Sumarfrí - áður en amma varð ung

Áður en túrisminn og skuldahalinn heltóku landann voru sumarferðalög með öðrum hætti en nú tíðkast. Þetta rifjaðist upp í fyrra þegar ég skoðaði ljósmyndir úr 50 ára ferðalagi um landið, nánar tiltekið frá árinu 1972. Þá var þjóðvegurinn enn þessi grýtta braut og hafði ekki einu sinni bundið slitlag á aðalgötu flestra þorpa landsins.

Þetta var fyrir tíma skipulegra tjaldstæða nema í allra stærstu bæjum. Þegar sjálfsagt þótti að ferðamenn tjölduðu til einnar nætur þar sem nótt nam dag, -svo framarlega sem það væri ekki inn á lóð hjá fólki í þéttbýli eða á ræktarlandi til sveita.

Í dag, -þegar annaðhvort Tene eða hjólhýsið verður þrautalendingin hjá landanum um hábjarta sumarnóttina á landinu bláa, -bæði veðurs vegna og túristavaðals, svo ekki sé nú minnst á munaðinn, -þá getur verið áhugavert að rifja upp þennan horfna tíma.

Foreldrar mínir voru miklir ferðagagarpar í sumarfríum þegar íslensk náttúra var annars vegar. Út fyrir landsteinana fór móður mín t.d. aldrei og faðir minn einungis tvö skipti vegna starfa sinna. 

Ömmur mínar og afar vissu varla hvað sumarfrí var, -hvað þá Tene, eða malbik og að í vændum væru tímar lúxus sumarheimila á hjólum um þjóðvegi landsins, jafnvel samfelldir sólskinsdagar á erlendri strönd, -þá varð himnaríki að duga. 

IMG_0010

Það var mikið ævintýri fyrir okkur börnin að alast upp við ferðamáta foreldra okkar og ekki ósjaldan sem sumarferðalög fjölskyldunnar ber á góma þegar við systkinin hittumst. Ég verð samt að viðurkenna að það er með hálfum huga sem ég segi frá rúmlega hálfrar aldar ferðalagi og birti myndir með hér í þessum pistli. Þær eru eiginlega svo persónulegar.

Mér datt í hug að setja inn blogg um ferðalagið í fyrra, þegar það stóð á fimmtugu, en hætti við, fannst það ekki viðeigandi. Svo var það núna í vetur, þegar ég las í gegnum dagbækur afa míns, að ég sá að hann hafði haldið dagbók um þetta ferðalag, -hvern einasta dag. En ég hygg að þetta hafi verið fyrsta ferðlag hans í sumarfríi, -jafnvel út fyrir Austurland, þá á 64. aldursári, -svipuðum aldri og ég er í dag.

Í þessu ferðalagi vorum við bræðurnir í willysnum með afa, árgerð 1946. Amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum, -Renult, sennilega árgerð 1965, bíll með skottið að framan en vélina að aftan. Frænka okkar, -hennar maður og dætur voru á Opel, líklega árgerð 1959 eða 1960. Tjöldum, svefnpokum, prímusum, pottum og pönnum, -ásamt nesti, niðursuðudósum og öðrum farangri var hlaðið í farangursgeymslur eða bundið á toppgrindur bílanna.

IMG_0011

Ferðin var farin norður í land og var endastöðin Lýtingsstaðahreppur í Skagafirði, en þar bjuggu sonarbörn afa og ömmu með sinni móður hjá móðurforeldrum. Þar snérum við við ásamt ömmu og afa, en frænka og hennar fjölskylda hélt áfram ferðalaginu til Reykjavíkur á Opelnum og síðan sömu leið til baka, því þetta var fyrir tíma hringvegarins.

Ferðalagið hjá okkur tók rúma viku. Um Norðurland var farið vítt og breytt. Tjaldað við Mývatn, í túninu hjá ömmu og afa í Laugafelli á Laugum, - á Akureyri, farið um Ólafsfjarðamúla yfir Lágheiði í Fljót og á Siglufjörð, síðan í Skagafjörð. Til baka var farið um Öxnadalsheiði. Á Akureyri og í  Laugafelli var stoppað bæði á leiðinni norður og aftur austur. Tjaldað var þar sem dag þraut og allar næturnar nema eina svaf afi í tjaldi og amma fleiri en eina.

Í Laugafelli gisti amma í rúmi, eins á Akureyri, en þar heimsótti hún systur sína og varð 71 árs í þeirri heimsókn. Í Skagafirði heimsóttu amma og afi, auk afkomendanna, vini sína presthjónin á Mælifelli, en þau voru þá nýlega komin í Mælifell frá Vallanesi. Amma og afi höfðu búið í áratugi á Jaðri í Vallanesinu allt til fardaga sumarið 1970.

IMG_0008

Þetta var mikið ferðalag fyrir hjón á þessum aldri, mikið á sig lagt með börnum við að skoða landið, sem var svo stórkostlegt, eins og afi benti okkur bræðrum oft á út um bílrúðuna í þessari ferð, -meðan við vorum meira í að benda honum á hvar á veginum williysinn væri. Og ekki leist okkur á allt stórkostlega útsýnið í Ólafsfjarðarmúlanum því willysinn átti til að rása og hrökkva úr gír.

Í dagbókarfærslum afa voru yfirleitt örstuttar setningar um landshætti sem sýna vel hve  honum voru landsins gagn og nauðsynjar ofarlega í huga. Ég ætla að setja hér inn dagbókarskrif  afa á 71 árs afmælisdegi ömmu fyrir rúmri hálfri öld síðan og myndir úr þessu ferðalagi sem faðir minn tók, ásamt einni sem ég tók.

26. júlí. Þegar við höfðum sofið svefni hinna ánægðu aðra nóttina á Akureyri og snúist við eitt og annað fram að hádegi lögðum við af stað lengra vestur.

Keyrðum blómlegar sveitir. Um Dalvík sem er stórt þorp, fyrir Ólafsfjarðarmúla, sem er um leið hrikalegt vegstæði, en mjög fallegt. Hrísey liggur að baki, Hrólfsker með sinn vita og vísar fleyinu hlöðnu fiski. Grímsey liggur í móðu við sjóndeildarhring. Mörg harmasagan er búin að gerast þar á milli lands og eyjar, nú er hafflöturinn eins og spegill.

Við höfðum fengið okkur hádegisbita í Svarfaðardalnum rétt fyrir innan Hof í mjög fallegum skógarreit. Við erum stödd á Ólafsfirði snotrum bæ sérkennileg og falleg fjöll. Sveitin á sennilega ekki margra kosta völ með ræktun. Ég hitti þar Ásgrím Hartmannsson bæjarstjóra, skólabróðir minn frá Eiðum 1930.

Nú höfum við farið Lágheiði, Fljótin, Strákagöng og erum búin rétt einu sinni enn að stofna heimili í ljúfum lækjarhvammi.

  

 IMG_0002

Hjalandi lækur og sléttur grasbali voru lykilatriði þegar tjaldað var til einnar nætur

 

IMG_0005

Magnús afi og Björg amma fyrir framan tjaldið sitt í morgunnsól

 

IMG_0006

Við systkinin; Björg, Dagbjört, Áskell og Magnús, að spá í myndavélina mína

 

IMG_0001

Systkin í sunnan blæ

  

IMG_0003

"Konur gerðu garðinn" í Lystigarðinum á Akureyri sem þótti í þá daga stórkostlegur

 

IMG_0012

Áskell afi og Dagbjört amma við rósirnar hennar ömmu fyrir framan Laugafell

 

IMG_0013

Systur hittast á Akureyri, Björg og Vilborg

 

IMG_0009

Börn fyrir framan íbúðarhúsið á Borgarfelli í Lýtingslaðahreppi

 

Bjarghildur, Erla, Björg, Dagbjört og Áskell

Myndin mín er úr Svarvaðadal, af Bjarghildi og Erlu Einarsdætrum og systkinum mínum

 

IMG_0014

Mamma að kanna tjaldbúðirnar, hún hafði sama kæk og Kim Larsen, setti tunguna upp á vör þegar hún var einbeitt, eða annars hugar. Við börnin hennar erfðum þennan kæk og vorum oft í halarófu á eftir henni. Þetta vandist af með aldrinum, en það var samt svo að mín börn áttu til að kíma og segja hvort við annað "sjáðu nú gerir pabbi þetta aftur"

 

IMG_0021

Þessi mynd er núna akkúrat hálfrar aldar gömul, tekin við Torfunesbryggju á Akureyri. Þetta var síðasta sumarfríð mitt með foreldrum mínum, enda farinn að vinna í byggingavinnu á sumrin 1973. Þetta ferðalag var stutt því mamma var komin á steypirinn. Seinna þetta sumar fæddist Sindri bróðir. Hef myndina með til að sýna hvað pabbi var lunkinn ljósmyndari

 

Ps.Við Matthildur mín höfðum annan hátt á á sumrin með okkar börn, fórum helst ekki neitt, nema þá í fjörurnar úti á landi við Djúpavog, -lengst í sumarbústað eða heimsókn til Húsavíkur.

Það var ekki fyrr en krakkarnir fóru að spá í hvers vegna aldrei væri farið í almennilegt ferðalag á sumrin að við tókum upp á því að fara til Spánar. Enda var ég alltaf í vinnunni og ferðaðist mikið hennar vegna um landið bláa á þeim árum, -og Spánn því ráðið til að vera ekki með hugann við vinnuna ótruflaður með fjölskyldunni.

Undanfarin ár höfum við Matthildur mín átt það til að setjast upp í okkar fjallabíl með kaffibrúsann, fermingasvefnpokana og tjaldið. Sett þá Bubba í spilarann, hlustað á hann syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Teljum okkur þá trú um að við ætlum að tjalda í eina nótt og fara svo heim aftur, en oft endað á því að fara hringinn í kringum landið með útúrdúrum á Vestfjörðum.

Eftir að sólskríkjan Ævi komst upp á lagið, höfum við aftur tekið upp á að sakna daganna úti á landi og förum þá með henni í stuttar ferðir út í Tjadastaði, sem eru gamlar steypumalarnámur á bökkum Lagarfljótsins, tjöldum þar, tínum blóðberg og fallega steina, erum svo komin heim á náttatíma fyrir háttatíma.

Sumarferðirnar okkar Matthildi út á land í denn voru því hentugar börnum á öllum aldri og voru stundum farnar með frændfólki á Djúpavogi. Sumarið 1992 kom einn frændinn með sína fjölskyldu alla leið frá Ástralíu og fór með í svoleiðis ferð, -einmitt sá sem heimsóttur var í Skagafjörðinn 1972.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn lifum við mörg sem munum þessa tíma.

Og þetta að tjalda á litlum bala umluktum lágvöxnum birkihríslum við hjalandi læk, setja upp prímusinn og hita upp saxbauta eða annað gómgæti.  Sofna svo sæll og glaður til að vakna til ævintýra næsta dags.

Kærar þakkir fyrir Magnús að rifja þá upp.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.7.2023 kl. 11:54

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athugasemdina Pétur Örn, -og að minna á gómsætan KEA saxbautann sem skolað var niður með fjallakóki úr læknum.

Þau sitja sjálfsagt í fólki á okkar aldri ferðalög um landið bláa á þessum árum, þetta var svo miklu meira en ferð á milli staða, þau voru nokkurskonar safari jorurny í jóreyk þjóðveganna.

Veiðistöngin höfð með í för, og ef ekki væri fyrir þetta ferðalag um Norðurland hefði maður misst af Siglufirði með öllum sínum síldarbryggjum sem voru svo miklu meira virði en allar laxveiðiár landsins til samans.

Bryggjurnar hurfu nokkru seinna ásamt öllum sínum fínu veiðistöðum og Siglufjörður varla borið sitt barr síðan, hvað þá sem fiskibærinn mikli  fyrir polla.

Magnús Sigurðsson, 26.7.2023 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband