Hátíðarkvöldverður

Vegna hátíðar ljóssins

verður rjúpan ekki friðuð

með öðru en útrýmingu

-úr þessu

Þangað til hangir hún

á bláþræði

í skugga þakskeggsins

sem jólaskraut

frá liðinni tíð

-í gula baggabandinu

sem varð keldusvíninu

að aldurtila um árið

 

Fyrir um það bil tveimur árum datt ég í ljóðlestur og hef varið drjúgum tíma í að lesa mig í gegnum ljóðabækur, -vissi ekki að ég ætti orðið tugi ljóðabóka, en þær hafa safnast að mér eins og þjóðsögur í gegnum tíðina og hefur þess mátt sjá merki hér á síðunni undanfarin ár.

Jafnframt þessum lestri ljóða alvöru skálda, þá hef ég látið eftir mér að birta eitt og eitt frumsamið ljóð. En ég hef um nokkurra ára skeið skrifað hjá mér örstuttar endaleysur, sem kvikna oftast upp úr engu, og mér finnast þess verðar að skoða seinna.

Um ljóðið hér að ofan, sem mætti flokka undir frekar nöturlegan kveðskap, má það helst segja að það hafi orðið til undir áhrifum frá Gyrði Elíassyni, þegar ég var að lesa eina af ljóðabókum hans.

Þetta árið ákvað ég að birta eitt frumsamið ljóð hér á síðunni í hverjum mánuði, þau hafa reyndar orðið fleiri en í upphafi var ætlað, -en nú læt ég staðar numið. 

Það hefur komið skemmtilega á óvart hversu vel þessum ljóða hugleiðingum mínum hefur verið tekið og ber mér að þakka fyrir það sérstaklega. 

Ég vil í tilefni hátíðar ljóssins óska þeim, sem eiga það til að líta inn á þessa síðu, -gleðilegra jóla, árs og friðar.


Sjö sekúndur í frelsarans slóð

Gólanhæðir norðaustan við Galíleuvatn. Svart grjót og öræfi allt upp í mót. Þoka, súld og hrjóstrugt land, -skyldi ég vera fyrir austan. Allavega er Sýrland einhversstaðar þarna fyrir austan úti í dimmri þokunni.

Þrjátíu, fjörutíu, fimmtíu skriðdreka fylki um víð og dreif undir seglum í felulitunum með hlaupin niður, -bíða þess að það komi tímar.

Rústir þorpsins í þokunni við veginn; skólin, húsin, moskan allt sundur skotið eða niður sprengt, -áður Sýrlenskt land.

Damaskus

Ps. Textinn hér að ofan er úr dagbókinni minni þann 14. febrúar 1998. Þá var ég í landinu helga við steypu störf.

Þennan dag tókum við félagarnir frí og keyrðum í kringum Galíleuvatn og upp í Gólanhæðir, -þar sem við sáum skriðdrekana sem biðu þess að kæmu tímar.

Alla dagbókarfærsluna hef ég birt tvisvar áður, sem sjö sekúndur hér á blogginu árið 2020, -og upphaflega í frelsarans slóð 1998. 


Fullveldisdagurinn

Til hamingju með daginn góðir landsmenn. Í landi hinna dánu drauma hefur nú ESB ríkisstjórn verið sett í burðarliðinn, ásamt því að leiða kúlulánadrottninguna til öndvegis og gefa náhirðinni frítt spil. Kjósendur virðast hafa endanlega ákveðið að skila fullveldinu eftir 106 ára samfylgd.

Áður en fullveldið kom til, -var lifað í meira 1000 ár í torfbænum, skriðið var út úr hálfhrundum moldakofa með fullveldinu. Síðast þegar fullveldið tapaðist fyrir u.þ.b. 760 árum var það vegna borgarastyrjaldar kennda við Sturlunga.

Hvorki skandínavíski ríkisdalurinn né danska krónan dugði til að koma þjóðinni út úr hálfhrundum moldarkofanum og litlu munaði að hún yrði þar hungurmorða. Það var ekki fyrr en með fullveldinu og íslensku krónunni að fór rofa til, en nú gæla kjósendur við evru.

Kjósendur munu ekki geta svarið af sér það skoffín sem þeir hafa nú upp vakið, -ekki frekar en skítinn af fjósbitanum sem þeir ólu óskapnaðinn á til þessa. Ættfærðum Íslendingum mun sennilega héðan í frá einungis fjölga í krosslausum kirkjugörðunum á landinu bláa.

Já - bí bí og blaka, álftirnar kvaka, ég læt sem ég sofi, en samt mun ég vaka.


Sérviska

Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, sjaldan eiga þessi sannindi betur við en á tímum þegar til er of mikið af öllu öðru en tíma. Þau eru orðin nokkur árin síðan að vistarband kaupaæðisins fór að þvælast um á milli eyrnanna á mér, eða frá því seint á síðustu öld. Það má segja að eitt atvik hafi öðrum fremur kristallað sannindi kaupránsins. En það var þegar góður vinur minn kom eitt sinn í heimsókn. Þessi vinur var, eins og margir af mínum bestu vinum hafa verið í gegnum tíðina, ártugum eldri en ég, því má segja um kynni mín af mörgum minna vina "það ungur nemur, sem gamall temur".

Atvikið sem um ræðir gerðist eitt kvöldið sem vinur minn kom í kaffi og spjall. En þeim ánægjulegu heimsóknum varð ég ósjaldan aðnjótandi á þeim árum. Hann kom venjulega á gamalli Lödu með "fjallstarti", þannig að hann varð að bakka upp í heimkeyrsluna til að Ladan rynni í gang undan brekkunni að heimsókn lokinni. Á laugardeginum fyrir téða heimsókn hafði ég verið að þvo og bóna mynstursteypta heimkeyrsluna, sem rúmaði fjóra bíla. Það hafði farið nokkur tími í að fjarlæga svört dekkjastrik eftir veturlangt fjallstart Lödunnar auk þess sem ég lét nagladekkjarispur fara í mínar fínustu. Vinur minn kom einmitt í heimsókn á meðan á pjattinu stóð svo ég notaði tækifærið og bað hann um að láta Löduna ekki renna í gang eftirleiðis fyrr en hún væri komin út af bílastæðinu mínu og út á götu. Hann tók vel í það eftir að hafa skoðað aðstæður, svo fórum inn í kaffi.

Næst þegar hann kom í heimsókn og hafði bakkað upp í bílastæðið bað hann mig um að koma með sér út á bílaplan og reyna að koma tölu á þau verðmæti sem þar væru. Ég hafði nýlega keypt splunkunýan amerískan eðalvagn auk þess sem þar stóð nýlegur amerískur pikcup. Hann spurði mig hvort ég hefði reiknað út hvað bílarnir á planinu kostuðu og hvort ég hefði ekki  áhyggjur af því að þeir rispuðust eins og planið? Ég var tregur til svars, en hann spurði um verð og sá svo um samlagninguna, og að endingu vorum við komnir með milljónir sem slöguðu hátt í hálft húsið.

Þá sagði hann, "hér kem ég á minni 100 þúsund króna Lödu sem ég losa mig við næst þegar hún fær ekki skoðun og kaupi mér þá sennilega aðra full skoðaða á 100 þúsundkall, ég nota hana til að keyra á milli staða rétt eins og þú notar þína eðalvagna, en rétt eins og þú þá get ég ekki keyrt nema einn bíl í einu. Og af því að hann kostar mig lítið þá þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur".

Það er einmitt á svona augnablikum sem það rennur upp fyrir manni hvernig fólk er haft að fífli. Mig hefur aldrei skort skuldir né skotsilfur, en hef ekki alltaf haft hugmyndaflug til að átta mig á hvað þetta tvennt er nátengt skorti á tíma. Ég hafði fram að þessari samlagningu okkar vinanna kappkostað að aka um á nýjum bílum. Eftir þessa opinberun hef ég aldrei keypt nýjan bíl, meir að segja auglýsti ég um tíma (til að trompa vin minn) eftir nothæfum bílum gegn 70 þúsund kr. staðgreiðslu, og kom þá alltaf jafn mikið á óvart hvað góðir bílar buðust.

Þetta samtal okkar vinanna í denn opnaði augu mín fyrir því hversu margs er hægt að fara á mis ef maður metur tímann í peningum og efnislegum gæðum. Ég hafði eitt mörgum árunum að heiman við verkefni sem gáfu vel í aurum til skipta fyrir flottheit, en í staðinn misst af margri gæðastundinni með fjölskyldunni. Smá saman rann upp fyrir mér hversu vandmeðfarið það er að kaupa sér gæðatíma með peningum og hvað miklu auðveldara er að gefa sér þann tíma, það kostar ekki krónu. En þar sem nútímasamfélag er meir og minna byggt upp á metingi mælieininganna, tími og peningar, þá er ekki auðvelt að sleppa af hlaupabrettinu án þess að hrasa og teljast stór skrítinn auli. Varla er vandaminna að fara út á kannt mannlegs samfélags án þess að tapa sjálfum sér og vinunum.

Ég hafði í upphafi hugsað mér að hafa þennan pistil um allt annað, eða um það hvernig er hægt að kíkja út fyrir kassann sem stundum er kallaður The Matrix. Hvernig gamall getur numið í nútímanum það sem ungum var tamt lifa eftir á fyrri tímum. Hversu langt væri hægt að komast inn í afdalinn til að finna sjálfan sig alsælan í vegkantinum tyggjandi njóla. En sú saga verður að bíða betri tíma. 

ps. þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir rúmum 6 árum síðan, eins og kemur fram í lok hans þá var hann formáli að öðrum sem má lesa hér. Hér fyrir fyrir neðan er myndband þar sem fólk deilir svipaðri reynslu.


Knockin' On Heaven's Door

 Við himins hlið

þar sem ég svíf

í Zeppe-líninu

um draumalandið

-lít ég við-

 

-Og síðustu

ó-sigruðu

orrustna sé

 

-Og glaðvakna

er á draumnum

verður óvænt bið 

 

Því þar ég

að endingu skil

þá stórbrotnu leið

þegar sálin heldur lífi

eftir að líkaminn deyr

 


Fordæmalausar stríðsæsingar

Það er án fordæma á lýðveldistímanum að alþingi íslendinga hafi samþykkt á fjárlögum að milljarðar yrðu eyrnamerktir til manndrápa, og reyndar frá því land byggðist. Þetta gerðist samt núna í vikunni í mikilli þögn fjölmiðla.

Engin tilraun var gerð á alþingi til að koma í veg fyrir milljarðar af skattfé landsmanna rynnu til manndrápa, 36 þingmenn sátu hjá eða voru fjarverandi við afgreiðslu fjárlaga.

Engin málsmetandi rödd á Íslandi tala fyrir friði í heiminum.


mbl.is Án fordæma á lýðveldistímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakt veðrabrigði

Sandmökkur1Núna í vikunni mátti sjá sérstaka birtu yfir Austurlandi, sem átti upptök sín í Afríku, þegar sandur barst alla leið frá Sahara eyðimörkinni. Lítið fór fyrir fyrirbrigðinu í fjölmiðlum en þeim mun meira á á facebook í fallegum sólarmyndum. Austurfrétt sagði þó frá hvar fyrirbærið ætti upptök sín.

Það er ekki óalgengt að sandmistur af hálendinu, eða gosmistur takmarki sýn til fjalla. Eins er ekki óþekkt að sandryk frá Sahara greinist á Íslandi,  en í þeim mæli sem kom með hlýindunum í nú í nóvember er aftur á móti ekki algengt .

Litbrigðin eru talsvert öðruvísi í Sahara mistrinu en af öræfa mistri landsins, enda er Sahara sandurinn gulleitur en íslenski öræfasandurinn er svartur. Þetta veðurfyrirbrigði fór ekki fram hjá skýjaglóp eins og mér, set hér inn nokkrar myndir af fyrirbrigðinu.

Myndirnar eru teknar á litla Canon myndavél, stækka má myndirnar með því að smella á þær. 

 

IMG_6737

Skömmu fyrir sólarupprás 12.11.

 

IMG_9162

Um miðjan dag 13.11.

 

IMG_9171

Skömmu fyrir sólsetur 13.11.

 

IMG_9165

Fjallasýn 13.11.

 

IMG_9164

Horfin fjallasýn skömmu eftir sólsetur 13.11.

 

IMG_6754

Seinnipart dags 14.11.

 

Egilsstaðakirkja

Egilsstaða kirkja við sólarupprás 15.11.


Móðsognir er mestur

Fenja, Menja og Moðsognir eru af ættum dverga og jötna. Þær Fenja og menja voru jötunmeyjar sem möluðu gullið fyrir Fróða í kvörninni Gróttu. Fróði Friðleifsson keypti jötnameyjarnar af Fjölni konungi og lét þær mala gull, frið og sælu.

Fróði gaf ambáttunum ekki lengri hvíld eða svefn en gaukurinn þagði eða hljóð mátti kveða. Jötnameyjarnar kváðu því her að Fróða og var hann drepinn af sækonungnum Mýsingi. Þá lagðist af Fróðafriður.

Já, ég hef verið að glugga í skáldskaparmál, og þar má margt fróðlegt finna sem hefur forspárgildi og getur allt eins átt við daginn í dag. Eins hef ég verið að lesa Völuspá og Gylfaginningu til að komast til einhvers botns í dvergatalinu.

Fræðimenn telja að dvergatalinu hafi verið bætt inn í Völuspá. Því má skilja að það sé einhverskonar bastarður sem ekki eigi beint heima í spánni. En auðvitað getur það verið með þetta eins og gullfiskinn umlukin í vatni, að hann gerir sér ekki grein fyrir því í vatninu lifir hann og hrærist.

Það er fróðlegt að lesa Gylfaginningu ef maður vill vita eitthvað um dvergana vegna þess að þar má finna dvergatal þó nöfnin séu ekki alveg þau sömu og Völuspáin þar ekki alveg eins orðuð.

Báðar; Völuspá og Gylfaginning byrja á að geta fyrst Móðsognis og að hann sé mestur dverga, honum á eftir kemur Durinn. Móðsognir er sá sem móðinn sýgur (orkunni rænir og kjarkinn drepur) það má t.d. sjá í skriffinnsku regluverks dagsins í dag.

þeir mannlíkun

mörg af gerðu

dvergar í jörðu

sem Durinn sagði

 

Hver er þá þessi Durinn?

 

 

Mér ei dúrinn meira hrökk

myrkra flúðu skræður

Hverjum kann ég þegna þökk

þeim sem drauminn ræður (kvað Bólu Hjálmar)

 

Gylfaginning getur þess að þeir dvergarnir; Austri, Vestri, Suðri og Norðri, -haldi uppi himninum. Og goðin hafi lagt dvergunum til hamar og töng og steðja og þaðan tól öll önnur. Því næst lögðu goðin til hráefnið. Um leið og þau minntust þess ævinlega að dvergarnir hefðu kviknað í moldinni sem maðkar úr holdi jötunsins Ýmis.

Hvað er með ásum?

Hvað er með álfum?

Ymur allur Jötunheimur

æsir eru á þingi

Stynja dvergar

Fyrir steindyrum

veggbergs vísir

Vituð ér enn eða hvað?

Gylfaginning segir til um hvert sé best fyrir mannfólkið að flýja í Ragnarökum. Margar eru þá vistir góðar og margar illar. Best er þá að vera á Gimlé á himni. Og allgott er góðs drykkjar þeim er það þykir gaman, í sal þeim er Brimir heitir. Hann stendur á Ókólni. Sá er góður salur er stendur í Niðafjöllum, gjör af rauða gulli. Sá heitir Sindri. Í þessum sölum skulu byggja góðir menn og siðlátir.

Sindri er sagður dvergur og salurinn Sindri þá væntanlega heitinn eftir honum. Hann er í Niðafjöllum, sem kennd eru við myrkur, kannski nokkurskonar neðanjarðar bunker. Brimir er eitt af nöfnum Ýmis, en úr blóði hans gerðu goðin hafið, og Ókólni er þar sem ekki frýs. Við strendur brimar, svo kannski eru sólarstrendur þangað sem best er að flýja við Ragnarökkur, -t.d. Tene. Ég læt samt lesandanum eftir að geta sér við hvað er átt með Gimlé.

 

 

Ps. Þeim sem reynist örðugt að átta sig á dvergum í spánni hennar Völu geta kannski náð einhverjum áttum með því að horfa á Simpsons.


Þú bíður (allavegana) eftir mér


Já þetta ert þú

Það er margt sem ekki er beinlínis í frásögur færandi. Í sumar keyrði ég yfir Öxi ásamt moggabloggara með meiru og prófessor við Maryland háskóla sem skrifar bækur um Tyrkjaránið, eftir að við höfðum fetað slóð Hundtyrkjans í tvo daga fram og aftur Berufjarðarströndina. Ég beygði inn á þvottaplan N1 á Egilsstöðum til að þvo Dusterinn, sem var hlaðinn aur eftir Axar ferðina.

Þeir ferðafélagar mínir fóru inn í Söluskálann til að fá sér í gogginn á meðan ég skrúbbaði bílinn. Ég gaf manni gætur, sem var að þvo bíl við hliðina, því ekki vildi ég lenda í því sama og um árið þegar við Matthildur mín lentum í vatnsslag við rútubílstjóra. Þessi maður gaf mér gætur og þegar augu okkar mættust sögðu við því sem næst samtímis; -já þetta ert þú.

Þarna var kominn gamall kolleiki úr steypunni og ég spurði hvort hann væri enn þá að byggja hús. -Nei ekki nema þá fyrir sjálfan mig og ættingjana; sagði hann. Við höfðum ekki hist í 30 ár og spjölluðum um stund á meðan við þvoðum bílana.

Þegar þvottinum var lokið og það hillti í bloggarann og rithöfundinn þá kvöddumst við og ég bað að heilsa frænku og bað hann um að skila þakklæti fyrir myndina sem hún sendi mér af langömmu okkar á facebook. -Mundi þá allt í einu eftir vefstólnum hennar langömmu og spurði; -vantar ekki frænku vefstól? -Veistu það gæti bara vel verið; sagði hann.

Undanfarin ár hefur vefstóll Ingibjargar Bjarnadóttir langömmu minnar verið mér hugleikinn, og hefur hann orðið tilefni til þess að ég hef á hann minnst í samtölum við fólk á förnum vegi. Þannig var að Björg amma mín vaðveitti þennan vefstól ásamt rokk móður sinnar, rokk sem er mitt helsta stofustáss.

Vefstóllinn er aftur á móti hreinræktað vinnutæki án allra skreytinga, sem rennismíði með pílátum fylgir, sennilega smíðaður fyrir lítið pláss. Vefstólinn hefur síðan amma og afi skildu við verið varðveittur af frænku minni, sem komin er til efri ára, og hefur lengi haft huga á að koma honum í góðar hendur.

Hvorki safnastofnun, óbyggðasetur né aðrir höfðu séð sér fært að varðveita þennan vefstól. Ingibjörg langamma okkar á vel á annað þúsund afkomendur, ekki neinn þeirra, sem spurður hafði verið, sá sér fært að taka vefstólin að sér, enda kannski lítill skaði þó tapaðist samtíningur af gömlum spýtum.

En gamlar spýtur voru ekki bara spýtur áður fyrr, þær voru mikil verðmæti og geta átt mikla sögu. Langamma var fædd í Viðfirði í 16 systkina hóp, bjó á Vaði í Skriðdal og átti þar sjálf 17 börn með tveimur eiginmönnum, dó í Vallanesi í skjóli ömmu og afa. Vefstóllinn hefur margan ullarþráðinn gert að klæði. Það varð mér ljóst þegar ég las endurminningar sr Magnúsar Blöndal.

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um það fólk sem kom við sögu á bænum.

Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér að verða ekki eftirbátur bændakvenna á Héraði í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þessa tíma.

Til að gera langa sögu stutta þá sendi frænka mér mynd af vefstólnum frá Vaði í síðustu viku þar sem hún hafði komið honum fyrir innan um gullin sín úr Skriðdal og ég fæ ekki betur séð en að hann sé stofustáss.

Vefstóllinn frá Vaði


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband