3.8.2025 | 07:19
Sumarið okkar
Það vill koma fyrir á leið um mitt nánasta umhverfi, að mér verður hugsað; -mikið rosalega hlýtur að vera leiðinlegt heima hjá þessu liði. Tímatrektir túristar á bílaleigubílum hoknir yfir snjallsímunum, sólþyrstir landar með skuldahalann í eftirdragi og það sem er að aukast, -umkomulausir flækingar með aleiguna í poka eða pappakassa.
Samkvæmt Hagstofunni eru mestar líkur á að ættfærðir Íslendingar verði í minnihluta á Íslandi eftir 20-30 ár. Þetta er reyndar ekki rétt reiknað, svo er orðið nú þegar, -því sem næst hvern einasta dag ársins. Gististaðir, þjóðvegir og innviðir landsins bláa hafa verið yfirteknir af landráðaliðinu sem hagnast hvað mest á massatúrisma og flækingum.
Við Matthildur mín höfum það reglulega á orði hve heppin við séum að búa með börnin og barnabörnin í grennd, annars væri hætt við að við vissum varla í hvaða landi við værum stödd, -og því er sennilegasta ástæðan fyrir pirringnum skortur landsins bláa á gistingu fyrir gamla settið á vitrænu verði, örtröð á blæðandi þjóðvegum og rányrkja innviða.
Við förum nefnilega sjaldnast neitt, og í seinni tíð allra síst í langferð um landið. Þegar ég kom heim úr útlegðinni frá Noregi fyrir rúmum 11 árum ætluðum við að skoða það af landinu sem átti eftir að skoða, -við treystum okkur enn í að skoða allra nánustu grennd, þar sem dagsferð dugar -en mun sennilega hvorki endast tími né einurð til að sýna barnabörnunum þá grennd miðað við túristavaðalinn.
Á sumrin þvælumst við nú orðið mest um á bökkum Fljótsins, upp um afdali og heiðar, -frá upptökum að ósi. Þetta er reyndar að mestu í bakgarðinum og útsýnið okkar út um gluggana sem við notum sumarið í að njóta blíðum í blænum. Síðustu tvö árin höfum við farið lengst í suður á Hvalnes í Lóni, vestur í Möðrudal á Fjöllum, norður á Vopnafjörð og austur í Vöðlavík.
Hvert einasta sumar þessi 11 ár höfum við heimsótt gamlar malargrúsir í 25 mínútna akstursfjarlægð, þar sem Fljótið rennur síðasta spölinn til sjávar. Þangað hefur Jökla í fyrndinni borið svartan sand alla leið frá Brúarjökli. Þar var Matthildur vön að sitja með lopann á tifandi prjónunum á meðan ég gekk í þungum þönkum um malargrúsina, -sparkaði steinum spáandi í steypu.
Svo var það fyrir nokkrum árum að við fórum ásamt fyrsta barnabarninu Ævi og tjölduðum með henni á malarbakkanum. Ævi kallar steypumalargrúsirnar Tjaldastaði og hefur sett þá á sumar dagskrána sína núna í nokkur ár. þar týnum við blóðberg í te, sem við sötrum kvölds og morgna fyrstu dagana á eftir útileguna, -og ég þurrka auðvitað birgðir til að eiga við önuglyndi og krankleika yfir veturinn.
Núna í sumar fór Ævi með Matthildi Helgu, litlu frænku sinni í fyrsta sinn, og Óra bróðir í annað sinn, í Tjaldastaði. Öll fengu þau prjónaðar lopapeysur frá ömmu í útileguna og afi sýndi þeim hvernig átti að kasta steypumalarsteinum í Fljótið. Þarna var deginum varið við að njóta sólarinnar, grjótkast, tína blóðberg og skoða randaflugur.
Fyrir hefur komið að Ævi hefur verið fyrst til að sjá forvitin sel, en selir synda stundum inn ósinn upp í Fljótið til að komast í gott sólbað, en svo var ekki núna. En alltaf má heyra í lóu, spóa og kjóa. Annars hafði Halldór Pétursson frá Geirastöðum, -á hinum bakkanum á móti, -m.a. þetta að segja um svæðið þegar hann var barn fyrir 115 árum síðan.
Fyrst þegar ég man eftir mér á þessu svæði sást þar vart í heiðan himin að vori fyrir fugli. Þarna var krían í milljónatali, auk anda, gæsa, spóa og kjóa, allt niður í óðinshana með sín skemmtilegu hlutverk. Söngurinn var síbylja eða symfónía sem ekki þagnaði nema stundarkorn um lágnætti. Þar gengu menn og dýr, ásamt fuglum á flugi með fullan kvið og fögnuð í sál.
Þegar nær dró sjó blikaði sandurinn, þakinn af trjáviði. Þarna lá selurinn í röðum og naut sólarinnar. Aðrir léku sér á hæstu bárum, stungu sér í kaf en komu von bráðar upp, kóktu á sjónum með höfuðið eitt á lofti. Þar útaf blésu hvalir sjónum hátt á loft, aðrir höfðu dáið drottni sínum og rekið að landi bíðandi þess að einhver hirti þá.
Ég ætla ekki að eiða fleiri orðum í hvernig sumarið okkar hefur verið árum saman við að skoða nánasta umhverfi, því svo oft hef ég bloggað um það, -og má sjá samantekt um svæðið í máli og myndum hér.
Athugasemdir
Þín nánasta grennd er með því alfallegasta svæði á landinu sem ég hef kynnst, þó einungis lítillega sé.
Alltaf dásamlegt að lesa pistla þína um þín nánustu og kærustu svæði meistari Magnús. Skyldar sálir í anda skilja og nema þau gæðaskrif.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.8.2025 kl. 15:54
Þakka þér fyrir höfðinglega athugasemd, -Pétur Örn.
Já það er fleira í grennd en rigningarskúrir, -hún er síbreytileg og oft fallegust birtan í veðrabrigðunum. Ég held að það eigi við flestar grenndar á Íslandi, -þessu einstaka landi sem við vorum svo lánsamir að fæðast í.
Þegar ég bjó við sundin blá þá fannst mér sólin alltaf koma upp öfugu megin við rúmið. Mér var ráðlagt af fyrrum norðlending að láta mig hafa það í tvö ár, og eftir þau myndi ég kunna að meta sólarlagið. Ég ákvað sjálfur að hafa aðlögunina fjögur ár, en gafst upp eftir rúm þrjú. Fór aftur heim, -austur í sólarupprásina.
Það breytir samt ekki því að bestu stundirnar við sundin blá voru í grennd. Þar voru ófáir fjölskyldubíltúrarnir eknir zik zak um hrjóstu Reykjanessins með Matthildi mína börn og kött, -í þessari miklu náttúruparadís landvættanna, -bara til að horfa á hafið og dást af kríum, hrauni og skreiðarhjöllum.
Sama átti við Noreg þar var ég í einstakri grennd, með Lofoten, Vesteralen og Senja svo að segja við útidyrnar og naut náttúrunnar í botn. En það breytti ekki því að ég fór heim á landið bláa, austur í sólarupprásina í efra og neðra, -um leið og aðstæður leifðu.
Á meðan ég var þar bað norskur vinnufélagi minn mig um ráðleggingu vegna Íslandsferðar. Þau hjónakornin hugsuðu sér að fara hringinn, um hálendið og Vestfirðina. Ég sagði fjórar vikur lágmark. – Hva! -þetta eru nú bara 1200 km hringur það tekur varla nema tvo daga að keyra það, -sagði hann.
Ég gafst á endanum upp, en ráðlagði þeim eftir að þau höfðu ákveðið viku ferðalag, -í hringinn og 2-3 daga í grennd við sundin blá, -að nota þrjá daga í Suðurland og Austfirði, gista á Höfn og í Mývatnssveit og brenna svo í bæinn, -því eftir Mývatnsveit væri væri umhverfið keimlíkt.
Þegar þau komu aftur til Noregs skammaði hann mig fyrir að segja sér ekki rétt til, -Norður- og Vesturlandið væri ekkert síður fallegt. - Ég spurði hafðirðu einhvern tíma? -Nei! -engan tíma það er alltof stuttur tími að ætla að sjá það sem er við hringveginn á einni viku, -sagði hann, -hvað þá sundin blá og grennd.
Já mér finnst stundum túristarnir glepjast á hvað flugfarið er ódýrt og kílómetrarnir fáir, og ekki hafa nokkra hugmynd um hvað á að gera við svona undraland annað en taka selfí.
Við sálufélagarnir vitum báðir hvað það er dýrmætt að búa í grennd, -hvort sem það er austur á landi, norður í Skagafirði, við sundin blá eða í Noregi.
Bestu kveðjur, -og vonandi hefurðu átt ánægjulegan tíma í minni grennd.
Magnús Sigurðsson, 3.8.2025 kl. 19:41
Takk Magnús, bæði fyrir pistil og athugasemd.
Grenndin er seint of mikils metin, en ég lærði líka snemma að meta sjóndeildarhringinn, fæ aldrei nóg af honum.
Finnst hann einfaldlega styrkja ræturnar og grenndina.
Finnst alltaf að sá sem ekki hefur séð brimið lemja á svarta sandi Vaðlavíkurinnar, eða upplifað hrjúfa norðaustanáttina leita inn með Nípunni, sjálfur staddur út við Páskahelli, hafi ekki upplifað allt sem skiptir máli.
Og ég hygg að þeir sem þekkja grenndina hafi margar slíkar sögur að segja.
Slík er dásemdin að við erum ekki öll með sömu augun, þó kannski símarnir séu að breyta því.
Með kveðju úr sólinni að neðan úr firðinum mínum fagra.
Ómar Geirsson, 4.8.2025 kl. 17:08
Ljúfur pistill, vissulega. Það er of mikið stress í okkar samfélagi. Maður hleður sjálfan sig með útiveru.
Þessvegna er ég líka á móti þéttingu byggðar. Þó eru margir til sem skilja mikilvægi grænna svæða í þéttbýli. Þegar ég var lítill vorum við börnin að leika okkur í brekkunni hjá afa og ömmu, víðáttan svo gríðarleg. Það var áður en Smáralindin reis og öll þessi hverfi sem áður voru móar og tún.
Nú talar enginn um þessar frábæru skíðabrekkur sem töpuðust, eða bláberjalyngið og fleira sem fór undir byggðina.
Síðan eru feluleikir í hólum miklu skemmtilegri en í borg. Þá kemur eldra fólk og segir álfasögur og sem barn trúir maður þeim og umhverfið lifnar við.
Já svona ljúfir pistlar eru hollir og góðir eins og útiveran. Mér finnst leitt að ég er ekki eins mikill örnefnamaður og Ingvar frændi sem reyndi að kenna mér örnefni, benti á fjöll, og tengdi sögulegan fróðleik við landslagið.
Yndislegur pistill, takk fyrir.
Ingólfur Sigurðsson, 4.8.2025 kl. 17:32
Þakka ykkur fyrir ríkulegar athugasemdir, -Ómar og Ingólfur.
Ég held ég geti tekið heilshugar undir það Ómar, -að ör veðrabrigðin eru eitt af því sem gerir landið okkar ómótstæðilegt, þó svo að ég hafi hvorki verið við Páskahelli né Vöðlavík í norð-austan. Að upplifa krafta brimsins kemur adrenalíninu á stað auk þess að fylla mann lotningu fyrir náttúruöflunum. Sem betur fer sjáum við ekki öll dásemdina sömu augum, en nú eru gervigreindir snjallsímarnir farnir að gera það besta úr myndefninu, það þarf víst bara að vera með rétta stillingu.
Þú skalt halda áfram að skrifa pistla um bernskuárin í Digranesinu, Ingólfur, -það skrifar engin betur svona pistla en þú, þeir ýta á svo marga takka og segja sögu sem aðrir eru ekki að segja, -þetta er fáum gefið. Fæstir fatta hvað þetta, sem við trúum að séu framfarir, ryður mikilli náttúru og sögu úr vegi, -fyrr en of seint, -og þá meina ég að skrá minninguna frá fyrstu hendi.
Svona til að halda áfram með flækinga vaðalinn, sem er að stela frá okkur Íslandi, þá kemur mér stundum til hugar að flestir séu komnir til þess eins að sýna sjálfa sig símanum sínum við annarlegar aðstæður, hvorki vegna áhuga fyrir landi né þjóð. -Þó þarf svo alls ekki að vera.
Norskur vinnufélagi minn, sem ekki hefur enn komið til Íslands svo ég viti, sagði mér að systir hans og mágur hefðu selt aleiguna, keypt sér húsbíl og ákveðið að fara í tveggja ára Evrópu og Afríku reisu fyrir allan peninginn á meðan þau væri enn á góðum aldri.
Þau hefðu gert þau regin mistök að byrja á að fara til Íslands, þó svo að það hafi bara átt að vera til að geta sagt að þau hefðu komið þangað í Evrópu. Svo hefði farið að þau hefðu verið á Íslandi í á annað ár.
Hann sagði að systir sín segði svo lygilegar sögur af fegurð, veðrabrigðum og náttúruöflun Íslands að hann tryði ekki einu orði. Ég sagði honum að Ísland væri kannski ekki ljúft eins og Noregur því Ísland væri töff.
Vinnufélagi minn sagði að þau hefðu á endanum rétt komist suður í Frakkland á þessum tveimur árum. Hann taldi að Ísland hefði haft af þeim aleiguna og eyðilagt fyrir þeim ferðalagið.
Já það getur verið rétt betra að halda sig bara í grennd.
Magnús Sigurðsson, 4.8.2025 kl. 20:33
Þurftu þau nokkuð að sjá meira eftir Íslandsdvölina??
En tilefnið er að taka undir orð og hvatningu til félaga Ingólfs, á góðum stundum nær hann að fanga töfra minninganna, gera þær ljóslifandi í hugum lesenda, og vekja þar með upp þeirra eigin.
Sem eru töfrar eins og áður sagði.
Ennþá er það blíðan við undirleik sólarinnar og úr þeirri blíðu kemur kveðjan að neðan.
Ómar Geirsson, 5.8.2025 kl. 07:31
Ég veit ekki hvort þau þurftu að sjá meira eftir Íslandsferðina, Ómar, -en vinnufélaga minn taldi að það hefði verið gáfulegra af þeim að halda sig í grennd.
Ég er ekki frá því að það hafi verið rétt athugað hjá honum. Svona eftir að maður komst til einhvers vits og ára þá, ef hægt er að segja sem svo, -þá hefur maður það á tilfinningunni að það sé engin tilviljun hvar við fæðumst.
Það var tignarlegt að sjá ofan í Seyðisfjörðinn af Baugi Bjólfs í morgunn við undirleik sólarinnar, og gott til þess að vita að enn eru 20 dagar eftir af hundadögunum.
Bestu kveðjur í sólina í neðra.
Magnús Sigurðsson, 5.8.2025 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.