Rétttrúnaðurinn

Það hefur ekki farið fram hjá síðuhafa að lesendur eru orðnir sparir á álitið, hvort sem það er með eða á móti. Athugsemdir fáar, og svona sirka hálft like á pistil undanfarin mánuðinn. Lesendum fer samt frekar fjölgandi samkvæmt teljaranum, þó svo álitsgjöfum fari fækkandi.

Rétttrúnaður hefur dreift sér um samfélagið undanfarin ár eins og vírus. Að fylgja honum er orðið samfélagslega viðurkennt fyrirbrigði. Að leiða rétttrúnað er ekkert annað en harðstjórn. Að vera til er samt alltaf algilt. -Og það merkir að hafa álit og láta það í ljós, -bæði með og á móti.

Mikið hefur verið lagt upp úr þverpólitískri forystu í samfélaginu undanfarin ár, -samstöðu á við hlýðum Víði. Ríkisstjórnin hefur lengi spannað allt róvið, EES hjálpað til með regluverkið og mannréttindadómstóll Evrópu sér um að blessa framkvæmdina. Samt, -þegar fylgst er með sannleika rétttrúnaðarins þá er samtíminn austur-þýskur.

Flestir kjósa að þegja, sem virðist vera auðveldasta leiðin, með hliðsjón af ömurlegum aðstæðum félagslegs veruleika í snjall væddum nútímanum. Þar sem hægt er að fletta öllu upp um alla. Afsal okkar á ábyrgð og heilindum styrkir rétttrúnaðinn; heldur honum virkum með ótta okkar, óöryggi og gullfiskaminni.

Rétttrúnaðurinn er samt ekki eitthvað raunverulegt. Í raun er hann ekki annað en andleg töfrabrögð ætluð til aðskilnaðar. Félagslegur veruleiki sem er hannaður til að draga okkur frá eigin gildum. Hann grípur athygli og orku út fyrir reynsluheim sjálfsins, veldur andlegri fátækt og gerir okkur að auðveldri bráð.

Rétttrúnaðurinn kallar fram skringilega samfélagslega samstöðu þar sem við stöndum saman áhrifalaus. Við fylgjumst með Medíu, -stjórnmála, íþrótta og vísinda. Við samþykkjum  innrætinguna með því að þetta upplýsi, og auðgi félagslegan anda, á sama tíma og sálinni er úthýst úr félagslegum veruleika.

Rétttrúnaður er uppkast af samfélagi sem þrífst á meðvirkni, -jafnvel bara á þögninni einni, -er þannig séð alltaf háður okkar afstöðu. Hann er vítahringur skammar, -hótar fólki refsingu með því að upplýsa óæskilega orðræðu og samfélagslega hegðun. Aðgreinir fólk um leið frá frá sálu sinni.

Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að mér skjálist ekki, og hafi ekki oft rangt fyrir mér, þess vegna set ég fram hugrenningar mínar í bloggpistlum. Athugasemdirnar hér, -hin samfélagslega umræða við “rangar” skoðanir, hafa auðgað mína víðsýni í gegnum tíðina.

Það er þess vegna sem það er þess virði að koma orðum í bloggpistil, en ekki bara muldra þau ofan í skúffuna.


Bloggfærslur 17. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband