Goðgá

Ég hafði mig upp á Hafrafellið fyrstu vikuna í sumarfríinu, -sem nú er lokið, til að hitta landvættina og heita á þá landi og lýð til heilla. Landvættir hafa sótt á mig um nokkra hríð og einhvernvegin hefur mér fundist að nær þeim verði komist á sérstökum stöðum sem skapa visst hugarástand. Reyndar fetaði ég slóðinni upp á fell hafranna á gamla sorry Grána, eða réttara sagt Grand Cherokee með lúna sál. Þó klettaborgin sé hvorki há né brattgeng þar sem leiðin lá, þá er ég bæði orðinn fótafúinn og mæðin.

Það er auðvelt að átta sig á því hvers vegna fornmenn tilbáðu goðin á háum útsýnistöðum til fjalla þegar setið er á Hafrafellinu og Héraðið blasir við sjónum. Eins er auðvelt að átta sig á hvers vegna flestar Goðaborgir standa hátt til fjalla þar sem er víðsýnt. Sennilega hafa flestir heyrt talað um að þetta eða hitt sé engin goðgá. Samkvæmt orðabókinni er goðgá ekki að gá eftir goðum heldur óviðeigandi framkoma, s.s. guðlast, -óhæfa.

Goðgá er því móðgun eða fyrirlitning, í besta falli skortur á lotningu gangvart því er telst hafa friðhelgi. Nú á tímum frussast goðgáin í formi upplýsingaóreiðu og falsfrétta frá ríkisstyrktum seiðhjallinum. En það stóð reyndar hvorki til að ákalla goðin né vanvirða, heldur heita á vætti landsins. Ef einhver tíma hefur verið ástæða til að ákalla landvætti þá er það þessi misserin, þegar það er ekki lengur talin goðgá að selja erlendum auðrónum fósturjörðina og fórna sjálfstæðinu á altari glóbalsins.

Reyndar hafði ég haft Hafrafellið í sigtinu úr eldhúsglugganum í mörg ár. Hafði verið að mana mig upp í að ganga upp á það, en sá fljótlega að þangað myndi ekki auðhlaupið. Fyrir nokkrum árum var sett upp skilti fyrir ferðamenn og ætlast til að gengið væri þaðan sem hefði verið álíka erfitt fyrri mig og staulast Stuðlagil. En þegar ég álpaðist svo upp úr þurru að Hafrafellinu, við að mæna á Grímstorfuna, þá sá ég engan þar á gangi á slóðinni og sló í Cherokee.

Grímstorfan er skógi vaxin klettasylla í miðju Hafrafellinu þar sem það er hvað brattast og þangað hefur aldrei verið auðhlaupið. Sagt er að vegna þess hvað erfitt er að komast í hana sé landnámsskógur í klettatorfunni, þangað hefur aldrei komist svo mikið sem sauðkind og lengi var því trúað að Grímur Droplaugarson hafi þar falið sig og sumir háskólaðir fræðimenn trúa því enn. En langt er síðan að Sigfús þjóðsagnaritari upplýsti að það var sakamaðurinn Vestfjarða Grímur sem þar hafi sig falið.

Þessi torfa í Hafrafellinu sást líka úr eldhúsglugga æskuheimilisins. Afi minn hafði mikinn  áhuga á að komast í Grímstorfu og einn sumar morgunn fyrir um 45 árum síðan kom hann og bað mig um að koma með sér þangað rétt áður en hann datt í sjötugt. Einhverra hluta vegna vorum við bara tveir heima bræðurnir, ég sá elsti 17 ára og Sindri sá yngsti 4 ára. Við keyrðum því sem næst undir hamrabelti Hafafellsins, en samkvæmt minningunni var þá þar malarnáma.

Sindri rótaðist upp skriðuna, kleif þverhníptan hamarinn og hvarf upp í Grímstorfuna. Við áttum ekki annan kost en hafa okkur upp á eftir honum, því hann var horfinn inn í kjarrið áður en varði. Þegar við nafnarnir vorum komnir upp, en þangað átti hvor nóg með sig, hóuðum við eftir Sindra og heyrðum í honum inn í ófærri óræktinni við hinn enda klettasyllunnar sem talin er ókleifur. Sindri birtist svo skyndilega og dreif sig niður enda búinn að skoða Grímstorfu. Við komumst að því að erfiðara var að komast niður en upp, en urðum að láta okkur hafa það, enda Sindri komin niður að bíl. Við nafnarnir ræddum aldrei þessa Grímstorfu ferð, -ekki einu sinni um útsýnið.

Morgunninn eftir að ég fór á Hafrafellið í sumar kom bróðir minn, sem næstur er mér í aldri, óvænt í heimsókn og þegar við stóðum við eldhúsgluggann benti ég honum á Hafrafellið og Grímstorfuna, -og sagði honum grobbsögur. Hann hafði aldrei þangað komið. Ég sagði honum að þarna upp hefði ég farið í gær og við afi hálfa leið fyrir næstum hálfri öld, sem hefði verið afrek af sjötugum manni.

-Já afi talaði oft um að fara í Grímstorfuna og undir Fardagafossinn, sagði bróðir minn. -Ég fór með honum upp að Fardagafossi, sagði bróðir. -þá var hann um áttrætt og við að horfa á Ísland – Danmörk keppa í handbolta í beinni á sumar Ólimpíuleikum að mig minnir. Í fyrri hálfleik voru Danir komnir 10 mörkum yfir, þá spratt afi á fætur og slökkti á sjónvarpinu og sagði; “-nú gengur þetta helvíti ekki lengur Áskell við skulum drífa okkur upp að Fardagafossi.”

Af Hafrafellinu blasir Fljótsdalshérað við, allt frá mósku Fljótsdalsins út í bláma Héraðsflóans;

Í skógarbreiðum og brekkuskrúði vafið!

Bláfeldar heiðar rísa þér við síðu.

Vegi þína greiðu nú af hamrabrún hef litið,

sem og skýin bólstrandi yfir sveitanna blíðu.

Héraðið ljómar - Fljótið faðminn breiðir.

Fardagafossinn — Grímstorfan — mig seiðir.

Auðvitað er þessi vísa af mér bæði stolin og skrumskæld, og kemur alla leið frá Grindavík, en lýsir vel Fljótsdalshéraði. Ég er ekkert skáld, svo því sé haldið til haga. En hvað hefur þetta hnoð með landvætti að gera?

Landvættir eru verndarar landsins. Þær skal ekki styggja, því að þá farnast fólkinu illa. Samkvæmt fornum sögnum eru vættirnar flestar ónafngreindar. Bjuggu upp í klettum, undir fossum, í trjám, steinum, hólum og á fjöllum. Velferð byggðanna var nátengd því hvernig vættirnar þrifust í hugarheimi fólksins. Í Heimskringlu Snorra segir svo frá landvættum Íslands eftir að íslendingar höfðu ort níð um Harald Gormsson konung er varð þeim svo reiður að hann vildi senda þangað flota og hefna níðsins:

Haraldur konungur bauð kunnugum manni að fara í hamförum til Íslands og freista, hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá, að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill, og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill, að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austur með endilöngu landi - "var þá ekki nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan, en haf svo mikið millum landanna," segir hann, "að ekki er þar fært langskipum."

En hvernig skal umgangast og virkja landvættina?

Elstu lög Íslendinga, hefjast á því að menn áttu að taka niður útskorin drekahöfuð af skipum sínum til þess að styggja ekki landvætti þegar siglt var að landinu, eða eins og segir í Úlfljótslögum; að menn skyldu eigi hafa höfuðskip í haf, en ef þeir hefði, þá skyldi þeir af taka höfuð, áður þeir kæmu í landsýn, og sigla eigi að landi með gapandi höfðum eða gínandi trjónum, svo að landvættir fælist við.

Í Egilssögu Skalla-Grímssonar er frá því greint, að Egill reisti níðstöng til þess að egna landvætti Noregs og fá þá til að hrekja Eirík blóðöxi konung og Gunnhildi drottningu frá völdum og úr landi, en þau höfðu brotið erfðarétt á Agli og segir sagan svo frá; gekk Egill upp í eyna. Hann tók í hönd sér heslistöng og gekk á bergsnös nokkra, þá er vissi til lands inn; þá tók hann hrosshöfuð og setti upp á stöngina. Síðan veitti hann formála og mælti svo: "Hér set eg upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu," - hann sneri hrosshöfðinu til lands, – "sný eg þessu níði á landvættir þær, er land þetta byggva, svo að allar fari þær villar vega, engin hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka Eirík konung og Gunnhildi úr landi."

Ég tel það enga goðgá að hafa haft mig upp á Hafrafellið.

 

IMG_3846

Hafrafell

 

IMG_3803

Útsýni af Hafrafelli í austur

 

IMG_3791

Útsýni af Hafrafelli í norður

 

 IMG_3790

Seiðhjallurinn á sitt útsendingamastur á há Hafrafellinu

 

IMG_3843

Grímstorfa

 

Hafrafell


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ekki er ofsögum sagt að alltaf verður maður aðeins fróðari eftir að lesa pistlana þína auk þess hversu góðan texta þú skrifar og aldrei verður maður fyrir vonbrigðum....

Jóhann Elíasson, 11.8.2022 kl. 14:57

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér góð orð í minn garð Jóhann, þau eru upplífgandi.

Magnús Sigurðsson, 11.8.2022 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband