10.7.2024 | 17:01
La Grange - hrútaskýringar eru ekki flóknar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.7.2024 | 07:25
Kellingarnar í framsókn
Það er verið að kellingavæða þetta allt saman sagði Óli Þórðar þegar hann hætti í boltanum um árið og fór aftur að keyra vörubíl. Já það er margt merkilegt í kýrhausnum þegar það er sett í samhengi gullfiskaminnisins.
Sumarið 2022 var spretthóp startað til að koma suðkindinni fyrir kattanef. Gunnarsstaðamóri var fenginn til að hlaupa með keflið enda alið allan sinn aldur við jötuna. Þá reyndar komin á eftirlaun sem ekki dekka ferðkostnað á lögheimilið sem nú er komið í sameign auðróna dorgandi á Old Traffort.
Það verður ekki annað sagt en að sprettur móra hafi verið snarpur, suðfé hefur sennilega ekki verið færra á fróni frá landnámi, -ef móðuharðindin eru undanskilin, - og hefur fækkað um tugi þúsunda síðan sprettinum lauk.
Í framhaldinu taka alþingi og afurðastöðvar sig saman um að kaupa út offjárfestinguna fyrir milljarða á kostnað bænda og neytenda til að geta haldið henni áfram með þeim formerkjum að samkeppnin við suðkindina komi að utan.
Jötuliðið situr svo út á Tene lungan úr árinu, -semur ályktanir með þeim orkupökkunum Guðna og Valgerði á bak við eldavélina, -sendir síðan hugheilar kveðjur heim á klakann.
Segir samkeppnina frá útlöndum mikla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2024 | 05:50
Hindurvitni og kynjasögur
Nú er fyrsti dagur í sumarfríi og þó svo að helgin hafi verið köld þá lofar þjóðtrúin framhaldinu góðu. Nýtt tungl var á föstudag og stórstreymi í gær. Samkvæmt gömlum hindurvitnum á veðrið ekki að geta klikkað og fræðingarnir spá nú 20°C og yfir ágerist þegar á vikuna líður hér Austanlands, en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni það sem af er sumri.
Það styttist því í að setið verði á sólpallinum úti við ysta haf og horft út á hafið bláa hafið yfir á Kambanesið við prjónaglamur og kaffiilm. Sólhóll, guli bárujárnshjallurinn okkar Matthildar minnar, stóð áður á Kömbum á Kambanesi, eða allt til ársins 1944 en húsið var byggt á Kömbum fyrir hart nær hundrað árum.
Í tilefni þessa ætla ég að setja hér inn kynjasögu sem er brot úr frásögn sem birtist í nýjasta hefti Múlaþings, -og mér þykir stórmerkileg. Ekki bara fyrir tenginguna við Kamba, heldur vegna þess að þar segir ungur drengur þjóðsögur. Þetta er brot úr endurminningum Guðbrands Erlendssonar sem fluttist ungur til Kanada og bjó síðar í N-Dakota.
Amerískur fræðimaður fann handrit Guðbrandar eftir hans daga og þótti skrifin merkileg. Kom til landsins og alla leið austur á Kambanes og fékk Sturlaug Einarsson á Heyklifi á Kambanesi til að sýna sér staðhætti. Síðar sendi hann Stulla vini mínum kafla úr handritinu sem tekur til ára Guðbrands á Kömbum á milli 5 og 11 ára aldurs.
Það er ótrúlega margt sem kemur fram í þessu stutta handriti, sem í vor var birt í ritinu Múlaþing, er kastar ljósi á mikla atburð. Sagnir sem hingað til hafur ekki verið hægt að heimfæra á sannfærandi hátt því brot af sögu þessari eru einungis til í þjóðsagnasöfnum.
Fyrir tveimur árum birti ég frásögn Guðjóns Brynjólfssonar Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja en þar er sagt frá fiskibátnum Hamarsfirði. Margt í þeirri frásögn hafði hnikast til um ættlið og varð því þjóðsaga en ekki talin áreyðanleg heimild.
Í byrjun frásagnarinnar af seglbátnum Hamarsfirði er sagt frá hákarlaskútunum á Djúpavogi og dapurlegum afdrifum nokkurra þeirra. Í handriti Guðbrands er nákvæm lýsing á hvað kom fyrir hákarlaskúturnar og hvað þær hétu.
Svona getur nú þjóðsagan verið merkileg þegar kurl koma til grafar. Reyndar er mun fleira stórmerkilegra sagna í þessu stutta endurminningabroti ungs drengs frá Kömbum á Kambanesi frá miðri 19. öldinni en það sem hér birtist. Móðir Guðbjartar átti t.d. 3 eiginmenn og missti þá alla áður en hann varð 6 ára, tvo í hafið og faðir Guðbrandar, sem var í miðið, -úr lungnabólgu.
Hann segir frá skyggni móður sinnar þegar þriðji eiginmaðurinn fórst á sjó við Kambanes og orðum hennar; -mér er ekki tamt að æðrast en nú er öll von úti. Og þegar nágranni kom í Kamba til að tilkynna henni sjóslysið; -þú munt kominn til að segja mér sorgartíðindi, segðu mér allt sem þú veist um þau, ég er undir það búin að hlusta á þau. Og þegar komumaður lauk máli sínu; -enn á ný hef ég mikið misst, -en Guð gaf og Guð tók, sé nafn hans vegsamað. Hann gaf mér þrjá ágætismenn, hann átti frjálst með að kalla þá á undan mér.
Þó svo að nú sé sumar og gleðjist gumar því gaman er í dag og brosi veröld víða veðurlagsins blíða, þá ætla ég að hefja þessa blíðviðrisviku í sumarfríinu á því að birta frásögn Guðbrandar frá Kömbum af bátabylnum eins og hún er í Múlaþing. En til að skilja til fulls hversu merkileg hún er er rétt að lesa líka frásögn Guðjóns Brynjólfssonar af sjóhrakningnum frá Djúpavogi.
Færeyingar gerðu út skútur lengur en Íslendingar, hér er ein slík á Stöðvarfirði sumarið 1944, sama sumar og húsinu á Kömbum var fleytt af Kambanesi yfir Stöðvarfjörð þar sem það fékk nafnið Sólhóll
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Bátabylurinn
Hvort hinn svonefndi Bátabylur átti sér stað vorið 1850 eða árið 1849 get ég ekki sagt með vissu en það sem ég man til hans er þetta. Ekki blöktu hár á höfði, ég geng með mömmu út að fiskiklöppinni, þar fleygja þeir upp fiski úr Spes, faðir minn og Ólafur á Einarsstöðum binda hana svo við klöppina til þess strax og þeir höfðu neytt miðdegisverðar að sækja aðra hleðslu út á Stöðvarfjörðinn.
En þegar þeir voru að stíga í bátinn brast í byl svo snarpan að þeir áttu erfitt með að koma bátnum í naustið. Grimmdarfrost og fannkynngi hélst upphaldslaust í marga daga. Loks þegar veður þetta hætti gerði logn og sást þá frá Gvendarnesi bátur er barst með sjávarfalli. Reyndist þetta vera Morgunnroði, skipaður dugandi mönnum er allir höfðu látið lífið og lágu í bátnum.
Það var mál manna að þeir hefðu haldist við undir skeri á milli Skrúðs og lands. Morgunnroði hafði dekk í fram og afturskut, opinn í miðju, sömuleiðis setubátarnir Fortúna og Berufjörður. Eina skipið sem bjargaðist var þilskipið Bóthildur, sex lesta skip, var formaður hennar Einar á Streiti, tengdafaðir Sveins Pálssonar. Einn af hásetum hennar var Sigurður föðurbróðir minn.
Ég man eftir ýmsu er ég heyrði hann segja föður mínum rétt eftir bylinn. Bóthildur lá til drifs meðan á veðrinu stóð. Urðu skipsmenn því ekki lítið undrandi er þeir sáu Fortúna með segl uppi skjótast fram hjá þeim, það var það seinasta sem til hennar sást. Ekki gátu þeir á Bóthildi eldað sér mat, gerðu þó tilraun til þess, en þeir höfðu skjólið undir þiljum, það hélt í þeim lífinu. Þegar veðrinu létti hafði þá drifið langt í haf. Tók það langan tíma að sigla til lands.
Á öllum þessum bátum voru eftir því sem ég heyrði sagt úrvals menn. Hér tek ég upp sögu sem er ég heyrði Höskuld Bjarnason á Þverhamri segja:
Við skutum út bát fjórir saman og rerum út til flæmskrar fiskiskútu sem lagst hafði innarlega á Breiðdalsvíkinni. Eins og við áttum að venjast tóku Flandrarar vel á móti okkur. Eftir þáðar veitingar undir þiljum stönsuðum við á dekkinu, gengur þá að mér einn skipsmaðurinn, horfir stíft á mig og spyr Heitir þú Höskuldur? Ekki átti ég því að venjast að heyra nafn mitt svona skýrt nefnt af útlendum manni eins og maður þessi gjörði, játa því og spyr hvernig honum sé kunnugt um nafn mitt, af því segir hann, að þú ert svo líkur bróðir þínum Stefáni. Hvar hefur þú séð hann? spyr ég. Tvö ár eru liðin síðan við landsmenn mínir vorum hér undan landi í því versta veðri sem ég hef litið. Það var á öðrum degi bylsins að skip það er ég var háseti á bar að bát sem var að sökkva í bylgjur hafsins. Það eina sem við gátum gert fyrir vesalings skipshöfnina var að kasta út kaðli um leið og okkur bar framhjá bátnum. Þrír náðu haldi á kaðlinum er við skjótlega drógum inn í skipið. Þeir voru Stefán bróðir þinn, Brynjólfur Jónsson og danskur maður sem var kapteinn bátsins. Lét ég í ljós að mér þætti þetta ekki sennilegt: Óhætt er þér að trúa því sem ég segi og því til sönnunar get ég sagt þér að Stefán á hér konu og börn en ekki mun hann hingað leita því hann er giftur og á búgarð í Frakklandi.
Gleymt hef ég hvað hann sagði börnin mörg en rétt sagði Flandrarinn um það. Höskuldur sagðist ekki hafa ástæðu til að rengja þessa sögusögn, spurði manninn hvort hann gæti komið bréfi til bróður síns og játaði hann því, en ekkert hef ég fengið svar upp á bréfið sem ég skrifaði bróðir, sagði Höskuldur.
Þórunn í Snæhvammi var kona Stefáns þessa og Jón maður Guðrúnar Vigfúsdóttur sonur þeirra. Guðrún kona Ólafs Einarssonar var dóttir þeirra en Erlendur Höskuldsson sem ég minntist á í Markland var sonur þess hér oft nefnda Höskuldar. Brynjólfur Jónsson var sonur Guðnýjar á Reyðará í Lóni, hún var systir afa, Brynjólfs á Hlíð í Lóni.
Þetta þótti kynjasaga en sökum rökfærslu hásetans var henni trúað. Yfirleitt þótti það kynlegt að mennirnir skyldu ekki vitja átthaga sinna, sögðu þá sumir að það væri nú ekki svo óskiljanlegt með Stefán því kalt hefði verið með þeim hjónum en hvað Brynjólf snerti væri það ráðgáta.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Þarna koma sömu skipsnöfn fram á hákarlaskútunum sem fórust frá Djúpavogi og í Hrakningasögu bátsins Hamarsfjarðar til Vestamannaeyja, þ.e. Morgunnroði og Fortúna auk þess nafn þriðju hákarlaskútunnar sem fórst -Berufjörður, en nafn hennar þekkti Guðjón Brynjólfsson ekki í frásögn sinni sem birtist Þjóðasagnasafninu Grímu. Ekki hef ég séð þess getið annarstaðar að allar þessar hákarlaskútur hafi farist í einu og sama veðrinu.
Eins kemur nafn Brynjólfs frá Hlíð í Lóni fram í báðum frásögnunum og ýmis fjölskyldutengsl. Virðast Guðný móðir Guðbrands Erlendssonar og Hildur amma Guðjóns Brynjólfssonar hafa verið systur báðar Brynjólfsdætur frá Hlíð í Lóni. Þarna eru brot úr stórri sögu skútuútgerðar til hákarlaveiða við Ísland varðveitt í þjóðsögum og endurminningum í Vesturheimi.
Dægurmál | Breytt 9.7.2024 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2024 | 05:53
Steiktar spýtur - saga úr mygluhjallinum
Ég var spurður að því á steypuandaktinni í tíukaffi um miðja vikuna hvort ég væri búin að messa yfir einhverjum vitleysingnum þann morgunninn. Ég sagðist hvorki messa né tala við vitleysinga á morgnanna. Félagarnir ráku þá upp stór augu og sögðu það vera misminni, -hvort ég væri búin að gleyma kaffitímanum frá í gær.
Það fauk reyndar í mig í vikunni, kannski ekki allt í einni hviðu, en vindstyrkurinn fór vaxandi eftir því sem á vikuna leið. Þannig er komið á Íslandi að þeir eru metnir mest sem minnsta ábyrgð bera og minnst gera. Óþekkt er t.d. að þeir sem sitja í nefndum, setja lög, eða gefa út reglugerðir, -beri ábyrgð á afleiðingunum.
-Já, og það er óþarfi að vorkenna Haarde vegna Landsdómsins. Hann fékk uppreist æru bæði með stöðu og aurum. -Nei, það fauk í mig vegna hins vinnandi manns sem er neyddur til þess að vera á rangri hillu í lífinu með reglugerðum.
Ég hafði fengið sérkennilegt símtal daginn fyrir fokið, þar var ég beðinn um að staðfesta rafrænt ábyrgðaryfirlýsingu múrarameistara. Ég kannaðist hvorki við byggingaráformin, sem ég átti að staðfesta, né að ég hefði verið beðin um slíkt. En þannig er að byggingastjóra ber að safna saman meistaraábyrgðum þeirra iðnmeistara sem hann er með á sínum snærum, -ábyrgðum sem ganga út yfir gröf og dauða. Ég hélt að byggingastjórinn hefði hringt, maður sem þekki vel af góðu einu, en hann er eigandi verktakafyrirtækis.
Byggingastjóri kaupir tryggingu sem gildir til 5 ára eftir að bygging hefur verið tekin til lokaúttektar. Framkvæmdaaðili á ekki að vera bæði byggingastjóri og iðnmeistari en verktaki getur lagt til byggingastjóra. Oftast er eitthvert ehf byggingaraðili. Byggingastjórinn getur líka verið kostaður af ehf, en þarf að hafa persónulega staðfestingu regluverksins og tryggingu sem hann kaupir er hjá tryggingafélagi. Byggingastjóratryggingin tekur til tjóns upp að vissu marki, í hana á endanlegur eigandi að geta leitað vegna tjóns komi fram gallar innan tímarammans (5 ár).
Meistaraábyrgð gildir aftur á móti út yfir gröf og dauða og ber að vera á persónulegri kennitölu iðnmeistara. Í reynd gamall draugur frá því að byggingameistarar byggðu og seldu hús út í eigin reikning. Til að farmafylgja þessum draugagangi, nú á tímum byggingastjórans, þarf eftirlit sem framkvæmt er af verkfræðistofum, skoðunarstofum á við Frumherja og svo kölluðum öryggisfulltrúum. Mikið til fólki sem ekki hefur hundsvit á byggingum, en getur farið yfir gátlista um bókhald yfir dagsetningar og gula hjálma, -kallað gæða- og öryggiseftirlit, undir yfirumsjón Mannvirkjastofnunar ríkisins.
Það var samt ekki út af þessu sem fauk í mig þegar leið á vikuna því út af þessum meistara draug hefur svo oft fokið í mig. Draug sem er ættaður úr örófi aldanna, þegar byggingameistarar máttu hanna, byggja og selja hús út í eigin reikning og eðlilegt þótti að þeir ábyrgðust sín verk. Hús eiga meistarar helst ekki byggja í dag, sem slíkir, og geta það ekki samkvæmt reglugerðinni nema með byggingastjóra samþykktan af Mannvirkjastofnun. Nú eru það fjárfestar sem helst geta og eiga að byggja hús, -hanna og selja, með byggingastjórann sem sverð og skjöld úti á mörkinni, -en eftir sem áður út á ævilangar persónulegar ábyrgðir byggingameistara.
Það fauk hins vegar í mig vegna þess að fyrr um vinnufélagi, sem hefur verið frá steypu í 10 ár, eða svo, ákvað að koma aftur í steypuna fyrir skemmstu. Hann tilkynnti mér snemma í vikunni að þetta yrði síðasta vikan okkar saman í steypunni að þessu sinni, -því sem næst nýbyrjaður. Ég hváði og spurði; -hvers vegna? - okkur framkvæmdastjóranum semur ekki um launin; -sagði hann. Síðan tjáði þessi félagi í steypunni mér á hverju steytti og sagði að hann hefði haft betri laun við að afgreiða spýtur og myglugips í Húsasmiðunni.
Ég sagði honum að þetta væru ágætis laun í þessum steypu bransa, sem honum væri boðið upp á, og væru nokkurn vegin á pari við mín. -Og þó svo að hann væri enn á besta aldri þá hefði ég þann djöful að draga að vera með réttindi, sem nýttust fyrirtækinu til verkefnaöflunar, -þó gamall draugur væri. Hann sagðist ekki geta sleppt betri launakjörum fjölskyldumaðurinn, -þó gaman væri að steypa. Honum stæði til boða að koma aftur í Húsasmiðjuna og afgreiða myglugips og spýtur.
Þetta skyldi meir að segja ég steypukallinn, -og lét talið niður falla. Þegar við strákarnir vorum komnir á verkstað þá hringdi síminn og aftur var farið að impra á því hvort ég ætlaði ekki að ganga frá þessari meistaraábyrgð sem hringt hafði verið út af daginn áður. Í þetta sinn var það ekki sá sem hringdi þá heldur verkfræðingur af stofu í Reykjavík sem ég man ekki lengur hvað e-há-effið heitir.
Ég spurði verkfræðinginn hvernig hann tengdist málinu, hann sagðist vera byggingastjórinn. Ég sagði honum að það væri gott að fá að skýra þennan misskilning út fyrir honum. Því að það væri byggingastjórans að samþykkja iðnmeistara á verk og ég hefði ekki heyrt fyrr en í gær að ég væri múrarameistari á verki hjá fyrirtæki sem ég starfaði ekki hjá. Hann sagði að það skipti engu máli ég þyrfti ekkert að koma að því að vinna verkið bara mæta í úttektir, eða ekki -og hvort sem ég gerði, að með því væri samþykki mitt fengið fyrir að allt sem við kæmi steypu, væri gert samkvæmt bókinni.
Þessi verkfræðistofa í Reykjavík er að selja ákveðna byggingaraðferð fyrir þriðja aðila og framkvæmdin er hafin fyrir hálfu ári síðan, án þess að gengið hafi verið frá byggingaleyfum, en nú væri komið að því að ekki yrði lengur undan vikist, -sagði hann. Ég sagðist ekki taka þátt í svoleiðis ábyrgðayfirlýsingu, enda hefði ég oftar en einu sinni þurft að mæta fyrir dóm og vissi hvað það gæti kostað persónulegar kennitölur, sem ekki mættu, þegar í harðbakkann slægi fyrir dómi, -væri ekki allt samkvæmt verklaginu.
Svo var það þegar við vinnufélagarnir vorum á andaktinni í tíu kaffinu í steypuverksmiðjunni að enn einu sinni var hringt út af þessari múrarameistaraábyrgð. Í þetta sinn var það sá sem hafði sagt að ég tæki það að mér að lýsa yfir ábyrgð, að vísu án þess að bera málið undir mig áður, en eftir áreyðanlegum heimildum þriðja aðila. Verkakafyrirtæki hans og félaga hans, sem fyrstur hringdi í vikunni, myndi sjá um verkið fyrir verkfræðistofuna sem byggingastjórinn vann hjá sem hringt hafði hálftíma áður og þeir hygðust fá fyrirtækið sem ég starfa hjá til að vinna einn ákveðinn verkþátt.
Það var þá sem rokhvessti og ég fauk upp, en kom mér ekki nógu hratt út úr kaffistofunni, -úr heyranda hljóði, áður en ég las þessum koleiga mínum óbóta pistilinn.
Það má segja að það sé orðið fyrir lögnu svo, að þeir blýantanagarar sem skipuleggja bókhaldið í termítahjallinum, en eru ófærir um framkvæmdina, séu búnir að koma exelnum svo snilldarlega fyrir í rotnandi mygluunni með bókhaldið eitt að vopni, að þeir sem geta framkvæmt verkið skuli bera minnst úr bítum, nema þá að þeir séu tilbúnir til að afgreiða myglugips, -meðan pappakassarnir á stofunum, sem möndla keysið, -fleyta rjómann.
Það styttist sem betur fer óðum í að ég setjist á helgan steyptan stein og tálgi spýtur, -en ekki hef ég geð í mér til að afgreiða þær úr Húsasmiðjunni, -þó svo að hún borgi betur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2024 | 05:22
Hrossalækning á blæðandi þjóðvegi
Það má segja að ekki hafi gefist neitt sérstaklega vel að dýrlæknavæða Vegagerðina. Nú blæðir þjóðveginum allan hringinn eftir tilraunir með ræktaða repjuolíu sem slitlag. Auk þess kemur dýralæknunum í opna skjöldu að burðarlagið í vegunum er handónýtt af viðhaldsleysi.
Það var dýralæknir í ráðherrastól sem fannst fara best á því að ráða dýralæknii, sem forstýru vegagerðarinnar í öllum femínismanum um árið, -sælla minninga. Flestum hefði þá komið til hugar að verið væri að hengja bakara fyrir smið, -en ekki dýralæknunum.
Nú vill svo til að dýrlæknirinn sem hóf dýrlækningarnar á blæðandi þjóðveginum er hættur í innviðunum og komin í fjármálin. Sá náttúrulega um leið að best færi á að slaufa samgönguáætluninni, enda ríkiskassinn miklu meira en galtómur.
Dýralæknirinn sá undirritaði um daginn erlent lán frá Þróunarbanka Evrópu, reyndar bara til vonar og vara vegna Grindvíkinga. Svo datt honum það snjallræði í huga núna í vikunni að Ísland yrði fyrsta þjóðríki veraldar til að gefa út kynjað ríkisskuldabréf. Kannski vegna skólasystur sinnar, -hver veit.
Já við gullfiskarnir munum varla lengur hvernig fór síðast þegar var dýrlæknir í fjármálunum, -en þá þurfti að hengja marga bakara og smiði. Á meðan dýrlæknirinn sá sagði; sjáið þið ekki veisluna drengir! -flaug síðan suður um höfin á sólgilta strönd.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.6.2024 | 20:05
Upplýsingaóreiðan á óvissustigi
Það hefur fátt farið hærra síðast sólahringinn en árás Rússa á Árvakur. Ef hún var ekki að undirlagi rússnesku mafíunnar, þá mætti helst að ætla að Pútin sjálfur hafi átt frumkvæðið. Litla lukkudísin sem kom í veg fyrir falsfréttir á Íslandi sagði reyndar á facebook að þetta hefði verið árás á sjálft lýðræðið.
Síðan tók sú lýðræðiselskandi undir, -einmitt sú sem er allt í öllu hjá Blaðamannafélagi Íslands, -og taldi þetta árás á lýðræðið, auk þess á sjálft málfrelsið og krafðist opinberrar rannsóknar. Þær ættu svo sem að vita það litlu lukkudísirnar eftir að búið er að koma flestum fjölmiðlum landsins á ríkisspenann, þannig að sjálft Sovétið bliknar með Prövdu að vopni gegn upplýsingaóreiðunni, -sælla minninga.
Því verður varla á móti mælt að best fer á að ráðandi öfl sjái um að málfrelsið fylgi línunni svo ekki verði sagðar falsfréttir. Nú má ætla að siðfræðingarnir í skrímsladeildinni sýni af sér fádæma rannsóknablaðamennsku og niðurstöðum rannsókananna verði útvarpað opinberlega í morgunnsárið á RÚV, sem hefur lagt það í vana sinn að lepja upp upp úr mbl á morgnanna, -eða allt þar til rannsóknablaðamennirnir þar á bæ rumska til skrúfa sjálfir frá gúggluðum krananum á CNN.
Aðferðafræði Morgunnblaðsins í gegnum tíðina við að taka á upplýsingaóreiðunni hefur verið sú að þegja fréttir frekar en að segja, -það er að segja það sem almælt er svona rétt eins og RÚV gerir nú í Namibíusvindlinu. Þannig hefur t.d. öllum fjölmiðlum á ríkisspenanum tekist að þegja bloggið hans Halls Hallsonar í hel, jafnvel þó svo að Hallur hafi verið með lögregluna á hælunum. En hvorki mbl né RÚV tókst samt að segja fyrrverandi flissandi forsætisráðherra til Bessastaða.
Auðvitað er það alvarlegt mál ef slokknar á blogginu í netárásum, því þá fyrst verður málfrelsið fyrir lýðræðislegum skaða. Það gæti meir að segja kaldastríðskumlið átt eftir að láta glamra á milli fölsku tannanna, ranghvolft um leið augunum líkt og gutlandi spæleggjum innan við ferköntuðu flöskubotnagleraugun, -þegar svona bellibrögð eru annars vegar.
Dægurmál | Breytt 25.6.2024 kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.6.2024 | 11:28
Rakalaus þvættingur
Allir vildu Lilju kveðið hafa, stendur einhversstaðar, -hvað þá kveða niður verðbólguna. En það verður ekki gert fyrr en fólk fattar að verðbólgan og hagvöxturinn eru á sömu hliðinni á peningnum.
Það er einkennilegt þegar hagstjórnarséní tala um verðbólguna og hagvöxtinn sem gott og slæmt. Slekti sem græðir á tá og fingri á því einu að snúa eins mikinn aur út úr engu fyrir sjálft sig og mögulegt er, verandi nokkurskonar víxlarar musterisins.
Ef gullfiskaminnið er að hrjá landann þá er þessi Lilja dóttir Donsins sem hóf risarækjueldi upp úr þurru og stóð fyrir byggingu einhvers mesta mygluhjalls sem byggður hefur verið á Stórhöfðanum, í árdaga brunaútsölu innviða almennings.
Þetta slekti þrífst á sköttum, gjöldum og landráðum. Skiptir þá engu hvort hagfræðin á rætur að rekja í Seðlabankann, Samtök atvinnulífsins, ASÍ eða stjórnarráðið. Aurasálir sem þrífast á því að flytja inn túrista og þjónustulið og hirða mismun. Húsnæðisskortur keyrir síðan upp verðbólginn hagvöxtinn.
Ef það skildi hafa farið fram hjá þessu liði þá er almenningur búin að fá nóg af flækingum. Skiptir þá litlu hvort um er að ræða marg mærða túrista, sem eru farnir að koma sér hjá okrinu án þess að fara fækkandi, -eða flóttafólk sem fer fjölgandi á mansalslaunum.
Nei takk, þessi Lilja ætti að líta í eigin barm og bumbuna á Singa sínum, sem kom á gjaldtöku bílastæða á innanlandsflugvöllum í vikunni, ef hún vill á annað borð færa rök fyrir því að ná niður verðbólgu
Launahækkanir hafi kynt undir verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.6.2024 | 15:01
Fyrirboði og fjórtán fleyttar kellingar
Þar sem ég bjó á 69°N í Noregi; hnitaði sólin himininn hærra á sumarsólstöðum en ég hafði nokkurtíma áður séð, hafði ég þar sama sið og ungur, -að fara út um þúfur andvaka í miðnætursólinni.
Þarna var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á fótboltaleik.
Í kvöld 20.06. kl. 20.51 eru sumarsólstöður og hvet ég alla til að leita á vit náttúrunnar þessa mögnuðu nætur á norðurhveli frá sólstöðum til Jónsmessu, -hvort sem er í fjöru eða á fjöllum. Undanfarin tvö ár hef ég haft á stefnuskránni að komast einhverra þessar nátta upp á Rauðshauginn, sem ég sé út um stofugluggann, því þar sé ég vættabyggð norðaustan í haugnum snemma á morgnanna í sólinni.
Markmiðið hefur verið að komast þangað um sólstöður og sjá miðnætursólina skríða yfir sjóndeildarhring úti á Héraðsflóanum, -sem er í tuga kílómetra fjarlægð. Horfandi í hánorður sitjandi í vættaborginni eins og álfur útúr hól. Þetta hefur mér enn ekki tekist og spurning hvernig fer þetta árið.
Þegar maður er á því 64. bæði orðin fótafúinn og mæðin, þá er smá göngutúr upp á Rauðshug meira en hafa það af upp á þriðju hæð í blokk. Auk þess sem maður gerir kröfu um heiðskýrt skyggni. Ég fór upp á Rauðshaug fram og til baka í hendingskasti á sumardegi fyrir meira en 50 árum síðan. Skaust stystu leið í gegnum skógarkjarrið þar sem hlíðin er bröttust, en tók þá ekki eftir vættabyggðinni.
Vonandi kemst ég núna í kvöld þó leiðin verði lengri en í denn, en ef ekki þá læt ég þessar endurminningar um sérstaka sólstöðudaga og sólríkan mánuð á 69°N duga hér á síðunni. Og endurbirti kafla úr bók daganna, því þessa dagana nenni ég ekki að hnoða í leiðinda langloku um ekkert sem skiptir máli.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Engin veit sína ævina 12.06.2011
Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan lagði ég í hann yfir hafið til Noregs. Mér bauðst vinna sem ég tók fagnandi eftir atvinnuleysi vetrarins. Atvinnutilboðið bar brátt að og ráðningarferlið einfalt. Á föstudegi sendi ég inn fyrirspurn vegna starfs. Á mánudagsmorgni var hringt og spurt hvort ég gæti hugsað mér að flytja til Noregs og á þriðjudegi voru farmiðar á mail-inu mínu. Það var svo með fyrsta flugi eftir að gosið hófst sem ég lagði af stað suður. Heima á Egilsstöðum var kafalds hríð allt hvítt að kvöldi þann 23. maí og ég þurfti að fá Sigga son minn til að koma á fjórhjóladrifsbíl til að keyra mér á flugvöllinn sem er svo stutt frá þar sem ég bý að það borgar sig að labba ef maður hefur engan farangur.
Það var undarleg tilfinning að yfirgefa landið sitt, hvítt og svart, snjór fyrir norðan og aska fyrir sunnan og í miðjunni gaus Vatnajökull. Morgunnflug með SAS átti að vera flugið mitt þann 24. maí, en þar sem flugi hafði verið aflýst tvo daga á undan vegna ösku voru farþegarnir u.Þ.b. 70 fleiri en komust í vélina. Mér var sagt við innritun að ég væri ekki á farþegalistanum og yrði að hringja í SAS til að fá skýringu á því. Ég hringdi í SAS og fékk að vita að ég hefði verið settur í flug tveimur dögum seinna og því yrði ekki breytt vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Þar sem ég hafði nógan tíma ákvað ég að bíða og sjá hvernig innritunin endaði. Það voru 8 sætum óráðstafað í lokin fyrir um 60 manns sem enn biðu eins og ég, þegar 2 sæti voru eftir var kona kölluð upp sem gekk ljómandi að innritunarborðinu og henni fylgdi maður sem sagðist vera ferðafélagi hennar ásamt konu sinni. En sætin voru aðeins tvö en þau þrjú. Önnur daman í innrituninni hringdi og gaf svo hinni merki um að afhenda engan miða, það væri aðeins eitt sæti laust. Því næst kallaði hún, "Magnús Sigurðsson er hann hér", þá var komið að mér að ljóma. Ég þurfti að hlaupa í vélina og þær sem tóku við miðunum kölluðu þegar þær sáu mig, "hlauptu hraðar Magnús það bíður full vél bara eftir þér".
Þegar vélin hækkaði flugið sást niður á landið, vinstra megin var það hvítt hægra megin lá yfir því ömurlega svört móða sem gaf til kynna að ef hún legðist yfir flugvelli að þá yrði varla mikið um flug. Hvernig það stóð á því að ég komst með þessu flugi er mér ennþá hulin ráðgáta, en einhver ákvað að svo skildi vera og þar sem ég hafði ekkert að gera var eitthvað sem sagði mér að bíða þessa tvo tíma sem innritunin tók. Ég komst því langt norður fyrir heimskautsbaug alla leið til Harstad þar sem vinnan beið mín, þennan sama dag.
Harstad er önnur stærsta borgin í Troms fylki og sú þriðja stærsta í N-Noregi, íbúar eru um 23.000. Borgin er á Hinneyju sem er stærsta eyjan við Noregsstrendur aðeins eyjar Svalbarða eru stærri, af þeim eyjum sem tilheyra Noregi. Hluti Harstad stendur á Trondenes sem um er getið í Heimskringlu sem höfuðstaðar á Víkingatímanum. Harstad sem heitir Harðarstaðir í Heimskringlu tilheyrðu Hálogalandi sem var lítið konungdæmi snemma á víkingatímanum fyrir daga Haralds Hárfagra. Hálogaland náði frá Namdalen í norðanverðum Þrándarlögum til Lyngen í Troms, samkvæmt wikipedia.
Þar sem Harstad er getið í Heimskringlu Snorra þá má geta sér þess til að tengsl þessa svæðis í Noregi við Ísland hafi verið mikil á víkingatímanum og frá Hálogalandi hafi fólkið sem ekki sættu sig við yfirráð Haraldar Hárfagra komið til Íslands. Allavega finnst mér ég sjá hér sömu andlitin og í gegnum tíðina á Íslandi. Fyrsta daginn í vinnunni varð mér starsýnt á ungan mann sem ég hélt að væri Villi Rúnar heitinn frændi minn kominn ljóslifandi. Sömu ljómandi augun, nefið og augnumgerðin nema ég minnist þess ekki að hafa séð Villa með skegg.
Núna eru vikurnar að verða þrjá hér í Harstad, ég lofaði að vera 13 vikur til að byrja með og sjá svo til hvort framhald yrði. Það er svolítið sérstakt að vera í þrældóms múrverki fimmtugur vinnandi með mönnum sem flestir eru á mun betri aldri. Vinnufélagarnir eru frá Afganistan, Súdan og Noregi. Vinnuveitandinn og eigandi Murbygg er kjarnorku kona, Mette Eide, menntuð sem verkfræðingur en hefur rekið Murbygg í áratugi. Vissulega svolítið sérstakt að kona skuli reka hreinræktað múrarafyrirtæki. En sem komið er leggur hún áherslu á að ég flytji ásamt Matthildi minni hingað til Harstad, allavega í fáein ár meðan atvinnuástandið er gott hér og slæmt á Íslandi. Matthildur kemur í ágúst til að skoða sig um og þá verður ákvörðun tekin um framhaldið.
Það hafa verið ófáir sólskinsdagar hérna langt fyrir norðan heimskautsbaug og heimskautanóttin bjartari en dagarnir geta verið sunnar á hnettinum. Þó svo vinnan sé allt annað en létt fyrir gamlan skarf í eingri þjálfun, þá er bara lífsins ómögulegt að sofa sólskinsbjört kvöldin. Þau eru notuð til gönguferða auk þess sem vinnuveitandinn Mette hefur tekið mig í kennslustund í seglbátasiglingu, en siglingar um norðurhöf á skútunni Libra eru áhugamál Mette og Sverre sambýlismanns hennar.
Það er ekki hægt að segja annað en að móttökurnar sem íslendingur fær hér hjá íbúum Hálogalands séu höfðinglegar. Í dag Hvítasunnudag var ég boðinn í grillveislu í sveitinni þar sem heilgrillað var lamb í Samatjaldi og flutt lifandi samísk tónlist.
Fjórtán kerlinga fyrirboði 20.06.2011
Hún hefur skinið glatt sólin 24/7 hér í Hálogalandi undanfarið enda sumarsólstöður í nánd. Það er ekki laust við það að næturnar beri með sér andvökur bernskuminninganna sem rifjast upp um það þegar dagarnir voru ekki nógu langir, ekki einu sinni um Jónsmessuna þar sem dagur og nótt runnu í eitt. Þá var oft erfitt fyrir lítinn snáða að halda sig í rúminu yfir blánóttina. Helst að hægt væri að drepa tímann við að syngja slagara fyrir yngri systkinin þegar miðnætursólargeislarnir skinu inn um herbergisgluggann á eina herberginu í litla húsinu á hæðinni á Egilsstöðum sem kallað var Hábær. Lagið Obladi, Oblada, var þá efst á vinsældarlistanum, live goes on, yeah....
Í gegnum tíðina hafa Jónsmessunæturnar alltaf gefist mér illa til svefns og ófáar farið í að vaka næturkyrrðina við fuglasöng og geisla morgunnsólarinnar. Eða farið í það sem skyldan bar til í sveitinni hjá afa og ömmu, að liggja andvaka í bólinu bíðandi óþreyjufullur eftir því að komast út í fljótsmölina við kelduna þar sem vitjað var um silunganetin á morgnanna og finna þar flata líparít steina sem hentuðu vel til að fleyta kerlingar á spegilsléttu Lagarfljótinu. Þrjár kerlingar í röð var nokkuð gott að mati 7 ára gutta en allt umfram fjórar var frábært. Með árunum hafa Jónsmessuvökurnar orðið erfiðari, en nú þegar örlögin hafa borið mig langt norður fyrir heimskautsbaug er eins og til hafi orðið nýr kraftur frá sólinni sem hnitar loftið hátt hér um miðnættið í Harstad.
Hvernig og hvers vegna forlögin báru mig akkúrat hingað á þennan stað er íslensk kreppusaga. Hérna, þar sem fáir steinar finnast til að fleyta kerlingar skín sólin skærar um miðnættið en ég hef áður séð. En fyrirboðarnir á leiðinni hingað voru margir og engin er ferðin á fyrirheits. Það augljósa er að það er ekki einfalt mál að fyrir atvinnulausan mann með fimm áratugi á bakinu að gera sig gildandi á krepputímum í starfsgrein þar sem lítil er eftirspurnin.
Þennan veturinn kom oft upp í hugann samtal sem ég átti við kunningja minn vorið 2009. Hann átti tvö vel rekin fyrirtæki 2008, eða þar til skuldir annars fyrirtækisins hækkað um rúm 100% vegna gjaldþrots bankakerfisins á Íslandi. Lánadrottnarnir sýndu enga miskunn, hirtu allan tækjabúnað og fyrirtækið var gjaldþrota á augnbliki þrátt fyrir góða verkefnastöðu, keyrt í þrot vegna þess að hann var ekki tilbúin til að leggja heimilið að veði fyrir stökkbreyttum skuldunum. Kunningi minn sagði að hann héldi hinu fyrirtækinu sínu skuldlausu og það ætti einn bíl til samskonar rekstrar og á því ætlaði hann að byggja sig upp aftur. Þetta væri gott betur en hann hafði átt þegar hann byrjaði í þessum atvinnurekstri fyrir meira 20 árum síðan. Ég sagði við hann "blessaður labbaðu frá öllu klabbinu skuldlaus ef þú getur, það eru runnir upp þeir tímar á Íslandi að litlum töppum eins og okkur er bara ætlað að blæða" hann spurði mig "hvað á ég þá að hafa fyrir stafni".
Ég ráðlagði honum að setjast niður á svölunum heima hjá sér og nota daginn í að fylgjast með skýjunum fara yfir himininn og í mesta lagi eiða orku í að depla augunum. Það væri kannski ekki ábátasamt en það ylli honum ekki frekara tjóni, rifjaði svo upp söguna af köllunum á Djúpavogi í kreppunni miklu, sem Stefán Jónsson rithöfundur segir af bókinni "Að breyta fjalli". Þar segir að einn af sonum Djúpavogs, ráðherra á sinni tíð, hafi látið þau boð út ganga að ríkisstjórnin væri tilbúin að leggja til efni í íshús á Djúpavogi, ef kallarnir sæju um að byggja það kauplaust.
Eftir sellufund hjá körlunum á Djúpavogi komust þeir að þeirri skinsamlegu niðurstöðu að þetta yrði þeim aðeins til tjóns, því þetta kostaði þá slit á fötum. Ég skildi ekki niðurstöðuna þegar ég las þetta fullur eldmóðs hins nýkvænta manns, en skil hana mjög vel í dag eftir að hafa upplifað rúmlega tveggja ára kreppu undir handleiðslu íslenskra stjórnmálamanna, auk þess að hafa áttað mig á því að það að byggja íshús þá var álíka vitlaust og að endurreisa banka í dag, verður varla til annars en slits á fötum almúgamannsins. Síðan við kunningi minn áttum þetta samtal hefur hann þrisvar komið að máli við og sagt mér hversu vitlaust hafi verið af sér að taka ekki mark á mér, ég segi þá ævinlega við hann "ég hefði betur gert það sjálfur".
Svo var það núna í vor eftir að hafa hangið heima við skýjaskoðun í allan vetur, milli þess sem ég sem ég deplaði augunum og skaust til dyra til að taka á móti stefnuvottum auk stuttra ferða í bankann, að upp í hugann kom að gaman væri að kíkja á skýin í öðrum löndum. Eftir að hafa orðað heimsókn við Tóta vin minn, sem fluttist til Noregs ásamt sinni frú sumarið 2009, þá alveg laus við áhuga á skýjaskoðun og að borga húsið sitt tvisvar, var ekki aftur snúið. Við frú Matthildur skildum fara í páskaheimsókn til vina okkar í Noregi.
Það var í þeirri ferð sem fyrirboðarnir fóru að hrannast upp. Við ákváðum að gista nótt á hóteli í Osló, og þar sem við hvorki höfðum efni á þessu ferðalagi né hótelgistingu, ákvað ég upp á íslenska móðinn að við myndum gista á hæsta og flottasta hótelinu þar í bæ, Scandinavia. Strax og við komum þar inn vildi daman í móttökunni endilega láta okkur hafa tvær nætur fyrir tilvísunina sem var til einnar nætur. Ég afþakkaði það með trega þar sem skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir öðru, en spurði hvort ekki væri hægt að fá reyk herbergi. Hún rétti mér lykilinn og sagði; "2107, þú kemst ekki hærra". Herbergi nr. 7 á 21. hæð; konungshöllin, Nationalteatre, Stórþingið og Karl Johann fyrir neðan herbergisgluggann. Matthildur grunar mig sjálfsagt enn um að hafa beðið um herbergi með sama númeri og afmælisdagurinn hennar 21. júlí.
Fljótlega í þessari páskaheimsókn fór ég að hafa það á tilfinningunni að allt væri svolítið á eftir í Noregi, árið 2006 væri ný gengið í garð, þvílíkar voru framkvæmdirnar. Því þarf það ekki að koma á óvart að í undirmeðvitundina hafi verið sáð þeim fræjum að hér gæfist tækifæri til að leiðrétta það sem aflaga fór hjá mér á Íslandi frá því haustið 2008. Það var ekki til að slá á þessa hugmynd að vinafólkið Tóti og Dúna lofuðu Noreg sem blómstur að vori. Svo var það þegar Tóti fór að sýna okkur eyju rétt fyrir utan Sjelsvíkina þeirra Dúnu að en einn fyrirboðinn birtist.
Þegar við gengum út í skógi vaxna eyjuna á flotbryggju þar sem fjöldi fólks dundaði sér við stangveiðar, barst talið sem oftar að ágæti Noregs. Ég sagði að eitt væri þó öruggt að í Noregi væri ekki hægt að finna jafn fallega steina og á Íslandi, Noregur væri bara klettur með trjám. Matthildur sem alltaf hefur verið fundvís á það sem fallegt er var ekki búin að vera lengi út í eyjunni þegar hún fann þennan líka fallega steininn, flata gabbró flögu sem glitraði í sólskininu. Þegar við fórum yfir flotbryggjuna aftur í land rétti hún mér steininn svo ég gæti skoðað hann betur. Sólin merlaði á spegilsléttum sjónum og ég gat ekki stillt mig um að beygja mig eldsnöggt niður og þeyta steininum eftir haffletinum; "sástu þetta fjórtá kellingar" sagði ég hróðugur "þetta er met, gott ef ekki heimsmet". Mattildur skildi ekki mikilvægi þess að fleyta kerlingar og sagði bara; "þú ert búinn að henda fallega steininum mínum villtu gjöra svo vel og sækja hann" ég reyndi að skýra undrið "en fjórtán kellingar Matthildur, þetta boðar eitthvað".
Þó ég hafi enga steina fundið ennþá til að fleyta kerlingar í gönguferðum mínum í kvöldlogninu hérna í Harstad þá er ég kominn í hóp sem hefur kennslu seglbátasiglinga fyrir börn og unglinga að áhugamáli. Það er ævintýri fyrir gutta eins og mig að fá að sigla á barnabát. Ég hef líka komist í að sitja í kvöldkaffi með þremur reyndum skútukerlingum samtímis í bátahöfninni, sem verður að teljast nokkuð gott eftir tæplega fjögra vikna dvöl. Hver fyrirboðinn er yrðu þær fjórtán, í það væri gaman að spá fyrir okkur Matthildi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2024 | 21:56
Fíflagangur
Ég sagði frá því í vetur að það ætti að taka upp á því að taka myndir af fólki á landi ríkisins og rukka. Mér hafði orðið það á að kalla sveitastjórnarfólk mestu fífl sem fyrir fyndust vegna þess að það hvorki æmti né skræmti fyrir sína umbjóðendur, þegar fyrirhugauð var gjaldtaka af hálfu ISAVIA ohf á bílastæðum við þrjá af innanlandsflugvöllum landsins.
Ég benti á að ISAVIA ohf, sem hét áður Flugmálastjórn ríkisins, væri eftir sem áður jafn mikið ríkisins. Sveitastjórnarfólk rumskaði og hafa sum þeirra reyndar þóttust hafa staðið vaktina allan tímann þó þess hafi ekki orðið vart fyrr en búið var að setja upp myndavélabúnaðinn og komið var að gjaldtöku til að bæta upplifun flugfarþega að sögn mannauðs- ,viðmóts- og upplifunarstjóra ISAVIA ohf.
Við sama tækifæri og ISAVIA kynnti þessi bættu upplifunar áform, var bent á að ISAVIA hefði ekki heimild til að taka lán til viðhalds bílastæða, en alveg skautað fram hjá því að ohf með starfsmenn í óunninni yfirvinnu hefur leyfi til að segja upp fólki ef þarf að taka lán fyrir laununum.
Einhverjir tæknilegir örðugleikar höfðu reyndar orðið á því að bætta upplifunin gæti hafist þegar til stóð. Ég giskaði í vetur á að þeim hefði verið rutt úr vegi, sennilega með því að lauma reglugerð í gegnum ráðuneyti sem leifir myndatöku af fólki í landi ríkisins og rukka það.
Nú hefur komið í ljós hver fífl fíflanna eru, -í öllum fíflaganginum. það eru innviða- og fjármálaráðherra samkvæmt RUV.
Farið hefur fé betra.
Dægurmál | Breytt 19.6.2024 kl. 06:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2024 | 06:30
17. júní frétt
Á botni tjarnar
í óræktinni miðri
liggur Morgunnblað
Í fyrirsögn á forsíðu stendur
17. júní hátíðarhöld
gengu vel um allt land
Blaðið er frá því seint á síðustu öld
Þegar Ísland var enn frjálst
og fullvalda ríki
Það er ekki lengur mögulegt
að ná blaðinu af botninum
til að lesa smáa letirið
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)