Þú vissir af fiylgifiskum hátíðanna - You've Felt It Your Entire Life


Hér er enginn guð

IMG_3786 

Í gegnum tíðina hafa fjöllin fangað hugann, augun og fjarlægðin gert þau blá. Eitt af þeim fjöllum sem þetta á við frá því að ég fór að muna eftir er Skagafellið sem klýfur Fagradal, þar sem þjóðvegurinn liggur frá Héraði til Reyðarfjarðar, frá því sem kallað var inn í Dölum af Eiðaþinghármönnum. En nefndist Eyvindardalur í fornsögum, og er kallaður Eyvindarárdalur í dag þó þar séu dalir inn af dal. Einu nafni hafa þessir dalir á stundum verið kallaðir Reyðarfjarðardalir þó svo þeir séu í efra en ekki í neðra.

Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir, þá hef ég undanfarið haft áhuga á torfbæjum. Einn sá bær sem ég hef verið að snudda í kringum tóftirnar af eru Þuríðarstaðir sem mun hafa verið efsti bær í svokölluðum Eyvindardal. Ég hef nokkrum sinnum gert mér ferð þarna upp eftir enda ekki nema nokkurra mínútna akstur frá Egilsstöðum. Gallinn er bara sá þó svo að tætturnar séu mjög skírar í túninu þá eru Þuríðarstaðir nú æfingarsvæði skotveiðimanna. Því hef ég oftar en ekki þurft frá að hverfa enda er skotlínan í áttina að tóftunum, eða réttara sagt í bakkann þar sem þær standa. Það fór samt svo að fyrir rest tókst mér að skoða þær nokkuð vel, bæði á staðnum og með því að fljúga yfir á Google earth.

Þuríðarstaðir tættur

Meiningin var að reyna að gera mynd af bænum eftir frásögn sem ég hafði lesið. Þegar ég fór að leita eftir lýsingum af torfbæjum frá sama tíma rakst ég á aðra frásögn í Múlaþingi sem einmitt segir frá byggð í Eyvindarárdal, og viti menn þar er tilgátumynd af bænum á Þuríðarstöðum teiknuð af Páli Sigfússyni. Er ástæða til að ætla að hann hafi teiknað myndina eftir frásögn því Sigfús faðir hans bjó á næsta bæ, Dalhúsum 1928-1931. Þannig að þarna var ég komin með í kollinn ljóslifandi mynd af bænum þar sem ekki hefur verið búið síðan 1905, - með því að skoða tóftirnar og tilgátumynd Páls, sem passar við húsaskipan tóftanna, og lesa lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar frá vinnumanns ári sínu á Þuríðarstöðum. Hafði ég allt þetta þó svo bærinn hafi horfið ofan í svörðinn löngu fyrir mína tíð.

Í Múlaþings greininni er þremur efstu bæjunum í Eyvinarárdal gerð skil og því sem má finna í heimildum um fólkið þar, sérstaklega Þuríðarstöðum. En þessir bæir voru Dalhús, Kálfhóll og Þuríðarstaðir. Bærinn Kálfhóll var aðeins til um skamman tíma, en hann var byggður 1850 og fór í eiði 1864. Kálfhóll var byggður af Magnúsi Jónsyni f. 1802 og var hann uppalinn á Strönd og Kollstaðagerði en þar hafði faðir hans búið. Magnús var tvíkvæntur og það var með seinni konunni, Þuríði Árnadóttir frá Sævarenda í Loðmundafirði sem hann bjó á Kálfhól. Þau bjuggu þar með fjögur börn, tvö úr fyrra hjónabandi Magnúsar og tvö eigin, auk þess átti Þuríður dóttir sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem kemur við sögu á Þuríðarstöðum.

IMG_4836

Eyvindarárdalur séður frá Egilsstaðahálsi, með Gagnheiði, Tungufelli, Skagafelli og Hnútu í baksýn. Bærinn Kálfhóll hefur staðið fyrir miðri mynd í skugganum af Gagnheiði 

Vorið 1860 verður Magnús úti á Eskifjarðarheiði, pósturinn Níels Sigurðsson fann lík hans seinna um sumarið undir stórum steini með baggann á bakinu og skríðandi maðkinn út og inn um vitin.  Þuríður býr á Kálfhól með börnum þeirra eftir það í eitt ár. Þegar að Rósa dóttir hennar og Gísla á Þuríðarstöðum er farin að búa á Nýabæ á Hólsfjöllum flytur hún til hennar og síðan með fjölskyldunni til Ameríku. Vorið 1861 flytja Bjarni Eyjólfsson og Eygerður Gísladóttir í Kálfhól og bjuggu þar til 1864 og lauk þar með 13-14 ára ábúð. Hvergi getur um í skráðum heimildum, og ekki í þjóðsögum, að búið hafi verið á Kálfhól í annan tíma, en húsin þar munu hafa verið notuð sem beitarhús frá Dalhúsum fram til 1945 þegar hætt var að búa á þeim bæ.

Talið er að búið hafi verið á Þuríðarstöðum af og til í gegnum aldirnar og er jafnframt talið að átt sé við Þuríðarstaði í Austfirðingasögum þó bærinn sé þar ekki nafngreindur. Þjóðsagan segir að fyrst til að búa á Þuríðarstöðum hafi verið Þuríður blákinn og hún hafi verið systir Gróu á Eyvindará. Ef þjóðsagan fer með rétt mál er allar líkur á að Þuríðarstaðir hafi þegar verið í ábúð fyrir árið 1000 og jafnvel frá landnámi. Skráðar heimildir s.s. annálar, kirkju- og dómabækur virðast þó ekki hafa að geyma jafn langa búsetusögu því fyrst er á bæinn minnst með nafni í Gíslamáldaga 1575, þá sem eyðijarðar. Í Múlaþingsgrein Sigurðar Kristinssonar "Heimbyggð í Heiðardal" er sagt að bærinn hafi verið upp byggður 1856. 

"Sóknartal greinir fyrst frá býlinu í apríl 1857. Hefur því verið byggt þar upp sumarið 1856. Það gerði Gísli Nikulásson frá Dalhúsum f. um 1785 og kona hans Margrét Árnadóttir frá Gilsárteigi, 64 ára. Höfðu áður búið á Dalhúsum og Breiðavaði, áttu mörg börn þá uppkomin og flest gift. En hjá þeim var telpa á tólfta ári. Hét hún Rósa og var dóttir Gísla. Nærri sextugur tók hann fram hjá konu sinni með Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Hún var þá vinnukona á Miðhúsum. Þessi Þuríður giftist svo Magnúsi Jónssyni og þau byggðu upp á Kálfshól 1850. En Gísli og Margrét sáu um uppeldi stúlkunnar, sem fluttist fullorðin til Ameríku."

Þuríðarstaðir tilgátumynd

Tilgátuteikning Páls Sigfússonar, samkvæmt lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar er baðstofan í húsinu fyrir miðri mynd sem snýr þvert á burstirnar. Baðstofu gluggarnir hafa verið með tveimur rúðum samkvæmt frásögninni í stað fjögurra

Gísli og Margrét búa aðeins eitt ár á Þuríðarstöðum. Við tekur búsetusaga fjölda fólks og eru að mér telst til nefnd til sögunar a.m.k. 14 hjón sem ábúendur næstu 47 árin auk tuga fólks sem hafði heimili á bænum, flestir stoppa stutt við. Búsetu saga þessa fólks er mikil sorgarsaga, samkvæmt heimildum deyja á Þuríðarstöðum þennan stutta tíma þrettán manns á besta aldri, þar af sjö börn. Það heyrir til undantekninga ef fólk er lengur en 1-3 ár á bænum. Sóknarmannatal vantar frá sumum árana, en nefna má að 4 júní 1865 dó Sigurbjörg Sigurðardóttir 28 ára gömul, Hálfdán maður hennar fer á brott strax eftir lát hennar. Þau höfðu flust í Þuríðarstaði um vorið.

Átakanlegastar eru búsetur tveggja hjóna. Stefáns Jónsonar frá Kirkjubóli í Norðfirði og Guðrúnar Einarsdóttir flytja í Þuríðarstaði árið 1861 með sex börn. Sama ár í júlímánuði deyr Guðrún og í ágúst eru fjögur af börnum þeirra dáin. Árið 1892 flytja í Þuríðarstaði Friðrik Halldórsson 25 ára og Gróa Jónsdóttir 28 ára ásamt syni sínum og móður Friðriks. Sama ár í júní deyr Gróa, viku síðar Jón Björn sonur þeirra, Friðrik verður úti á Eskifjarðarheiði veturinn eftir. Eftirtektar vert er að samkvæmt skjalfestum heimildum flyst fjöldinn allur af því, fólki sem hafði viðdvöl á Þuríðarstöðum þessi ár og komst þaðan lifandi, til Ameríku.

Um aldarmótin 1900 búa þau Halldór Marteinsson úr Helgustaðhreppi og Guðrún Jósefsdóttir úr Tungu á Þuríðarstöðum, en þau hjón bjuggu þar hvað lengst eða frá 1889-1903. Aðeins þau Jón Bjarnason úr Fellum og Vilborg Indriðadóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði höfðu búið þar lengur, eða 1870-1890. Það var 1899 sem Hrólfur Kristbjörnsson hafði ráðið sig sem ársmann á Þuríðarstöðum þá 13 ára gamall. Það var frásögn hans sem varð til þess að ég fór að snudda í kringum Þuríðarstaða þúfurnar.

"Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.

Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði, og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.

Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju."

Síðustu ábúendur voru þau Gunnar Sigfússon frá Gilsárteigshlálegu í Eiðaþinghá og Anna Jónsdóttir frá Fjarðarkoti í Mjóafirði bjuggu þau þar til 1905 og lauk þar með tæplega 50 ára skráðri búsetu á þessu afdalabýli. það er samt nokkuð víst að búseta nær mun lengra aftur en skráðar heimildir herma, það segir allavega þjóðsagan.

Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá ferð Hallgríms í Sandfelli (sem svo var kallaður þó svo að hann hafi búið að Þorvaldstöðum þegar sagan gerist)og Ingibjargar ekkju á Þingmúla niður í Mjóafjörð til að falast eftir hvalreka hjá Hermanni höfðingja í Firði, en hann var uppi 1749-1837. Sagan gæti því verið 50-60 árum fyrir skráða búsetu. Þessi för varð ekki til fjár því þau frændsystkinin Hallgrímur og Ingibjörg hrökkluðust upp yfir Mjófjarðaheiði hvallaus eftir að Hermann hafði reynt heiftarlega við Ingibjörgu. Á Hermann að hafa samið vísu af þessu tilefni um kynni þeirra Ingibjargar, sem varð til ævilangra vinslita þegar hún fréttist upp í Hérað.

Í Mjóafjörðinn vasa vann

var sú bl,,, ,, neðan,

fjandans skíta frethettan

falaði hval á meðan.

Sagt var að Hallgrímur hefði verið skyldur sálmaskáldinu Péturssyni og bæri nafn hans, því eru vísur þessu tengdu mun fleiri í Þjóðsögum Sigfúsar. Gekk reyndar ævilangt á með sendingum á millum þeirra fyrrum vinanna eftir hvalreka ferðina. 

IMG_0641

Eyvindaráin fyrir neðan Þuríðarstaði í skammdegisskímunni um daginn

En þau Ingibjörg og Hallgrímur komu semsagt hrakin í snjófjúki af Mjóafjarðaheiði að Þuríðarstöðum um hánótt og ætluðu að biðjast þar gistingar. En það sem þau vissu ekki þá var að ábúendurnir voru nýlega fluttir í burtu. Þegar Hallgrímur bankaði á baðstofugluggann var honum svarað "hér er enginn guð". Fannst honum þetta skrítinn húmor. En fór inn í bæinn og fann þar ekki nokkurn mann, komst svo við illan leik út aftur og sagði för sína ekki góða þó svo að hann vildi gista í bænum. Ingibjörgu var orðið illt af hræðslu út á hlaði og tók ekki í mál að gista mann- og guðlausan bæinn. Hallgrímur fer niður að Eyvindará að sækja henni vatn að drekka og heyrir þar undarleg hljóð rétt hjá sér, en lét sér samt ekki bregða og segir "Skíttu á þig hver sem þú ert". Ætluðu sumir að Hermann hefði sent draug á eftir þeim, en fleiri álitu að það myndi hafa verið bæjarfylgjan á Þuríðarstöðum sem hefði þarna gert vart við sig, því hennar höfðu margir orðið varir.

Eftir að hafa paufast í skammdegisskímunni um rústirnar af Þuríðarstöðum, þar sem dynkirnir úr haglabyssum skotmannanna yfirgnæfðu niðinn í Eyvindaránni og hvæs haglanna þytinn í golunni þegar þau grófu sig í bakkann þar sem bærinn stóð. Jafnvel þó ég hafi lesið 50 ára hörmungarsögu íbúa kotbæjarins í þessum fallega heiðardal sem stóð undir hlíðum Gagnheiðarinnar sem gnæfir í yfir 1000 metra hæð með austfirska sjónvarpsmastrið ofaná, og með dumbbláar hlíðar Skagafellsins beint á móti. Þá varð auðvitað sú skammdegis mynd sem fæddist á striganum þessa dimmu daga eins og eftirprentun sem hékk í veglegum ramma berskuheimilisins og hafði yfirskriftina "Drottinn blessi heimilið". Gleðileg jól.

 

Þuríðarstaðir málverk

 

Heimildir;

Múlaþing 34-2007/ Heimbyggð í Heiðardal, Sigurður Kristinsson

Skriðdæla, Hrólfur Kristbjörnsson

Þjóðsögur, Sigfús Sigfússon

 


Stóra brúneggjamálið í hnotskurn


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband