Sænska sálfræðin

Þegar ég var enn á besta aldri sagði vinur minn mér, sem var mörgum áratugum eldri, -þá á svipuðum aldri og ég í dag, hver munurinn væri á almennri og sænskri sálfræði.

Hann sagði sænska konu hafa verið með son sinn í sænskri verslunarmiðstöð og eftir að hafa lokið erindi sínu þá vildi hún fá soninn til að koma heim, en hann var að leika sér á gormhesti. Sonurinn hlýddi engu sem mamma hans sagði og hélt bara áfram að hamast á hestinum.

Þá kom sálfræðingur sem hún þekkti, sérfræðingur í barnasálfræði, ásamt æskuvini sínum sem hafði ekki aðra menntun en lífsreynsluna. Konan bað sálfræðinginn um að tala um fyrir syni sínum.

Sálfræðingurinn talaði við drenginn og sagði honum m.a. að önnur börn biðu eftir því að komast að til að leika sér á hestinum auk þess sem mamma hans væri tímabundinn og þyrfti að komast heim til að elda mat fyrir hann og fjölskylduna, þetta útlistaði hann fyrir drengnum auk fjölda annarra sviðsmynda.

Þetta bar samt engan árangur. Sálfræðingurinn snéri sér þá að vini sínum og sagði villt þú prófa. Hann kinkaði kolli og beygði sig snöggt niður að drengnum og hvíslaði nokkrum orðum að honum. Strákurinn stökk strax af hestinum og sagði; mamma við skulum fara heim.

Sálfræðingurinn var forvitinn um hvað vinur hans hefði sagt við strákinn og spurði hvort hann vildi segja sér það. Já það er alveg sjálfsagt sagði vinurinn, -ég sagði; ef þú kemur þér ekki af hestinum eins og skot þá lem ég þig.

Þegar ég bjó í fjölbýli á fyrstu hæð í úthverfi við sundin blá skömmu eftir aldamótin, þá kom fyrir eitt kvöldið, þegar mullaði niður blautum snjó, að ég lá í sófanum fyrir framan imbakassann að horfa á fréttirnar.

Skyndilega smullu blautir snjóboltar með þungum dynkjum í stofuglugganum. Ég leit út, og þegar krapinn hafði runnið niður rúðuna horfðist ég í augu við tvær 14-15 ára stelpur hnoða snjóbolta við grindverkið úti við götu. Mér fannst rétt að veita þessu ekki frekar eftirtekt og hélt áfram að horfa á imbann. Enda leið ekki á löngu þar til snjóboltaskothríðin færðist upp í stofugluggana á hæðinni fyrir ofan.

Þar kallaði húsfreyjan ekki allt ömmu sína enda úr Vestmannaeyjum þar sem elsku mamma hefur ekki alltaf verið á hverju götu horni. Hún snaraðist út á svalir og sagðist hringja á lögregluna ef þessi djöfulgangur hætti ekki á stundinni. Við þetta jókst snjóboltaskothríðin svo hún varð að forða sér inn, -og áfram hélt skothríðin í gluggana hjá henni.

Þessi húsfreyja var vön að standa við orð sín og hafði sambönd innan lögreglunnar, á það hafði reynt í götunni, enda vann hún þá í Dómsmálaráðuneytinu ef ég man rétt. Ég stóð því upp frá fréttunum og klæddi mig í útivistarföt, Matthildur mín spurði hvert ætlar þú nú, ég sagðist ætla út að hitta stelpurnar.

Svo fór ég í gegnum bílageymsluna og út um annan stigagang í húsinu, kom síðan gangandi eftir gangstéttinni eins og hver annar joggari sem var á leið út og suður göngustíginn.

Þegar ég stóð á milli stelpnanna fyrir framan stofugluggann minn og þær voru að hnoða snjóbolta til að henda í gluggana á hjá nágrönnunum í íbúðinni fyrir ofan, sagði ég við þær fáein orð. Hendurnar á þeim sigu og snjóboltarnir láku úr lófunum áður en þær tóku til fótanna niður götu.

Þegar ég var kominn inn og var lagstur aftur upp í sófa fyrir framan kastljósið í frið og spekt, spurði Matthildur mín; -hvað sagðirðu við stelpurnar Maggi.

Ég sagðist bara hafa tekið þær á sálfræðinni. En hún gafst ekki upp og spurði ákveðin; -hvað sagðirðu. Ég sagði; -vitið þið það stelpur, ef þið hættið ekki þessum djöfulgangi eins og skot þá lem ég ykkur. – Jæja -sagði Matthildur -það má þá teljast heppni ef lögreglan bankar ekki upp á eftir.

Já hún er nú svona og svona sænska sálfræðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Góð saga, oft "sjá" ekki þessir sprenglærðu sérfræðingar það augljósa... 

Jóhann Elíasson, 6.2.2024 kl. 07:45

2 Smámynd: Örn Gunnlaugsson

Þetta er nú bara lýsandi fyrir það hvernig tekið er á öllum sköpuðum hlutum á Íslandi í dag. Það má bara alls ekki taka á hlutunum með þeim hætti sem virkar. Menn brjóta af sér og er mætt með dekri. Þjófnaður úr verslunum hér færist td. sífellt í aukana og er hugsanlegt að það sé vegna þess að viðurlögin séu engin? Sums staðar í heiminum er þannig tekið á slíkum glæpum að fyrst er höggvinn af fingur og svo hendi - engin vandamál þar.

Örn Gunnlaugsson, 6.2.2024 kl. 09:58

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar Jóhann og Örn, -þið segið nokkuð og já sennilega erum við að verða sænskari með árunum. 

Viðurlög við hnupli hafa nú alltaf verið harðari en við stórþjófnaði svo réttarríkis Jóns Hreggviðssonar sé nú minnst með réttu.

Annars frétti ég það um daginn að núna um áramótin hefði grunnskólinn hér í bæ bannað snjallsímanotkun.

Mér skilst að við það hafi skvaldur aukist í frímínútum og jafnvel sé farið að örla á prakkarastrikum.

Það er spurning hvort síminn er orðinn snjallasti sálfræðingurinn því maður hefur varla orðið var við svo mikið sem bjölluat árum saman.

Magnús Sigurðsson, 6.2.2024 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband