17.9.2025 | 05:53
Dagar íslenskrar ónáttúru
Nú hefur rignt hvern dag í á fjórðu viku í fjórðungi sólarinnar. Það var svo sem búið að spá þessu af þeim sem lengra vita en nefið nær. Ég notaði meir að segja votviðrisspá Héraðsbónda til að píska vinnufélagana áfram eftir að ég fékk hana upp úr honum snemma í ágúst. Engin veit sína ævina hvorki í heyskap né steypu, -eða þannig.
Það getur allt eins stytt upp með stórhríð og ísbjörnum þegar hann liggur lengi aust-norð-austan úr öllum áttum. Svona veður er ekki bara vafasamt fyrir flata steypu, sem hundar kettir og ísbirnir mega ekki stíga í áður en hún harðanar, heldur getur skapið orðið dumbungslegra eftir því sem dagarnir líða.
Ég hef lítið farið út í síðsumarið upp á síðkastið nema til að steypa í uppstyttum. Það hefur ekki einu sinni verið hægt að bögglast um í berjamó í þessum votviðris vosbúðar fjanda sem verið hefur. Því hef ég varið tímanum í að horfa út um gluggann á rigninguna og dumbunginn.
Nú hef ég komist að því að máríerlurnar verða félagslyndar í rigningu. Líkar betur múslíið á svölunum, sem ég sáldra á svalahandriðið til að hafa þær fyrir framan stofugluggann, þó svo að þær skimi áfram eftir flugum. Hef samt ekki enn komist að því hvort máríerlum leiðist beinlínis rigning. Býst við að áhorfinu á máríerlurnar ljúki núna um haustjafndægrin, en þá eru þær vanar að taka flugið til Afríku.
Sjálfur er ég löngu kominn á síðasta snúning í steypunni. Skakklappast um skældur og gigtveikur, eins og kviðrifin rolla fram um miðjan dag. Kem mér síðan heim og læt strákana um slétta steypuna með stæl. Þeir eiga það til að fara á gæsa- og hreindýraveiðar á milli steypubíla og gefa upp aflatölur í kaffitímum. Rigningin truflar þá ekki við þá iðju eins og mig í berjamónum, -þar væri það þá freka þokan.
Í kaffitímum er ég helst í essinu mínu þessa dagana. Tala um níðingsverk sem ekki nokkur maður ætti að grobba sig af ógrátandi. þeir eigi eftir að sjá eftir þessar iðju þegar á ævina líður. Að hafa drepið næstum ófleyga unga, sem skriðu hnarreistir úr eggjunum í sumar með eftirvæntingu um að komast út í heiminn, og það til þess eins að hafa verið drepnir í þúsundatali, -til að rífa úr þeim bringurnar.
Þetta sé ekki veiðiskapur, segi ég; -hvað þá gæsaveiðar, heldur gæsabringu-ungaveiðar. Svona veiðiskapur hafi verið talin til níðingsverka í mínu ungdæmi og ekki nokkur heilvita maður hefði viljað láta svona spyrjast til sín. Svo hafi þeir ekki einu sinni lyst á bringunni sjálfir, reyni að selja veitingahúsum níðingsverkið sem villibráð.
Þá spyr sá sem eldri er en strákarnir, en ekki eins gamall og ég, - hvernig var það nú aftur með þig Maggi minn þegar þú varst ungur og hringormanefndin var og hét, það hefur varla sést útselur við landi síðan. Já láttu mig þekkja það, -segi ég, og þykist enn betur vita hvað sé í veði þegar sálarheill á efri árum er umræðuefnið.
Já hvað fækkaði hringormunum mikið í fiskistofnum landsins við að sel var því sem næst útrýmt við Íslandsstrendur? -Greitt úr opinberum sjóðum fyrir drápsæðið rétt eins og um hamfaraórækt væri að ræða, -sem gaf meiri aura í aðra hönd en hægt var að hafa upp úr steypunni.
Þetta kostaða hávísindalega brjálæði náði hámarki 1985, og síðan hafa útskrifaðir náttúrufræðingar fáviskufabrikkunnar verið látnir sjá um að skaffa ríkinu tekjur í eftirlitið til að kosta sjálfa sig, -með því að halda bókahald um gæsabringur og dauðar hreindýrsbeljur, allt saman vandlega árangurstengt við veiðikortið og sölu á veiðileifum.
Já hvað skildi svo hafa orðið af hringorminum þarna um árið, ætli hann sé kannski kominn í menn? Eins gott að valkyrjurnar okkar komist ekki að því. Þá er hætt við að hætt yrði að senda úr landi milljarða til manndrápa. Næg eftirspurn fyrir fjármagnið heima fyrir og fáviskufabrikkan sett í málið sem hver annar innviður.
Já svona fer nú önuglyndið með mann 23. rigningardaginn í röð. Og varðandi hreindýrin þá hefur sá sem séð hefur tárvotan hrínandi hreindýrskálf, og hreindýrskúna dauða á næsta leiti, þar sem verið er að velta innan úr henni og hluta skrokkinn í sundur upp á sexhjólið sem er upp á kerrunni sem hangir aftan í Landcrusernum, -ekki nokkur áhugi á þeim veiðitölum.
Það er alveg nóg að rekast á myndirnar á facebook af öllum kellingunum í nýtísku veiðigöllum, sigri hrósandi, með rándýru rifflana yfir hræi af belju. Þar sem þess er vandlega gætt tugmilljóna vélknúna útgerðin, sem við ónáttúruna er notuð, sé ekki í mynd, -þetta eru jú náttúruunnendur, sjáðu.
Nei ég fer ekki mikið til fjalla á þessum árstíma, of viðkvæmur til þess. Ég hef bögglast um í berjamó með henni Matthildi minni fram undir hausjafndægur ár eftir ár, en nú bregður svo við að móarnir eru haugrennandi. þúfurnar með pollum á milli og berin orðin saft á belgjum sem ekki er nokkur leið að snerta án þess að þau springi.
Svona getur nú ónáttúran farið með sálartetrið þegar berjamórinn er blautur. Hreindýraveiðitímabilinu líkur, sem betur fer núna um helgina, og gæsirnar eru farnir að æfa oddaflugið suðu á bóginn svo kannski næ ég mér upp úr dumbungnum eftir brottför máríerlanna í hauslitunum.
Nýtt tungl um helgina, sem kviknar í vestri, daginn fyrir haustjafndægur. Farið er að grilla í hann á norðan í spám veðurfræðinganna, með mínus gráðum á fjöllum og snjó í kortunum, -á samt að standa stutt -eða skyldu veðurfræðingar ljúga?
Athugasemdir
Maður les varla svona, með þurra hvarma.
Varðandi seladrápið, nú vitum við fjölæringar að til er fólk sem fer hamskiptum og selir sem fara mannhamskiptum og vel má velta fyrir sér hverskonar var verið að útrýma. Meitlarar auglýsa það ekki.
Til er fyrirlestur með Michael Crichton - sem var mikill snillíngur - þar sem hann fer yfir allskyns náttúruvá sem smíðuð hefur verið af ríkis-fræðingum en aldrei má tala um. Vel þess virði að finna og gaumgæfa.
... og það er bannað að minna mig á grátandi kálfa við hlið myrtrar móður - ég hef tilfinningar.
Beztu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 17.9.2025 kl. 14:37
Takk fyrir ábendinguna á Mighael Criton Guðjón, -já fólk tekur hamskiptum og gæti allt eins orðið að kjúkling í verksmiðjubúi áður en það veit af, -já og fyrirgefðu þetta með hreindýrskálfinn.
Einn okkar þekktasti auðmaður og mesta þjóðskáld vissi hvað klukkan sló í þessum efnum. Hann lýsti ónáttúru mun betur, án þess að minnast svo mikið sem á hreindýrskálf, -hvað þá kóp nema í góðu.
Bestu kveðjur.
Set hér fyrir neðan frásögn Einars Benediktssonar -Þessi blóðuga, mállausa ákæra.
"Við vorum þrír á kænunni, kátir ungir og vel nestaðir. Hvað á dauðlegt líf ágætara að bjóða en slíkan dag og þvílíka volduga, dragandi fegurð? Eilífðin brosti í þessari skínandi skuggsjá, hafi öræfanna, og átti um leið náðargeisla handa þeim minnsta smælingja, sem leita vildi upp ljósið frá myrkrum djúpsins. Rétt við vörina vöktu birtingarnir og létu heila heima glitra á hreistrinu. Hrognkelsi sveimuðu á grunni, með blakka, hrjúfa hryggi í vatnsborðinu, til þess að dýrð sólarinnar mætti líta þá og snerta. Landselskóparnir iðuðu í látrunum, sælir og glampandi, með síopin augu. Veldi og skaut norðlenskrar náttúru ríkti yfir öllu á sjó og landi.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Í þetta sinn vorum við óheppnir. Selurinn kom upp langt fyrir aftan bátinn. Ég tók það ráð að leggja upp árar og hafast ekkert að. Ég hafði séð, að þetta var afar stór útselur, af því sama kyni, sem kallast kampur, en þeir eru haldnir ganga næst landsel að skynsemd og forvitni. Selurinn tók dýfu frá bátnum, en ekki mjög langa. Annar hásetinn var neftóbaksmaður, ég lánaði af honum rauðan vasaklút, sem ég lét lafa aftur af stýrinu. Svo biðum við kyrrir, án þess að láta neitt minnsta hljóð heyrast.
Eftir nokkur köf fór kampurinn að færast nær, og loksins kom ég skoti á hann, en hitti illa. Hann tók fyrst langa dýfu, en nú gátum við séð, hvert róa ætti. Brákin á sjónum sagði til og svo fór óðum að draga saman með okkur. Selurinn var auðsjáanlega særður til ólífis. En þá kom það fyrir, sem ég get aldrei gleymt.
Kampurinn tróð marvaða og rétti sig upp, á að giska fimmtíu faðma frá bátnum. Þetta færi var heldur langt fyrir högl, en samt miðaði ég og ætlaði að fara að hleypa af. En þá greyp selurinn til sunds beint á bátinn. Ég hafði heyrt sagt frá því hvernig selir réðust á báta, þegar líkt stóð á. En það var eins og eitthvað óskiljanlegt hik kæmi yfir okkur alla. Við hreyfðum okkur ekki í bátnum og kampurinn rétti sig aftur upp örfáa faðma frá kænunni.
Blóðið lagði úr sári á kverkinni og yfir granirnar. Mér sýndist hann einblína á mig, þarna sem ég stóð í skutnum á selabyttunni með morðvopnið til taks á móti þessum saklausa, forvitna einstæðing hafsins, sem var viðskila við sitt eigið kyn, sjálfur aðeins óvopnaður meinleysingi.
Eflaust hefur sú breyting verið áður að ná tökum á mér, smátt og smátt, að aumkva dýrin eins og mennina, þegar þau eru í nauð eða verða fyrir meiðslum og dauða. Mér finnst það nú til dæmis með öllu óskiljanlegt, hvernig ég hef getað fengið af mér að drepa saklausa fugla mér til gamans, án þess að nein neyð kreppti að mér. Endurminningar um þetta fylla mig oft viðbjóði og andstyggð á minni eigin tilgangslausu og léttúðugu grimmd. En í þetta skipti opnuðust fyrst augu mín. Þessi blóðuga, mállausa ákæra stendur mér oft í hugskoti, -en ég hef aldrei fyrr komið mér til þess að færa neitt um það í letur.
Kampurinn gjörði enga tilraun til árásar á bátinn - og svo leið þetta andartak, sem verður að notast með skutli eða áróðri, ef veiðin á ekki að mistakast. En selurinn stein sökk í sama svip - og eitthvað hulið afl lagði þögn og kyrrð yfir þessa litlu bátshöfn, sem fremur hafði lagt af stað í þessa veiðiför af leik heldur en þörf.
Maður í álögum segir gamla sagan! Ég get ekki gjört mér grein fyrir, hve oft ég hef, síðan þetta kom fyrir, hugsað um lið Faraós og sækonur þjóðsagnanna. En óendanlegur tregi og iðrun kemur upp hjá mér, þegar ég minnist þess augnaráðs, sem selurinn beindi á mig, þegar hann hvarf í djúpið.
-Ég hef ætið orðið staðfastari með árum og reynslu í sannfæringu minni um algjört orsakasamband, milli alls og allra. Þessi viðburður, sem er mér svo minnisstæður, hefur sjálfsagt átt að vera mér bending, samkvæmt æðri ráðstöfun. Ef til vill hefur mér verið ætlað, þegar á þessu skeiði æsku minnar, að innrætast einhver neisti af miskunnsemi við aðra, sem máttu sín miður eða báru þyngri byrði.
En hvílíkur fjöldi atvika birtist í örsnöggri svipan fyrir athugulum augum í borgum þúsunda og milljóna, í kvikmyndastraumi strætalífs og skemmtihalla, - þar sem ætið og alls staðar endurtekur sig hin sama saga. Er ekki hamingja heimsins grundvölluð á samanburði auðæva, yfirburða, fegurðar og fróðleiks gagnvart þeim snauðu, gunnhyggnu, miður menntuðu og ósjálegri, er byggja umhverfi staðanna, margir við eymd og tötra? Hver ómælisgeimur af örbirgð og læging þarf að hlaðast undir stétt hinna æðri, sem svo kallast, til þess að þeir geti þóknast sér sjálfum og fundið sinn mikilleik.
Hve ótölulega mörg bleik, deyjandi andlit sökkva í þetta friðaða, lygna yfirborð mannlífsins, sem geymir dauða og glötun? Gangi ég framhjá tötruðum beiningamanni, sný ég stundum aftur. Er blóðug myndin, sökkvandi við borðstokkinn, sem gægist upp úr öræfum minninganna?"
Magnús Sigurðsson, 17.9.2025 kl. 15:55
Einar, annar stærsti hugsuður Íslandsála, höfundur Hvítbláans. Lýgveldismafían nefnir hann þjóðskáld, þó var honum hafnað á "alþingishátíðinni" sem notaði ljóð hans en bauð honum ekki á mótið.
Hinn, er Þorsteinn Ingólfsson, sem sama mafía vill helst láta gleymast. Höfundur þriðju merkustu hugmyndar allra mennskra stofnana.
Bestu kveðjur.
{Minn er jú fyrrverandi fjósamaður, blautar granir njóta friðhelgi.}
Guðjón E. Hreinberg, 17.9.2025 kl. 18:21
Blessaðir félagar.
Guðjón fattar snilldina Magnús, góðar eru umræður ykkar.
En það var þetta með 23. rigningardaginn í röð, og mikill má vera sá sálarstyrkur sem heldur sönsum, og treystir á uppstyttu á 31. degi.
Réttlæti ekki veiði Magnús, en veiði er samt forsenda lífs okkar, ekki nema menn vilji skipta aftur á bak einhverjar milljónir ára til baka þegar forkyn okkar át ávexti eins og enginn væri morgundagurinn. Enda var hann það ekki alltaf, þá fór einhver hugvitsamur að veiða.
Gellur í veiðigalla hafa í raun ekkert með þetta konsept að gera, og í náttúru þar sem engir eru úlfarnir, þá er það aðeins hungrið sem stjórnar stofnstærð.
Það var nefnilega sól í morgun hér í neðra Magnús, þess vegna er pirringurinn minni þó 25 rigningardagurinn sé í uppsiglingu, þó er hann ekki með pungapróf.
Tek það samt fram að mikil er gæfa þeirra yngri að sá elsti og reyndasti skakklappist ennþá um, rífandi kjaft, ekki um steypu þeirra, heldur um margt annað sem gigt og allt annað sem hrjáir okkur Magnús á sjötugs-aldrinum gæti skýrt.
Því þannig fer viskan á milli kynslóða, ég til dæmis varð að verða mun eldri áður en ég fattaði "gömlu" karlana í saltfiskskemmunni sem sýndu mér næstum óendanlegt umburðarlyndi í æskuvisku minni.
Sem og ég tek það fram að ég hef aldrei veitt neitt, þó ég hafi gengið með föður mínum og bróður til rjúpna, notaði það þá sem afsökun að ég át ekki rjúpur eða aðra villibráð, þó raunskýringin væri sú að ég hafði það ekki í mér að veiða.
En ég virti samt þá sem veiddu, enda þekkti enginn hér niður á fjörðum þann nýmóðins að gellur í veiðigalla skytu hreindýr.
Enda þegar ég horfi á Sævar frænda minn Guðjónsson, hákarla Guðjóns, þá hvarflar aldrei sú hugsun að mér, jafnvel þó ég hefði ekki haft neitt að lesa á biðstofum tannlækna eða annarra lækna, en myndir af slíkri sýndarmennsku.
Gæfa mín var að alast og ná þroska innan um alvörufólk.
Og sjá þá alvöru flytjast milli kynslóða.
Það get ég svarið jafnvel á þrítugasta og tuttugasta rigningardegi.
Skil samt pointið.
Kveðja úr stórrigningunni í neðra.
Það var samt sól í morgun.
Ómar Geirsson, 18.9.2025 kl. 17:38
Blessaður Ómar, -það stytti upp hér í efra í morgunn, nægjanlega til að ég skaust út og steypti með strákunum í sól og blíðu, -svo fór aftur að rigna.
Það er ekki veiðar sem ég er að fjargviðrast yfir, heldur ónáttúra sem byggir á drápfýsn óvita.
Veiðimenn bera þá virðingu fyrir bráð sinni að þeir nýta hana, slíta ekki bara bringuna úr fuglinum og henda hamnum með öllu öðru.
Eftir að óvitaskapurinn tók alfarið yfir, þá hefur mátt sjá tugi jafnvel hundriði gæsaunga-hama liggja við vígvöllinn, -allt nema bringuna.
Síðan er fjöldi óvita sem getur ekki hugsað sér að éta svo mikið sem bringuna og reynir að selja óvitaskapinn sem villibráð.
Þó athæfið væri ekki til eftirbreytni þá át ég mig þó pakksaddan af sel mánuðum saman meðan hringormurinn náði á milli eyrnanna á mér.
Það ber að vara óvita við því sem raskar sálarró þegar fram í sækir, og það er eitt af hlutverkum okkar sem höfum reynt.
Annað er svo það að það er búið að árangurstengja sportveiðar við lifibrauð fjölda fólks, og það í náttúru sem er einstök í veröldinni.
Það þarf engin að halda það að farfuglar Íslands séu óþrjótandi stofn sem í lagi sé drita niður sér til skemmtunar.
T.d. telur álftastofninn, sem lobbýast er nú yfir á alþingi með að fá að skjóta vegna ímyndaðs skaða, einungis á milli 30-40 þús fugla, -og þetta eru nánast einu álftirnar sem eftir eru í veröldinni.
Álftir eru gjörsamlega óætar, hafa það fram yfir rjúpuna, það get ég sagt þér, því það hef ég reynt, þú getur alveg eins reynt að éta aflóga hænsni.
Við búum í Galápacos norðursins sem okkur ber að vernda með virðingu, en ekki óvirðingu fyrir öðru lífi, -þrátt fyrir að vera veiðimenn.
Varðandi hreindýrastofninn þá hefur hann látið á sjá, en hagsmunirnir liggja orðið í veiðunum, og margir sem eru þar árangurstengdir við skemmtilega vinna tíma úr ári. Þó svo að þær veiðar séu ekki á hringormastiginu.
Nei, ég ber virðingu fyrir veiðimönnum, og öllum sem af landsins gæðum kunna að lifa, enda af þannig fólki kominn.
Jæja nú er farnar að koma sólarglennur aftur í rigninguna hér í efra og birtan guðdómleg yfir gæsunum á nesinu.
En máríerlurnar hafa ekki látið sjá sig á svölunum núna í tvo daga, ætla sennilega að nota norðanáttina til að komast suður á bóginn.
Bestu kveðjur héðan að ofan til ykkar svartfuglanna í neðra
Magnús Sigurðsson, 18.9.2025 kl. 18:53
Mig langar að vita meira um fækkun álfta í heiminum. Við vitum sosum að mesta fuglaslátrun allra tíma eru vindmyllurnar, en við höfum enga Don Kíkóta til að vega þessa þursa.
Sammála öllu sem hér er sagt um veiðar, og virðingu. Þó er til ein tegund veiðidýrs sem enginn veiðir, því miður, og það má vel koma fram.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 18.9.2025 kl. 20:11
Blessaður Guðjón, -ég er engin fuglafræðingur þó svo að ég slái ýmsu fram um fugla og hafi gaman af að fylgjast með þeim.
Álftin er, að ég held, ein af svanategundunum. Um íslensku álftina segir wikipwdia þetta;
Íslenskar álftir dvelja flestar á Bretlandseyjum yfir vetrarmánuðina en kringum tíundi hluti hefur vetursetu á Íslandi aðallega á Suður-og Suðvesturlandi og Mývatni. Á Reykjavíkurtjörn eru einnig venjulega nokkrir tugir fugla. Álftin er með fyrstu farfuglum, þær fyrstu sjást yfirleitt á Suðausturlandi í byrjun mars. Talning álfta fer fram á Bretlandseyjum og stofnmat árið 2005 sýndi að stofninn hafði stækkað úr um 12.000 fuglar árið 1980 í um 25.000 fugla 2005. Mest eru þetta geldfuglar en talið er að um 2.000 pör, eða 4.000 fuglar verpi hér á landi á hverju ári.
Það er ekki langt síðan ég stakk hjá mér að fuglfræðingar teldu stofninn kominn í 35.000 fugla. En ég veit samt að stór hluti stofnsins sem hefur vetursetu á Íslandi heldur til í Lóni, hef hvergi séð fleiri álftir en þar.
Þegar ég man fyrst eftir mér var álftin sjaldgæfur fugl. Enda ekki alfriðuð. Ef ekki hefði komið til alfriðunar þá held ég að þessi tignarlegasti fugl Íslands væri útdauður.
Það er mjög gaman að fylgjast með álftum, þær eiga óðul sem þær koma á sumar eftir sumar. Bestu aðstæður eru stórar seftjarnir með hólma. Ég veit ekki um stoltari foreldra en álftir.
-Og já, það er hægt að komast í samband við þessa fugla með því að tala til þeirra og sýna þeim fulla virðingu. En tortryggnar eru þær eins og allar tegundir sem hafa mátt horfast í augu við því sem næst útrýmingu.
Varðandi Þorstein Ingólfsson þá má ekki gleyma aðstoðarmönnum hans úr Lóni, þeim Úlfljóti og Grími Geitskó. Það er merkileg saga varðveitt í Lóninu og á Síðu, -eitt sinn kallað Papýli.
Ætli hugmyndin af íslenska þjóðveldinu hafi ekki kviknað upphaflega við Írskahaf, eftir að hafa þar blandast hugmyndum frá Svartahafi. -Mér segir svo hugur. -Hvað heldur þú um það Guðjón?
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 18.9.2025 kl. 20:46
Takk fyrir fróðleik um svaninn. Ég fóðra hér á Fitjatjörn á vetrum, kaupi þá í heildsölu hjá Fóðurblöndunni, því ég finn til með bæði gæsu og álftum sem eru kjurar hér um veturinn. Það er rétt, að hægt er að ná sambandi eða tengingu, en það tekur - eins og með öll dýr - tíma, þolinmæði og innsæi.
Varðandi Þjóðveldið - segi ég aðeins eitt - "don-t get me started" - en ég vil þó koma inn einu, og minna á, að ég er þess sannfærður um að eftir veru sína við Krím-Donbass u.þ.b. 250-450 hafi Herúla skiptst í tvo jafnvel þrjá hópa, Vestur Herúlar héldu krókótta leið til Gulaþings en Austur-Herúlar ... enduðu á sléttunum í kringum fjöllin þar sem Tómas Jónasson - Temujin/Genghis - fékk vitrun sína og sýn eftir tíu ára nám og þrælavist í Kína.
:) en er búinn að fara í þetta allt í Arkívinu :)
Alls staðar þar sem Þjóðveldishugsjónin hefur fæðst, s.s. hjá Lakóta, Iroqois, Mongólum, finnurðu létt nýgengin fótspor Herúla í vetrardrífunni.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 19.9.2025 kl. 00:25
Það mættu fleiri skilja dýptina í félagsþjónustu hreppanna, sem nútímamarxistar hafa útrýmt ;) winkwink.
Guðjón E. Hreinberg, 19.9.2025 kl. 00:27
Takk fyrir svarið Guðjón, -og Lakóta tenginguna, sú fluga hefur flogið í höfðinu á mér lengi.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 19.9.2025 kl. 05:39
Takk fyrir mig Magnús, mikil vigt í andmælum þínum, tala menn ekki annars um andmæli??
Mig grunaði þetta en blasti ekki alveg við miðað við fyrstu skrif, maður sér nefnilega svo sterkt fyrir sér flottræfilsháttinn sem einmitt þessi birtingarmynd gellunnar í veiðigallanum er.
Það er líka skemmtilegt, það er atburðarrás tímans að ég var í afmæli kveldið áður, hjá jafnöldru minni eða því sem næst, ættuð vestan úr Barðaströnd, veit því allt um veiði, og umræðuefnið meðal margs annars var einmitt svona sýnd veiðinnar, og vorum við þá að tala um fólkið sem færi í dýrar ferðar til Afríku til að skjóta villt dýr, vissulega tekjulind fyrir innfædda, en samt; hvað hafa þessi dýr gert þessu fólki??
Ljónshöfuð uppá vegg í besta falli!!, æ þetta ekki alveg í kramið hjá okkur hjónum og góðri vinkonu okkar.
Svo les ég þennan pistil þinn.
Tek undir öll orð hér að framan og megi stytta upp í kuldastillu, samt ekki froststillu því við bræður höfum ekki ennþá tekið upp niðurrigndu kartöflur okkar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.9.2025 kl. 10:03
Blessaður Ómar,-við getum sjálfsagt tekið undir endalaust með hver öðrum hvað þetta varðar. En okkur ber kannski umfram annað að vara þá sem yngri eru við óþarfa sálarháska á efri árum.
Nei, á þessa ónáttúru flottræflanna er ekki hægt að minnast einu orði án þess að gnísta tönnum. Þetta byrjaði fyrir löngu síðan og þarf ekki ljónhaus á vegg frá Afríku til.
Það sagði mér hreindýraveiðileiðsögumaður fyrir fjölda ára síðan, að hann hefði leiðsagt þekktum köppum í samfélaginu, sem óðu í seðlum, -á hreindýraveiðum í eyðifjörðunum okkar.
Þeir hefðu misst sig í drápfýsninni og skotið niður heila hjörð, hirtu síðan aðeins það sem þeir girntust og skildu hræin eftir, enda sóttir á bát sem bar þá og lítið meira.
Leiðsögumaðurinn spurði hvort þeir ætluðu ekki að ganga betur frá á eftir sig og hirða kjötið. Svarið var; -heldur þú virkilega að við séum komnir hingað austur á land til að bera súpukjöt á milli fjarða.
Hann vildi alls ekki nafngreina þessa kappa, sagðist vilja vera leiðsögumaður áfram.
Ég tek undir hvert orð með okkur hér á þessum þræði, rétt eins og Einari Ben fyrir meira en 100 árum síðan.
Bestu kveðjur í neðra úr svalri nepjunni í efra.
Magnús Sigurðsson, 19.9.2025 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.