Góðir Íslendingar

IMG_1922

Það er flestum ljóst að það vorum ekki við sem fundum upp hjólið og auk þess seinir til að tileinka okkur kosti þess. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að við höfum þróað með okkur axarskaftið. Sú saga sem við höfum af mestri sjálfsumgleði hampað, er frá þeim tímum sem teljast til gullalda, þ.e. þjóðveldisöldin, og svo 20. öldin frá hingaðkomu hjólsins. Þarna á milli er margra alda saga sem hefur verið lítið höfð í frammi af okkur sjálfum. Enda tímar niðurlægingar og hörmunga sem mörgum finnst fara best á því að gleyma eins og hverjum öðru hundsbiti.

Það er engu líkara en þjóðarsálin skammist sín mest af öllu fyrir hversu snögglega hún hrökk inn í nútímann. Lífshættir áratuganna á undan eru huldir móðu nema ef vera kynni að vottaði örlítið fyrir þeim í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu fyrir börn, sem þykir ekki trúverðugt plagg, jafnvel argasta þjóðernispólitík. Þögnin hefur verið látin að mestu um að greina frá lífsháttum þessa volaða tíma eftir að drunur jarðýtnanna hljóðnuðu sem sáu um að varðveita byggingasöguna.

En nú á tímum umhverfisvitundar er samt að koma æ betur í ljós að fyrir fátt er að fyrirverða sig, fyrri tíma þjóðlíf og byggingahefð hafði að geyma eitthvert umhverfisvænsta og sjálfbærasta mannlíf sem fyrir fannst á byggðu bóli. Þrátt fyrir að við kjósum að sjá ekki annað en moldarkofa og rolluskjátur, sem eiga að hafa eytt skógum og jafnvel nagað gat á jarðskorpuna. En á móti komu átthagafjötrar vistarbandsins sem lágmarka kolefnissporið með mælihvörðum nútímans. 

Þó svo áar okkar hafi vissulega flest verið því fegin að komast út úr hálf hrundum moldarkofum og losna undan því að rölta á eftir rollum allt sitt líf þá er óþarfi að blygðast sín fyrir söguna um ókomna tíð. Nú er flest það fólk sem hörmungina upplifði fallið frá og verður ekki gerð nein minnkun þó svo að þessari sögu sé haldið á lofti. Og sem betur fer var til fólk sem áttaði sig á því hvað íslenskt þjóðlíf var einstakt á heimsvísu og hélt ýmsu til haga sem annars hefði orðið jarðýtutönninni að bráð.

Árunum 1890-1920 gerði hinn danski Daniel Bruun skil og varð svo hugfangin af landi og þjóð að hann ferðaðist vítt og breytt um landið. Með í föruneyti sínu hafði Bruun ljósmyndara og málara til að festa á mynd það sem fyrir augu bar. Jafnframt stundaði hann fornleifarannsóknir og skráði niður búskaparhætti, samgöngumáta, fæði, klæði og húsakost. Svo uppnuminn varð Bruun að hann lagði til að fyrirhugaður sýningarbás Danaveldis, á heimsýningu í París, sýndi íslenskan veruleika, ásamt færeyskum og grænlenskum.

Sandfell

Danskir landmælingamenn í túninu við Sandfell í Öræfum árið 1902.Í bók Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, segir frá því, þegar hringvegurinn var formlega opnaður með því að frammámenn  þjóðarinnar komu og klipptu á borða; "1974 þegar reynt var að geðjast forseta lýðveldisins með því að landbúnaðarráðuneytið kveikti í Sandfellsbænum og slétti út tóftunum með jarðýtu, þetta hátíðarár, var sérstakt húsfriðunarár í Evrópu, þá áttuðu menn sig ekki á því að forsetinn var fornleifafræðingur að mennt og fyrrum þjóðminjavörður Íslendinga".

Það voru fleiri útlendingar en Danir sem áttuðu sig á sérstöðu Íslands. Þjóðverjarnir Hanz Kuhn, Reinhard Prinz og Bruno Schweizer fóru um Ísland á fyrri hluta 20. aldar, í kjölfar Daniels Bruun og fylgdust með hvernig landið stökk inn í nútímann. Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf út árið 1987 tvær veglegar bækur, sem gera ferðum Daniels Bruun skil, undir heitinu Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Og árið 2003 þrjú bindi Úr torfbæjum inn í tækniöld, sem segir frá ferðum þjóðverjanna.

Formála bókanna Úr torfbæjum inn í tækniöld er fylgt úr hlaði m.a. með þessum orðum. „Íslendingar voru opnir fyrir nýjungum og fljótir að kasta fyrir róða gömlum tækjum og tólum. Hanz Kuhn veitti þessu athygli og skrifaði 1932; „Á Íslandi tekur bíllinn beint við af reiðhestum og áburðarklárum - hestvagnatímabilinu byrjaði að ljúka skömmu eftir að það hófst. Togarar taka beint við af opnum árabátum, steinsteypan af torfinu, gervisilki af vaðmáli og stálbitabrýr í stað hesta sem syntu yfir jökulvötn.“

Í þrem bókum Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, Baráttan um brauði og Fyrir sunnan er að finna einhverjar raunsönnustu heimildir um daglegt líf fólks á þessum miklu umbrotatímum. Þar lýsir Tryggvi lífi sínu í hálfhrundum torfbæjum við sjálfsþurftarbúskap með lítinn bústofn sem samanstóð af nokkrum, rolluskjátum, hesti, hundi, og belju. Þar eru lýsingar á því hvernig þarfasti þjónninn missti hlutverk sitt á einni nóttu, eftir að bíll komst einu sinni með flutning og fólk á palli í sveitina, og var hesturinn aldrei notaður eftir það til ferða í kaupstað. Í bókunum má finna lýsingar á braggalífi og því hvernig ríkisútvarpið, hernámið og hitaveitan breytti öllum heimilissiðum og heimsviðmiðum. Tryggvi endaði einstakt æviskeið sem skrifstofumaður, búandi í raðhúsi í Reykjavík.

Ég fékk nasasjón í mýflugumynd af þessum gamla tíma kyrrstöðu, umbrota og framfara úr baksýnisspegli ömmu minnar og afa. Þar varð ég var við tvennskonar viðhorf. Þegar ég spurði afa minn hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í gamladaga með torfbæ sem skjól út á grænni grundu á meðan yndi vorsins undu skoppandi í kringum lítinn smaladreng. Þá hristi hann höfuðið og sagði; „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn" og bætti svo við að þetta hefði verið hörmungar hokur. Aftur á móti tók ég oft eftir því að þegar amma var kominn í upphlutinn þá var hún farin yfir í hátíðlegri heim, og rokkurinn sem til hennar gekk frá móður hennar er eitt af mínum dýrmætustu stofustássum þó hann sé fyrir löngu þagnaður.

Undanfarin ár hafa augu mín og eyru opnast fyrir þessari mögnuðu sögu. Þegar sól skín í heiði og tækifæri er til þá höfum við Matthildur mín ekki látið hjá líða að heimsækja þá fáu torfbæi sem enn finnast í landinu. Það eru ennþá til kot, kirkjur og höfðingjasetur, sem má skoða. Þeir sem hafa heimsótt þessa síðu í gegnum tíðina ættu að hafa orðið varir við myndir og frásagnir frá þessum torfbæja túrum. Núna þegar sumarið er brostið á enn á ný, eru ferðir farnar út um þúfur. Mælir síðuhöfundur með þjóðlegum þúfnagangi um leið og hann óskar lesendum gleðilegs þjóðhátíðardags.

 

IMG_1913

Glaumbær í Skagafirði árið 1896 þegar Daniel Bruun var þar á ferð

 

GlaumbærII

Enn má finna forna bæi á ferð um landið. Síðasta fjölskyldan flutti úr Glaumbæ 1948. Bærinn er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. Er það talið hafa skipt sköpum varðandi varðveislu bæjarins að Íslandsvinurinn Mark Watson gaf til þess 200 sterlingspund árið 1938

 

IMG_3251

Í gamla hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ 2017

 

Glaumbær eldhús

Teikning Daniels Bruun af hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ, sem er að grunni til frá 1785


Húh, poppúlismi og víkingaklapp

Hvað er það sem gerir okkur að þjóð? Er það þegar landsliðið þjappar okkur saman á góðri stund og við klöppum og hrópum HÚH? Það örlaði á því að erlendir öfga þjóðernissinnar gerðu að því skóna á sínum tíma, að íslenska landsliðið væri gott dæmi um hvers samstaða hreins kynstofns væri megnug. En við vitum öll að húh-ið og víkingaklappið við Arnarhól átti ekkert skylt við það Seig Heil sem þjappaði saman Þýskalandi Nasismans.

Eru það þá kannski erfðir, eins og Kári segir með sinni greiningu, það sem gerir okkur að þjóð? Krabbi í genum sem má greina í tíma og jafnvel taka ákvörðun um að fjarlæga bara ef samþykki fæst til að upplýsa viðkomandi? Kannski á erfðagreiningin eftir að finna alsheimer genið og aðferð til að fjarlæga það með víkingaklappi fjölþjóðlega? Það er samt langsótt að genin ein, þó víkinga séu, myndi þjóð og mun líklegra að upplýsingatækni erfðagreiningar eigi sínar ættir að rekja til trixa Útgarða Loka, eða jafnvel í sjálfan money haven lyfjarisanna.

Er það þá tungumálið sem gerir okkur að þjóð? Þessi vanrækta örtunga sem á nú í vök að verjast? Oftar en einu sinni hef ég heyrt Pólverja, sem hafa búið árum saman hér á landi, halda því fram að það taki því ekki að læra tungumál sem 300 þúsund hræður tali. Nær væri að þessar hræður lærðu Pólsku sem töluð væri af hátt í 40 milljónum manna. Þessir Pólsku kunningjar mínir hafa þó engin áform uppi um að yfirgefa Ísland og ég svo sem ekki annað í huga en að skilja þá á mínum heimaslóðum. Þeir eru þá sérstakir Pólverjar, hafa þrammað úr einu union-inu í annað til þess eins geta talið sig vera sjálfstæða þjóð.

Er réttara að þjóðin hagi sér almennt eins og gamli Akureyringurinn þegar hann bauð mér Good morning við ruslatunnurnar til þess að vera alveg öruggur með að gera sig ekki að viðundri? Jafnvel þó ég væri hrolleygður bláskjár í gatslitinni lopapeysu í morgunn kulinu og svaraði með góðan daginn á því ástkæra og ylhýra. Ég varð svo uppnumin af morgunn andagt gamla mannsins að ég sagði vinnufélögum mínum að ég væri nokkuð viss um að landar okkar á Akureyri væru nú þegar farnir að búa sig undir að hætta að tala íslensku ég hefði ekki betur heyrt en þeir væru farnir að tala fjölmenningartungum.

Það er þessi tunga, sem enn í dag á það til að sameina okkur í húh-i, sem varðveitir okkar þjóðarsögu með víkingaklappi. Jafnvel þó nútíma fræðimenn telji þjóðar söguna grobb byggt á hæpnum munnmælum. Þjóðin hafi hreinlega verið óskrifandi fyrstu fjögur- fimmhundruð árin sem hún byggðu þetta land. Víkingaklapp sé lygagrobb, kannski fyrir utan Egil Sklallgísmsson, þetta hafi verið hæglætis sauðfjár bænda bjálfar sem hafi skemmt sér við að þylja sáldskap í kuldanum á dimmum vetrarkvöldum.

Samt var frétt af því ekki alls fyrir löngu að Sænskir sérfræðingar teldu sig hafa fundið íslenska skáldið Jökul Bárðarson sem Ólafur helgi Noregskonungur lét drepa á Gotlandi árið 1029. Það kom þeim á sporið að áverkar voru á höfðakúpu íslenska haugbúans á Gotland, sem  samsvöruðu nákvæmlega víkingaklappi, sem passaði þar að auki við nútama greiningar, og húh-að hafði verið um á sínum tíma. En Grettis sagan á að hafa verið húh-uð í 3-400 ár áður en hún komst á prent. Jökull á að hafa verið frændi Grettis sterka Ásmundssonar og var skáldmæltur. Honum hafa verið eignuð fleygustu orð Grettis sögu, jafnvel íslenskrar tungu í gegnum tíðina, s.s.sitt er hvað gæfa eða gjörvuleikur, lítið verk og löðurmannlegt, lengi skal manninn reyna, ofl., ofl..

Sturlunga er sögð samtímasaga, þ.e.a.s. skrifuð á þeim tíma sem hún gerist. Fræðimenn hafa ætlað Snorra Sturlusyni höfundarréttinn af fornsögunum. Það er samt ekki minnst einu orði á það í Sturlungu að Snorri hafi hripað niður glósur á meðan landsmenn húh-uðu í myrkrinu. Hann var höfðingi á sinni tíð samkvæmt sögunni, og umtalaðasta bókmenntaverk hans í þann tíma var Háttartal sem var talinn leirburður ætlaður til að smjaðra fyrir slektinu, og sköpuðu Snorra óvinsældir sem jöðruðu landráðum, þar til Gissur jarl Þorvaldson tók af honum ómakið fyrir fullt og allt.

Það breytir samt ekki því að Snorri taldi sig einnig eðalborin, af ætt Ynglinga og gat rakið þann þráð til Goðsins Freys, sem var af Vanaætt frá Svartahafi. Snorra er m.a. ætluð Ynglingasaga, þó svo að hann hafi verið athafnamaður í ætt við þann Kára sem færði okkur fyrir skemmstu Íslendingabók, ættfræði grunn þjóðar sem nær til landnáms og er notaður í genarannsóknir. Goðið Freyr var tvíburi Freyju sem Njörður í Nóatúnum átti með systur sinni þannig að þjóðaruppruni Íslendinga væri samkvæmt genunum hrein blóðskömm ef ekki kæmu til Skjöldungar afkomendur Óðins í Ásgarði við hið sama Svartahaf.

Enski fornleifafræðingurinn Neil Price, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á víkingum norðurlanda notaði ekki bara Íslendingasögurnar heldur einnig íslensku þjóðsögurnar til að átta sig á hugarheimi víkinga. Þessu greindi hann frá í fyrirlestrum sínum „The Viking Mind“. Hann segir að íslensku þjóðsögurnar hafi haldið áfram að geyma þennan heim hugans með sögum af draugum, álfum og alls kyns vættum. Það getur nefnilega verð margt sem tungumálið geymir og við innbyrðum umhugsunarlaust með móðurmjólkinni, sem gerir okkur að sérstakri þjóð.

Samkvæmt Íslendinga bók erfðagreiningar á ég ættir að rekja til þriggja barna skáldsins á Borg, þeirra Þorgerðar, Beru og Þorsteins. Börn Egils og Ásgerðar voru fimm, tveir synir þeirra Gunnar og Böðvar áttu ekki afkomendur. Um þá orti víkingurinn Egill Skallagrímsson kvæðið Sonatorrek með aðstoð Þorgerðar dóttir sinnar. Ljóðið hefur að geyma frægustu ljóðlínur víkinga aldar, sem enn varðveitast á íslenskri tungu og eru oft viðhafðar við jarðarfarir. Ef við ætlum að gerst svo miklir poppúlistar í eigin landi að bjóða dzien dobry eða good morning, má ég þá heldur biðja um einfalt húh með víkingaklappi. Því þá yrði komið fyrir íslenskri þjóð líkt og var komið fyrir Agli, henni yrði mjög tregt um tungu að hræra.


Plebbar

Það má sjálfsagt segja sama um Everest nú til dags og stundum var sagt um varnir víggirtra borga áður fyrr; "Það er enginn borgarmúr svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann". Það þótti mikið afrek þegar Hillary lét fyrstur hafa það eftir sér opinberlega í heimsfjölmiðlunum að hann hefði klifið Everest, það hafði engum dottið í hug áður. Undanfarna daga hafa verið myndir af biðröðinni upp á fjallið í öllum fjölmiðlum heimsins. Fyrir nokkrum dögum birtist frétt af ofboðslega ríkum Íslendingum sem komust fram fyrir biðröðina.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Fram undir síðustu aldarmót þótti það ekki gott til afspurnar að miklast af óverðskulduðum afrekum í krafti auðs. Menn hreinlega forðuðust þannig afspurn eins og heitan eldinn. Það voru annarskonar verðleikar sem voru hafðir í frammi þegar koma að því að hampa fólki, en hálfgildings hetjudáðir fjármagnaðar af ofgnótt peninga. Nú eru daglegar fréttir af afrekum þeirra ríku, hvort sem um er að ræða Everest eða mörg þyrluflug á dag í veislur á milli vina.

Upp úr 1980 sungu Stuðmenn, "Hann er einn af þessum stóru, sem í menntaskólann fóru og sneru þaðan valinkunnir andans menn. Ég sá hann endur fyrir lögnu, í miðri Keflavíkurgöngu, hann þótti helst til róttækur og þykir enn. Já hann er, enginn venjulegur maður, og hann býr, í næsta nágrenni við mig, og hann er alveg ofboðslega frægur, hann tók í höndina á mér, heilsaði mér og sagði: KOMDU SÆLL OG BLESSAÐUR ég fór gjörsamlega í kút. Hann sagði: KOMDU SÆLL OG BLESSAÐUR ég hélt ég myndi fríka út."

Hljómsveitin Stuðmenn voru ekta Íslensk hljómsveit af gamla skólanum og nutu gífurlegra vinsælda sem slíkir. Þeir sungu á íslensku fyrir Íslendinga. En Stuðmenn náðu ekki að halda cool-inu og duttu niður á plebba planið korteri fyrir "hið svo kallaða hrun". Þá héldu þeir bæði tónleika í Kaupmannhafnar Tívolíinu og Royal Albert Hall í London.  Landinn flykktist í flugi fram og til baka í kringum sama miðnættið, svo hægt væri að sjá og heyra hina "heimsfrægu" Stuðmenn kynna íslensku slagarana sína á ensku.

Svona gera náttúrulega bara alvöru plebbar.


mbl.is Allir vilja upp við bestu aðstæðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vök á vatni

IMG_0379

Núna í vikunni spurði ég verkfræðinginn þegar við stóðum yfir drulluskurðinum; "mikið ert þú hugsandi vinur, ertu nú að hugsa um mold?". Hann svaraði játandi, og bætti við að bragði "og væntanlega ert þú að hugsa um steypu". Ég jánkaði því enda hefur ekki annað komist að í höfðinu á mér frá því fyrst ég man.

Á þessum árstíma hefur steypuhrærivélina venjulega verið komin í gang og ævintýrum sumarsins verið blandað út í hræruna. En nú bregður svo við að yfir mig hefur verið mokað, eða í sannleika sagt mér komið fyrir í rofabarði. Ég hef því hugsað til þess hvernig aldur færist yfir og þrek fer þverrandi.

Eitt af því sem steypan hefur gefið í gegnum tíðina er útivera, og að sumarlagi oft undir sólbjörtum himni. Næstu vikurnar má ég gera mér það að góðu horfa út undan rofabarðinu á merlandi vatnsflötin þar sem nú heitir Vök í Urriðavatni, eða eins og ber að segja samkvæmt tíðarandans toga - Vök-Baths.

Þarna er mér ætlað að rölta á eftir gólfslípivél sem skrapar niður grjót harða steypu frá í vetur, og á að ná fram einhverskonar lúkki sem engin veit hvernig á að vera. Hávaðinn er ærandi og ég langt í frá að vera vinsælasti maðurinn í holunni. Rafvirkinn kemur annað slagið og lítur leiftrandi augnaráði niður á gólfið og öskrar svo upp í fésið á mér "já ég sé að þú ert á góðri leið með að finna gullið".

Vök-Baths er ætlað að trekkja til sín túrista, þessi miljarða framkvæmd mun víst skila múltí miljörðum þegar fram líða stundir. Ég ræddi það við píparann núna í fyrradag að mig rámaði í að þetta væri gamall draumur frá því fyrir 1970. Áður en sólstrandarferðir urðu inn hjá landanum. Þá dreymdi fólk á Héraði um að við Urriðavatn mætti koma upp ylströnd þar sem vakir væru í ísnum og heitt vatn undir.

Hvort túristarnir ala með sér sama draum og gamlir Héraðsbúar, og eigi eftir að kaupa sér bað í Vök til viðbótar við Jarðböðin, Leirböðin, Saltböðin og Bláa Lónið, og guð má vita hvað á eftir að koma í ljós. En í fyrsta skipti er mig farið að dreyma um að komast í sumarfrí, út í íslenska sumarið. Ég satt að segja man ekki til að það hafi gerst áður þegar steypa er annars vegar.

Set hér inn myndband af gamalli steypu, þegar sumarið var tíminn og hjörtun ung.


Hið dularfulla guðshús goðans

IMG_2350

Það þarf ekki að fara um langan veg til að ferðast langa leið. Í vikunni var skotist hálftíma út fyrir bæinn, að ég hélt til að skoða moldarkofa. Eftir þennan skottúr flugu upp gömul heilabrot sem ekki náðist að raðað saman á sínum tíma. Ástæða þessarar skreppu túrs var upphaflega að skoða nýlega byggða torfkirkju en ekki endilega eitthvað sem næði út yfir rúm og tíma.

Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Sumarið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur. Sú rannsókn leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústirnar voru af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum. Túngarður úr torfi umlukti byggingarnar.

Kirkjan á Geirsstöðum hefur verið af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni á Íslandi. Líklega hefur kirkjan einungis verið ætluð heimilisfólki á bænum. Tilgáta er um að Geirastaðir gætu hafa verið bær Hróars Tungugoða, sonar Una Danska, landnámsmanns. Hróar var var sagður hafa búið að Hofi, sem var sagt vestan Lagarfljóts, austan Jökulsár og norðan Rangár, sem sagt þar sem heitir Hróarstunga.

Geirsstaðakirkja var endurbyggð 1999 – 2001, undir leiðsögn Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, Guðjóns Kristinssonar torfhleðslumanns og Minjasafns Austurlands. Það var gert með fjármagni sem kom úr sjóðum Evrópusambandsins, Vísindasjóði rannsóknaráðs Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Norður-Héraði. Kirkjan er í umsjón fólksins á Litla-Bakka og sér það um varðveislu hennar og viðhald. Kirkjan er opin almenningi gegn vægu gjaldi og framlögum í söfnunarbauk, en Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki með þessar sögulegu minjar að gera.

Hróar Tungugoði er með dularfyllri goðum Íslands því hann virðist hafa verið uppi á tveim stöðum í einu, austur á Fljótsdalshéraði og suður við Kirkjubæjarklaustur. Hann er sagður sonur Una danska Garðarssonar og Þórunnar Leiðólfsdóttir. Til er tvær Hróarstungur sem við hann eru kenndar, önnur er austur á Fljótsdalshéraði á milli Lagarfljóts og Jöklu þar sem kirkjan á Geirsstöðum stendur. Hin Hróarstungan er á milli Hörgslands og Foss á Síðu, austur af Kirkjubæjarklaustri, á milli tveggja smálækja. Þar á Hróar Tungugoði að hafa verið drepinn, á slóðum þar sem gæsaskyttur fundu víkingasverð fyrir nokkrum árum. Hróars er m.a. getið í Njálu og Austfirðingasögum, á hann samkvæmt Njálu að hafa verið mágur Gunnars á Hlíðarenda.

Landnáma segir af Una danska sonar Garðars Svavarssonar, þess er fyrstur fann Ísland. Sagt er að Uni hafi farið til Íslands að ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaftafellssýslu í grennd við Kirkjubæjarklaustur.

Saga Una danska er því ekki síður dularfull en saga Hróars sonar hans. Uni á að hafa numið land á Fljótsdalshéraði, eða allt frá Unaósi við Héraðsflóa til Unalækjar, sem er á Völlum skammt fyrir innan Egilsstaði. Reyndar er til annar Unalækur sem er mun nær Unaósi og vilja sumir meina að misskilnings gæti um landnám Una og því eigi að miða við þann læk en ekki þann sem er innan við Egilsstaði. Þá væri landnám Una nokkurn veginn þar sem kallað er Hjaltastaðaþinghá og skaraði ekki langt inn í landnám Brynjólfs gamla.

Eins og fram kemur í Landnámu þá virðist landnám Una hafa verið numið áður en hann kom; "er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast". Enda hefur Hjaltastaðaþingháin alltaf verið dularfull með sína Beinageit, Kóreksstaði og Jórvík. Sumir hafa fært fyrir því rök að hún hafi verið Keltneskari en flest landnám norrænna manna á Íslandi. Uni hraktist því suður á land, nánar tiltekið í Skógarhverfi sem talið er hafa verið á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þar komst Uni í kynni við Þórunni dóttur Leiðólfs og varð hún ólétt. Uni vildi ekkert með Þórunni hafa og forðaði sér, en Leiðólfur elti hann uppi og dró hann ásamt mönnum hans heim til Þórunnar. Uni lét sér ekki segjast og flúði aftur þá fór Leiðólfur aftur á eftir honum og köppum hans og slátraði þeim öllum þar sem heita Kálfagrafir. Þannig endaði landnámsmaðurinn Uni danski ferð sína til Íslands sem sögð var hafa verið farin að undirlagi Haraldar konungs hárfagra svo hann kæmist yfir Ísland.

Hvort Hróar sonur Una hefur átt eitthvað tilkall til landnáms föður síns austur á Héraði er ekki gott að finna út úr eftir allar þessar aldir, en samkvæmt sögum og örnefnum þá virðist hann hafa sest að í Hróarstungu á bæ sem hét Hof, en ekki er vitað hvar það Hof var og er nú giskað á að Geirsstaðakirkja sé Hof. Hróarstunga er að vísu fyrir norðan Lagarfljót en landnám Una danska fyrir sunnan, en vel má vera að Lagarfljót hafi á Landnámsöld ekki átt sinn farveg þar sem hann er í dag. Allavega var það landsvæðið sem tekur bæði yfir Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá, sem var í landnámi Una, áður kallað ein Útmannasveit.

Ég set hér inn myndir frá guðshúsi goðans.

IMG_2341

 

IMG_2349

 

IMG_2361

 

IMG_0345

 

IMG_2369

Víkingaskip sem hinn skoski steinhleðslumaður Donald Gunn gerði við fyrir framan hringlaga túngarðinn í kringum Geirsstaðakirkju


Orrustan um orkupakkann

Það væri ábyggilega þarft fyrir þjóðkjörinn þingheim að fá einhvern góðan upplesara á fund til sín og lesa upp tæplega hálfrar aldar gamla ritsmíð Nóbelsskáldsins um „Hernaðinn gegn landinu“. Það er engu líkara en þær kynslóðir sem fæddar eru um og eftir að Halldór Laxness ritaði greinina skilji ekki í hverju almanna hagsmunir Íslendinga felast.

Greinina skrifaði skáldið í aðdraganda þess að sökkva átti Laxárdal til að virkja Laxá úr Mývatni. Hann taldi þá fyrst land og lýð vera í háska þegar kontór á borð við Orkustofnun ríkisins ætlaði með skírskotunar til reiknistokksins að afmá eins marga helga staði á Íslandi og hægt væri að komast yfir á sem skemmstum tíma, dekkja frægum byggðarlögum, og helst fara í stríð við allt sem lífsanda drægi á Íslandi.

Fyrirætlunin með Laxárvirkjun var að afla orku handa nærliggjandi héruðum m.a. fyrir stóriðju á Akureyri. Skáldið óskaði eftir því að einhverjir gæfu sig fram og fræddu hann um það hvar stóriðjuverkalýður í heiminum byggi við betri lífskilyrði en Akureyringar stóriðjulausir. Því að til þess að Akureyringar fengju stóriðju stæði til að fórna einu af náttúruundrum veraldar.

Í grein Halldórs segir m.a.; „Áætlun þessara manna hefur verið studd siðferðilega með þremur höfuð rökum: 1) virkjun vatnakerfis Mývatnssvæðisins á að bæta skilyrði almennings, 2) með virkjuninni á að fullnægja orkuþörf héraða er nærri liggja þessum vatnasvæðum, og 3) það á að koma á stóriðju á Akureyri. Þessir þrír punktar skýra sig nokkurn veginn sjálfir. Hinn fyrsti, að „bæta skilyrði almennings“, er sú varajátning sem nú á dögum er höfð uppi í tíma og ótíma í öllum tilfellum þar sem áður fyrr var vant að segja „í Jesú nafni amen.“

Á vatnasvæði Mývatns hafði í gegnum tíðina verið eitthvert fegursta jafnvægi sem þekktist á byggðu bóli í sambúð manna við lifandi náttúru, eða allt til tíma Kísilgúrvinnslunnar. Það þarf ekki að orðlengja það sérstaklega, en stíflumannvirkið í Laxá var sprengt í loft upp árið 1973, tæpum 3 árum eftir að skáldið skrifaði greinina „Hernaðurinn gegn landinu“. Yfir 100 Mývetningar og fleiri Þingeyingar lýstu verkinu á hendur sér. Þetta var nauðvörn fólks sem taldi lífsgrundvelli sínum fórnað.

Það eru þessir almanna hagsmunir sem standa 3. Orkupakkanum nú fyrir þrifum. Þær kynslóðir, sem muna náttúruspjöllin sem rökstudd voru með almannahagsmunum, eru ekki tilbúnar til að ganga af trúnni og viðurkenna að trú þeirra hafi byggst á falsi. Eins eru komnar fram nýjar kynslóðir sem virðast ætla að láta; loftslagsvá, alþjóðlega samvinnu og frjáls viðskipti nægja, „í Jesú nafni amen“ þegar kemur að því að gefa eftir yfirráð yfir náttúruauðlindum.

Á sínum tíma þegar mótmælin stóðu hæðst á Austurvelli gegn Kárahnjúkavirkjun spurði 13 ára dóttir mín mig; „pabbi hvað er eiginlega með þessa Kárahnjúka“. Fjölskyldan var þá nýflutt af Austurlandi í höfuðborgina og kom mér spurningin á óvart. En komst svo að því að dóttir mín hafði myndað sér fáar skoðanir um  önnur fjöll en Búlandstindinn sem hún ólst upp undir. Mér varð satt að segja fátt um svör en tautaði um hag fólksins okkar fyrir austan, því ég hafði ekki heldur komið í Kárahnjúka.

Þarna um árið sagði ég samt dóttir minni að sumir héldu því fram að Lagarfljótið yrði á eftir ekki "Vatnajökuls blátt", heldur kólgu grátt líkt og Jökla. "Þá er ég á móti Kárahnjúkum" sagði dóttir mín, enda kannaðist hún við lit þess og bakka. En ég sagði þá að það væri nú alls ekki víst ef eitthvað væri að marka skýrslur sérfræðinganna.

Fljótið er nú í dag kólgu grátt, í Jesú nafni amen.


Að öllum rangfærslum slepptum

Hvernig væri að þjóðkjörnir fulltrúar skýrðu út fyrir almenningi hvaða beinan hag land og þjóð hefur af því að gangist undir 3. orkupakkann, í stað endalausra ásakana á þá sem hafa eitthvað við málið að athuga.

Hingað til hafa flestir þeir þingmenn og ráðherrar, sem tjáð hafa sig um málið, fyrst og fremst lýst því hvernig hægt sé að réttlæta sniðgöngu við stjórnarskránna með fyrirvara um samþykki alþingis vegna sæstrengs ef og þegar þar að kemur.

Engin hefur haft fyrir því að benda á hverjir "hagsmunir heildarinnar" eru, eins og gáfnaljósið upplýsir svo pent að ráðherrar og margir þingmenn einnig hafi að leiðarljósi. Allur málatilbúnaður ríkisvaldsins og þjóðkjörinna fulltrúa hefur hingað til snúist um lagaþvætting og útúrsnúninga.

Hverjir eru hagsmunir almennings?


mbl.is Mikið fjárhagslegt bakland andstæðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið?

Galtarstaðir-fram

Það eru til margar sögur af Bakkabræðrum, en sennilega er sú lífseigasta um sólskinið.  Halldór Laxness taldi að birtuskilyrðin í húsum þeirra hefðu lítið lagast þó svo það opinbera hefði sett reglugerð um glugga á þeirra tíð. Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra sagði að þó svo Bakkabræður hefðu stundað mögnuð heimskupör hefði þeim samt aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka. Nóbelskáldið og menntamálráðherrann voru nokkuð samstíga með það að sálin væri heillavænlegri en reglugerðin þegar kæmi að húsum.

"Það er þessi fegurð sálarinnar sem á Íslandi hefur átt heima í torfbyggingarlistinni fornu, einhverri sérstæðustu og merkilegustu náttúrubyggingarlist heimsins." sagði skáldið árið 1939 í ritinu Húsakostur og híbýlaprýði. Síðan þegar torfbærinn leið undir lok eftir 1000 ára þjónustu við þjóðina taldi skáldið að Íslendingar hefðu ekki fundið sálina í neinni stílmenningu þegar byggingalist væri annarsvegar, heldur hafi hún einkennst af handahófskenndum eftiröpunum, flumbrulegum stælingum og skynlausum afbökunum.

Þessar áratuga gömlu hugrenningar þeirra 20. aldar mannanna má sjálfsagt allar til sannsvegar færa. Einnig er hægt að færa rök fyrir því að við nálgumst nú óðfluga ókosti torfbæanna á ný, rakan og mygluna, við byggingu sálarlausra eftirapana byggðum í flumbrugangi með afbökuðum stæl. Þar sem myglan er borin inn samkvæmt ströngustu reglugerðum ásamt innfluttum byggingarefnum. Hvernig sem á því stendur þá virðast handabökin mislagðari eftir því sem reglurnar verða strangari og langt aðkominn efniviðurinn CE vottaðri.

Undanfarin ár hefur verið árviss skoðunarferð að vori út í byggingalist náttúrunnar. En þá hef ég farið að Galtastöðum-fram í Hróarstungu. Aksturinn þangað tekur mig ekki nema um 20 mínútur og er alltaf þess virði. Fyrst þegar ég fór í Galtarstaði fyrir nokkrum árum þá tók ég eftir því að það virtust standa yfir endurbætur á bænum og fór ég því þangað fljótlega aftur til að vita hvernig þeim miðaði. Nú hafa þessar skoðunarferðir staðið á fjórða ár og allt er við það sama, nema tímans tönn.

Galtastaða bærinn er sagður í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1976 og hafi þá þótt merkilegur m.a. vegna þess að þar er fjósbaðstofa. Aðeins ein önnur var til á öllu landinu, og áhugavert væri fyrir nútíma fólk að geta skoðað þannig mannabústað. Hinn merki hleðslumeistari Sveinn Einarsson (1909-1994) frá Hrjót endurbyggði suma torfveggina að Galtarstöðum skömmu eftir að bærinn komst í vörslu Þjóðminjasafnsins en síðan eru liðin mörg ár,,, - áratugir.

Þess vegna var svo ánægjulegt að sjá það fyrir nokkrum árum að framkvæmdir voru við Galtarstaði, kannski kæmi að því aftur að hægt væri að fá að skoða bæinn að utan og innan. Reyndar ber bærinn byggingasögu landsins vitni á margan hátt því við hann var byggt íbúðarhús úr asbesti árið 1960, með tíðarandans flata skúrþaki. Fyrir fjórum árum frétti ég að framkvæmdirnar hefðu verið á vegum Þjóðminjasafnsins og staðið þá í sambandi við asbest húsið með flata þakinu, sem stæði til að gera upp og koma upp í leiðinni loftræstikerfi fyrir gamla bæinn. 

Nú í vetur frétti ég það á förnum vegi að talsverðir fjármunir hefðu komið í Galtastaðabæinn á síðasta ári. Hefðu féð verið notaðir í vegagerð og það að koma fyrir pípuhliði. Hvernig mönnum hefur dottið í hug pípuhlið er ekki gott að átta sig á en sennilegra er að einhver hafi drepið niður fæti í rolluskít, frekar en að eitthvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna.

Pípuhliðið stendur eitt og sér langt úti í mýri og því spurning hvað miklar fjárveitingar þarf í girðingar áður en hægt verður að fara í að sinna merkilegustu náttúrubyggingalist heimsins.

 

Hin árlega vorferð í Galtarstaði var farin í gær og eru myndir úr henni hér fyrir neðan.

 

IMG_2276

Upp við þilið á bæjardyrunum hafa staðið aflóga gluggar úr asbestviðbyggingunni s.l. fjögur ár

 

IMG_2271

Fjósbaðstofan: beljurnar voru hafðar niðri og fólkið var upp í ylnum frá beljunum

 

IMG_2280

Að baka til má sjá að einn bær er heil þyrping af húsum, sem líta út eins og grænir hólar að sumarlagi, þarna er m.a. hlóðaeldhús í einum hól, búr í öðrum, heylaða, skemma osfv., alls 7 hús


Eigi skal haltur ganga með fíflum

Það birtist hérna á síðunni fyrir tæpu ári síðan pistill um fífla og fardagakál. Í honum var gerð grein fyrir tilraun á eftirlætis frasa hagfræðinganna, "There ain´t no such thing as a free lunch", eða "Það er ekkert til sem heitir ókeypis hádegisverður". Nú er langþráð vorið komið með sitt sólskin, fífla og fardaga, því tímabært að halda tilraunastarfseminni áfram þar sem frá var horfið s.l. sumar.

Það má nefnilega segja að tilurð þessarar tilraunar hafi ekki verið einhlít. Fyrir það fyrsta þá hafði ég hugsað mér að kanna hvort sögur af því sem kallast illgresi í dag, hefði einhvertíma talist ætar matjurtir, s.s. njóli, hvönn og fíflar, og kom þá upp í hugann frasi hagfræðinganna. Hin ástæðan var hvort lækningarmáttur íslenskra jurta ætti sér stoð í veruleikanum, og koma þar til afleiðingar hjartabilunar sem ég hef mátt búa við undanfarin ár.

Fyrir fjórum árum bilaði hjartað á þann hátt að dæligeta þess út í líkamann skertist í 50% og við það verð ég búa. Hjartabilun fylgir vökvasöfnun vegna lélegrar blóðrásar, m.a.í formi bjúgs sem safnast sárlega um og ofan við ökkla. Við tilraunirnar í fyrra varð ég fljótlega var við að mataræði þeirra hafði vökvalosandi áhrif. Ástandið batnaði verulega meðan á tilrauninni stóð og entist sú heilsubót út sumarið. Það má því segja að ég hafi núna beðið vorsins með óvenju mikilli óþreyju og hafi ekki getað setið á mér að slíta upp fyrstu fíflana.

Ég varð var við það í fyrravor að fíflablöðin höfðu óvenju magnaða losandi virkni, þegar vökvasöfnun er annars vegar, nánast eins og sterasprauta inn á hjartadeild, nema að þau eru laus við aukaverkanir. Ég hitti vin minn vísindamanninn á förnum vegi í fyrra og fór að segja honum frá þessum stórmerkilegu uppgötvunum mínum. Hann var fljótur til svars og sagði;"já, veistu að þetta hef ég gert í mörg ár, en það er með þetta eins og svo margt annað að fólk trúir því ekki að þetta sé góður matur, því hann er ókeypis. Sama á við um lækningamátt fífla, fólk getur engan veginn trúað honum. Það var sjúklingur sem ætlaði að prófa, þegar ég benti honum á þetta, en vildi samt ekki gera það nema í samráði við lækninn sinn. Þá svaraði læknirinn honum "ætlar þú að vera áfram hjá mér eða fíflunum" og auðvitað valdi sjúklingurinn lækninn af því að þar fær hann að borga."

Í mínu tifelli er þó ekkert sérstakt val, því þó svo að ég borgi lækninum þá held ég mig hjá fíflunum án þess að spyrja kóng né prest. Nú hef ég þegar byrjað heilsubótar starfið eftir veturinn því fíflarnir eru farnir að spretta hver um annan þveran. Á vísindavef HÍ má m.a. lesa þetta um fífla; "Helstu innihaldsefni túnfífils eru fenólar, seskvíterpenar, tríterpenar, plöntusterólar, flavonóíðar, einnig inúlín og aðrar sykrur, fituefni og ýmis vítamín og steinefni. Talið var að blöðin, sem eru mjög næringarrík, hefðu þvagdrífandi virkni og innihéldu mikið af kalíum. Þau voru því mikið notuð við bjúg einkum ef hann orsakaðist af máttlitlu hjarta.“

„Eigi skal haltur ganga á meðan báðir fætur eru jafn langir“, svo mælti mín móðir við mig korn ungan drenginn. Þó móðir mín hafi verið ein af þeim sem guðirnir elska og þar af leiðandi á brott kölluð í blóma lífsins, þegar ég var rétt svo kominn af unglingsaldri, þá hefur þessi tilskipun bókstaflega búið innst í mínu hugskoti alla tíð síðan. Það má  jafnvel kalla orðleppa móður minnar femínískan heilaþvott síns tíma, og var því ekki inn í myndinni að haltra á eftir hjartabilun.

Þegar ég var í endurhæfingu þá gat ég ekki fylgt hópnum í gönguferðum, ekki vegna helti heldur máttleysis og mæði. Það var yfirleitt hjúkra sem rölti mér til samlætis og við spjölluðum. Þar kom til tals að mér byðist áfram að starfa hjá mínum vinnuveitenda eins og ég hefði geð til, „þú hefur aldeilis náð að gera þig ómissandi“ svaraði hún að bragði. Þá rann upp fyrir mér hversu mikil náð það er þegar einhver vill hafa vesaling í vinnu.

Það eru Pólverjar sem ég er hafður innanum hálfan daginn. Eitt sinn kom til tals að segja upp öllum helvítis Pólverjum. Þá sagði ég vinnuveitendum mínum að það jafngilti uppsögn á mér, því það myndi engin þola orðaleppana mína sem skildi íslensku, menn myndu einfaldlega segja kall fíflinu að grjót halda kjafti og ganga burt í miðri steypu. Já, ég á mörgum mikið að þakka að þurfa ekki að haltra einn um í reiðuleysi samkvæmt klukkunni, til að koma í veg fyrir það hefur maður gengið undir manns hönd.

Það var svo ekki alls fyrir löngu að ég fór að grafast fyrir um hvaðan speki móður minnar væri ættuð. Þá gúgglaði ég að frasinn er hafður eftir Gunnlaugi ormstungu Illugasyni, þegar hann gekk fyrir Eirík jarl Hákonarson. Eiríkur jarl spurði Gunnlaug „Hvað er á fæti þínum Íslendingur?“„Sullur er á herra,“ svaraði ormstunga. „Og gekkst þú þó ekki haltur?“ ormstunga sagði þá: „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir".  Þetta þúsund ára samtal er sennilegasta ástæða þess að ég fer nú út um þúfur plokkandi upp fífla.

Nú kunna einhverjir að hafa áhuga á að losna við fótasull en finnst kannski hálf hjákátlegt að fara út um þúfur til þess. Ef einhver er hræddur við að til sín sjáist eins og álfs út á túni við að plokka upp fífla, þá má alltaf taka selfí með flokkuðu heimilissorpi þegar heim er komið og deila á feisinu, er þá hæpið að vinirnir telji mann ruglaðri en forseta fí,,,,,- nú munaði minnstu að ég ruglaðist - ,,,,forseta lýðveldisins.

Þessi pistill átti reyndar í upphafi hvorki að snúast upp í sjálfsvorkunn né fíflagang, heldur vekja athygli á heilræði ormstungu og heilnæmi fífla.


Hvar eru góðu molarnir?

Þegar fræðimenn fabúlera í frösum þá er lágmark að þeir geti skýrt út um hvað þeir eru að tala. Dósentinn talar um; "Að menn kyngi því súra með því sæta - ekki ESB að skapi að bara bestu mol­arn­ir séu vald­ir"

Eitt skildu allir hafa á hreinu. Þó svo að EES samningurinn hafi verið umborinn af þjóðinni, þá hefur hann aldrei verið samþykktur af henni sem góður moli, til þess skorti elítunni kjark á sínum tíma.

Nú virðist  "elíta" landsins ætla að halda áfram að flækja þegna þess í regluverki ESB í gegnum EES samninginn, jafnvel svo að það jafngildi því að þjóðin sitji einungis uppi með vondu molana.

Það hefur stundum verið talað um okursamfélagið Ísland, sem kristallast í hæðstu íbúðarlánum á byggðu bólu, sköttum í hæðstu hæðum, hæsta matvælaverð, dýrustu stjórnmálmönnum, offramboði af fræðimönnum osfv, osfv.

En eitt hefur skorið sig úr í hina áttina lengst af, en það er lægsta orkuverð til almennings miðað við nágrannalönd, vegna þess að almennt hefur verið viðurkennt að orkan sé sameign þjóðarinnar.

Eini frasinn sem lagadeildardósentinn gerir sig skiljanlegan með er; "Það geta ekki verið tveir skip­stjór­ar á sama skipi." Hann ætti kannski frekar að hjálpa þjóðkjörnum fulltrúum að benda á það með rökum hvaða hag almenningur hefur af 3. orkupakkanum.


mbl.is „Neikvæðar afleiðingar“ markmið ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband