Angurgapi - íslenskur galdrastafur

Ristur á hlemm eða keraldsbotn. Einhver allra rammasti galdrastafur sem til er.

Maður var í Skagafirði sem kallaður var Galdra-Björn. Hann átti illt útistandandi við marga í héraðinu og þóttist ávallt eiga sín í að hefna á þeim með ýmsum gjörningum. Eitt af því var það að hann risti angurgapa á kjaraldshlemm og sendi svo hlemminn á stað til að drepa fénað fyrir fjandmönnum sínum. Hlemmurinn rann á rönd víða um héraðið og drap fé bænda hrönnum saman því hver skepna sem hlemminn sá lá þegar dauð. Hlemmurinn snerist svo snart að ekki varð auga á fest né á hann lesið, en það þóttust kunnáttumenn skilja að ef einhverjum tækist að lesa ristingarnar á honum sem sáust svo óglöggt af því hann snerist svo ótt að þær hlupu í eina hringiðu fyrir auganu, að þá mundi þessu meini af létta. Loksins tókst galdramanni einum út í Fljótum að lesa á hlemminn; féll hann þá um koll og hreyfðist ekki eftir það né vann neinum tjón framar.

 

IMG_3934

Ef ekki væri fyrir Galdraskræðu Skugga væri lítið vitað um útlit angurgapa. Í Þjóðsögum JÁ eru þó myndir af rúnum sem honum tilheyra og lítil mynd af hring með striki í gegnum, sem gæti átt að vera hringlaga hlemmur með priki í gegnum miðjuna.

Þetta leiðir hugann að skopparakringlu sem segir frá í Píslarsögu séra Jóns Magnússonar. En þar segir séra Jón frá Þuríði Jónsdóttir(þá 18 ára) þegar Jón faðir hennar og bróðir voru brenndir á báli fyrir galdur á Skipeyri þann 10. apríl 1656, -þar sem Ísafjaðarflugvöllur er nú. Þeir voru dæmdir á bálið 9. apríl, brenndir 10.apríl og séra Jón fékk hluta Kirkjubóls, heimili fjölskyldu Þuríðar, með dómi í miskabætur þann 11. apríl.

Þuríður á að hafa, samkvæmt því sem séra Jón Magnússon ritaði í Píslarsöguna, - hlegið á brennudaginn með glensi og skrítlyrðum, dinglað fót við stokk og leikið að skopparakringlu, þótt vandalausir menn grétu óhamingju fjölskyldunnar; heyrist að sjálf óvættin hafi frændfræknari fundist, ritar séra Jón: Skessunni Medea er viðbrugðið, þó bar henni nokkuð til síns ræktarleysis.

Á eftir telur séra Jón Magnússon sig hafa orðið fyrir einhverjum rammasta galdri frá Þuríði og skrifaði píslarsögu sína því til sanninda merkis, er hann stóð í málaferlum til að fá Þuríði dæmda á bálið rétt eins og þá feðga. En það tókst honum reyndar ekki.

Það virðist einnig vera búið að glata merkingu orðsins angurgapi ef marka má orðaforða Árnastofnunar. En þar er angurgapi sagður fáráðlingur, örviti, hálfviti og ýmislegt í þeim dúr, þó kemur orðið ofstækismaður einnig fyrir í upptalningunni.

Ef farið er í orðsifjarnar þá er angur; -kvíði, vanlíðan, hugarstríð og fleira þess háttar. Gapi er væntanlega eitthvað sem gapir. -Rætin galdur þótti að reisa níðstöng með gapandi höfði.

Rétt eins og hrosshausinn sem Egill Skallagrímsson reisti á stöng til höfuðs konungshjónunum Eiríki blóðöxi og Gunnhildi í Noregi á sínum tíma, þar sem hann hét á landvættir Noregs að koma því hyski úr landi.

Einnig var til sá ótuktar galdur að reisa  vindgapa á stöng, -gapandi lönguhaus með rúnakefli í kjaftinum, til að gera óveður að mönnum á sjó.

Þannig að ekki er ólíklegt að séra Jón Magnússon hafi talið sig hafa orðið fyrir angurgapa Þuríðar Jónsdóttir þegar hann stóð í því stórræði að rita fleirhundruð blaðsíðna Píslarsögu sína sem sönnunargagn í málaferlum gegn Þuríði.

Píslarsaga séra Jóns Magnússonar þykir með athygliverðari heimildum um fyrri tíma sálarháska.

 

Heimildir:

Galdraskræða Skugga

Þjósögur Jóns Árnasonar

Píslarsaga séra Jóns Magnússonar

Árnastofnun

 


Falleg kona


Frummaður, gervigreind og safety kit

Ég fór í Húsasmiðjuna í vikunni, sem varla er í frásögur færandi, nema fyrir hvers ég varð vísari. Þar sá ég ungan mann sem varla hefði náð að verið kallaður blámaður á árum áður, en allavega múlatti, -og blökkumaður í mínu ungdæmi. Auk þess að hitti vin minn vísindamanninn.

Við tókum spjallið. Hann nýkominn á tíræðisaldurinn og var að leita sér að húfu, ekki að sú gamla væri orðin svo slitin en það væri öruggara að eiga nýja ef þessar öndvegis innfluttu húfur hættu að fást. Mér varð á orði; -slitna húfur, tínir maður þeim ekki bara?

Við ræddum blessaða innflutta góssið á lága verðinu og innflutta vinnuaflið sem héldi okkur gangandi, enda ég að ná í ódýr heyrnaskjól fyrir Rúmenana sem eru á minni könnu. Hann sagði að hann vissi að Pólverjarnir hefðu þreföld laun á Íslandi miðað við Pólland.

-Já og heldurðu að íslensk skúringakona gæti lifað á þeim hér á landi; -spurði ég. –Nei aldeilis útilokað; -sagði hann; -enda skiptir það ekki nokkru máli, því þó Pólverjarnir sendu hverja krónu heim til sín fáum við skattana og það vantar alltaf fólk.Jha so; -sagði ég, -ég þekki þetta hef verið í steypunni allt mitt líf.

Ég fann ódýr heyrnaskjól, og enn ódýrara Safety kit með heyrnaskjólum, öryggisgleraugum og rykgrímu, frábær kaup 3 fyrir 1 á betra verði en bara ein heyrnaskjól. Dreif mig út með þessi góðu kaup. Úti á plani sá ég unga blökkumanninn aftur og nú við næstu verslun með útbreitt blað í fanginu rýnandi í það og rétta sig svo upp og horfa yfir ræktarlendur Egilsstaðamanna.

Jha so; -hugsaði ég, -hann hefur tekið Bændablaðið í Húsasmiðjunni. Enda geta blökkumenn nú til dags allt eins verið íslensku mælandi Íslendingar. Og þó ég sé orðin gamall og skorpinn eins og krít hvítur hundask, , , , (-nei maður má nú ekki hugsa svona það er bara rasismi), þá er barnabörnin mín sælleg með sitt blandaða blóð. Ég braut svo ekki meira heilann um þetta og brunaði með Safety kit-ið til Rúmenana.

Á leiðinni til baka í gegnum bæinn sá ég svo unga manninn í ett skiptið enn, og þá standa við gangbraut á einum fjölförnustu gatnamótum bæjarins, og hafði hann breitt út fangið með blaðinu sem hann var að rýna í. Ég keyrði hægt fram hjá, til öryggis, -og sá þá að hann var með landakort en ekki Bændablaðið.

Þá aldeilis dagaði yfir mig, eins og kaninn hefði sagt. Svo ég fór greitt yfir nesið, norður fyrir fljót og alla leið í steypuverksmiðjuna. Þar hitti ég fljótlega vin minn steypubílstjórann, en við höfum verið félagar í steypunni frá því að grjótkasti og kofasmíði bernsku áranna lauk.

Ég sagði við vin minn; -hvað heldurðu að ég hafi séð? -og sagði honum svo farir mínar sléttar. -Hefurðu séð eitthvað þessu líkt síðasta áratuginn eða svo. Uppréttan mann með landakort skimandi í allar áttir, og það á tímum þegar allir ana viðstöðulaust áfram hoknir yfir snjallsímann sinn með eyrnaskjól?

-Já veistu; -sagði vinur minn á steypubílnum, -ég mætti fólki um daginn sem var stopp úti í kanti og hafði breitt úr landakorti yfir mælaborðið. -Það er einhver djöfullinn að ske, en ég átta mig bara ekki á hvað það getur verið; -sagði hann.

-Jha so; -sagði ég, -ætli þetta fólk sé kannski að reyna að finna í sér frummanninn án aðstoðar gervigreinds snjallmennis.


Sjakalar

Hér glittir í augu úlfsins undan sauðagærunni. Ef einhver meining væri með því að komast eftir því hvernig trúnaðarerindi  til forsætisráðuneytisins komst á kreik svo alþjóð veit, þá væri ekki verið að hræra í lukkupottinum, heldur gengið beint til verks.

Það að Ásthildur Lóa skildi sjá ástæðu til að tala við þá manneskju sem sendi þetta erindi gerir hana aðeins að meiri manneskju og þær báðar fyrir að hafa rætt saman. Og þar breytir engu um þó svo að hún hafi lagt lykkju á sína leið heim til Ólafar til að ljúka samræðunum.

En nei, þannig vinna sjakalarnir ekki sem endurreistu þetta "ógeðslega þjóðafélag! eftir "hið svokallaða hrun". Boltinn var gefinn í vikunni sem leið, þegar Ásthildur hafði sagt það sem margir vildu sagt hafa um dómskerfið, -sem nota bene, stóð í því að bera út tugi þúsunda Íslendinga af heimilum sínum eftir "hið svokallaða hrun.".

Já Ásthildur heyktist á og baðst afsökunar á ummælum sínum. En það breytir ekki því að boltinn hafði verið gefinn, -og hún er ekki ráðherra í ríkisstjórn Íslands í dag. Spyrjið heldur  kvika lukkupottinn hvernig á því stendur að Ríkissjónvarpið var fyrst með fréttirnar.


mbl.is Ásthildur vildi bætur frá ríkinu eftir eigin mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir galdrastafir, -þjóðsögur og ævintýri

Kveisustafur lætur engan háska á sér festa ef á sér er borin. Læknar allskonar kveisu.

IMG_3936

Ef vel er tekið eftir má sjá að tunglið líkist mannsandliti með enni, nefi, augum, munni o. s. frv. og sama er að segja um sólina, þó sést það ekki eins glöggt á henni því hún er bæði bjartari og fegri. En það er andlitsmynd Adams sem er á tunglinu, en Evu á sólinni.

 

Heimildir:

Galdraskræða Skugga

Þjóðsögur Jóns Árnasonar


Í leit að ljósi

Rjúkandi ryk

drunga drunur

-augu opnast

engin drauma niður

því þakið logar

og húsið hrynur

 

 

Í rústum og ryki

fimir fætur þjóta

meðan veröldina

sprengur brjóta

 

 

Í dauðans dansi

og óráðs asa

í myrkri litlir fingur

eftir dyrum fálma

 

 

Með angist í augum

og vonar bæn á vörum

um veggjabrotin hrasa

– börnin á Gaza


Sjóræningjarnir -og silfrið hennar Siggu minnar

Skúfhólkur

Það vita það kannski fleiri en kæra sig um, að á Íslandi hefur í gegnum tíðina búið gríðarlega vel efnað fólk. Svokallaðir landnámsmenn höfðu í farteskinu ógrynni silfurs og annarra gersema, auk ættatalanna sem mátti rekja til konunga 1000 ár aftur í tímann. Stöðugt bættist í þennan sjóð framan af öldum, með góðu eða illu líkt og börn og silfur Egils sanna. Nú má segja sem svo að genaþursið í Vatnsmýrinni sé það eina sem gerir sér mat úr þessum landnámsauði með því að selja genamengi landans til auðróna lyfjaiðnaðarins.

Enn í dag, -og þrátt fyrir þræls eðlið, eru Íslendingar samt taldir til ríkustu þjóða veraldar. En ekki breytir það samt því að silfrinu og ættartölunum var stolið og þjóðin átti sínar hörmunga aldir þar sem svo svarf að hún var nálægt því að hverfa úr sjóði þjóðanna. Hvað um allt gamla ættarsilfrið varð vekur forvitni fárra nú á tímum. Íslendingar eru á ný við það að hverfa af sjónarsviðinu á dögum auðræðis, og nú annaðhvort í glópalinn eða kirkjugarðana, -fátækir af öðru en digital tölum.

Fólk á mínum aldri man leifar ættarsilfursins, -enga fjársjóði, -en silfur stokkabeltið, -nælan og -hólkurinn – á mótum skotts og skúfs í húfunni. Þetta dugði til að gera upphlutinn hennar ömmu að dýrgrip. Silfurborðbúnaður -hnífur, -gaffall og -skeið með ígröfnum stöfum þóttu merki um menningararf þegar til siðs var að gefa börnum silfurskeið í skírnargjöf, meir að segja erfðu mín börn sinnar ættar silfurskeiðar samkvæmt nafni.

stokkabelti

Það má segja að á seinni öldum hafi það komið í hlut kvenna að gæta Íslandssilfursins. Því sem ekki hafði þegar verið stolið á öldum helsisins, -ættarsilfursins. Amma eftirlét yngri systur minni upphlutinn, ekki bara vegna þess að þær væru al-nöfnur, ekki síður vegna þess að þær voru áþekkar að stærð. Þessi upphlutur er nú í S-Frakklandi og hefur verið þar í áratugi og ekki veit ég hvort systir hefur nokkurtíma skartað honum.

Ekki er svo langt síðan að þingkona á Alþingi mætti í til þings í hluta upphlutar ömmu sinnar. Sem sönn alþingiskonan hafði hún nútíma vætt þjóðbúninginn  með því að klæðast buxum neðan upphlutar vestisins, -skreytt ættarsilfrinu. Hvort það hefur verið gert í virðingaskini við gömlu konuna eða þjóðaþingið er ekki gott í að spá, en hún allavega stal senunni með því að fótum troða í buxur þjóðlegri hefðinni.

Já ég hef verið að lesa rán, galdra og geðveiki undanfarið, -verið að lesa mig niður í 17. öldina. Til þess taldi ég sjóræningja, silfur og galdra best til fallna, -enda sú 17. stundum kölluð brennuöldin. Ég komst fljótt að því að galdrafárið var ekki beinlínis vegna galdurs og geðveiki, heldur var þetta aldafar tilkomið vegna endalausra sjórána. Hugmyndafræði galdrabrennanna má telja innflutt trúarbragðaofstæki í kjölfari siðaskiptanna, komið frá spænska rannsóknarréttinum sem barðist við fjölmenningu í dulargerfi Íslams, sem of langt mál er að gera grein fyrir í stuttum pistli.

Það sem maður áttar sig ekki á í fljótu bragði er sú staðreynd, -að Danir eru mestu sjóræningjar sem að Íslandsströndum hafa komið. Eins og má lesa í þessu mbl fréttaviðtali við Steinunni Kristjánsdóttir fornleifafræðing. Hún gaf út um þessi hugðarefni sín m.a. í bókinni Leitin að klaustrunum. Fyrstu áratugina eftir siðaskiptin voru heilu skipsfarmarnir af dýrgripum úr silfri fluttir frá Íslandi til Kaupmannahafnar.

Steinunn segir; -"Það er tvisvar sinnum minnst á sjóræningjaskip þar sem þau herja á Ísland en Danakonungur stöðvar það, líklega því hann sjálfur vildi komast yfir silfrið, frek­ar en að verja fólkið. Að minnsta kosti upplifi ég það þannig við lestur skjalanna." Spurning hvort lukkupotturinn hún Kristrún forsæta, ætti ekki allavega taka eins og eitt Trump á Rósenborgar silfurljónin við fraukuna Fredriksen áður en anað er í ESB. Það var ekki einungis svo að Danir afvopnuðu landann og hirtu silfrið. Bókmenntirnar með ættartölunum fóru sömu leið, þó svo að við höfum fengið eitthvað af  því lesefni til baka.

Nú virðast málsmetandi Íslendingar vilja láta erlent vald stela af okkur krónunni, -landinn að mestu búinn að gleyma því, að hvorki gekk né rak að komast úr moldarkofunum með þeirri Dönsku eða Skandinavíska ríkisdalnum þar á undan. Það var ekki fyrr en u.þ.b. þegar sú íslenska tók við, -moldarkofarnir að hruni komnir, að eitthvað fór að rofa til, -í upphafi 20. aldarinnar. Húsakostur landsmanna tók svo stakkaskiptum uppúr 1919 með Íslensku krónunni. Þess vegna er ágætt að kynna sér sögu landans í gegnum aldirnar og halda henni til haga þó svo það bjargi ekki öðru héðan af en hugsanlega ósýnilegri stafrænni krónu.

Silfur kaleikar

Píslarsaga séra Jóns Magnússonar er um galdur og geðveiki en Jón fékk feðga brennda á báli í Skutulsfirði, -á Skipeyri þar sem Ísafjarðarflugvöllur er nú. Um það þegar séra Jón tók við Eyrarkirkju árið 1644, sem er þar sem nú er Ísafjarðarbær, -stendur þetta: -Það hefur verið hrörlegt umhorfs í Eyrarkirkju þótt hún héngi uppi, væri sögð "vel standandi", enda hafði kirkjunni ekki verið bættur til fulls skaði úr biskupstíð Gísla Jónsonar, 1579, þegar enskir sjóreyfarar stálu fjölda muna og gengu berserksgang í kirkjunni, brutu gólf, altari og bekki. Greina heimildir frá því að ræningjar þessir hafi nauðgað konum og drepið fjóra menn, en samkvæmt einni þeirra tókst kvenfólki að verða tveimur þeirra að bana.

Píslarsagan hefur að geima bréf, dóma og vísitasíur, auk þess einstaka hugarflugs um galdra sem fór fram í höfði séra Jóns Magnússonar, og hann setti á blað. Í vísitasíu 16. ágúst 1653, meira en 60 árum eftir að sjóræningjarnir voru á ferð í Eyrarkirkju er silfurkaleiks kirkjunnar sárt saknað auk annarra dýrgripa, og ekki fyrr en í vísitasíu árið 1675, tæpum hundrað árum eftir sjóránin, sem sómasamlegur kaleikur er talin aftur kominn í kirkjuna. Píslarsaga séra Jóns Magnússonar eru rúmar 400 bls. af torkennilegu efni á menntamáli 17. aldar, og því engin áhlaupalesning, -en hún þykir einstök í sinni röð.

Það má geta sér þess til að leifar þess Íslandssilfurs, sem sjóræningjar danska kóngsins náðu ekki um, hafi alþjóðlegur lýður sjóræningja gert sér far um að nálgast norður í höf. Þegar heimildir eru skoðaðar um hvaða sjóræningjar voru á ferð í Eyrarkirkju þá má sjá í Öldinni 16. -hans Jóns Helgasonar, að sjóræningjar plöguðu Vestfirði sumarið 1579. Þar eru þeir sagðir Hollenskir og foringi þeirra William Smidt. Þeir rændu Rauðasand tóku menn gíslingu og sigldu með þá til Patreksfjarðar og kröfðust lausnargjalds. Fóru, -á meðan ættingjar skröpuðu saman ættarsilfrinu, norður á firði og rændu og drápu menn í Súgandafirði auk þess að nauðga þeim konum sem þá listi á leiðinni.

6840759750_5f655593dc

Ræningjar þessir stoppuðu við í Skutulsfirði vegna byr-leysis inn Djúp, þar höfðu þeir fregnað að fólk ætti sjóði silfurs. þar sem hægt væri að krefjast lausnargjalds og biðu á Eyri á meðan þess var aflað. Heimildirnar herma að tveir þessara sjóræningja hafi verið drepnir af vestfirskum konum.

Hjónin á Ögri fengu skipstjóra frá Holsetalandi til að fara á fund ræningjanna með lausnargjald, sem safnað var. Um hálftunna af smíðasilfri og slegnum peningum, þar á meðal kvensilfur á allt að þrettán kvenbúninga. Þetta dugði sjóræningjunum ekki og tóku þeir eiða um að meira yrði afhent seinna í Hollandi á gjaldaga sem þeir settu. Annars kæmu þeir árið eftir sjö sinnum verri.

Rétt er að skoða sjórán 17. aldarinnar í ljósi siðaskipta 16. aldar, þó svo að þau gerist áratugum síðar. -Og þá sér í lagi Baskavígin, sem á eftir komu og þykja með ógeðfelldari níðingsverkum sem framin hafa verið af Íslendingum.

Þegar á þessa óöld sjórána leið, þvarr silfrið á heimilum landsmanna og dæmi þess að heimilisfólki hafi þá verið stolið svo hundruðum skipti, flutt úr landi og selt í þrældóm, -þar sem það eina sem gat bjargað því þaðan var lausnargjald kóngsins í Kaupmannahöfn.

IMG_9297

Þegar svokallaðir Tyrkir rændu Berunes við Berufjörð var eitthvað eftir að silfri á heimilum landsmanna, -allavega á Berunesi. En þar bjuggu Bjarni Jónsson silfursmiður og Sigríður Einarsdóttir, dóttir séra Einars Sigurðssonar prests í Eydölum, sem frægur er fyrir að hafa ort eitt af helgiljóðum Íslendinga sem enn er sungið eftir að það verður heilagt, -Nóttin var sú ágæt ein.

Heimilisfólkið á Berunesi flúði í ofboði undan Hundtyrkjanum yfir Strandarfjöllin í Breiðdal, -til ættingjanna á Eydölum. Þjóðsagan segir að orðið hafi að skilja eftir gamlar og veikburða kellingar heima í bæ. Þeim hafði verið komið fyrir á milli þils og veggja svo Tyrkir finndu þær ekki. Sjóræningjarnir brutu upp kistur og koffort í bænum og fundu silfrið, létu það glamra úr greipum sér aftur í kistuna til að bera á brott með sér.

-Ja, svona átti það að fara, silfrið hennar Siggu minnar! -datt upp úr einni kellingunni. Þetta heyrði Hundtyrkinn og misstu hún við það lífið snarlega. – Já þær mættu alveg leiða hugann að því kellingarnar, -af öllum kynjum, ekki síður en þær sem kenna sig við valkyrjur og spranga um síðbuxna, hvernig ættarsilfrið er til komið og hvers vegna formæður þeirra hafa varðveitt það í þjóðbúningnum allt fram á þennan dag.


Móráð skipstjóri

Móráð skipstjóri

Svona til að skerpa tímanna tákn má rifja upp að sumarið 1627 voru gerðar þrjár innrásir hér á landi, -einhverjar verstu hernaðaraðgerðir sem landinn hefur mátt þola. Árásirnar voru engin tilviljun. Um aðdraganda þeirra segir svo í heimildum:

– Historian sjálf byrjast þannin. Af upptökum þeirra ferðalags, kunna menn ekki að segja með fullum sanni. Þó hafa nokkrir sem frá þeim hafa sloppið það svo fortalið að tveir af þeim æðstu í Tyrkjans veldi hafi veðsett það hvorir við aðra hvort mögulegt vera mundi að sækja til Íslands þann minnsta hellustein – þeir þessu kappi fram héldu gjörði annar þeirra út tólf skip sem reisa skyldu til Íslands – þar heyrst hefur eftir þeim grimmu morðingjum að eitt barn héðan skyldi kosta í Asíulöndum 300 dali.

Ætla mætti að 12 skip hafi lagt úr höfn í Barbaríinu og sigld áleiðis til Íslands. Heimildir eru til um fjögur skip af þessum toga sem komu að íslandsströndum þetta sumar. Eitt til Grindavíkur tvö til Austfjarða, þar sem það þriðja bættist við úr hafi þegar þau skip héldu suður með landi til Vestmannaeyja. Leiðangrar þessir voru tveimur skipum ríkari þegar haldið var til baka og höfðu í lestum skipanna um 400 Íslendinga sem seldir voru á þrælamörkuðum Barbarísins.

Ósennilegt verður samt að teljast að tveir af æðstu mönnum Tyrkjaveldis hafi skipulagt árásirnar. En skipstjórarnir voru báðir kallaðir Murate Reis upp á Barbarísku, en Murate eru algeng Arabísk og Tyrknesk nöfn, -reis er orð yfir skipstjóri.

Það er meir að segja ólíklegt að þessir tveir sjóræningja kapteinar hafi lagt á ráðin í sameiningu um Íslandsferðina sumarið 1627. Sá fyrri kom í júní, skömmu fyrir Jónsmessu, -til Grindavíkur og rændi bæði Danska kaupstaðinn og hertók Danskt kaupskip, -auk þess að hernema 15 Grindvíkinga.

Síðan sigldi sá kapteinn tvískipa vestur fyrir Reykjanes inn á Skerjafjörð og gerði atlögu að Bessastöðum sem mistókst. Skotið var að skipunum þegar þau nálguðust Seiluna, hörfuðu þau þá frá og annað þeirra, -sjóræningja skipið, tók niðri á Lönguskerjum.

Þegar skipið losnaði var haldið vestur undir Snæfellsnes, og eru talin hafa verið áformuð sjórán við Vesturland. En hætt hafi verið við þegar vart var við herskip sem fylgdu erlendum fiskiskipum hér við land. Var þá stefnan tekin suður í haf til heima hafnar, -Salé í Marokkó.

Annar leiðangur og öllu ískyggilegri kom upp að Austfjörðum stuttu síðar þetta sumar. Voru þar á ferð tvö skip, -annað firna stórt. Þau komu inn á Berufjörð 6. júlí um sólarupprás og köstuðu akkerum úti á firðinum, -milli Djúpavogs sunnan fjarðar, og Beruness norðan fjarðar. (Sé tekið mið af Júlíanska tímatalinu, sem var notað til 1700, þá hefur dagsetningin verið 16. júlí.)

Djúpivogur

Djúpivogur, gömlu Dönsku verslunarhúsin til vinstri, Strandarfjöll ofan Beruness sjást yfir þokuröndina, handan fjarðar á Berufjaðarströnd. Sjóræningjaskipin köstuðu akkerum þar sem farþegaskip gera það þessi árin og setja fleiri hundruð farþega í land á léttabátum

Skotið var strax út bátum og farið að Dönsku verslunarhúsunum á Djúpavogi og allt fólk þar hertekið í svefnrofunum, -ásamt skipverjum Dansks kaupskips. Farið var með þetta fólk út í skipin. Skömmu síðar voru bátar sendir til beggja átta út frá skipunum, bæði til Djúpavogs og Beruness. Talið er að um 300 þrautþjálfaðir hermenn hafi tekið þátt í aðgerðinni.

Strax varð ljóst hvað fyrir þessu liði vakti. Komst hluti af þeim sem vöknuð voru á Berunesi til fjalls, -upp í þokuna sem lá niður í miðjar hlíðar. Þaðan yfir fjöllin til Breiðdals, ekki voru samt allir svo heppnir á Berunesi og varð gamalt fólk og veikburða fyrir barðinu á Barbörunum og lét þar líf sitt. Eða svo segja sagnir frá fyrstu landtöku þessa liðs á Berufjarðarströnd;

– og hittu fyrst smalann frá Berunesi, hvör er var hálfvaxinn piltur, Páll að nafni. Hann tóku þeir og reyrðu böndum og létu liggja svo í vegi fyrir sér til þess þeir færu aftur til baka. – þann pilt er þeir fyrst fundu, hann lá bundinn í einu klettaeinstigi til þess þeir héldu aftur til skips, tóku hann síðan og skáru fyrir þvert andlitið, flettu svo augabrúnunum ofan fyrir augun. Síðan skáru þeir hans báða huppa fyrir neðan síðurnar og lét hann þar sitt líf, þar sem síðan kallast Pálsgjögur.

Ekki er meiningin að gera atburðarásinni í landi tæmandi skil í þessum pistli enda má um hana fræðast í Tyrkjaránssögu. Pistlinum er ætlað að varpa ljósi á hverjir voru skipstjórar þessara skipa og hverskonar illþýði áhafnir þeirra höfðu að geyma.

Skipin héldu síðar austur með fjörðum þar til þau snéru við Reyðarfjörð. Úr hafi kom svo þriðja skipið og hélt þessi floti suður með landinu allt til Vestmannaeyja með afleiðingum sem flestir þekkja. Því þegar þessi herflokkur kom til Vestmannaeyja voru aðfarirnar hrikalegar og flestar lýsingar óhugnaðurinn einn.

Þegar skipin yfirgáfu Eyjar hafði þessi her tekið vel á fjórða hundrað manns í lestar skipanna og drepið um fimmtíu í landi, -fyrir austan og í Eyjum. Í kveðjuskyni smöluðu þeir gamalmennum inn í Dönsku verslunarhúsin og lögðu að þeim eld. Þegar skipin sigldu út með Heimakletti flutu lík í kjölfarinu. 

– þeir tóku að kveikja eldinn sinn í hvoru húsi, en sem þar var fyrir þeim ein kona sem þoldi ei að ganga með þeim herteknu gripu þeir hana strax með sínu tvævetru barni og köstuðu báðum á bálið. En sem hún og barnskepnan veinuðu, kallandi á guð sér til hjálpar, grenjuðu þeir með óhljóðum, hrindandi þeim með spjótsoddum inn í bálið sem þau út skriðu, og pikkuðu svo líkamina í brunanum.

Tyrkja Gudda

Já hverjir voru þessir Muratar sem fóru fyrir þessum óaldalýð, og hvaðn komu þeir? -í sumum íslenskum textum eru þessir skipstjórar kallaðir Amórað og Mórað Fleming. Kemur skýrt fram að þarna er ekki um sama manninn að ræða, og sennilegast tvo svo til óskylda leiðangra.

Talsverðar heimildir eru um Murate Reis (Amórað) frá Salé í Marokkó, þann sem fór fyrir árásinni á Grindavík. Sá maður hét upphaflega Jan Jansson og var frá Haarlem í Hollandi. Hann hafði verið hertekin af sjóræningjum úr Barbaríinu þegar hann var á skipi á Lanzerote á Kanaríeyjum. Síðan seldur á þrælamarkaði í Salé.

Jan Janson gerðist trúskiptingur, enda það eina leiðin til að eiga mannsæmandi líf sem þræll í Barbaríinu. Hann nýtti fljótlega kunnáttu sína og gerðist sjóræningi sem vann sig upp í að verða virtur flotaforingi í Salé.

Talsvert er til um Jansson m.a. vegna þess að hann skrifaði bréf til yfirvalda í Englandi og reyndi að fá þar hæli, en það var því sem næst vonlaust fyrir Múslima á þessum tíma að fá hæli í Evrópu, hvað þá trúskiptinga sem stundað höfðu sjórán. Vitað er að hann kom til Hollands og hitti fjölskildu sína, en þar hafði hann verið kvæntur og átti börn áður en hann var seldur í þrældóm.

Ein Hollensk dóttir Jans Jansson heimsótti hann til Marokkó og settist að í nágreni Salé um tíma. Hann var margkvæntur í Marokkó og á m.a. afkomendur í Ameríku sem settust í fyrstu að í New York sem þá hét New Amsterdam. Murat Reis komst ekki aftur til Evrópu hann endaði sína ævi sem ríkur maður í Marokkó.

Uppruni hins Murat Reis (Mórað Fleming) er meira á huldu og það eru m.a. íslenskar heimildir sem gera það full ljóst að um tvo menn er að ræða þegar Murate Reis er annars vegar. Til eru heimildir í Algeirsborg um mikinn flotaforingja sem kallaður var Murate Flamenco Reis. Sá var upprunalega frá Antwerpen.

Talið er að Fleming hafi verið atvinnulaus málaliði úr stríðum Evrópu. Hann hafi siglt til Alsír, gerst þar trúskiptingur, tekið upp nafnið Murate og farið fyrir sjóránum frá Algeirsborg, enda var það ábatasamt. Fram kemur í sögnum af Tyrkjaráninu að stór hluti áhafna hans hafi verið Evrópumenn, m.a. Danir, Englendingar og Þjóðverjar.

Sagnir úr Vestmanneyjum geta þess hvað þessir Evrópumenn voru miskunnarlausir, mun verri en norður Afríku mennirnir sem í áhöfnunum voru. Einn Danskur maður er sértaklega nafngreindur og talinn hafa verið oft áður við Ísland og leiðangrinum til ráðuneytis.

Á suðvestur Írlandi í bænum Baltimore var gerð svipuð innrás fjórum árum seinna, eða 20. júní 1631, -um sumarsólstöður. Norður-Írski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Des Ekin hefur kafað í það sjórán og gefið út um það bók sem heitir: The Stolen Village - Baltimore and the Barbary Pirates.

baltimore cove

Baltimore, -The Cove er fyrir miðri mynd

Des Ekin kemst að þeirri niðurstöðu að sá sem þar fór hafi verið Morate Reis. Hann telur að vísu að Morate Reis sé einn og sami maðurinn, Jan Janson, -og hafi bæði verið flotaforingi í Salé og Algeirsborg. Íslenskir heimildir sanna það að þessir Muratar voru sitt hvor maðurinn og sá sem rændi Baltimore var Móráð Fleming, það sést á því að hann átti heimahöfn í Algeirsborg í Alsír þar sem hann seldi fólkið frá Baltimore á þrælamarkaði.

Í Baltimore var rænt 109 manns, sem er svipaður fjöldi og við Berufjörð. Það sérstaka við Baltimore ránið er að fólkið sem hertekið var þar voru einungis Englendingar, en ekki Írar eins og ætla mætti, þetta sást m.a. á nöfnunum.

Fólk sem var selt á þrælamarkaði var yfirleitt nafngreint og haldið um það bókhald í Barbaríinu. Því stór hluti af ágóða mansals gátu verið lausnagjöld að heiman. Ekki er vitað nema um tvær konur frá Baltimore sem snéru aftur.

Bókin Stolen Village er yfir 400 bls og frekar torlesin en vel þess virði að halda athyglinni til enda. Því ránin í Baltimore virðast hafa verið þaulskipuleg aðgerð. Sá hluti bæjarins sem var rændur, var fátækt fiskimannaþorp og sá hluti byggður Englendingum. Þeir höfðu fengið þar ábúð samkvæmt flókinni atburðarás og samningi í 21 ár.

Des Ekin leiðir að því sannfærandi líkum eftir skriflegum skjölum þessa tíma, sem allt of langt mál er að gera skil í stuttum pistli, að Írskur landeigandi, sem bjó þá á Spáni, hafi gert samning við Murate Reis um að fjarlægja Enska fólkið úr bænum.

Því Englendingarnir virtust hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að fólkið þyrfti ekki að yfirgefa The Cove í Baltimore samkvæmt samningnum, það ætti því sem næst orðið landið samkvæmt úrskurði Enskra yfirvalda þess tíma.

Það var svo upp á dag, 21 ári eftir að samningurinn var gerður, og hann þann dag útrunninn, -sem Murate Reis kom með flota sinn og rændi þann hluta Baltimore sem kallaðist The Cove og var byggður Englendingum. Aðra hluta Baltimore lét hann í friði.

Það sem Enskum yfirvöldum undraði mest var að sjóræningarnir skildu ekki ráðast á bæ í nágreninu, sem var mun ríkari. En þar voru reyndar Ensk varðskip til varnar því þeir vissu af  Murate Reis rásandi um með skip sín við strendur suður Englands og Írlands.

Það má því fastlega gera að því skóna að Tyrkjaránin við Íslands strendur sumarið 1627 hafi verið þrælskipulögð hernaðaraðgerð. Þó svo ekki sé víst að þessir tveir Muratar hafi verið þeir sem veðjuðu. Murate frá Marokkó virðist hafa verið annars eðlis. 

Í áhöfnum Móráð Fleming flotaforingja frá Alsír voru allra þjóða kvikindi. Hans hertækni var að yfirvinna aðstæður með fjölmenni og lamandi ógn. Þeir sem sýndu minnsta vott um mótþróa voru umsvifalaust drepnir eða misþyrmt á grimmilegan hátt.

Svo sögðu sumar heimildir úr Eyjum að það hafi verið Íslendingur sem lóðsaði 300 hermenn upp á Heimaey. Á stað þar sem heimamenn áttu sér þess síst von að ókunnugt herliðið kæmist á örskotsstund í land. Þar heitir nú Ræningjatangi.

Ræningjatangi

Brimurð og Ræningjatangi á sunnanverðri Heimaey þar sem 300 hermenn tóku land sumarið 1627

Skógabók segir m.a. svo frá hörmungum Eyjakvenna þegar ræningjarnir fóru um Heimaey: -"Tvær kvensniftir urðu eftir sem seinfærar voru. Önnur þeirra kvenna hafði tvö börn, þau með móðurinni emjuðu ógurlega, en þeir tóku börnin og brutu þeirra háls í sundur, síðan hvört bein mölvuðu þeir í sundur við klettana og köstuðu þeim síðar í sjó, en móðurina með gríðarlegum hljóðum svo ei mátti standast það að heyra. En þeir tóku hana með hinni, lágu þær í þessum hörmungum sem þær höfðu, höfðu þær svo með sér að Dönsku húsum"

Heimildir:

Skógabók

Reisubók Ólafs Egilssonar

Karl Smári Hreinsson

Corsairs and Captives/Adam Nichols

Stolen Village/Des Ekin


Dömufrí


Spekingar spjalla


mbl.is Eins og Trump hafi einsett sér að niðurlægja Selenskí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband