Torf og steypa

Gilhagi

Allt fram á 20.öld var torbærinn helsti íverustaður íslensks almennings en segja má að eftir það hafi steinsteypan tekið við sem algengasta íslenska byggingarefnið í gerð húsa. Það sem þessar tvær húsgerð eiga sameiginlegt er nærtækur efniviður, nánast má moka honum upp af jörðinni. Því er það svolítið undarlegt að þessum tvö byggingarefni hafi ekki verið notuð meira hvert með öðru en raun ber vitni því útkoman hefði getað orðið alíslensk hús, einstök á sinn hátt líkt og torfbærinn var um aldir. Það hefur lengi verið draumur minn að byggja torfbæ úr steypu og sameina þannig nútíma gæði steinsteyptra húsa og hversu vel torfbærinn fellur að umhverfinu.

Fyrir allmörgum árum þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun voru að komast á dagskrá tók ég nokkra kúrsa í Listaskóla Reykjavíkur. Þar kom fyrir að umhverfisspjöll við Kárahnjúka væru til umræðu í kaffipásum. Sem Austfirðing rann mér blóðið til skyldunnar að verja þessa stærstu framkvæmd íslandssögunnar, sem átti mjög undir vök að verjast hjá öðrum nemendum. Í þeim rökræðum spurði ég hvort þau vissu hvenær mestu umhverfisspjöll íslandssögunar hefði orðið? Án þess að svara þá vildu samnemendur mínir fá mína útlistingu á því. Ég svaraði þeim á þann veg, að þau þyrftu ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá það, mestu umhverfisáhrifin á ásýnd landsins hefðu orðið þegar íslendingar skriðu upp úr torfbænum og fóru að byggja hús á yfirborði jarðar. Það er skemmst frá því að segja að þessi speki steindrap umræðuna um Kárahnjúka í það skiptið, enda var hún komin heim í löngu hruninn torfkofann. 

Underground-Home-2

Einhvernvegin svona gæti draumahúsið úr torfi og steypu litið út

Þrátt fyrir áhugann á steinsteyptum torfbæ og það að ég telji mig ráða yfir þekkingu til að koma hugmyndinni í verk þá hefur ekkert orðið af framkvæmdum og er ég farinn að efast um að hafa ráð og rænu á því eftir þetta, jafnvel þó svo að ég hafi yfir brekkunni að ráða sem tilvalin væri fyrir bæjarstæði. Kannski er það vegna rótgróins óorðs sem torbærinn hefur fengið á sig eftir sína þjónustu í meira en 1000 ár að ekki hafa verið byggð svona hús. Því rétt eins og fólkinu í listaskólanum, langar engan til að fá þann stimpil á sig, að verða þess hvetjandi, að skriðið verði aftur í torfkofana.

Helstu upplýsingar um torfbæi fyrir tíma tölvualdar hafði ég frá honum afa mínum, sem hafði búið í slíkum húsakynnum fram á þriðja áratug 20. aldar. Hann upplýsti mig um að torbærinn væri ekki eftirsóknarverður húsakostur. Tryggvi Emilsson gerði torfbæjarlífinu greinargóð skil í bókum sínum, en hann var samtíðarmaður afa míns og átti það sammerkt með honum að hafa alið manninn í torfbæjum fram eftir 20. öldinni. Í bókinni "Fátækt fólk" eru greinagóðar lýsingar á því hvernig torfbæjar lífið var.

Einnig er í bók Tryggva "Baráttan um brauðið" lýsing á því þegar hann og faðir hans flytja úr Öxnadal í Skagafjörð, nánar tiltekið Árnes í Lýtingsstaðahreppi, eftir að hafa gefist upp á búskap á Gili í Öxnadal; - "Á þessum glaðlega vordegi var mér efst í huga sá torfbær sem klúkti þarna á sléttum velli sunnan undir lágum hól og skaut stöfnunum móti vestri. Enginn var gluggi sjáanlegur, aðeins torfveggir hlaðnir úr klömbruhnausum, þakið var grasi vaxið með eldhússtrompi og mjóu reykröri til að anda um. Mér sýndist bærinn líkastur gamalmenni á bak að sjá. Var þetta þá allt og sumt, vistarveran í fyrirheitna landinu þar sem ég átti fyrir mér að vera vinnumaður upp á þrjúhundruð krónur? Ég hafði gert mér í hugarlund að þarna væri reisulegur bær. Mér varð litið út yfir sveitina og sá að allstaðar voru torfbæir með eldhússtrompum upp úr grasi grónum þökum, og það í svona sveit, rétt eins og þetta væri í Öxnadalnum sem er svo þröngur að fjöllin eru rétt til hliðar. En máski var þetta best þegar á allt var litið, ég hefði kviðið enn meira fyrir því að ganga inn í háreist hús með stórum gluggum og fínum stofum. Og þar sem ég sat á þúfunni fann ég til smæðar minnar og sá að ég var horkranki í slitnum og bættum fötum sem voru ekki einu sinni hrein, það var betra að berja að dyrum á gömlum torfbæ þegar til kom." (Tryggvi Emilsson / Baráttan um brauðið bls.10)

Reykhólasveit

Þarna lýsir Tryggvi innanverðum Skagafirði árið 1920, það eru því ekki nema tæp hundrað ár síðan að heilu sveitirnar á Íslandi höfðu ekki annan húsakost en torfbæina. Hinn danski Daniel Bruun var brautryðjandi í rannsóknum menningarminja á Íslandi og fór ásamt leiðöngrum sínum um landið á árunum 1890-1910. Þessari rannsóknarvinnu má m.a. þakka að til eru bæði teikningar og ljósmyndir af íslenskri byggingarlist og menningu. Er þessu gerð góð skil í bókunum "Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár".

Gilhagi Sgagafirði

Leiðangursmenn Daniels Bruun í hlaðinu á Gilhaga í Skagafirði

 

Gilhagi teikning

 Útlitsteikning af húsaskipan í Gilhaga

 

Gilhagi grunnmynd

Grunnmynd af Gilhaga

 

Núna á 21. öldinni er ekki nokkur ástæða fyrir núlifandi íslendinga að fyrirveðra sig vegna gömlu torfbæanna, enda fáir á lífi sem í þeim hafa búið. Miklu frekar væri að hefja þá til vegs og líta með virðingu til þeirrar fortíðar sem gæti skapað einhverjar umhverfisvænstu byggingar sem á jörðinni finnast.

 

eart-house plan

Grunnmynd af litlum steinsteyptum einstaklings torfbæ

 

Earth_house_interior1

 Útsýnið eins og það gæti verið úr steyptum torfbæ 21. aldarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband