Endalok 2012.

Á morgun er 21.12.2012 dagsetningin sem sögð er vera endalok á tímatali Maya indíána.  Sumir hafa viljað túlka tímatal Mayanna sem heimsendaspá og hefur Hollywood gert sér mat úr því sem hefur dregið athygli frá atburðum líðandi stundar að væntanlegum heimsendi.  Því hafa mörg stórmerki ekki náð eftirtekt af því að það eru væntingar um mun stærri atburði, eða þá að geta sagt; "sagði ég ekki þetta er allt saman vitleysa".  

Svo eru til þeir sem hafa verið að benda á að árið 2012 sé árið sem heimurinn eins og við þekkum hann endi.  Hugsun fólks komist á það stig að hin sameiginlega vitund verði önnur, kærleikurinn taki við af ótta og efnishyggju. Það er nokkuð ljóst að þó 21.12.2012 verði ekki sú dagsetning sem Hollywood hefur teiknað upp í hugum fólks þá hefur árið 2012 og árin fjögur þar á undan gert fjölmörgum ljóst að peningakerfið sem efnishyggja óttans byggir á er komið að fótum fram. Neytandinn sem á að trekkja áfram hagvöxtinn er farin að hugsa meira um kærleikann en óttann við að eiga ekki fyrir nógu af dóti.

Hvað sem þessi dagsetning ber í skauti sér þegar þar að kemur þá er ég sannfærður um að spádómar henni tengdri séu nú þegar fram komnir.  Breytingin á hugarfari fólks sé komin á það stig að heimurinn eins og hann var sé á enda.  Það er ekki lengra síðan en um miðja síðustu öld að hægt var af eigendum fjármagnsins að siga fólki í sjálfboðavinnu til manndrápa í nafni ættjarðarinnar, í dag fer varla nokkur sála út á vígvöllinn nema þá gegn borgun.  Þó svo að fólk sé enn að klekkja á náunganum á launskrá hagvaxtarins er hin sameiginlega vitund komin á það stig að það dettur fæstum í hug að sýna þannig hegðun heima hjá sér eða í nafni þess sem er kærast, aðeins í vinnunni.

Það eru orðin rúm fjögur ár síðan ég opnaði þessa bloggsíðu og sá mig til knúinn að láta ljós mitt skína.  Á þessum fjórum árum hafa borist ótal púsl í gegnum athugasemdir í hina stóru mynd. Eins hefur það sem ég hef látið frá mér fara á þessari síðu orðið til þess að beina athyglinni á staði sem sem er óvíst að ég hefði gert annars.  

Undanfarið hefur það brotist um á milli eyrnanna að nú sé rétt að láta staðar numið með að upplýsa þessar opinberanir. Hvort það eiga eftir að birtast blogg á þessari síðu á komandi ári verður bara að koma í ljós, en þá verða þau ekki með sömu reglu og verið hefur.

Um leið og þakkað er fyrir innsend púsl í mína mynd vil ég óska lesendum þessarar síðu gleði og kærleika í tilefni hátíðar ljóssins með von um að þeir láti ljós sitt skína. Eins vil ég gera kveðjuorðin að mínum sem mikið voru notuð gömlu gufunni í denn; "ég vil þakka þeim sem hlýddu, góðar stundir".

ps. að gefnu tilefni vil ég taka það alveg sérstaklega fram að ég hef aldrei kynnst fábjána persónulega, aðeins þeim sem haga sér þannig  gegn borgun, rétt eins og á stundum við um mig sjálfan. 

 


Gamanleikarinn veit það.

Þegar þú stendur við tákn óendanleikans. Mun allt sem þú vilt lúta lögmáli alheimsins, sækistu eftir breytingum þá mun þér verða gefinn lykilinn. Og með þessari vitneskju kemur ábyrgðin á því að útdeila henni, þér verður sýndur vegurinn.

Þetta er mjög einfalt. Í alheiminum er regla þar sem hreyfing himintunglanna og náttúrunnar fara saman við mannshugann. Huga sem er í sínu rétta ástandi þegar hann er í samhljómi við alheiminn, og svoleiðis hugur er tímalaus.

Líf þitt er tjáning huga þíns. Þú ert skapari þíns alheims, sem maður ertu frjáls til að vera í hverju því hugarástandi sem þú óskar í gegnum hugsanir þínar og orð. Það er mikið vald í því fólgið og hvort því fylgir blessun eða bölvun er allt undir þér komið.

Gæði lífs þíns er afsprengi gæða hugsana þinna, hugleiddu það. Hugsanir eru undanfari aðgerða, aðgættu því hvað þú hugsar. Taktu eftir sjálfsvorkunnunni, öfundinni, græðginni, hræðslunni og öllum þeim viðhorfum sem valda þér sársauka og óþægindum.

Gerðu þér grein fyrir að það er eitt sem þú hefur algjört sjálfsforæði yfir, það er viðmót þitt. Taktu eftir hvaða áhrif það hefur á þá sem í kringum þig eru. Þá muntu sjá að sérhvert líf er tengt öllu lífi og viðmót þitt og orð valda viðbrögðunum eins og þegar steini er kastað í lygnan vatnsflöt.

Ef hugsanir þínar eru í lagi munu orð þín streyma beint frá hjartanu og skapa gárur kærleikans. Ef þú í raun villt breyta lífi þínu vinur, verðurðu að breyta hugsunum þínum. Ástæðan er mikilvægasta verkfærið, hún býr til andrúmsloft skilnings sem leiðir til væntumþykju sem er kærleikur. Veldu því orð þín af væntumþykju og sæktu fram með þeim.

 

Eða eins og Jim Carrey orðaði það. 

 


Bláar myndir á sunnudagskvöldi.


Egilsstaðir.

     Ég hafði komið hingað í bæinn fyrir nokkrum vikum til að vinna ákveðið verk ásamt vinnufélögum mínum.  Nú þegar ég stend hér síðdegis í miðsumarsólinni finnst mér eins og tíminn hafi staðið í stað en þó flogið áfram.

     Hér á þessum bletti man ég fyrst eftir mér um fjögurra ára aldurinn.  Einhvern veginn koma freknur og svíðandi sólbruni fyrst upp í hugann en það er eins og vanti moldina sem alltaf rauk upp í suðvestangolunni á svona heitum dögum.  Það er reyndar margt fleira sem er breytt.  Í þessari brekku þar sem áður var fjalldrapi, berjalyng og holtasóleyjar breiðir nú blá lúpína úr sér inn á milli trjánna og vindurinn þýtur í laufinu.  Héðan sést yfir mestan hluta bæjarins, þó best yfir elsta hlutann; Lagarás, Selás, og Laufás en að baki er hæðin en ég stend nú fremst í henni gengt Selásnum.  Húsin í gamla bænum standa lítil inn á milli hárra trjánna en áður voru húsin stór og trén lítil.  Snyrtilegar gangstéttar liggja meðfram götunum og bílarnir þyrla ekki lengur upp rykmekki.  Þorpið eins og ég minnist þess fyrst, var aðeins um það bil einn fimmti af því sem nú er.  Þá voru hús við Selás, Laufás, ytri hluta Lagaráss og innri hluta Tjarnarbrautar út að húsinu hans Egilsens.  Gaggabúð stóð mitt á milli þar sem Búnaðarbankinn og Pósthúsið standa nú og búð Verslunarfélagsins á neðri hæðinni í Odda.  Kaupfélagið er á sama stað og áður en nú eru braggarnir horfnir og reisulegri hús komin í þeirra stað.  Tehúsið var innst í þorpinu og skólinn ystur.  Útgarður, sem þá var kallaður Búbót, var nánast langt út í sveit.  Hæðin var að mestu leiti nýbyggingarsvæði nema Hamrahlíðin.  Þá voru engin götunöfn, húsin hétu hvert sínu nafni.  Samkomuhúsið Ásbíó stóð þar sem Shell er núna  Þar voru haldnar almennar samkomur, bíósýningar og böll.  Skammt utan við Ásbíó var tukthúsið þannig að stutt var að fara með þá sem fóru yfir strikið.

     Það var hérna á hæðinni sem ég lifði mín æsku ár.  Einmitt hérna undir þessum kletti reyktum við Maggi í Kongó fyrstu sígaretturnar.  Það var filterslaus Camel úr pakka sem einhver hafði misst.  Við þurftum að kveikja í fyrstu sígarettunni í ruslatunnunni hjá Halldóri úrsmið.  Það var ekki vandalaust. Sviðnir á augnabrúnum og hári sáum við að best væri að kveikja í þeirri næstu með stubbnum og svo koll af kolli.  Við reyktum sjálfsagt einar fimm en þá var Maggi orðinn öskugrár og vildi fara heim.  Hann hafði pakkann með sér.  Ég sá Magga ekki meir þann daginn og Camelpakkann aldrei framar, því sá mamma hans fyrir.  Ég man að mér varð ekki meint af Camelnum og þannig varð það nú reyndar einnig við fyrstu kynni mín af áfengi þó svo síðar kæmi allt annað í ljós.  Vafalaust hefðu áhrifin sem Maggi hafði út úr þessu, einnig verið hollari fyrir mig.

     Skammt héðan byggðu foreldrar mínir sitt hús og varð það æskuheimili mitt.  Fyrst var bílskúrinn byggður, um fjörutíu fermetrar, og þar bjuggum við í fimm ár þar til við fluttum í húsið.  Skúrinn hét Hábær og ég var stundum kallaður Maggi í skúrnum til aðgreiningar frá öðrum Möggum en nú er hann Bjarkarhlíð 5.  Við systkinin vorum orðin fjögur þegar flutt var úr skúrnum haustið 1969.  Pabbi var sjaldan heima á þessum árum, hann vann hjá Síldarverksmiðjunni á Seyðisfirði.  Mamma var með okkur krakkana.  Ég var elstur og eitt af þeim verkum, sem ég minnist að voru mér erfið, var að sækja mjólk niður í Mjólkurstöð en þá var mjólkin afgreidd á brúsa.  Oft var erfitt að drösla brúsanum upp Mjólkurstöðvarbrekkuna og stundum heltist niður hjá mér þótt brúsinn væri ekki stór.  Á sólríkum sumardögum þurfti að færa mjólkurbrúsann í kringum skúrinn eftir því hvar skugginn var.  Síðar komu mjólkurpokar og enn síðar ísskápur í skúrinn.  Heitt vatn var aldrei í skúrnum og fróum við stundum til Frænku í Varmahlíð til að komast í gott bað, annars var það balinn.

     Þegar ég man fyrst eftir voru húsin við Hamrahlíð, hús Kjartans Ingvarssonar (nú Björns Kristleifssonar) og Jóhanns Stefánssonar þau einu á hæðinni.  Mig minnir að Jói og Unnur hafi byggt sitt hús um svipað leiti og foreldrar mínir byggðu skúrinn.  Hæðin byggðist nokkuð hratt upp.  Ari og Begga byggðu sitt hús rétt fyrir innan okkur við Bjarkarhlíð, Halldór og Nanna rétt fyrir neðan við Hjarðarhlíð, Völundur og Guðný við Hjarðarhlíð, Siggi og Silla að Bjarkarhlíð 1, Sveinn Árna og Stella að Bjarkarhlíð 6, og þannig koll af kolli. Félagahópurinn samanstóð af krökkunum á hæðinni.  Þetta var skemmtileg veröld að alast upp í, alltaf verið að byggja og nægar spýtur til kofasmíði, Hamrarnir með sína töfra rétt fyrir innan og leikir krakkanna báru auðvitað svip af nánasta umhverfi.  Það var oft rígur á milli hæðara og þorpara sem stundum braust út í sverðabardaga og stundum í fótbolta.

    Einhvern tímann um það leiti sem ég var sex ára var komið upp gæsluvelli úti í skóla.  Þangað var ég sendur mér til mikilla vonbrigða.  Einn daginn kom Héðinn vinur minn, ásamt Yngva, bróður sínum, og Þór Guðmunds að leikskólagirðingunni.  Þá voru þeir í einhverjum leiðangri og ég man enn hvað mér fannst frelsisskerðingin algjör þennan dag.  Sem betur fór var dvöl mín á leikvellinum ekki margir dagar enda erfitt fyrr krakka, sem hafa haft ofan af fyrir sér með leikjum, að sætta sig við svona framfarir.

    Í mínum augum var heimurinn svo sem ekki stór fyrir utan hæðina á þessum árum.  Það voru þau Ari og Bjarghildur í Varmahlíð, Bjarghildur í huga okar systkinanna aldrei önnur en Frænka enda held ég að maður hafi lengi vel getað þrætt fyrir að hún héti annað.  Svo voru Dúna og Villi í Borgarfelli með stærsta strákahóp þorpsins.  Þar var nú oft mikið um að vera.  Rétt hjá þeim var Ingimar Þórðarson með vöruafgreiðsluna í skúr með Coca Cola merki, okkur þótt hann vera með almerkilegustu mönnum enda var það hann sem flutti kókið til Egilsstaða.  Seinna flutti Ingimar vöruafgreiðsluna upp á hæð mörgum hæðarstráknum til óblandinnar ánægju.  Stundum gerði maður sér langferð upp í Miðhús en þar bjuggu Einar og Gerður, frænka mín, á meðan þau voru að byggja sitt hús í nýja hverfinu en það var kallað þar sem göturnar með skóganöfnunum eru nú.  Svo var náttúrulega Egilsstaðabúið sem hafði alsvert aðdráttarafl, þar voru meðal annars svín og voru það dýr sem ekki var hægt að sjá hvar sem var.  Afi og amma bjuggu á Jaðri í Vallanesinu og hjá þeim var ég oft en þau fluttu í Egilsstaði árið 1970.  Stærri var heimurinn ekki þá.

     Ég held að hápunktur bernskunnar hjá mér hafi verið sumarið 1969.  Það var áreiðanlega þá sem við Héðinn fórum í leiðangur með nesti inn á Egilsstaðakoll á góðviðrisdegi sem þessum.  Þegar við vorum á bakaleiðinni stoppuðum við við kirkjugarðinn og lögðumst í grasið til að horfa upp í bláan himininn sem var miklu blárri í þá daga en hann er núna.  Þarna komumst við að því að við vorum akkúrat á hinum eina og sanna aldri og menn hefðu ekkert að gera við að verða eldri.  Ég held að þetta hafi verið hárrétt athugað hjá okkur því eftir þetta fóru hlutirnir að verða flóknari, litirnir gruggugri og himininn pastelblár.

   Það var eins og þessi bær tæki mikinn vaxtarkipp upp úr 1970 og hefði tilhengingu til að breiða hratt úr sér fram yfir 1980.  Fólki fjölgaði hratt og það var mikil hreyfing á íbúum þannig að sá kjarni, sem ég man best eftir frá mínum bernskudögum, var ekki jafn auðsjáanlegur og áður.  Stundum heyrðist frá Fjarðabúum að ekki væri auðskilið á hverju þessi bær ætlaði að lifa þegar menn hættu að byggja hverjir yfir aðra.

     Á árunum upp úr 1971 byrjaði margur unglingurinn starfsferil sinn við byggingavinnu.  Ekki var óalgengt að strákar byrjuðu í sumarvinnu um tólf ára aldurinn.  Við vorum margir, strákarnir, sem byrjuðum okkar fyrstu vinnu hjá Kaupfélaginu og unnum í trésmiðjunni undir stjórn Völundar.  Þá var verið að byggja núverandi kjörbúð Kaupfélagsins.  Okkar helstu störf voru að naglhreinsa, skafa og stafla timbri. Einn af þeim mönnum, sem við strákarnir unnum talsvert með, var Jón gamli frá Skeggjastöðum, tengdafaðir Völundar.  Þegar við strákarnir lögðumst í leti og sjálfsmeðaumkun yfir því hvað leiðinlegt væri að naglhreinsa og skafa timbur þá benti Jón okkur á að líta þannig á verkefnið að verið væri að byggja upp stórt og mikið verslunarhúsnæði sem myndi þjóna samfélaginu um ókomin ár og seinna meir gætum við litið með stolti til þess að hafa verið þátttakendur í  því.

     Þegar ég las eftirfarandi dæmisögu ekki fyrir svo löngu kom Jón upp í hugann.  En hún var á þá leið að maður kom á byggingarstað á björtum góðviðrisdegi.  Fyrst kom hann að smið sem var að höggva til planka, og spurði hvað hann væri að gera.  Smiðurinn svaraði önugur; "Þú hlýtur að sjá það sjálfur maður ég er að höggva til spýtu".  Þá kom maðurinn að múrara, sem var að hlaða vegg, og spurði hvað hann væri að gera.  Hann svaraði jafn önugur og smiðurinn; "Eins og þú sérð er ég að hlaða vegg".  Næst kom maðurinn að verkamanni, sem hamaðist kófsveittur við að moka sandi og maðurinn spurði hvað hann væri að gera.  Verkamaðurinn ljómaði allur í áhuga sínum og sagði;  "Við erum að byggja dómkirkju".  Jón gamli var mikill félagi okkar strákanna og reyndi að leiða okkur fyrir sjónir þá einföldu lexíu hvað viðhorfið til hlutanna skiptir miklu máli.

     Sumarið eftir sátum við nokkrir strákarnir sunnan undir bröggunum og höfðum þann starfa að höggva til steina sem Hringur Jóhannesson notaði í orminn á Kaupfélagsveggnum.  Þegar ég kem að þessari stóru mynd nú er ég ánægður með að hafa verið þátttakandi þó það sé aðeins í einum, litlum steini.

     Kirkjan var í byggingu í allnokkur ár og eftir að hún komst undir þak var hún kjörinn leikvangur þar sem sett voru upp mörk við sinn hvorn enda salarins og spilaður handbolti eða fótbolti.  Kirkjan var vígð sem guðshús 16. júní 1974 og daginn eftir vorum við krakkarnir af mínum árgangi fermd í henni.  Á þessum áratug voru einnig byggð Mjólkurstöð, Menntaskóli, byggt nokkrum sinnum við grunnskólann, byrjað á íþróttahúsi auk alls þess aragrúa af íbúðum sem spruttu upp.  Þetta voru sannkallaðir gósentímar, við unglingarnir gáum haft næga vinnu á sumrin og vaðið í peningum.

     Ég man sjaldan eftir því að fjárhagsáhyggjur hafi verð til umræðu á þessum árum enda kannski óþarfi, verðbólgan sá fyrir því.  Það var samt ekki allt sem háð var lögmáli verbólgu þessa áratugar.  Upp úr 1970 voru sett á stofn tvö iðnfyrirtæki, skóversmiðjan Agila og prjónastofan Dyngja.  Rekstur þessara fyrirtækja gekk ekki alveg snurðulaust fyrir sig og Agila lagði upp laupana 1974.  Dyngja er enn til í einhverri mynd en hefur oftar en ekki átt erfiða tíma.  Það má færa að því rök að hagkerfi þessa lands hafi um langt skeið verið miðað við sjávarútveg og þess vegna ekki undarlegt þótt iðnfyrirtæki í framleiðslugreinum ótengdum sjávarútvegi hafi átt erfitt uppdráttar hér sem annarsstaðar.

     Áratugurinn milli 1970 og 1980 var sennilega um margt sérstakar.  Raunveruleikinn var kannski um margt frábrugðin því sem hann oftast er, unglingar og jafnvel börn gátu fengið launaða vinnu og frjálsræði var að aukast.  Það var þess vegna ef til vill ekki skrítið að hjá mér snérust hlutirnir hraðar á þessum árum en raunveruleikaskyn mitt og þroski.  Samfara því að hafa peninga milli handanna ánetjaðist ég víni og rataði svo í marga blindgötuna.  Óknyttir mínir voru margir og nú finnst mér að þetta samfélag hafi sýnt mér mikla þolinmæði við að snúa frá villu míns vegar og í raun meiri en efni stóðu til.  Tifinningin segir mér að þessi staður búi yfir meiri ró og þolinmæði en aðrir staðir.  Hraðinn er oft á tíðum ekki eins mikill og niður við sjávarsíðuna en það vinnst upp með jöfnum hraða og vel það.

     Sumarið 1981 varð Björg amma áttræð á sólbjörtum góðviðrisdegi eins og afmælisdagarnir hennar yfirleitt voru.  Í áttræðisafmæli ömmu var margt gesta,meðal annarra Sveinn á Egilsstöðum þá 89 ára og við hestaheilsu.  Sveinn talaði um vegagerð fyrri ára og hversu mikil breyting hefði orðið með tilkomu vegar yfir Faradal, uppbyggingu þessa bæjar og gæði landsins, sem enginn þekkti eins vel og gat lýst betur en hann, en hér sagði hann vera Paradís á jörðu.  Sveinn hafði svo vistaskipti þennan sama sólbjarta sumardag efalaust ánægður með sitt umhverfi sem hann átti stóran þátt í að skapa.

     Ég yfirgaf þennan bæ að mestu upp úr 1982.  Hvar rætur manna liggja er ekki gott að segja, sjálfsagt liggja þær hér og þar eftir því hvar þroskinn og augnabliksstemming hafa haft mest áhrif á sálina.  Það er orðið nokkuð síðan mér hætti að finnast þessi bær vera það sem ég kallaði heima þó stór hluti af mínum rótum liggi hér.

     Þegar ég horfi, þaðan sem ég stend, í átt að Egilsstaðakollinum merlar sólin grágrænt Lagarfljótið sem hlykkjast að því er virðist frá Snæfellinu og út í bláma Héraðsflóans.  Fokkerinn er að koma að sunnan og flýgur út yfir Fellin til lendingar.  Túnið á Egilsstaðanesinu eru alsett hvítum rúlluböggum sem trú bernskunnar hefðu sagt mér að væru flugvélaegg.  Á svona augnabliki getur fátt annað komið upp í hugann en paradís á jörð.

Þessi frásögn var birt í Egilsstaðabók sem kom út 1997 í tilefni 50 ára afmælis þéttbýlisins á Egilsstöðum.  Hugrenningarnar áttu sér samt tað 5 árum fyrr eða árið 1992.  Það var í vor sem ég enduheimti fjársjóð, það er að segja gömul video, sem ég hef birt brot úr hérna á síðunni.  Þetta vídeo er tekið 1992 og endar á þeim stað sem frásögnin rann í gegnum hugann og þar sem við Maggi í Kongó reyktum Camelinn.  


Rosalega er orðið dýrt að vera í vinnu

IMG 2514 

Það er ekki á hverjum degi sem múrarar verða þess heiðurs aðnjótandi að vera settir á safn.  En nú er svo komið á 69°N að við félagarnir frá landi ísa og úr myrkviðum Afríku hefur verið komið til vetrar dvalar á safni Samana upp í fjallshlíðum Evenesmarka.  Þarna eiðum við dögunum við fallandi fjósmúrinn, inn af stalli hestsins, gengt básunum sem geiturnar þrjár voru geymdar í denn.  Til svona verks dugir ekkert minna en fölþjóðlegur vinnukraftur enda nóg að gera hjá Norðmönnum við að þéna á olíu þó þeir fari ekki að eyða dýrmætum tímanum í að gera upp gamalt samískt fjós.  Ekki veit ég hvernig að ég gamli safnvíkingurinn kæmist frá því að rogast með björgin úr fjósveggnum ef ekki væri fyrir jötuninn Juma, hinn öfluga Afríkumann sem er kominn alla leið frá víðernum Darfur í Sudan.

Það fór ekki hjá því við fjósverkin að í gegnum hugann hafi flogið setning sem Siggi sonur minn sagði fyrir margt löngu síðan þegar hann var um fimm ára aldurinn "pabbi er ekki rosalega dýrt að vera í svona vinnu eins og þú?".  Þessi settningu rann reyndar fyrst á milli eyranna á mér þegar ég var að höndla flugmiðana yfir hafið og heim fyrir hátíð ljóssins og komst að því að það var ekki nokkur leið að komast fyrir minni hækkun en þriðjungs frá fyrra ári.  Um árið þegar Siggi spurði datt mér í hug eitt augnablik að skýra það út fyrir blessuðu barninu hvernig peningar yrðu til, en efaðist um að ég gæti gert það á nógu sannfærandi hátt með því að setja það í samhengi við mína vinnu.  Svo ég sleppti því, sem betur fer, enda löngu komið í ljós að hann Sigurður er miklu slyngari en ég í lífsins póker.

Það fer ekki hjá því að það örli aðeins á kvíða við þá röskun sem verður á grjótburðinum í fjósvegginn við það að fyrir höndum er flugferð yfir himin og haf.  Síðast þegar ég fór þessa leið mátti ég gjöra svo vel að stíga til hliðar á Evenesflyplass á skokkaleistunum, með vasana ranghverfa og buxurnar á hælunum vegna skerandi óhljóða frá leitahliðinu.  Eftir að hafa verið þuklaður átt og lágt af kallmanni fékk ég að halda áfram för, en það sama gerðist svo í Gardemoen.  Þegar ég kom til Keflavíkur reiknaði ég með að þetta yrði eins og í gamla daga að tollararnir byðu glaðlega góðan daginn og ef maður svaraði rétt á íslensku þá yrði málinu lokið með "velkominn heim". 

En það var nú aldeilis ekki, þarna stóðu þær tvær svartklæddar í tollinum, önnur gekk í veg fyrir mig og spurði um vegabréf á ensku.  Eins og illa gerður hlutur í grárri lopapeysu svaraði ég á ástkæra og ylhýra, "svo þú ert íslendingur" sagði daman þegar hún hafði skoðað vegabréfið, "þú mátt fara í gegn".  En þá brá svo við að hin daman gekk ennig í veg fyrir mig og skipaði mér á ensku að koma afsíðis þar sem taskan mín var sett í skanna, "hvað er þetta" spurði hún á ensku og aftur greip lopapeysan til þess að svara skilmekilega á ástkæra og ylhýra.  "Svo þú talar bara íslensku" sagði svartklædda daman "þú mátt fara í gegn".

Þegar ég kom í gegnum tollinn heyrði ég háreysti sem mér fannst ég kannast etthvað við og jú þarna var náungi sem ég hafði séð nokkrum mánuðum áður við vopnaleitarhliðið í Keflavík.  Hann hafði tilkynnt þar að það kæmi ekki til greina að hann tæki af sér skó og buxnabelti, hvað þá að hann tæmdi vasana að óþörfu.  Þegar það átti svo að leita á honum lét hann þá vita með gargandi snilld að þessu skyldu þeir sleppa því hann væri nefnilega ekki glæpamaður.  Fjöldi manns mátti bíða á sokkaleistunum með buxurnar á hælunum meðan serímónían fór fram.  Ég er ekki frá því að það hafi flogið í gegnum hugann á fleirum en mér, þegar svona góður tími gafst til að doka við og líta yfir sviðið, að þessi maður væri sá eini með fulle femm á öllu svæðinu.  En hann er, það sem sennilega er kallað á fagmáli, misþroska.  Þannig að hjá honum hefur varðveist viska barnsins allt til fullorðins ára.

Það sem helst truflar kvíðann vegna væntanlegrar flugferðar er tilhlökkunin yfir því að komast heim.  Því eins og hún Lea frænka mín komst að orði í sögunni sem hún skrifaði á leikskólanum um árið, þá bakaði stelpan svo góða köku handa stráknum að hann bað hana um að giftast sér.  Það er tilhugsunin um kókosterturnar hennar Matthildar minnar sem gera það að ég ferðast úr rándýrri vinnu yfir himinn og haf með buxurnar á hælunum grunaður um hryðjuverkaáform.  Með þá von í hjarta að í aðdraganda hátíðar ljóssins hafi blessuð börnin eins og ævinlega á réttu að standa.


Bláar myndir á sunnudaskvöldi.


Trúleg vísindi.

 

 

,,,ef þú hefur vitund á stærð við golfkúlu, þá er það svo þegar þú lest bók, hefurðu skilning á stærð við golfkúlu,,,við skulum vera varká í hugsun því þessi heimur er byggður upp á hugsunum,,, upplýsingar eru lykilinn,,,

 


Er verið að framleiða rándýrt myrkur með rafmagni?

Það gerðist hérna á 69°N í haust að ekki var lengur hægt að taka veðrið með því að líta til himins þegar það fór að verða dimmt á morgnanna.  Kiwi butik var mætt á svæðið í gamla postterminalinn sem hafði staðið auður á bak við hús.  Frá glugganum á bakhliðinni hafði ég getað tekið veðrið að morgni í hvaða birtustigi sem var og getað virt fyrir mér Gangsástoppinn á stjörnubjörtum kvöldum.  Þó svo að það sé byggð hátt upp í hlíðar toppsins eru götulýsingarnar þessar gömlu bláu sem gefa daufa birtu niður fyrir staurana, sem standa inn á milli trjána til að halda uppi gömlu loftlínunni.  En nú er semsagt nútíminn tekin við á bak við hús, rétt eins og fyrir framan það þar sem helst umferðaræð Harstad liggur að stærsta verslunarmiðstöðinni, Kanebogen Center.

Auk lýsinga Kiwi, sem voru upplýstir útveggir allt um kring þannig að þjófar geta hvergi farið huldu höfði, háir og miklir ljósataurar við bílastæðin, ljósamastur með flóðlýsingu sem finna má á íþróttavöllum, já og auk þess var búið að raflýsa aðal umferðaæðina að Kiwi, sem liggur á milli mín og Gangsástoppsins á nútímalegan máta.  Að vísu var flóðljósamastrið fljótlega fjarlægt enda lýsti það upp allt heila hverfið þannig að ef ekki voru brúkaðar myrkvunargardínur var bjart sem að degi innanhúss og skugginn af manni sjáfum upp um alla veggi.  Sennilega hefur einhverjum dottið það sama í hug og mér að Kiwi gæti verið með annað mastur í undirbúningi þar sem komið yrði fyrir hátölurum sem flytti auglýsingar á 180 desbilum fyrir jólin og því væri vissara að leggja inn kvörtun strax svo ekki kæmist hefð á möstrin. Það er semsagt ekkert nema ofbirtan niður á tómu bílaplani sem blasir við út um gluggann minn þegar ég ætlaði að líta til veðurs á skammdegismorgnum.     

En til hvers er verið að raflýsa svona rækilega að ekki sjáist til himins heldur aðeins hvítmáluð strikin á bílaplaninu?  Jú einmitt til þess að fólk sjái niður fyrir tærnar á sér enda er það eina sem það þarf að sjá til að kunna fótum sínum forráð inn í Kiwi mat butik eða Kanebogen Center til þeirra í HM liðinu, Dressmann, Jack & Jones.  Á Wikipadia má sjá að raflýsing er birta sem framleidd er með flæði rafstraums. Þetta er algengasta form gervibirtu og er mikilvægt nútíma samfélagi, sem innri lýsingu fyrir byggingar og úti ljós að nóttu,,, meira..

Þegar ég fór að finna út hvernig ég gæti séð til veðurs, hvað varðar annan klæðnað en skótauið áður en haldið væri út í dimman morguninn, datt mér í hug að best væri að kanna veðrið fyrir utan gluggann á internetinu.  Af því að einmanaleiki næturinnar hefur orðið til þess að morgni ég hugsa heim til mín, þá fór ég fljótlega að venja mig á að kíkja á veðrið á Íslandi í leiðinni.  Á www.yr.no eru nokkrar vefmyndavélar sýndar sem standa næst þeim stað sem er skoðaður.  Þann 28. nóvember s.l. var vefmyndavélin í ólagi á Egilsstöðum.  En mynirnar hér að neðan sýna hvernig var umhorfs klukkan tæplega fimm að morgni í rækilega raflýstum Seyðisfirðinum annarsvegar, og svo steinsnar frá, á óraflýstri Fjarðarheiðinni hinsvegar. 

Á sama hátt og linsuop vefmyndavélanna virkar mannsaugað, er nema von að maður spyrji; er verið að framleiða rándýrt myrkur með rafmagni?

134238~1

131012~1


Bláar myndir á sunnudagskvöldi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband