23.8.2025 | 05:44
Hamfarahlýnunin og akurinn
Sumarið hefur verið ljúft og hlýtt, minnir helst á sumur bernskunnar þegar alltaf skein sól, þó svo símalínur sándi ekki lengur í golunni við Sáms spangól. Á Héraði má sjá þessa dagana gullna akra bylgjast blíðum í blænum tilbúna til uppskeru strax í ágúst.
Þegar ég lít út um eldhúsglugga blasir við kornakur þar sem gamla flugbrautin var á Egilsstaðanesinu. Undanfarin ár hafa verið kornakrar víða á nesinu en í ár er bara einn stór sem nær yfir 2/3 gamla flugvallarins.
Útsýnið á ágústkvöldi út um eldhúsgluggann
Áhugamál mitt hefur verið að fylgjast með kornökrum þegar það býðst, sem sennilega helgast af því að þeir eru í mínu fyrsta minni úr bernsku. Þó kornakrar hafi verið aðeins 3-4 sumur minnar bernsku, þá eru þeir greyptir í minnið enda fátt myndrænna en kornakur sem bylgjast í blíðum blæ.
Árið 1964 er mér minnistætt því það ár var eilíft sumar og kornakurinn ævintýri. Núna þetta ár 2025 hefur verið það hlýtt að alltaf gátum við steypt og íbúðahús var málað að utan í mars. Kornakrar og byggingar hafa þannig verið minn mælikvarði á hvað er gott veður.
Amma og afi bjuggu í Vallanesi lungann úr 20. öldinni. Þar voru kornakrar þegar fyrst ég man. Árin frá 1965-1970 voru hin svokölluðu hafísár, allt of köld fyrir kornrækt. Það var ekki fyrr en undir aldamótin 2000 sem aftur komu nógu hlý ár til að bændur á Héraði leggðu í kornrækt.
Það má segja að nafni minn og afi hafi verið minn mentor, hann var bóndi fram yfir sextugt og fylgdist því vel með veðri mest alla 20. öldina. Hann sagði mér að besta veðrið á sinni ævi hefðu verið árin 1930 - 1940 og góð ár fram yfir 1960.
Ævintýra akurinn í Vallanesi
Það er ljúft að hafa upplifað nú síðustu áratugina aftur sumur bernskunnar, sem jafnvel minna einna helst á frásagnir afa af blíðviðris sumrum 20. aldarinnar. Dagbókar færsla afa 6. október 1965 var svona: -Fór í Egilsstaði, á mínum bíl í Ketilsstaði, þaðan með Jóni Bergssyni. Fórum til að semja um greiðslu á kornskurðarvél.
Sumarið 1965 var það síðasta sem afi og amma voru með kornakra í Vallanesi, og það liðu yfir 30 ár áður en þeir sáust aftur á Héraði. Þó svo að sumrin hafi oft verið sólrík og ljúf þá voru þau of stutt fyrir kornrækt.
Sumarið í sumar hefur sem sagt verið langt, sólríkt og hlýtt. Kornakurinn á Egilsstaðanesinu fyrir nokkru búin að taka sinn gullna lit, tilbúin til uppskeru. Um síðustu helgi fór ég niður á nes til að dást að akrinum og taka af honum myndir.
Leifi myndunum að tala ásamt ljóðlínum Bubba.
Vorið fæddist til þess að deyja
gefa eitthvað nýtt
Ég heyrði vindinn við kornið segja
sumarið verður hlýtt
Viska þín var viska barnsins
sem flestir hafa misst
þrungin speki öldungsins
sem leit heiminn manna fyrst
Athugasemdir
Takk fyrir þessi fallegu og ljóðrænu skrif og myndirnar. Skemmtilegur samhljómur milli þeirra og textans hans Bubba.
Wilhelm Emilsson, 23.8.2025 kl. 18:33
Takk fyrir innlitið og athugasemdina Wilhelm, -það má segja sem svo að kornakrar séu ekki bara myndrænir heldur ljóðrænir líka, eins og þið Bubbi bendið á.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 23.8.2025 kl. 21:11
Takk fyrir þetta - tilvitnunin í Bubba er úr besta ljóðinu hans, að mínu mati.
https://www.youtube.com/watch?v=H5ndHcqUSAM
Guðjón E. Hreinberg, 24.8.2025 kl. 02:50
Sat einu sinni á korn akri á Írlandi, kornið var í mittishæð - við vorum með picnic körfu með okkur og gerðum okkur reit inni á miðjum akrinum og sátum þar í sólinni og nutum þess að vera í raun alls staðar og hvergi, í sólinni og sumrinu einhversstaðar í alheiminum.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 24.8.2025 kl. 02:51
Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar Guðjón, -þú lýsir ævintýri kornakursins frábærlega með þessari stuttu frásögn, -endalausri víðáttunni á sama stað.
Já og ekki er ljóðið hans Bubba síðara, sem fer afturfyrir upphafið og fram fyrir endinn án allrar röksemdafærslu, -við að lýsa því sem er.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 24.8.2025 kl. 05:50
Ég er sammála Guðjóni, þarna var Bubbi uppá sitt bezta, 1985 á Konuplötunni, sem sumir kalla meðferðarplötuna. Hann var í meðferð útaf dópfíkn þegar hann gerði hana.
Myndirnar þínar eru frábærar eins og áður. Ég hef séð eftir þig málverk líka og kann vel að meta þau einnig. Það þarf svipaða hæfileika og við myndatöku, litaskynjun og svo formskynjun og að koma þessu í rétt form.
Ég skil alveg hvað þú átt við, að hlýnun og jafnvel hamfarahlýnun virðist blessun ennþá hér á Íslandi. Ég hef einmitt velt því fyrir mér að spámaðurinn dr. Helgi Pjeturss sem er í uppáhaldi hjá mér hélt því fram að það myndi hlýna á Íslandi. Það gekk eftir, en hann notaði aldrei orðið hamfarahlýnun og skrifaði aldrei um að sú hlýnun yrði neikvæð. Því vekja slíkir spádómar spurningar um rétt og rangt eins og titill þessa ljúfa pistils gerir líka. Er hamfarahlýnun bara neikvæð eða bara fyrst jákvæð sumsstaðar?
Já kornakrar eru sérstakt fyrirbæri og dýrmætt. Hugleiðum ákveðna þversögn. Núna hafa suðrænar jurtir fest rætur hér á Íslandi og sumar með tæknilegum aðferðum bænda. Ýmsir lifa á þeim. Þó er ríkisstjórnin án Framsóknar og skilningur takmarkaður á mikilvægi landabúnaðar og bænda hjá stjórninni. Það er þversögn.
Já vel er hér skrifað og fallega um náttúru og bændastéttina. Það er mjög gott.
Ingólfur Sigurðsson, 24.8.2025 kl. 17:50
Þakka þér fyrir athugasemdina Ingólfur, -ánægjulegt þegar svona blogg fær innhaldsríkar athugasemdir, því maður býst ekki við miklu þegar maður setur þetta í loftið.
Hamfarhlýnunin var kannski meira til að poppa upp fyrirsögnina, -en samt, það hefur veri hlýrra á Íslandi en þessi árin.
Mér finnst þú koma vel inn þversögnina með landbúnaðinn, ekki bara það að kornrækt er ill möguleg hér á landi, heldur virðist ekki ver hægt að mala korn hér á landi lengur frekar en þegar maðkaða mjölið var á boðstólum einokunarverslunarinnar.
Tek undir með ykkur öllum hvað þennan texta Bubba varðar, enda fáir sem koma betur frá sér náttúrustemmingum í dægurlagatexta - Himininn brotnar í ljóðum andartaki áður en nýr dagur kemur með póstinum, -eða þannig.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 24.8.2025 kl. 19:44
Ég ætla hér að lauma að þér skilaboðum sem þó varða fremur aðra og eldri færslu frá þér um Jaðar og byggingarnar þar.
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2272239/
Þannig vill nefnilega til að nú er hægt að lesa hjá mér á Héraðsskjalasafni Austfirðinga III. bindið af æviminningum Sr. Magnúsar Blöndal Jónssonar. Ég fékk uppskrift af handritinu frá afkomendum, en með því skilyrði að ég mætti ekki dreifa því heldur aðeins varðveita í einu eintaki og til aflestrar á safninu.
Svo ef þú hefur hug á að lesa meira um byggingarnar á Jaðri þá er hægt að koma við á safninu og lesa það hér. Það var rétt til getið hjá þér að þarna eru talsverðar lýsingar á framkvæmdum.
Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 25.8.2025 kl. 17:17
Kærar þakkir fyrir upplýsingarnar Stefán Bogi.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 25.8.2025 kl. 18:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.