8.1.2009 | 08:33
The Happiest Days Of Our Lives.
The Happiest Days Of Our Lives
We don't need no education / We dont need no thought control / No dark sarcasm in the classroom / Teachers leave them kids alone / Hey! Teachers! Leave them kids alone! /
All in all it's just another brick in the wall.
Þegar Sigga Halldórs hafði samband við mig og spurði hvort ég gæti ekki rifjað upp gamla daga í Egilsstaðaskóla í tilefni 60 ára afmælis skólans varð fátt um svör. Satt best að segja er mér ekki margt minnistætt frá minni skólatíð, enda var hún ekki upp á marga fiska.Þegar ég ákvað samt sem áður að reyna að rifja eitthvað upp þá setti ég mp3 spilarann í eyrun og hlustaði á Pink Floyd, another brick in the wall. Í sannleika sagt þá fannst mér skólaganga mín snúast um annað en það sem ég hafði áhuga á og það finnst mér enn í dag.
Ég var sjö ára þegar fyrsti skóladagurinn rann upp. Í minningunni vorum við Héðinn vinur minn hugfangnir af íslenskri glímu þennan dag og sáum að tilvalið væri að æfa hana í öðrum sandkassanum á skólalóðinni í frímínútum. Þegar mér hafði tekist að fella Héðinn með frábærum hælkrók vissi ég ekki fyrr en ég hófst á loft og sveif í átt að skólanum, alla leiðina inn í forstofu, þar áttaði ég mig fyrst á að Sigurjón Fjelsted skólastjóri var orsakavaldurinn af þessari flugferð. Hann lét okkur Héðinn vita af því að við værum ekki komnir í skóla til að stunda áflog.
Smá saman gerði ég mér grein fyrir að í skólanum átti ég að læra að lesa, skrifa og reikna. Ég taldi mig reyndar kunna að lesa þegar ég kom í skólann en það hafði móðir mín haft þolinmæði til að kenna mér með hinni frábæru lestrarkennslu bók "Gagn og gaman" í þeirri bók mátti finna auðskildar setningar eins og "pabbi púar pípu". Í skólanum lærði ég semsagt ekki að lesa því það kunni ég þá þegar.
Svo var það skriftin hún var talsvert meira mál og ég er ekki ennþá sannfærður um að ég hafi lært að skrifa í Egilsstaðaskóla, allavega hef ég heyrt sagt með forundran"hver skrifar eiginlega svona",oftar en ég hef tölu á, þegar einhver rekst á eitthvað sem ég hef skrifað og er reyndar ekki hissa því mér er gjörsamlega ómögulegt að lesa skriftina mína sjálfur þegar ég hef gleymt hvað ég var að skrifa um. Mér finnst reyndar að skólanum hefði átt að takast að kenna mér að skrifa nafnið mitt svo aðrir gætu lesið það en það mistókst eins og annað í sambandi við skriftina. Ég get þó huggað mig við að langskólagengnir menn eins og t.d. læknar geta ekki heldur skrifað nafnið sitt á læsilegan hátt.
Reikningurinn var mér alla mína skólagöngu gjörsamlega óskiljanlegur í fyrstu skildi ég ekki með nokkru móti af hverju tveir plús tveir þyrftu að vera fjórir en ekki bara það sem mér sýndist og ekki batnaði það þegar tvisvar sinnum tveir áttu líka að vera fjórir. Eina ráðið til að sýnast hafa veitt þessar speki eftirtekt var að læra samlagningu og margföldunartöflur eins og páfagaukur en það reyndist mér erfitt. Seinna kom reikningur sem kallaðist stærðfræði og þar voru óskiljanleg dæmi svo sem A pús B er sama sem C, þessar reikningskúnstir áttu víst að þjálfa rökhugsun og koma að gagni seinna í lífinu, ég bíð enn.
Það voru aðrar stundir en lestur, skrift og reikningur sem eru ánægjulegar í minningunni frá skólagöngu minni. Guðmundur heitinn Magnússon fyrrum sveitarstjóri á Egilsstöðum kenndi okkur eitthvað fyrstu veturna og hann var oft með skemmtilegt námsefni, eins og að setja okkur það fyrir sem heimaverkefni að finna út hvað nafnið okkar þýddi. Ég var yfir mig ánægður þegar ég fann það út að Magnús merkti "hinn mikli", en það hafði ekkert gengið fyrir Héðni sessunaut mínum að finna út hvað hans nafn þýddi, hann bað því Guðmund: "greyið Guðmundur segðu mér hvað Héðinn þýðir" það þykknaði í Guðmundi þegar hann svaraði, alveg kominn að borðinu hjá okkur; "veistu ekki að orðið greyið er notað um hunda drengur". Mér dettur í hug að svona kennslustundir mætti flokka undir lífsleikni í dag.
Eftir því sem árunum fjölgaði í Egilsstaðaskóla gekk mér verr að einbeita mér að námsefninu og kennurunum verr að hafa þolmæði gagnvart mínum athyglisbresti og þversku. Ég minnist samt þess að af og til komu kennarar sem náðu fullri athygli minni, einn af þeim var Sigurður Örlygsson listmálari, hann kenndi okkur teikningu. Í tímunum hjá Sigurði var hægt að gleyma sér gjörsamlega hann bar í okkur málningu og pappír og svo máttum við gera það sem okkur sýndist. Eini gallinn við tímana hjá honum var að við þurftum að þrífa skólastofuna eftir tíma og það gat verið óvinnandi verk. Þetta verk kom einn tímann í hlut okkar Bigga frænda, við Biggi vorum einbeittir í að sleppa frá því, en Sigurður ætlaði að sjá til þess að svo yrði ekki og stóð staðfastur í dyrum kennslustofunnar, stór og mikill. Við opnuðum glugga til að skríða út, þegar Sigurður hljóp þvert yfir stofuna til að loka glugganum þá tókst okkur að skjótast út um dyrnar. Ég sé enn eftir því að hafa beitt Sigurð þessum rangindum því hann var með athygliverðari mönnum og málverkasýningin sem hann hélt á verkum sínum í Valaskjálf þennan vetur, stendur mér enn ljóslifandi í minni. Ein myndin á þeirri sýningu var stór, einlit kóngablá með svartri spýtu sem hékk í keðju fyrir framan bláa flötinn og hét "Í Hallormstaðaskógi". Mér datt reyndar ekki Hallormstaðaskógur í hug þegar ég skoðaði þetta furðuverk en mér fannst hugmyndin frábær.
Þau ár sem skólaganga mín stóð yfir voru tveir skólastjórar í Egilstaðaskóla, í byrjun var Sigurjón Fjelsted en síðar tók Ólafur Guðmundsson við. Ég átti nokkra fundi með Ólafi á skrifstofu hans, sem var yfirleitt ekki boðað til af mínu frumkvæði. Ólafur kom á kerfi í skólanum þar sem gefnir voru plúsar og mínusar fyrir ástundun, hegðun, og ofl. var þetta þetta kerfi oftar en ekki ástæða funda okkar Ólafs.
Undir lok skólagöngu minnar fór ég í skóla norður í land, á heimaslóðum móður minnar þar var ekkert svona kerfi, þolinmæði skólastjórnenda mun minni og fundir mínir þar með skólastjóra urðu aðeins tveir. Móðir mín kom þá á fundi mín og Ólafs ef það mætti verða til þess að ég kláraði skólagöngu mína þann vetur. Á þeim fundi lauk Ólafur upp gagnabanka sínum og tjáði mér að ég væri með eina lægstu hegðunareinkunn og lélegustu ástundunareinkunn sem gefin hefði verin við skólann en það breytti ekki því að ég fengi inngöngu í skólann. Ég hef því gert mér betur grein fyrir þeirri þolinmæði sem Egilsstaðaskóli sýndi mér eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir.
Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir að skólagöngu minni í Egilsstaðaskóla lauk að ég áttaði mig á út á hvað hún gekk. Það var um 1980 þegar Pink Floyd gaf út verkið The wall, skólaganga mín gekk semsagt út á að gera "another brikc in the wall" eða móta nothæfan stein í múrinn. Það má því segja að skólaganga mín í Egilsstaðaskóla hafi heppnast því að síðan henni lauk hef ég fengist við að hlaða og múra veggi.
Það er því hægt að leiða að því rök að með skólagöngu minni hafi tekist að gera nýtan þjóðfélagsþegn úr þeim svífandi skýjaglóp sem mætti fyrsta skóla daginn til að glíma í sandkassanum.
Ég bíð samt enn eftir að upplifa aftur þá daga sem ég átti áður en ég hóf mín skólagöngu. Þegar ég gat legið á bakinu í háu síðsumargrasinu, horft tímunum saman á skýin á bláum himninum séð engil hnita hringi í uppstreyminu eða jafnvel Guð. Ég stefni ótrauður að því að ná þeim andlega þroska aftur sem ég bjó yfir sem barn og þá verða tveir plús tveir ekki fjórir frekar enn mér sýnist.
Skrifað í tilefni 60 ára afmælis Egilsstaðaskóla 2007.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 27.2.2010 kl. 16:00 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að lesa. Takk fyrir.
Löng og ítarleg skólaganga segir ekki alla söguna. Ég hef unnið með fólki sem er útskrifað úr háskóla en kann varla að skrifa og stafsetningin er skelfileg. Fyrir nú utan það, að kunna ekki að tala Íslenskt mál almennilega !
Hulda Margrét Traustadóttir, 8.1.2009 kl. 11:18
Takk. Eftir á að hyggja hefði kannski átt að vera spurningarmerki á eftir fyrirsögninni "The Happiest Days Of Our Lives?". Það er svo misjafnt hvernig fólk upplifir sína skólagöngu, margir finna sinn tilgang í henni. En sennilega tapa allir einhverju af ævintýraheimi berskunnar þar sem allt er mögulegt og það er mikið tap.
Magnús Sigurðsson, 9.1.2009 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.