Rétttrúnaðurinn

Það hefur ekki farið fram hjá síðuhafa að lesendur eru orðnir sparir á álitið, hvort sem það er með eða á móti. Athugsemdir fáar, og svona sirka hálft like á pistil undanfarin mánuðinn. Lesendum fer samt frekar fjölgandi samkvæmt teljaranum, þó svo álitsgjöfum fari fækkandi.

Rétttrúnaður hefur dreift sér um samfélagið undanfarin ár eins og vírus. Að fylgja honum er orðið samfélagslega viðurkennt fyrirbrigði. Að leiða rétttrúnað er ekkert annað en harðstjórn. Að vera til er samt alltaf algilt. -Og það merkir að hafa álit og láta það í ljós, -bæði með og á móti.

Mikið hefur verið lagt upp úr þverpólitískri forystu í samfélaginu undanfarin ár, -samstöðu á við hlýðum Víði. Ríkisstjórnin hefur lengi spannað allt róvið, EES hjálpað til með regluverkið og mannréttindadómstóll Evrópu sér um að blessa framkvæmdina. Samt, -þegar fylgst er með sannleika rétttrúnaðarins þá er samtíminn austur-þýskur.

Flestir kjósa að þegja, sem virðist vera auðveldasta leiðin, með hliðsjón af ömurlegum aðstæðum félagslegs veruleika í snjall væddum nútímanum. Þar sem hægt er að fletta öllu upp um alla. Afsal okkar á ábyrgð og heilindum styrkir rétttrúnaðinn; heldur honum virkum með ótta okkar, óöryggi og gullfiskaminni.

Rétttrúnaðurinn er samt ekki eitthvað raunverulegt. Í raun er hann ekki annað en andleg töfrabrögð ætluð til aðskilnaðar. Félagslegur veruleiki sem er hannaður til að draga okkur frá eigin gildum. Hann grípur athygli og orku út fyrir reynsluheim sjálfsins, veldur andlegri fátækt og gerir okkur að auðveldri bráð.

Rétttrúnaðurinn kallar fram skringilega samfélagslega samstöðu þar sem við stöndum saman áhrifalaus. Við fylgjumst með Medíu, -stjórnmála, íþrótta og vísinda. Við samþykkjum  innrætinguna með því að þetta upplýsi, og auðgi félagslegan anda, á sama tíma og sálinni er úthýst úr félagslegum veruleika.

Rétttrúnaður er uppkast af samfélagi sem þrífst á meðvirkni, -jafnvel bara á þögninni einni, -er þannig séð alltaf háður okkar afstöðu. Hann er vítahringur skammar, -hótar fólki refsingu með því að upplýsa óæskilega orðræðu og samfélagslega hegðun. Aðgreinir fólk um leið frá frá sálu sinni.

Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að mér skjálist ekki, og hafi ekki oft rangt fyrir mér, þess vegna set ég fram hugrenningar mínar í bloggpistlum. Athugasemdirnar hér, -hin samfélagslega umræða við “rangar” skoðanir, hafa auðgað mína víðsýni í gegnum tíðina.

Það er þess vegna sem það er þess virði að koma orðum í bloggpistil, en ekki bara muldra þau ofan í skúffuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég hef alltaf rétt fyrir mér, og þegar það er ekki augljóst, er það sakir misskilnings.

Bestu kveðjur

Guðjón E. Hreinberg, 17.4.2024 kl. 20:33

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Auðvitað hafa allir rétt fyrir sér Guðjón, -það er óðarfi að þegja yfir því vegna misskilnings.

Annars gerir pistillinn þinn hér á blogginu rétt áðan rétttrúnaðinum frábær skil, svo ég leifi mér að mæla með honum og benda á hér fyrir neðan.

https://gudjonelias.blog.is/blog/logostal/entry/2301429/

Magnús Sigurðsson, 17.4.2024 kl. 21:06

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Rétttrúnaðurinn er hættulegri en margt. Í upphafi kreppunnar og hrunsins 2008 var hann orðinn möst og skylda. Gagnrýni á bankakerfið var kallað ímyndarvandi af hæstvirtum ráðherrum okkar, og sendiferðir farnar til útlanda til að segja að hér væri allt í lukkunnar velstandi. Það var skiljanlega korteri í kreppu.

Íslendingar kepptust við að kaupa nýjustu tækin. Við urðum "uppar" og ekki í fyrsta sinn. 

En þetta með að hafa alltaf rétt fyrir sér, sældarhyggja er það víst kallað að lifa sæll í sinni trú og sjálfsánægju. Þegar yfirvaldið krefst þess að þegnarnir mótist eftir því, þá er kominn kommúnismi eða fasismi. Við þegnarnir megum og eigum að rífast um okkar skoðanir.

Tek mjög undir með þér hér í lokin Magnús að manni þarf að skiljast að manni skjátlast, og það er bara gott, og að læra af því.

Það fer einmitt í taugarnar á mér að pólitískur rétttrúnaður og þöggun er eitthvað sem eflist í nútímanum. Kata fv forsætisráðherra kenndi okkur sérstaka útgáfu, að smæla framaní heiminn, og að brosa óánægju og aðrar skoðanir í burtu. En þessi ríkisstjórn er óvenju dugleg að stunda pólitískan rétttrúnað með kurteislegum aðferðum. Með bjartsýni og jákvæðni er allt tekið út af borðinu sem er gagnrýni. 

Ákveðin tegund af kúltíveruðum kommúnisma, sérfræðingar í því, þessi stjórn.

Ég mótmæli og gagnrýni þegar mér finnst ekki hægt að samþykkja. En mér finnst allt í lagi að fólk blaðri vitleysu þegar maður er að fóta sig í átt og er ekki viss. Ég vil hrósa þegar mér finnst fólk eiga það skilið. 

Pistlar þínir Magnús eru skrifaðir af þroska og jafnvægi, lítil ástæða til að vera ósammála. Það er hrós.

ESB og fleiri valdablokkir eru að ýta fólki lengra í rétttrúnað. Á bakvið hann er efi og jafnvel fullvissa um að allt sé að hrynja. Ekki traustvekjandi. Þannig voru Sovétríkin, en það tók þau samt áratugi að hrynja.

Ingólfur Sigurðsson, 18.4.2024 kl. 00:49

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Upp úr hruninu 2008 naut bloggið sín, stundum tugir og jafnvel yfir hundrað athugasemdir við bloggpistil, þó gestir væru færri en í dag. Þá var deilt skoðunum, upplýsingum sem ekki voru á hraðbergi og heilu bókasöfnunum. 

Þessir tímar eru liðnir það eru sárafáir sem þora að segja frá sjálfum sér og það sem verra er segja álit sitt á þeirri opinberu umræðu sem Medían býður upp á.

Einu sinni var sagt sem svo; þögn er sama og samþykki. Það er með þögninni sem við samþykkjum valdaframsalið, framseljum ábyrgðina á okkur sjálfum og töpum heilindum.

Umræður lands- og heimsmála eru á undanhaldi, hvort sem er á samfélagsmiðlum eða kaffistofunni. Stytting vinnuvikunnar er gerð á kostnað kaffitímans og vinnustaðaspjallsins sem var.

Það var samt nokkuð sérstakt bloggið í gær þá komu margir inn á rétttrúnaðinn í pistlum á sama tíma án þess að vera tengja það við kranann, þá umræðu sem Medían matreiðir. Oftast finnast mér það vera bestu pistlarnir.

Magnús Sigurðsson, 18.4.2024 kl. 06:05

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Held að fólk þori alveg að láta álit sitt í ljós en það er bara komin ákveðin þreyta í fólk.
Enda hvað er til ráða þegar almennt er frekar smellt á uppblásna "frétt" um að mús hafi fretað í Kína en að lesa vandaða grein. Hvað þá heila bók um ferð landkönnuðs inn í myrkustu skóga Afríku - Dr. Livingstone I Presume
Næstu vikur verða fróðlegar því þá munum við sjá hvaða brögðum forsetaframbjóðendurnir munu beita til að ná eyrum, augum og tilfinningum atkvæðanna í þessari samfélagsmiðlaflóru þar sem einhver hulduher virðist fylgjast með hverri færslu og skipuleggja gagnárásir sem virðast m.a. ganga út á að reyna að einangra einstaklinga inn í ákveðna lokaða meðvirknishópa.
Greinarskrif munu allavega ekki hafa afgerandi áhrif á úrslit kosninganna né að fréttir hjá Stöð 2 séu nú opnar öllum

Grímur Kjartansson, 18.4.2024 kl. 10:29

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Við skulum vona að þreytan líði hjá, því það er nauðsynlegt umræðunnar vegna.

Já, það er ekki alltaf mikið á bak við uppblásnar fyrirsagnir, en ég hef ekki mikið orðið var við að pistlahöfundar hér á bloggi beiti þeim brögðum þó medían eigi það oft til, og ég er sammála því að greinaskrif ráði sennilega litlu um úrslit forsetakosninga.

Bubbi mærir að vísu Katrínu í Morgunnblaðs grein í dag, og mbl sér ástæðu til að gera úr því sérstaka frétt.

Síðan er svarta emmið hér á blogginu sér kapítuli út af fyrir sig þegar það tekur upp á því að vitna í vissa bloggara sem því eru þóknanlegir. 

Hvað áhrif svona áróður hefur, -bara þreytandi, ég skal ekki segja. En vissulega er það frekar þreytandi þegar sama tuggan er tuggin aftur og aftur undir hinum ýmsu fyrirsögnum sem nokkurskonar rétttrúnaður.

Magnús Sigurðsson, 18.4.2024 kl. 13:32

7 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis, (RÉTTTRÚNAÐARINS) sem þó er ekki til, heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.

En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður. (Gal. 1:6-8).

Villist ekki, bræður mínir elskaðir! Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. (Jak. 1:16-17).

Augljós dæmi um Gáfur Rétttrúnaðarins, sem koma úr neðra, úr myrkrinu, eru á leið með meirihluta Þjóðarinnar til Heljar:

Löggjöf um eitthvað sem kallað er hjónaband kynvillinga, sem þó er ekki til. Því hjónaband er sáttmáli milli karls og konu og er þannið helgað af Guði.

Löggjöf um kynfrelsi, er blekkingarhelsi Satans, því kyni er okkur úthlutað af Skaparanum við getnað og verður ekki breytt.

Löggjöf um leyfi mæðra til að láta drepa ófædd börn sín. En boðorðið, þú skalt ekki mann deyða er boðorð frá Guði, sem til skamms tíma var kennt í öllum skólum.

Frumvarp til laga um dánaraðstoð, sem á að gefa leyfi til að aflífa sjúklinga líkt og sjúkar skepnur.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 18.4.2024 kl. 20:16

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Rétttrúnaðurinn tekur á sig hinar ýmsu myndir. Sé litið bæði til boðorðanna 10 í gamla testamentinu og hinnar gullnu reglu Krists í því nýja, -þá hafa lög mannanna, flest verið sett til að fara í kringum réttlætið.

Magnús Sigurðsson, 18.4.2024 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband