Færsluflokkur: kreppan

Biðin langa

 

Það er óbærilegt að vera svo gjörsamlega ósammála fólki, sem telur sig hafa velferð þjóðarinnar að leiðarljósi, að maður geti þess eins óskað að því mistakist. En þannig hefur mér liðið hvað varðar þau málefni sem íslenskir stjórnmálamenn hafa verið að vinna að um langt skeið.  Það sem maður hefði viljað sjá Alþingi vera búið að hrinda í framkvæmd, í það minnsta vera að vinna að íslenskri þjóð til hagsbóta er í stórum dráttum eftirfarandi;

Afnema verðtrygginguna, losa sig við AGS samstarfið, ná sátt meðal þjóðarinnar með því að hafna icesave samningnum, setja ESB aðildarumsókn í salt á meðan unnið er að brýnustu björgunaraðgerðum fyrir heimili og fyrirtæki.  Þess í stað er pukrast við að hella skuldum yfir þjóðina og því borið við, í hverju málinu á fætur öðru, að hún hafi ekki vit til að meta hvað henni er fyrir bestu.

Um þetta hefði ég getað skrifað langan pistil en þess í stað hef ég fengið leifi til að birta pistil Jóhannesar Björns Lúðvíkssonar á www.vald.org enda kemur hann vel orðum að mörgu af því sem mér liggur m.a. á hjarta. Eins vil ég benda fólki á að kynna sér skrif Jóhannesar á vald.org en hann hefur bent á um langa hríð inn í hverskonar efnahagsumhverfi heimurinn stefnir og hefur haft rétt fyrir sér til þessa. Sjálfur las ég bókina hans "Falið vald" þegar hún kom fyrst út um 1980 og hefur sá lestur alla tíð síðan haft áhrif á mína heimsmynd.

 

En hér kemur pistill Jóhannesar:

 

[13. júlí 2009] Þeir sem bara bíða og vona verða venjulega fyrir vonbrigðum. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu hafa frá byrjun einkennst af óskhyggju-von um að tíminn lækni öll sár-og getuleysið hefur líka verið sláandi. Þess vegna hafa "vinir" okkar í Evrópu getað vaðið yfir okkur á skítugum skónum og í leiðinni stefnt þjóðinni í gjaldþrot.

 

Margar staðreyndir sem hafa verið að koma í ljós varðandi Icesave-samninginn benda til þess að hér sé um nauðungarsamning að ræða og gjörningurinn sé því tæknilega ógildur. Þjóðinni var stillt upp við vegg og meira að segja "frændur" okkar í Svíþjóð og Noregi voru í aftökuliðinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitti líka ólöglegri fjárkúgun. Alþingi á að kasta þessum samningi út í ystu myrkur.

 

Nú er líka rætt um að við verðum að ganga í samtök sömu þjóða og eru að kúga okkur þessa dagana. Það er svipuð lógíg og að segja konu sem er þunguð eftir nauðgun að það sé skynsamlegast að hún giftist árásarmanninum ... það einfaldi málið fjárhagslega! Sannleikurinn er nefnilega sá að flestir stuðningsmenn báknsins í Brussel eru eingöngu að spá í efnahagslega hlið málsins og minnast sjaldan á nokkuð annað. En hvernig í ósköpunum verðum við betur stæð fjárhagslega ef við beygjum okkur undir vald aðila sem eru nýbúnir að kúga okkur efnahagslega? Hvaðan koma þessar væntingar? Er þráin eftir evru að rugla menn alvarlega í ríminu?

 

Ríkisstjórnin sem sat við völd þegar bankarnir hrundu var gjörsamlega lömuð og lagði drög að samningum við Breta og Hollendinga sem allt að því má flokka undir landráð. Tölurnar gengu ekki upp og voru ekki boðlegar næstu kynslóðum skattgreiðenda.

 

Stjórnin sem núna situr hefur verið lítið skárri og hrósar sér helst að því að það séu varnaglar í landráðssamningnum sem leyfa endurskoðun ef illa fer. Bíða og vona er viðkvæðið. Allir heilvita menn hljóta þó að sjá að það er miklu hagstæðara að semja upp á nýtt heldur en að reyna að leiðrétta ónýtan samning seinna. Við þetta bætist að enginn veit hvað (ef eitthvað) fæst út úr erlendu eignasafni bankanna. Það á bara að bíða og vona.

 

Hræðslan um hugsanlegan gjaldeyrisskort hefur lamað íslenska embættismenn í átta mánuði og fært gömlu nýlendukúgurunum ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allt of mikil völd yfir þjóðinni. Það þarf erlenda mynt til þess að kaupa eldsneyti á faratækin og endurfjármagna eldri lán, t.d. hjá Landsvirkjun. En hafa þessir þjónar fólksins gert nokkurn skapaðan hlut til þess að bjarga málunum, annað en að skríða marflatir fyrir AGS og gömlu nýlenduherrunum?

 

Eitt af því sem átti að fara í gang strax í upphafi hrunsins voru samningaumleitanir við sem flestar þjóðir um gagnkvæm gjaldeyrisskipti. Hér er átt við samninga eins og Kínverjar hafa þegar gertvið nokkur ríki. Sem dæmi, þá sömdu Argentínumenn um að taka 70 milljarða kínverskra yuan (jafnvirði $10 milljarða) í skiptum fyrir sömu upphæð í pesetum. Argentínumenn nota kínversku peningana til þess að kaupa hvað sem þeim þóknast frá Kína og Kínverjar nota pesetana til þess að kaupa vörur og þjónustu frá Argentínu. Þetta eru miklu sveigjanlegri viðskipti en t.d. gömlu rammasamningarnir sem Ísland gerði við Sovétríkin hér áður fyrr vegna þess að það er ekki verið að semja um skipti á ákveðnum vörutegundum.

 

Gagnkvæm gjaldeyrisskipti Íslands bara við Rússland færu langleiðina að bjarga okkur frá hugsanlegu hruni ef Evrópa reynir aftur að refsar okkur. Við getum þá keypt af Rússum það sem okkur vanhagar mest um, olíu og bensín. Við seljum þeim svo fisk og ýmislegt annað.

 

Kínverjar eru leiðandi í þessari tegund viðskipta og sennilega til í að taka krónur upp í yuan. Kínverskir ferðamenn gætu þá keypt krónur í Kína áður en þeir leggja land undir fót og heimsækja okkur, Íslensk orkufyrirtæki gætu selt þjónustu sína í Kína og fengið greitt í íslenskum krónum, margvísleg þjónusta er hugsanleg (t.d. umskipun) þegar siglingaleiðin yfir norðurhvel opnast o.s.frv. Og hvernig væri að opna fríhöfn í nokkrum skemmum á Keflavíkurflugvelli þar sem hægt er að umskipa vörum tollfrjálst og jafnvel fullvinna? Allar stærðir flugvéla geta lent í Keflavík og nálægðin við meginland Evrópu, Ameríku og Asíu er ómetanleg. Fríhafnirnar í Hong Kong og Panama eru peninganámur. Fríhöfn sem notfærir sér vaxandi vöruflutninga í lofti ætti ekki að vera neitt síðri.

 

Þegar neyðarástand ríkir þá hafa menn ekki tíma til þess að bíða og vona. Fáránlegir stýrivextir eru búnir að kvelja atvinnustarfsemina árum saman, en samt halda margir áfram að tala eins og eitthvað hljóti nú að fara að gerast. Kannski lækka stýrivextir í júlí ... kannski í september ... kannski með vorinu ... bara að bíða og vona.

 

Háir stýrivextir eru verðbólguhvetjandi í litlu hagkerfi vegna þess að innlend verðsamkeppni er óveruleg. Fyrirtækin reikna þá kostnað okurvaxtanna inn í verðlagninguna. Rannsóknir hafa líka sýnt að háir stýrivextir verja engan gjaldmiðil nema í örstuttan tíma. Spekúlantar kaupa í augnablikinu á meðan almennilegir fjárfestar halda sig í fjarlægð frá hagkerfi sem sýnir sjúkleika sinn með því að beita okurvöxtum. Hagkerfi sem laðar til sín spákaupmenn byggir á sandi.

 

Glæpur sem gengur undir nafninu verðtrygging lána er á góðri leið með að gera heila kynslóð gjaldþrota. Þessi menntaðasta kynslóð Íslandssögunnar verður flæmd úr landi á meðan menn bíða og vona að verðbólgan fari nú að hægja á sér. Sannleikurinn er hins vegar sá að líkt og okurvextirnir þá er verðtryggingin verðbólguhvetjandi. Í venjulegu árferði býður fólk of hátt í húsnæðið ef mánaðarleg greiðslubyrði er lækkuð með óeðlilegum aðferðum sem fela okurvaxtabyrðina þar til seinna.

 

Það verður að höggva á hnútinn.

 

Verðtryggð lán, þar sem annar aðilinn er látinn taka alla áhættu, eru sennilega ólögleg og þau eru vissulega stórskaðleg. Það er furðulegt að þetta siðleysi skuli viðgangast á meðan eignir fólks sem ekkert braut af sér fuðra upp.

 

Leggjum niður verðtryggingu lána-strax! Stórlækkum stýrivexti á sama tíma og verðbólgan hverfur á nokkrum mánuðum. Tökum krónuna af floti og festum við körfu gjaldmiðla. Við erum í stórkostlegu tímahraki og bráðum verður ekkert hægt að gera til þess að koma í veg fyrir miklu verra hrun og brunaútsölu á auðlindum landsins.

www.vald.org


mbl.is Leynd ekki aflétt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salthúsið 2009.

IMG 9870 

Ég hef áður gert verkefni sem unnið hefur verið að á Stöðvarfirði skil hérna á síðunni http://www.magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/867298/ .  Nú er þetta verkefni orðið að veruleika með frábæru samstarfi fólksins á Stöðvarfirði, ferðamálafulltrúa Fjarðabyggðar, eigenda húsnæðisins að ógleymdum fjölda styrktaraðila og annarra velunnara.  

Árið 2005 var flestum fiskvinnsluhúsum á Stöðvarfirði lokað og togaraútgerð hætt.  Það má því segja að kreppan hafi þá byrjað á Stöðvarfirði.  Við félagarnir um sumarhúsið Sólhól, sælureitinn við sjóinn, keyptum eitt af þessum fiskvinnsluhúsum 2007 og höfum leigt það út fyrir húsbíla, hjólhýsi o.þ.h. yfir veturinn, en nú fær húsið í fyrsta skipti hlutverk yfir sumartímann síðan það var aflagt sem fiskvinnsluhús. 

   

Núna föstudaginn 5. júní opnaði Salthúsið á Stöðvarfirði formlega.  Þar verður handverksmarkaður ásamt ljósmyndasýningu úr sjávarútvegi á Stöðvarfirði opin í allt sumar.  Einnig er skjávarpi notaður til að varpa kvikmyndum af veiðum og vinnslu á vegg auk videoverks frá Gjörningaklúbbnum ILC.  Til stendur að vera með aðrar uppákomur s.s. myndasýningar frá náttúru Stöðvarfjarðar, tónlistaratriði, myndlistasýningar ofl, ofl.

Þessi áfangi að opna Salthúsið var mér mjög kær og sýndi hverju samhent átak jákvæðs fólks getur áorkað án mikilla fjárútláta.  Það má með sanni segja að tækifærin bjóðast þó að kreppi að, tækifæri sem ekki voru svo auðsjáanleg verða allt í einu augljós.  Íslenskt handverk og menning á erindi við erlenda ferða menn sem aldrei fyrr, það gerir hagstætt gengi og sú alheimsathyggli sem landið nýtur.  Þá er það bara fyrir okkur íbúa þessa lands að nýta tækifærið sem ferðaþjónusta býður upp á og njóta sumarsins.  Hér með er öllum boðið í Salthúsið 2009.

Hérna á síðunni má finna myndaalbúm frá opnun Salthússins . 


Is it true og landið bláa á grænu ljósi.

 IMG 9819

Það er alltaf fallegra að sjá lífið í litum.  Jóhann Guðrún söng "Is it true" í bláum lit af sannri innlifun fyrir Ísland og var auðvitað lang flottust.  Það átti engin litur betur við Jóhönnu og "Is it true" en litur landsins bláa.   

Undanfarnar tvær vikur hef ég verið upptekinn af litríku verkefni við að breyta flísabúðinni minni, eða réttara sagt að auka við vöruúrvalið.  Það má orða það sem svo að ég hafi veri að laga verslunina að þeim tímum sem nú eru uppi.  Nú verður flísabúðin, auk þess að vera flísa og gólfefna verslun með öllu fyrir baðherbergið, ferðamannaverslun í sumar.  Þar verður aðalsmerkið íslensk ull og handverk.  Verslunin er vel staðsett í miðbæ Egilsstaða með tvö hótel í nágrenninu og Vínbúðin er í næstu dyrum.

 IMG 9821 IMG 9797 IMG 9825 IMG 9815

Með því að smella á myndirnar má sjá hvernig verslunin hefur verið að breytast án þess að flísarnar missi sitt hlutverk.

Vörurnar sem bættust við í búðina eru framleiddar af Matthildi konunni minni og Nínu systur hennar auk fjölda annars handverksfólks sem hefur falið versluninni að selja framleiðsluna sína fyrir sig í umboðssölu.  Matthildur og Nína er miklar handverkskonur og hönnuðir.  Þær hafa núna í nokkur ár getað selt meira af framleiðslu sinni en þær hafa haft möguleika á að anna.  Nína hefur rekið handverkshús á Djúpavogi síðustu fimm sumur.  Nú veitist minni verslun sá heiður og það krefjandi verkefni að selja fyrir þær auk þess handverksfólk sem óskar þess að vörur þess séu teknar í umboðssölu.

Það má sjá myndaalbúmið "Handverk" hérna á síðunni en þar eru vörur þerra Nínu og Matthildar.

Það má semsagt segja að ég sé kominn á grænt ljós og stefnan næstu mánuðina sé skýr.  Fyrir nokkrum vikum var ég á gulu ljósi þar sem ákvörðun var tekin um að hætta að vera verkefnalaus verktaki, gerast þess í stað athafnamaður sem spilar úr þeim spilum sem hafa verið gefin.  Það má lesa um það hvenær ég var á gulu ljósi http://www.magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/848659/ .

Það var í október og nóvember sem ég var á blóð rauðu ljósi ásamt Ólafi Ragnari og íslensku þjóðinni.  Þá sem rann upp fyrir mér, hvort sem mér líkaði betur eða verr, að sem iðnaðarmaður var ég kominn í langt og að mörgu leiti kærkomið frí.  Það var á því "rauða ljósi" sem ég áttaði mig á að sú atvinnugrein sem ég starfa við yrði á löngu rauðu ljósi og sennilega væri best að fá konuna til að kenna mér að prjóna http://www.magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/708668/  .

Verkefnalausi iðnaðarmaðurinn kominn í lopapeysu og tilbúinn fyrir nýtt hlutverk.

En nú er ég semsagt kominn með krefjandi verkefni á nýjum vettvangi, hef notið stuðnings og velvildar minn nánustu auk fjöldann alls af góðu fólki.  Þannig að nú er komið að því að standa undir traustinu.  Vonandi tekst mér eins vel upp að kynna handverk frá landinu bláa eins og Jóhönnu tókst að kynna sitt land með "Is it true".


Sumarið er tíminn.

Ég er frelsið 

Undanfarna daga hef ég haft margt á hornum mér eins og sjá má hér á blogginu.  Skuldavandi heimilanna sem mikið hefur verið í fjölmiðlum hefur snert mig ólýsanlega.  Ég hef hreinlega verið kominn að því að springa í loft upp.  Þó svo að ég telji mig sjálfan vera í nokkuð góðum málum heima fyrir hef ég  samt sem áður horfst í augu við skuldavandi fyrirtækja minna. Eignabruni hefur því ekki farið fram hjá mér frekar en öðrum íslendingum undanfarna mánuði.

Þjóðráð

Núna þegar sumarið er á næsta leiti hef ég ákveðið að beina huga mínum að öllu því jákvæða sem sumrinu fylgir.  Því hef ég ákveðið að blogga ekki um, né eiða orku minni í þá neikvæðu umræðu sem er í gangi að sinni.  Þó að sú umræðan eigi því miður fullan rétt á sér.  Þess í stað ætla ég að beina allri orku minni að því að halda huganum heiðum og einbeita mér að öllum þeim skemmtilegu verkefnum sem framundan eru.  Þeim ætla ég gera skil hér á síðunni.

 

Þessu vil ég þó beina til þeirra sem horfa nú upp á vanda sem virðist óleysanlegur; 

Tíminn er eini raunverulegi gjaldmiðillinn.  Þegar hann líður er ekki ein sekúnda sem þú getur unnið til baka.  Peningar eru því ekki hinn raunverulegi gjaldmiðill.  Þegar þú hefur látið frá þér krónu geturðu alltaf útvegað þér aðra í staðin.   Verum því varká þegar við ráðstöfum tíma okkar í skiptum fyrir peninga. 

Law of attraction

Látum tækifærið til að njóta augnabliksins aldrei fram hjá okkur fara, því eins og Gandhi sagði; Dagurinn í dag er morgunndagurinn sem þú hafðir áhyggjur af í gær.  Var það þess virði?

Vil benda á færslu á hinni síðunni minni hérna á mbl blogginu. http://maggimur.blog.is/blog/maggimur/entry/737300/


Hótanir um harðar innheimtuaðgerðir eru varla viðeigandi.

Ég er hissa á Gylfa Magnússyni að gera þau mistök að hóta hörðum innheimtuaðgerðum þegar fólk íhugar að leitar leiða út úr skuldavandanum með greiðsluverkfalli.  Hann bendir á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem ganga út á að fresta vandanum , dugi.   Fjöldi fólks, sem nú er í jákvæðri eignastöðu,  gerir sér grein fyrir að leið ríkisstjórnarinnar leiðir til þess að röðin kemur að því að verða eignalaust.

Afstaða Gylfa er svipuð og halda því fram að aldrei hefði neinn átt að fara í verkfall til að sækja kjarabætur, ef hann á annað borð var með vinnu.   Verkföll krefjast alltaf  fórna en réttlætiskenndin og von um leiðréttingu hefur verið drifkraftur þeirra.  Það er of seint að fara í verkfall þegar vinnan er farin.

Ég var það heppinn að fá tækifæri til að skýra þetta sjónarhorn hádegisfréttum ruv í dag, og má hlusta á fréttina hér.

http://dagskra.ruv.is/ras2/4435649/2009/05/03/0/

 


mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðnuleysingi gerist athafnamaður.

IMG 9738

Fram til þessa hef ég titlað mig, á þessari bloggsíðu, sem atvinnurekanda og draumóramann um frelsi hugans. En nú eru tímamót hjá mér svo um óákveðinn tíma ætla ég að titla mig sem athafnamann. Ein ágæt bloggvinkona mín birti nýja http://kreppan.blog.is/blog/kreppan/entry/842752/#comments orðabók á síðunni sinni fyrir skömmu og vildi meina að orðið athafnamaður þýddi á nútímamáli, þjófur. Þó þessi bloggvinkona hafi upplýst þessa nýju merkingu ætla ég samt að halda mig við þetta starfsheiti. Því í mínum huga á athafnamaður við einstakling sem veit ekki alveg í hverju starf hans er fólgið og getur átt ágætlega við t.d. auðnuleysingja, draumóramann og tækifærissinna sem er án fastrar atvinnu.

 

Þá er ég kominn að kjarna málsins undanfarna mánuði hef ég verið án fastrar vinnu. Bæði stafar það af minna framboði á verkefnum og því að ég hef verið að safna kröftum eftir líkamstjón sem var lagað með skurðaðgerð í febrúar. Því hefur tíminn verið nægur til að kynna sér góðar hugmyndir sem á fjörurnar hefur rekið og sumum hef ég eins og sannur athafnamaður (þjófur) stolið af úrræðagóðu fólki, jafnvel hefur hugmyndin kviknað hérna á blogginu t.d. hefur http://maggatrausta.blog.is/blog/maggatrausta/ sýnt hvað má gera jákvæða hluti með því að opna Norðurport á Akureyri.

Síðan í nóvember hef ég auðnuleysinginn, haft góðan tíma til að velta fyrir mér framtíðinni. Frá áramótum hef ég unnið markvisst að því að koma komast út úr þeim atvinnurekstri sem fyrirtækið mitt byggði að mestu á, það er verktakastarfsemi í múrverki. En rek ennþá flísa og gólfefnaverslun með einum starfsmanni. Þetta eru miklar breytingar frá því að reka verktak og verslun með 8-12 starfsmönnum, þessi vetur hefur nánast verið eins og langt frí. Bílaflotinn hefur verið seldur eða keyrt á haugana, tæki, verkfæri og lager hafur verið selt á því sem fyrir ári síðan hefði verið talið hálfvirði, viðskiptavildinni tel ég vera vonlaust að koma í verð í byggingariðnaði í dag, enda telur umrædd bloggvinkona hana vera verðmætamat þjófs á sjálfum sér.

Samhliða þessum skipulagsbreytingum hef ég leift draumóramanninum að leika lausum hala á nýjum vettvangi. Eins og sönnum tækifærissinna sæmir þá er sá vettvangur á sviði gjaldeyristöflunnar, alvöru peninga. Ég ætla sem sagt að fara út í túrista bissniss. Flísabúðin mun breytast í ferðamannaverslun í sumar með lopapeysum, handverki og túristaskrani. Hvað er betra en að versla með íslenskt þegar Ísland er orðið eitt ódýrasta land í heimi. Fyrir lopapeysu sem hægt var að fá € 90 (kr.9.500) í fyrra ætti að vera hægt að fá € 90 (kr.15.000) núna rúmlega 50% hækkun. Býður einhver betur. Flísabúðin er við hliðina á vínbúðinni og hef ég alltaf litið öfundar augum til hennar. Ef það er eitthvað sem býður upp á betri afkomumöguleika en túristar í dag er það helst sala á víni eða kannabis en vegna veikleika hugarfarsins treysti ég mér ekki út í þann bissniss.

Gleðilega páska.  Easter chocolate face 






Kreppa hvað? ....hvað annað en dýrmætur tími!

IMG 9699

Undanfarna daga hef ég dvalið á sælureitnum mínum við sjóinn.  Ég hef tekið sólarupprásina með æðarkollunum og skarfinum sem halda sig við tangann í garðinum þar sem atlantshafið leikur við flúðina.  Ég hef farið í göngu ferðir um fjörurnar í nágreninu í frábæru veðri.  Staðið út á palli í myrkrinu á kvöldin, reynt að telja stjörnurnar og komist að því að tveir plús tveir eru ekki fjórir frekar en mér sýnist.  Ekkert sjónvarp, ekkert útvarp, engin blöð, engin kreppa.

http://www.solholl.com/  kíkið á sælureitinn

Frá því í haust hef ég eins og svo margir fleiri haft kreppuna efst í huga.  Í nóvember hurfu verkefnin sem fyrirtæki mitt byggði á og starfsmönnum mínum þá fækkað úr tíu  í tvo frá því í sumar.  Í desember snerti hún mig með atvinnuleysinu og í janúar þegar verkefni komst á dagskrá  kom í ljós að ég átti við líkamstjón að stríða sem ég varð að láta laga með tilheyrandi rólegheitum.  Ég fór í aðgerð og var inn á sjúkrahúsi í nokkra daga.  Þrátt fyrir fréttir af niðurskurði og þjónustuskerðingu heilbrigðiskerfisins varð ég ekki var við ástandið.  Því er sennilega að þakka frábæru starfsfólki heilbrigðisstofnanna og þrátt fyrir kreppu þá held ég að þar verði áfram frábært starfsfólk sem hlífi skjólstæðngum sínum við sífelldum véfréttum.  Þessa daga á sjúkrahúsinu lá ég mest allan tímann með mp3 spilarann og hlustaði á Pink Floyd.  Það sem ég komst næst kreppunni var þegar ég fór fram á setustofu þar sem sjónavarp var í gangi og stefnuræða ríkisstjórnarinnar var á dagskrá, Jóhanna var með síbyljuna sem staðið hefur frá því 6. okt, hvernig til stæði að lágmarka gjaldrot og upplausn þúsunda heimila í landinu.  Ég flýtti mér inn og setti mp3 spilarann í eyrun og hlustaði á Shine on you crazy dimonds.

Í stuttu máli sagt þá þurfti atvinnu- og heilsuleysi til þess að ég tæki fríið sem ég er búin að ætla að taka s.l. þrjú ár.  Ég hafði að vísu hugsað mér að taka gott frí í vetur eins og svo oft áður, en styttra frí og við aðrar aðstæður.  En ég hef fengið ómældan tíma sem ég get notað eftir eigin höfði og hvað er tími annað en verðmæti.   Eða erum við ekki oft að vinna til að eiga góðan tíma seinna fyrir okkur sjálf.  Nú kom tíminn til mín óvænt og frítt.

Myndir frá góðum dögum:

               IMG_9718  IMG_9740  IMG_9744  IMG_9703


Er kreppan ímyndun?

Núna á tímum samdráttar og kreppu er auðvelt að láta neikvæðar hugsanir ná yfirráðum.  Það er sennilega aldrei jafn mikilvægt að halda huganum jákvæðum og skapandi.  Kreppa er í sjálfu sér ekki annað en hugmynd sem okkur er ætlað að trúa á, sem tók við af  hugmyndinni um góðærið sem stjórnmálamenn þreyttust ekki á að útlista fyrir okkur um margra ára skeið.  Við ráðum í raun hvort við trúum á þær hugmyndir sem að okkur er haldið og heimur okkar tekur mynd af þeim veruleika sem við veljum.

 

Á milli góðæris og kreppu gerðist í raun og veru ekki neitt, annað en hugmyndunum sem haldið er að okkur hefur veri breytt, engar náttúruhamfarir hafa átt sér stað, hallæri ríkir ekki í landinu, ekki er skortur á orku og hita, ennþá er það svo að aukakílóin halda líkamsræktarstöðvunum gangandi og verður sjálfsagt eitthvað áfram.  Það sem hefur kannski aðallega breyst er að við höfum minni vinnu og meiri skuldir, en höfum þess í stað eignast eitt það dýrmætast sem hægt er að eignast, tíma. 

 

Svo má líka líta á kreppuna út frá því sjónarhorni að svona tal á jákvæðu nótum sé ekki annað en veruleika firring.  Fjölskyldur eru að missa aleiguna með tilheyrandi upplausn, fyrirtæki séu verkefnalaus, stefni í gjaldþrot og komandi kynslóðir hafi verið skuldsettar upp í rjáfur.  Áhyggjur taka mikinn tíma og orku frá okkur án þess að koma miklu til leiðar.  Bjartsýni og skapandi hugsun ásamt vinnusemi ýtir frá okkur áhyggjunum og gerir framtíðina eftirsóknarverða.

 

Sjálfur hef ég þurft að minna mig rækilega á gildi hugsunarinnar undanfarna mánuði.  Fyrirtækið mitt starfar byggingariðnaði, þar sem flest verkefni hafa gufað upp, þarf að ganga í gegnum miklar breytingar.  Með verkefnaskorti og atvinnuleysi hefur sá tími sem ég hef til umráða tekið miklum stakka skiptum og ég hef reynt að notað hann markvist á jákvæðan hátt.  Líta á þessi tímamót sem tækifæri til að breyta til, þroskast og sjá mína framtíð.

 

Hugsun er afl sem getur framkallað frá hinu óendanlega.  Hún getur framkallað myndir og séð hlutina fyrir því er hún til alls fyrst og er upphaf þess að skapa.  Allt sem við sjáum í kringum okkur á sér upphaf í hugsun, allir hlutir urðu til fyrir hugsun. Hlutirnir taka ásýnd eins og þeir eru hugsaðir, það er hugsunin sem kemur framkvæmdinni á stað.  Þannig voru allir hlutir skapaðir, við búum í veröld hugsunarinnar þar sem hugsunin er hið skapandi afl.

 

 

Með því að hugsa út frá alsnægtum hins óendanlega getur ekkert komið í veg fyrir að við öðlumst þær.  Þetta hafa margir þeir sannað sem hafa brotist til betra lífs frá fátækt.  Munurinn á þeim og hinum sem ekki brutust úr fárækt var ekki heppni eða að þeir væru endilega betri gáfum gæddir, þeir einfaldlega sáu sig fyrir með hugsun í öðrum aðstæðum og aðstæðurnar komu til þeirra eins og fyrir töfra en gerðu það fyrir það að þeir efuðust aldrei.  Til að njóta velgengni verðum við því að hugsa á ákveðinn hátt, þetta á ekkert skylt við samkeppni eða lífsgæðakapphlaup, heldur hugsýnina um að allt sé óendanlegt og þaðan komi hlutirnir til okkar svo framarlega sem við sjáum þá í huganum án allrar vantrúar. 

 

Fjárhagstaða, atvinnuleysi og ýmsar kringumstæður sem þú hefur ekki fulla stjórn á geta þvingað þig í stöðu sem þú hefur ekki áhuga á, en enginn getur komið í veg fyrir að þú skipuleggir í huga þínum þá framtíð sem þú vilt að verði, enginn getur komið í veg fyrir að þú finnir leiðir sem gera hugmyndir þínar um framtíðina að veruleika.

IMG_9696  Veðrið í vetur hefur verið frábært og svona hefur himininn kreppunnar litið út dag eftir dag.


Við árslok 2008 - lífið er draumur.

Nú þegar 2008 er að líða er rétt að taka stöðuna fara yfir árið sem er að líða og setja sér markmið til að dreyma um fyrir árið sem framundan er.  Undanfarin ármót hef ég haft það fyrir vana að skrifa niður mín helstu markmið og áætlanir sem ég geri fyrir komandi ár.  Þar hefur verið um líkamleg, andleg, félagsleg og síðast en ekki síst um fjárhagsleg markmið að ræða.  Þegar ég nú fer yfir árið 2008 sé ég að öll markmiðársins náðust þó svo staðan um áramót sé kannski ekki alveg eins og ég hefði viljað.  Þar kemur til, það sama og hjá flestum íslendingum, fall Íslands. 

Það sem árið 2008 hefur kennt mér umfram allt annað, þess má finna stað í fjallræðu Jesú Matt 6,19 -6,21;  Safnið yður ekki í fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.  Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.  Því hvar sem fjársjóður þin er, þar mun og hjarta þitt vera.  Eftir gengishrun og verðbólgu hefur eignarhlutur minn í þeim fasteigna sem ég á stór minkað, jafnvel horfið.  Fyrirtækin mín hafa orðið verkefna- og verðlaus. Lífeyrissparnaðurinn hefur rýrnað verulega og annar sparnaður að mestu horfið til að lækka skuldir án þess að nokkur eign hafi sýnilega myndast í staðinn.  Þetta hefur síðan valdið mér hugarangri, svefnleysi og reiði.  Fyrir árið 2009 set ég mér ný markmið og drauma, þar verður í fyrirrúmi áhuga minn fyrir velferð annarra og bjartsýni á eigin fyrirtæki,  því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. 

Óska öllum þeim sem líta hér inn frsældar á nýju ári. 

 IMG_9628   IMG_9616   IMG_9618

Veðrið um þessi jól hefur verið draumi líkast: 1. myndin er tekin í gær við Lönd í Stöðvarfirði, sólin að setjast í suð-vestri bak við Kambanesið.  2. myndin er tekinn annan í jóum af svölunum hjá mér.  3. myndin er tekin af svölunum hjá mér 28 des..

 2009 glasses Gleðilegt ár.

 








"Hér stend ég og get ekki annað."

Síðastliðna daga hafa flestar mínar bloggfærslur verið hálfgert skítkast út í þá sem mér hefur fundist vera að gera hluti sem væru til skaða fyrir mig og samfélagið, sem sagt hefðbundið kreppuröfl og svartsýni.  Í morgunn ákvað ég i að blogga ekki um neitt neikvætt í dag einblína á það jákvæða og vinna í stöðunni eins og hún er.  Verkefni dagsins voru að skila inn skráninganúmerum af fyrirtækisbílunum.  Eftir lagasetningu næturinnar ákvað ég að henda tveimur bílum og skila inn númerunum af tveimur í viðbót.  En hef samt tvo vinnubíla enn á númerum.  Einnig fór ég á skrifstofu Vinnumálastofnunar og lét skrá mig atvinulausan í fyrsta skipti á ævinni.

 

Ég er atvinnurekandi með verktakafyrirtæki í byggingariðnaði (flísar / múrverk) auk þess að reka flísa og gólfefna verslun.  Fyrirtækið var mest með 12 starfsmenn á þessu ári en um mánaðarmótin ág-sept sagði ég upp starfsmönnunum vegna lausafjárvanda sem stafaði af verulega erfiðri innheimtu. 

 

Síðan bankarnir hrundu hafa tveir af fjórum mínum helstu viðskiptavinum orðið gjaldþrota og sá þriðji á í verulegum lausafjárvanda.  Þó svo það hafi tapast kröfur upp á milljónir við þessi gjaldþrot, var það verra að við annað gjaldþrotið sem varð í byrjun nóvember hvarf stærstur hluti þeirra verkefna sem fyrirliggjandi voru til áramóta.  Um mánaðarmótin nov-des voru því eingin verkefni fyrir þá starfsmenn sem höfðu ekki þegar farið og ekki aðrir eftir hjá fyrirtækinu en sölumaður í verslun og ég sjálfur. Frá því í byrjun desember hafa þeir klukkutímar sem hafa verið við verktak verið teljandi á fingrum annarra handar. 

 

Ég hef að mestu verið sjálfstæður atvinnurekandi síðan 1983 og yfirleitt verið með menn í vinnu oft hafa komið erfiðir tímar þar sem verkefni hafa verið strjál og verð lá.  Núna skipta verðin minna máli það er verkefnaleysið sem er vandamálið.  Það hefur verið ósegjanlega erfitt að sjá á eftir mínum góðu starfsmönnum og vinnufélögum til margra ára og sérstaklega sárt að vita af sumum þeirra án atvinnu.

Staða mín hefur oft verið erfið áður en ég hef alltaf séð  ljósið framundan.  Núna geri ég mér grein fyrir hve margir eru í miklum vanda og eiga bágt með að sjá ljósið.  Þegar ég kom heim í kvöld beið mín svo þykkt umslag frá lífeyrissjóðnum mínum þar sem mér var tilkynnt að um -20,1% neikvæða ávöxtun væri að ræða það sem af er ári.  En nú er ég sennilega um það bil að falla í þá gryfju að verða neikvæður.


mbl.is Öflugt andóf boðað eftir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband