Þú átt þér engan líkan. Vertu einstakur.

One of a kind

 Þú átt þér engan líkan, vertu einstakur.  Á alltaf við.  Það er aldrei eins mikilvægt að láta sérstöðu sína ráða eins og á krepputímum.  Þú ert einstakur og með sérstöðu þinni losar þú þig við samkeppni.  Kreppa er oft ekki annað en hörð samkeppni um fánýta hluti þar sem glíman snýst um að komast af á öðru en sköpunarmætti egin sérstöðu.

 

Viðurkennd þekking, þ.e.a.s. menntun tekur lítið tillit til sérstöðu einstaklinganna.  Menntun gengur út á að þjálfa rökhugsun eftir ákveðnum fyrirfram gefnum staðreyndum fremur en að efla sköpunargáfu og frumkvæði.  Þessi tegund þekkingar hefur marg oft verið til mikilla hindrana fyrir samfélagið og er oftar en ekki notuð til að halda einstaklingnum innan vissra viðurkenndra marka, burtséð frá augljósum rökvillum. 

 

Sem einfalt dæmi má nefna hversu lengi haldið var fram að jörðin væri flöt og hversu illa Galileo gekk að koma þeirri þekkingu á framfæri að jörðin snerist í kringum sólina, í óþökk akademískrar þekkingar þess tíma.  Þannig má sjá að þekking sem aðlöguð er að fyrirframgefnum kenningum þarf ekki að vera rétt.

Nú má ætla að þekkingu mannsins hafi fleytt það mikið fram að ekki komi til þess að augljósar rökvillur verði varðar með offorsi og heift.  En er það svo?  Heimurinn situr uppi með peningakerfi sem sem er byggt upp á augljósri rökvillu.  Þeirri staðreynd að lánuð eru verðmæti í formi peninga sem aldrei voru til sem raunveruleg verðmæti og af þeim eru innheimtir vextir.  Hin viðurkennda þekking gengur út á að þessu kerfi verði að viðhalda með öllum tiltækum ráðum.  Að öðrum kosti er okkur sagt að samfélagið hrynji  með tilheyrandi hörmungum. 

 

Mentakerfið á að undirbúa einstaklingana fyrir lífið, þjálfa þá til nytsamra starfa.  Skyldi það vera tilviljun að þetta sama menntakerfið gengur lengst í að undirbúa einstaklinga til að aðlagast alþjóðavæddu peningakerfi?  Er það tilviljun að þetta sama menntakerfi eyðir nánast engum tíma í að vara einstaklinga við til hverskonar skuldaþrældóms þetta kerfi leiðir?  Er þetta hin sanna þekking dagsins í dag og er þeir sem eru á öðru máli einungis fylgjendur samsæriskenninga?

Law of attraction

Sú þekking sem hvern einstakling mestu máli skiptir er þekking hans á sjálfu sér, að lifa í fullu samræmi við eigið hjarta.  Okkur er sagt að vinnan göfgi manninn auk þess að afla honum lífsviðurværis.  En gætum þess að sú vinna sé í samræmi við  hjartað.  Því það getur verið svo margt sem hugann glepur.

http://thecrowhouse.com/aw1.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menntakerfið á að undirbúa einstaklingana fyrir lífið, þjálfa þá til nytsamra starfa.  Skyldi það vera tilviljun að þetta sama menntakerfið gengur lengst í að undirbúa einstaklinga til að aðlagast alþjóðavæddu peningakerfi?  Er það tilviljun að þetta sama menntakerfi eyðir nánast engum tíma í að vara einstaklinga við til hverskonar skuldaþrældóms þetta kerfi leiðir?  Er þetta hin sanna þekking dagsins í dag og er þeir sem eru á öðru máli einungis fylgjendur samsæriskenninga?

Þetta er nákvæmlega rétt hjá þér held ég og eiginlega sláandi rétt, en þannig er það oft um sannleikann.

(IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 08:18

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Sigurlaug, ég er ekki viss um að við sem tilbúinn til að horfast í augu við þetta.  Því öll viljum við trúa að það sem við höfum "menntað" okkur til sé okkur til gagns.  En er það svo?

Ég hef lagt ofuráherslu á það við mín börn að skuldsetja sig ekki, því mér hefur fundist skólin leggja litla áherslu á það í sínu "lífsleikni kennslu".  Ég set meir að segja stórt spurningarmerki við það hvort rétt sé að skuldsetja sig til að afla menntunar. 

Það ætti að vera mörgum Íslendingum morgunn ljóst hvað skuldir vegna menntunnar, húss og bíls þýða í dag. 

Magnús Sigurðsson, 25.5.2009 kl. 08:36

3 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Magnús

Tek undir hvert orð. Endi fylgismaður kenninga sem þessa.

Held að það sé erfitt að orða þetta mikið betur og sýnir hversu meðvitaður þú ert.

Orð í tíma töluð.

Ragnar Þór Ingólfsson, 25.5.2009 kl. 08:55

4 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Góð lesning, sammála

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 25.5.2009 kl. 16:45

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka innlitin Ragnar og Þorsteinn.  Satt best að segja bjóst ég ekki við að svona margir myndu kommenta jákvætt á þennan pistil.  Bjóst reyndar við að hann pirraði marga og ég fengi að sjá fleiri komment fyrir einsrengishátt og þversku.   En það eru greinilega fleiri en ég sem leita út fyrir rammann.

Það er ekki að ástæðulausu að Sphinxinn myndskreytir þennan pistil.  Sphinxinn er einstakur og varð að nokkru leiti kveikjan af pistlinum.  Það eru til fræðimenn sem vilja halda því fram að hann hafi verið gerður fyrir 9000 árum en ekki ca. 5000 árum fyrr eins og píramídarnir.  Þessir fræðimenn hafa verið flokkaðir sem nokkurskonar "Indiana Jones" af þeirri akademíu sem hefur röksemdafærsluna skjalfesta sín meginn, eftir fyrirfram gefnum staðreyndum.

En hvort sem Spinxinn varð til fyrir 4000 eða 9000 árum er gaman að velta því fyrir sér hvaða tækni var notuð til að koma allt að 200 tonna steinblokkum fyrir í 10 metra hæð.  Ég vil trúa að þeir sem byggðu Spinxin og píramídana hafi hugsað út fyrir kassann. 

Kannski er komið að því að við Íslendingar verðum að yfirgefa kassann og fara óhefðbundnar leiðir?

Magnús Sigurðsson, 25.5.2009 kl. 23:34

6 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll Magnús. Skemmtilegur, óvenjulegur og jákvæður pistill sem vonandi fær fólk til að hugsa.

Uppeldi "kerfisins" er lúmskt, stundum e.t.v. ekki illa meint né vísvitandi í þá átt fyrir tilstilli einhverra tiltekinna einstaklinga, en það er þannig og í sumum tilvikum þjónandi einhverju(m) sem almenningur gerir sér ekki grein fyrir. Það hvarflar að fæstum að þannig geti verið í pottinn búið og þar af leiðandi eru viðkomandi ekki á varðbergi gagnvart því.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað sannleikur er. Fyrir utan náttúrulögmálin sjálf, eins og t.d. virkni þyngdarafls sem flestir ættu að geta verið sammála um að sé til og hvernig það virkar í grófum dráttum, þá virðist flest annað ef ekki allt einkar afstætt og háð samhengi. Ég komst helst að þeirri niðurstöðu að sannleikur væri það sem væri í samræmi við skoðun meirihlutans í tilteknu samhengi, t.d. landslög og skoðanir yfirvalda eða einræðisherra hverju sinni.

 Sagan um nýju fötin keisarans er dæmi um afstæðan sannleika sem allir aðhyllast um sinn, vitandi þó betur eða grunandi eitthvað annað "utan við kassann". Síðan þegar einhver þorir eða dirfist að benda á eitthvað annað þá fellur gríman ef til vill og nýr sannleikur kemur í ljós eða er viðurkenndur, jafnvel gagnstæður hinum gamla ríkjandi.

Við auglýsum með öðrum orðum eftir hugrekki einstaklingsins til að hugsa og mynda sér skoðanir byggðar á eigin athugunum og jafnvel breyta samkvæmt niðurstöðum sínum (að sjálfsögðu án þess að skaða aðra). - Eða hvað?

Kær kveðja.

Kristinn Snævar Jónsson, 27.5.2009 kl. 18:14

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Kristinn, þakka þér fyrir hólið, ég met það mikils frá manni sem er rekstrarhagfræðingur sem leggur stund á guðfræðinám, vinnur á eigin forsemdum, stundar þá list að semja tónlist með textum og kemur listinni frá sér í formi sem aðrir geta notið.   

Þú ert greinilega einn af þeim sem veist hvað það er að nýta sér sköpunargáfuna og hefur jafnframt lagt á þig menntaveginn til að efla rökhugsun.  Það er sérstakt að þetta fyrirfinnist í einum og sama manninum.  Því tel ég það heiður að hafa fengið þetta komment á þennan pistil . 

Ég er sammála þér um sannleikann og hvað hann getur verið margbreytilegur eftir því sjónarhorni sem hann er skoðaður.  Nýju föt keisarans eru ágætt dæmi um að  þegar athyglinni er beint í ákveðna átt verða hugsanir hagnýtanlegar sem atburður í tíma og rúmi.  Um leið og athyglin er dregin frá honum aftur, verða hún aftur að hugsunum í formi minninga.  Þannig getur athygli og eftirtekt á einhverju orðið að ákveðnum tímasetjanlegum sönnum atburði sem áður var óþekktur.  

Þegar hugsanir okkar tengjast  þeirri skapandi hugsun, sem við köllum Guð, ákvarðar hún hvað þær skapa.  Þetta skírir hvers vegna jákvæðar hugsanir, bænir, trú, sköpunargáfa, markmiðasetningu og margt fleira er okkur svo nauðsynleg. 

Svo er það kúnstin að nýta sér hugrekki sitt og sköpunarkraft án þess að ganga á rétt annarra, en því betur sem einstaklingnum tekst upp í því efni þeim mun meira mun hann uppskera.  Er þá ekki það að lifa í fullu samræmi við eigið hjarta, að gerðu öðrum það sem þú vilt að þeir geri þér, ef þú værir þeirra sporum.  Hversu erfitt sem það kann að virðast í framkvæmd.

Magnús Sigurðsson, 27.5.2009 kl. 22:12

8 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Takk sömuleiðis.

Það fórst fyrir hjá mér áðan að kommentera á önnur atriði í uppleggi þínu. Einnig tek ég heilshugar undir síðustu tvær málsgreinar þínar í aths.7; ég gæti hafa sagt það.

Þetta með að skapa, þá finnst mér einkar aðlaðandi sú túlkun á fornu líkingunni um að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd að sú líking felist ekki síst í þeim hæfileika mannsins til að skapa. Á sama hátt og hugsun og orð eru til alls fyrst. Ég hef grun um að við gerum okkur ekki alveg grein fyrir öllum hæfileikum okkar og "vöggugjöfum" og nýtum þær því þar af leiðandi ekki sem skyldi, sjálfum okkur og öðrum til góðs.

Margir hugsandi menn og konur eiga við þann vanda að etja að vita ekki hvað þau vilja í lífinu eða hvað þau eigi að gera, hvaða stefnu að taka hér og nú og framvegis. Ég aðhyllist þá skoðun það sem manni finnst skemmtilegt og áhugavekjandi, á hvaða sviði sem er, þar felist það sem manni sé ætlað að gera. Þarna skiptir svo sannarlega máli að fylgja hjartanu fremur en skynseminni til lengri tíma litið, þó það geti litið út sem "óttaleg vitleysa" í augum kunningjanna. Ef maður fylgir hjartanu að þessu leyti þá er það líklegra að leiða til meiri hamingju og lífsfyllingar en ella. Í þessu samhengi er merkileg sú tilvitnun í hinum forna texta að "þar sem hjarta þitt er þar er þinn fjársjóður". Með öðrum orðum, það sem maður hefur áhuga á og pælir sífellt í og veltir vöngum yfir, það sem á hug manns allan, þar leynist fjársjóðurinn. Hjá sumum er það peningar, verðbréfafjárfestingar o.s.frv., hjá öðrum eitthvað annað, t.d. "sannleiksleit", vísindaiðkun, listiðkun, lækningar, kærleiksþjónusta o.s.frv.

Um fjármálakerfi heimsins, sem þú minnist á. Ég er sammála þessu með lán og vexti. Þarna liggur ein grundvallarrótin að þrælahaldi almennings. Lán með vöxtum og jafnvel verðbótum til kaupa á neysluvörum svo sem bílum og heimilistækjum, þ.e. öðru en fasteignum og hlutum sem halda verðgildi sínu eða vaxa að verðgildi með tímanum, eru leið til þrældóms. Fólk borgar með þeim hætti jafnvel margfalt verð fyrir slíkar neysluvörur í stað þess að safna fyrir þeim fyrst með sparnaði og staðgreiða svo hlutinn þegar búið er að safna fyrir honum. Fá þá jafnvel staðgreiðsluafslátt í kaupbæti. Lykillinn að þessari <sniðugu og augljósu> aðferð er þolinmæði og agi. Það viðhorf hefur vantað að rækta betur með börnum og unglingum áður en þau fara að vinna fyrir tekjum. Í stöðunni getur tekið nokkur ár að vinda ofan af því sem er enn í gangi af þessu tagi og safna í sarpinn fyrir næsta dýra hlut.

Þar sem vextir (og verðbætur) eru við lýði er hrikalegt óréttlæti í því fólgið að bara lántakandinn beri alla áhættu af verðþróun. Hvað myndi fjáreigandi gera ef enginn vildi fá lán hjá honum? Hann þyrfti þá að passa fé sitt sjálfur, vaxtalaust, eða borga öðrum fyrir að geyma það fyrir sig. Hann þyrfti jafnvel að borga aukalega fyrir öryggisgæslu á fjármununum. Þessum fjárvörslukostnaði er í peningakerfi samtímans, og allt frá því að peningar ("ávísanir") voru teknar upp manna á milli, velt yfir á lántakandann! Það er ekki nóg með að hann losi fjáreigandann undan áhyggjum og kostnaði við fjárvörslu heldur borgar hann líka fyrir að geyma féð fyrir hann og ávaxtar það í þokkabót. Það væri meiri sanngirni í dæminu ef báðir aðilar skiptu með sér ávöxtun fjárins til helminga; skiptu þá með sér bæði áhættu og ávinningi. (Ég skrifaði örlítið um þetta í öðru bloggi og mun gera það nánar á öðrum vettvangi, fyrr en síðar. - Þetta er nú allt í lagi að velta fyrir sér svona hvað-ef hugaræfingum).

Kristinn Snævar Jónsson, 27.5.2009 kl. 23:37

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

"Ég aðhyllist þá skoðun það sem manni finnst skemmtilegt og áhugavekjandi, á hvaða sviði sem er, þar felist það sem manni sé ætlað að gera."  Því  "þar sem hjarta þitt er þar er þinn fjársjóður". 

Kristinn, þessum tilvitnunun get ég ekki verið meira sammála eða meiru viðbætt.  Þennan sannleika hefði ég viljað hafa að leiðarljósi á fyrr, eða réttara sagt ekki hafa glatað honum eftir bernskuna. 

En það er aldrei of seint að endurheimta fjársjóðinn því hann býr innra með hverjum manni.  Það sem ég hef reynt, af fenginni reynslu, er að koma þessari vitneskju yfir til barnanna minna.  Eða eins og þú orðar það svo vel;  það sem manni finnst skemmtilegt og áhugavekjandi, á hvaða sviði sem er, þar felist það sem manni sé ætlað að gera. 

Eins og þú kemur inn á þá gengur fjármálakerfið í aðra átt og er vísvitandi beitt til að hneppa fólk í skuldaþrældóm.  Núna er það að renna upp fyrir okkur Íslendingum að við erum kominn í svipaða stöðu gagnvart fjármálakerfi "alheimsvæðingarinnar" og mörg ríki sem við höfum talið okkur standa framar.  Vonandi ber okkur gæfa til að læra af reynslu þessara þjóða og komast hjá þarflausri eyðimerkurgöngu.

Magnús Sigurðsson, 28.5.2009 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband