Fagridalur

Skafrenningur

“Hverjum datt eiginlega í hug að kalla þetta ömurlega veðravíti Fagradal”; spurði gamall skólafélagi úr neðra einn kaldann vetrardag. Ég reyndi að sína örlítinn skilning og sagði að sennilega hefði hugmyndin fæðst um há sumar. “En hann er ekki einu sinni fallegur þá, þó hann sé kannski ekki jafn ömurlegur”; sagði félaginn.

Undanfarið hef ég verið svo frá mér numin við að teyga D-vítamín úti í sólinni, -að steypa og í bláum berjamó, við malið í steypubíl þar sem ég fæ að fljóta með félögunum, eða við hjalandi lækjarsytrur og dunandi fossa, -að ég hef ekki gefið mér nokkurn tíma til að þvæla í langloku eða fara með nokkra speki hér á síðunni.

Mér verður oft hugsað til þessa gamla skólabróðir þegar ég fer niður í neðra yfir dalinn fagra til að steypa á þessum árstíma. Svo þegar ég ligg þess á milli í aðalbláberjamó í Græfum undir Skagafellinu ásamt Matthildi minni og fleiri heilladísum, þar sem Fagridalur mætir Eyvindarárdal.

Um Fagradal á milli Skagafells og Sauðahlíðarfjalls, liggur þjóvegur nú númer eitt úr efra í neðra þangað til komið er úr Skriðum undan Grænafelli í botni Reyðarfjarðar, og auðvitað öfugt. Fyrir skemmstu var hann kallaður Norðfjarðarvegur og þar áður Fagradalsbraut með viðeigandi vegnúmerum. Það var árið 1893 sem séra Magnús Blöndal Jónsson prestur í Vallanesi fékk áhuga á veglagningu yfir dalinn, frá því greinir hann í endurminningum sínum.

Í kaflanum Akvegur yfir Fagradal 1893, segir Magnús frá hugmyndum sínum um lífæð Fljótsdalshéraðs til sjávar. En hann taldi fjallvegi og flutningsmáta sem þeim fylgdu standa uppbyggingu á Héraði fyrir þrifum. Allir flutningar fóru þá fram á hestum bundnir á klakk. Yfir Vestdalsheiði af út Héraði til Seyðisfjarðar og yfir Fjarðarheiði af mið Héraði. Yfir Eskifjarðarheiði til Eskifjarðar og yfir Þórudalsheiði úr Skriðdal til Reyðarfjarðar af inn Héraði.

Hugmyndir voru uppi hjá heimamönnum um höfn í ósi Lagarfljóts og skipaferðir um Fljótið með vörur. Þetta taldi séra Magnús fráleitan möguleika eftir að hafa skoðað aðstæður og taldi sig ekki hafa aflað sér vinsælda með afstöðu sinni nýfluttur á Héraðið. Hann fékk að fara með Jóni Bergssyni á Egilsstöðum og Benedikt Rafnssyni á Höfða á Reyðarfjörð um Fagradal til að mynda sér skoðun á vegstæði. Jón og Benedikt gjörþekktu þessa leið.

Séra Magnúsi leist það vel á að gera veg að hann brýndi þingmenn Héraðsins um sumarið að leiðin yrði lögtekin á Alþingi og þá könnuð betur með það fyrir augum að leggja veg um Fagradal. Tillaga hans var borin upp á almennum fundi á Ketilsstöðum á Völlum við engar undirtektir Vallamanna hún fékk aðeins atkvæði hans sjálfs þaðan, en þrír Skriðdælingar greiddu tillögunni atkvæði.

Fannst Magnúsi þetta undarleg atkvæðagreiðsla þegar ekki einu sinni Jón Bergsson á Egilsstöðum gat hugsað sér að greiða atkvæði með tillögunni, en vegur um Fagradal gegndi lykilhlutverki fyrir Egilsstaði og austur Velli en skipti í sjálfu sér ekki máli fyrir Skriðdælinga þar sem mun styttra yrði fyrir þá að fara áfram Þórudalsheiði til Reyðarfjarðar.

Séra Magnús þakkar séra Sigurði Gunnarssyni þingmanni frá Valþjófstað í Fljótsdal það að Fagradalsbraut var lögtekin á Alþingi. Hann segir einnig frá því að Soffía Einarsdóttir, frá Brekkubæ í Reykjavík, -kona séra Sigurðar, hafi borið af sér blak þegar hann var á milli tannanna á fólki. Það hafi hann frétt seinna og tilgreinar þar sögu frá mannamóti á Valþjófsstað þar sem var hneykslast á tiltektum nýa prestsins í Vallanesi m.a. fyrir að hafa sent fólk sitt út í hláku um hávetur til að slétta þúfur í túninu.

Þá á Soffía að hafa sagt; “ykkur ferst amlóðunum, sem aldrei hafið gert neitt, annað en að rangla á eftir rollunum, og aldrei hafið getað neitt annað en að feta í spor feðra ykkar og að standa í sömu sporum frá æsku til elli. Og svo flytur dugandi maður inn í Héraðið ykkar, sem eitthvað getur og gerir, þá getið þið hallmælt og skopast af framkvæmdum hans af bláberri öfund og af því að þið viðurkennið með sjálfum ykkur að þið eruð ekki menn til þess að líkja eftir honum. Já ykkur ferst.”

Til forna var Eyvindardalur þjóðleiðin úr efra í neðra, ef eitthvað er að marka Íslending- og þjóðsögurnar. Upp úr honum lá leiðin um Slenju niður í Mjóafjörð rétt eins og nú, og um Tungudal lá leiðin yfir Fönn niður í Norðfjörð og Eskifjörð um Eskifjarðarheiði fram eftir öldum. Vegurinn um Fagradal kom nokkru eftir að séra Magnús Blöndal Jónsson fékk hugmyndina og gerir leiðina á flesta staði í neðra mun lengri en áður. Fullreynt hafði verið með skipaflutninga um ós Lagarfljótsins með tilheyrandi manntjóni áður en kom til vegagerðar um Fagradal.

Félagi minn í neðra ætti ekki að kalla Fagradal ljótan, ætti frekar að hundskast í berjamó í dalnn fagra en vera með múður, ekki væri þá ólíklegt að hann myndi sjá hvað þjóðleiðin um Eyvindarárdal myndi stytta leiðina mikið í aðalbláberin. Það er nefnilega ekki nóg að rýna bara niður á tærnar á sér til að uppgötva fegurð landsins, gæði og nauðsynjar.

Myndirnar hér að neðan, þó svo þær séu aðeins af smá parti af dalnum fagra, sanna það að félaganum ferst ekki frekar en gömlu Hérunum sem röngluðu á eftir rollunum.

Fagradalsá

Fagradalsá í Græfum

 

Beitilyng

Séð upp á Fagradal úr Græfum, þjóðvegurinn liggur ofar undir Suðahlíðahnjúkum og þaðan sést lítið af Græfum sem eru falin paradís með aðalbláberjum

 

IMG_2175

Séð niður Græfur í átt að Gagnheiði

 

IMG_4320

Endalausir fossar og berjabrekkur eru í og við Fagradalsá upp úr Græfum

 

IMG_2201

Fagradalsá mætir Eyvindará undir Gagnheiði

 

IMG_4319

Kannski er nafngiftin Græfur komin til af því að landið er sundur grafið af hjalandi lækjarsprænum

 

IMG_4284

Lítill lækur tifar létt um máða steina á leið sinni í Faradalsá

 

IMG_2192

Mæðgur á leið í berjamó

 

IMG_2230

Eyvindarárdalur, Gagnheiði t.v. og Skagafell t.h., á milli er Tungufell hægra megin og Slenja vinstra megin. Á milli Gagnheiðar og Slenju er þjóðvegurinn í Mjóafjörð. Á milli Slenju og Tungufells er Tungudalur, þar var forna þjóðleiðin yfir Fönn í Norðfjörð og yfir Eskifjarðarheiði á Eskifjörð. Á milli Tungufells og Skagafells er Svínadalur, sem er styttri en Fagridalur á Reyðarfjörð. Dalirnir saman eru stundum kallaðir Reyðarfjarðardalir

 

IMG_2195

Ævi


Nafni minn

Það sem gefur blogginu gildi, öðru fremur, eru athugasemdirnar, þær víkka sjóndeildarhringinn. Þess vegna eru þær vel þegnar á þessari síðu hvort sem þær eru undir nafni eður ei. Sumir setja þumalinn upp með like merki, þá væntanlega ef þeim líkar pistillinn. Mbl bloggið er ekki tengt fésbókinni á annan hátt og er mér t.d. ómögulegt að finna út úr því hver setur like við pistil.

Stundum kemur fyrir að ég fæ skilaboð í gegnum þriðja aðila, sem viðkemur bloggfærslu, og er það þá yfirleitt að viðkomandi hafi líkað. Svo kemur það ekki ósjaldan fyrir að bæði kunnugt og bláókunnugt fólk hringir í mig til að ræða einhver atriði sem fram koma í bloggi. Það eru alveg sérstaklega skemmtileg símtöl.

Undir vorið í vor hringdi í mig kunningi úr steypunni til að fá nánari skýringar á bloggpistli og spurði mig í leiðinni hvort ég gæti sagt honum hver Katrín væri, stúlka sem ólst upp á Seyðisfirði snemma á 20. öld. Þannig væri að í Firði hefðu verið tvær Katrínar á því sem næst sama aldri og báðar Jónsdætur.

Ég gat frætt hann á því að önnur þeirra hefði verið systir afa míns hún hefði alist upp hjá frændfólki sínu. “Mér datt það í hug” -sagði kunninginn en hann var nær fólkinu í Firði í skiydleika en ég og með aðra tengingu.

Eftir þetta samtal fór ég að grúska í gúggúl og Íslendingabók. Fann mynd á gúggúl af Katrínunum tveim saman á barnsaldri. Í sama myndasafni kom upp mynd af fjölskyldu sem ég fékk áhuga á, þó svo að sú mynd væri frá því á 19. öld og ég hefði aldrei séð þetta fólk á mynd.

Þessi mynd festist með einhverjum dularfullum hætti á destoppnum hjá mér og blasti við í hvert skipti sem ég fór í tölvuna, varð ég að fá son minn til að fjarlægja hana af desktoppnum næst þegar hann kom í heimsókn því mín kunnátta á tölvu var ekki svo yfirgripsmikil.

Myndin var af fjölskyldu sem á enga afkomendur; maður, kona og dóttir. En til þessara hjóna á fjöldi fólks nöfn sín að rekja enn þann dag í dag. Nöfnin eru Magnús og Herborg, sem er auk þess til í samsetningunni Magnea Herborg. Dóttirin hét Björg.

Á sama tíma og kunningi minn úr steypunni hringdi var ég að lesa fágætan fróðleik í doðranti bóka sem heita Austurland. Þar var þessa Magnúsar getið sem glöggs búsýslumanns með sauðfé og þá sem sérlega vinsæls fjármanns hjá stórbændum á Héraði. Var hann m.a. fengin til að sjá um eitt fyrsta fjárræktarbú á Austurlandi, sem stórbændur kostuðu á Ormsstöðum í Hallaormstaðarskógi.

Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld Magnúsi Sigurðssyni hinum merka sauðfjárbónda á Úlfsstöðum, frænda mínum sem ég var part úr tveimur sumrum hjá í sveit sem strákur. Ég vissi fljótlega að Sigurður faðir Magnúsar á Úlfsstöðum og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa.

Þegar ég spurði afa út í þetta á gamals aldri, þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg móðir Magnúsar var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.

Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur á Ormstöðum í Hallormsstaðaskógi, og síðast Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, þar sem það var ekki til í hans langfeðratali, þá tiltók hann að mig grunar þennan Magnús.

Í þá tíð var hvorki til siðs að nefna börn út í bláinn né Magnús sérstakt tískunafn. Minnir mig að hann hafa sagt að hann væri nefndur eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum.

Magnús og Herborg áttu eina dóttir, -Björgu, sem dó af fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.

Til að enda þessa hugleiðingu og gera langa sögu stutta, um hann nafna minn, -þá á Björg litla systir mín, sem hefur búið í S-Frakklandi rúm 30 ár, son í franska hernum. Hann heitir Remi Paul Magnús. Svona getur nú komið í ljós hvað leiðir nafns liggja víða með einni athugasemd, eða í stuttu símtali um tvær Katrínar.

Magnús Guðmundsson (f.1835 - d.1911) bóndi á Ormsstöðum í Skógum, Herborg Jónsdóttir (f.1848 - d.1931) kona hans og Björg Magnúsdóttir (f.1887 - d.1906) dóttir þeirra.

Myndin á sem festist á desktoppnum


Eins og skepnan deyr

Senn er liðin þessi bið, lokast leiðin fram á við og hverfa önnur sjónarmið. Mun ég samt sem áður elska þig? Mig grunar að við sem höfnum síendurtekið bólusetningu með marki skepnunnar komum að endingu til með að sæta rafrænum aðskilnaði. En veruleikinn hefur sannfært okkur um annað en hið viðtekna nýja norm.

Leið okkar mun liggja úr aðskilnaði í einingu. Á stað þar sem innsæi okkar og hjarta sameinast. Þar er ekki til neitt gott eða slæmt, aðeins skynjun hjartans fyrir því hvað er rétt. þar kemur eðlislæg vitneskja fram í raunveruleika handan skilningsvitana fimm.

Fyrir utan allar hugmyndir um hvað sé rangt eða rétt er grasi gróinn völlur. -Ég hitti þig þar. - Þegar sálin leggst í grasið er heimurinn meira en nokkrum orðum verður að komið. ~Rumi


Skepnan

Það eru sennilega sárafáir sem rýna í sortann vegna dularfullu drepsóttarinnar lengur, eða bólusetningadaga í Höllinni. En samkvæmt tölum frá CDC í Bandaríkjunum þann 19. mars síðastliðinn eru líkur aldurshópa á að lifa sóttina af eftirfarandi; 0-17 ára – 99.998%, 18-49 ára – 99.95%, 50-64 ára – 99.4% og 65 ára + – 91%. Síðan þá hefur dauðsföllum drepsóttarinnar farið fækkandi.

Myrkraöflin búa nú meðal vor, við verðum að vera á varðbergi svo að við getum áttað okkur á því sem er raunverulega að gerast um leið og við fáum óræka hugmynd um hvar þau er að finna. Það hættulegasta sem getur gerst í náinni framtíð er að gefast ómeðvitað upp fyrir áhrifunum myrkraraflanna þegar þau eru augljóslega til staðar. ~ Rudolph Steiner.

Rudolph Steiner sagði þetta í ritgerðum sínum árið 1917, sem birtar voru undir nafninu "The Fall of the Spirits of Darkness", þar sá hann fyrir sér framtíð þar sem bóluefni yrði falið að skera á andlegar tengingar og festa okkur í fimm skilningssvita veröld.

Af “tveimur tungum” var haldið fram fyrir skemmstu að aðeins þeir undirliggjandi og öldruðu væru í hættu vegna veirunnar. Okkur var sagt að hún hefði ekki áhrif á börn og ungmenni. -Svo hvers vegna er nú brýnt að sprauta börnin með hraði, -unglinga, börn og jafnvel barnshafandi konur?

Steiner hafði þá rétt fyrir sér eftir allt saman. Fyrsta skrefið var að einangra og hefta huga blessaðs barnsins með félagslegri fjarlægð, skorti á mannlegri snertingu og laska heilsu þess með grímum. Stig tvö, -auðvitað allt í nafni öryggis, -að sprauta þau með rafsegulsameind grafenoxíðs. Merki skepnunnar.

Sá hryllingur sem við lifum þessa dagana snýst ekki um hættulegan sjúkdóm né hefðbundna bólusetningu , , , þetta snýst um algeran heilaþvott, fikt í ónæmiskerfi og rafræna framtíð mankyns.


Heilagir hundar, perlur og svín

Upplýsingar eru gagnlegar þegar þær leiða til framfara og þroska. Ef þær þjóna ekki þeim tilgangi þá eru þær einungis truflandi. Nú geisar andlegt upplýsinga stríð.

Þetta ætti fólk að hafa hugfast þegar það opnar fyrir bölmóð heimsins í upplýsingaóreiðu fjölmiðlanna og skrúfar jafnvel upp í viðtækjunum í stað þess að slökkva.

Markmið auðróna glóbalsins er að hefta anda mannkyns og rýma til fyrir rafrænum vélmennum í anda sjálfsafgreiðslukassa stórmarkaðanna.

Fjöldinn hefur óafvitandi yfirgefið frumkraftinn til að komast aftur til "eðlilegs lífs". Aðrir hafi látið undan félagslegum þrýsting eða hótunum undir rós.

"Hugrekki er grundvöllur andlegs styrkleika. Hugleysi getur aldrei orðið grundvöllur siðferðis" ~Mahatma Gandhi


Bláber

Fyrir nokkrum árum sagði ég frá verslunareiganda sem setti miða í gluggann á búðinni sinni sem á stóð "lokað í dag - farinn í berjamó". Þetta var fyrir mörgum áratugum síðan, þegar ég var enn á barnsaldri. Sumir vildu meina að hann væri alls ekki í berjamó, heldur væri hann blindfullur heima. Hvort sem verslunareigandinn var blindfullur í berjamó eða ekki, þá sýnir tilkynningin hvað tíðarandinn hefur breyst í tímans rás. Þó svo hvorki þá né nú sé auðvelt að að tína ber fullur, þá þótti góð berjaspretta eðlileg afsökun fyrir því að loka sjoppu.

Þetta sumariðið eru brekkurnar bláar af berjum en sárafáir í berjamó, og mér til efs að nokkurri sálu hafi dottið í hug að loka sjoppu vegna góðrar berjauppskeru. Við Matthildur mín skríðum nú um lautir og lyng við að plokka bláber og er þetta sennilega sjötta sumarið í röð sem ég get sagt að aldrei hafi þúfurnar verið eins bláar, ekki hægt að leggjast á hnéin án þess að skilja eftir berjasultu í slóðinni.

Nú kann einhverjum að koma í hug sú sígilda spurning “hvar finnið þið ber”? Svarið er einfalt, -með því að fara í berjamó. Að vísu þarf bæði að líta upp úr símanum og beygja sig því ber verða ekki tínd með appi frekar en á blindafylleríi, en það er á við heila útihátíð og ranghverfa smitrakningu að liggja eins og barn í blárri brekku við hjalandi læk og tína ber, -svo ekkert sé minnst á andlega íhugun.

Sennilega er berjatínsla orðin jafn ókunn fólki og raun ber vitni vitni, vegna þess að  henni hefur ekki verið gerð skil í sjónvarpi, né verið boðið upp á berja app í snjallsímann, það er ekki einu sinni hægt að fá snjallúr með berjateljara. En það væri örugglega jafn áhugavert, -skilst mér af facebook, -að sýna t.d. beinar útsendingar af fólki í berjamó og Íslandsmótinu í golfi.

Enn þann dag í dag hefur tæknin ekki náð þeim hæðum að hægt sé að tína ber rafrænt með fjarfundarbúnaði, hvað þá að frá berjamó hafi verið streymt í beinni líkt og var með brekkusönginn á Þjóðhátíðinni í Eyjum um s.l. verslunarmannahelgi.

Einn félagi minn í steypunni sagði um þá miklu menningarframför, að sennilega yrði "gamla góða" kojufylleríið hafið til vegs og virðingar ný.


Staulast í Stuðlagil

Þeir hringdu í morgun sögðu að Lilla væri orðin óð. Að hún biti fólk í hálsinn drykki úr þeim allt blóð. Jú stórir strákar fá raflost, -en hvað á að gera við þá sem hafa drullað upp á bak? Það væri sjálfsagt tilefni til að greina nýjustu uppákomur dularfullu drepsóttarinnar sem tröllríður landanum nú um há sumar annað árið í röð.

En ég bara nenni því ekki og væri gáfulegra að steypa í langloku um það þegar við Matthildur mín stauluðumst í Stuðlagil til að teljast meðal manna, eða þegar við fórum vestur þar sem fjöllin vaka há í skriðum skreyttum hlíðum við spegilslétta firði.

Matthildur latti reyndar staðfastlega til beggja faranna með rökföstum úrtölum, benti mér m.a. á að ég hefði oft komið að þessu fjandans gili. -Já kíkt ofan í það að vestan sagði ég það er bara ekkert að marka. Vestur sagði hún að gömul hró með tjald og fermingasvefnpoka, hefðu ekkert að gera á pestartímum. -Ég fer þá bara einn sagði ég þú getur þá bara verið heima.

Þegar ég hafði runnið á rassgatið með hvoru tveggja, fyrst í Stuðlagilsferðinni vegna þess að Matthildur missteig sig og steyptist á hausinn á fyrstu hundrað metrunum á stórgrýttum göngustígnum og ég staðið um stund á öndinni af mæði bauðst ég loks til að slaufa för, en þá kom það ekki lengur til mála.

Að morgni fyrirhugaðar vesturferðar voru bæði farnar að renna á mig tvær grímur og herfilegar innantökur, en þá brá svo við að Matthildur mín kepptist við að smyrja samlokur og spurði hvort það ætti ekki að drullast af stað.

Þegar við komum í Mývatnssveit sá ég hvað Matthildur hafði haft á réttu að standa með drepsóttina. Ferðamenn liðu um eins og vofur í flugnaneti með pestargrímuna fyrir smettinu og ekki gott að átta sig á hvort það var ferðataskan eða öndunarvélin sem þeir höfðu í eftirdragi.

En ekki er nokkur tími til að fara yfir allar þessar hrakfarir sem enduðu svo í heilum hring um Ísland á verslunarmannahelgi, annað en það að Matthildi varð á orði við lok ferðar; það er nú gott að þessari vestfirðir eru búnir nú eru bara Vestmanneyjar eftir. Þá fyrst krossbrá mér því að Matthildur fór á Atlavík 82, 83, 84 og 85, , , og það var ég sem þurfti að stöðva það brjálæði.

Nú bögglumst við bara um í berjamó í blíðunni og er þetta allt farið að minna á bernskudagana þegar mamma sleppti börnunum sínum á beit og ekkert fékk lítinn dreng inn úr sumrinu og sólinni annað en harðasprettur heim á klósettið.

Reyndar gat það komið fyrir að heimferðin úr móanum væri meira haltrandi hökt á við þúfnagang, en þá mælti mín móðir, eigi skal haltur ganga Magnús minn á meðan báðir fætur eru jafn langir. En móðir mín var ein af þeim sem lengi lifir í minningunni og guðirnir elska.


Vegurinn heim að síðasta bænum

Það rann ósjálfrátt í gegnum hugann að hér hefði vegurinn verið lagður svo fólkið gæti flutt burt, þegar ekið var á þjóðvegum landsins í síðustu viku. Sveitir fara með áður óþekktum hraða í auðn á meðan punturinn trénar blíðum í blænum, ekki lengur nokkur glóra í að hafa fyrir því að heyja. Íslenska sauðkindin, sem er orðin safngripur rétt eins og íslenska hænan og geitin, sést nú kúra í gegnum vegrykið undir einstaka rofabarði við Animal Farm Guesthouse i hita og þunga dagsins.

Þessi þróun hófst hægt og bítandi á síðustu öld. En eftir að það urðu mannréttindabrot að víxlararnir fengju ekki að græða á innfluttu kjöti til að grilla á kvöldin samkvæmt Evrópurétti, þá hefur óskapnaðurinn vafið margfalt hraðar, -og sárar, upp á sig en gaddavír á girðingastaur. Grundvellinum hefur verið kippt undan heilu sveitunum og þorpin sem þeim þjónuðu missa sitt og berjast nú fáliðuð í glasabökkum við að servera íslenska ferðamenn við að "njóta" og skoða "landið okkar".

Nú má keyra því sem næst í gegnum heilu landshlutana án þess að sjá sauðkind, og við þjóðveginn hokra nú síðustu hálmstrá Bjarts í Sumarhúsum og Gróu á Leiti undir ambögum á við "Street Food- Black Beach Resturant-Spa Lagoon-Guesthouse Bistro" bíðandi á bótum eftir seinni bylgjunni sitjandi uppi með landann flæðandi fram og til baka á öðru hundraðinu með útilegudraslið,  reiðhjól og grill í eftirdragi, röflandi yfir lambakjötsleysi í krummaskuðunum úti á landi í eylífri leit sinni að sólinni með góðri trú á að í heimahaganum þar sem ræturnar eitt sinn gréru sé allt óbreytt, þar sem nú má finna í mesta lagi part úr sumri landlorta búandi með brjótahaldara á gaddavír eða auðróna með veiðistöng. Já blessuð sértu sveitin mín.

Þegar vegurinn kom í fyrndinni fór læknirinn fyrstur, presturinn flutti næstur, síðar sást ekki til flugvélarinnar lengur þegar flóabáturinn var löngu hættur að fljóta og kaupfélögin gjaldþrota. Enda landsmenn ekki of góðir til að nota samgöngubætur á við veginn og samfélagsþjónustu á við virðisaukaskattinn ef þeir þurfa á annað borð einhverja þjónustu, hvað þá banka. Ef eitthvað fámenna sveitafélagið, sem enn veit hvað sjálfstæði og suðfé er og enn hefur auraráð, vogar sér að styrkja íbúa sína þá er meiri vá fyrir dyrum en sjálfur skítahaugurinn.

Samkvæmt samræmdu regluverkinu þarf að skipa nefnd, sem setja skal á stofn rýnihóp latínuliðs með gráðu, sem finnur sér þar til bæra sérfræðinga til ráðgjafar og skýrslugerðar um þarfagreiningu. Og ekki má gleyma að fara yfir lagalegu hliðina með tilheyrandi fjárútlátum, nóg er nú lögleysan samt. Nei það er ekki einu sinni sjálfgefið að fá gluggaumslag í pósti án þess að fyllsta lögmætis sé gætt hvað sjálfbæran kostnað varðar, því ekki vill nokkur heilvita maður brjóta mannréttindi vesalinganna sem þurfa að græða.

Nú er svo komið að hinir heilögu fjárfestar hafa komið auga á veginn sjálfan sem féþúfu, þann sem lagður var á kostnað fólksins svo það gæti farið burt, sem álitlegan fjárfestingakost við innviða uppbyggingu flissandi fábjána. Veggjöld eru því það sem koma skal, ekki vit í öðru en græða á þjóðveginum með sínum Street Food Black Beach Resturant þar sem Grayline Bus 4 You brunar með akfeita dilka af fjalli heim að síðasta bænum í dalnum til liðskipta og botox í einkareknum heilbrigðisiðnaði, -sem vel á minnst var ekki kallaður sá síðasti upp úr þurru, því það var hann ekki lengi. Guð blessi allt Ísland.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband