Kemst sauðdrukkinn í meira bús?

Bíll var grafinn niður í holu við húsið.

<br><em>mbl.is/Heiðar Kristjánsson</em> 

Ég varð fyrir því óhappi að lána félaga mínum heimilisbílinn fyrir stuttu. Mér hafði verið bent á að hann væri kófdrukkinn en þar sem ég hafði setið að sumbli með honum og þar sem bíllinn var notaður til þess að ná í meira bús, þá harðneitað ég öllum aðdróttunum um slíkt.

 

Síðan gerist það að félaginn lendir í umferðaróhappi og varð valdur af smávægilegu tjóni þegar hann keyrði á tvo bíla. Það fór ekki fram hjá neinum á slysstað að hann var það slompaðu að hann gat ekki gengið. Ökumaður annars bílsins tók þá þann pól í hæðina að keyra á heimilisbílinn minn og gjöreyðileggja hann til að fyrirbyggja að félaginn flýði af vettvangi.

 

Til að lenda ekki með málið í hart og missa bónusinn o.s.f.v. ákvað ég að það væri betra fyrir mig að semja um málið. Eftir svolítil leiðindi nennti ég þessu ekki lengur og ákvað að borga bara allt helvítis klabbið. Enda var mér boðið það á ágætu kúluláni. Skuldabréfið var útbúið í snatri með veði í húsi fjölskyldunnar. En þá kom babb í bátinn, konan er nefnilega skráð fyrir húsinu. Hún er búin að vera með allskonar nöldur og leiðindi, m.a. "við missum húsið hvað þá"-"þú getur ekki gert þetta gagnvart börnunum"-"hvar ætlarðu að hafa tekjur til að borga þetta, við höfum aldrei haft tekjur afgangs í svona lagað" o.s.f.v..

 

Ég reyni að róa hana "svona svona það er nú ekki eins og heimurinn sé að farast", það megi fá talsvert fyrir hræið af heimilisbílnum á partasölu. Það er nú heldur ekki eins og það þurfi að borga þetta strax og ef við samþykkjum þetta getur vel verið að ég fái lán fyrir nýjum heimilisbíl og félaginn haldi jafnvel bílprófinu. Allt er nú betra heldur en að missa lögregluna í málið. Sú gamla er smá saman að komast á mitt band, hún segir þó að ég verði að gera bankastjóranum grein fyrir að þetta veðleyfi hennar sé háð því skilyrði að ég hafi þær tekjur sem ég er búin að telja henni trú um að ég fari létt með að afla.  Svo er nú möguleiki að fá verulega  bætt við yfirdráttinn og ekki veitir nú af því ef maður á að njóta einhvers trausts, en það verður náttúrulega ekki gert með þetta hangandi yfir sér.

 

Þar að auki styttist í mánaðarmót, ég hef engin efni á því að missa af hækkuðum yfirdrætti því við félagarnir erum búnir að ákveða að far í lax og ekki hafa áfengishækkanirnar verið til að hjálpa til við heimilisbókhaldið.  Haldið þið nokkuð að það þurfi að útbúa nýtt skuldabréf út af svona nöldri, eru kúlulán ekki bara eitthvað svona eins hjá Birnu bankastjóra?


mbl.is Sátt að nást um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahahahahhahahh það ætti að banna að láta mann hlæja svona rétt fyrir svefninn, en frábær dæmisaga. Takk fyrir þetta því hláturinn lengir jú lífið

(IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 00:36

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er náttúrulega ekki fyndið Sigurlaug. 

Magnús Sigurðsson, 14.8.2009 kl. 12:49

3 identicon

Ekki meiningin á bak, en sagan þín er góð og ég hef ekki verið kölluð hláturshæna fyrir ekki neitt

(IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband