Héðan og þaðan, þangað þarna

Hvað ungur nemur, gamall temur, stendur einhversstaðar, en það skyldi hafa hugfast að gömlu brýnunum verður ekkert ágengt nema þeim yngri sé gefinn gaumur, -hlustað eftir því hvað liggur á hjarta.

Ég átti áhugavert samtal við ungan mann sem var hér á ferð fyrir skemmstu. Hann er nýlega kominn út á vinnumarkaðinn í starf hjá einni fremstu fjármálastofnun landsins.

Eins og þessi ungi maður á ættir til þá er hann óragur við að láta álit sitt í ljós. Talar kjarnyrta íslensku og kann að halda mörgum boltum á lofti í samræðum.

Þó svo flestir væru ánægðir með vel launað starf hjá traustu fyrirtæki hugnast honum ekki hópsálin á vinnustaðnum.

Hann sá starf auglýst hjá einu af frægu íslensku nýsköpunarfyrirtækjum, sem stutt er síðan að var sprotafyrirtæki á styrkjum, -gott ef frumkvöðlarnir hafa ekki fengið fálkann hjá forsetanum.

Hann sem sagt sótti um, enda auglýst eftir manni eins og honum, sagðist hafa vandað sig, yfirfarið umsóknina fram eftir kvöldi og sent hana inn rétt fyrir miðnætti. -Viti menn hann hafði fengið svar morgunninn eftir áður en hann vaknaði til vinnu.

Svarið var að honum væri hafnað. Hann varð hugsi og ákvað að hringja í nýsköpunarfyrirtækið og spurði konu, sem svaraði fyrir atvinnuumsóknirnar, hvort að það hefði verið unnin næturvinna við að fara yfir umsóknina hans.

Nei hún sagði að það hefði ekki verið unnin næturvinnu, heldur væri það gervigreindin sem sæi um svarið. Hann maldaði í móinn, og sagðist finnast það skrýtið ef fyrirtæki auglýsti eftir akkúrat hans menntuðu sérþekkingu að þá væri gervigreind látin svara.

Konan lofaði að athuga málið, hafði svo samband við hann skömmu seinna og hvatti hann til að sækja um aftur, -þá á ensku en ekki íslensku.

Hún lét hann hafa það sem gervigreindin hafði um íslensku umsóknina hans að segja, sem var torræður texti, fullt af myllumerkjum og torkennilegum táknum.

Ungi maðurinn sótti svo um aftur á ensku, -og viti menn hann var strax boðaður í atvinnuviðtal.

-Mér varð á að hugsa, -já það er þangað þarna sem við erum komin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

--exodus--

--öryggis/griðar gettó--

--eitt ríki, tvö kerfi--

: nóg er af landi ...

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 26.8.2025 kl. 19:16

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það má segja sem svo Guðjón, -að komin sé tími á tveggja kerfa lausn, að öðrum kosti aukast bara líkur á tveggja ríkja kerfi.

Annars hef ég alltaf verið hrifnastur af þjóðveldi upp á gamla mátann, með öllum sínum hreppum og héraðsþingum.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 26.8.2025 kl. 19:59

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þjóðveldið reis á ný, 2013, með Lögmætum hætti, að fornum sið. Þing þess voru opinber þar til í ársbyrjun 2019, að ákveðið var að læðast hljótt með dalalæðum.

Það eru tvö ríki á landinu núna, munurinn á þeim er þessi. Hið fjölmennara heldur að það sé hið eina, og þeir sem tilheyra því skilja það ekki. Hið síðara lætur sér fátt um hitt finnast, og borgarar þess vita hverjir þeir eru, og hvað er þeirra. --nyttland.is

Svo einfalt er það, að Fjallkonan sjálf ýttessu af stað sumarið 2012.

Ég heyri stundum í öðrum, hér og þar, aðallega á Netinu, sem bera Þjóðveldið í brjósti sér, sumir þeirra vita að það var endurreist, aðrir ekki, en það skiptir engu.

Hugmynd hvers tími er kominn, verður hvorki fönguð né stöðvuð, og hún á sinn tímgunartíma.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 27.8.2025 kl. 00:32

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa upplýsingu, -hvet lesendur þessarar síðu til að líta inn á - www.nyttland.is

Það eru kannski ekki allir sem átta sig á því að allt frá 10. ártug síðustu aldar hefur verið lagt ofurkapp á að útríma síðustu leifum gamla Þjóðveldisins, -hreppunum, -kallað sameining sveitarfélaga.

Sameining er fallegt orð, en ef grannt er skoðað held ég að flest sveitarfélög (gömlu hrepparnir) sem í þessari hakkavél lentu séu ekki svipur hjá sjón.

Íbúar stórra landsvæða því sem næst áhrifalausir um sitt nánasta umhverfi miðað við hvað áður var, ef ekki horfnir af sorry speak english öræfunum.

Hreppur hefur verið til frá víkingatímanum og var félagsmálastofnun nærsamfélagsins.

Nú er allt kapp lagt á að gervigreindarvæða miðstýrðar heilbrigðis og félagsmálastofnanir. Hvert skyldi gervigreindin svo leiða?

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 27.8.2025 kl. 05:47

5 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

"Héðanfrá og hingað!eins og Jutzin frá Savojen var vanur að segja.

Guðni Björgólfsson, 27.8.2025 kl. 14:28

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessaður Guðni, -hún er um margt misjöfn málvenjan. 

Það er sagt að framfrá tali þeir um að fara handanyfir og yfirum.

Spurning hversu mörg myllumerki gervigreindin á yfir þesskonar málfar.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 27.8.2025 kl. 16:26

7 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Magnús, þú spyrð hvert gervigreindin leiðir. Ég á bók sem svarar þessu, hún heitir "Roswell, leyndin rofin eftir fimmtíu ár". Hún kom út 1997 á Íslandi í 100 ljósrituðum eintökum, í Þýðingu Einars Þorsteinssonar, seld í Betra lífi Kringlunni. Ég á eitt eintak, það stendur að bannað sé að ljósrita á réttindasíðunni, en hægt er að kaupa bókina á frummálinu, á ensku.

Philip Corso, höfundurinn, dó ári eftir að bókin kom út í Bandaríkjunum. Sumir myndu tala um samsæri, að hann hafi verið drepinn, ég veit það ekki.

Annað sem er grunsamlegt og skrýtið.

Búið er að fjarlægja wikipediasíðuna um Philip Corso. Búið er að breyta wikipediasíðunni um bókina, "The Day After Roswell", og búið að troða þar inn að þetta séu falsfréttir. Þannig var þetta ekki fyrir örfáum árum, sem sýnir vaxandi helstefnu í heiminum eins og margir taka eftir.

Gervigreindin stefnir að því að gera okkur að vélmennum. Segja má að 50% af því sé búið að gerast. Það sést bezt á því að frjáls hugsun er 70% horfin hjá almenningi, og heilsan líkamlega sömuleiðis, enda fjölmargir búnir að týna lífi sem hefðu átt að lifa lengur, tek undir Covid-19 samsærin með það.

Útlitið er ekki bjart. 

Tjáningarfrelsi og annarskonar frelsi er á mjög hröðu undanhaldi hér á Vesturlöndum. Auðvitað er það vegna þess að demókratar föttuðu ógnina með Trump sem forseta tvisvar.

Ég vil síður særa trú kristinna manna, en það er mín skoðun að Jahve, guð Biblíunnar standi á bakvið gervigreindina eins og annað. Það gæti þó verið rangt. Ég hef gaman af að lesa pistlana eftir Guðjón Hreinberg, hans niðurstöður aðrar en hjá mér, en sumt samt ekki alveg ólíkt.

Ingólfur Sigurðsson, 27.8.2025 kl. 19:19

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir svarið Ingólfur, -gervigreindin hefur nú þegar leitt okkur á þann stað sem hefur mátt sjá í sumum bloggum.

Fullorðið fólk birtir, sem bloggpistla, heilu samtölin við gervigreindarmenni eins og heilagan sannleika. Þorir ekki lengur að standa á eigin sannfæringu án gervigreindar.

Við hinir eigum það til að gúggla til að fá sannfæringu okkar staðfesta, eða líta í wikibedia og vitum samt að þar stendur ekki lengur það sem þar stóð í gær. youtube og facebokk felur eða jafnvel eyðir efni sem er ekki gervigreindinni þóknanlegt.

En við eigum alltaf möguleikann á að gera það sama og ungi maðurinn, sem bloggið fjallar um, -finna aðra mannlega veru og spyrja þeirrar einföldu spurningar hvort eitthvað sé eðlilegt við þessa gervigreindu afgreiðslur. 

Takk fyrir efnismikla athugasemd.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 27.8.2025 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband