27.7.2014 | 07:40
Þjóðvegurinn, þessi grýtta braut.
"Það tjáir ekki að neita því, að ægileg ertu, þar sem þú situr eins og ofvöxtur á íslenska landabréfinu, - þenur þig út með yfirlætislegum óravegalengdum um þagnarheima auðnarinnar og skapar með mörgþúsund ferkílómetrum hrauna og sanda óhugarlegt tómarúm hrjóstursins yfir eyjuna okkar hálfa."
Þannig er lýst ömurleika Þingeyjarsýslu og er þetta fyrsta setningin í sögunni sem var aldrei sögð um þjóðlíf í upphafi 20. aldar. Ég ætla ekki fara nánar út í þá sálma hvernig umhorfs var á Íslandi fyrir rúmum 100 árum samkvæmt bók Þorsteins Thorarensen, Gróandi þjóðlíf, heldur segja smá ferðasögu um brot þessa landsvæðis.
Þannig er að ég hef verið í sumarfríi þessa vikuna ásamt Matthildi minni og ákváðum við að láta slag standa með að keyra norður og niður Jökulsárgljúfur, en það ferðalag hefur verið að þvælast um í kollinum á mér í nokkur ár. Við Matthildur erum vön að ferðast án allra skipulagðra plana, því eru ferðalög okkar yfirleitt ekki lengri en dagsferðir. En það að fara upp og niður Jökulsárgljúfur krefst nætursetu ef eitthvað á að sjá annað en grýttan þjóðveginn.
Núna á tímum túrisma, þar sem orðið er gjaldskylt að hafa opin augun á Íslandi, er nánast útilokað að kaupa gistingu sem ekki kostar augun úr. Það hafði komið til tals að taka gamla Atlavíkurtjaldið hennar Matthildar með í þetta ferðalag en þótti ekki álitlegur kostur, enda hafði það síðast verið notað af krökkunum á Bræðslunni fyrir nokkrum árum og þau verið spurð hvort þetta væri tjaldið sem Jim Morrison dó í. Þar að auki voru enn í fersku minni fréttir frá því á góðærisárunum; af því þegar íslendingum með tjöld var meinaður aðgangur að tjaldstæðum vegna þess að þannig landar hlytu að vera ógæfufólk sem stundaði næturbrölt.
Ég hafði stungið upp á því fyrir nokkru að við færum á gamla Kangónum því erlendir ferðamenn þvælast um á svoleiðis bílaleigubílum með áletruninni "happy campers". Matthildi leist ekki á þessa hugmynd því kassinn á Kangó væri ekki einu sinni eins og einbreitt rúm hvað þá mikið meira en 1.6 m á lengd. En þegar sjötug systir hennar birtist í heimsókn í síðustu viku, á svipuðum bíl með frænku sinni, sem þær notuðu sem gististað, voru engar afsakanir lengur.
Síðasta miðvikudagsmorgunn dröslaði ég yfirdýnunum út í Kangó ásamt fermigasvefnpokunum og við brunuðum á stað með kaffi og heimabökuðu kanilsnúðana. Til að upplifa auðnina í botn ákváðum við að fara gamla þjóðveg 1 um Möðrudal þó vegurinn væri rjúkandi stórgrýti og skoðuðum í leiðinni Skessugarðinn. Þegar við stoppuðum næst við Fjallakaffi í Möðrudal var rútustóð í hlaðinu og túristar á hverjum hól þannig að skyggði á sjálfa fjalladrottninguna, Herðubreið. Eftir að hafa kíkt á glugga í kirkjunni til að berja altaristöfluna augum, sem Jón í Möðrudal málaði um árið af Jesú Kristi að renna sér niður brekku, yfirgáfum við pleisið enda óþarfi að fara í biðröð eftir fjallakaffi með brúsann og kanilsnúðana í Kangónum.
Við áðum um sinn norðan við Biskupsháls. þar tók sig út úr þéttri umferðinni fjallabíll og keyrði að tjörninni sem við höfðum komið okkur fyrir, þarna var á ferð vinafólk frá árum áður sem við höfðum ekki hitt frá því 2008. Það var gaman að eiga kaffispjall um það sem á dagana hafði drifið við litla tjörn í hlýjum öræfavindinum. Eftir þetta stopp var haldið áfram, beygt af þjóðvegi eitt við Jökulsárbrú og stefnan tekin niður þjóðveg 864 við Jökulsána að austanverðu, niður Hólsfjöll.
"þessi andskotans vegur er sama stórgrýtis þvottabrettið og vanalega" kallaði ég til Matthildar; - "sama þvottabrettið og vanalega? eins og þú sért hérna á ferðinni dags daglega og vitir það" kallaði hún á móti. Kangóinn var orðinn fullur af óhljóðum og ryki.
Það er samt svo að ég fór fyrst þessi helvítis Hólsfjalla þvottabretti fyrir rúmum 40 árum til að skoða Dettifoss á sumarferðalagi með foreldrum mínum og hef af og til í gegnum árin þvælst þessa stórgrýttu leið vegna vinnu. Þá hefur nokkru sinnum verið farið að Dettifossi ef einhver hefur verið með í för sem ekki hefur séð hann. Matthildur hafði aldrei Hólsfjöll farið, ekki einu sinni að Dettifossi og hafði því bara alls ekkert vit á þessu stórgrýti.
Umferðin var þétt og rykmekkirnir stigu af veginum. Þegar við komum að fossinum voru öll bílastæði yfirfull og engu líkara en útihátíð stæði yfir, ekki um annað að ræða en parkera þétt með kamrinum. Í öll þau skipti sem ég hef áður komið að Dettifossi hefur ekki nokkur hræða verið á staðnum til að trufla andaktina, enda þjóðvegurinn um Hólsfjöll ekki fyrir neina sunnudagsbíltúra. Hvað þarna var margt fólk í stórgrýtinu er ekki gott að áætla en rútur og bílaleigubílar skiptu tugum. Dettifossi er ekki hægt að lýsa ekki einu sinn með ljósmyndum þannig er nú bara það.
Eftir að hafa setið við fossinn til að upplifa hann og séð útlendinga í röðum á öllum klettabrúnum eins og indíána í bíómyndum, héldum við áfram niður gljúfrin og stoppuðum næst við Hafragilsfoss. Eins og við Dettifoss flaug tíminn inn í stórbrotið landslag en þarna var færra fólk á ferð svo jafnvel minnti á gamlan tíma þegar hægt var að leggja metnað sinn í að míga úti. Síðan tók þvottabrettið aftur við niður í Öxarfjörð. Þar hafði sjoppan og tjaldstæðið við Ásbyrgi verið sprengd í loft upp með fólki þannig að ekki yrði þar hafður næturstaður.
Ásbyrgi verður seint lýst betur en að hætti þeirra sem fyrst það sáu; hóffar Sleipnis hests Óðins. Hvernig fornmenn sáu hóffarið án þess að hafa yfir flugvélum og þyrlum að ráða sem nú á tímum má sjá sveima með ferðamenn yfir Jökulsárgljúfrum, er mér hulin ráðgáta. Þó að ég hafi nokkrum sinnum komið í Ásbyrgi þá get ég ekki lýst því með öðrum orðum en þangað verður fólk að koma sem vill fá nasasjón af Íslandi.
Við keyrðum því næst upp niðurgrafinn moldarslóða sem telst vera þjóðvegur 862 vestan við Jökulsána, í Vesturdal þar sem er tjaldstæði. Þar voru þjóðgarðsverðir gengnir til náða þegar við komum, en pláss fyrir Kangó. Eftir að hafa rölt um nágrennið, sem við ákváðum að skoða betur fyrir allar aldir næsta morgunn, var næturgistingin gerð klár. Snemma, fyrir hefðbundnar túristaferðir voru klettaborgir skoðaðar sem við héldum að væru Hljóðaklettar en var með skilti sem vísaði á Eyjuna. Þegar við höfðum gert upp við þjóðgarðsvörð ákváðum við að renna niður bílslóða sem lá að Jökulsánni ef þar væri meira að sjá áður en við héldum aftur út á moldarslóða 862.
Þessi krókur var gulls ígildi því þarna voru þá þessir Hljóðaklettar, WOW og ég meina það. Inn á milli þessara stuðlabergs spírala, sem vófu sig tugi metra upp í himininn, gengum við dáleidd á meðan morgunnsólin bræddi hvert ský. Þó svo að ég hafi séð margar myndir úr Hljóðaklettum hef ég aldrei haft ímyndunarafl sem hefur náð hálfa leið utan um herlegheitin. Það að svona undur hafi getað orðið til á því sem næst augnabliks eldgosi og það að Jökulsárgljúfur hafi orðið til í hamfarahlaupi úr Vatnajökli sem sópaði jarðveginum frá þessum skúlptúrum, er einfaldlega meira en nokkur tíma hefur verið hægt að koma fyrir í öllum hamfaramyndum ljósvakans.
Eftir að hafa eigrað um óendanlegar klettaborgirnar var stefnan tekin í suður og því sleppt að ganga um Rauðhólana enda fæturnir búnir og WOW-ið farið að lækka raddstyrkinn. En ekki tóku minni undur við í rykmekki umferðarinnar, við Hólmatungur tóku ský að hlaðast í loftið. Þegar við komum að Dettifossi að vestan voru komnar skúrir sem maður skilur hversvegna eru kallaðar "showers" á ensku. Fyrir túristana, sem voru hálfu fleiri við Dettifoss að vestan en austan daginn áður, var búið að koma fyrir kamraborgum frá gámaþjónustunni á malbikuðum bílastæðunum því þessir venjulegu náðhús voru með löngum biðröðum við hverjar dyr. Þrumuguðinn ræskti sig á himninum um leið og hann skolaði rykið af ferðamönnunum með sturtum. Síðan braust sólin í gegnum skýin með sólstöfum og regnbogum.
Það stefndi allt í að við yrðum dagþrota einn daginn enn eftir að hafa skoðað Dettifoss að vestan, þó ákváðum við að brenna vestur í Námaskarð áður en stefnan yrði tekin austur. Enda hver að verða síðastur til að fara þar um með opin augun án þess að vera rukkaður sérstaklega, og kannski bara hundaheppni að lögbann hafi verið sett á innheimtuaðgerðir svokallaðra landeigenda, gegn 40 milljón króna tryggingu s.l. mánudag. Ég sem hélt að tryggingin hefði verið fyrir posanum einum saman, en sá þegar ég kom á svæðið að einnig hafði verið kostað til uppsetningar á sjálvirku rúlluhliði svipað og tekur á móti aðgangsmiðum á lestarstöðvum.
Landslaginu sem gefur að líta í Þingeyjarsýslu verður sennilega ekki lýst með betri orðum en Þorsteins Thorarensen í upphafi þessa pistils. En ólík er sýnin þá og nú á það hvað "gróandi mannlíf" merkir. Það sem talið var standa fyrir þrifum sem ömurlegur ljótleikinn einn er nú orðið að söluvöru sem útlendingar leggja á sig að upplifa þrátt fyrir storm, slyddu og él, auk þess að bryðja ómælt ryk á skemmtiferð sinni yfir þvottabrettið. Svo mögnuð er þessi söluvara að sjálfsagt þykir orðið að afkomendur þeirra sem þoldu fyrr alda hörmungar greiði fyrir að hafa augun opin í eigin landi.
Ferðalög | Breytt 4.2.2018 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2014 | 19:38
Kofar og kumbaldar.
Gereyðing gamalla húsa hefur lengi verið landlæg og er eftirtektarvert hvað Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu efni.
Á 20. öldinni voru jarðýtur látnar um að varðveita sögu torfbæjarins, svo rækilega að fáir hafa þannig bæ gist jafnvel ekki séð, sem þó var heimili flestra landsmanni í þúsund ár.
Þeir eru fáir sem vilja afturhvarf til liðins tíma, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað er til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið steinkumbaldi".
Menntaskólinn Egilsstöðum
Núna í upphafi 21. Aldar virðist vera komið að því að steinkumbaldinn verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins. Allt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn.
Húsafriðun á Íslandi hefur í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Húsin hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og oft það fjarlægt í leiðinni sem notað var af íbúum til að lengja líftíma þeirra bygginga miðað við staðhætti, svo sem bárujárnið sem var nánast það eina sem landsmenn bættu við hönnun þessara húsa.
Sólhóll Djúpavogi
Það er ekki svo að moldarkofinn eða steinkumbaldinn séu endingarverri en innfluttu timbur húsin sem upphaflega urðu til fyrir erlendar aðstæður þar sem viður var til staðar. Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarefni þegar kemur að varðveislu húsa.
En rétt væri að hafa í huga orð hleðslumeistarans, Sveins Einarssonar heitins frá Hrjót, þegar kemur að byggingarsögulegum verðmætum. "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".
Kannski á eftir að verða vitundarvakning með auknu vægi ferðaþjónustu, allavega má ætla að erlendum ferðamönnum þyki, auk náttúru Íslands, moldarkofar, steinkumbaldar og jafnvel bárujárnsklædd timburhús vera hluta af sjarma landsins.
Sænautasel var eitt haf kotbýlunum í Jökuldalsheiðinni, það þeirra sem var lengst í ábúð til ársins 1943. Íbúðarhús og gripahús voru sambyggð að hætti torfbæjarins. Húsin höfðu verið felld ofaní tóftina í stað þess að ryðja þeim um með jarðýtu. Því var tiltölulega auðvelt að endurbyggja bæinn árið 1993. Sænautasel er vinsæll áningastaður ferðamanna.
Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma.
Steinsteyptar kirkjubyggingar má finna víða um land sem eru íslenskri byggingalist til mikils sóma. Það má sega að steinkumbaldinn ná listrænum hápunkti í kirkjunni. Eins og með öll listaverk sýnist sitt hverjum. Á myndinni er Egilsstaðakirkja en frá vissu sjónarhorni var haft á orði á byggingatíma hennar að hún minnti á sköllóttan Fljótsdæling.
Opinberar byggingar eru oft verðugir minnisvarðar steinsteypunnar. Ég er svo lánsamur að búa við svoleiðis listaverk. Menntaskólinn á Egilsstöðum umlykur íbúðablokkirnar í Útgarði sem sennilega myndu flokkast sem steinkumbaldar af Sovéskri fyrirmynd. En þessi húsaþyrping sýnir að steinkumbaldar geta farið vel í réttu samhengi.
Sólhóll á Stöðvarfirði hefur tvisvar á tæpum 90 árum gengið í endurnýjun lífdaga. Húsið var upphaflega byggt á Kömbum á Kambanesi, 1944 var það flutt á Stöðvarfjörð. Árið 2006 hafði ekki verið búið í húsinu í fjölda ára og það talið ónýtt. Þetta er annað bárujárnsklædda norska timburhúsið með nafninu Sólhóll sem ég hef komist kynni við, hinn Sólhóllinn er á Djúpavogi þar sem Matthildur mín er fædd og við bjuggum fyrstu 9 ár okkar búskapar. Bæði húsin eru staðarprýði og vinsælt myndefni ferðamanna.
Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum.
Bærinn á Bóndastöðum er byggður í nokkrum áföngum, árið 1958 flyst búseta í Laufás sem er nýbýli úr Bóndastaðalandi.
Á Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá er líkast því að kastali hafi verið byggður úr steinsteypu. Íbúðarhús, útihús og hlaða byggð í hringlaga þyrpingu votheysturninn skarar upp úr einu horninu. Steinsteypt girðing umlykur trjá- og rabarbaragarð. Steinsteyptu húsin voru byggð í kringum eldra íbúðarhús sem byggt var 1882 úr rekavið.
Votheysturninn á Sandbrekku ber þannig merki að sennilegast hafi hann verið steyptur upp með skriðmótum, en þá voru steypumótin t.d. metri á hæð og færð upp jafnóðum og steypt hafði verið í og steypan sest. Dæmi eru um að heilu turnarnir hafi verið steyptir með þannig aðferð á einum degi.
Nýja íbúðarhúsið á Sandbrekku er byggt á árunum 1966-68. Teiknað af Teiknistofu landbúnaðarins og ber tíðarandanum þjóðleg merki.
Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með hlöðu í miðju. Torf á timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur.
Í steypumót hlöðu og votheysgryfju beitarhúsanna hefur sennilega verið notað nærtækt bárujárn.
Fjárhúsin með heyhlöðunni að bakatil, sem byggð var í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Þessi hús eru í Hjaltastaðaþinghá.
Ps. Húsbyggingar úr mold og möl er barnaleikur ef reynslu þeirra sem kunna nýtur við, það var ekki fyrr en verkfræðin komst í spilið sem það varð flókið að koma upp þaki yfir höfuðið.
Hér má sjá tvö youtube myndbönd, annars vergar sjónvarpsþátt á RUV um það þegar Sænautasel var endurgert og hins vegar videoklippur um það hvernig steypa var hrærð á staðnum í hús á Djúpavogi.
![]() |
Horfin verðmæti hjartaskerandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 3.4.2016 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2014 | 17:06
Vinar kveðja.
Í dag var kær vinur, Már Karlsson á Djúpavogi kvaddur í Djúpavogskirkju. Hann varð bráðkvaddur þann 25. júní. Már var nýlega orðinn 79 ára gamall í fullu fjöri við rekstur Papeyjarferða. Við spjölluðum saman í síma á Jónsmessukvöld, en vegna anna við pantanir útí Papey daginn eftir varð símtalið í styttra lagi, ákváðum við að heyrast fljótlega aftur, kom því fréttin af fráfalli hans að óvart.
Már var ljúfur nágranni á meðan ég var á Djúpavogi og minn besti vinur. Er mér til efa að það hafi liðið dagur án þess að við hittumst til að spjalla. Eftir að ég flutti frá Djúpavogi voru þau ófá kvöldin sem við heyrðumst í síma enda Már minn helsti ráðgjafi í gegnum tíðina. Vinskapur Más var ómetanlegur, hann var manna flinkastur við að setja fram dæmisögur til að skýra mál. Eins var það heiður að fá að heyra sögurnar sem komu í bókinni hans "Fólkið í plássinu" um leið og hann skrifaði þær. Mikið hefur birts opinberlega eftir Má um lífið á Djúpavogi. Velferð fólksins þar var honum hjartans mál.
Eitt af því sem Már ritstýrði var Djúpivogur Fréttablað sem áhugafólk um blaðaútgáfu á Djúpavogi kom að árið 1991. Vorblaðið var tileinkað ferðaþjónustu, á forsíðu gaf að líta grein ritstjórans með fyrirsögninni "Djúpivogur ferðamannastaður framtíðarinnar þar sem gamli og nýi tíminn mætast" Í niðurlagi segist Már hafa trú á að Djúpivogur eigi mikla framtíð fyrir sér sem áningastaður ferðamanna. Már varð forspár, því í dag er Djúpivogur einn af vinsælu ferðamannastöðunum á Íslandi og fyrirtæki fjölskyldu hans Papeyjarferðir rekur flaggskip staðarins, Gísla í Papey.
Það er svo ótal margt sem vert væri að tína til úr lífshlaupi Más; manns sem var í áratugi kjörinn í sveitarstjórn, manns sem var náinn samverkamaður þriggja kaupfélagstjóra á Djúpavogi um áratuga skeið, manns sem sat langtímum í stjórn stærsta atvinnufyrirtækis staðarins, manns sem gjörþekkti sögu Djúpavogs og var virkur við að skapa hana allt til loka dags. Djúpivogur hefur misst mikið við fráfall Más Karlssonar.
Um leið og ég votta fólkinu þínu mína dýpstu samúð óska ég þér góðrar ferðar kæri vinur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2014 | 20:18
Sumarsólstöður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2014 | 06:19
Síðan eru liðin mörg ár.
Liðin eru 40 ár frá því að fyrsta fermingin fór fram í Egilsstaðakirkju, 1960 árgangurinn á Egilsstöðum varð þess heiðurs aðnjótandi 17 júní 1974. Í tilefni þessa hittumst við nokkur fermingarsystkinin í gærkveldi en það höfðum við einnig gert á 15 og 25 ára fermingarafmælinu. Að venju var þar rifjað upp hvað þjóðhátíðardagurinn væri eftirminnilegur vegna þessa atburðar.
En það er ekki 1960 árgangurinn sem er áberandi á Egilsstöðum, þó svo að u.þ.b. helmingurinn af þeim fjölmenna barnahóp búi hér enn, heldur kirkjan sem eitt helsta kennileiti bæarins. Bygging hennar hófst 1968 og hafði staðið í nokkur ár þegar hún var vígð 16.júní 1974.
Egilsstaðakirkja er með ótal andlit, teiknuð af Hilmari Ólafssyni arkitekt, föður Hilmars Arnar Hilmarssonar núverandi allsherjargoða. Hún er margbrotið meistaraverk sama hvernig á hana er litið, íslenskri byggingalist til mikils sóma og þeim sem höfðu forgöngu um byggingu hennar. Kemur þar nafn Margrétar Gísladóttir þá fyrst upp í hugann.
Hvort sem Egilsstaðakirkja hefði verið byggð Jesú Kristi til dýrðar, eða þá sem hof í heiðni - jafnvel sem moska Múhameðs, þá er hún glæsileg. Á æskuárum blasti framhliðin við út um stofugluggann heima en síðustu 10 árin hefur reisuleg norðurhliðin skreytt útsýnið úr stofuglugganaum. Allar hliðar kirkjunnar hafa síbreytilegt útlit yfir daginn eftir því hvernig sólin fellur á og býr til skugga.
Fyrir 10 dögum síðan lét ég loksins verða að því að hringganga hana með það í huga að festa brot af þeim fjölda andlita sem hún hefur á mynd, mig grunar að engir tveir festi sömu mynd í sína huga.
Það sem er m.a. minnistætt frá því fyrir 40 árum, er að kvöldi 17. júní var skemmtun undir klettunum við norður hlið kirkjunnar. Þar kom í fyrsta skipti fram opinberlega Guðgeir "Blúsari" Björnsson ásamt hljómsveit ungra Egilsstaðabúa sem frændi minn Emil Thoroddsen söng í og fluttu þeir m.a. lagið Black Magic Woman af tærri snilld. En fram að því höfðu gítarsólóin hans Guðgeirs einungis heyrst á Selásnum.
Þar sem ekki eru til youtube klippur frá eftirminnilegum tónleikum félagana þá er hér ein frá síðari tíma Egilsstaðabúum, og jafnaldra þeirra Guðgeirs og félaga, sem haldið hafa merki íslenskrar alþýðumenningar á lofti.
Dægurmál | Breytt 8.8.2014 kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2014 | 19:07
Með kjaftfylli af sól.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2014 | 20:33
Heima er best.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2014 | 06:33
Sjónhverfing sjálfhverfunnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)