1.9.2025 | 05:17
Nýungar í byggingabransanum
Nú er verið að siga app Mafíum verkfræðistofanna á húsbyggendur, rétt eins og hverri annarri gjaldtöku bílastæða a la ISAVIA, sem er orðin frekar hvimleið á beit í köntunum, við blæðandi þjóðveginn. Reyndar fylgir Sorpu sálfræðin með, sem bland í poka, -svona í kaupbæti.
Í dag bættist við nýtt ákvæði í byggingareglugerð, -lífsferilsgreining. Með áherslu á svo kölluð gróðurhúsaáhrif (GWP, Global Warming Potential), mæld í kg CO2-ígildum, sem íslensku heittrúarklerkarnir hafa uppnefnt kolefnisspor. Til aukinnar skilvirkni er boðið upp á útreikningaglundur í appi.
Síminn var glóandi um tíma í 34. viku þegar þeir sem höfðu uppi byggingaáform freistuðu þess í örvæntingu að ná sér um byggingaleyfi áður en ósköpin skyllu á, -vantaði ábyrgðayfirlýsingu byggingameistara til að höndla byggingaleyfi fyrir 1. september.
Þessu verkfræðiundri kolefniskirkjunnar er ætlaða að reikna út kolefnisspor byggingarefna og -aðferða, frá upphafi til enda, -já meðan búið er í húsnæðinu, eins þegar því er fargað. Þeir sem vilja kynna sér spekina á bak við kolefnissporstrúarbrögðin geta lesið sér til hér
Sérkennilegt hvernig kellingavædd fáviskufabrikkan raðar sér við jötuna og er ævinlega tilbúin til að níðast á fólki sem glímir við að hafa þak yfir höfuðið.
Þessari reglugerðabreytingu var ætlað að koma inn að fullu núna 1. september, en eitthvað hik virðist hafa komið upp á síðustu stundu, alla vega hvað íbúðahúsnæði varðar.
Hvað lengi þetta hik með íbúðahúsnæði varir er ekki gott í að spá, kannski hefur fáráðurinn í seðlabankanum gefið út hugleiðingar um verðbólguvæntingar og vexti út árið, -hver veit.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 06:11 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Magnús.
Eftirfarandi lýsing þín - án vandræða gæsalappa, er frábær og gildir um svo margt hér á landi.
Sérkennilegt hvernig kellingavædd fáviskufabrikkan raðar sér við jötuna og er ævinlega tilbúin til að níðast á fólki sem glímir við að hafa þak yfir höfuðið.
Jónatan Karlsson, 1.9.2025 kl. 08:26
Blessaður Jónatan, -já þetta má til sanns vegar færa og er sérkennilegt.
Því ekki fer það fólk sem gefur sig út fyrir að sinna svona skítverkum varhluta af hækkun byggingakostnaðar frekar en aðrir, en sennilega telur það sig betur sett við að hafa atvinnu af óskapnaðinum.
Fyrir ekki nema svona ca. 25 árum síðan þá hefði ekki nokkrum heilvita manni komið til hugar að nota svona vúddúvísindi til að snúa aura út úr fólki sem var að koma sér upp þaki yfir höfuðið, -nóg var nú samt fyrir.
Takk fyrir athugasemdina og bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 1.9.2025 kl. 16:24
Og ég hélt að sturlunin hefði náð hámarki!
Kolefniskirkjan: Bwahahaha.
Guðjón E. Hreinberg, 2.9.2025 kl. 21:05
Þetta með vúdúvísindin er staðreynd. Innfluttir verkamenn fengnir til að reisa skóla sem eru rifnir 5 árum seinna vegna myglu! Síðan er 90 ára smiður á Selfossi sem reisti hús sem aldrei finnst mygla í! Segir ýmislegt um ruglið og vitleysuna sem eru í gangi.
Erlendar reglugerðir og framfarir? ESB fullkomnun?
Reyndar ætti að leggja niður sveitastjórnir og bæjarfélögin. Þess í stað ætti að finna leiðir til að styðja fólk af sömu tegund og Jón afi var, sem er tilbúið að strita og leggja á sig mikla vinnu til að reisa sjálft hús með lánum.
Það er búið að regluvæða og kommúnistavæða í klessu.
Sameining sveitafélaga er ekki lausnin. Frekar niðurfelling þeirra.
Annars er ég umhverfisverndarsinni, en þegi um það að sinni. Þau mál eru notuð sem afsökun fyrir reglurugli og kommavæðingu til óbóta.
Ástandið á húsnæðismarkaðnum er ástæða fyrir fólk að búa til nýjan flokk, langt til hægri við Sjálfstæðisflokkinn, og gefa honum 40% fylgi.
Margt gott hér í þessum pistli.
Ingólfur Sigurðsson, 3.9.2025 kl. 02:44
Lengi getur von versnað, -og þegar reglugerðafabrikkan er farin að líta á Global Warming Potential sem tekjulind, þá erum við komin á sama stað og þegar transandi Alexandería ætlaði að hálkuverja og moka snjó af götum Reykjavíkur með því að nota app.
Varðandi sameiningu sveitarfélaga þá er hún svo glórulaus að varla er hægt að minnast á þau ósköp ógrátandi, -hvernig fólk hefur gefið frá sér að geta haft áhrif á sitt nánasta umhverfi.
Hreppar voru litlar stjórnsýslueiningar þar sem kjörnir fulltrúar unnu fyrir sitt nærsamfélag í sjálfboðavinnu, en höfðu í gegnum þá vinnu meiri möguleika en meðal Jón til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi.
Í hreppum þar sem fóru fram hlutbundnar kosningar gat sá sem var búin að fá nóg af sjálfboðavinnu skorast undan kosningu eftir að hafa setið tvö kjörtímabil.
Hrepparnir voru við lýði frá víkingatímanum fram undir lok 20. aldarinnar. Allt kapp hefur verið lagt á að koma þeim fyrir kattarnef, rétt eins og lífsreynslunni.
Árangurinn blasir við myglaður í rjúkandi kolefnispori sem einni helstu tekjulind fáviskufabrikkunnar.
Magnús Sigurðsson, 3.9.2025 kl. 05:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.