Eingin hætta er á að icesavelögunum verði hafnað.

Fyrirvarar Alþingis við icesave ganga í aðalatriðum út á að borga eins og hægt er en ekki meira.  Það er eingin hætta á að Bretar og Hollendingar hafni slíku boði.  Þeir munu sjálfsagt draga lappirnar og gera athugasemdir en þeir munu sætta sig við fyrirvarana.  Aðalatriðið er að Alþingi íslendinga hefur unnið þann einstaka gjörning að samþykkja það að íslenskur almenningur taki ábyrgð á skuldum gjaldþrota einkabanka.  Þetta vita Bretar og Hollendingar enda hafa þeir fagnað afgreiðslu Alþingis þó svo þeir hafi ekki tjáð sig um fyrirvarana.

 

Steingrímur ætlar að leika leikritið til enda og telja fólki trú um að varnarsigur hafi unnist að lokum.  Hann talar um upplausn ef fyrirvararnir verði ekki samþykktir.  Upplausnin yrði þá fyrst og fremst í stjórnkerfi elítunnar sem ekki gæti lengur fjármagnað sig með lántökum á kostnað þjóðarinnar.  Almenningur hefur upplifað upplausnarástand mánuðum saman eða allt frá því að stjórnmálamenn ákváðu að láta þjóðina axla hrun bankakerfisins í stað þess að nota tækifærið og byggja upp nýtt Ísland.  Það er hvorki hætta á að "Mammon" né Bretar og Hollendingar hafni svona gylliboði.


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mig langar til að benda á nýja grein Jóhannesar Björns hagfræðings sem hann birtir á síðunni sinn www.vald.org en þar segir;

Landshöfðingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi getur slakað á því eyðilegging hagkerfisins er komin í fastann farveg og kerfið sér sjálft um að koma auðlindum landsins á brunaútsölu. Vinnubrögð AGS koma ekkert á óvart—stofnunin hefur endurtekið þennan leik út um allan heim í marga áratugi—en vanhæfni íslenskra stjórnvalda virðist vera furðu takmarkalaus.

Nýi kommissarinn á svörtuloftum er bókstaftrúarmaður sem dýrkar hagfræðikenningar sem aldrei hafa skilað árangri í okkar litla hagkerfi. Þetta er gamla geðveikin sem Einstein lýsti, að endurtaka sömu mistökin í sífellu en búast í hvert skipti við nýjum árangri. Fljótandi dvergkróna, okurvextir, óréttlát verðtrygging og ólögleg gjaldeyristrygging lána—öll þessi mistök eru tilvísun á algjört hrun.

Fljótandi dvergkróna hefur aldrei staðist, enda hefur gengi hennar alltaf verið úti í hött. Stundum allt of hátt og núna of lágt. Íslensku bankarnir gátu meira að segja spilað fram og til baka með krónuna 2008. Hvað geta þá alvöru peningastofnanir úti í heimi gert krónunni ef svo ber undir? Það verður að koma í veg fyrir þessa spákaupmennsku og  miða gengi krónunnar við körfu helstu gjaldmiðla. Þetta gera Kínverjar og þeir voru eina Asíuríkið sem slapp algjörlega við hrunið 1997 (sem fjármagnsfyrirtæki settu á svið) og þessi gengisstefna hefur reynst þeim vel í kreppunni sem nú gengur yfir.

Íslenskir stýrivextir eru hrein truflun. Þótt ekkert annað bjátaði á þá myndu þeir einir nægja til þess að kollvarpa hagkerfinu. Það er ekki hægt að reka neina atvinnustarfsemi af einhverju viti ef yfir þriðjungur veltunnar fer í að borga okurvexti. Menn sem eru aldir upp í vernduðu umhverfi innan veggja ríkisstofnanna skilja þetta kannski ekki, en þeir sem stunda einhvern rekstur verða að lifa við þessa martröð á hverjum degi.

Verðtrygging lána er eitthvert mesta glapræði seinni tíma. Á áratugunum fyrir 1980 ríkti algjör óstjórn á íslenskum fjármálamarkaði. Verðbólgan æddi áfram og ráðamenn annað hvort ekki skildu hvað var að gerast eða vildu ekki skilja það. Í staðinn fyrir að beita raunhæfum lausnum, t.d. draga úr útlánum bankanna með hærri bindiskyldu, þá var kerfið sett á sjálfstýringu með verðtryggingunni. Þetta var taktísk viðurkenning valdamanna á þeirri staðreynd að þeir kunnu ekki að stjórna hagkerfinu.

Verðtryggingin er ólögleg að því leyti að hún er ekki í anda eðlilegra viðskiptahátta. Hvernig getur það staðist að aðeins annar aðilinn taki alla áhættu af öllu sem kann að fara úrskeiðis í framtíðinni? Það er líka grátbroslegt að sama bankakerfi og rústaði landinu ber ábyrgð á því að verðtryggð lán hafa stórhækkað. Og nú heimtar þetta sama kerfi að fólk ekki aðeins borgi okrið heldur haldi áfram að borga af lánum af húsnæði sem það er búið að missa. Þetta er einhver hroðalegasta ósvífni allra tíma.

Meingallaða kerfi—fljótandi gengi, okurvextir og arfavitlaus verðtrygging lána—gerir starf AGS—að rústa velferðarkerfinu og hleypa erlendu fjármagni í allt bitastætt—auðvelt.

  • Við fáum stór erlend gjaldeyrislán sem að miklum hluta verður sóað í að “verja” krónuna, nokkuð sem þyrfti ekki að gera ef gengið er fest. Það er alveg eins hægt að fleygja þessum gjaldeyri á öskuhaugana.
  • Við verðum neydd til þess að standa við óraunhæfar skuldbindingar. Til þess að geta staðið í skilum þá verðum við að selja auðlindir landsins í vaxandi mæli. Þetta er byrjað og eykst í rólegheitum.
  • Draumur AGS um niðurskurð á félagslegri þjónustu rætist. Þessi þáttur nálgast þráhyggju hjá stofnuninni og er alltaf settur á oddinn. Þótt AGS hafi þurft að biðjast afsökunar eftir að hafa rústað kerfinu í S-Kóreu 1997 þá bendir ekkert til þess að hatur sjóðsins á félagskerfinu hafið nokkuð dvínað.
  • Þúsundir einstaklinga sem þjóðin hefur kosta til mennta flýr land.

Ef stjórnvöld halda áfram á sömu braut þá blasir allt annað og verra Ísland við okkur eftir nokkur ár. Okurvextir, óraunhæfar afborganir af erlendum skuldbindingum og atvinnuleysi eiga eftir að orsaka enn frekari gjaldþrot og meiri erfiðleika. Þetta er óþolandi vítahringur og þróun sem ber að stöðva.

Það verður að höggva á hnútinn. Afnema verðtrygginguna, festa krónuna og lækka stýrivexti niður í 2%. Með því að festa krónuna spörum við gjaldeyri og verjum hagkerfið fyrir erlendum spákaupmönnum. Það er líka nokkuð ljóst að verðtrygging lána og okurvextir eru helstu orsakir þrálátrar verðbólgu.

Tökum þetta kerfi úr sambandi og sjáum hver staðan verður eftir nokkra mánuði. Við höfum engu að tapa því kerfið er ónothæft í sinni núverandi mynd.

Magnús Sigurðsson, 6.9.2009 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband