7.8.2025 | 19:36
Baugur Bjólfs
Það er ekki öll steypan eins, sum er skýjum ofar og gæti allt eins talist gjörningur. Fyrir ofan Seyðisfjörð í fjallinu Bjólfi er verið að koma fyrir hringlaga steinsteyptum útsýnispalli sem er 32 m í þvermál.
Þarna fékk ég að styðja mig við stútinn á steypudælunni í dag, -gamli maðurinn, -á meðan ungu mennirnir börðust við steypu sem var að grjót harðna. Baugur Bjólfs er útsýnispallaur í 650 m hæð og mun leikandi rúma 300 manns í einu miðað við flatarmál.
Eftir á að finna út hvernig á að koma öllu þessu fólki á pallinn því hann er því sem næst vegasambandslaus, nema fyrir vel útbúna bíla. Hvort einhverjir aurar verða eftir af þeim mörg hundruð milljónum, sem ætluð eru í herlegheitin, til vegagerðar og snjómoksturs er seinni tíma mál. Enda hver lætur góða hugmynd fara forgörðum vegna smámuna.
Sumir myndu kannski segja að ekki sé öll vitleysan eins, en um verðlauna hugmynd er að ræða samkvæmt vinningstillögu Ástríðar Birnu Árnadóttur og Stefaníu Helgu Pálmarsdóttur frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá Esja Architecture og Arnar Björn Björnsson frá Exa Nordic sem sá um burðarvirkjahönnun.
En eins og við steypukallarnir tönglumst stundum á, þá er bæði ódýrara og auðveldara að teikna og reikna hring á blað, en koma 200 tonnum af steinsteypu hringlaga fyrir hátt upp í snarbrattri fjallshlíð.
Bjólfur var landnámsmaður Seyðisfjarðar, fjallið nefnt eftir honum og hann heygður í fjallshlíðinni við hringinn. Sagan segir svo um hauginn; að Bjólfur hafi mælt fyrir, að eftir sína daga skyldi hann heygður þar sem víðsýni væri hvað best yfir landareign hans og ekki myndu skriður hlaupa á bæinn svo lengi sem haugur hans væri órofinn.
Í nótt svaf ég óvært, hugsaði til Bjólfs, -hvort hann hefði viljað buginn í hauginn. Í morgunnsárið fór ég óvenju blíðlega með bænirnar mínar, enda bæði álagatrúar og lofthræddur. Ekki kom samt til þess að lofthræðslan hrjáði mig því þokan grá var eins og massífur veggur við Baug Bjólfs, þegar fyrsti steypubíllinn mætti.
Þegar dagsverkið var að verða hálfnað fór þokunni að létta, en það kom ekki að sök lofthræðslunnar vegna, því ég var komin með steypu í augun. Og varðandi örlagatrúna þá rann á mig hamremmi.
Ég hélt mig þó áfram við stútinn, nema rétt á milli steypubíla, en þá brá ég mér frá, muldi steypuna úr augunum, og tók þessar myndir af vöskum köppum á Baugi Bjólfs.
Athugasemdir
Glæsilegt að sjá - en hönnunarlistinn virkaði eins og úr nefnd.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 7.8.2025 kl. 23:28
Já, það gæti orðið glæsilegt mannvirki úr þessari góðu hugmynd. Nú er bara að vona að það verði snjólétt, -spurning hvort nefndin hafi reiknað hamfarhlýnun með í myndina.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 8.8.2025 kl. 06:05
Rúmar þrjár vikur sumarið 77 var ég að brjóta steypu í gólfi Hafsíldarbræðslunar, tvo daga sáum við til sólar, Þar sem þoka lá sem hlemmur í fjöllum yfir firðinum alla daginn, Þokan var svo þétt að ekki sást á milli vegstika á Fjarðaheiðavegi, eða eins og maðurinn sagði: maður sá ekki milli augna sér.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 8.8.2025 kl. 09:08
Óhemju skemmtileg færsla (að mínu mati og skilningi), kannski hef ég eitthvað misskilið hana en mér fannst að verið væri að gagnrýna þessa framkvæmd og kannski hafi verið farið af stað meira af kappi en forsjá.......
Jóhann Elíasson, 8.8.2025 kl. 12:11
Satt er það Hallgrímur. -þokan getur verið þrálát, og svo þétt að menn sjá ekki á milli augna sér, svo dimm á háheiðinni að ekki sást til vegstika og þá hafi þurft að þreifa sig eftir vegköntunum.
Sjálfur hef ég komist yfir heiðina keyrandi í blindkófi á lyktinni, en það er spurning hvort slæmt skyggni var bara í grennd þegar þessi verðlaunahugmynd var í nefnd.
Magnús Sigurðsson, 8.8.2025 kl. 13:23
Baugur Bjólfs er frábær hugmynd Jóhann, -það er að segja í góðu skyggni, -óviðjafnanlegt útsýni.
Svo er hitt annað mál, að þokan er ekki alltaf í grennd hún á það til að vera eins og veggur í dögum saman.
Þessi framkvæmd var á dagskrá s.l. sumar en þá var ekki hægt að byrja fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí, þegar snjóa hafði leist í Bjólfinum.
Ágústmánuður var síðan votur í neðra hér eystra eins og þú sjálfsagt manst, þannig að aðeins undirstaðan var steypt, baugnum sjálfum var frestað.
Hvort nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að vegna hamfarahlýnunar væri austfjarðaþokan feig og snjór á hverfandi hveli, -er mér ókunnugt um.
En þess ber að geta að þetta útsýni var kunngert þegar snjóflóðavarnir voru settar í fjallið fyrir nokkrum árum við haug Bjólfs, -og þeirra vegna liggur torfær vegslóði þarna í hliðunum.
Magnús Sigurðsson, 8.8.2025 kl. 13:40
Blessaður Magnús.
Það er ættarfylgja byggðar hinna þröngu fjarða að agnúast, sérstaklega ef einhver skar sig úr, eða varð svo djarfur að gera eitthvað, og þá eitthvað annað en það að veiða fisk og verka.
Auðvita fá menn færustu steypukarla austanlands til að steypa, eitthvað sem heitir mjög svo skortur á vegasamgöngum er ekki eitthvað sem stoppar þá. Takk fyrir upplýsandi myndir. Þvílíkir dugnaðarforkar sem þú vinnur með, og ég veit, að þeir vanmeta ekki reynsluna, þó aldur og gigt dragi úr hreyfanleika.
Auðvita verður lagður þarna vegur, og auðvita kemur meint hamfarahlýnun þessu verkefni ekkert við.
Nóg má skrifa á þá grýlu þó hún hafi ekki étið Austfjarðarþokuna.
Svo ég skýri mál mitt þá hef ég tvisvar gengið á Skúmhött (milli Vaðlavíkur og Norðfjarðarflóa), hæsta fjall við sjávarsíðu Gerpissvæðisins. Í fyrra skiptið sá maður Víkina mína, Sandvíkina, Norðfjarðarflóann, til norðurs glitti í Gletting, til suður sást alla leið á Berunes, jafnvel lengra. Til landsins sást svo Snæfell gnæfa yfir, drottning austfirskra fjalla.
Í seinna skiptið þá gengum við uppúr þokunni, hún var í hlíðum, gaf sig ekki þó veðurfræðingar þess tíma segðu að hún ætti að hypja sig til Færeyja. Þar bjó ég að fyrri sýn, það er ég vissi að það væru fjöll hér og þar sem gnæfðu yfir, þó engin í nærumhverfi, enda staddur á hæsta punkti. Já mig minnir að við höfum verið vel komin yfir 800 metrana þegar þokunni létti, Skúmhöttur er 880 metrar sirka eftir minni, og það sem við sáum var úthaf þoku, og sker eða eyjar sem náðu uppúr þessu úthafi.
Fegurst af öllum var Snæfell.
Þú gleymir ekki svona sjón Magnús, útsýni heiðskýrunnar er fallegt, vissulega, en þegar þokan líður inní firði og hylur þá, þá fær landið annan svip, bæði í þokunni og líkar þegar komið er upp fyrir hana.
Vissulega getur fólk gengið á fjöll, en það er háð aldri og heilsu, svona útsýnispallur gerir fjöldanum kleyft að sjá og njóta þess sem áður hinir útvöldu gátu notið, og ég sé ekkert rangt við það.
Krafan er að menn beri virðingu fyrir náttúrunni, gangi vel um og gangi vel frá.
Sem ég efa ekki að þið steypukarlarnir kunnið og getið, og geri alltaf.
Með kveðju úr lágskýjunum í neðra.
Ómar Geirsson, 8.8.2025 kl. 16:16
Sæll Ómar, -þú ert með þetta, það skiptir nefnilega ekki öllu hvað góð hugmynd kostar eftir að henni hefur verið hrint í framkvæmd, ef vel tekst til, kostnaðurinn vökvar rétta vasa og hún nærir andann.
Þokan er þess eðlis að hún gerir fallegt útsýni guðdómlegt þegar henni léttir, og það er veturinn sem gerir sumarið ómótstæðilegt. Þetta þekkjum við mörlandarnir, því má allt eins líta á gjörning eins og Baug Bjólfs sem þakkargjörð til almættisins auk þess að vera virðingarvottur við söguna.
Og þó veginn vanti þá ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af honum. Við erum allir sérfræðingar í því hvoru megin við hólinn vegurinn á að liggja og þegar það er nú þegar búið að leggja hann í útsýnishring um hólinn þá hljóta allir að geta sammælst um hvert vegurinn á að liggja.
Já þeir eru magnaðir margir tindarnir sem standa upp úr þokunni þó útsýnið niður í þokuna sé grátt og svo þegar henni léttir í brakandi sól og blíðu þá er það fullkomnað efra og neðra. Baugur Bjólfs er í 650 m hæð en á topp Bjólfs eru tæpir 1100 m, hann er s.s. í miðju fjalli.
Fyrir 3 árum upplifði ég topp Bjólfs en þá var verið að setja veðurratsjá á toppinn og auðvitað þurfti steypukalla til þess, en ég verð að segja það alveg eins og er að þó svo að útsýnið af toppnum væri magnað þá toppaði það ekki hughrifin á Baugi Bjólfs.
Eins og þú kemur inn á þá lendum við steypukallarnir stundum á toppinn og man ég eftir þoku og rigningarsumri á Gunnólfsvíkurfjalli, þar sem einn heiðskír sumardagur sló við allri þoku, ísingu og súld. Þann dag sást eftir endilöngu Langanesinu á láglendinu út í hafsauga og til óteljandi fjallatoppa landsins bláa í sindrandi sól.
Eins tók ég þátt í því með þeim Nestaksmönnum að steypa útsýnispall við vitann, sem kannski hefði einhvertíma verið talin til bruðls í Litlu-Moskvu, oft hef ég farið þangað síðan með kunningja til að heyra þá dásama Norðfjarðarflóann og litadýrð Barðsnessins.
Síðast kom ég út að vita með einum steypukallinum í kalda skít og úrhellisrigningu s.l. apríl. Við fylgdumst með þegar sólstafirnir liðu út úr Viðfirðinum og Hellisfirði, og auðvitað magnaði vitinn og pallurinn upplifunina.
Já það er sem ég segi, ef mannvirkið er gert sem þakkargjörð til almættisins þá skiptir kostnaðurinn engu.
Með kyrrum kjörum og kveðju að ofan.
Magnús Sigurðsson, 8.8.2025 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.