Múslimar norðursins

Í vetur voru 10 ár liðin síðan ég kom úr útlegðinni frá frændum vorum í Noregi, eftir að hafa hrakist úr landi á tímum helferðarhyskisins. Eins og flestir vita þá líta Norðmenn á okkur Íslendinga eins og litla bróðir, sem villst hefur af leið, og taka honum fagnandi þegar hann ratar aftut heim. Hvað þá ef litli bróðir ranglar alla leið norður fyrir heimskautsbaug.

Það kom mér á óvart þegar ég lenti á 69°N að þá voru vinnufélagarnir þar ekki bara Norðmenn heldur víða að úr veröldinni, ég sem hélt að þarna væri Noregur norskastur. En þarna norður frá voru nágrannarnir á neðri hæðinni frá Pakistan, vinnufélagar frá Afganistan og Súdan. En það breytti ekki því að óvíða er Noregur fallegri og dvölin reyndist góð.

Ég ætla að setja hér inn kafla út bók dagana sem ég skrifaði eftir fyrsta veturinn -sumardaginn fyrsta 2012 - á silfurbrúðkaupsdegi okkar Matthildar minnar. Þá hafði ég dvalið að mestu einn sem flóttamaður hins íslenska hruns á 69°N í heilt ár.

Úr blackout í smoking

Það er bara svona allt í einu smollið á sumar einn ganginn enn, kemur alltaf jafn skemmtilega á óvart.  Ég sem kveið þessi ósköp fyrir vetrinum hérna á 69°N í haust og hafði ekki grænan grun um hvernig sjónvarpslaus fáráðlingur gæti látið veturinn líða einsamall næstum alla leið norður í rassgati.  Það eina sem mér datt í hug til að drepa tímann var að gera það sama og indíánarnir í denn, að horfa á milli stjarnanna frekar enn á þær, þannig væri meira að sjá, eða þá að kveikja á útvarpinu, en í það hef ég ekki haft mig síðan í júlí í fyrra, hef grun um að enn sé verið að tala um þennan Breivik.

Hér hefur varla sést stjarna í allan vetur hvað þá norðurljós, ef frá eru taldir nokkrir éljalausir dagar í janúar, það var því eins gott að ég tók þessa ákvörðun. Á svona vetri hefði maður þurft  að halda sig öllum stundum utandyra til að stunda stjörnuskoðun því það er ekki svo gott að reikna það út hvenær éljunum slotar. Það má því segja að enn einu sinni hafi ég rambað á rétt með það að horfa á milli stjarnanna og hafa slökkt á útvarpinu. Þannig hafi ég séð lengra án þess að  krókna úr kulda fullur af hryllingi. 

Það sem ég tók samt eftir þegar líða tók á veturinn var að ekki var allt með felldu hérna innandyra. Þar á ég  ekki við mýsnar sem brutust inn í eldhússkápinn hjá mér, rétt á meðan ég fór heim til Íslands í jólafrí, stálu sykurpokanum og vafra nú um íbúðina sílspikaðar. Þær sáu því sjálfar um að losa mig við áhyggjurnar af því hvernig þeim reiddi af úr því hún Matthildur mín væri ekki hérna í vetur til að halda í þeim lífinu. Nei það sem ég tók eftir í sjónvarpsleysinu var að hér eru ekki bara mýs. Því annað slagið glytti í gráan kall á milli stjarnanna, eða kannski réttara sagt innan um akfeitar mýsnar. Langt fram eftir vetri setti að mér hroll þegar ég varð var við kall skrattann og kom sér þá vel sú ákvörðun að horfa á milli stjarnanna en ekki beint á þær. 

En þegar var komið fram undir páska og óvænt frí var boðað í vinnunni alla páskavikuna í glórulausum éljagangi sat ég einn uppi með mýsnar og kall skrattann í heila 10 daga. Það var helst þegar ég gekk fram hjá spegli að ég sá honum bregða fyrir þegar ég horfði ekki beint á stjörnuna mig heldur á framhjá henni. Svo var það þegar einu élinu slotaði að ég kannaðist við kauða þetta var þá eftir allt saman bara ég sjálfur ekki lengur glókollurinn í stjörnunni heldur orðinn grár kall. Hugsa sér hvað tíminn flýgur og það um hávetur, en nú er sem betur fer aftur komið bjart sumar.

Það er fleira en grái kallinn og mýsnar sem hefur ekki verið með felldu efir að ég kom hingað á 69. gráðuna. Ég hélt fyrir ári síðan að ég væri að fara til N-Noregs að vinna með Norðmönnum. En komst fljótlega á snoður um það að helmingur vinnufélagana eru múslímar frá Afganistan og Súdan. Í húsinu sem ég bý í eru tvær íbúðir, ég með mínar spikfeitu mýs upp í risi og þrennt er frá Pakistan í hinni, sjálfur jafnvel farinn að fíla mig sem múslima norðursins. Ég hef Pakistanana reyndar grunaða um að fita fyrir mér mýsnar, það sé ekki bara sykurpokinn sem þær stálu. Í íbúðinni fyrir neðan er nefnilega buffið barið þrisvar á dag og í hvert skipti, rétt á eftir bankið, -leggur þennan líka fína matarilminn um allt húsið.

Pakistönsku félagarnir vinna á Pizza stað hérna skammt frá en húsmóðirin er heima og eldar.  Þeim dettur ekki í hug að éta Pizzunnar sem þeir eru að malla sjálfir eftir alþjóðlegri uppskrift ofan í Norsarana, heldur skjótast þeir heim í Austurlenskan mat þrisvar á dag. Mér hefur dottið það í hug, rétt eins og músunum, að semja um að komast í fæði hjá frúnni. Færði það reyndar varfærnislega í tal við húsbóndann hann Roomi hvort honum hefði ekki komið til hugar að opna veitingahús. Það er allt í vinnslu sagði hann því hann sagðist halda að vantaði Pakistanskan veitingastað hérna í snjóskaflinn á 69°N, ég tók undir það með honum og sagðist verða sá fyrsti til að mæta þó ég þyrfti að moka mig inn. Lengra hef ég ekki komist með þetta mál og verð að gera mér að góðu bakaðar baunir og grjón á meðan málið er í vinnslu.

IMG_0401

Matthildur mín var svo í Noregi sumarið 2012, og þvældist vinnuvikuna með okkur vinnufélögum þar sem við vorum við múrverk norður á nesi Finnanna í Þrumu. Við vorum vikuna þar norður frá en keyrðum heim til Harstad um helgar. Þetta sumar héldum við upp á fimmtugs afmælið hennar með því að heimsækja staði sem ég hef sagt frá hér á blogginu, -í kvöldrúntum um Senja og helgarferðum niður Lófóten og út á Vesturålen, margar mestu náttúruperlur Noregs

Annars upplýstu Búdda fræðin hans Sindra bróðir mig um það að maður þyrfti ekkert að éta, þetta væri bara gamall ávani. Ég hef meir að segja reynt að miðla þeirri visku til vinnufélaga minna, þeirra Yasin og Juma en það er í sambandi við það hvað þeim gengur illa að safna sér fyrir konu.  Samkvæmt þeirra ritúali er algert grundvallaratriði að karl geti boðið konu upp á hús til að elda í áður en kemur til hjónabands. 

Ég er margbúinn að fara fram og til baka yfir þetta reikningsdæmi með þeim, þegar við nögum handabökin yfir kveinmannsleysi og gulræturnar upp úr nestisboxunum í hádeginu. Ég ráðlegg þeim að slá margar flugur í einu höggi, henda bílnum, slökkva á sjónvarpinu, hætta þar með að éta Lay´s snakk yfir sjónvarpinu og geta um leið sagt upp ársáskrift af ræktinni þar sem þeir skokka á hlaupabretti fyrir morðfé, en labba þess í stað við fuglasöng í vinnuna. En allt kemur fyrir ekki dæmið gengur ekki upp í konu.  Svo var það neyðarúrræði hjá mér að upplýsa þá um leyndarmál Búdda munkanna sem hefðu komist að því að þeir væru étandi út af röngum misskilning. Juma sagði að þetta stæðist ekki, því þegar hann hefði komið yfir til Evrópu frá Afríku hefðu tugir manna verið á sama báti í ellefu daga án matar og vatns, ekki hefðu allir verið lifandi þegar yfir Miðjarðarhafið var komið, og það væri til lítils að eignast konu eftir að vera sjálfur orðinn liðið lík.

Það er svolítið undarlegt að ég skuli vera að reyna að ráðleggja þeim piltum í kvennamálum svo þeir sleppi við gifta sig samkvæmt greiðslumati frá bankanum til húsakaupa, maður sem gengur með þær grillur í höfðinu að hann geti bitið af sér banka með því þvælast nógu langt að heiman til að afla tekna vegna fasteignaviðskipta fyrir gjörsamlega gjaldþrota bankakerfi. Sjáandi þó samt þann frábæra árangur af afborgununum að eign bankans í húsinu dafnar jafnvel um 50 þúsundkall við hvern 100 þúsundkall sem er greiddur. Það er náttúrulega einstök umhyggja fyrir bankakerfinu sem fær mann til að standa í svona nema þetta sé rangur misskilningur sem geti hugsanlega stafað af elliglöpum á milli afborgana. Alltaf allt í þessu fína nema rétt á meðan maður gerir skattframtalið og sér að öllu steini léttar hefur verið stolið í skjóli stjórnvalda sem maður getur sem betur fer huggað sig við að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

23.04.1987Það var ekki svona flókið greiðslumatið þegar við Matthildur mín gengum í það heilaga. Þá dugði að skýjaglópurinn ég gengi með hugmyndir í höfðinu af húsi með eldavél, til þess að hún snaraðist í eitt Burda blaðið sitt til að finna snið af smoking sem hún saumaði svo ég væri sómasamlega klæddur á brúðkaupsdaginn. Það er nokkuð ljóst að ég hef hvorki fyrr né síðar verið eins vel til fara, í sérsaumuðum svörtum silkifóðruðum smoking, en eitthvað minna hefur orðið úr að skýjaborgirnar hafi komist af teikniborðinu. Maður spyr sig svo;  "hvernig stendur á því að maður lendir í svona um hábjartan dag", að ranka við sér í N-Noregi á sumardaginn fyrsta 25 árum seinna hugsandi um skýjaborgir en ekki bara heima hjá henni Matthildi. Já maður spyr sig rétt eins og maðurinn sem keyrði útúrdrukkinn á ljósastaur í myrkrinu en hélt að það væri hábjartur dagur. Manni dettur óneitanlega í hug blackout fyrri ára þegar það kom fyrir að maður rankaði við sér við meira en lítið ókunnuglegar aðstæður.

En það að lenda í einhverju þarf samt ekki alltaf að gerast um leið og maður lendir í því, eða kannski réttara sagt hugmyndir verða að veruleika um leið og þær kvikna, tími þeirra getur hins vegar verið allt annar. Það rann t.d. upp fyrir mér að hingað til N-Noregs hafði ég haft hugmyndir um að koma áður. Það var 1994 eða 5, þá fórum við tveir félagar í viðskiptaferð til fyrirtækis Osló sem seldi okkur gólfefni. Þeir vildu endilega sýna okkur frystihús í N-Noregi með svona gólfefni og voru ekkert að tvínóna við það. Við upp í flugvél og Noregur flogin endilangt til Kirkenes uppi við Rússnesku landamærin.  

Síðan var keyrt í febrúar hríðinni í nyrsta fjörð Noregs, Bátsfjörð, þaðan farið til Hammerfest og fleiri frystihús skoðuð, blindhríð allan tímann svo varla sást í næsta tré og ég röflandi um að gáfulegra hefði verið að skoða sláturhús í S-Frakklandi á þessum árstíma. Svo var það núna einn hríðardaginn í febrúar s.l. þegar ég var að taka mynd af einu élinu á milli trjágreinanna sem ég uppgötvaði að þetta él hafði ég séð áður fyrir hátt í 20 árum síðan og þá hugsað sem svo, hingað væri gaman að koma aftur til að sjá eitthvað annað en en snjóél og frystihús. Nú styttist í að ég sé búin að vera árið í N-Noregi. Svona koma sumir draumar út úr blackout-inu vegna hreinræktaðs fávitagangs.

Það heldur því í manni voninni, hvernig lögnu liðnir draumar rætast mörgum árum seinna, um að eiga eftir að detta niður í skýjaborgirnar sem álfur á milli stjarnanna. Þó ætla ég rétt að vona að það verði ekki eins þegar ég sný heim úr þessari sjálfskipuðu útlegð minni, og lögnu liðið blakcout frá unglingsárunum. Þá taldi ég mig ranka við í næsta húsi við heima og fannst ekki taka því að fara í skóna né finna jakkann þegar ég fór út úr dyrunum, því það væri bara yfir nokkur börð að fara á milli húsa. Þegar ég hafði komist á sokkaleistunum á flughálum svellunnum upp síðasta barðið, vel vaknaður í stutterma bolnum, brá mér í brún, rétt eins og þessum sem keyrði á ljósataurinn um hábjartan dag, -það var búið að rífa húsið heima og á þeirri lóð stóð ekkert nema myrkrið og ljósastaurar lengst í burtu. Þarna fyrir 35 árum síðan reyndist þetta vera Alcoalaus Reyðarfjörður um kl. 4 að desembernóttu í hörkufrosti. En sem betur fer voru innfæddir það vel aflögufærir á þessum árum að þeim munaði ekki um að láta bæði ljósin loga og að skutla vandræðagemlingnum bæjarleið heim um hánótt. 

Í dag aðskilja okkur Matthildi mína eitt haf, heill himinn og fjórar breiddargráður, sennilega skutlar mér enginn heim þó ég væri kominn í kjól og hvítt sem hver annar frímúrari og hábjart sé orðið. Ég sem hét henni því þennan dag fyrir 25 árum síðan, klæddur sérsaumuðum svörtum smoking uppi við altarið í litlu kirkjunni sem stendur á Aurnum á Djúpavogi, -að verða hennar í blíðu og stríðu uns dauðinn aðskildi. En það má kannski með góðum vilja hafa, -um efndirnar á því heiti, -sömu orð og um sjómanninn sem var að heiman langdvölum frá konu með fullt hús af börnum, hún getur prísað sig sæla að hafa ekki stóra barnið heima alla daga.

Ps. Meðan að ég man - Gleðilegt sumar.


Sumarmál

Að loknum vetri

ríf ég gat á myrkrið

til að sjá sumarið

birtast af fjöllum

 

Úti í garði

er svartur fugl

sem syngur

hugsanir mínar

 

Gengin spor

skrýðast nú skjótt

döggvuðum stráum

á grundum grænum

 

-Og ný útsprungin

titrandi laufblöð

hvísla að kalkvist

máttugum ljóðum

-með rómi

--svo ljúfum

---og blíðum

 

Það er í garðinum

þar sem morgunninn

nú kviknar og hlýnar

sem svartþrösturinn syngur

döguninni í austri vorsins lof

 

-Og það er þá

sem lúinn hugur

í eitt skiptið enn

gleðst við hans söng

um vor


Flýðu

segir sá sagna besti hér á blogginu – en hvert spyrja menn. Það er ekki nýtt að fólk þurfi að flýja á landinu bláa, síðast gerðist það í hinu svo kallaða hruni, en nú segir sá sagna besti að ekki einu sinni hrun komi til bjargar. Tilveran sé fjörkippur án gríns.

Rjómi verkfærra Íslendinga á besta aldri flúði landi í kjölfar hins svokallaða hruns og mun aldrei koma til baka, enda var þeim ekki á nokkurn hátt bættur skaðinn, þess í stað var tekin meðvituð ákvörðun um að skipta um þjóð í landinu.

Forsmekkur að ámóta flótti varð skömmu fyrir 1970, í kjölfari síldarhruns og hafísára. Þá flúði fjöldi ungs fjölskyldufólks land og komu fæstir til baka. Þeir sem það reyndu, -jafnvel eftir að hafa komið vel undir sig fótunum erlendis, -voru í besta falli hafðir að féþúfu snéru þeir heim, -Shanghiaðir á góðri íslensku.

Svona hefur þetta gengið allt frá Vesturferðum 19.aldar á landinu bláa. Almúginn hefur mátt flýja landið á meðan aðallinn treður í sína vasa öllu steini léttar, enda lítur ekki nokkurt frjálst samfélag við aðkomnum aðli, hvað þá kúkalöbbum með drulluna upp á bak.

Þar áður var ekki svo auðvelt fyrir almúgann að flýja hyskið, hvað þá móðuharðindi. Hvað gerði fólk þá? Hvert flúði það? Til þess að eignast líf í frelsi þá flúðu margir til fjalla eða ystu annesja. Hornstrendingar voru litnir hornauga vegna frelsis síns og að ekki var hægt að kúga þá.

Hornstrandir voru víða á landinu bláa. Má þar t.d. nefna svæði, sem í dag eru kallaðar Víknaslóðir, svæðið frá Borgarfirði-eystra í Loðmundarfjörð. Eins má nefna heiðarbýlin á heiðum austanlands, Vopnafjarðarheiði og Jökuldalsheiði, þar sem skáldsögurnar Sjálfstætt fólk og Heiðarharmur eiga sínar rætur.

Í Mávabrík Ármanns Halldórssonar segir frá Benoní og Ólöfu sem flúðu í Hvalvík, örlitla víkurskoru úti við ysta haf norðan undir fjallinu Gletting. Settu upp sitt bú og bjuggu þar í 10 ár, en fluttu þá á Glettinganes sem var enn síður í alfara leið. Heimildir geima lýsingu af fyrstu dögunum Ólafar og Benonís í Hvalvík.

Þau gerðu sér bráábyrgðaskýli í graslaut sem þau tjölduðu yfir með bátssegli og notuðu mastur til að halda seglinu uppi. Ólöf var þá vanfær og í þessu afdrepi ól hún tvíbura 25. júní – “við bú í Hvalvík” stendur í kirkjubókinni. Börnin skírði séra Benedikt Þórarinsson sem fékk Desjamýrarprestakall þetta vor, stúlku og dreng, stúlkan skýrð Brandþrúður, sem sennilega er eina nafn á landinu fyrr og síðar þessarar samsetningar, og drenginn Jóhann Magnús. Hann átti aðeins fimm daga ævi, þannig byrjaði búskapurinn upp á líf og dauða. (Mávabrík – Ármann Halldórsson bls 71)

Það er ómengað sjálfsþurftarsnið á búskapnum í Hvalvík. Þar er flest – reyndar allt sem með þarf og verður að nægja til nauðþurfta – í matföngum, klæðnaði, húsum, eldsneyti og ljósmeti -sótt í náttúruna umhverfis, landið og sjóinn. Benoní eignaðist bát, stundaði sjóinn frá Glettinganesi, fór hina örðugu sjávargötu yfir Gletting og hefur byrjað að róa þaðan fyrir 1839. Almælt er að Ólöf hafi róið með honum, en óvíst hvort það hefur verið meðan þau bjuggu í Hvalvík. (Mávabrík – Ármann Halldórsson bls 80)

Það er í náttúra landsins, og stund með sjálfum sér sem er besti flóttinn. Ég flúði landið bláa með tárin í augunum í hinu svo kallaða hruni, en eftir það hef ég lofað því að láta hyskið aldrei flæma mig aftur úr landi.

Í náttúru heiða- og víknaslóðir höfum við Matthildur mín flúið margan dagpartinn hvert sumar s.l. 10 ár, undan síbyljunni. Ég hef sagt frá þessu sjálfstæða flóttafólki annesja og heiða í pistlum hér á blogginu, -sumarhúsunum á Sænautaseli og konunum í Kjólsvík.

 


Rétttrúnaðurinn

Það hefur ekki farið fram hjá síðuhafa að lesendur eru orðnir sparir á álitið, hvort sem það er með eða á móti. Athugsemdir fáar, og svona sirka hálft like á pistil undanfarin mánuðinn. Lesendum fer samt frekar fjölgandi samkvæmt teljaranum, þó svo álitsgjöfum fari fækkandi.

Rétttrúnaður hefur dreift sér um samfélagið undanfarin ár eins og vírus. Að fylgja honum er orðið samfélagslega viðurkennt fyrirbrigði. Að leiða rétttrúnað er ekkert annað en harðstjórn. Að vera til er samt alltaf algilt. -Og það merkir að hafa álit og láta það í ljós, -bæði með og á móti.

Mikið hefur verið lagt upp úr þverpólitískri forystu í samfélaginu undanfarin ár, -samstöðu á við hlýðum Víði. Ríkisstjórnin hefur lengi spannað allt róvið, EES hjálpað til með regluverkið og mannréttindadómstóll Evrópu sér um að blessa framkvæmdina. Samt, -þegar fylgst er með sannleika rétttrúnaðarins þá er samtíminn austur-þýskur.

Flestir kjósa að þegja, sem virðist vera auðveldasta leiðin, með hliðsjón af ömurlegum aðstæðum félagslegs veruleika í snjall væddum nútímanum. Þar sem hægt er að fletta öllu upp um alla. Afsal okkar á ábyrgð og heilindum styrkir rétttrúnaðinn; heldur honum virkum með ótta okkar, óöryggi og gullfiskaminni.

Rétttrúnaðurinn er samt ekki eitthvað raunverulegt. Í raun er hann ekki annað en andleg töfrabrögð ætluð til aðskilnaðar. Félagslegur veruleiki sem er hannaður til að draga okkur frá eigin gildum. Hann grípur athygli og orku út fyrir reynsluheim sjálfsins, veldur andlegri fátækt og gerir okkur að auðveldri bráð.

Rétttrúnaðurinn kallar fram skringilega samfélagslega samstöðu þar sem við stöndum saman áhrifalaus. Við fylgjumst með Medíu, -stjórnmála, íþrótta og vísinda. Við samþykkjum  innrætinguna með því að þetta upplýsi, og auðgi félagslegan anda, á sama tíma og sálinni er úthýst úr félagslegum veruleika.

Rétttrúnaður er uppkast af samfélagi sem þrífst á meðvirkni, -jafnvel bara á þögninni einni, -er þannig séð alltaf háður okkar afstöðu. Hann er vítahringur skammar, -hótar fólki refsingu með því að upplýsa óæskilega orðræðu og samfélagslega hegðun. Aðgreinir fólk um leið frá frá sálu sinni.

Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að mér skjálist ekki, og hafi ekki oft rangt fyrir mér, þess vegna set ég fram hugrenningar mínar í bloggpistlum. Athugasemdirnar hér, -hin samfélagslega umræða við “rangar” skoðanir, hafa auðgað mína víðsýni í gegnum tíðina.

Það er þess vegna sem það er þess virði að koma orðum í bloggpistil, en ekki bara muldra þau ofan í skúffuna.


Vættir og menn

Vættir eru sagðar ekki vera mennskrar gerðar og erfiðar fyrir menn að skynja, þó þær séu í sama rými. Sumt eru landvættir, -verur sem yfirskyggja vissa staði, nota þá, -og skilyrða landið með vissum ógnum og þokka. Náttúruvætti þekkjum við vel í landi elds og ísa, svo sem af eldfjöllum, jöklum, hafi ofl, -náttúruöflin.

Vættir geta verið verndarar lands og þær skal ekki styggja, því að þá farnast fólkinu illa. Vættir geta verið að báðum kynjum og þess vegna hvorugkyns t.d. náttúruvætti. Samkvæmt fornum sögnum eru vættir flestar ónafngreindar. Bjuggu í klettum, vötnum, undir fossum, steinum, hólum, á fjöllum og í hafi. Velferð byggðanna var nátengd því hvernig vættirnar þrifust í hugarheimi fólksins.

Þær sagnir sem lýsa vættum eru fáar, stuttar og einkennilegar. Þær loða helst við staði þar sem náttúran er svo til ósnert af mönnum, stöðum sem stundum eru kenndir við goðin. Goða- og þjóðtrúin segja álfa t.d. vera anda, en þjóðtrúin segir þá samt koma fram að flestu leiti sem menn og birtast þannig við og við. Trúin á vættir heiðninnar virðast hafa horfið með kristninni en varðveist í þjóðsögunum gegnum aldirnar sem nokkurskonar álfasögur.

"Álfar eru göfugastir og merkastir jarðbúa; meiri hluti þeirra er svo líkur oss mönnunum að manni dettur í hug ósjálfrátt er maður heyrir lýst ljósálfum – hinni betri og blíðari tegund álfa – að þarna séu nú komnir fram aftur á æðra stig, þó í sama heimi, ættingjar og forfeður vorir er komnir voru löngu áður yfir um. Svo eru þeir líkir mönnum og þá fullkomnari. Snorri segir svo í Eddu um álfa að álfheimur sé á himni: “Þar byggvir fólk þat, er ljósálfar heita; en dökkálfar búa niður í jörðu, ok eru þeir ólíkir sýnum ok miklu ólíkari reyndum. Ljósálfar eru fegri en sól sýnum, en dökkálfar eru svartari en bik.” (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar III bindi bls 4)

Sumar vættir skilyrða land, setja álög og hafa gert það frá aldaöðli. Önnur aðferð við að skilyrða land er að formæla þeim stöðum sem yfirteknir hafa verið af mönnum. Sem byggingamaður þá kannast ég við álög sem fylgja vissum stöðum. Þeirra verður t.d. vart þegar nýtt byggingaland er brotið undir mannabústaði.

Á landinu eru þá verur, sem hafa átt þar heima frá alda öðli, nærtækast er t.d. að nefna rjúpur og mýs. Skyndilega er þeim gert að hypja sig ásamt úreltum vættum samkvæmt tíðarandanum, en þá eru komnar nýjar vættir ósýnilegar. Því getur ógæfa komið yfir þá sem fyrst brjóta undir sig land og eru til mörg óútskýrð dæmi þess önnur en náttúruöfl.

Álög vætta og formælinga geta virst vera eitt og hið sama. En rétt er að skilja þar á milli. Álög vætta eru kraftar frá eldri tíð, en formælingar seinni tíma álög. Álögum vætta þarf því ekki að fylgi illvild. Álagavaldar gátu t.d. verið völvur sem urðu að verndarvættum. Völvuleiði eru víða um land og fylgir þeim oftar en ekki svipuð þjóðsaga, -ekki skal hrófla við leiðinu og þá mun blessun fylgja.

Svo er mælt að til forna átti völva eða seiðkona heima innarlega í Breiðdal í Suður-Múlasýslu eða innanvert í Skriðdal. Hún vissi fyrir ófrið af hafi. Kvað hún svo á að er hún væri látin skyldi heygja sig á Breiðdalsheiðinni sem liggur á milli þessara dala, nálægt vatni sem er á heiðinni. Lét hún það um mælt eða lagði það á að engin ófriður er kæmi af hafi skyldi komast upp yfir heiðina á meðan hún hvíldi þar og leiðið væri óbrotið. Það segja kunnugir að leiðið hafi sést þar til skamms. Hefur engin verið til að rjúfa það. Þykir sumum sem ummæli hennar hafi ollið því meðfram að Algeirsmenn, Tyrkir, komust aldrei nema í Breiðdalinn. Er og varla hætt við því að menn fari að glettast við völvuleiðið á Breiðdalsheiði. (Þjóðs Sigfúsar V bindi bls 227)

Í Hólmatindi við Eskifjörð er völvuleiði sem hefur útsýni út Reyðarfjörð. Hún á að hafa verndað firðina fyrir Tyrkjum. En skip þeirra sneru við í minni Reyðarfjarðar vegna sterks norð-vestan vinds sem skall á og gerði ófært leiði þegar Tyrkir hugðust sigla inn fjörðinn. Sigldu þeir þessi í stað suður með landinu til Vestmannaeyja.

Sagnir af formælingum valva til ills eru fáar, en þó þekktar. Á prestsetrinu Kálfafellsstað í Suðursveit Hornafirði upp úr siðaskiptum að hafa búið hjón. Bóndinn hét Kálfur, en húsfreyjan kölluð Valva. Þegar Kálfafellsstaður var gerður að prestsetri um 1050 urðu þau nauðug að fara þaðan að býlinu Burtu, sem var hjáleiga frá staðnum.

Sagt er að Valva, sem var bæði heiðinn og forn í skapi, hafi líkað svo illa flutningarnir að hún hafi lagt það á að engum presti skildi vært á Kálfellsstað lengur en 20 ár, fyrr en fengið yrði í kirkjuna líkneski Ólafs helga Noregskonungs “bróður” síns og mundu þeir þó flestir hafa fullkeypt. Prestar á Kálfafellstað máttu síðan reyna álögin á eigin skinni þar til líkneski Ólafs helga var sett í kirkjuna, sem varð ekki fyrr en 1717, -og þótti álögunum þá létta um stuttan tíma. 

Þegar Kristján Vigfússon bjó á Kálfafelli skopaðist hann af átrúnaðinum og sagðist skildi sýna hvað mikið væri að marka líkneskið. Hann hjó af líkneski Ólafs helga nokkra fingur. Litlu seinna var sonur Kristjáns að leika sér við annan dreng jafnaldra sinn úti á túni 10-12 ára. Þeim sinnaðist og var drengurinn með hníf og stakk Sæmund til bana beint í hjartað. Þetta var talið hefnd fyrir handarhögg Ólafs helga. (Þjóðsögur og sagnir – Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm bls 204)

Kristján var um tíma sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu, frá því er Jóni Helgasyni var vikið frá 1798, uns honum var sjálfum vikið frá 1804. (Ættir Austfirðinga) Sagt er að Kristján þessi hafi endaði ævina sem niðursetningur og er ævi hans talin til vitnis um það hvað það getur kostað að fara gegn álögum sem sett eru á með formælingum.

Kálfafellsstaðarkirkja fauk í Knútsbyl 7. janúar 1886, þá nýlega endurbyggð, í einhverju mesta fárviðri sem gengið hefur yfir Austurland. Nýreist kirkja veglegt guðshús á þeirra tíma mælikvarða, hafði tekið af grunni og fokið í brak. Þetta var timburkirkja, kölluð Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga. Af honum var líkneski sem stóð á áberandi stað í kirkjunni.

Þetta var mikið tjón fyrir söfnuðinn í Suðursveit og ekki síst fyrir prestinn, Jóhann Knút Benediktsson, sem bar hita og þunga af framkvæmd þess að koma kirkjunni upp. Þegar hér var komið, var heilsa hans farin að bila, en sagt var, að mjög hefði honum hnignað við þetta áfall. (Knútsbylur - Halldór Pálsson bls 11) - Ólafur kóngur fannst svo alveg heill, nema fingralaus, uppistandandi, niður í fjöru langan veg frá bænum. Líkneski Ólafs helga úr Kálfafellsstaðarkirkju er nú á Þjóðminjasafni Íslands.

Getgátur eru uppi um að Valva á Kálfafellsstað hafi í raun heitið Gunnhildur og verið systir Ólafs helga Noregskonungs. Sá landnámsmaður, sem nam Hornafjörð var Hrollaugur, sonur Rögnvaldar Mærajarls. Hrollaugur bjó í Suðursveit. Hans bræður voru Torf-Einar Orkneyjajarl, og Göngu-Hrólfur forfaðir Vilhjálms bastarðar, sem fór fyrir Normandí Normönum, þegar þeir unnu orrustuna um Bretland við Hastings 1066, og enska konungsættin er rakin til.

Það má ætla að vættir og þau álög, sem  sögð eru vera valva og helgi í þjóðsögunum, séu dæmi um fornar vættir og formælingar. Þau eiga rætur aftur í heiðni, og hafa lifað siðaskipti í gegnum þjóðsöguna alla leið inn í nútímann. Hvort þjóðsagan varðveiti í aldir héðan í frá sagnir fólks um álaga vættir dagsins í dag þau; -verðbólgu og hagvöxt, -getur tíminn einn leitt í ljós.

 


Ráðherrakapallinn

Þá hefur lýðnum verið gert ljóst hvernig hyskið mun sitja áfram í húsum þjóðarinnar. Bjarni segir af sér yfir í forsætisráðuneytið eftir að Katrín sagði af sér til Bessastaða. Varla er von á öðru en þar fái litla lukkudísin glimrandi kosningu ef ég þekki mitt fólk.

Sigurður sest í rykið af rústuðum innviðum og fær sér bara vel í nefið, rétt á meðan restin af litlu lukkudýrunum við Austurvöll kyngja ælunni og Svandísi.

Það mátti öllum vera ljóst að þjóðin sæti áfram uppi með hyskið í sínum húsum þar til sígild forgangsverkefni hafa verið fullkomnuð.

Ungt fólki sjái áfram sína fjármuni gufa upp úr þakinu á okurvöxtum.

Náhirðin fullkomni söluna á TM til Landsbankans í gegnum Kviku og fái upp í arðgreiðslurnar til að kaupa Íslandsbanka.

Landbankanum veði komið í lukkupottinn með söluferli.

Það skildi engin velkjast í vafa um að ríkisstjórnin lafir þar til verkefnalistinn hefur verið tæmdur með fullveldisframsali til glópalsins.

Sem stefnt er að keyra í gegn af litlu lukkudýrunum við Austurvöll og staðfesta á Bessatöðum, -helst fyrir 17. júní.


Katrín fetar í fótspor Erdogans og Pútíns

Það má spyrja sig á hvaða vegferð Morgunnblaðið er, þegar kemur að forsetakosningum. Nú er púðrinu eitt í að finna dæmi frá 1982 um þóknanlegt forsetaframboð forsætisráðherra.

Fengin er sagnfræðingur úr rjúkandi rústum herbúða VG til að réttlæta gjörninginn, sem lætur alveg liggja milli hluta hvers eðlis litlu lukkudýrin eru sem fyrst yfirgefa sökkvandi skip. 

Það má finna mun yngri dæmi þess að sitjandi forsætisráðherra ásælist forsetaembætti. Einna helst má ætla að Morgunnblaðið sé orðið málgagn World Economic Forum, -Davos dúkkulýsna.


mbl.is Katrín teflir finnskan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert var aprílgabbið?

Margir spyrja sig hvert var aprílgabb Morgunnblaðsins. Hvort það geti virkilega hafa verið falið í páskadags guðspjalli mbl, um að Guggan hafi allan tímann verið gul. Freistandi að álykta sem svo, ef ekki kæmi til þess að páskadag bar upp á 31. mars.

Það má samt segja að páskaguðspjallið, sem birtist á mbl sé ekki alveg fordæmalaust. Sá krossfesti rís upp á páskadag, að vísu nú sem litla gula hænan. Það að Guggan sé alltaf gul á nánast að hafa bjargað því að öll byggð á Vestfjörðum verði ekki að Hornströndum.

Hvort löngu brottfluttir vestfirðingar hafi átt að hlaupa 1. apríl og taka Stímið vestur með Glitnis Íslandsbanka gróðann í farteskinu, vegna páskadags guðspjalls mbl 31. mars 2024 er samt frekar ósennilegt.

Sennilega gaf stóra svarta Morgunnblaðs M-ið vísbendingu um hvert 1. aprílgabbið var hér á blogginu í morgunn. Þar var vitnað í bloggara, sem fór hörðum orðum um, -þegar fjölmiðlar velja að þegja.

Þar sá stóra svarta M-ið ástæðu til að undirstrika ofurblogg um málfrelsi.


Þegar Íslendingar voru börn náttúrunnar

Áttæringur

Eyjan hvíta átt hefur sonu fremri vonum; kvað Jónas Hallgrímsson fyrir margt löngu. Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni; sagði prófessor Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup Íslensku þjóðkirkjunnar, í ræðu 1. desember 1957 í kapellu Háskóla Íslands á fullveldisdegi.

Kom þar m.a. fram hjá Sigurbirni að, -Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: „Vér eigum menn.“ Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku.

Arnar Þór Jónson bloggari og forsetaframbjóðandi rifjaði upp þessi orð úr ræðu Sigurbjörns Einarssonar hér á blogginu um daginn. Frá þeim tíma þegar Ísland átti fólk sem lifði af náttúru landsins og vissi hvað fullveldi er mikils virði.

Við, sem erum fædd eftir miðja 20. öldina, munum konur og karla, -sem hægt er að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina. Fólkið sem kom Íslandi inn í nútímann með fullveldið eitt að vopni. 

Fullveldis fólkið kom þjóðinni út úr hálfhrundum moldarkofum. Ræktaði landið inn til dala og sótti sjóinn frá ystu annesjum, -hélt landinu í byggð, og skilaði betra búi með meiru valfrelsi til næstu kynslóða. Vissulega var lífsbaráttan hörð, en samheldnin var líka mikil í landi sem átti ekki það sem í dag eru kallaðir, -innviðir.

Þess vegna var kannski ekki skrýtið að fólk flytti sig innan úr dölunum og af útnesjunum í þéttbýli fjarðanna, þar sem þorpin voru, -eftir að vélarafl bátanna jókst og bílar komu til flutninga fyrir sveitirnar. Áður voru byggðir á stöðum sem ótrúlegt má teljast í dag.

Ummerkja þessarar byggða og brot menja heilu þorpanna má enn sjá víða um land s.s. á vegasambandslausu Siglunesi við austan verðan Siglufjörð, Hafnarnesi nú við hringveginn í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, staðir þar sem bjuggu tugir fólks og iðuðuð af mannlífi við leik og störf í nálægð gjöfullar náttúru.

Þegar ég hef keyrt Berufjarðarströndina nú í vetur þá hefur mér verið hugsað til þessa 20. aldar fólks. Nú þegar logar ekki eitt einasta ljós við þrjú íbúðarhús. Þar sem fyrir nokkru voru tvö sauðfjárbú vel í sveit sett, á annesi með innviði, á við þjóðveg eitt við bæjardyrnar. Á þeim þjóðvegi eru nú nær eingöngu erlendir túristar.

Árið 1961 fluttu foreldrar Matthildar minnar börn og bú af þessari strönd, á bát yfir Berufjörð, frá Núpshjáleigu suður á Djúpavog, til að búa í þorpi og sækja áfram björg í sjó. Þegar ég heyrði þessum flutningi lýst og lífinu fyrr um á Berufjarðarströndinni var það líkt ævintýri úr örðum heimi. Núpshjáleiga hefur verið í eyði síðan og nú í vetur loga ekki ljós á bæjum í nágreninu.

Ég segi stundum við börnin mín, að ef það sé eitthvað sem ég vilji ráðleggja þeim að sjá á lífsleiðinni í tíma, þá séu það Hornstrandir. Það er t.d. orðið of seint fyrir mig fótafúinn og hjartalúinn að rölta þar um eyðibyggðir, og þannig geti allt eins farið fyrir þeim þegar hratt líður stund. Auk þess sem auðn landsins sé óðum að komast í eigu erlendra auðróna. 

Við Matthildur mín fórum ekki þjóðveg eitt um Berufjarðarströndina suður á Djúpavog núna um þessa páska til að hitta börn og barnabörn. Þess í stað stálumst við til í norðaustan hríð að horfa saman á sjónvarpið þeirra Ævi og Óra. Fundum á youtube Börn náttúrunnar og mynd Ósvaldar Knudsen frá 1956 um Hornstrandir, þar sem Kristján Eldjárn fyrrverandi forseti lýðveldisins sá um frásöguna.

Í lok myndarinnar lætur Kristján þess getið, að líkindum verði þess langt að bíða að nýjar kynslóðir nemi land í hinum fornu byggðum. Matthildur, sem ekki hefur haft mikla trú á mér til ferðalaga síðustu árin, spurði eftir áhorfið á Börnum náttúrunnar hvort við ættum ekki að fara á Hornstrandir í sumar. Eitt augnablik lá við að ég leyfði mér að trúa á drauminn.

Í hlutfalli við aukið ferðafrelsi höfum við Íslendingar fjarlægst náttúru og sögu landsins, -og tapað fullveldinu. Núna rétt fyrir páskana fórum við Matthildur þó örstutta ferð í Bónus. Þar var talað tungum innan um world class sjálfafgreiðslukassana, og torkennilega  skáeygt fólk leit okkur hornauga.

Það er orðið of seint að snúa til baka þar sem leikur og starf fóru saman í íslenskri náttúru. Og sú spurningin verður sífellt áleitnari hvort Íslendingar komi til með að lifa það af að búa við þjóðveg eitt í þessu landi. 

 


Hringrásarhagkerfið

Það sem versnandi í heimi fer er hvað miklar tengingar tapast með því að missa skilning á móðurmálinu, -og þar með innsæi í tímann.

Tilveran er kraftaverk, líf og dauði eru draumar. Að gefa atburðarásinni nöfn er ekki það sama og skilja hana eða geta skýrt.

Þegar allir draumar hafa rætst er ekkert til að stefna að lengur, -eilífðin ein eftir og tíminn orðin lífvana.

– Þá birtast barnabörnin og gleðin í því smáa. Nýir litlir draumar koma í ljós sem þurfa að rætast inn í eilífðina.

Eilífðin er utan tímans, -þar sem allt er skynjað sem ein heild. Tilveran, eilífðin og draumurinn er því eitt og hið sama.

Þó svo að það sé mikils virði að vera snjallvæddur á ensku í núinu, þá er rétt að kunna skil á orðum móðurmálsins, -líkt og The Great Poet of Iceland.

Stundin deyr og dvínar burt

sem dropi í straumaniðinn

Öll vor sæla er annaðhvurt

óséð - eða liðin 

(Ljóð Einar Benediktsson)

 

img_6265


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband