9.3.2009 | 23:02
Hættum meðvirkni með bankakerfinu.
Það fer ósegjanlega í taugarnar á mörgum þegar fólki er sagt að standa saman og vera gott hvert við annað í kreppunni. Reiðin kraumar sem aldrei fyrr, því svo margir eru komnir fram á ystu nöf með að missa sitt vegna skulda sem þeir áttu ekki þátt í að koma í óviðráðanlegar upphæðir. En það væri barnaskapur láta sér detta í hug að hækkun skulda sé eitthvert slys, en ekki vandlega skipulögð atburðarás. Lausnir á skuldavandanum munu verða boðnar innan skamms, í formi hjálpræðis af sömu stofnunum, sama fólki og ráðlagði lántökurnar á sínum tíma. Þær lausnir munu felast í því að festa lántakendur enn betur á klafann sem skuldaþræla. Þetta á að gera með því að staðfesta hækkun á upphaflegu skuldinni og færa afborganir aftur fyrir. Einhver hluti fólks verður látin sæta upptöku eigna og byrja frá grunni, gjaldþrota í vonlítilli stöðu. Aðrir meiga svo prísa sig sæla fyrir að sleppa við þau afleitu örlög.
Auk þessa munu skattar verða stórhækkaðir í framtíðinni til að gera upp þær skuldir sem ríkið tekur yfir vegna bankahrunsins. Skattarnir renna svo til AGS og skyldra aðila í formi vaxtagreiðslna og vegna ímyndaðra skulda þjóðarinnar sem ætti í raun að vera mál á milli eigenda einkabankanna og þeirra sem lánuðu þeim. Ríkissjóður mun verða verkfærið sem sér um þessa skulda innheimtu, sami ríkissjóður og sagður var vera skuldlaus fyrir hálfu ári síðan.
Það sýnir best að þessi atburðarás er ekki sér íslenskt "slys", er að hún á sér ekki einungis stað hér, heldur um allan heim. Ríkissjóðir eru allstaðar að skuldsetja sig, það er kallað innspýting í bankakerfið sem búið er að tönglast á að eigi að sjá um "súrefnið" fyrir atvinnulífið, einhvertíma hefði þetta verið kallað að snúa staðreyndum á hvolf því sannleikurinn er að verðmætin verða ekki til í bönkum. Samhliða þessu er fólki um heim allan ógnað með atvinumissi. Fjölmiðlar eru óspart notaðir við að magna ótta fólks og auka á ringulreiðina. Með því einu að slökkva á sjóvarpinu má losna við þennan hræðsluáróður, fá mikinn tíma bæði fyrir sjálfstæða hugsun og til að sýna náunganum hluttekningu.
Eftir fall þriðja ríkisins og eftir að hafa lifað við áralangan áróður nasista höfðu margir Þjóðverjar þetta að segja;
Fyrst tóku þeir gyðingana og ég var ekki gyðingur svo ég gerði ekkert.
Svo tóku þeir kommúnistana og ég var ekki kommúnisti svo ég gerði ekkert.
Svo bönnuðu þeir stéttarfélögin og ég var ekki í þeim svo ég gerði ekkert.
Svo komu þeir eftir mér og þá var engin eftir til að tala mínu máli.
Látum þetta ekki verða eftirmæli okkar við fall íslenska bankakerfisins;
Fyrst gengu þeir að þeim sem ekki stóðu í skilum með bílalánin, en þar sem ég var ekki með bílalán varðaði mig ekkert um það.
Svo gengu þeir að þeim sem ekki réðu við húsnæðislánin en þar sem ég réði við mitt snerti það mig ekki.
Svo gengu þeir að þeim sem höfðu misst vinnuna og gátu ekki staðið í skilum með skuldir sínar, en þar sem ég hafði vinnu kom mér það ekki við.
Svo fóru þeir fram á að ég léti svo stóran hluta tekna minna í skatta að ég var verr settur en þrællinn, þá stóð enginn með mér.
Óttumst ekki, sýnum að við stöndum saman því versta martröð peningakerfisins er synjun okkar um greiðslu skatta, synjun okkar á að yfirgefa heimili okkar þó svo bankarnir fari fram á það. Kerfið getur ekki staðist ef þetta er gert af fjöldanum. Flytjum byltinguna að heimilum þeirra sem eru að missa þau, mótmælum þar, ekki með ofbeldi og róstum því það er það sem lögregla hefur verið undirbúin til að fást við, heldur með búsáhaldaslætti, gamansemi og dansi. Gefum útsendurum valdsins blóm það hefur sýnt sig að það gefst betur en grjótkast og eldar. Því að vinarþel slær vopnin úr höndum þeirra enda búa þeir við sama veruleika og við það eina sem aðskilur þá er starfið og búningurinn.
Hættum að vera meðvirk kerfinu, minkum vinnuna, finnum leiðir til að eiga viðskipti okkar á milli án peninga, ræktum okkar eigið grænmeti notum tímann til að fiska í soðið, það er hvort því sem er mun ánægjulegra en langur vinnudagur fyrir skattinn. Með því að vera ekki meðvirk kerfinu losum við okkur undan því að greiða skuldir bankakerfisins í gegnum skatta, við losnum við að láta 12% launa okkar renna til lífeyrissjóða sem er hvort því sem er að stórum hluta glatað fé eins og staðan er í dag auk annarra launatengdra gjalda. Gerum okkur grein fyrir að nú þegar fara 3-4 mánuðir á ári af launum okkar í að greiða vexti til peningakerfisins í gegnum skatta, plús þá vexti sem við þurfum að greiða af eigin skuldbindingum.
Pólarnir eru í raun aðeins tveir ást og ótti. Stöndum því saman verum góð hvort við annað við eru fleiri en þeir sem ráða straumi peninganna, látum þá ekki halda okkur á póli óttans. Það hefur sjaldan opinberast eins vel og síðustu mánuði hversu vanhæfir stjórnmálamenn eru til að vinna fyrir fólkið, þeir sem ráða straumi peninganna eru búnir að ná tökum á þeim sama dag og þeir komast til áhrifa, það kemur ekki til með að breytast við kosningar. Við erum þau sem gerum breytingar með því að breyta okkur sjálfum og vera góð hvort við annað. Byltingunni lauk ekki í janúar og hún heldur ekki áfram einhvertíma eftir kosningar. Byltingin er alltaf núna.
Áhugavert video og pistill þar sem mynd er dregin upp af því sem framundan er í heiminum.
http://www.thecrowhouse.com/ftnwo.html
http://www.davidicke.com/content/view/20744
Athugasemdir
Takk fyrir commentið Jón, það er gott að heyra að þú ætlar að velja frelsið.
Magnús Sigurðsson, 10.3.2009 kl. 00:02
Magnús, þetta er ekki svona einfalt. Þótt allir launþegar tækju sig saman og neituðu að greiða skatt og 12 prósentin til lífeyrissjóðsins, þá er ríkið búið að skylda vinnuveitandann til þess að standa skil á þessum gjöldum.
Það eina sem dygði væri allsherjarverkfall. En það þyrfti að undirbúa svolítið betur fyrir stórborgarbúana ef þeir ættu að lifa af.
Hér eru nefnilega engir kálgarðar, engin bátaútgerð, engin hænsnarækt, engin sauðfjárrækt, ekkert kúabú. En - jú annars, við höfum nokkrar Bónus búðir...
Kolbrún Hilmars, 10.3.2009 kl. 01:13
Kolbrún takk fyrir commentið, það er rétt hjá þér þetta virðist ekki einfalt. En með tilvitnun í kálgarðinn þá kemur fræið fyrst.
Þeir Reykvíkingar sem hafa áhuga á að verða sér út um garð til ræktunar ættu að hafa samband við borgina því til stendur að stórauka garðræktarlönd á hennar vegum með vorinu.
Ég hef búið við þann veruleika að vera án launa frá því í nóvember, án kálgarðs og kinda, og fer en sem komið er í Bónus. En það er farinn að læðast að mér sá grunur að grænmetisborðið í Bónus gæti tæmst og jafnvel að ég komi til með að lifa Bónus.
Mér verður stundum hugsað til þess að afi minn og amma gátu alið skepnur til að lifa á, foreldrar mínir tóku slátur á haustin og settu mat í frystikistuna fyrir veturinn, við hjónin förum í Bónus og verðum í stórum vandræðum ef hillurnar tæmast. Mig grunar að ef þessi þróun heldur áfram þá kynnu börnin mín að lenda í vandræðum ef Mc Donalds yrði ekki til í framtíðinni.
Magnús Sigurðsson, 10.3.2009 kl. 09:21
Góður pistill Magnús. Verst að búa í blokk. En ég fer í það að leita mér að landi þar sem ég get ræktað garðinn minn. Mamma mín og pabbi búa í Reykjavík og eru með garðrækt í Laugardalnum. Það er þeirra líf og yndi á sumrin. Já aftur til fortíðar skulum við og hættum að treysta á búðarhillurnar. Við björgum okkur ! Ekki spurning. Og svo verðum við að standa saman og kjósa rétt í vor
Hulda Margrét Traustadóttir, 10.3.2009 kl. 17:51
Takk fyrir Margrét, ég bý líka í blokk það má rækta fleira en pelagóníur á svölunum. Mér lýst vel garðræktaráformin hjá þér, framtíðin verður örugglega skemmtilegri með því að treysta ekki um of á búðarhyllurnar.
Ég er búin að leggja drög að garðlandi í vor, eins er ég búin að semja við trillueigenda um að fara með í mig á mið þar sem hann segir að ég geti fiskað í soðið fyrir árið.
Magnús Sigurðsson, 10.3.2009 kl. 18:05
Góður pistill Magnús og vel settur fram.
Minn maður hefur fiskað í soðið sjálfur nú í nokkur ár hvort sem það er úr sjó eða vatni, ég flaka og klára dæmið í kistuna. Ég hef lengi ræktað kartöflur, rauðrófur, gulrófur, kál og fl þó ekki hafi það nú alltaf dugað út árið það hefur eitthvað með geymsluþolið að gera hjá mér En við erum alltaf að reyna bæta úr því.
Ég var að hugsa um að fá mér belju í bílskúrinn ( ég á enn skilvindu ) og hænur í kjallarann en er ekki alveg viss hvernig nágrannar tæku þeim ósköpum því sumir hér í bæ láta áburðarilm þeirra Egilsstaðabænda fara svo óskaplega í taugarnar á sér að það hálfa væri nóg en þegar hann er sem mestur læt ég renna í heita pottinn og anda að mér ilminum og tauta eins og frægt varð í Spaugstofunni hér á árum áður, ....I love it..... en ég er nú bara svo gamaldags að ekki telst marktækt oft á tíðum. MBK Silla
(IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 20:19
Takk fyrir commentið Sigurlaug, það er gott að fá staðfestingu á því að sjálfsbjargarviðleitnin er að ganga vel upp hjá ykkur. Það hvetur mann til að gera alvöru úr áformunum.
Ég man eftir því að þegar ég var polli og fór daglega frá Hæðinni til að hitta frændur mína á Laufási 12, að þá var hænsnakofi á Laufási 1 sem tafði mig oft í þeim ferðum, auk þess sem haninn lét vita að það væri kominn morgunn. Eins voru hænur og kindur í Videoflugunni, kindur og hestar á Selási 22 og enginn tók eftir áburðarilmi þeirra Egilsstaðabænda á þeim dýrðardögum.
Magnús Sigurðsson, 10.3.2009 kl. 20:57
Það er sennilega þess vegna sem sprettur svo vel hjá Steinunni, sko þetta með leyfarnar frá hænsnakofanum segi henni það á morgun, þetta hafi ekkert að gera með hæfileika hennar til að rækta
En þú segir nokkuð, það eru sem sagt fordæmi fyrir búskap hér á Laufásnum, ég gæti sennilega notað það sem rök fyrir endur uppteknum búskap hér , gaman að heyra þetta.
(IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 22:13
Sennilega er sprettan Steinunni og Steina tilkominn vegna hænsnanna, kofinn stóðvið norð-austur hornið.
Það er ekki spurning að það er hefð fyrir búskap við Laufásinn og sennilega hefðarrétturinn enn í gildi.
Magnús Sigurðsson, 10.3.2009 kl. 23:21
Í þýskalandi er staðið saman, ef bakarinn á horninu vogar sér að hækka brauðið um krónu þá fara allir út að mótmæla fyrir utan búðina og hætta ekki fyrr en bakarinn hefur lækkað sig aftur, og það eru ekki bara fátækir sem mótmæla það eru líka ríka fólkið, því það fólk passar vel upp á aurinn. Hér á landi láta ríkir ekki sjá sig við mótmæli, jú eins og þú svo réttilega sagðir: þeim kemur þetta ekki við #*#!?*#$*!? arrrrg.........
Og svona í lokin þá er vel hægt að vera með grænmetisgarð í blokk, þetta er bara spurning um vilja, ég bý í blokk og við erum að hugsa um að setja niður kartöflur í vor, og útvega okkur rabbabarahausa og jafnvel eitthvað annað, við blokkir eru einmitt mjög stórir garðar sem er tilvalið að nota, svo er hægt að vera með kryddgarð á svölunum
Sigurveig Eysteins, 10.3.2009 kl. 23:46
Þú vilt láta oðinberan aðila útbúa kálgarð fyrir þig... og þjónusta þig á alla aðra lund, er það ekki? Halda úti mennta og heilbrigðiskerfi? Vegakerfi og alla þjónustu við það, snjómokstur, viðhald og nýbyggingar? En þú vilt hætta að borga.
Skuldsetning er lykilorðið. Allir eru skuldsettir, ekki síst fyrirtækin, líka þau sem eru í frumframleiðslu, líka bankarnir sem lánuðu okkur öllum. Ef við viljum leysa þjóðfélagið upp í heild sinni og skapa villimannaþjóðfélag, þar sem einstaklingar svelta og þeir veikustu deyja fyrst, þá förum við þína leið, Magnús. Þeir sem vilja ekki fara þína leið, bíta í skjaldarrendur og standa saman.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 07:50
Takk fyrir commentið Sigurveig, eins og þú bendir á snýst þetta um að standa saman í stóru sem smáu, við erum öll í þessum heimi hverjar sem aðstæður okkar eru. Því skulum við ekki afgreiða þann sem er að missa sitt, vegna aðgangshörku lánadrottna, sem vanskilamann sem okkaur varðar ekki um og ætla því opinbera að bjarga honum það mun ekki gera það nema að fjöldinn geri skíra kröfu um að svo verði.
Það er margt hægt að rækta þó maður búi í blokk og kannski ætti samstaða fólks ekki síst að nást í svoleiðis nábýli.
Magnús Sigurðsson, 11.3.2009 kl. 09:01
Takk fyrir gommentið Gunnar, gaman að fá þitt sjónarmið, verst hvað kálgarðurinn virðist hafa farið öfugt ofaní þig, því heimaræktað er hollur og góður matur.
Ég átta mig ekki á hvernig þú hefur náð að lesa það út úr þessum pistli að ég vildi rústa íslensku samfélagi og breyta því í villimannaþjóðfélag.
Það skal ekki standa á mér, Gunnar minn, að moka þig upp úr snjóskaflinum, þó svo að þú gerir ekkert annað en að naga skjaldarrendurnar á meðan. En ég er ekki tilbúin að borga peningakerfinu himin háa þóknun fyrir greiðann.
Magnús Sigurðsson, 11.3.2009 kl. 09:13
Ég er reyndar ekki fylgjandi því að hækka skatta, það hefði mjög neikvæð áhrif á heimilin og fyrirtækin í landinu. En við munum þurfa að borga skuldirnar með einum eða öðrum hætti, fyrr eða síðar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 09:26
Ég borga mínar skuldir og ég skila mínum skatti af tekjum, en mér finnst algjör óþarfi að kaupa af öðrum sem ég get svo auðveldlega gert sjálf, það er ekki atvinnuskapandi fyrir mig. það vill nefnilega svo til að það er engin hlutur endilega einfaldur þó maður hafi vinnu.
Ég hef upplifað það að hafa greitt með mér til að fá að vinna, en þá vann ég hjá Pósti og Síma sem gjaldkeri, reyndar aldrei verið háttl launað starf, en mér brá stórkostlega þegar við vorum búin að reikna það út frá a-ö að við þurftum að taka 4700 kr af launum eiginmannsins til að ég gæti haldið áfarm að vinna. Tekið skal fram að þá bjó ég um 15 km frá Egilsstöðum, og okkur dugði ekki einn bíll því vinnutími passaði ekki saman, en þegar allt var reiknað , skattar, akstur, leikskólagjöld fyrir 1 barn, þá stóð dæmið svona, það hefði litið enn verr út ef börnin hefðu verið 2 á leikskóla. Og þarna inní er ekki tekið tillit til þess hvað það er mikill sparnaður í heimilishaldi þegar annar aðilinn er heimavinnandi og kann eitthvað með mat að fara, sú lækkun á útgjöldum varð mín atvinna til nokkurra ára og skattfrjáls með öllu. Menn verða að átta sig á því að það er ekki endilega fjárhaglega hagkvæmt fyrir heimilið að báðir aðilar vinni úti, ef börn eru til staðar undir grunnskóla aldri. Menn skildu í það minnsta reikna dæmið til enda áður en það er fullyrt.
(IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 09:43
Gunnar, við erum sennilega þegar öllu er á botninn hvolft sammála um það að skattpeningunum skuli vera vel varið.
Sigurlaug þú skírir þetta snilldarlega með sannri dæmisögu.
Magnús Sigurðsson, 11.3.2009 kl. 10:02
Hjartanlegar þakkir fyrir að hrista aðeins upp í þessu. Það er ekkert sem heitir friðsöm mótmæli, þau virka ekkert nema á yfirborðiinu. Nú verður fólk að leyfa sér að verða virkilega reitt og heimta aðgerðir, ef það á ekki að verða endanlega troðið í svaðið. Mæli með að þú kíkir á nýjasta myndbandið á síðu Sullenberger og reyndar hjá mér líka. Það eru fjórar hræður að rannsaka mál manna, sem hafa rænt íslensku þjóðina áratugi fram í tímann. Fjórir menn!
Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2009 kl. 13:43
Það eru þjóðríki, sem enginn gerir sér grein fyrir að eru einkafyrirtæki, sem ráða öllum fjármálum heimsins og vinna ötullega saman. Það er enginn seðlabanki í Ameríku, hann er hlutafélag stæstu banka. Það er enginn Bank of england, hann er hlutafélag stæstu banka þar. Ríkin, sem ráða öllu eru samtvinnuð: London City eða corporation london, Manhattan eða Wasington DC, með sína þjóðfána og stjórn óháð löndunum. Svo eru það Swiss og Vatikanið. Menn tala um Zionista, sem eru aðsópsmiklir, en þeir eru bara hluti þessa, þótt þeir ráði mestu um hernaðarbröltið. reka krúnan, óháð ríkinu etc. Þessu er öllu spyrt saman í glæpahring, sem ætlar sér heimsyfirráð. Globalisation. (Evrópusambandið hluti af þeirri áætllun og gæluverkefni Rothchildanna) Þetta eru hornsteinar Pyramydans, sem menn eiga svo erfitt að sjá. Það er verið að hneppa heiminn í ánauð. Núna.
Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2009 kl. 13:52
Takk fyrir commentið Jón Steinar, þetta sem þú bendir á gerir það svo mikilvægt að sýna ekki bönkunum meðvirkni. Við höfum valið um að standa saman og vera sjálfum okkur nóg. Þegar við gerum okkur grein fyrir því að peningakerfið getur ekki grandað hugsun okkar, þá verðum við frjáls og okkur eru allir vegir færir.
Það er nefnilega þannig þegar öllu er á botninn hvoft, þá eigum við valið um það hvort við viðurkennum þetta peningakerfi, bæði sem einstaklingar og sem hópur getum við breytt því sem við viljum breyta því við erum fleiri en þeir. En með áróðri fjölmiðla er okkur haldið hverju í sínum heimi, heimi sem er tálsýn gerð af peningavaldi sem stefnir á, það sem sumir mundu vilja kalla, alheims fasisma.
Það eru tvær slóðir í lok pistilsins sem lýsa þessu vel annað er video gert af Max Igan og hitt er grein af heimasíðu David Icke, báðir þessir menn eiga mjög auðvelt með að skíra það hvers vegna það er svo mikilvægt að við stöndum saman og þykjum vænt um hvert annað á þessum umbrotatímum.
Magnús Sigurðsson, 11.3.2009 kl. 15:46
Það hefur verið gaman að fylgjast með umræðunni hér. En ég hef það á tilfinningunni, hvort sem fólki líkar það betur eða ver, þá er framtíðin fólgin í því að sýna sjálfsbjargarviðleitni, losa sig við fortíðarvandann og bjarga sér meira og betur en áður. Það er engin að tala um að við förum aftur í torfbæi eða eitthvað slíkt en græðgin sem hér hefur ríkt varð landinu að falli og ekki séð fyrir endann á því.
Það er ekkert að því að verða sér úti um garð, fara á sjó (þar komst þú með góða hugmynd Magnús, ég á bróðir sem gæti farið með okkur hjónin á fiskirí) mér finnst þetta einfaldlega skemmtileg og holl hugsun til framtíðar. Sér í lagi þar sem megnið af þjóðinni þarf að finna sér eitthvað að gera. Þarf ekki lengur að mæta í vinnu 9 - 5. Það er engin að tala um að láta útbúa neitt fyrir sig, maður vinnur sig upp í kálgarðinum eins og öðru, frá byrjun til enda.
En mikið á ég bágt með að skilja það, hversu margir virðast ennþá standa á væng sjálfstæðisflokksins - eftir allt og allt.
Nýr hugsunarháttur fyrir þjóðina - takk fyrir mig.
Hulda Margrét Traustadóttir, 12.3.2009 kl. 15:46
Já ég er með kryddjurtir á mínum svölum sem lifðu velflestar af veturinn. Ég tók slátur í haust. Ég mun fara á fiskveiðar í sumar því við eigum bát. Ég mun kaupa beint frá bónda.
Góður pistill og já ég rækta grænmeti með foreldrum mínum og börnum og barnabörnum á sumrin.
Vilborg Traustadóttir, 12.3.2009 kl. 16:12
Takk fyrir innleggið í umræðuna systur. Ég held að það séu ekki allir búnir að meðtaka að það er ekki um tímabundna breytingu að ræða, en hún þarf síður en svo að vera til hins verra. Það að vera sem mest sjálfbjarga með mat mun gera fólk frjálsara, fyrir utan að nú geta margir gert "áhugamálin" veiðar og ræktun að starfi. Bestu matvælin fást óunnin og milliliðalaust s.s. frá bónda og ekki er ólíklegt að bóndinn gæti t.d. þurft á múrara að halda.
Það sem er mest hætta á í svona ástandi er að fólk standi ekki nógu vel saman, þar sem einn hefur vinnu og stendur undir sínum skuldbindingum en annar ekki. Hér á landi hefur yfirleitt verið nóga vinnu að hafa og fólk hefur yfirleitt getað unnið sig út úr skuldum, enda hefur annað oft verið stimplað sem aumingjaskapur. Þess vegna finnst mér sem aldrei fyrr vera ástæða til að hætta meðvirkni með peningakerfinu og standa með náunganum.
Magnús Sigurðsson, 12.3.2009 kl. 17:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.