Trúleg vísindi.

Er furða að okkur finnist við vera rugluð og áttavillt?  Með valdi  hefur verið unnið hörðum höndum að því að telja þér trú um að þú hafir ekkert vald, enga stjórn.   En þetta er allt sjónhverfing, eftir að þú hefur einu sinni áttað þig á hvað þú býrð yfir miklum mætti muntu aldrei aftur vinna gegn sjálfum þér. 

Þegar þú stækkaðir byrjaðirðu að spyrja heiminn í kringum þig. En í skólanum var þér kennt að endurtaka upplýsingar í stað þess að hugsa eigin hugsanir.  Skoðanir þínar vor gerðar að aðhlátursefni jafninga þegar þú efaðist um fræðin.  Þú leifðir hópsálinni að hafa áhrif á gerðir þínar og ákvarðanir.  Þú gerðir það sem þér var sagt af ótta við afleiðingarnar af því að gera það ekki.   

Við viljum vera upplýst um viðburði heimsins en erum fóðruð á áróðri.   Þú lést fortíðina ákvarða nútíðina og hefur áhyggjur af framtíðinni.  Jafnvel þó að fortíð og framtíð séu ekki til, og þú hafir aðeins nútíðina.  Að lifa augnablikið er það sem þú færð um ráðið.  

Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki kennt í skóla? 

 


Ægishjálmur þrjú - kálgarður og gullabú.

IMG 2202

Því hefur stundum flogið fyrir á þessari síðu, að maðurinn sé helst með sjálfum sér þegar mætt er í þennan heim sem ómálga barn.  Svo sé von til þess að komast aftur til sjálfs sín þegar komið er þangað sem er kallað út úr heiminum, s.s. slefandi gamalmenni sem hefur ekki endilega tengsl við þá stund sem dagatalið sýnir.  Þó ber þess að gæta að þær eru fleiri en ein útgönguleiðirnar til sjálf sín, mismunandi gáfulegar þó, t.d. var sú útgönguleið sem ég sannreyndi á yngri árum ekki vænleg þ.e. í gegnum glerið á flöskubotni.

"En sjáðu samt hvað þetta er fallegt Maggi" sagði hún Matthildur mín við mig í haust þegar við komum í okkar fyrr um heimabæ.  Það er reyndar flest fallegt á Djúpavogi hjá þeim sem slitu þar barnskónum og ekki síður hjá þeim sem lifðu þar sín manndómsár.   Ég sá nefnilega ekki fegurðina alveg á augabragði enda þarf að vera hægt að ferðast á ljóshraða fram og aftur um allan tíma til þess átta sig á öllu því sem Matthildi þykir fallegt.  Þarna blöstu við leggur, skel og kjálki úr sviðakjamma í skjóli við sinubrúska fyrir norðanátt sem gerði öldutoppana hvíta á Berufirðinum.  En það þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að sjá að þarna hafði barnsálin búið vel að sínu gullabúi þannig að blessaðir málleysingjarnir nutu góðs af fyrir norðanblæstrinum sem barst frá landshlutanum þar sem búsmalinn snjóaði í kaf vindasama september daga.  Þessi fegurð hefði svo sem ekki átt að þurfa að vefjast fyrir mér eitt augnablik, því oft hafði ég skoðað með henni Matthildi minni á álíka fjársjóði. 

Þegar við fluttum úr fjölbýli Grafarvogsins í Egilsstaði var meiningin að koma sér aftur upp gullabúi eins og á Djúpavogi, jafnvel með sinubrúskum í kringum veggi einbýlis.  Því voru margir kvöldrúntarnir farnir um byggingalendur góðærisins til að skoða það nýjasta í gullabúagerð.  En flestir bíltúrarnir enduðu með því að fara framhjá flottasta hverfinu í bænum.  Þetta hverfi stendur venjulega sumarlangt skammt frá Eyvindaránni og er kallaður starfsvöllur af lærðum.  Þarna fá blessuð börnin hamar, nagla og spýtur til að byggja sínar draumahallir.  Í stað þess að þurfa að slá sinuakurinn sumarlangt höfðu þau komuð sér upp Edengarði inn á milli draumahallanna, sem hafði að geyma gulrætur, hvítkál og spínat o.fl., kallað skólagarðar á fagmálinu.  Þarna mátti sjá að það vafðist ekkert fyrir barnsálinni að bæta herbergi hvað þá heilli hæð við draumahöllina.  Reglugerðafarganinu ekki fyrir að fara frekar en í Kristjaníu og allsnægtirnar við útidyrnar.

"Ég hlusta á Zeppelin og ferðast aftur í tímann..." söng kóngurinn í denn og endaði sönginn á "...svartur Afgan drauma minna ég sakna".  Eins og svo oft hitti Bubbi þráðbeint í hjörtu mannanna með þessu ljóði.  Það þarf ekki að muna nema upphafið og endinn til að lifa töfrana. Það þarf ekki einu sinni að fíla Zeppelín hvað þá hafa prófað svartan Afgan.  Lykillinn að hjartastöðinni er ferðalag augnabliksins aftur í tímann þar sem framtíðardraumanna er saknað.  Yfir öllum þessum töfrum hafa börnin að ráða þegar þau hlúa að legg og skel, eða byggja kofana sína í kálgarðinum. Jafnvel þegar það er gert undir faglegu eftirliti starfsvallarstjórans í skólagarðinum.  En eftir það fara þau mörg hver að sakna drauma sinna og ferðast aftur í tímann til að grennslast fyrir um hvar þeim var stolið.  Nema hægt sé að halda þeim kirfilega uppteknum við að halda jafnvægi á línunni.  Svo uppteknum að jafnvel þyki orðið eðlilegt að borga fyrir það að hlaupa með síauknum hraða á sama stað á færibandinu í World Class og þá eins gott að sleppa því að líta til hliðar ef ekki á illa að fara.

IMG 2291

Ég kom inn á það um daginn að sennilega væri ægishjálmurinn alþjóðlegt tákn sem hefði verið til á meðal manna alla tíð.  Lykilinn af töfrum hans mætti kannski finna á stúkufundum frímúrara því það væri ýmislegt sem benti til að þeir hefðu yfir þeim verkfærum að ráða sem opnuðu helga rúmfræði.  Frekar en að taka mér frí frá múrverki og reyna að fá inngöngu á stúkufundi spurði ég Búddamunkinn bróðir minn um það hvaða hlutverki ægishjálmurinn gegndi hjá þeim Búddunum.  En þar gengur hann undir nafninu Darmhahjól.  Bróðir sagði að Darmha þýddi vernd á Búddísku, vernd hugans, nánar tiltekið þess huga sem hjartastöðin hefur að geyma og er meðfæddur við komuna í þennan heim.  Íslenski formáli ægishjálmsins á semsagt fullkominn samhljóm í Búddísku; "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna, rán og reyði ríkra manna"

Það er með hjartanu sem við höfum aðgang að alheiminum, hinni miklu sameiginlegu vitund.  Það er með þeim huga sem hægt er að ferðast fram og aftur um tímann á einu augnabliki til að finna fjársjóðinn sem við eitt sinn áttum.  það er með hjartanu sem við höfum aðgang að öllum tímum, hverri hugsun, allri vitneskju sem þessi heimur býr yfir.  Reyndar kom það fram í Völsungu þegar Sigurður snæddi hjarta Fáfnis þá sögðu fuglarnir honum hvar hann gæti fundið framtíðar sögur.  En það varð Sigurði Fáfnisbana að aldurtila að meta veraldlegan fjársjóðinn meira en hjartað.  Þegar hann reið vafurlogann fyrir annan mann í þeim tilgangi að blekkja  Brynhildi sem hann hafði heitið ævarandi tryggð, sveik hann ekki einungis Brynhildi heldur líka hjarta sitt fyrir gullið í fársjóðnum sem hafði ægishjálm að geyma, þann sem Loki hafði stolið af dvergnum Andvara við fossinn í Dvergheimum.

Eins og maðurinn sagði; þá ert þú kominn í þennan heim til að vera þú sjálfur og það er enginn annar betri í því að vera þú, en þú sjálfur.  Til þess hefurðu hjartað að vísa veginn, það er hjartað sem býr yfir mættinum til að ferðast um rúm og tíma til að nálgast alla þá visku sem fyrirfinnst.  Eða eins og meistarinn orðaði þegar hann útlistaði mikilvægi óttalauss hjarta "Í húsi föður míns eru margar vistarverur".

 


Bláar myndir á sunnudagskvöldi.


Fyrr skal frjósa í Helvíti.

Það hvað ný byggingareglugerð hækkar byggingakostnað er enn eitt talandi dæmið um það þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir. 

Þessari hækkun gerði Ágúst Bjarnason verkfræðingur og bloggari góð skil þegar hann vakti athygli á grein Sigurðar Ingólfssonar verkfræðings hjá Hrannar s.l. sumar.

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1250186/


mbl.is Íbúðir minnst 10% dýrari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúleg visindi.


Ægishjálmur II - launhelg vé.

IMG 0086 

Undarlegir hafa þeir verið draumar mínir upp á síðkastið.  Hef í þeim átt samtöl fram og aftur í tímann, setið í laufskála suðrænnar hitabeltiseyju staðsettum undir íslenskum frystihúsvegg með gjálfrandi ölduna undir gisnu gólfinu sem merlaði ljósbrotum sólarinnar upp um hrímaða veggi laufskrúðsins.  Tekið þaðan á loft út yfir himin og haf, flogið yfir bernskustöðvar þar sem upp fyrir mér rann að nú var ég í flugvél drauma minna sem við pollarnir smíðuðum á hæðinni í denn.  Eftir að tímavélin sú var komin á flug er allt mögulegt og lítill vandi að vita hvernig það er að ferðast hraðar en hljóðið þráðbeint upp til skýanna og þaðan á ljóshraða út til stjarnanna. 

Heimarnir sem við upplifum í vöku og draumi eru í reynd jafn sannir, því báðum tilfellum upplifum við tilveruna.  Munurinn á þessum tveimur tilverustigum er að upplifanirnar verða til vegna næmni mismunandi stöðva okkar innra sjálfs.  Draumaheimurinn varir einungis jafnlengi og draumurinn á meðan vökuheimurinn á sér síendurtekið framhald.  En jafnvel í vöku kemur sumt þannig að hvorki verður að því orðum komið, né það skynjað með skilningsvitunum fimm.  Eina skynjunin er tilfinning hjartans. 

Til að reyna að skýra þetta nánar ætla ég að segja frá því þegar ég keyrði fram á norsku þjóðarsálina á förnum vegi núna í hauslitunum.  Þegar ég stoppaði fór út úr bílnum til að taka myndir af litasinfóníunni sem fyrir augu bar mætti rúllubaggi, kyrrðin, fuglasöngur, blær sem bylgjaði grasið í síðdegissólinni og baulið í belju heima við bæ.  Þarna var hún þá allt um kring, undir, yfir og á milli loftlínanna sem flutti rafmagnið um sveitina.  Það að finna fyrir þessari sál svona óvænt og óumbeðið má einna helst líka við nærveru kærleiksríkrar ömmu, nema hvað þarna var amma ung og ég komin yfir fimmtugt.  Sem passar náttúrulega ekki alveg á línuna, því amma var ekki amma þegar hún var ung og ég ekki orðinn gráhærður. En betri skýringu hef ég ekki haldbæra með orðum á því þegar allur tími stendur ljóslifandi í einu augnabliki og maður heilsar heilli þjóðarsál.

IMG 1697

Ég gaf það í skin hérna um daginn að til þess öðlast skilning á uppruna ægishjálms þurfi að fara alla leið út til stjarnanna.  Svo stór sé uppruni hans að hann sé hvorki það sem fram kemur í goðafræðinni, þ.e. sá verndargripur sem gaf Sigurði máttinn til að bana Fáfni né íslenskur galdrastafur.  Eins var ég búin að rekast á að hann gæti allt eins verið ættaður austan úr Asíu, að á Indlandi væri svipað tákn brúkað gegn neikvæðni og illsku.  Í haust fékk ég svo óvænta staðfestingu á Asíu upprunanum.  Þannig er að á hæðinni fyrir neðan býr fólk frá Pakistan.  Í haust þurfti að endurnýja baðherbergið í íbúðinni þeirra, á meðan fengu þau aðgang að mínu.   Ég þarf varla að taka það fram að ég naut góðs af þessu.  

Kvöld eitt kom Roomi upp á stiga skörina til að færa mér heitt te frá frúnni, honum varð starsýnt á ægishjálm sem ég hafði um hálsinn og spurði forviða "hvar fékkstu þetta" áður en ég náði að svara hafði hann kallað á frúna til að sýna henni þessi stórmerki.  Sjáðu hvað hann er með um hálsinn sagði hann, hún leit snöggvast á gripinn og fór svo með hraði niður stigann.  "Þetta tákn er líka til hjá okkur" sagði hann "en hvað merkir það hjá þér?"  Ég sagði honum það sem ég vissi um merkinguna og að talið væri að þetta væri gömul rún komin aftan úr norrænni goðafræði sem víkingarnir hefðu ástundað.  Hún hefði fundist í gamalli íslenskri bók á 19 öld, "ja svo, eru þá líka víkingar á Ísland" spurði Roomi.  Þegar ég ætlaði að fara að fá uppgefið hjá honum hvaða merkingu hann legði í þetta tákn eyddi hann samtalinu.

Eftir að hafa leitað uppruna ægishjálmsins nú um nokkra hríð vegna þess að mér fundust upplýsingarnar sem um hann voru gefnar á alheimsnetinu vera af skornum skammti hef ég komist að því að alheimsnetið er einn allsherjar ægishjálmur.  Hann hafi alltaf verið til og rétt eins og í sögunni um Sigurð Fáfnisbana þá tilheyri hann fjársjóði sem er kominn enn lengra að en norræn goðafræði.  Hann virðist vera til í öllum menningarheimum sem hið átta arma sólarhjól oftast sem verndarstafur gegn ágangi hins ágjarna, samanber íslensku forskriftina; "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna rán og reiði ríkra manna". 

Til eru hugmyndir um að átta arma verndarstafurinn eigi uppruna sinn aftan við alla vísindalega viðurkennda menningarheima.  Hann sé arfur úr fjársjóði sem kemur frá gullöld Atlantis jafnvel alla leið úr paradísargarðinum Eden.  Síðar hafi hann dreifst í áttirnar fjórar og varðveist í þeim menningarheimum sem ríktu þar, s.s. goðafræðinni í norðrinu, menningu frumbyggja í suðrinu, Buddhisma í austrinu, Kristni í vestrinu svo fátt eitt sé upp talið.  Þetta má sjá á þeim táknum sem þessir menningarheimar skarta, s.s. stærsta sýnilega tákni Vadilkansins í Róm, tímahjóli Mayana, Darmha hjóli Buddhismans og ægishjálmi Goðafræðinnar.

En hvers vegna er þetta tákn hjúpað dulúð og galdri svo mögnuðum að kaþólsku kirkjunni þótti jafnvel ástæða til að brenna fólk á báli vegna gruns um samskipti við myrkrahöfðingjann byggi það yfir þekkingu táknsins? 

Þess má geta sér til að þar séu völd höfuð orsakavaldurinn eða "Fjón ríkra manna".  Ægishjálmurinn er nefnilega vegvísir á hina mörgu heima sem manneskjan býr að.  Í norrænu goðafræðinni voru heimarnir a.m.k. níu þ.e. Miðgarður sem var jörðin, Ásgarður heimkynni Goðana, Jötunheimar, Dvergheimar, Eldheimar, Helja, Vindheimar, Álfheimar og Huliðsheimar.  Kaþólsku kirkjunni tókst að afnema vísdóm goðafræði norðursins og gera heimana sem almenningi stóðu til boða þrjá, þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.  Það sama átti við menningarheim suðursins, visku hans var því sem næst eytt um leið og menningu indíána Ameríku.  Bæði víkingar og indíánar voru stimplaðir hryðjuverkamenn síns tíma sem þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til þess stríðs sem nú er háð gegn hryðjuverka ógn sem sögð er steðja af menningu austursins.

Ægishálmur hefur hin fullkomnu hlutföll lífsins blóms.  Hann er því sennilega ættaður úr helgri rúmfræði eða það sem kallað er sacred geometry, stundum fingrafar Guðs.  Þessi stærðfræði er í raun einföld í praxis en hefur verið haldið til hlés fyrir almenningi.  Fjársjóð hinnar helgu stærðfræði má hvarvetna finna ef maður aðeins hefur lykilinn.  Það hefur því verið "Fjón" ráðandi afla í gegnum tíðina að halda þessum lykli innan sinna fjárhirslna og er enn ef marka má námskrár menntastofnanna ríkisins sem kenna það umfram kaþólsku kirkjuna að heimurinn sé helst jarðlífsins hagvöxtur þeim Mammon til dýrðar sem kallast í daglegu tali markaðsöfl og hamra járnið í gegnum marggjaldþrota imbakasann sem telst vera öryggistæki í almannaþágu.  Meira að segja kaþólsku kirkjunni þótti ekki ráðlegt að taka himnaríki alveg út í einum áfanga en setti samt helvíti til mótvægis til að hafa allt undir control.

Það má því með réttu segja að Fáfnir gang aftur á öllum tímum.  En svo merkilegt sem það er þá má finna verkfærin til að smíða lykil af hinni helgu rúmfræði í táknum félagskapar sem kennir sig við starfsheiti mitt.  Án þess að ég ætli að halda því sérstaklega fram að frímúrara sitji stilltir á stúkufundum teiknandi ægishjálma helgrar rúmfræði þá er það með hana eins og þjóðarsálina það er tilfinningin sem gefur skynjunina.  Er von að spurt sé hvers vegna er heilög rúmfræði ekki kennd í skólum?

 

 

  Íslenska útgáfan af ægishjálmi sem fannst á 19. öld.

  Ægishjálmur Maya indíána.

  Átta arma Darmha hjól Buddha.

  Torgið fyrir framan St. Péturs kirkjuna í Róm.

Lífsins blóm hinnar helgu rúmfræði.

 


Bláar myndir á sunnudagskvöldi.


Þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir.

Hvað hefur breyst frá því 1980.  Þá þurfti heimili þak yfir höfuð heimilismeðlima, flest höfðu þau yfir bíl að ráða, sjónvarpi og síma.  Það dugði jafnvel heimilinu að hafa eina fyrirvinnu.

Ætli það sé tölvan sem nú hefur bæst við sem gerir það að fábjánarnir þykjast ekki fatta af hverju skuldirnar fara stighækkandi þó svo að fyrirvinnurnar séu orðnar tvær fyrir heimili og flestar krónur fari í að greiða af húsinu og bílnum?

Hið rétta er að tekjur sem hlutfall af skuldum hafa farið stig lækkandi frá 1980 svo nemur fleiri hundruð prósentum. 

Afnemið verðtrygginguna sem komið var á af stærstu skipulegu glæpasamtökum lýðveldisins fyrir rúmum þremur áratugum síðan, eða reiknið  hana á tekjur heimilanna frá þeim tíma sem hún var afnumin af launum og þið munið komast að því að skuldir heimilanna eru hverfandi. 

Gammarnir geta þá huggað sig við að heimilin verða vel í stakk búin til að takast við áföll þegar þeir þramma með fólk og fyrirtæki fram af næsta hengiflugi í fávisku sinni.


mbl.is Skuldirnar margfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúleg vísindi.

Við viljum vera upplýst um viðburði heimsins en erum fóðruð á áróðri.   Þér var kennt af trúarbrögðum að tilbiðja guði utan sjálfs þín, án þess að gera þér grein fyrir að þú hefur alltaf tilheyrt óendanlegri vitund alheimsins. 

Þú hófst lífsgæðakapphlaupið vegna þess að annar möguleiki var akki augljós.  Við erum þjálfuð til að verða neytendur með stöðugu auglýsingaáreiti um merkjavörur stórfyrirtækjanna.  Þú ert kannski óánægður með stöðu þína en er þá sagt "að lifa ekki um efni fram".  Ef þú værir aðeins fær um að skilja að það er ekki til neitt gott eða slæmt aðeins skinjun hjartans fyrir því hvað er rétt.

Þú lést fortíðina ákvarða nútíðina og hefur áhyggjur af framtíðinni.  Jafnvel þó að fortíð og framtíð séu ekki til, og þú hafir aðeins nútíðina.  Að lifa augnablikið er það eina sem þú færð um ráðið.  Er furða að okkur finnist við vera rugluð og áttavillt?  Með valdi  hefur verið unnið hörðum höndum að því að telja þér trú um að þú hafir ekkert vald, enga stjórn.   

En þetta er allt sjónhverfing, eftir að þú hefur einu sinni áttað þig á hvað þú býrð yfir miklum mætti muntu aldrei aftur vinna gegn sjálfum þér.  Allt sem þú þarft að gera er að muna eftir því hver þú ert, að þú ert sama sálin og fæddist fyrir öllum þessum árum.  Sama sálin þó tími innrættra skilyrða hafi hulið skynjun þína móðu.  Eða eins og Bill Hicks sagði; "Þú ert ímyndun þín sjálfs". 

Svo hver viltu vera?  Þitt er valið svo byrjaðu á að trúa.  Við komum öll frá sama uppruna og erum eitt.   Þú áttar þig á þessu þegar merkimiðarnir sem þú gefur passa ekki lengur.

Þú varst fæddur frjáls og munt deyja frjáls.  En muntu lifa frjáls?  Valið er þitt.  Þú ert hinn óendanlegi möguleiki.

 


Ægishjálmur - lengra að kominn en Goðin og Darwin æðstiprestur.

IMG 2178

 

Fyrir nokkrum mánuðum barst mér sérkennileg sending hingað á 69°N.  þetta voru tveir píramídar hlaðnir dularfullri orku komnir alla leið úr heimsálfunni "down under".  Frá þessu greindi ég í bloggi "Organite og orkuflögur" stuttu eftir að þeir bárust.  Það sem síðan hefur gerst er um margt merkilegt og mörgu varla hægt að segja frá nema eiga það á hættu að vera talinn snarruglaður.  En þær leiðbeiningar fylgdu svo sem þessum organite píramídum að þeir gögnuðust þeim betur sem væru ekki alveg samkvæmt norminu.

Píramídarnir hafa vísað mér á undarlega heima þar sem ýmislegt kynngimagnað hefur átt sér stað.  Fyrir það fyrsta þá birtist hér fluga sama dag og þeir voru teknir úr umbúðunum.  Flugan sú hnitaði hringi í kringum þá á stofuborðinu en virtist auk þess eiga mikið erindi við okkur Matthildi mína með suði sínu, sem var þá hérna hjá mér í norðurhjara sólinni.  Jafnvel eftir að henni hafði verið vísað kurteislega út um stofugluggann og lokuð úti um tíma, þá kom hún inn með hálfu stærra erindi en áður þegar glugginn var opnaður næst. 

Eftir að Matthildur yfirgaf 69°N snemma í ágúst hélt flugan sig enn innandyra, hafði orðið sér úti um herbergi í hinum stafninum á risinu, en kom annað slagið út úr því til að spjalla og lét sig aldrei vanta ef ég var að bauka í eldhúsinu. Einu sinni heimsótti ég hana í herbergið sitt, opnaði gluggann eldsnöggt tókst að koma henni út og loka.  Þegar ég var svo á leiðinni eftir ganginum inn í stofu sem er í hinum stafninum fékk ég það á tilfinninguna að ég myndi mæta henni, þar sem ég var með opinn stofugluggann.  Það passaði hún var þegar komin inn og þusaðist með suði og vængjaslætti eftir endilöngu ganginum inn í sitt herbergi. 

Á þessum tíma fór ég í fjögurra daga vinnuúthöld norður í nes Finnanna.  Þó svo að ég hafi verið frekar ógestrisin við fluguna þá brást það ekki að hún fylgdi mér niður að útidyrunum til að kveðja  á mánudagsmorgnum og tók mér fagnandi á móti á fimmtudagskvöldum.  Þetta gerðist í tvær vikur en eftir það hvarf hún.  Sérfræðingar segja, en þess má finna stað einhverstaðar í sérfræðikverinu sem hefur hlotið löggildingu í fávisku fabrikkum ríkisins, að meðalaldur húsflugu sé sex vikur sem gæti hugsanlega skýrt hvarf hennar úr mínum híbýlum og jafnvel þessum heimi.

Einnig fékk ég um þær mundir sterkt hugboð að setja  fram hér á síðunni bloggið "Huliðsheimar og galdrastafir"  um ægishjálm, það væru tengsl á milli hans, píramídana og flugunnar.  Þetta blogg virtist kannski vera sett fram í hálfkæringi, en þegar ægishjálmur er annars vegar er betra að vera ekki með neinn hálfkæring.  Þetta var gert til að fiska upplýsingar um töfratáknið sem mér hefur verð hugleikið í gegnum tíðina og fannst lítið vera til um á alheimsnetinu.  Þetta blogg virtist kannski ekki skilaði miklu, en þó vísbendingu sem ég hef fylgt eftir og ætla m.a. að segja frá hérna á síðunni.  Að vísu er fyrirboðinn ekki hagstæður því þegar ég ætlaði að koma þessu frá s.l. fimmtudag læsti tölvan mig úti og það lengur en ég fluguna, kemst því ekki með nokkru móti í upplýsingarnar sem hún hefur að geima um ægishjálminn.  Ég varð að draga fram gömlu tölvuna sem er sjö ára forngripur, er því með nokkhverskonar morstæki hérna í loftkeytaklefanum miðað við nýjustu samskiptagræjur í netheimum og þar að auki að notast við mitt stopula minni.

Á wikibedia (alfræðiriti almennings)  segir svo frá ægishjálmi; "Ægishjálmur er gamall íslenskur galdrastafur sem er til í fjölmörgum gerðum og útgáfum. Hans er getið í Eddukvæðum, Sigurður Fáfnisbani bar Ægishjálm þegar hann sigraði drekann Fáfni á Gnitaheiði. Ægishjálmurinn er öflugur varnarstafur, bæði gegn öllu illu og einnig örugg vörn gegn reiði og yfirgangi höfðingja. Honum fylgir svohljóðandi formáli:

Fjón þvæ ég af mér
fjanda minna
rán og reiði
ríkra manna.

Það mætti kannski ætla að beinast lægi við að komast að töfrum ægishjálmsins með því að skoða þær vísbendingar sem koma fram í wikipedia úr goðafræðinni.  Eins og þar kemur fram á Sigurður Fáfnisbani að hafa borið hjálminn þegar hann drap drekann Fáfni, fara þessar upplýsingar víða um í netheimum.  Þannig að ég varð mér úti um Völsunga sögu en þar segir m.a. frá þvi þegar Reginn egnir Sigurð "síðasta Völsunginn" Sigmundsson til að vega Fáfnir bróðir sinn til fjár.  En Fáfnir hafði sér það til saka unnið að hafa myrt Hreiðmar föður þeirra Regins til að komast yfir gull sem hálfjötuninn Loki hafði stolið af dvergnum Andvara til að bæta Hreiðmari sonarmissi þegar Loki drap son hans Otur (bróðir þeirra Regins og Fáfnis) af misgáningi þegar Loki var á ferð með Óðni æðstum goða við Andvarafoss.

Reginn setti saman sverðið Gram fyrir Sigurð,  nokkurskonar ættargrip sem hafði hrokkið í tvo hluta í lokaorrustu Völsunga.  Síðan hvetur hann Sigurð til að grafa sér holu við vatnsból Fáfnis og stinga hann með sverðinu þegar hann skríður yfir holuna á leið sinni til vatnsbólsins.  Allt gengur þetta eftir, en á eftir drepur Sigurður einnig Reginn með sverðinu Gram þar sem þeir sitja að sumbli við að drekka blóð Fáfnis, voru þeir ekki einhuga um hvor þeirra ætti að éta hjartað.  Þetta gerir hann til að þurfa ekki að deila með honum fjársjóð Fáfnis.  Verður ekki annað séð af Völsunga sögu en fjársjóður Fáfnis hafi haft ægishjálminn að geyma. Á samtali Sigurðar og Fáfnis á banabeði Fáfnis kemur m.a.fram;

Eftir að Fáfnir hafði fengið banasár spurði hann m.a: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."

Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."-----

Einnig segir Fáfnir: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."

Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." -------

Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."

Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."

Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur." 

Eftir að Sigurður hafði afhöfðað Reginn;  "etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri."

Síðar í sögunni kemur ægishjálmurinn aftur til tals þegar Sigurður leitar til Brynhildar örlaganornar sinnar til að gefa sér heilræði.  En þegar Sigurður kemur á hennar fund og vekur hana spyr hún; "hvað svo var máttugt er beit brynjuna "og brá mínum svefni. Eða mun hér kominn Sigurður Sigmundarson er hefir hjálm Fáfnis og hans bana í hendi?" 

Svo mörg voru þau orð um ægishjálm, fimm sinnum er hans getið og ekki með nokkru móti hægt að ráða í það hvernig hann kemur að gagni.  Vísbendingin sem sem var gefin um að Sigurður Fáfnisbani hafði borði ægishjálm þegar hann banaði Fáfni reyndust því ekki réttar samkvæmt Völsungasögu.  Ægishjálmurinn kemur ekki meira við sögu en fjársjóður Fáfnis er síður en svo til gæfu því hver harmleikurinn af öðru ríður þar röftum uns Svanhildur dóttir Sigurðar Fáfnisbana er að lokum drepin með því að hleypt er á hana hestum og líkur með því sögu Völsunga. 

En til hvers er þá ægishjálmurinn sem sagður er vera máttugur verndarstafur sem m.a. færði Sigurði sigurinn yfir Fáfni og hvaðan kemur hann?

IMG 2181

Eftir að hafa lagst í rannsóknir í netheimum báru þær mig fljótlega út til stjarnanna.  Ef drekinn Fáfnir hafði ægishjálminn að geyma í sínum fjársjóði þá getur hann allt eins verið mun eldri en norræn goðafræði.  Þegar ægishjálmur er teiknaður kemur margt upp í hugann, hann hefur jafn fullkominn hlutföll og þegar dropinn gárar vatnsflötinn.  Hann minnir á vegvísi og til eru hugmyndir um að hann hafi vísað á hina ýmsu heima norrænnar goðafræði, sé jafnvel útgáfa af Yggdrasill (lífsins tré).  Einnig minnir hann hann á stjörnu sem hefur það umfram festar aðrar að hafa átta arma.  Og ekki síður minnir hann á kaungulóravef sem beinir athyglinni að miðju vefsins, getur því verið vegvísir inn á við til sjálfshjálpar líkt og vísan í formála ægishjálmsins gefur til kynna, "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna,,," ofv..

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband