23.8.2025 | 05:44
Hamfarahlýnunin og akurinn
Sumarið hefur verið ljúft og hlýtt, minnir helst á sumur bernskunnar þegar alltaf skein sól, þó svo símalínur sándi ekki lengur í golunni við Sáms spangól. Á Héraði má sjá þessa dagana gullna akra bylgjast blíðum í blænum tilbúna til uppskeru strax í ágúst.
Þegar ég lít út um eldhúsglugga blasir við kornakur þar sem gamla flugbrautin var á Egilsstaðanesinu. Undanfarin ár hafa verið kornakrar víða á nesinu en í ár er bara einn stór sem nær yfir 2/3 gamla flugvallarins.
Útsýnið á ágústkvöldi út um eldhúsgluggann
Áhugamál mitt hefur verið að fylgjast með kornökrum þegar það býðst, sem sennilega helgast af því að þeir eru í mínu fyrsta minni úr bernsku. Þó kornakrar hafi verið aðeins 3-4 sumur minnar bernsku, þá er þeir greyptir í minnið enda fátt myndrænna en kornakur sem bylgjast í blíðum blæ.
Árið 1964 er mér minnistætt því það ár var eilíft sumar og kornakurinn ævintýri. Núna þetta ár 2025 hefur verið það hlýtt að alltaf gátum við steypt og íbúðahús var málað að utan í mars. Kornakrar og byggingar hafa þannig verið minn mælikvarði á hvað er gott veður.
Amma og afi bjuggu í Vallanesi lungann úr 20. öldinni. Þar voru kornakrar þegar fyrst ég man. Árin frá 1965-1970 voru hin svokölluðu hafísár, allt of köld fyrir kornrækt. Það var ekki fyrr en undir aldamótin 2000 sem aftur komu nógu hlý ár til að bændur á Héraði leggðu í kornrækt.
Það má segja að nafni minn og afi hafi verið minn mentor, hann var bóndi fram yfir sextugt og fylgdist því vel með veðri mest alla 20. öldina. Hann sagði mér að besta veðrið á sinni ævi hefðu verið árin 1930 - 1940 og góð ár fram yfir 1960.
Ævintýra akurinn í Vallanesi
Það er ljúft að hafa upplifað nú síðustu áratugina aftur sumur bernskunnar, sem jafnvel minna einna helst á frásagnir afa af blíðviðris sumrum 20. aldarinnar. Dagbókar færsla afa 6. október 1965 var svona: -Fór í Egilsstaði, á mínum bíl í Ketilsstaði, þaðan með Jóni Bergssyni. Fórum til að semja um greiðslu á kornskurðarvél.
Sumarið 1965 var það síðasta sem afi og amma voru með kornakra í Vallanesi, og það liðu yfir 30 ár áður en þeir sáust aftur á Héraði. Þó svo að sumrin hafi oft verið sólrík og ljúf þá voru þau of stutt fyrir kornrækt.
Sumarið í sumar hefur sem sagt verið langt, sólríkt og hlýtt. Kornakurinn á Egilsstaðanesinu fyrir nokkru búin að taka sinn gullna lit, tilbúin til uppskeru. Um síðustu helgi fór ég niður á nes til að dást að akrinum og taka af honum myndir.
Leifi myndunum að tala ásamt ljóðlínum Bubba.
Vorið fæddist til þess að deyja
gefa eitthvað nýtt
Ég heyrði vindinn við kornið segja
sumarið verður hlýtt
Viska þín var viska barnsins
sem flestir hafa misst
þrungin speki öldungsins
sem leit heiminn manna fyrst
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning