Umboðslausir leiðtogar

Nú ríður á, sjálfur verndarengill lýðræðisins, hinn lýðræðislega umboðslausi Slenski, -hefur sagt að engin friðarsamningar verði undirritaðir án sinnar aðkomu. Skrifræðisveldið Evrópu, sem engin á Íslandi kaus, er að fara á límingunum.

-Hvað með alla peningana sem er búið að fjárfesta í þessu stríði? -Eiga þeir bara að brenna upp í friði? -Hafa allir þjóðarleiðtogarnir sem sækja fundinn sótt sér lýðræðislegt umboð til að fjármagna stríðrekstur í Úkraínu?

Það er kostulegt að heyra George Galloway fara yfir stöðuna sem var komin upp í Evrópu nú í upphafi viku.


mbl.is Kristrún tekur þátt í neyðarfundi Macrons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir Jónar og jafnmargar Margrétar

Sjóræningjar

Öldin sautjánda hefur hér á landi verið kölluð brennuöldin eða öld galdrafárs, en ætti kannski með réttu að vera kölluð sjóræningjaöldin. Hér á eftir fer örstutt æviágrip fjögurra Jóna þessu til undirstrikunar og í lífi eins þeirra koma við sögu fjórar Margrétar. Allir tengdust þessir Jónar með einum eða öðrum hætti og áttu sitt blómaskeið á fyrri hluta 17. aldar.

Í júnímánuði árið 1614 kom til Vestmannaeyja stórt vígbúið sjóræningjaskip undir stjórn tveggja Englendinga. Sjóræningjarnir settust upp í Heimaey, rændu þar og rupluðu. Meðal þess sem þeir stálu var kirkjuklukkan í Landakirkju.

Skipstjóri sjóræningjaskipsins hefur verið kallaður hér á landi Jón Gentlemann, en hét í raun James Gentleman og var hér í ránsleiðangri ásamt félaga sínum William Clark. Sumar sagnir segja að sjóræningjar þessir hafi komið við í Papey og jafnvel á Djúpavogi.

Séra Jón Halldórsson prestur í Hítardal segir svo frá ráninu í Biskupssögum: -voru Vestmanneyjar rændar- Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og barka þeim íslensku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst með spotti og skellihlátri, drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu.sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki. Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir voru á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin, var hún þremur árum síðar send aftur til Vestmannaeyja eftir skipun Jacobs kongs á Einglandi.

Örlög Jóns og Williams urðu þau, að nokkru síðar voru þeir teknir höndum í Englandi, dregnir fyrir dóm og hengdir, meðal annars fyrir ránið í Vestmannaeyjum. Danakonungur hafði skrifað Jakob 1. Englandskonungi kvörtunarbréf vegna ránanna. Eyjamenn endurheimtu því kirkjuklukkuna, en áletrunin á klukkunni sannaði hvaðan hún var.

Samkvæmt kvæði séra Jóns Þorsteinssonar sóknarprests í Eyjum voru ensku sjóræningjarnir þar í 28 daga. Hélt séra Jón því fram að Vistmanneyingar hefðu kallað ránið yfir sig sjálfir með óguðlegu líferni, -og orti bæði kvæði um atburðina og það sem ætti eftir að koma yfir Eyjamenn ef þeir bættu ekki ráð sitt.

Spá séra Jóns Þorsteinssonar átti heldur betur eftir að rætast, 13 árum seinna, 1627 rændu Tyrkir Vestamanneyjar og drápu þá séra Jón ásamt fjölda fólks. Eftir það var hann kallaður Jón Píslarvottur, var hann sagður hafa liðið píslarvættisdauða, og er hann eini sannlegi píslarvotturinn á Íslandi.

Þegar sjóræningjar óðu um Vestmannaeyjar í Tyrkjaráninu faldi séra Jón sig ásamt fjölskyldu og heimilisfólki í Rauðhelli, skammt frá Kirkjubæ, en ræningjarnir urðu þeirra varir vegna þess að gamall karl, sem var heimilismaður Jóns, var svo forvitin um framferði Tyrkja að þeir sáu til hans utan við hellinn.

Þeir komu þangað og fundu fólkið, en tvær konur höfðu falið sig í sprungu þar nærri og ræningjarnir sáu þær ekki, en þær fylgdust með því sem gerðist. Þær sögðu að séra Jón hefði gengið á móti ræningjunum, sem hefðu höggvið hann þrisvar í höfuðið en hann mælti guðsorð við hvert högg.

Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: -Það er nóg, herra Jesú! meðtak þú minn anda. Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt, -segir í Tyrkjaránssögu. Frásögnin er með nokkrum ólíkindablæ, en hetjuleg framganga séra Jóns Þorsteinssonar hefur vafalaust stuðlaði að því að hann fékk píslarvottsnafnbótina.

Kona séra Jóns Píslavotts, Margrét Jónsdóttir, var flutt til Algeirsborgar ásamt tveimur börnum þeirra, Margréti og Jóni yngra, og voru þau seld þar á þrælamarkaði. Prestfrúin dó innan fárra ára, dóttirin Margrét var seld spænskum eða frönskum kaupmanni sem giftist henni síðar.

 Galeiðuþrælar

Á Miðjarðarhafi tíðkaðist að nota galeiður sem voru með fábreyttan seglabúnað svo treysta þurfti á árar. Mikill markaður var því fyrir þræla undir árar galeiðnanna. Nánast eina úrræðið fyrir þræla var að snúast til Íslam vildu þeir betra hlutskipti. Að vera galeiðuþræll var það versta af öllu, þeir voru hlekkjaðir berir undir árar, keyrðir áfram með svipu og gátu verið við róðra klukkustundum saman. Brauði var dýft í súpu eða vín og því slengt í andlitið á þeim með skafti svo ekki yrði hlé á róðrinum. Þegar þeir gáfust upp var gengið úr skugga um að þeir væri dauðir og þeim hent í sjóinn.

Jón, sonur séra Jóns og Margrétar, var 15 ára þegar honum var rænt. Hann kastaði fljótlega trúnni, gerðist Múslimi og komst til þeirra metorða í Barbaríinu að verða sjóræningi á Miðjarðarhafi. Hann tók upp nafnið Vestamann og var eftir það kallaður Jón Vestmann.

Jón Vestmann kom sér vel í Barbaríinu. Fyrst í stað virðist hann samt hafa búið við harðan kost, það má ráða af bréfi sem Grindvíkingurinn Jón Jónsson, skrifaði til foreldra sinna á Íslandi árið 1630. Þar segir Jón svo um nafna sinn Vestmann: - ég skrifaði fyrir Jón son síra Jóns heitins Þorsteinssonar um hans sálugu móður í guði sofnaða til hans bræðra og lögmannsins herra Gísla Hákonarsonar, því hans ógnarlegi patron leið honum eigi að skrifa langort bréf.

Jón Vestmann hefur vafalaust verið reyndur af því hvort hann væri heill í hinni nýju trú. Hann hefur auðsýnilega staðist prófið, því hann komst til álits og fékk mannaforráð. Í Algeirsborg var á þessum tímum mikil velmegun og auður, en það breytti samt ekki því að þræll var ávalt þræll þó svo að hann gengist Íslam á hönd og efnaðist.

Sjóræningjar, sem höfðu aðsetur í Algeirsborg, stunduðu rán á siglingarleiðum til kristinna landa við Miðjarðarhafið og rændu einnig við strendur Vestur Evrópu. Jón Vestmann varð brátt í miklu áliti og varð foringi eða skipstjóri á ránsferðum um Miðjarðarhafið.

Jón Vestmann ól þá von í brjósti að hann slyppi úr Barbaríinu og kæmist aftur á heimaslóðir. Eitt sinn skipulagði hann flótta ásamt Norskum skipstjóra, sem eins var komið fyrir, hugðust þeir komast til Danmerkur, en það komst upp um þá og þeir máttu þola harðræði í kjölfarið.

Jón Vestamann vann sér smá saman aftur traust Tyrkja og hóf á ný sjórán á Miðjaðarhafi. Í eitt sinn féll hann í hendur óvinarins og stóð þá til að hengja hann. Þá bar að Spánverja, sem komst að því að Jón var norrænn maður í ánauð, og fékk Spánverjinn hann lausan undan hengingunni.

Jón Vestmann hóf ferðina heim, kom við í Marseille og hitti systur sína, en þar bjó þá Margrét. þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar. Hann ílentist í Kaupmannahöfn og var þar mikils metinn þrátt fyrir menntunarleysi, þótti bæði reyndur og sigldur.

Jón Vestmann kom til Danmerkur árið 1645, 18 árum eftir að honum var rænt og hann seldur á þrælamarkaði. Hann er sagður hafa kennt Dönum að smíða hjólbörur, en þesskonar tækniundri hafði hann kynnst í þrældómi Barbarísins. Eins var hann skipaður af konungi til að gera sjókort vegna siglingareynslu sinnar

Það varð snöggt um Jón Vestmann hann lærbrotnaði í Kaupmannahöfn veturinn 1649, fékk sýkingu í brotið og dó í kjölfarið 37 ára gamall, og komst því aldrei aftur heim. Hann var gefin saman við danska konu á sjúkrabeði, sem hét Margrét. Seinna sama ár fæddi hún dóttir þeirra sem einnig var skírð Margrét.

Einn af þekktustu menntamönnum Danmerkur þessa tíma, Ole Worm, sagði í bréfi til Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem ritað er 10. maí 1649: -Vér höfum misst landa yðar Jón Vestmann, vissulega frábæran mann að gáfum og margskonar þekkingu. – Ég harma lát hans næsta mjög, því að hann var náinn vinur minn.

Pirateship

Á úthöfunum þurfti öflugri skip en galeiður, sem treysta þurftu á árar, -og til sjórána á Atlantshafi. Þess vegna og þóttu góðir skipstjórnarmenn á úthafskipin vera frá norður- og vestur Evrópu  

Sumarið 1615, ári eftir að Jón Gentleman gerði sig heimakominn í Vestmanneyjum, sigldi Jón Ólafsson, -ungur Vestfirðingur, með ensku skipi til Englands og þaðan lá leið hans til Kaupmannahafnar. þar sem hann gerðist fallbyssuskytta á herskipum Kristjáns IV Danakonungs.

Auk þess að starfa við lífvörð konungs lá leið Jóns fljótlega norður til Svalbarða. Árið 1622 sigldi hann með kaupskipi suður fyrir Afríku, og upp Indlandshaf til Ceylon, -sem nú heitir Srí Lanka. Síðar dvaldist hann í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi.

Í september árið 1624 slasaðist Jón illa við sprengingu í fallbyssu, -var hann 30 ára. Þá var hann fluttur til Danmerkur og kom til Kaupmannahafnar um sumarið ári seinna, eftir hrakninga og vetursetu í Írlandi. Hann kom svo til Íslands aftur árið 1626 og settist að í Álftafirði við Ísafjarðardjúp, sinni gömlu heima sveit. Seinna réði hann sig um tíma til að sjá um varnir Vestmanneyja.

Jón skrifaði reisubók sína á alþýðumáli lausu við guðsorðastagl og útúrdúra menntamanna þessa tíma. Bókin kom fyrst út á Íslandi á 20. öldinni. Hann var hér á landi kallaður Indíafari, enda lengi vel eini Íslendingurinn sem hafði komið til Indlands svo vitað væri.

Jón Indíafari var góður sögumaður og eru lýsingar hans á mannlífi Kaupmannahafnar og siðum framandi þjóða skemmtilegar. Reisubókin þykir einstæð heimild um mannlíf og herþjónustu í danska flotanum á 17. öld. Útdrátt úr henni hefur mátt finna sem kennsluefni barna og unglinga í dönskum skólum.

Hægt er að staðfesta frásagnir Jóns Indíafara með samtímaheimildum, auk þess sem í sjóræningjasögum hans er hægt að finna samsvörun enn þann dag í dag, líkt og er við flóann á milli Sómalíu og Jemen á hafsvæði Húta: -Eitt eyland, liggjandi í því Rauða hafi, kallast Zocotora og heyrir til Afríka. Það með lyktar hér um meira að tala. Út af því Rauða hafi koma þrátt í veg fyrir Indíafara nokkur smáskip og skútur, sem kallast barkar, hver skip þeir taka með harðri hendi og alla vöru. Á þeim eru egypskir og arabískir menn. Sumum sleppa þeir tómhentum, en suma aflífa þeir, sem morðingjar og sjóreyfarar. Þar fá þeir oftlega mikið herfang, og nær svo ber við, að þessi smáskip koma út af þeim Rauða sjó í móti þeim, en á vorri leið skeði það ei, og ei komum vér við nokkur lönd, fyrr en við komum að Ceylon.

Jón Indíafari kom við sögu í Tyrkjaráninu sumarið 1627. Þegar Murat Reis, sá sem rændi Grindavík, sigldi fyrir Reykjanes eftir rán í Grindavík, þá er talið að hann hafi ætlað að ráðast á Bessataði, höfuðvígi landsins, þá hafði verið hlaðið í flýti með skreiðapökkum á milli fallbyssa, einungis til þess að sýndist vera virki.

En Holgeir hirðstjóri konungs, sem sat á Bessastöðum, hafði haft spurnir af sjóráninu í Grindavík. Þá var Jón Indíafari nýkominn að vestan í Bessataði með bréf frá Ara sýslumanni í Ögri og gaf ráð við varnirnar. Því þar var kominn fallbyssuskytta úr sjóher konungs á ögurstund og maður sem var vanur hernaði. Þó svo að varnirnar á Bessatöðum væru aumar, virkuðu þær.

Svo fór, hvort sem það var Jón Indíafara að þakka, eða það var einhver annar sem sá um fallbyssuskotin, sem beint var að skipum Murat, að hann hörfaði frá. Þar sem það var lágsjávað þá tók stærra skipið niðri á Lönguskerjum. Holgier hirðstjóri ákvað að aðhafast ekki frekar og fór Morat skipstjóri vestur með landi þegar skipið losnaði, áður en hann tók kúrsinn til Salé í Marokkó.

Tyrkir

 Þeir sjóræningjar sem kallaðir voru Tyrkir voru ekki eiginlegir Tyrkir eins og við köllum þá í dag. Skip þeirra komu frá N-Afríku og voru að talsverðu leiti mönnuð sjómönnum frá V-Evrópu. Tyrkjanafnið kom til vegna þess skipin áttu heimahafnir innan Ottómanveldisins, -með Soldán sitjandi í Istanbúl, og var því kallað Tyrkjaveldi.

Sumarið 1627 var mesta sjóræningjasumar sem sögur fara af í Íslandssögunni. Tveir sjóræningjaleiðangrar komu frá N-Afríku, annar frá Salé í Marokkó og hinn frá Algeirsborg í Alsír. Sjóræningjaleiðangurinn frá Marokkó rændi Grindavík og reyndi við Bessastaði. Sá frá Alsír rændi í nágreni  Djúpavogs og í Vestmannaeyjum. Alls var um 400 manns rænt og fólkið selt á þrælamörkuðum N-Afríku. Talið er að um 50 hafi verið drepnir í sjóránunum.

Skipstjórar sjóræningjaleiðangranna voru tveir og báðir kallaðir Murat Rais. Murat er algengt arabískt og tyrkneskt nafn, Rais þýðir skipstjóri. Vitað er að sá Murat sem kom frá Marokkó hét Jan Janson áður en hann tók upp nafnið Murat. Hann ver Hollenskur að uppruna frá Haarlem.

Alsírski Murat var af svipuðum uppruna, til eru heimildir í Alsír um að hann hafi verið kallaðu Murat Flamenco eða Flemming, hans heimaslóðir voru í nágrenni Antwerpen. Sennilega hafa báðir Muratarnir verið undir sömu sök seldir og Jón Vestmann, þeim hafi verið rænt og seldir í þrældóm.

Þó svo að sjóræningjaskipstjórar kæmust í góð efni eftir að hafa snúist til Íslam þá var ekki svo auðvelt að snúa aftur heim, þó svo að hugur og fjárráð stæðu til þess. Til eru heimildir um að sjóræningjaskipstjórar hafi reynt að kaupa sig heim fyrir stórfé og reynt að ná samningum við yfirvöld í heimalöndunum.

Það kemur fram í sögu Jóns Vestmann, að eftir hann kom til Danmerkur lenti hann í vanda þegar upp komst að hann var umskorinn að hætti Múslima. Var farið fram á um tíma að honum yrði hengt stranglega, jafnvel með lífláti. En Jón komst í gegnum þau mál með lipurð og var aftur tekinn í Kristinna manna tölu.

tyrkjarani

Svo segir frá aðförum Tyrkja við mannránin í Eyjum. -Meðal þeirra voru hjónin Jón Jónsson og Oddný Þorsteinsdóttir. Víkingarnir fundu þau með barn sitt eitt skammt frá bæ, og varð þar hörð viðureign, en ekki löng. Hjuggu þeir höfuðið af Jóni bónda, en misþrymdu konunni, slitu af henni hár og fatnað og drógu hana síðan nær dauða en lífi niður í kaupstaðinn

Heimildir:

Saga Vestmanneyja

Tyrkjaránssaga

Tyrkjaránið / Jón Helgason

Undir Tyrkjans sverði / Jón Gíslason

Karl Smári Hreinsson

Adam Nichols

Wikipedia


Æðruleysi

Þegar ég sendi bæn mína til almættisins, sem nú er í móð að kalla góða strauma út í kosmóið, er það ekki vegna þess að ég eigi einhvern rétt á því að hún rætist, heldur til þess að skerpa sýn mína og gera allt sem í mínu valdi stendur svo það góða megi fá framgang, -og láta svo almættið um úrlausnina.

Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt. Og vit til að greina þar á milli. (Reinhold Niebuhr)


Pólitíska sérfræðingaveldið

Þið sem eigrið um ganga fáviskufabrikkunnar, frá gráðu til sviðs og stöðu. Gerið þið ykkur grein fyrir því hve stóran hluta kökunnar þið ætlið ykkur sjálfum? -þá ekki að meðtöldum þeim sem safna auð með augun rauð, heldur þegar tekið er tillit til þeirra sem sjá um velferð barnanna, byggja húsin, skúra gólfin, , ,

Það er ekki lengra síðan en í lok síðustu aldar að vegna allra ykkar uppákoma, framsettum nú í gervigreindum sviðsmyndum fengnum úr spálíkönum með lögleysu, -að til þessa þurfti með svipuðum árangri og nú ekki nema eina Völvu Vikunnar einu sinni á ári,- og það svo til launalaust.


mbl.is Félagsdómur klofnaði í máli kennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldin og þjóðin

Minnumst orða skáldanna; vegna þess, að ef við gerum það ekki þá hefðu þau til einskis ort, -og við þessar fáu hræður norður í ballarhafi teldumst tæpast vera þjóð.

Ég sat í grýttri fjöru, í firði úti á landi og fegurð hafsins hvíslaði: "Rekkja mín er blá." Ég sá kolluungann tukta sinn og tófuspor í sandi og ég talaði við múkkana sem svifu þarna hjá. Í fjöllum skuggar birtust og birtu tók að halla bráðum kemur nóttin með sitt huldufólk og tröll. (Bubbi)


Álfasögur að utan

Því hefur verið haldið fram á þessari síðu að álfar og draugar á Íslandi hafi að mestu látið sig hverfa með tilkomu raflýsingarinnar. Það má til sanns vegar færa að þeir hafi svo endanlega horfið úr hugum fólks með rafrænum samskiptum.

Þeir sem fæddir eru á síðustu öld allt fram yfir hana miðja, kunna að segja sögur af reynslu sem ekki verður skýrð nema sem nokkurskonar álfasaga. Þesskonar sögum fer nú stórlega fækkandi á hinu stafræna Íslandi.

Hvernig álfar og draugar hörfuðu fyrir rafmagninu er best lýst með því að benda á aðrar verur. Sjálfur er ég alinn upp á byggingastað og hef unnið við byggingar allt mitt líf og hef því oft orðið var við það líf og þá orku sem býr á ósnortnu landi.

Best er að lýsa því hvernig verur láta sig hverfa úr sínum byggðum þegar land er brotið undir búsetu manna, með því að benda á mófugla og mýs. Þessar verur eru í sínum heimkynnum fyrsta sumarið innan um okkur byggingamennina en láta sig síðan að mestu hverfa þegar raflýsingin hefur tekið völd.

Bæði dýr og huldar verur halda samt sem áður að vera til, þó svo að þær hafi flutt sig út fyrir áhrifasvæði rafmagnsins. Hvort þær lifa af stafrænan veruleikann sem umlykur allt með sínu 5G skal samt ósagt látið.

Því hefur verið haldið á lofti að Íslendingar hafi varðveitt trúna á huldar verur þjóða best. Þessi frásagnagáfa virðist vera á hröðu undanhaldi með stafrænum veruleika, jafnhliða ólæsi stórs hluta fólks á eldri bókmenntir.

Nú er svo komið að álfaþjóðin, sem geymdi norræna tungu með öllu sínu vættatali, er orðin álíka vel upplýst og þjóðir Evrópu sem eiga ekki orð yfir allar þær huldu verur sem áður bjuggu með mönnum.

Sagnir af huldum veruleika hafa verið svo sjálfsagðar í gegnum tíðina á Íslandi, að við sem eldri erum höfum varla tekið eftir þeim á annan hátt en sem hluta af okkar veruleika.

Það gæti svo sem vel verið rétt að álfar séu ekki lengur á Íslandi, en þá er jafn líklegt að íslendingar yrðu það ekki heldur innan skamms, -þeir verði komnir til Tene eða Ítalíu.

Það sagði mér Borgfirðingur í sumar, -þegar ég spurði hann hvort þeir í Múlaþingi stefndu á að fylla höfnina þeirra alveg af grjóti, -að grjótið kæmi úr undirstöðu Álfaborgarinnar.

Þegar hann sá hvað ég gapti, -þá sagði hann strax að það gerði ekkert til, því álfarnir væru allir farnir. Ég sagði að ef svo væri þá yrðu Borgfirðingar næstir, -og þar yrði varla annað í framtíðinni en svört sumarhús erlendra auðróna.

Það stefnir í að fágætar sagnir nútíma Íslendinga, um álfa, drauga og huldar  vættir, verði einungis varðveittur á erlendri grund af þjóðum sem fyrir löngu hafa gleymt öllum sínum álfasögum.

 


Hvarf smalans í Öxnadal

Söluhæst íslenskra skáldsagan 2024 varð Ferðalok Arnaldar Indriðasonar. Margir hafa orðið til að segja að örlög smaladrengs í Öxnadal haldi uppi þræði skáldsögunnar, þó svo að aðalpersónan sé þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Nú hef ég ekki lesið bók Arnaldar, en kynnti mér fyrir tæpum 10 árum óvænt allt sem hönd á festi um Þorkel Pálsson smala í Öxnadal.

Þar kom til þjóðsaga um reimleika í Kverkártungu á Langanesströnd, við þá sögu kom Páll Pálsson bróðir Þorkels smala í Öxnadal. Ég setti hugleiðingar mínar, sem ég hafði punktað hjá mér, inn síðuna fyrir 5 árum síðan í 5 bloggum undir fyrirsögninni Smalinn.

Hér fyrir neðan eru endurbirt bloggin fimm í einum löngum pistli, ef einhver hefur áhuga á að forvitnast um hvaða heimildir er til um örlög smaladrengsins Öxnadal, -sem Arnaldur segir frá í bókinni Ferðalok, -í gegnum þjósöguna um bróðir hans, -og gömul munnmæli úr Öxnadal.

 

1.hluti

Það er sennilega þannig með þjóðsöguna, að í hugum flestra er hún lygasaga. Og ef hún er um drauga þá er hún að auki hindurvitni. En oft er draugasaga besta heimildin um það sem raunverulega gerðist. 

Fyrir nokkrum árum síðan heimsótti mig heilsubrestur, sem varð til þess að ég má taka því rólega. Hjartað hikstaði á þann hátt að það varð svokallað áfall, sem þýðir að það dælir ekki lengur blóðinu um líkamann af fullum krafti. En það var ekki beint heilsubrestur sem ég ætla að tala um heldur annar brestur sem er sending af gömlu gerðinni.

Málið er nefnilega það að ég komst fljótlega að því að hjartaáfall átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig, sem hafði engar fræðilegar forsendur til þess, s.s. háan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursíki eða ættarsögu. Því fór mig fljótlega að gruna að þarna hefði verið á ferðinni sending af gömlu gerðinni, sem lesa má um í þjóðsögunum. Ef ég orðaði þetta við hjartalækninn þá var boðið upp á þunglyndislyf, eins og það væri eitthvert svar.

Þar sem ég fékk nægan tíma í kjölfar heilsubrestsins þá ákvað ég að leita upplýsinga um sendingar af gömlu gerðinni í Þjóðsögunum, fyrir valinu urðu Þjóðsögur Sigfúsar. Fljótlega rakst ég á söguna um Brest eða réttara sagt Tungu-Brest en hún á að vera um sendingu sem Páli bónda Pálssyni var send í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld.

Það sem vakti öðru fremur athygli mína á þessari sögu var kannski ekki sagan sjálf heldur endalok Páls, sem komu fram í eftirmála. Nokkrum árum eftir að Páll hafði bæði hrökklast frá Kverkártungu og flosnaður upp úr sambúð við konu sína, fór hann til Vopnafjarðar og fékk sér ótæpilega neðan í því af brennivín sem talið var svikið. Á þriðja degi var Páll aftur orðinn allsgáður og fór þá til Andrésar vinar síns í Leiðarhöfn á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki.

Það sagði Andrés velkomið en fannst ekkert benda til þess af útliti Páls að dauðinn væri á næsta leiti, enda var hann ekki nema 55 ára. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því væri ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi fótkuldi Páls sem fékk mig til að taka eftir sögunni um Tungu-Brest, því fótkuldinn hlyti að stafa af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

En sendingin sem Páll fékk í heimsókn á bæ sinn Kverkártungu var tilkominn nokkru áður en svikna brennivínið lenti ofan í hann á Vopnafirði. Um Kverkártungu drauginn eða Tungu-Brest er getið í flestu Þjóðsagnasöfnum sem fyrir finnast á Íslandi. Enda er draugurinn sennilega ein af mest rannsökuðu sendingum landsins og sá sem miklar skráðar heimildir eru til um, jafnvel af hinum lærðum mönnum, sem ekki vilja láta það um sig spyrjast að þeir láti bábiljur og hindurvitni byrgja sér sýn.

Að minnsta kosti þrjár tilgátur voru nefndar í þjóðsögunum um ástæður sendingarinnar. Þær helstar; að Páll hafði dreymt fyrri konu sína, sem þá var látin, sem fór fram á það við hann, þar sem komið var að því að hann og seinni konan skírðu dóttur sína, að dóttirin yrði nefnd eftir sér, þessu lofaði Páll í draumnum en móðir stúlkunnar vildi ekki nafnið og lét Páll hana ráða.

Önnur tilgáta var á þá leið að Páll hafði átt bróðir þegar hann var drengur í Öxnadal, sem hafði horfið á voveiflegan hátt og átti hann að hafa tekið við draug bróður síns, sem var nokkurskonar ættarfylgja, eftir lát föður þeirra, en honum átti sá draugur að hafa fylgt fram á gamalsaldur.

Þriðja tilgátan var af sama meiði en Páll hafði átt í útistöðum við þann mann, sem sekur var talin um hvarf bróður hans og átti meðal annars að hafa tapað málaferlum fyrir honum. Páll hafði bæði lent illilega upp á kannt við þann ákærða og þann sem sótti málið fyrir hann, því hann neitaði að borga málsóknina þar sem hann taldi hana hafa verið slælega unna. Báðir þessir menn höfðu haft opinberlega í heitingum við Pál.

Þessi saga gaf lítil svör um sendingar fyrri ára og engin um það hvernig sendingar gætu orsakað hjartaáföll. En þegar ég hafði rekist á efni tengt þessari sögu þrisvar sinnum úr ólíkum áttum á u.þ.b. þriggja mánaða tímabili þá fór atburðarásin að líkjast sendingu. En sagan um Tungu-Brest, í allra stystu máli, er í Gráskinnu hinni meiri eftir þá Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson:

Hann var uppi um 1870 og var ósýnilegur, en gerði vart við sig með hljóðum. Var stundum sem vatn drypi, stundum sem högg og slög, en stundum sem dynkir eða brestir, og af því fékk hann nafnið Brestur. Þá bjó í Kverkártungu Páll bókbindari. Hann var fluttur vestan úr Þingeyjarsýslu eða lengra að. En sagan af uppruna Brests var sú, að hann væri meðaladraugur, - og fleiri sögur heyrði ég um meðaladrauga. Páll átti bróðir, er fór ungur í vist, og varð fljótt um hann. Ætluðu menn, að af mannavöldum væri. Var þó ekki við því hreift. Þegar Páll komst til manns, vildi hann hefna bróður síns, vakti upp draug og kom honum í meðul. En fyrir mistök eða kunnáttuleysi fór svo, að draugurinn snérist að Páli sjálfum og gerðist svo umsvifamikill, að kona hans Helga Friðfinnsdóttir, varð að flýja heimilið um skeið. Helgu þessari var ég samtíða og heyrði hana segja frá Bresti. Þó þori ég ekki að fara með þá sögu, enda mun hún vera í safni Sigfúsar.

Eins og greint er frá hér að ofan þá hafði ég fyrst rekist á söguna við að leita upplýsinga um sendingar í þjóðsögunum og er hún mun ítarlegri annarsstaðar m.a. hjá Sigfúsi, og frásögn Gráskinnu er sú eina sem segir Pál hafa vakið upp lyfja draug. Næst rakst ég á frásögn í bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem ég áttaði mig á að mundi vera af Þorkeli bróður Páls, unglings sem hvarf í Öxnadal. Þriðja frásögnin var í bók Árna Óla, Reimleikar, þar sem hann fer yfir dularfull fyrirbæri á Íslandi, sem rannsökuð hafa verið og skjallegar heimildir eru til um meðan á þeim stóð, en samt sem áður ekki fengist haldbærar skýringar á af hverju stöfuðu.

Jón Illugason hreppstjóri á Djúpalæk var einn af þeim sem hafði skráð reimleikana í Kverkártungu meðan þeir áttu sér stað. Á Kverkártungu á Langanesströndum býr bóndi, Páll að heiti, son Páls Eiríkssonar er ferðaðist suður á land og víðar. Í fyrrahaust var Páll bóndi að leysa hey í hlöðu að kveldi dags, þá heyrir hann barið högg ofan í þekjuna. Hann fer út, en sér engan; það gengur þrisvar að hann verður við engan mann var. Hann lýkur við verk sitt, en finnst þó ei til. (Hann er á lífi, frí við öll hindurvitni og hugleysi.) Hann gengur heim eftir þetta, en í því hann kemur á hlaðið er maður þar kominn og segir honum lát Páls föður hans. Í mæli hefir verið að eitthvað hafi fylgt þeim Páli. Eftir þetta fer að bera á reimleika á bænum, að bæði Pál og fólkið dreymir illa; hann og það sér stundum á kveldin hvítan strók, stundum þokumökk, stundum eins og hálft tungl; oft sá bóndi þetta í fjárhúsunum. Svo fóru leikar að allt fólkið og konan fór á burt í vor og á annan bæ, en Páll varð eftir og kveðst aldrei skuli þaðan fara, hvað sem á gangi, og sagt er að þá Páll væri orðinn einn hafi hann komist í meiri kröggur. En í haust varð Páll minna var við þetta, en kona hans sá þetta oftar og óttalegra en fyrr og skal hún vera orðin sinnisveik af hræðslu. Lengra er ekki komið sögunni og ætla ég við að bæta ef eitthvað fréttist um þetta. (Þjóðsagnasafn JÁ) Áframhald skráðra þjóðsagna byggir m.a. á frásögnum Helgu konu Páls.

Í bók Árna Óla var á það minnst að til væru í handritum Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara minnispunktar á Þjóðskjalasafni Íslands, þar sem Sigfús getur þess að fjórða tilgátan um uppruna Tungu-Brests sé sú sennilegasta, en á hana sagðist Sigfús ekki geta minnst nokkru orði vegna þess að þar sé um of viðkvæmt mál að ræða í sveitinni, þar sem Brestur gerði vart við sig þ.e.a.s. á Langanesströnd.

Svo gerðist það þegar ég var að lesa bók Árna að það hóf maður störf á mínum vinnustað sem nýlega var hættur búskap á Langnesströnd og hafði búið í grennd við Kverkártungu, sem fyrir löngu er komin í eyði. Þessi maður var kominn á eftirlaunaaldur en eins og margir af hans kynslóð þá vildi hann hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni og réð sig í byggingarvinnu. Mér datt því í hug að spyrja hann hvort hann þekkti til þess hvað hefði verið svo viðkvæmt mál í hans sveit að ekki hefði mátt á það minnast í þjóðsögu.

Hann sagðist hafa heyrt ástæðu þess frá gömlum manni þegar hann hóf búskap, ungur og aðfluttur maður, í sveitinni. En í stuttu máli var hún sú að í Kverkártungu hefði drengur horfið, sem var smali en talið væri að hvarf hans mætti rekja til illrar meðferðar. Hann sagði að gamli maðurinn, sem sagði honum frá þessu, hefði bent sér á staðinn þar sem drengurinn hefði verið urðaður þegar þeir voru í smalamennsku í landi Kverkártungu.

Í fyrstu efaðist ég um að þetta gætu verið réttar upplýsingar þar sem Páll hefði verið yngri bróðir drengs sem hvarf í Öxnadal og var talin hafa sætt illri meðferð sem smali. Þarna gætu eitthvað hafa blandast þjóðögur og munnmæli.

 

2.hluti

Það er stundum svo að uppákomurnar eru það lygilegar í reynsluheimi fólks, að ekki er hægt að gera þeim skil nema með þjóðsögu. Enda eru flestir málsmetandi menn það grandvarir að láta ekki frá sér fara hvaða rugl sem er, hvað þá þeir sem eiga að teljast vel upplýstir. En stundum er atburðarásin svo viðkvæm að hvergi má á hana opinberlega minnast og geymist hún þá oft sem munnmæli eða kviksögur og kemst síðar á prent, sem þjóðsaga þegar nægilegur tími er liðinn.

Svo virðist hafa verið hvað smaladrenginn í Kverkártungu á Langanesströnd varðar, þar taldi Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sig ekki með nokkru móti getað minnast á hans örlög þó svo að um hálf öld væri liðin frá þeim atburðum þar til honum var trúað fyrir þeim. Nú rúmum 160 árum seinna, og um 100 árum eftir að Sigfús taldi ekki hægt að setja í þjóðsögu þá atburði, sem taldir eru hafa orsakað reimleikana í Kverkártungu, þarf ekki annað en að gúggla þá á netinu þá er þessu leyndarmáli gerð skil á vef Langanesstrandar.

Tungubrestur er, að öllum öðrum ólöstuðum, þekktasti draugur sveitarinnar og hefur sennilega lifað hvað lengst allra í sveitinni. Fjöldi sveitunga hans kannast vel við kauða, sem kvað sér fyrst hljóðs um miðja 19. öldina. Uppruni stráksins er reyndar eitthvað á reiki en munnmælasögur í sveitinni segja m.a. að Tungubrestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni bókbindara og bónda í Kverkártungu, þeim sem hann hefur jafnan verið fyrst kenndur við, og hafi hann hlotið það illa meðferð hjá honum að hún hafi dregið hann til dauða á einhvern hátt. Hann hafi eftir það ofsótt Pál og fylgt honum í Kverkártungu. Páll Pálsson (1818-1873) var léttadrengur í Geitagerði, Valþjófstaðarsókn, N-Múl. 1835. Vinnumaður á Ketilsstöðum, Vallanessókn, S-Múl. 1840 og 1842, var þar hjá foreldrum fyrri hluta árs 1843. Þegar hann synjaði fyrir barn sem honum var kennt í árslok 1845, Helga Pálsson var hann talinn vera staddur í Papey. Flutti 1848 úr Vallanessókn að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Bókbindari á Þorvaldsstöðum, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1850. Húsmaður og bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði 1855. Bóndi í Kverkártungu á Langanesströnd, N-Múl. um 1859-63, annars í vistum og húsmennsku í Vopnafirði og á Langanesströnd lengst af á árunum um 1850-73. Strákurinn Tungubrestur virðist hafa kunnað vel við sig í Kverkártungu, því eftir að Páll flúði þaðan fylgdi Tungubrestur öðrum ábúendum Kverkártungu og er síðan kenndur við hana. Tungubrestur hefur verið mesta meinleysisgrey því engar sagnir eru til um það að hann hafi gert þeim mein sem hann fylgdi eða þeim sem hans hafa orðið varir, þ.e.a.s. eftir að hann hætti að angra Pál sjálfan. Þess má geta að enginn hefur séð Tungubrest því hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum og þaðan er nafnið komið. Sumir hafa lýst hljóðinu þannig að það sé eins og þegar dropar falla í stálvask. 

Kverkártunga fór í eyði árið 1937 og hefur ekki verið búið þar síðan. Í I bindi bókarinnar Sveitir og Jarðir í Múlaþingi, sem kom út 1974 var þetta leyndarmál eitthvað farið að hvissast og komst á prent, sem virðist hafa fram að því lifað í munnmælum á Langanesströnd. Þar má finna þetta í kaflanum um Kverkártungu; Á síðari hluta 19. aldar bjuggu í Kverkártungu Stefán Árnason frá Hjámárströnd í Loðmundarfirði og Ingveldur Sigurðardóttir frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá. Sonur þeirra var Magnús skáld (Örn Arnarson) fæddur í Kverkártungu 1884. Skömmu áður en þau Stefán og Ingveldur fluttust í Kverkártungu, bjó þar Páll Pálsson bókbindari. Kom þá upp draugurinn Tungubrestur (sjá sagnir Magnúsar Stefánssonar í Gráskinnu meiri, heimildaskrá II,38). Grafkuml unglings fannst í svonefndum Snjóbotnum skammt frá túni 1920, og herma munnmæli, að þar væri grafinn sá er uppvaktist.

Á vef Langanesstrandar kemur fram að Tungu-Brestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni í Kverkártungu. Einnig að hann hafi síðar fylgt öðrum ábúendum Kverkártungu, jafnframt að engin hafi séð hann og hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum, þaðan sé nafnið komið.

Í tímaritinu Súlur 3. árg. er frásögn eftir Hólmstein Helgason, þar sem hann segir frá Tungu-Bresti. Foreldrar Hólmsteins bjuggu í Kverkártungu árin 1905-1909, hann var þá unglingur. Frásögn Hólmsteins styðst að flestu leiti við þjóðsöguna en er merkileg fyrir þær sakir að hann segir frá því hvernig hann varð var við hljóðin í Bresti og hvernig hann fylgdi fjölskyldu meðlimum. Hann segir að Tungu-Brestur hafi fylgt sér í a.m.k. í tvo áratugi eftir að hann flutti úr Kverkártungu og síðast hafi hann orðið var við Brest árið 1961 þegar föðurbróðir hans heimsótti hann á Raufarhöfn.

Einnig segir Hólmsteinn frá því að hann hafi séð Tungu-Brest í draumsýn þegar hann kom til hans í svefnmóki í Kverkártungu-baðstofuna, og lýsir honum sem smávöxnum óttaslegnum dreng á að giska 10-12 ára, klæddum lörfum. Drengurinn hafi barið í kringum um sig með brotnu hrífuskafti og hafi verið berhöfðaður. Í frásögn Hólmsteins vitnar hann einnig í Jóhannes Jónsson, sem kallaður var Drauma-Jói.

Um Jóhannes þennan skrifaði dr. Ágúst H Bjarnason bókina Drauma-Jói, sem út kom 1915. Ágúst var skipaður prófessor í heimspeki, við Háskóla Íslands árið 1911, hann var rektor Háskóla Íslands 1918 og 1928. Ágúst var frumkvöðull í kennslu í sálfræði og ritun bóka um sálfræðileg efni á Íslandi. Í umsögn um bók sína er, á Wikipadia, hann sagður segja þetta;

Drauma-Jói var einkennilegur maður. Það var hægt að spyrja hann sofandi og þá sagði hann hluti sem áttu að vera öllum huldir. Hann ljóstraði oft upp málum sem áttu ekki að komast fyrir almenning. Hann vildi meina að draugar væru miklar víðara hugtak en menn töldu. Ég varð mér úti um bókina "Drauma-Jói" en þar gerir Ágúst skil kynnum sínum af Jóa í gegnum vísindalega úttekt á fjar-skyggni Jóhannesar í draumi, og kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé fölskvalaus.

Bókin er engin skemmtilesning heldu fræðileg úttekt á sögum, sem til voru um Jóhannes. Þegar Ágúst gerði svefn rannsókn á Jóhannesi þá mistókst hún að mestu, enda var Jói á því að draumagáfan (sem hann gerði reyndar ekki mikið úr) hafi verið farin frá honum þegar rannsóknin var gerð. Einnig var Ágústi bent á af þeim sem helst þekktu til Jóhannesar að hann hafi séð fyrir gestakomur, fylgjur og svipi. Ágúst segir Drauma-Jóa neita þessu að mestu nema hvað varaði einstaka mann, þetta hafi þá verið meira í gamni sagt.

Í bókinni kemur berlega fram afstaða höfundar til drauga og er ekki nema u.þ.b. ein síða í allri bókinni, af 224, þar sem Ágúst fjallar um drauga-skyggni Jóa og kemst þar að þeirri niðurstöðu að Jóa hafi mistekist að segja frá mannshvörfum í draumi vegna þess að hann hafi verið líkhræddur. Þar segir hann að endingu: Jói sagði mér frá Tungu-Bresti og annað er fyrir hann hafði borið í vöku, en allt var það svo ómerkilegt, að það er ekki í frásögur færandi. Jói virðist ekki hafa neina skyggni-gáfu til að bera í vöku.

Tildrög þess að Drauma-Jói (Jóhannes) sá Tungu-Brest, segir Hólmsteinn í grein sinni í Súlum, vera þau að hann hafði farið í smölun inn af Kverkártungu ári eftir að Hólmsteinn og hans fjölskylda fluttu úr Kverkártungu. Jóhannes hafði hugsað sér að fá gistingu í Kverkártungu um kvöldið, en þegar hann kom þangað voru nýju ábúendurnir ekki heima. Þegar hann var að snúast á hlaðinu eftir að hafa bankað árangurslaust á dyr og glugga sá hann í tunglskyninu dreng, sem skálmaði viðstöðulaust þvert yfir hlaðið og hvarf fyrir fjárhús austur af bæjarhúsunum.

Þessum dreng lýsti Jóhannes þannig, að hann hafi verið fremur smár vexti, svarað til 9-11 ára aldurs, í mórauðri brók, prjónaðri, girtri niður í sokkagarma, sem signir voru niður fótleggina og í leðurskóræflum. Að ofanverðu í dökkleitri, stuttri treyju með bót á olnboga og barmi úr mórauðu prjóni og berhöfðaður. Sýndist honum hárið og fötin vera blaut. Jóhannes sá strax að ekki var mennskur maður á ferð, heldur sjálfsagt Tungu-Brestur, sem hann hafði heyrt um getið. Þó svo Jóhannes hræddist ekki drauga, enda vanur að sjá það sem aðrir sáu ekki, þá gekk hann rúmleg klukkustundar leið niður í Miðfjarðarnessel, kom þangað löngu eftir að allir voru sofnaðir, vakti upp og fékk gistingu.

Engar upplýsingar hef ég rekist á hver smalinn í Kverkártungu var, en nöturleg voru hans örlög. Í sóknarmanntölum Þjóðskjalasafns Íslands fyrir árið 1860 er Zakarías Eiríksson skráður vinnumaður í Kverkártungu hjá þeim Páli Pálssyni þá 42 ára og Helgu Friðfinnsdóttir þá 21 árs. Þar er einnig skráð Hólmfríður dóttir þeirra hjóna þá 3 ára. Aldur Zakaríasar kemur ekki fram í sóknarmanntalinu og hans er aðeins getið í þetta eina sinn í sóknarmanntölum Skeggjastaðasóknar, seint um haustið hefjast reimleikar í Kverkártungu.

Páll Pálsson virðist hafa vera sá eini sem aldrei bar því við að útskýra af hverju reimleikarnir stöfuðu, ef marka má þjóðsöguna. Ef það var vegna þess að hann vissi upp á sig það sem munnmælin ætla honum, þá voru örlög Páls enn nöturlegri fyrir þær sakir að hann hafði varið kröftum ævi sinnar í að fá réttlætinu fullnægt varðandi bróður sinn sem hvarf þegar hann var smali í Öxnadal. Það að sitja að endingu uppi með það að þurfa að urða eigin smala í túnjaðrinum eftir illa meðferð er ein og sér næg ástæða hjartaáfalls.

 

3.hluti

Það er nú ekki meiningin að fara út um þúfur með þessa frásögn um smalann, en með útúrdúrum þó. Segja má að kunnasta opinbera heimildin um ævikjör smaladrengsins sé eitthvað á þá leið, sem þjóðskáldið úr Öxnadalnum kom í bundið mál;

Vorið góða, grænt og hlýtt,

græðir fjör um dalinn,

allt er nú sem orðið nýtt,

ærnar, kýr og smalinn.

 

Kveður í runni, kvakar í mó

kvikur þrastasöngur;

eins mig fýsir alltaf þó:

aftur að fara í göngur.

Annað þjóðskáld, Steingrímur Thorsteinsson, lýsti starfsumhverfi smalans ekki á síðri hátt en Jónas Hallgrímsson;

Út um græna grundu

gakktu, hjörðin mín.

Yndi vorsins undu.

Ég skal gæta þín.

 

Sól og vor ég syng um,

snerti gleðistreng.

Leikið, lömb, í kringum

lítinn smaladreng.

Þess vegna kom upp í hugann að ef um nöturleg örlög smaladrengs væri að ræða þá hlytu þau að heyra til undatekninga. Að vísu hafði ég rekið augun í skuggalegri hliðar á lífi smaladrengsins í frásögn Hrólfs Kristbjörnsson (1884-1972) bónda á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal, þegar hann réð sig sem ársmann þá 13 ára gamall árið 1899, að bænum Þuríðarstöðum sem stóð þar sem kallað er í Dölum upp með Eyvindaránni ofan við Egilsstaði. Þessa lýsingu Hrólfs má finna bæði í bók hans Skriðdælu og í tímaritinu Glettingi: 

Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum.

Í handriti því sem Sigfús Sigfússon vann upp úr frásögn sína af Tungu-Bresti má greina feril munnmælasögunnar í öllu sínu veldi, þegar ung stúlka á að hafa setið ein yfir kindum, þegar úrsvöl næturþokan grúfði sig yfir sveitinni, nóttina sem Þorkels smala bróðir Páls í Kverkártungu varð síðast vart á lífi í Öxnadal;

Vinnukona ein, er var samtíða frú Guðbjörgu Hjartardóttir á Hofi (í Vopnafirði) sagði henni frá því að hún hefði verið samtíða vinnukonu er Jóhanna hét sem sagði henni að hún hefði setið yfir ám þessa nótt á Engimýri gagnvart Þverbrekku og hefði þá heyrt mikil angistarhljóð fyrir handan ána. En svartaþoka var svo hún sá ekki yfir hana.

Örlög smalans voru orðin mér hugleikin, því fór ég í að leita mér upplýsinga um lífshlaup þeirra bræðra, Páls og Þorkels Pálssona úr Öxnadalnum, og fikra mig niður tímalínuna, en um ævi alþýðufólks fyrri tíma er lítið að finna nema rétt á meðan munnmælin lifa og svo það, sem ratað hefur í þjóðsögurnar eða greint hefur verið frá í annálum.

Nálægt miðri 19du öld fluttust hjón ein úr Norðurlandi austur á Fljótsdalshérað í Múlasýslu. Hann hét Páll og var Eiríksson en hún Guðbjörg Þorkelsdóttir. Það hafði komið fyrir þau raunalegt tilfelli þegar þau voru í Öxnadal og var álit manna að það hefði rekið þau austur. Páll var greindarmaður álitinn. Hann var verkmaður góður og hestamaður mikill; var hann af því kallaður Páll reiðmaður. Guðbjörg var gáfukona talin og valmenni. Mikið þótti kveða af þeim hjónum báðum. Þau voru nokkur ár að Höfða á Völlum hjá Gísla lækni Hjálmarssyni. Páll og Þorkell hétu synir þeirra hjóna. Það hafði borið við þegar þau Páll voru í Öxnadalnum að bóndi sá er bjó á Þverbrekku í Öxnadal og Sigurður hét, stórættaður maður en bráðlyndur, drykkfelldur og ofsamenni við vín, hafði fengið þau Pál til að ljá sér Þorkel son sinn fyrir smaladreng (sumir segja báða drengina á mis) er þá var um fermingaraldur en efnilegur sagður. En á smölum hafði honum áður illa haldist. Þau urðu við bón hans. En það lyktaði þannig að Þorkell hvarf og fannst aldrei.

Þannig hefst frásögnin um Tungu-Brest í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar en frásagnirnar í safni hans eru tvær. Sú fyrri skráð mest eftir handriti frá Benedikt Davíðssyni. Síðari frásög sögunnar hefur Sigfús Sigfússon birt óbreytta eftir handriti Einars prófasts Jónsonar en Einar hafði ritaði eftir frásögn Þóru Þorsteinsdóttir frá Miðfirði á Langanesströnd, sem þekkti vel hjónin í Kverkátungu þau Pál og Helgu. Þó svo að hún hafi verið á barnsaldri þegar Tungu-Brestur kemur upp, þá hafði hún mikið heyrt um aðdraganda þess enda var vinskapur með foreldrum hennar og hjónunum í Kverkártungu.

Sagt var í Öxnadal að þeir synir Páls og Guðbjargar hafi verið þrír Þorkell, Eiríkur og Páll, sem sennilega var þeirra yngstur. Eiríks er hvergi getið í þjóðsögum eftir að hjónin yfirgáfu Öxnadal. Seinna í fyrri frásögn Sigfúsar segir hann þetta;

Páll sonur þeirra mun hafa fylgt þeim. Hann var gáfumaður, atgerfismikill og háttprúður en drykkfelldur nokkuð. Hann gerðist bókbindari. Páll (eldri) spurði Ísfeld skyggna um son sinn. Hann svaraði: -Drengurinn þinn er dáinn. En það kostaði þriggja manna líf að opinbera hversu það skeði og vil ég það eigi segja.- Það er mál manna að Páll (yngri) bæri þungan hug til Sigurðar fyrir orðróminn um hvarf bróður síns. Það er sögn einstakra mann að svo hafi viljað til eitt sinn í kaupstað að Páll lenti í þrasi við mann og báðir drukknir. Segir sagan að þar kæmi að ókenndur maður er gaf orð i á móti Páli. Páll spurði hver hann væri. En er hann fékk að vita það kannaðist hann við manninn, snerist þegar að honum og segir: -Nú það ert þú djöfullinn, sem drapst hann bróður minn. Það var gott að ég fékk að sjá þig.- Er þá sagt að Páll réðist á hann og hrekti hann mjög áður en þeir voru skildir. En að endingu og áður en þeir skildu jós Sigurður alls konar bölbænum yfir Pál og kvaðst skyldi launa honum hrakning þennan og krefjast þess að hann sannaði orð sín og morðáburðinn. Páll kvaðst mundi bíða og óhræddur fyrir honum ganga. En að lokum segja menn að Sigurður hafi kallað á eftir honum og sagt hann skyldi senda honum sendingu og e.t.v. fá að sjá bróður sinn.

Sigfús segir einnig frá málaferlum á milli þeirra Páls yngri og Sigurðar, þar segir að Páll hafi haft Þorsteinn Jónson kansellíráð fyrir málsfærslumann fyrir sína hönd, en ekki sé vitað hvort það var áður en hann tók Múlasýslu og kom að Ketilsstöðum á Völlum. Ekkert varð á Sigurð sannað þar sem vitni stóð ekki við orð sín. Páli þótti Þorsteinn linur í málinu og sagt hafi verið að hann neitaði að borga Þorsteini eins mikið og hann setti upp fyrir málssóknina.

Þessu á Þorsteinn að hafa reiðst og ráðist á Pál en orðið undir. Þá á að hafa verið sagt að Þorsteinn segði í reiði sinni: Ég skal senda þér pilt sem þú færð nóg af. Samkvæmt fyrri frásögn Sigfúsar eru þessar ástæður nefndar, sem hugsanlegar orsakir Tungu-Brests, auk þessara er Önnu fyrri konu Páls getið sem hugsanlegrar ástæðu, þar sem hún hafði farið fram á við Pál í draumi að hann léti skíra dóttir þeirra Helgu í höfuðið á sér og Páll lofað því en ekki getað staðið við það, þar sem Helga var því ekki samþykk. Anna hafði látist af barnförum sjö árum áður en Tungu-Brestur kom upp. En flesta hafi samt sem áður grunað að Sigurður hefði magnað ættarfylgjuna Þorkel og sent bróður hans til að hefna fyrir hrakning sinn í kaupstaðnum.

Í seinni frásögn Sigfúsar eru orsakir Tungu-Brests sagðar Þorkell bróðir Páls enda hann nefndur í fleirum þjóðasagnasöfnum sem orsök reimleikanna í Kverkártungu. Þorkell er þar yfirleitt sagður ættarfylgja foreldra Páls, sem hann hafi tekið við eftir lát föður síns. Þá skýringu gaf Helga kona Páls á Tungu-Bresti, en til Helgu er mest til vitnað í þjóð- og munnmælasögum.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er látið að því liggja neðanmáls að foreldrar Þorkels hafi þegið fé fyrir að sækja ekki mál á hendur Sigurði bónda á Þverbrekku vegna hvarfs Þorkels sonar þeirra. Saga Tungu-Brests er til í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum landsins í fleiri en einni útgáfu og hefur ævinlega tengingu í Öxnadal við sögu Þorkels bróður Páls. Lítið er um skjalfestar heimildir, sem sína fram á að eftirmál hafi orðið út af hvarfi Þorkels. Saga hans virðist að mestu varðveitt í Þjóðsögunni. Þó er eitthvað til af skjalfestum gögnum og virðist mörgu hafa verið haldið til haga án þess að vera sveipað sérstökum þjóðsagnablæ.

Þennan texta má finna í 19. Aldar annál þar, sem farið er yfir atburði ársins 1828. Piltur hvarf um sumarið frá Þverbrekku í Yxnadal, Þorkell að nafni Pálsson Eiríkssonar. Móðir hans, Guðbjörg Þorkelsdóttir, bjó ekkja að Hraunshöfða, hafði hún ljeð son sinn Sigurði bónda Sigurðssyni, prests að Bægisá, fyrir smala. Var drengsins leitað af mörgum mönnum og fannst hann hvergi. Ætluðu margir að af manna völdum mundi vera og drógu það af grunsamlegum líkum, en ekkert varð sannað, enda mun ekkjan hafa átt fáa formælendur. (Annáll 19. aldar I, bls 396 / sr. Pétur Guðmundsson.)

það má kannski ætla að annálar fyrri alda séu sambærilegir við fjölmiðla dagsins í dag, þeir skrái fréttir opinberlega og séu þær samtímasagnir áreiðanlegri en þjóðsagan. En rétt eins og með fjölmiðla okkar tíma þá greina annálar aðeins frá smábroti af sögunni og ekki alltaf rétt frá.

Þjóðsögurnar og munnmælin greina mun betur frá því hvaða fólk kom við sögu vegna hvarfs Þorkels smala í Öxnadal og hvað um hann varð. Það sem strax ber á milli í fátæklegri frásögn 19. aldar annálsins og þjóðsögunnar er að Guðbjörg móðir Þorkels smala er sögð í annálnum ekkja þegar hann hvarf en þjóðsagan hefur það að geyma sem réttara reynist. Páll og Guðbjörg voru bæði á lífi og bjuggu á Hraunshöfða í Öxnadal þegar atburðir þeir gerðust, sem annállinn  greinir frá með svo naumum orðum, en þjóðsagan geymir söguna alla.

 

4. hluti

Langt fram á 20. öldina var hvarf smalans, Þorkels Pálssonar í Öxnadal, viðkvæmt mál af skiljanlegum ástæðum, meðan atburðirnir voru ennþá nálægt fólk. Forfeður náinna ættingja og vina gátu leigið undir grun um að hafa hylmt yfir morð. Þetta má sjá í blaðagreinum frá fyrri hluta 20. aldarinnar m.a. þegar á mál þetta var minnst í nýju þjóðsagnasafni, -Rauðskinnu.

Í þjóðsagnabókinni Sópdyngju (1940) eftir Braga Sveinsson er stórmerkilegt safn alþýðlegs fróðleiks, sem hann og Jóhann bróðir hans tóku saman. Sópdyngja hefur að geyma ítarlega frásögn af hvarfi smalans á Þverbrekku. Þar kemur fram að réttarhöld fóru fram vegna þessa máls 15 árum eftir að Þorkell hvarf, en þau voru af allt öðrum ástæðum en ætla mætti.

Frásögnin í Sópdyngju hefur að geyma fjölda nafna, ættfærslna og persónulýsinga þeirra sem að málinu komu. Enda höfundar ættaðir af vettvangi og munnmælasagan komin til þeirra tiltölulega stuttan veg. Líkt og í örðum þjóðsagnasöfnum þá eru foreldrar Þorkels smala sagðir Páll Eiríksson ættaður úr Köldukinn kona hans var Guðbjörg Þorkelsdóttir frá Miðvík á Svalbarðsströnd, áttu þau þrjá syni, Þorkel, Eirík og Pál. Þau eru sögð skörp gáfuð, en fátæk og bjuggu á Hraunshöfða í Öxnadal þegar örlaga atburðurinn gerist sumarið 1828.

Sigurður Sigurðsson var bóndi á Þverbrekku í Öxnadal. Hann var sonur sr. Sigurðar Sigurðssonar sem þá var prestur á Bægisá. Sigurður á Þverbrekku var nýkvæntur Valgerði Björnsdóttur frá Hofi í Svarfaðardal. Sigurður á Þverbrekku var talinn "dagfarsprúður, en funa bráður". Um Valgerði var sagt að hún væri "í meira lagi naum". Þau höfðu fengið Þorkel, sem þá var 16 ára gamall, lánaðan sem smala frá hjónunum í Hraunshöfða. En Þorkell hafði farið í smalastarfið nauðugur og hafði beðið Guðbjörgu móður sína að hafa sig heima, því var þá ekki við komið vegna fátæktar í Hraunshöfða.

Sunnudagskvöld eitt um heyskap var Þorkell með kvíaærnar og átti að gæta þeirra um nóttina. Þoka var og suddi. Nokkru eftir háttatíma kom vinnumaðurinn á Þverbrekku úr bæjarangli um dalinn og var hann drukkinn. Vinnumaður þessi hét Stefán Jónsson og var kallaður sveri eða drykkju Stefán. Hann þótti frekar "hvimleiður á heimili". Þegar hann kemur heim á Þverbrekku þá klagar hann Þorkel smala fyrir það að vera með kindurnar í túninu.

Sigurður, sem var háttaður ásamt Valgerði, vildi ekki gera mikið með þetta því það væri þoka sem Þorkell líklega hræddist. Valgerði leist ekki á að kindurnar bitu grasið af óslegnu  túninu og tók undir við Stefán með neyðarlegum orðum. Það endaði svo að Sigurður snaraðist á fætur og rauk út úr bænum hálfklæddur.

Þegar hann kom út greip hann með sér sleðameið úr járni sem stóð við bæjarþilið og notaður var til að smala kúnum og hljóp niður á tún. Þar kom hann að Þorkeli á rjátli við ærnar og hafði engan formála, heldur sló til hans. Þorkell bar fyrir höndina en höggið var svo þungt að hann bæði handleggs og kjálkabrotnaði.

Valgerður hafði sent Stefán á eftir Sigurði, og kom hann að þar sem Sigurði var runnin reiðin og hélt kjökrandi um Þorkel. Stefán á að hafa sagt Sigurði að ekki þíddi að vola og að um þessi sár yrði ekki bundið. Var svo unnið til fulls á drengnum og komu þeir sér saman um að fela líkið í torfbunka á nesinu við túnið.

Morguninn eftir reið Stefán sveri í Hraunshöfða og tilkynnti Páli og Guðbjörgu hvarf Þorkels. Varð þeim mjög hvert við, kom Guðbjörgu þetta ekki alveg á óvart, því skömmu áður hafði hana dreymt draum, sem henni þótti ekki góðs viti og áleit að boða mundi voveifleg afdrif einhvers sinna nánustu. Er þessi draumur til í þjóðsagnasöfnum og nefnist Guðbjargar draumur.

Páll reið strax í Þverbrekku til að leita að syni sínum. Hafði hann fengið ýmsa sveitunga sína með. Leituðu þeir allan daginn án árangurs. Sigurður bóndi hélt sig að mestu heima um daginn og tók lítið eða ekki þátt í leitinni. Var hann fámáll og varla mönnum sinnandi. Ýmsar getgátur voru um hvarfi drengsins, og héldu menn fyrst, að hann hefði ráfað á fjöll í þokunni.

Margar leitir voru gerðar að Þorkeli og sumar fóru ansi nærri sanni. Taldi t.d. einn sig hafa þreifað á líki þar sem hann leitaði í myrku útihúsi og annar dreymdi Þorkel í torfstabbanum. Þeir Sigurður og Stefán eiga samt alltaf að hafa verið fyrri til að færa lík Þorkels þannig að það fyndist ekki. Á endanum eiga þeir að hafa farið með það á Bægisá til sr. Sigurðar sem hafði komist að hinu sanna hjá syni sínum og hann á að hafa falið lík Þorkels undir kirkjugólfinu. Líkið á svo að hafa verið flutt að Hrafnagili í Eyjafirði og verið þar grafið með leynd.

Þá bjó þar Magnús prófastur Erlendsson, en Hallgrímur, tengdasonur hans, var þá aðstoðarprestur hjá honum. Nokkrum árum síðar var gröf tekin í kirkjugarðinum án vitundar þeirra prestanna, og kom þá upp lík Þorkels, lítt rotið, með lambhúshettu á höfðinu, og sneri hún öfugt. Einhver á þá að hafa komið með þá sögu að piltur sem drukknaði í Eyjafjarðará, hefði verið grafinn niður í öllum fötunum og féll þá málið niður.

Sagt var að Sigurður á Þverbrekku hafi eftir hvarf Þorkels oftar en einu sinni verið kallaður Kela bani. Eitt sinn þegar Sigurður var staddur á Akureyri fór maður að tala við hann. Mun Sigurður eitthvað hafa kannast við manninn, sem var mjög drukkinn, og leiddist Sigurði drykkjurausið og segir: -Þú ert víst ekki vel með sjálfum þér, Jón minn.- Þá segir Jón: -Er þetta Sigurður Kelabani?- Sigurður svaraði engu, en flýtti sér burtu.

Eins á Þorkell að hafa fylgt Sigurði eftir þetta og skyggnir menn orðið varir við fylgd hans, þar var um handleggsbrotinn dreng að ræða þar sem annar kjálkinn á að hafa lafað út úr lambhúshettunni. Þetta varð Sigurði hin mesta raun allt hans líf, en það sem gerði það að mál þetta kom fyrir rétt var af allt öðrum ástæðum en ætla mætti. Sigurður á Þverbrekku, sem þá var orðinn efnaður hreppstjóri í Öxnadal, kærði rógburð sem hann kenndi Agli Jónsyni í Bakkaseli.

Egill bar fyrir sig vitnisburði við réttarhöld sem heimilisfólk hans hafði skrifað niður eftir drykkjurausi Stefáns svera Jónssonar, sem þá var vinnumaður Egils, og var það plagg haft til grundvallar við réttarhöldin. Þess er skemmst að geta að Stefán sveri bar við þessi réttarhöld að allt sem hann hefði sagt um hvarf Þorkels væri lygi sögð í ölæði, og bað í framhaldinu Sigurð í Þverbrekku afsökunar og borgaði miskabætur.

Þannig hljóðaði plaggið sem fram kom í einu opinberu rannsókninni er fór fram um hvarf  smalans í Öxnadal. 

Á þriðjudaginn þann 21. nóv. 1843 kom piltur innan úr Hlíð með brennivín, sem hann færði til Stefáns Jónssonar á Bakka. Um kvöldið þegar hann var orðinn glaður, sagði hann við ekkjuna Helgu Einarsdóttur, að betur hefði Sigurður í Þverbrekku farist við sig heldur en henni að gera útför bónda síns í sumar, þegar hann hefði verið búin að grafa Þorkel Pálsson, sem hvarf þar um sumarið, sem hann var þar, þá hann hefði gefið sér frískan hest, gráskjóttan, fyrir handarvikið, og þar með sagði hann fullkomlega, að Sigurður hefði drepið hann.

Svo sagðist hann hafa riðið ofan að Hraunshöfða að segja frá hvarfi hans foreldrum hans. Þetta heyrðu þau hjónin Jón Hallgrímsson og Helga kona hans og Helga Einarsdóttur og Egill Tómasson. Daginn eftir koma Hjálmar frá Geirhildargörðum og sagði þá, að fundist hefðu ær fram á Þorkelsnesi. Þá sagði Stefán: -Það heitir ekki Þorkelsnes, heldur heitir það Miðnes-. Þá segir einhver: -Hvað veist þú um þetta?- -Það held ég viti það-, segir hann, -hvar hann var drepinn-, og segir, að það hafi verið á Miðnesinu ofan undan stekknum, þá spyr hann einhver, með hvaða atvikum það hafi skeð.

Hann segir Sigurður hafa slegið hann í rot og barið hann til dauða og gengið síðan frá honum. Þá sagðist hann hafa komið að og séð allt saman og sagt við Sigurð, að honum mundi vera betra að vitja um hann aftur, og þá hafi hann verið dauður, og þá sagðist hann hafa skammað Sigurð svert, svo hann hafi orðið hissa og ráðalaus og falið sér allt í hendur, og þá óskaði hann, að guð gæfi okkur það, að við sæjum aldrei svo aumkunarlega sjón sem þessa, og hann sagðist vita, að það yrði aldrei, og gat þá ekki varið sig gráti, og sagðist hann aldrei hafa verið með rólegri samvisku síðan og ekki verða, á meðan hann lifði.

Hann sagði hann hefði verið látinn ofan í gráan poka og verið fluttur ofan í Bægisárgarð, og þar var hann grafinn um haustið. Hann sagði líka, að séra Sigurður hefði orðið var við, hvar hann var grafinn, þegar hann var í leitinni. Þá segir einhver: -Nú ertu farinn að ljúga!- Þá segir hann: -Heldurðu að ég muni það ekki og viti það eins vel og þú, þegar við vorum upp hjá Járnhrygg, og hann sagði, að það væri best að hætta að leita, það væri ekki til neins að vera að þessu lengur-, og þegar séra Sigurður kom úr leitinni, hafi hann skammað Sigurð son sinn, og það hafi verið sú átakanlegasta ræða, sem hann hefði heyrt á ævi sinni, og það hafi verið á hólnum fyrir sunnan og neðan smiðjuna í Þverbrekku.

Eftir þessa ræðu segir einhver, að þetta sé ekki satt. Þá segir hann: -Nú segi ég ykkur satt-. Þetta heyrðu Helga Sveinsdóttir, Helga Einarsdóttir, Egill Tómasson og fleiri á mánudagskvöldið þann 27. f. m. Var Stefán spurður, hvar þessi Járnhryggur væri, sem þeir séra Sigurður hefðu verið til samans hjá báðir í leitinni. Þá segir hann, að sér hafi orðið á mismæli og verði það oft um hrygg þann, en hann heiti Hvassihryggur. Þá segir Helga Einarsdóttir: -Það vildi ég ætti annan eins poka og þann, sem Þorkell heitinn var látinn í-. Þá segir Stefán: -Heldurðu að hann sé ekki orðinn ónýtur núna í meir en 15 ár, að liggja við deiglu-. Þá segir hún: -Það var ljótur skaði að tapa honum, hafi hann verið vænn-. Hún spyr hann, hvort hann hafi verið óbættur og hvort það hafi verið vaðmálspoki. Bæði sagði hann, að hafi verið vaðmálspoki og það óbættur.

Þá segir hann, að þeir Sigurður og Páll hafi farið að því báðir eins og bévaðir klaufar vitlausir, því að Sigurður hefði hann ætlað að klókur væri. Hefði hann átt að vera fremstur í flokki að leita og láta sem sér hefði fundist mikið til um hvarfið á honum, en þvert á móti hefði hann ekkert skeytt um leitina. Páll í öðru lagi hafði vaðið áfram blindfullur, öskrandi eins og naut, með illindum og skömmum við sig. Hann segir, þegar farið hafi verið í fyrstu leitina, segist hann hafa farið á stað með þeim ótilkvaddur og upp að vatni (Þverbrekkuvatn) og segist hafa ætlað að vera með Páli einum og segja honum svo mikið um þetta, að hann væri rólegri eftir en áður og honum til gagns nokkuð.

Þá segir hann, að Páll hafi tekið brennivínstunnu upp úr hnakkpoka sínum og teygað úr henni og skammað sig síðan og skipað sér að segja til hans, því hann vissi af honum. Þá segist hann hafa reiðst og sagt honum, að hann skyldi aldrei segja honum til hans, og hann skyldi hafa það fyrir skammirnar, og héðan í frá skyldi hann ljúga að honum í hvert sinn. Hann sagði honum hefði betra að hafa sig góðan og gefa sér brennivín og vera með sig einan og biðja sig vel að segja sér það, og þetta sagði hann honum heldur skyldi verða til gagns. Hann sagði, að margir heyrt til upp við vatnið.

Eins og greina má þá fer munnmælasagan, þjóðsagan og réttarskjalið að mestu leiti saman, nema það var ekki Páll bróðir Þorkels sem stofnaði til réttarhaldanna.

 

5. hluti

Rétt er að slá botn í þjóðsöguna um smalann, sem átti ekki sjö dagana sæla "út um græna grundu", með því að gera lífshlaupi þess manns skil er mátti þola að ævin snérist um hvarf tveggja smaladrengja og lauk lífinu sennilega með hjartaáfalli.

Páll Pálsson bókbindari var sagður bæði atgerfis- og gáfumaður um sína daga, þó svo að ekki sé hægt að segja að gæfan hafi verið honum hliðholl. Sr. Sigmar Torfason fyrrum prestur á Skeggjastöðum á Langanesströnd og prófastur N-Múlasýslu gerði örlitla leiðréttingu við hvimleiða prentvillu í ártali, sem kom fram í grein Hólmsteins Helgasonar um Tungu-Brest, í tímaritinu Súlum í næsta tbl. á eftir grein Hólmsteins. Þar bætir Sigmar um betur og rekur æviferil Páls eftir því sem hægt er samkvæmt skráðum opinberum heimildum og er sá ferill nokkuð í takt við Þjóðsöguna.

Páll er talinn fæddur í Bakkasókn í Öxnadal árið 1818, þó er hann sagður fæddur í Illugastaðasókn í Fnjóskadal samkvæmt Ættum austfirðinga. Hann elst upp hjá foreldrum sínum m.a. að Hraunshöfða í Öxnadal þangað til þau yfirgefa Norðurland og flytja austur á Hérað, nokkru eftir hvarf Þorkels. Foreldrar hans koma fram í manntali í Sauðhaga á Völlum 1835 en þá er Páll 17 ára skráður sem léttadrengur í Geitagerði í Fljótsdal. Hann er skráður vinnumaður á Ketilsstöðum á Völlum um og upp úr 1840, eftir það virðist hann hafa synjað fyrir barn, Helga Pálsson síðar talinn vera staddur í Papey.

Samkvæmt Ættum Austfirðinga er hann á Freyshólum Völlum 1842 og kvænist þá Guðrúnu Einarsdóttir, Ásmundssonar bónda á Stóra-Sandfelli í Skriðdal, þau eru sögð eiga tvö börn saman Einar og Ingibjörgu. Einhverra hluta vegna flytur hann af Völlum á Héraði 1848 að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Skráður bókbindari á Þorvaldsstöðum í Vopnafirði 1850. Húsmaður og síðar bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði. Guðrúnar konu hans er þar hvergi getið í manntölum og hans ekki sem ekkjumanns.

Úr Vopnafirði flyst hann í Viðvík á Langanesströnd og kvænist þar Önnu Sæmundsdóttir frá Heiði á Langanesi þann 23. ágúst 1852, Páll er þá 34 ára, en Anna 20 ára. Anna lést af barnförum í nóvember 1852, þannig að stutt var sambúð þeirra. Páll og Anna áttu fyrir hjónbandið saman son sem hét Stefán sem ólst upp hjá Friðfinni og Ingibjörgu á Gunnarsstöðum á Langnesströnd, eftir fráfall Önnu dvelur Páll að mestu í Vopnafirði, þar til hann flytur aftur á Langnesströnd í Gunnarsstaði.

Þriðja kona Páls varð svo Helga frá Gunnarsstöðum, dóttir þeirra Friðfinns og Ingibjargar sem ólu upp Stefán son Páls og Önnu. Þau Helga voru gefin saman 12. ágúst 1857, Páll þá 39 ára en hún 18 ára. Þau áttu saman fjögur börn, Hólmfríði, Guðríði, Pál og Pál Eirík. Páll virðist einungis hafa verið með búskap þann stutta tíma sem þau Helga þoldu við í Kverkártungu, en annars verið í hús- og vinnumennsku á bæjum á Héraði, Vopnafirði og Langanesströnd, eða þá sem bókbindari enda oftast kenndur við þá iðn.

Í handritspunktunum sem Sigfús Sigfússon styðst við í sögu sinni af Tungu-Bresti, segir svo frá síðustu ævi árum Páls:

Eitthvað fór í ólag um hjónaband þeirra Páls og Helgu, enda voru þau að ýmsu ólík. Hann var hreinlátur og þrifinn en hún óþrifin mjög en dugleg. Þau voru ekki lengi saman. Þá skildu samvistir. Ekki veit Þóra hvort það var sakir ósamlyndis eða sökum fátæktar eftir samkomulagi. Hún fór þá vorið 1863 vinnukona að Hamri í Selárdal í Vopnafirði og var þar tvö ár og síðan önnur tvö ár á Þorvaldsstöðum í Selárdal hjá Stefáni Jónssyni er þar bjó kvæntur. Áttu þau barn saman 2. júlí 1867 er Friðrik hét. Var hún þá látin fara burtu og var hún þá á Refstað næsta ár. En vorið 1868 fór hún að Eyjólfsstöðum á Völlum með Friðrik son sinn, en Páll fór þá norður á Strönd í átthaga sína 7 ára(sonur þeirra Páls).

Skömmu síðar fór hún þá aftur norður á Strönd og tóku þau Páll þá aftur saman og voru í húsmennsku í Miðfjarðarnesseli. Þar voru þau 1872-3. Varð hún þá þunguð af völdum Páls. Vorið 1873 ætlaði Páll austur í Vopnafjörð og kom þá áður að Miðfirði og hitti húsmóðurina Matthildi að máli og sagði henni frá ferð sinni, Matthildur var yfirsetukona. Páll sagði henni að óvíst væri að hann kæmi bráðlega aftur. En Helga mundi innan skamms verða léttari. Bað hann hana að sitja yfir henni og ef barnið yrði sveinbarn skyldi hún láta það heita Þorstein Eirík. En ef það yrði meybarn skyldi Helga ráða nafninu. Fleiri ráðstafanir sagði hann Matthildi eins og hann byggist við að koma alls ekki aftur. Þóra heyrði samtal þeirra og varð það minnisstætt.

Síðan fór Páll aftur austur í Vopnafjörð og fékk gistingu á veitingahúsi í kauptúninu og hélt þar til í tvær-þrjár nætur og drakk allmikið, enda var hann nokkuð drykkfelldur. Síðasta morguninn vildi hann ekki vín smakka en fór út í Leiðarhöfn að hitta Andrés Nielsen  er þar bjó. Var vinfengi milli þeirra. Bað hann Andrés að lofa sér að deyja hjá honum, þess mundi ekki langt að bíða því hann væri orðinn kaldur upp að hnjám. Andrés tók því vel að veita honum gistingu þó hann byggist ekki við svo bráðum dauða hans. Páll lagðist þá fyrir og var hlúð að honum en kuldinn færðist upp eftir honum þrátt fyrir það og dó hann um nóttina .

Páll andaðist 2.júlí 1873 þá 55 ára, hann var jarðsettur á Hofi í Vopnafirði 11. júlí, þremur dögum seinna þann 14. fæddi Helga þeirra fjórða barn sem hlaut nafnið Páll Eiríkur.

Þráðurinn í þessari sögu um þá bræður Pál og Þorkel liggur víða og við það grúsk birtust myndir af harðneskjulegum aðstæðum fátækra barna fyrr á tímum. Ein af þeim þjóðsögum, sem landsfrægar urðu um mál þetta var Guðbjargar-draumur. Um hann er til kvæðabálkur sem lýsir draumi móður þeirra bræðra þegar hún lánaði Sigurði á Þverbrekku Þorkel son sinn, sem smala.

Til að fá heillega mynd um ævi og örlögum Páls þarf að leita vítt og breitt um þjóðsögurnar, þó svo þær hafi ekki verið á einu máli um orsakir reimleikanna í Kverkártungu, og í þeim sé hvergi getið orsaka Tungu-Brests, sem lifðu í munnmælum á Langanesströnd fram á daga internetsins. Saga Þorkels er skilmerkilega skráð í bókinni Sópdyngju og þó svo að þar sé um að ræða þjóðsagnasafn byggt á munnmælum þá er þar samhljóma texti úr skjali, sem notaður var í eina opinbera réttarhaldinu er fram fór vegna hvarfs smalans.

 

Heimildir:

Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússona (þrjár sagnir þ.a. Guðbjargardraumur)/ Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar (þrjár sagnir) / Þjóðsögur Jóns Árnasonar (tvær sagnir) / Gráskinna hin meiri (ein saga) / Að vestan (ein saga) / Rauðskinna (ein saga) / Reimleikar, Árni Óla / Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson / Annáll 19. aldar, sr. Pétur Guðmundsson / Langnesströnd.is / Sveitir og jarðir í Múlaþingi /Súlur 3. árg, Hólmsteinn Helgason / Súlur 4. árg, sr. Sigmar Torfason (Geymdar stundir IV-Ármann Halldórsson)/ Dagur 44.tbl 30.10.1924, Ingimar Eydal / Dagur 3.tbl. 17. 01. 1935, Ólafur Jónsson / Sópdyngja I bindi


Kínverska gervigreindin í köldu stríði

Nú skröltir hvert kaldstríðskumlið á fætur öðru eins og beinagrindur á hrekkjavöku, og fasistafraukur eru í sjokki eftir að þær komust á snoður um að ekki var um neitt Grænlandsgrín að ræða hjá Trump, -sem ygglir sig nú út og suður.

Hvert ESB hróið um annað þvert sér sér fært að lýsa yfir samstöðu með Dönum vegna skefjalausra stæla Trumps og það jafnvel þó svo að Kúlulánadrottninga-stjórninni okkar hafi ekki beint verið boðið til stríðsæsings með hinu norræna slektinu.

Einhver hefði haldið að réttast væri að Danir styrktu Grænlendinga til að ráða eign landi og valið væri þeirra. -Slepptu því að hroka sjálfum sér upp á heimsins vígaslóð og kasta þar með stríðsæsingum á báða bóga.

Mogens Glistrup stakk upp á því á síðustu öld að Danir legðu niður herinn og settu þess í stað upp símsvara sem segði "við gefumst upp" á rússnesku. Kannski væri nú rétt af þeim að fá gervigreint Kínverskt spjallmenni sem gæti sagt þetta bæði á rússnesku og ensku.

 

Ps. Sett var inn hér á síðuna yotube með Richard Wolff í gær, sem er vinstri sinnaður hagfræðingur á eftirlaunum. Hér fer hann yfir stöðu kommúnismans í heiminum studda hagtölum.

 


Staðan í dag - hvað er að gerast?


Er Helvíti á jörð?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband