Darraðar dans

Fuglinn Fönix reyndist svo eftir allt saman engin friðardúfa. Hann er bara stríðshaukur af gömlu gerðinni, sem nú þegar hefur unnið sér það helst til frægðar að gera innrás í gullna ríkið, auk þess að láta verja með vopnavaldi gullna hliðið í samstarfi við sjálfskipaða.

Já það hefur verið átakanlegt að horfa upp á það allt sitt líf hvernig gamlir skarfar verða vígvélinni að bráð, farandi um láð og lög á lyginni og enda svo sem saxaðir gaukar. Ekki það að maður byggist við miklu af þeim appelsínugullna, en maður leifði sér um stund að vona.

Forynjur hafa nú verið upp vaktar, -og valkyrjurnar okkar lofa að sögueyjan mæti til leiks. Nú skal börnunum landsins bláa ekki bara fórnað í móðurkviði heldur í raunheimum á woketímum.

Og lítið annað eftir fyrir firrta þjóð en fara með bænirnar sínar eins og hvert annað útburðarvæl.

 

Vítt er orpið

fyrir valfalli

rifs reiðiský,

rignir blóði.

Nú er fyrir geirum

grár upp kominn

vefr verþjóðar

er þær vinur fylla

rauðum vefti

Randvés bana.

 

Sjá er orpinn vefr

ýta þörmum

og harðkléaðr

höfðum manna.

Eru dreyrrekin

dörr að sköftum,

járnvarðr yllir

en örum hrælaðr.

Skulum slá sverðum

sigrvef þenna.

 

Gengr Hildr vefa

og Hjörþrimul,

Sanngríðr, Svipul

sverðum tognum.

Skaft mun gnesta,

skjöldr mun bresta,

mun hjálmgagar

í hlíf koma.

 

Vindum, vindum

vef darraðar,

þann er ungr konungr

átti fyrri.

Fram skulum ganga

og í fólk vaða

þar er vinir vorir

vopnum skipta.

 

Vindum, vindum

vef darraðar

og siklingi

síðan fylgjum.

Þar sjá bragna

blóðgar randir

Gunnr og Göndul

er grami hlífðu.

 

Vindum, vindum

vef darraðar

þar er vé vaða

vígra manna.

Látum eigi

líf hans farast,

eiga valkyrjur

vals um kosti.

 

Þeir munu lýðir

löndum ráða

er útskaga

áðr um byggðu.

Kveð eg ríkum gram

ráðinn dauða.

Nú er fyrir oddum

jarlmaðr hniginn.

 

Og munu Írar

angr um bíða,

það er aldrei

mun ýtum fyrnast.

Nú er vefr ofinn,

en völlr roðinn,

munu um lönd fara

læspjöll gota.

 

Nú er ógurlegt

um að litast

er dreyrug ský

dregr með himni.

Mun loft litað

lýða blóði

er sóknvarðar

syngja kunnu.

 

Vel kváðum vér

um konung ungan

sigrhljóða fjöld,

syngjum heilar.

En hinn nemi,

er heyrir á

geirfljóða hljóð,

og gumum segi.

 

Ríðum hestum

hart út berum

brugðnum sverðum

á braut heðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er mjög þjóðlegt kvæði og með þrumandi undirgný stríðsins - á vel við, og tilefnið hörmulegt. 

Hér eru þær valkyrjurnar einmitt uppvaktar sem uppvakningar sem hinar af nýrri tegundinni kenna sig við og hreykjast af!

Styðja þær stríðin hvar sem þau eru og sinna lítt eða ekki að fordæma þau og reyna að stöðva.

Var haft á orði í fréttatíma að Netayahu hefði skynjað minnkandi andstöðu gegn stríðshyggju sinni erlendis og því látið kné fylgja kviði og herjað á fleiri forna féndur með þessum afleiðingum. Og Pútín heldur áfram.

Eitthvað minntist Ómar Geirsson á kerlingar (í andanum, sem við öll getum verið) í pistli nýlega, og mér fannst ýmislegt býsna gott í þeim pistli þótt ekki væri ég þar sammála öllu, fann ekki beint orðin til að taka undir pistilinn allan, skynjaði þó að sitthvað var rétt í honum, svo sleppti að koma með athugasemd. En hann Ómar er öflugur hér á blogginu líka, alltof margir missa kjark og dug, eða heilsu og líf.

Já, svona gerir maður stríðum skil, með orðfæri fyrri tíma, þegar þau þóttu sjálfsögð og ekki gagnrýnd.

Já, þetta er það sem valkyrjur eru frægastar fyrir. Nafnið hæfir þessum tímum.

Ingólfur Sigurðsson, 15.6.2025 kl. 20:25

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já Ingólfur þessi magnaði kveðskapur kallast Darraðarljóð og má rekja til Brjánsbardaga við Dublin á föstudaginn langa árið 1014. Við könnumst betur við orðatiltækið Darraðardans.

Frá þessum atburðum er sagt undir lok Njálssögu og ljóðið varðveitt þar. Sagt hefur verið að þetta hafi verið í síðasta sinn sem Íslendingar tóku þátt í styrjöld á erlendri grund og þar hafi rofnað öll forn tengsl á milli Íslendinga og Íra.

Eins og þú bendir á þá má heimfæra þetta ljóð til dagsins í dag. -Stríð hafa ekki bætt neitt hvorki fyrr né síðar.

Magnús Sigurðsson, 15.6.2025 kl. 21:11

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

"Ég kem ekki aftur nema þið breytið vopnunum í landbúnaðartæki." --Sússi

Guðjón E. Hreinberg, 16.6.2025 kl. 15:06

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hann mun koma á sólarupprásinni og dæma lifendur og dauða, -svo kannski ekki svo galið þetta með landbúnaðar verkfærin, og mættu þess vegna fylgja múrskeiðar með, -ekki mun veita af ef Gaza er orðið viðmið.

Magnús Sigurðsson, 16.6.2025 kl. 17:13

5 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Stuttu fyrr ofangreindu ljóði er þetta:

Kári stóðst þetta eigi. Hljóp hann þá inn með brugðnu sverði og kvað vísu þessa:

Hrósa hildar fúsir,

hvað hafa til fregið skatnar

hve, ráfáka, rákum?

rennendr Njáls brennu.

Varðat veiti-Njörðum

víðeims að það síðan,

hrátt gat hrafn að slíta

hold, slælega goldið.

Þá hljóp hann innar eftir höllinni og hjó á hálsinn Gunnari Lambasyni og svo snart að höfuðið fauk.

Bestu kveðjur,

Guðni Björgólfsson, 16.6.2025 kl. 22:04

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðni, -og gleðilega þjóðhátíð.

Ja geðslegt er það - eða hitt þó heldur. Kári gefur valkyrjunum í Darraðar dansinum lítið eftir í þessu ljóði.

Af því við erum komnir í ljóðheima á þessum nótum, þá er kannski rétt að minnast blessaðra barnanna.

Svona kvað Einar Benediktsson í ljóði um Davíð konung;

Hvað skín yfir sofandi barnsins brá,

hvað birta oss draumar, sýn og spá

um líf allra stjörnulanda?

Mun jarðskólinn storkna við reglu og rit,

þar raunheimur skerðir sitt eigið vit?

- Vér finnum aðeins sem fjarlægan þyt

af flugtökum hærri anda.

Ljóð er það eina sem lifir alt;

hitt líður og týnist þúsundfalt

uns Hel á vorn heim að svæfa.

Orð eru dýr, þessi andans fræ,

útsáin, dreifð fyrir himnablæ,

sem fljóta á gleymskunnar sökkvisæ,

um sólaldir jarðneskra æfa.

- Kannski ætti Bíbí að hugsa til sálmanna hans Davíðs landa síns, -geðslegri arfleið, eða þannig.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 17.6.2025 kl. 05:39

7 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Gleðilega þjóðhátíð!

Þakka svarið.

Margur hefur sótt sér vizku í sálmana, - veit ekki hvort Bìbí er þeirrar gerðar að leita sér vits.

Bestu kveðjur.

Guðni Björgólfsson, 17.6.2025 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband