Útmannasveit

IMG_0661

Hvernig gat þetta gerst á minni vakt, mannsins sem ungur í árdaga spilaði á bassatrommuna í skólalúðrasveitt Árna Ísleifs, á sumardaginn fyrsta; “Blessuð sértu, sveitin mín, sumar, vetur, ár og daga”, dagskipunin var að við elliheimilið yrði bragurinn básúnaður. Að vísu reyndi Árni að kenna mér á gítar, og var ég fengin til að berja trommuna vegna manneklu.

Þennan fyrsta sumar dag 1977 var norðaustan krapa slydda og þegar kom að elliheimilinu hafði fryst. Þannig að ekki varð við það ráðið að blása í lúðra því varir frusu við hljóðfærin. Bassatromman var þá ein eftir til að spila á skaðlaust. En svo þröngt var á heyvagninum, sem notaður var til að flytja sveitina, að ekki náðist sveifla á kjuðann svo í trommunni heyrðist og ég þar að auki orðinn krókloppinn.

Núna eftir að það fór að hlýna í öðrum mánuði sumars -skerplu- sé miðað við gamla tímatalið, hef ég farið sem oftar um Útmannasveit. En það heiti var haft yfir út-Hérað, aðallega Hjaltastaðaþinghá, einnig Hróarstungu og jafnvel Jökulsárhlíð. Um þessar sveitir bruna nú á seinna hundraðinu tímatrektir túristar á leið sinn á Borgarfjörð eystri, gjörsamlega grunlausir um það af hverju þeir eru að missa.

IMG_0620

Útmannasveit á verulega í vök að verjast, eins og svo margar sveitir landsins, og virðist þar haldast í hendur, að eftir því sem tískuorðið sjálfbærni hefur sótt á þá hefur matvæla sjálfbærni farið hrakandi. Er þannig komið að sveitir á Íslandi eiga sér víða varla viðreisnar von. Þær “heilla mig og heim til sín huga minn úr fjarlægð draga” ekki svo að ég sé að leita að jarðnæði nú á gamals aldri.

Heldur eru það torf og steypa sem hugann draga. Í sveitinni náði íslensk byggingarlist að blómstra. Mold og grjót úr næstu mýri og urð í þúsund ár, -ásamt reka af ströndinni. Steypumölin úr næsta mel eða fjöru, alla síðustu öld, ásamt sementi og innfluttu bárujárni, að ógleymdri hugmyndaauðgi fólksins, -sem óðum hverfur nú allt í svörðinn.

Það má því ekki seinna vera að berja þá tíma augum þegar fólk fékk að byggja af hjartans list án strangra reglugerða, ég set hérna inn nokkrar myndir sem sýnishorn.

 

IMG_0628

Snilldarlega hönnuð steinsteypt beitarhús frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðarþinghá, þar sem blandað hefur verið saman helstu byggingarefnum íslenskrar hefðar

 

 IMG_0637

Bárujárnið hefur verið notað til uppsláttar steypumóta eins og mótatimbrið áður en þða var notað í þakið

 

IMG_0649

Torfið hefur verið lagt á bárujárnið til einangrunar

 

 IMG_0665

Dæmi um nýtni 20 aldar bóndans, brynningastampur í fjárhúsum gerður úr 200 líta olíutunnu sem skorin hefur verið í tvennt

 

IMG_0495

Fjárhús á Galtastöðum fram, gott dæmi um alda gamla byggingahefð

 

 IMG_0486

Útihús á Galtastöðum fram, hlaða og fjárhús, sem voru í notkun fram á þessa öld

 

IMG_0482

Galtarstaðir fram í Hróarstungu dæmigerður 19.aldar alþýðu-torfbær á Héraði með fjósbaðstofu, búið var í bænum til 1960, er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands

 

IMG_0692

Hóll í Hjaltastaðarþinghá

 

IMG_0693

Steinsteypt 20. aldar fjárhús á Hól, steypumölin var fengin svo til á staðnum

 

IMG_0673

Bændur víluðu ekki fyrir sér að múra smáskreytingar í kringum glugga

 

IMG_0688

Rekaviðar þaksperra á Hól, sennilega af Héraðsandi, sem eru rétt utan við bæinn

 

IMG_0519

Geirsstaðakirkja við Litla-Bakka í Hróarstungu, sem talin er hafa verað svona um kristnitöku, tilgátuhús gert samkvæmt ævafornri byggingahefð landnámsmanna. Í túninu eru taldar leynast  fornminjar, skálabyggingar og fleiri mannvirkja frá landnámstíð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.6.2021 kl. 16:54

2 identicon

Manni hlýnar um hjartarætur að lesa þennan pistil, en um leið fyllist maður depurð yfir þeim ósóma sem þessum menningararfi okkar er sýndur.

Þar er sjaldnast við eigendur að sakast, heldur hinn kerfislæga og menningarsnauða ósóma sem allt hið smáa og fagra vill traðka niður og drepa.

Takk fyrir Magnús, pistil og myndir.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.6.2021 kl. 18:34

3 identicon

Ef eitthvað var "sjálfbært" og "umhverfisvænt" þá var það einmitt þetta.  

Úr eigin jörð í hlaðna torfveggi.  Úr næsta mel í steypta veggi.  Og útsjónarsemin var ótæmandi ... þá ríkti vonin, sjálfstæðið og framkvæmdagleðin.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.6.2021 kl. 19:07

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið Ómar og Pétur Örn.

Það er ánægjulegt að heyra að ykkur líkar pistillinn og mér sýnist það sem ég vildi sagt hafa hafi komist til skila.

Mér þykir vænt um að heyra það frá arkitekt að þessi byggingalist sé það sem sjálfbærni snýst um, og lífsmátinn sem hún spratt af.

Nóg er um hégómann sem tengist auðræðinu þegar sjálfbærni er annars vegar. Og það sem meira er, svona þúsund ára sjálfbærni er ekki hægt að koma fyrir kattarnef nema með regluverki andskotans.

Því regluverki hafa glóbal víxlarar verið einstaklega iðnir við að koma á, nú er varla hægt að búa til ætan bita nema flytja hann hringinn í kringum landið til gerilsneyðingar og helst verður hann að vera fluttur inn eða út úr landi svo hann hlíti regluverkinu.

Það sama á við byggingaiðnaðinn, því lengra sem byggingarefnið er flutt því betur þjónar það regluverkin, og því ónýtari eru húsin fyrir lókal aðstæður.

Magnús Sigurðsson, 7.6.2021 kl. 20:18

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Magnús.

Já sannarlega komst efni hans til skila, og þessi orð þín hér að ofan ættu að rammast inn.

"Mér þykir vænt um að heyra það frá arkitekt að þessi byggingalist sé það sem sjálfbærni snýst um, og lífsmátinn sem hún spratt af.

Nóg er um hégómann sem tengist auðræðinu þegar sjálfbærni er annars vegar. Og það sem meira er, svona þúsund ára sjálfbærni er ekki hægt að koma fyrir kattarnef nema með regluverki andskotans.

Því regluverki hafa glóbal víxlarar verið einstaklega iðnir við að koma á, nú er varla hægt að búa til ætan bita nema flytja hann hringinn í kringum landið til gerilsneyðingar og helst verður hann að vera fluttur inn eða út úr landi svo hann hlíti regluverkinu.

Það sama á við byggingaiðnaðinn, því lengra sem byggingarefnið er flutt því betur þjónar það regluverkin, og því ónýtari eru húsin fyrir lókal aðstæður.".

Já því ónýtari eru húsin fyrir lókal aðstæður.

Kveðja úr sólinni að neðan.

Ómar Geirsson, 8.6.2021 kl. 07:55

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir, Ómar.

Með kveðju úr brakandi blíðu í efra.

Magnús Sigurðsson, 8.6.2021 kl. 14:00

7 identicon

Sæll Magnús.

Takk fyrir pistilinn.

Mér finnst gaman að velta fyrir mér orðum og uppruna þeirra. Hjaltaðaþinghá hefur verið kölluð Útmannasveit, eins og fram kemur hjá þér. Sveitin er nyrsta sveit á Héraði, Úthéraði, en Ut þýðir norður á Gelísku. Þarf að segja meira?

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 18.6.2021 kl. 14:18

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa ábendingu Ólafur, það er margt dularfullt í Útmannasveit og örugglega margt sem þar má grafa upp um dulda sögu landnáms á Íslandi.

Orðin sem höfð eru yfir sumt í þeirri sveit hafa valdið mönnum heilabrotum í gegnum tíðina. Og ekki síður það sem komið hefur í ljós af formynjum þó svo að ekki hafi verið eftir þeim grafið.

Sennilega má finna margan landnámskálann sem ylli mönnum meiri heilabrotum en skálinn í Stöð, sem menn eru nú þegar farnir að kalla Út-Stöð.

Magnús Sigurðsson, 19.6.2021 kl. 06:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband