sanctus., 8.6.2025 kl. 07:53
Gefur okkur að HEILAGUR ANDI setti sig í samband við einhvern
góðan mann hér á jörðu og myndi gefa honum einhvern NÝJAN BOÐSKAP;
og maðurinn fengi síðan það verkefni
að koma þeim BOÐSKAP áleiðis
til allra jarðarbúa.
Myndi einhver trúa manni sem að segðist
hafa fengið ný SKILABOÐ frá GUÐI SJÁLFUM?
(Þó svo að skilaboðin væru sönn?):
Dominus Sanctus., 8.6.2025 kl. 08:15
Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdirnar Dominus, -margir leita með bæn.
Myndi einhver trúa manni sem að segðist hafa fengið ný SKILABOÐ frá GUÐI SJÁLFUM?
þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Ég held ég verði að vísa í guðspjallið og að hver verði að svara fyrir sig sjálfan sjáfum sér.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 8.6.2025 kl. 12:26
Gleðilega Hvítasunnuhátíð!
Margir eru gerviguðirnir sem við höfum trúað á. En aðeins er til einn lifandi Guð og einn frelsari, sem er ekta.
Hátíð er um heim allan í dag. En þó hlýtur fögnuðurinn að vera fullkomnastur í Jerúsalem og Ísrael, borginni og landinu sem er upphaf og endir alls.
Guð valdi Abraham, Ísak og Jakob til að vera hliðverðir við hliðið Himinsins, við hið Gullna hlið Jerúsalemborgar.
Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. Hver er þessi konungur dýrðarinnar? Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan. (Sálmur 24:7-8).
Melkísedek var konungur í Salem (Jerúsalem), prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann snéri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum.(Hebr. 7:1).
Þjóðirnar hata, að nú er Ísrael aftur komið að hliðvörslunni í Jerúsalem, sem þýðir að nú á síðustu tímum fyllist Himininn af fólki Guðs. Þess vegna á Ísrael nú í stríði á sjö vígstöðum. Árásir á landið hófust, 7. október 2023 frá Gaza. Fljótlega bættust fleiri árásaraðilar við: Líbanon, Sýrland, Vesturbakkinn, Írak, Jemen og Íran.
Fyrir 2000 árum biðu lærisveinar Jesú í Jerúsalem, við Gullna hliðið, eftir stofndegi Kirkjunnar, eins og Jesús hafði boðið þeim. Guð hafði heitið þeim að Heilagur Andi Hans myndi formlega stofnsetja Kirkju sína í Jerúsalem og það gekk eftir á Hvítasunnudag:
Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir Heilögum Anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og Andinn gaf þeim að mæla. (Post. 2:2-4).
Guðmundur Örn Ragnarsson, 8.6.2025 kl. 14:23
Takk fyrir innlitið og athugasemdina Guðmundur Örn, -og óskir um gleðilega Hvítasunnu.
Ég minnist reyndar ekki að sérstaklega sé minnst á í Nýja-testamentinu, -að t.d. Nethanyahu og Trump veldu vígstöðuna við að verja Gullna hliðið.
Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki. (Matth 5:20)
Því má öruggt telja að rétt sé að varast það að vígvæða fagnaðarerindið, -hvað þá friðarboðskap frelsarans.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 8.6.2025 kl. 15:34
"Þarf að beina bænum til guðs?"
Ef að þú Magnús, gætir nú spurt hann "GUÐ" einnar spurningar
hvaða spurning yrði það?
Dominus Sanctus., 8.6.2025 kl. 17:32
Mér finnst þetta skrýtin spurning Dominus, -og get ekki tengt við hana, prófaða að spyrja gervigreindina.
Magnús Sigurðsson, 8.6.2025 kl. 21:18
Gleðilega hátíð. Ingvar frændi hefði orðið 111 ára í dag. Hann reyndi að sameina heiðinn og kristinn sið. Hann var friðsemdarmaður. Konan hans var spíritisti og rammkristin, en hann var Nýalssinni og bar einnig djúpa virðingu fyrir því góða í kristninni, en hafði eins mikla óbeit á því vonda eins og birtist í mannkynssögunni, þjáningum og misskiptingu og stríðum.
Mér fannst hann ekki hræsnari. Því miður eru bara umbúðirnar eftir af kirkjunni, nema hjá manni eins og Guðmundi Erni sem er hreinskilinn og heldur sér í það upprunalega, eins og amma boðaði þetta og prestarnir þá.
Mér finnst mikil þversögn í afstöðu sumra til spíritisma og andlegra mála, þegar Postulasagan geymir það sem virðist spíritismi, að þeir fyllast af framandi anda, en síðan er Gamla testamentið notað til að fordæma að hafa samband við framliðna. Það sem er vinsælla á okkar tímum en spíritismi, það er húðflúrið, og það er fordæmt í Gamla testamentinu á sama stað, við hliðina á spíritismanum. Spíritisminn gefur þó áhugaverð svör sem hægt er að deila um, en hann er gjöfull, líkamsskraut er aðeins 100% uppreisn gegn Guði, á ekki rétt á sér.
Þannig að maður þarf að velja og hafna úr Biblíunni.
En Ingvar frændi var stórmerkilegur maður. Reyndar man ég að Heiða frænka, konan hans, var líka ekki hrifin af mörgu í Gamla testamentinu og kallaði Jahve stríðsguð, en Jesús Kristur, hann var dýrkaður af henni.
Bara að minna á að við eigum að heiðra okkar látna fólk og alla sem eru góðar fyrirmyndir, standa uppúr.
Ingólfur Sigurðsson, 8.6.2025 kl. 21:52
Takk fyrir innlitið og athugasemdina Ingólfur, -hún er innihaldsrík og gefandi eftir þinni von og vísu.
Benedikt Gíslason kemur inn á svipað viðhorf gagnvart trúarbrögðum landnámsmanna og Ingvar frændi þinn og Heiða frænka þín, að þeir hafi margir verið það sem mætti kalla heið-kristnir. Rómarkristnin sem sagan byggir á er kannski önnur Ella, og þegar íslandssagan er krufin þá má greina að sú kristni var alþjóðlega pólitísk.
Biblían er stundum kölluð bók bókanna og ég er á því að í henni megi allt finna sem endurspeglar sannleikann. Munurinn á Gamla- og Nýja-testamentinu finnst mér vera lögmálin "tönn fyrir tönn, auga fyrir auga" VS "eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera".
Já ég tek undir með þér við eigum að heiðra þau okkar sem á undan hafa gengið veginn til góðs. Opinbera mankynssagan sér hvort því er um hina.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 8.6.2025 kl. 22:27
Sæll Magnús.
Hver/Hvor er að tala hverju sinni í þessum þríhöfda þursi?
Nær er að aðhyllast einingarkirkjuna þá hina sömu og Matthías Jochumsson.
Bestu kveðjur,
Guðni Björgólfsson, 9.6.2025 kl. 18:21
Takk fyrir innlitið og athugasemdina Guðni, -þríhöfða þursið samkvæmt þessum pistli myndi vísast vera ég sjálfur ógervigreindur á góðum degi.
Mér þykir vænt um að hafa fengið þetta margar og fjölbreyttar athugasemdir við þennan pistil, -átti satt að segja ekki von á því.
Hvað þá að fá allt í senn strembnar spurningar, tilvitnaða tilsögn og sögu. En það er einmitt athugasemdirnar sem gefa blogginu greind og gildi.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 9.6.2025 kl. 19:15
Góðir punktar - langar að bæta við úr ensku útgáfu Fagnaðarerindis Tómsar:
"
Saying 113: The Kingdom is Already Present
His disciples said to him, "When will the kingdom come?"
"It won't come by looking for it. They won't say, 'Look over here!' or 'Look over there!' Rather, the Father's kingdom is already spread out over the earth, and people don't see it."
"
{https://www.gospels.net/thomas
Eins og Rabbíni nokkur sagði eitt sinn, atvikið við fjallið helga er hafið yfir tíma og rúm.
Bestu kveðjur
Guðjón E. Hreinberg, 11.6.2025 kl. 22:36
Æi - afsakið - gleymdi hvernig kerfið fer með úrfellingararmerkin.
"It wont come by looking for it. They won-t say, Look over here!; or ;Look over there-; Rather, the Divine State is already spread out over the earth, and people don-t see it."
Guðjón E. Hreinberg, 11.6.2025 kl. 22:38
Takk fyrir þessa ábendingu Guðjón, -hún undirstrikar.
Atvikið við fjallið er svo sannarlega yfir rúmi og tíma, -þó flestir loki augunum fyrir því að þaðan eru þau tímanna tákn tilkomin sem stjórna mönnum her á jörð.
Þetta liggur ljóst fyrir flestu barninu við fæðingu en vitneskjan tapast þegar fáviskufabrikkurnar byrja að innprenta hagvöxtinn, þar til við vitum ekki til hvers við komum.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 12.6.2025 kl. 05:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.