4.11.2024 | 14:01
Já þetta ert þú
Það er margt sem ekki er beinlínis í frásögur færandi. Í sumar keyrði ég yfir Öxi ásamt moggabloggara með meiru og prófessor við Maryland háskóla sem skrifar bækur um Tyrkjaránið, eftir að við höfðum fetað slóð Hundtyrkjans í tvo daga fram og aftur Berufjarðarströndina. Ég beygði inn á þvottaplan N1 á Egilsstöðum til að þvo Dusterinn, sem var hlaðinn aur eftir Axar ferðina.
Þeir ferðafélagar mínir fóru inn í Söluskálann til að fá sér í gogginn á meðan ég skrúbbaði bílinn. Ég gaf manni gætur, sem var að þvo bíl við hliðina, því ekki vildi ég lenda í því sama og um árið þegar við Matthildur mín lentum í vatnsslag við rútubílstjóra. Þessi maður gaf mér gætur og þegar augu okkar mættust sögðu við því sem næst samtímis; -já þetta ert þú.
Þarna var kominn gamall kolleiki úr steypunni og ég spurði hvort hann væri enn þá að byggja hús. -Nei ekki nema þá fyrir sjálfan mig og ættingjana; sagði hann. Við höfðum ekki hist í 30 ár og spjölluðum um stund á meðan við þvoðum bílana.
Þegar þvottinum var lokið og það hillti í bloggarann og rithöfundinn þá kvöddumst við og ég bað að heilsa frænku og bað hann um að skila þakklæti fyrir myndina sem hún sendi mér af langömmu okkar á facebook. -Mundi þá allt í einu eftir vefstólnum hennar langömmu og spurði; -vantar ekki frænku vefstól? -Veistu það gæti bara vel verið; sagði hann.
Undanfarin ár hefur vefstóll Ingibjargar Bjarnadóttir langömmu minnar verið mér hugleikinn, og hefur hann orðið tilefni til þess að ég hef á hann minnst í samtölum við fólk á förnum vegi. Þannig var að Björg amma mín vaðveitti þennan vefstól ásamt rokk móður sinnar, rokk sem er mitt helsta stofustáss.
Vefstóllinn er aftur á móti hreinræktað vinnutæki án allra skreytinga, sem rennismíði með pílátum fylgir, sennilega smíðaður fyrir lítið pláss. Vefstólinn hefur síðan amma og afi skildu við verið varðveittur af frænku minni, sem komin er til efri ára, og hefur lengi haft huga á að koma honum í góðar hendur.
Hvorki safnastofnun, óbyggðasetur né aðrir höfðu séð sér fært að varðveita þennan vefstól. Ingibjörg langamma okkar á vel á annað þúsund afkomendur, ekki neinn þeirra, sem spurður hafði verið, sá sér fært að taka vefstólin að sér, enda kannski lítill skaði þó tapaðist samtíningur af gömlum spýtum.
En gamlar spýtur voru ekki bara spýtur áður fyrr, þær voru mikil verðmæti og geta átt mikla sögu. Langamma var fædd í Viðfirði í 16 systkina hóp, bjó á Vaði í Skriðdal og átti þar sjálf 17 börn með tveimur eiginmönnum, dó í Vallanesi í skjóli ömmu og afa. Vefstóllinn hefur margan ullarþráðinn gert að klæði. Það varð mér ljóst þegar ég las endurminningar sr Magnúsar Blöndal.
Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.
Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.
Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.
Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.
Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)
Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um það fólk sem kom við sögu á bænum.
Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér að verða ekki eftirbátur bændakvenna á Héraði í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þessa tíma.
Til að gera langa sögu stutta þá sendi frænka mér mynd af vefstólnum frá Vaði í síðustu viku þar sem hún hafði komið honum fyrir innan um gullin sín úr Skriðdal og ég fæ ekki betur séð en að hann sé stofustáss.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2024 | 16:51
Velkomin heim
Man einhver lengur hvernig var að koma erlendis frá í flugstöð Leifs Eiríkssonar á 10. áratug síðustu aldar? Já einmitt; góðan daginn þegar komið var frá Ameríku, og góða kvöldið þegar komið var frá Evrópu. -Og ef maður tók undir á lýtalausri íslensku, þá; -velkomin heim. Þetta var fyrir tíma Schengen og maður naut þess að vera ríkisborgari á Íslandi, -ættlandi Leifs Eiríkssonar, þeir sem annaðhvort skildu ekki kveðjuna eða voru flóttlegir voru teknir til nánari athugunar af tollvörðum.
Þessi tíð er löngu liðin, aldafjórðungur er síðan Schengen tók yfir flugstöð Leifs Eiríkssonar. Árið 2012 var þannig komið að maður komst varla frá landinu öðruvísi en á sokkunum með buxurnar á hælunum, og þegar maður kom til KEF þá var rétt betra að halda kúlinu ef minnsti grunur lék á að maður væri mörlandi, en útlendingar þrömmuðu í gegn. Því tekin hafði verið upp sú aðferðafræði að sorterað út úr landinu en ekki inn í það, -allt í boði Schengen nema kostnaðurinn.
Textan hér að neðan færði ég í bók daganna árið 2012.
"Það fer ekki hjá því að það örli aðeins á kvíða við þá röskun sem verður á grjótburðinum í fjósvegginn við það að fyrir höndum er flugferð yfir himin og haf. Síðast þegar ég fór þessa leið mátti ég gjöra svo vel að stíga til hliðar á Evenesflyplass á skokkaleistunum, með vasana ranghverfa og buxurnar á hælunum vegna skerandi óhljóða frá leitahliðinu. Eftir að hafa verið þuklaður hátt og lágt af kallmanni fékk ég að halda áfram för, en það sama gerðist svo í Gardemoen. Þegar ég kom til Keflavíkur reiknaði ég með að þetta yrði eins og í gamla daga að tollararnir byðu glaðlega góðan daginn og ef maður svaraði rétt á íslensku þá yrði málinu lokið með "velkominn heim".
En það var nú aldeilis ekki, þarna stóðu þær tvær svartklæddar í tollinum, önnur gekk í veg fyrir mig og spurði um vegabréf á ensku. Eins og illa gerður hlutur í grárri lopapeysu svaraði ég á ástkæra og ylhýra, "svo þú ert íslendingur" sagði daman þegar hún hafði skoðað vegabréfið, "þú mátt fara í gegn". En þá brá svo við að hin daman gekk einnig í veg fyrir mig og skipaði mér á ensku að koma afsíðis þar sem taskan mín var sett í skanna, "hvað er þetta" spurði hún á ensku og aftur greip lopapeysan til þess að svara skilmerkilega á ástkæra og ylhýra. "Svo þú talar bara íslensku" sagði svartklædda daman "þú mátt fara í gegn".
Þegar ég kom í gegnum tollinn heyrði ég háreysti sem mér fannst ég kannast eitthvað við, og jú þarna var náungi sem ég hafði séð nokkrum mánuðum áður við vopnaleitarhliðið í Keflavík. Hann hafði tilkynnt þar að það kæmi ekki til greina að hann tæki af sér skó og buxnabelti, hvað þá að hann tæmdi vasana að óþörfu. Þegar það átti svo að leita á honum lét hann þá vita með gargandi snilld að þessu skyldu þeir sleppa því hann væri nefnilega ekki glæpamaður. Fjöldi manns mátti bíða á sokkaleistunum með buxurnar á hælunum meðan serímónían fór fram.
Ég er ekki frá því að það hafi flogið í gegnum hugann á fleirum en mér, þegar svona góður tími gafst til að doka við og líta yfir sviðið, að þessi maður væri sá eini með fulle femm á öllu svæðinu. En hann er, það sem sennilega er kallað á fagmáli, misþroska. Þannig að hjá honum hefur varðveist viska barnsins allt til fullorðins ára." (Þessi texti er úr pistlinum Rosalega er orðið dýrt að vera í vinnu sem má lesa hér)
Nú eru komin meira en 10 ár síðan ég hef farið um KEF, hef einfaldlega ekki haft lyst. Ákvað þegar ég kom endanlega heim frá Noregi, að láta það sem ég á ólifað sem minnst lítillækka mig á Schengen svæðinu.
Annars átti þessi pistill upphaflega að vera um Halla Reynis og upplifun mína af tónlist hans, en Halli Reynis verður að bíða betri tíma, því þegar ég lenti á þessu lagi Velkomin heim þá rifjaðist það upp hvernig var að koma í flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir Schengen.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2024 | 05:31
Lokaviðvörun frá landvættunum
Kjósendur munu fljótlega fá að velja reykspólandi dísir með stríðsæsingar í möskuðum augunum og lang-lygna lukkuriddara. Allt vildi þetta slekti Selinski kysst hafa. Því framtíð Evrópu veltur á stríði, frelsið í endalausum manndrápum og landinu sé varið til verndar kolefnisspori vindrellandi auðróna, -Íslandsvina sem kalla sig erlenda fjárfesta.
Farið var með "böggum hildar" í vikunni yfir kosningunum í Georgíu daginn sem Selinski birtist án lýðræðislegs umboðs í boði Norðurlandaráðs. Það þótti ekki nógu gæfulegt að aðild að ESB og stríði við Rússland skyldi hafnað í lýðræðislegum kosningum. Reykfjörð hefði samt getað boðið ÖSE upp í Borgarnes, sína gömlu heimasveit, til að kynnast viðunandi talningu.
Nú styttist semsagt í að þjóðin fái að kjósa rísstjórnina í eitt skiptið enn, -og kjósa teiknsískt í annað sinn á árinu. Litla sæta dúkkulýsan, sem er algerlega á móti ESB, er til í að skoða það ef skotið verður undir hana ráðherrastól, að leifa þjóðinni að kjósa einu sinni enn taktískt. Og þá um ESB, -annars verður það bara bókun 35.
Og þjóðin hún lækar því þjóðin er glöð þar sem bláir stjörnuprýddir fánar blakta, - það er svo mikið erlendis. Þá munu sællega búttaðir íslenskir karlmenn þramma um götur Reykjavíkur með hríðskotariffla og loks endanlega lokið við að afmá þann bláa íslenska með krossi elds og ísa, ekki bara af bréfsefni alþingis, -auk þess að skipta um þjóð í landinu.
Reikna má með að kúlulána drottningin fái uppreist æru og fari með fjármálin sem hver önnur hagsýn húsmóðir, eða freyja frá fornu fari. Enda tókst henni um árið að forða blessuðum börnunum úr kojunum í miðju "hinu svokallað hruni". Hún verði því upphafin líkt og þegar Dabbi kóngur sat í Seðlabankanum.
Nýstirnið sem datt í lukkupott kviku við gammagróðann er heldur ekki óskrifað blað á flæðiskerinu. Blaðið var fjölfaldað með landráðum í reykfylltum bakherbergjum þeirra auðróna sem hafa farið með landráð flokksins sem kennir sig við sjálfstæði. Kviki gammagróðinn verður áfram límið sem heldur ríkisstjórn náhirðarinnar saman.
Eins er ekki ólíklegt að komi upp úr taktískum kjörkössunum skoðanakannana að degi borgar verði hróflað upp sem næsta forseta alþingis, karlmennskunni til hreinnar háðungar, -og kristninni til höfuðs. Hann sitji þar í skjóli flokksins sem kennir sig við sjálfstæði eins og hver annar Þistilfjarðar móri.
Eftir að þjóðin hefur lækað darraðardans þeirra Angurboðu og Loka er síður en svo líklegt að Guð blessi Ísland í dauðateyjunum þetta sinnið, -á sama hátt og síðast.
Nú þegar á fullveldi Guðs vors lands er ekki lengur trúað af hverfandi þjóð, -og landið verður gert að fórnargjöf þess þríhöfða þurs sem býður það sér og glóbalnum til rentu.
Landvættirnir áskilji sér eftir sem áður rétt til að taka til sinna ráða svo landinu bláa verði ekki tortímt á altari auðróna.
Holar tóftir
berir gómar
óráðs malið
þaðan hljómar
sem áður bar
nafn sem tónar
alþingi þjóðar
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2024 | 13:33
Kórekur og bláklædda konan
Árið 1938 fannst merkur fornleifafundur við vegagerðar framkvæmd, þar sem þá var kallað að Litlu-Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþingá, þar sem nú er Hlégarður. Um var að ræða líkamsleifar konu, tvær koparnælur, litla skrautnælu, auk klæðisbúta ásamt fleiru. Þessar minjar hafði mýrin varðveitt í meira en þúsund ár. Þáverandi Þjóðminjavörður gekk frá líkamsleifum konunnar í formalíni, sem ekki hefur verið sjálfgefin fyrirhyggja á þeim tíma. Mýrin hafði varðveitt líkamsleifarnar á þann hátt að mjúkvefir konunnar varðveittust þar til formalínið tók við varðveislu þeirra, það má því líkja þessari konu við nokkhverskonar múmíu. Sérstakt er að til séu líkamsleifar sem varðveittar hafa verið í formalíni á Þjóðminjasafni Íslands og hafi nú með nýjustu tækni veitt einstæða innsýn í líf konu sem bjó á Íslandi við landnám.
Það sem komið hefur í ljós með nútíma rannsóknum er að konan hefur látist um árið 900. Eins er rannsóknin talin leiða í ljós að hún sé fædd á vestanverðum Bretlandseyjum og hafi flust til Íslands 5-11 ára gömul, en dáið í kringum tvítugt. Klæðnaður og skart konunnar gefur til kynna að um efnameiri manneskju hafi verið að ræða. Eins þykir bútur úr bláu ullarsjali gefa ótvírætt til kinna að ullin hafi komið af íslensku sauðfé, því má leiða að því líkum að litun og vefnaður ullar hafi þegar verið orðin til í landinu á bernskuárum landnámsins.
Því hefur þráfaldlega verið haldið fram í skúmaskotum að ekki sé allt sem sýnist varðandi upphaf landnáms Íslands og leiddar hafa verið að því margvíslegar líkur að meiri fjöldi fólks hafi búið í landinu en sagan vill greina frá, fyrir eiginlegt landnám. Niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á bláklæddu konunni slá lítið á þær getgátur þó svo að þær sanni ekkert þar að lútandi heldur. Í mýrunum í Hjaltastaðaþinghánni er vafalaust margt fleira forvitnilegt að finna og sennilegast ekki öll kurl þaðan komin til grafar.
Margir hafa orðið til þess að benda á að sumar nafngiftir í þessari sveit séu sérkennilegar, t.d. heitir mýri í Hjaltastaðaþinghá blá og er þannig háttað víða á Austurlandi. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur sýndi fram á í ársritinu Múlaþingi árið 2010 að minnsta kosti tvö örnefni í Hjaltastaðaþinghá væru af gelískum uppruna þ.e.a.s. frá heimahögum ungu konunnar sem heygð var í Ketilstaðamýrinni. Þar er annarsvegar um helsta einkenni sveitarinnar að ræða, Dyrfjöllin, og hinsvegar um fornar rústir Arnarbælis í landi Klúku, andspænis Jórvík sem stendur sunnan við Selfljótið.
Syðri hluti Dyrfjalla heitir Beinageit eða Beinageitarfjall. Freysteinn telur víst, og rökstyður það rækilega, að upphaflega hafi öll Dyrfjöllin heitið Bheinn-na-geit, sem útleggst á fornri gelísku, dyrnar við fjallið. Arnarbæli vill Freysteinn meina að hafi upphaflega heitið Ard-na-bhaile á forn-gelísku, sem útleggst sem Búðarhöfði sé því snarað yfir á Íslensku. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki frá örófi alda í Útmannasveit að á þessum stað hafi verið forn verslunarhöfn þó svo að nú sé ekki skipgengt lengur að Arnarbæli. Frumrannsókn fornleifa í Arnarbæli var gerð árið 2010 og leiddi hún í ljós að rústirnar þar eru umfangsmiklar.
Eitt nafn í Hjaltastaðaþinghá hefur valdið mér heilabrotum öðrum fremur, en það er nafnið Kóreksstaðir sem eru rétt fyrir innan Jórvík. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þetta Kóreks-nafn annarsstaðar. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en nýverið að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn, enn sem komið er. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður.
Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík. Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.
Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar tegja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."
Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.
Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið enn eitt örnefnið af gelískum uppruna, og þá farið að nálgast kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heilags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.
En að fullyrða það blákalt að með nýjustu tækni á gúggul sé hægt að bendla bláklæddu konuna í Ketilstaðamýrinni við afa Þorbjörns kóreks bónda á Kóreksstöðum sem líklega hafi átt rætur að rekja til Finnbars í Corcach Mór na Mumhan, er blátt áfram full langt gengið.
E.s. Þessi pistill var birtur hér á síðunni 8. ágúst 2015, sem nokkurskonar örnefnahugleiðing, en þá stóð yfir sýningin Bláklædda konan á Þjóðminjasafni Íslands. Hann er endurbirtur nú vegna andleysis og að ég nenni ekki að hræra í langloku.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.10.2024 | 06:54
Röðlasmiður
Flaskan fraus
og sumrinu lauk
svalir vorsins bíða
Verður veturinn
blíður oss?
Það er nokkuð víst að fáir lesa bloggpistil þar sem er minnst á sálina, eða farið með bæn, -hvað þá ef bænin er í kvæði og pistillinn hefst í bundnu máli. Þessi ætti því að vera nokkuð pottþétt uppskrift, þar sem leitast er við að gera allt þetta í einu.
Nú er kominn vetur, ef talið er frá veturnóttum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sem hafði tvær árstíðir, -sumar og vetur. Að vísu heitir síðasti sumarmánuðurinn haust og hefst í grennd við haustjafndægur. Tímatöl ganga upp samkvæmt sólarhringrás, en þau gömlu voru oftar en ekki einnig grundvölluð á næturhimninum, -líkt og það íslenska sem var notað um aldir.
Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal. Það má t.d. sjá á því, að það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur. Það sama átti við næturhimininn, mánaðamót voru grennd við þar sem stjörnumerkin mætast.
Nútímavísindin hafa gert mannsævina línulega á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur hina eilífu eykt hringrásarinnar. Og aðeins trúin, sem nútímavísindin efast hvað mest um, leyfir okkur enn þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlykur.
Þú átt aðeins eitt líf hefur verið gefið á línuna af nýaldar húmanisma efnishyggjunnar, -frá vöggu til grafar. Þetta hefur falið sálina og slitið tengingar við eilífðina og almættið. En hvort sem það er þetta eina líf, stafrænn tíminn, eða þá árstíðirnar, -þá tilheyrir allt hringrás eilífðarinnar.
Nútíminn getur þess sjaldnast, að ekki er hægt að tapa því sem maður er, -aðeins því sem maður hefur, -hvað þá að þú sért aðeins ríkur þegar þú átt eitthvað sem ekki fæst fyrir peninga.
Til að enda þennan lítt-læsilega pistil má segja sem svo að hann sé lítið annað en brot óreiðuhugsana, rétt eins og bundið mál sem á það til að tínast í ljóðum, þ.e.a.s. þegar maður er orðin það ringlaður að koma ekki lengur frá sér í orði heilli hugsun, -nokkurskonar ótímabær elliglöp, eða sakramenti sérvitrings.
En ég ætla samt ekki að gleyma kvæðinu og bæninni, sem ég lofaði í upphafi, -til Röðlasmiðsins.
Þú sem röðli ræður
hverri dögun í heimi hér
ver á himni skæður
þegar ævi kvölda fer
Lýstu sorta með sólstöfum
þegar lækkar á lofti sól
slá roða af himni björtum
yfir haf, dal og hól
Geislaðu leiftrandi ljósum
í myrkrinu hérna norður frá
skartaðu blikandi stjörnum
svo megi í birtu sálin ná
Svo er sól á vetri hækkar
og ljósið bjarta færirðu mér
til sumars ætíð mig hlakkar
þar til ljós í röðli þínum ég er
Dægurmál | Breytt 25.10.2024 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.10.2024 | 13:30
Almenn tilkynning frá landvættunum
Nú er sú staða komin upp í Íslenska lýðveldinu að ríkistjórnarhræið er risið upp frá dauðum til að setjast við kjötkatlana og nota fjárvana ríkissjóð til að dæla út kosningaloforðum.
Ekki leið nema nóttin eftir andlátið áður en Ölfusárbrúin hafði hækkað um 4 milljarða, -úr 14 í 18, sem þykir hóflegt sé mið tekið af Borgarlínu. Uppvakningurinn hefur verið endurræstur á fríu spili og alþingi leyst frá störfum svo hægt sé að hefja atkvæðasmölun.
Segja má að það hafi verið klókt af forsætu lýðveldisins að fara uppáklædd með dúsin af carbfixuðum kellingum í gamaldags útrás til Köpen, ásamt helstu leikendum arðránsins og snakka þar á ensku á meðan ríkistjórnin tók síðustu dauðakippina.
Reisa síðan hræið við sem starfsstjórn svo koma megi í gegn fjárlögum og helstu áhugamálum auðróna þeim tengdum, -og vonandi gjaldskyldri samgönguáætlun eins og frambjóðandi komst svo smekklega að orði.
-Allt minnir þetta á gömlu góðu gullaldarár náhirðarinnar, -eða þá þið eruð ekki þjóðin, -slagorð sem helferðarhyskið hefur tekið í endurnýjun lífdaga. Þetta ættu allir að hafa í huga sem íhuga nú að kjósa taktískt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.10.2024 | 05:21
Brýrnar breyttu öllu
Með söknuði kvaddi ég Ísland, sem ég fæ aldrei framar að sjá. Ég verð að viðurkenna, að á þessum fáu vikum, sem ég var þar, varð land og þjóð mér innilega kært.
Ísland er algjör andstæða hinna suðrænu landa. En hin dásamlega tign fjallanna og hin þögla náttúrufegurð hlýtur ósjálfrátt að hrífa huga manns.
Aðdáunarverð er sú þjóð, sem hefur barist við slíka örðugleika og sýnt kjark sem Íslendingar. Þeir geima enn helgar minningar fortíðarinnar af slíkri tryggð, að bröltið og bramlið í Evrópu hefur ekki spillt þeim.
Og í baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði hafa fáar þjóðir sýnt jafn mikla þrautseigju og þolgæði. Þjóðmenning þeirra byggist á erfðavenjum og þeir hafa ekki látið glepjast af gyllingu yfirborðsmennsku nútímans.
Og þó nokkrir Íslendingar komist í kynni við hámenninguna, þá býr þeim jafnan heimþrá í brjósti. Og það er eitthvað stórfellt og göfugt við þessa ást til hins fornfræga Sögulands. (Ísl sagnaþættir III bls bls 142)
Þetta skrifaði Alexander Baumgartner í ferðasögu sinni árið 1883, þegar hann fór með strandferðaskipi norður um land til Austfjarða. Hann hafði ákveðið að ferðast um landið á sjó með ströndum frekar en á landi. Strandferðaskipið, sem hann kallar "Thyra", stoppaði í fjölda hafna á leiðinni frá Reykjavík til Eskifjarðar og gerir hann þar upplifun sinni skil í ferðasögu sinni.
Það kemur fram m.a. að Alexander telur sig heppinn að hafa tekið þessa ákvörðun frekar en að ferðast landveg með kunningja sínum sem ætlaði sömu leið á hestum ásamt fleyrum, en kom fárveikur og búin á því um borð á Sauðárkróki. En meira af frásögnum Alexanders Baumgartner síðar.
Já ég er dottin í sagnaþætti, en það eru bókmenntir, sem gefa oft glöggar upplýsingar um líf venjulegs fólks í landinu, oftast skrifaðir af sérvitringum sem vildu ekki að saga þess hluta landsmanna, sem kallast almenningur, glataðist. Svona nokkurskonar og draugasögur í björtum þjóðsagnastíl.
Það er ekkert nýtt hér á síðunni að vitnað sé í svona sögusagnir en í þessum pistli ætla ég að tína til hvað svona sagnaþættir segja óbeint um brýrnar yfir boðaföllin og jökulvötnin, enda er helsta deilumálið nú á dögum hversu dýrar brýrnar megi verða þegar kemur að listfenginni hönnun og hversu mikið sé réttlætanlegt að rukka vegfarendur fyrir að fara um slíka skúlptúra.
Landið var svo til án brúa á dögum Alexanders þó hafði lengi verið brú yfir Jökulsá á Dal, hina horfnu fornu Jöklu sem einnig er kölluð Jökulsá á Brú. Það stendur hins vegar ekki til að minnast á hana hér né gera þeim brúm eiginleg skil sem minnst er á, heldur segja sögur sérvitringana úr sagnaþáttunum.
Það birtust hér á síðunni stuttar frásagnir úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar fyrir nokkur árum og þar var ein um hvernig var umhorfs við Ölfusá þar sem brúin er núna og gefur sú frásögn glögga lýsingu á því hvernig Ölfusárbrú, sem byggð var 1891 - stuttu fyrir Íslandsför Alexanders, breytti öllu.
Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.
Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning.
(Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn. - Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun R. Christiansen.)
Í bókinni Að Vestan II-Þjóðsögur og sagnir - eru sögur sem varðveittust í vesturheimi, innheldur II bindið sagnaþætti Sigmundar M Long. Þegar ég las þessa sagnaþætti þá áttaði ég mig á því að Sigmundur ólst upp á þeim stöðum sem ég fer um dags daglega og þar mátti sjá hvernig líf fólks var háttað áður en Lagarfljótsbrúin kom til árið 1905. Sagan af Ingibjörgu Jósefsdóttir gaf góða innsýn í hvernig var að fara um fyrir einni og hálfri öld áður en Lagarfljóts- og Eyvindarárbrýrnar vor byggðar, brýr sem ég fer um hugsunarlaust nánast daglega, -stundum oft á dag.
Lagarfljótsbrúin var lengsta brú landsins allt til ársins 1973, fyrsta brúin yfir Eyvindará er talin hafa verið byggð 1879. Lagafljótið skiptir Fljótsdalshéraði að endilöngu og allt til loka 20. aldar var N-Múlasýsla fyrir norðan Fljót og S-Múlasýsla fyrir austan Fljót. Það var svo ekki fyrr en á 21.öldinni sem bæirnir Egilsstaðir og Fellabær, -sitt hvoru megin við brúarendann, urðu sameiginlegt sveitarfélag. Fyrir utan Eyvindará var Eiðaþinghá og þaðan lá leiðin niður á firði, um Fjarðarheiði á Seyðisfjörð, upp Eyvindardal um Eskifjarðaheiði á Eskifjörð og um Slenju yfir Mjófjarðarheiði á Mjóafjörð.
Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi (fyrir norðan Fljót) sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims.
Önnur saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.
Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.
Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförunum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.
Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.
Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.
Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Ási í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.
Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.
Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.
Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.
Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.
Á þessum tíma var hvorki brú yfir Eyvindará né Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar og nær að suður enda flugvallarins. Lögferju var lengst af sinnt frá Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.
Upp síðkastið hef ég verið að lesa Sagnaþætti Benjamíns Sigvaldasonar sem hafa að geima fágætar sagnir af Melrakkasléttu og úr Öxarfirði. Benjamín sagðist finnast lítið hafa varðveist af sögnum úr N-Þingeyjasýslu og ákvað að safna saman þeim sögnum sem hann þekkti og gefa út í kiljum.
Mér áskotnuðust þessir sagnaþættir í búð Rauðakrossins þar sem hægt er að fá fágætar bækur úr dánarbúum, sem erfingjarnir kæra sig ekki um, á vægu verði. Þegar ég skar mig í gegnum þessi hefti, síðu fyrir síðu, las ég frásögn Benjamíns af því þegar brúin yfir Jökulsá á Fjöllum var byggð niður í Öxarfirði árin 1904-1905.
"En afdrifaríkast af öllu voru þó áhrifin, sem allt þetta hafði á hið kyrrláta sveitalíf í nágrenninu. Öldum saman hafði þarna ríkt kyrrð og friður, og sambandið við umheiminn verið lítið sem ekkert.
Allt var bundið gömlum vana og fornri hefð. En nú breyttist þetta í einni svipan. Jafnvel gamlir og grónir bændur stukku frá orfum sínum í bestu rekju eða frá heyjum í ágætum þurrki, ef þeir áttu kost á því að flytja nokkra poka af sementi að brúnni eða þá selja brúarmönnum nokkrar flatkökur og eina smjörköku.
Þarna voru krónur í boði, og það var aðalatriðið. En ekki þurfti ætið peninga til. Ef höfðingja bar að garði, þá voru ýmsir fúsir til þess að ríða út með þeim um hásláttinn, eða fara með þeim á blindfyllirí." (Sagnaþættir Benjamíns Sigvaldasonar III bindi bls 186)
Ég ætla að láta Alexander Baumgartner, sem inngangsorð pistilsins eru fengin frá, -eiga loka orðin í þessum pistli þegar hann lýsir samgöngumáta íslendinga áður en brýnnar breyttu öllu.
"Eftir veginum kom hópur ríðandi kvenna og manna. Þegar kvenfólk ferðast fer það alltaf í bestu fötin sín. Reiðpilsin þeirra eru síð og þær sitja í söðlinum tígurlegar eins og valkyrjur. Þegar maður horfir á slíkan hóp og hinn einkennilega klæðnað, gæti maður trúað að maður væri kominn suður í einhvern friðsælan Alpadal.
Svo gengur stöðugt sæll og sæl og fólkið kyssist mörgum kossum. Konunum er boðið inn að þiggja kaffi. En karlmennirnir, sem eru ekki líkt því eins vel klæddir, þurfa að hugsa um hestana, og svo skreppa þeir inn í búð til að fá sér brennivín og taka úr sér hrollinn." (Landinn kemur í kaupstað-Ísl sagnaþættir III bls 135)
"Á eftir fórum við á hestbak það er óumflýjanlegt á Íslandi. Fái Ísland einhvertíma sæmilega vegi og brýr, eða járnbraut, þá verður það eins og önnur lönd. En nú er það mjög frábrugðið, því það verður ekki komist af án hesta.
Alt verður að fara á hestum: til skírnar og jarðarfarar, í skóla og á engjarnar, til kirkju og alþingis, í kaupstaðinn og læknisvitjun. Frá blautu barnsbeini er hesturinn félagi allra manna og kvenna og fólkið lifir þannig frjálsu útilífi, sem ekki þekkist í hámenningunni.
Á þennan hátt verða menn hraustir og fyrirmannlegir. Hver maður er sinn eigin herra, smiður, lögfræðingur og jafnvel læknir. En ef þeir hætta að nota hestana, þá breytist þetta allt saman." (Ísl sagnaþættir III bls bls 140)
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.10.2024 | 13:49
Aumt er þetta af "bændum"
Árum saman hafa bændur á Suðurlandi legið á þingmönnum með það að fá að drepa álftir. Þeir segja að þær eyðileggi akrana. Fyrst héldu þeir því fram að þær ætu frá þeim allt kornið, en nú eru þeir farnir að halda því fram að auki að þær bæli niður grasið, eftir að hafa verið staðnir að lyginni og þess í stað sé erfitt að vinna akrana að vori, -og þá væntanlega bæla álftirnar grasið meira en stærstu traktorarnir þeirra sem notaðir eru til að vinna flögin.
Heyrst hefur að á Suðurlandi stundi bændur einhverja þá al-ógeðslegustu ferðaþjónustu sem fyrirfinnst í landinu. Eftir að gæsaveiðitímabilið hefst selji þeir ferðaþjónustufyrirtækum aðgang að lendum sínum sem koma með drápsóða túrista sem fá afhentar haglabyssur við komu að morgni og driti niður gæsir sér til skemmtunar á morgunnfluginu. Að lokinni slátruninni, sem getur talið hundruð fugla í hvert skipti, halda túristarnir í sína dagsferð, en bóndinn hirðir dauðann fuglinn af akrinum, sker úr honum bringuna og selur veitingahúsum hana sem villibráð.
Þetta er aðferðafræði sem er nokkuð á pari við þá bændur sem vitað er af í öðrum landshlutum og hafa ræktað kornakra til að leigja íslenskum gæsabringuveiðimönnum með góðum ágóða. Það sem bændur á Suðurlandi eru þarna að fara fram á er í raun að veiðitímabilið sé ótakmarkað á lendum þeirra frá vori til hausts, allan þann tíma sem farfuglar eru á landinu. Auk þess að það taki til grágæsa og heiðargæsa, sem það gerir nú þegar eftir 20. ágúst, þá taki það einnig til helsingja og álfta, sem voru í útrýmingarhættu fyrir nokkrum áratugum síðan.
Það að að halda því fram að um offjölgun á álftum sé að ræða, þó að þær telji nokkra tugi þúsunda á landinu öllu, og að þær eyðileggi akra bænda í stórum stíl er fyrirsláttur, og ömurlegt þegar fjölmiðlar taka þátt í þannig einhliða rangfærslum. Það ætti ekki annað eftir að sannast á auðkeypt alþingi, en að það leyfi ótakmarkað dráp á farfuglum sem koma til landsins vegna svona ömurlegs málatilbúnar.
Bændur vilja skjóta álftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.10.2024 | 16:38
Why Iceland viðundrið sagði brandara og salurinn hló
Man einhver hvaða brandara Why Iceland sagði fyrir tæpum 20 árum? Samt faglega sagt hjá viðundrinu og fallega gert hjá hreppsómögunum að hlæja á réttum stað, -eins og hver önnur fífl, sem þau reyndar eru.
Why Iceland hefði mátt minnast á að vegna stórkostlegra hæfileika hans og hans líka, þá streymir fólk frá Evrópulöndunum til landsins, frekar en til Tene, á meðan venjulegir Íslendingar hafa varla efni á að búa í eigin landi, -hvað þá að ferðast um það, -og það á meðan flækingarnir byggja yfir hvorir aðra á okurvöxtum.
Hann bendir á fádæma hagvöxt, -sem búin er til með skuldsettri verðbólgu og innflutningi á flækingum, þakkar síðan sjálfum sér fyrir að verðbólgan sé á leiðinni niður eftir 14 vaxtahækkanir sem eru að hafa þakið af ungum Íslendingum.
Á meðan eina ástæðan fyrir því að verðbólgan var á leiðinni niður í síðustu mælingu er sú, -og ég endurtek sú aleina, -að fíflin sem hlógu í salnum gefa nú skólabörnum frítt að éta á kostnað vinnandi fólks landinu.
Þessi salur væri betur allur með tærnar upp í loft alla daga, -jafnvel á Tene.
Mættu hafa í huga þar sem þeir kvarta á Tene | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)