Er mótmælandi oss endurborinn?

Það væri tímanna tákn ef mótmælandi Íslands er það sem kallað var af erlendu bergi brotinn. Af er þá, sem áður var, þegar mótmælandi Íslands var borinn og barnfæddur Íslendingur sem sat fyrir alþingismönnum, forseta og biskupi á leið þeirra frá alþingishúsinu til dómkirkjunnar og skvetti á þá skyri.

Þessi nýi mótmælandi hefur brotið blað að því leiti að hafa, auk þess að skvetta málningu á fjölmiðlamann, hugsanlega klifrað yfir svalahandrið alþingis og tjaldað á Austurvelli. Ber sérstaklega að hafa í huga að fjölmiðlar eru nú komnir á ríkisjötuna, rétt eins og stjórnmálaflokkar, og því hluti kerfisins þannig að ekki er frétt nema falsfrétt sé, í það minnsta upplýsingaóreyða.

Þessi nýi mótmælandi Íslands endurborinn uppfyllir þar að auki alla alþjóðlega staðla innleidda af kerfinu, sem hingað til hafa birst okkur gömlu brýnunum sem hluti af áætlun íslenska ríkisins við að skipta um þjóð í landinu, og selja landið aflands auðrónum til afrakstrar. En fjölmiðlar taka þá umræðu ekki of djúpt, svo lengi sem hún er í sátt við kerfið, -frekar en stríðsframlög á fjárlögum.

Fyrrum mótmælandi, sem hlaut nafnbótina Íslands, -hafði auk skyr slettnanna, makað tjöru á stjórnaráðið. Með þessu vildi Helgi heitinn Hóseasson vekja athygli á því að hann væri ekki sáttur við að hafa verið skírður til Kristni þegar hann var ómálga ungabarn. Þessi mótmæli hóf Helgi upp úr 1960, en mótmælti þar að auki stjórnmálum, stríðrekstri og guði almáttugum allt fram í andlátið á þessa öld.

Helgi kannaðast alltaf við gerðir sínar, en um eitt var honum kennt, sem hann gekkst aldrei við, það var að hafa kveikt í gömlu kirkjunni á Heydölum í Breiðdal þar sem hann var gestkomandi hjá séra Kristni Hóseassyni bróður sínum, og má ætla að þar hafi hann farið með rétt mál sé eitthvað að marka ferilskrána þegar upp var staðið.

Það má segja sem svo að fáum hafi tekist betur upp við að þoka þjóðkirkjunni fyrir kattarnef með friðsömum mótmælum en Helga Hóseassyni - Mótmælenda Íslands, -nema ef vera skildu sjálfir forkólfar kirkjunnar.

Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvort þessum nýja, hugsanlega mótmælenda Íslands, verður ágengt við að koma íslenska ríkinu fyrir kattarnef eða hvort kellingar kerfisins sjái alfarið um það sjálfar.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það var rétt hjá Helga heitnum, að fyrst til er helgisiður til að skírast, ætti að vera til afhelgunarsiður ef menn vilja hafna skírninni.

Hið merkilega er að þetta hefur hvergi verið rætt í mannssögunni, nema hérlendis, en ég tók þetta upp í Arkívinu á sínum tíma, og benti á lausn sem hver sem er getur nýtt sér.

Guðjón E. Hreinberg, 25.7.2025 kl. 14:36

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Helgi naut virðingar að endingu fyrir sín einörðu mótmæli, -jafnvel þó hann hefði slett skyri á fyrirmenn, tjargað stjórnarráðið og verið sakaður um að hafa kveikt í kirkju.

Hann var ekki tilbúin til að gera öðrum mein og vildi að aðrir gerðu hið sama, án allrar hræsni. En þetta vildu fæstir sjá í upphafi, og flestir ekki fyrr en hann var orðin gamall maður.

Magnús Sigurðsson, 25.7.2025 kl. 15:11

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Já félagi Magnús. Mér datt í hug samlíking kristinna söfnuða og ESB. Einhver kemu manni þar inn, en svo er fjandinn laus ef menn vilja ganga þaðan út.

Það sannaði Helgi Hóseasson og Bretland.

Benedikt V. Warén, 26.7.2025 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband