7.7.2025 | 06:18
Japl, jaml og fuður
Það hafa einkennilegar fréttir borist af ógæfufólkinu við Austurvöll undanfarin ár og nú telur það sig hafa fullt umboð til að rétta ríkinu þjóðareign, -ekki bara arfinn af rétti landsmanna til að framfleyta sér í landinu bláa. Það er svo sem ekki alveg nýtt að pótintátar telji sig best til þess fallna að ákveða hvernig skepnan lifir og deyr, en nú skal lengra gengið.
Málþóf hefur staðið um gjaldtöku af svokallaðri auðlindarentu, já hugsa sér annað eins orðskrípi, sem fundið er upp af þeim sem einskis afla og hafa ekki einu sinni geð í sér til að dýfa hendi í kalt vatn, hvað þá míga í saltan sjó.
Nú hafa einhverjar pótintátur eignað sér þjóðareign til að fjármagna stríðsrekstur um fram það sem ekki verður troðið í eigin vasa, -og það í aðdraganda þess að landsmenn fái að borga sérstök afnotagjöld af holunum í þjóðveginum. Sárara er en tárum taki að minnast á heilbrigðiskerfi landsmanna í hinum dreifðu byggðum og almenna biðlista í þessu sambandi.
Og þó svo ekki vanti að fyrrverandi verkalýðsforingjar skreyti þessa ógæfulegu samkomu, kemur ekki eitt orð úr ræðustól um tugþúsunda launahækkanir slektisins umfram almúgann. Þetta er jú að stofninum til sama ógæfufólkið og kom Íslandi fyrir kattarnef í hinu svokallað hruni og kaus annaðhvort að grjóthalda kjafti eða þá krefjast hlýðni á tímum drepsóttarinnar.
Ef einhver heldur að hér sé farið með fleipur þá ætti sá hinn sami að taka saman hvað mikill tími ógæfufólksins hefur farið í að ástunda japl, jaml og fuður við að koma í veg fyrir að fjármunir fari úr landi eyrnamerktir ólyfjan og stríðsrekstri.
Athugasemdir
Reykjavíkurborg lætur ekki sitt eftir liggja í orðagljáfrinu og ætlar að
"undirbúa ráðstafanir vegna hugsanlegra" atvika
Atvikin munu víst ráðast af því hvernig palestínu fánin í ráðhúsinu blaktir
Grímur Kjartansson, 7.7.2025 kl. 07:30
Sæll Grímur, -svokallaðir ráðamenn virðast vera mikið í atvikum þessi árin, t.d. eru dráp á saklausum börnum hiklaust kölluð atvik, án þess að nokkur sem orðræðuna heyrir kippi sér orðið upp við það sérstaklega.
Já það hefur komist í móð að flagga óviðkomandi fánum við íslenskar opinberar stofnanir. -Mín skoðun er sú að þessi ný tilkomni plagsiður sé ósiður hvort sem fáninn er Palestínu eða Úkraínu og var ég fyrir löngu búin að fá ógeð á röndótta glópalnum í þessum stöngum.
Þetta fólk ætti þá að bjóða sig fram fyrir stríðsæsingar með alþjóðlegri þjónkun ef því er þetta svona umhugað, -en það kýs samt að vera meira lókal í framapoti sem það þarf að sækja til þjóðar sinnar.
Það er ekki gæfulegt að sitja uppi með þetta.
Bestu kveðjur samt.
Magnús Sigurðsson, 7.7.2025 kl. 08:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning