19.3.2025 | 06:21
Í leit að ljósi
Rjúkandi ryk
drunga drunur
-augu opnast
engin drauma niður
því þakið logar
og húsið hrynur
Í rústum og ryki
fimir fætur þjóta
meðan veröldina
sprengur brjóta
Í dauðans dansi
og óráðs asa
fingur í myrkri
eftir dyrum fálma
Með angist í augum
og vonar bæn á vörum
um veggjabrotin hrasa
börnin á Gaza
Ljóð | Breytt 16.4.2025 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.3.2025 | 05:20
Sjóræningjarnir -og silfrið hennar Siggu minnar
Það vita það kannski fleiri en kæra sig um, að á Íslandi hefur í gegnum tíðina búið gríðarlega vel efnað fólk. Svokallaðir landnámsmenn höfðu í farteskinu ógrynni silfurs og annarra gersema, auk ættatalanna sem mátti rekja til konunga 1000 ár aftur í tímann. Stöðugt bættist í þennan sjóð framan af öldum, með góðu eða illu líkt og börn og silfur Egils sanna. Nú má segja sem svo að genaþursið í Vatnsmýrinni sé það eina sem gerir sér mat úr þessum landnámsauði með því að selja genamengi landans til auðróna lyfjaiðnaðarins.
Enn í dag, -og þrátt fyrir þræls eðlið, eru Íslendingar samt taldir til ríkustu þjóða veraldar. En ekki breytir það samt því að silfrinu og ættartölunum var stolið og þjóðin átti sínar hörmunga aldir þar sem svo svarf að hún var nálægt því að hverfa úr sjóði þjóðanna. Hvað um allt gamla ættarsilfrið varð vekur forvitni fárra nú á tímum. Íslendingar eru á ný við það að hverfa af sjónarsviðinu á dögum auðræðis, og nú annaðhvort í glópalinn eða kirkjugarðana, -fátækir af öðru en digital tölum.
Fólk á mínum aldri man leifar ættarsilfursins, -enga fjársjóði, -en silfur stokkabeltið, -nælan og -hólkurinn á mótum skotts og skúfs í húfunni. Þetta dugði til að gera upphlutinn hennar ömmu að dýrgrip. Silfurborðbúnaður -hnífur, -gaffall og -skeið með ígröfnum stöfum þóttu merki um menningararf þegar til siðs var að gefa börnum silfurskeið í skírnargjöf, meir að segja erfðu mín börn sinnar ættar silfurskeiðar samkvæmt nafni.
Það má segja að á seinni öldum hafi það komið í hlut kvenna að gæta Íslandssilfursins. Því sem ekki hafði þegar verið stolið á öldum helsisins, -ættarsilfursins. Amma eftirlét yngri systur minni upphlutinn, ekki bara vegna þess að þær væru al-nöfnur, ekki síður vegna þess að þær voru áþekkar að stærð. Þessi upphlutur er nú í S-Frakklandi og hefur verið þar í áratugi og ekki veit ég hvort systir hefur nokkurtíma skartað honum.
Ekki er svo langt síðan að þingkona á Alþingi mætti í til þings í hluta upphlutar ömmu sinnar. Sem sönn alþingiskonan hafði hún nútíma vætt þjóðbúninginn með því að klæðast buxum neðan upphlutar vestisins, -skreytt ættarsilfrinu. Hvort það hefur verið gert í virðingaskini við gömlu konuna eða þjóðaþingið er ekki gott í að spá, en hún allavega stal senunni með því að fótum troða í buxur þjóðlegri hefðinni.
Já ég hef verið að lesa rán, galdra og geðveiki undanfarið, -verið að lesa mig niður í 17. öldina. Til þess taldi ég sjóræningja, silfur og galdra best til fallna, -enda sú 17. stundum kölluð brennuöldin. Ég komst fljótt að því að galdrafárið var ekki beinlínis vegna galdurs og geðveiki, heldur var þetta aldafar tilkomið vegna endalausra sjórána. Hugmyndafræði galdrabrennanna má telja innflutt trúarbragðaofstæki í kjölfari siðaskiptanna, komið frá spænska rannsóknarréttinum sem barðist við fjölmenningu í dulargerfi Íslams, sem of langt mál er að gera grein fyrir í stuttum pistli.
Það sem maður áttar sig ekki á í fljótu bragði er sú staðreynd, -að Danir eru mestu sjóræningjar sem að Íslandsströndum hafa komið. Eins og má lesa í þessu mbl fréttaviðtali við Steinunni Kristjánsdóttir fornleifafræðing. Hún gaf út um þessi hugðarefni sín m.a. í bókinni Leitin að klaustrunum. Fyrstu áratugina eftir siðaskiptin voru heilu skipsfarmarnir af dýrgripum úr silfri fluttir frá Íslandi til Kaupmannahafnar.
Steinunn segir; -"Það er tvisvar sinnum minnst á sjóræningjaskip þar sem þau herja á Ísland en Danakonungur stöðvar það, líklega því hann sjálfur vildi komast yfir silfrið, frekar en að verja fólkið. Að minnsta kosti upplifi ég það þannig við lestur skjalanna." Spurning hvort lukkupotturinn hún Kristrún forsæta, ætti ekki allavega taka eins og eitt Trump á Rósenborgar silfurljónin við fraukuna Fredriksen áður en anað er í ESB. Það var ekki einungis svo að Danir afvopnuðu landann og hirtu silfrið. Bókmenntirnar með ættartölunum fóru sömu leið, þó svo að við höfum fengið eitthvað af því lesefni til baka.
Nú virðast málsmetandi Íslendingar vilja láta erlent vald stela af okkur krónunni, -landinn að mestu búinn að gleyma því, að hvorki gekk né rak að komast úr moldarkofunum með þeirri Dönsku eða Skandinavíska ríkisdalnum þar á undan. Það var ekki fyrr en u.þ.b. þegar sú íslenska tók við, -moldarkofarnir að hruni komnir, að eitthvað fór að rofa til, -í upphafi 20. aldarinnar. Húsakostur landsmanna tók svo stakkaskiptum uppúr 1919 með Íslensku krónunni. Þess vegna er ágætt að kynna sér sögu landans í gegnum aldirnar og halda henni til haga þó svo það bjargi ekki öðru héðan af en hugsanlega ósýnilegri stafrænni krónu.
Píslarsaga séra Jóns Magnússonar er um galdur og geðveiki en Jón fékk feðga brennda á báli í Skutulsfirði, -á Skipeyri þar sem Ísafjarðarflugvöllur er nú. Um það þegar séra Jón tók við Eyrarkirkju árið 1644, sem er þar sem nú er Ísafjarðarbær, -stendur þetta: -Það hefur verið hrörlegt umhorfs í Eyrarkirkju þótt hún héngi uppi, væri sögð "vel standandi", enda hafði kirkjunni ekki verið bættur til fulls skaði úr biskupstíð Gísla Jónsonar, 1579, þegar enskir sjóreyfarar stálu fjölda muna og gengu berserksgang í kirkjunni, brutu gólf, altari og bekki. Greina heimildir frá því að ræningjar þessir hafi nauðgað konum og drepið fjóra menn, en samkvæmt einni þeirra tókst kvenfólki að verða tveimur þeirra að bana.
Píslarsagan hefur að geima bréf, dóma og vísitasíur, auk þess einstaka hugarflugs um galdra sem fór fram í höfði séra Jóns Magnússonar, og hann setti á blað. Í vísitasíu 16. ágúst 1653, meira en 60 árum eftir að sjóræningjarnir voru á ferð í Eyrarkirkju er silfurkaleiks kirkjunnar sárt saknað auk annarra dýrgripa, og ekki fyrr en í vísitasíu árið 1675, tæpum hundrað árum eftir sjóránin, sem sómasamlegur kaleikur er talin aftur kominn í kirkjuna. Píslarsaga séra Jóns Magnússonar eru rúmar 400 bls. af torkennilegu efni á menntamáli 17. aldar, og því engin áhlaupalesning, -en hún þykir einstök í sinni röð.
Það má geta sér þess til að leifar þess Íslandssilfurs, sem sjóræningjar danska kóngsins náðu ekki um, hafi alþjóðlegur lýður sjóræningja gert sér far um að nálgast norður í höf. Þegar heimildir eru skoðaðar um hvaða sjóræningjar voru á ferð í Eyrarkirkju þá má sjá í Öldinni 16. -hans Jóns Helgasonar, að sjóræningjar plöguðu Vestfirði sumarið 1579. Þar eru þeir sagðir Hollenskir og foringi þeirra William Smidt. Þeir rændu Rauðasand tóku menn gíslingu og sigldu með þá til Patreksfjarðar og kröfðust lausnargjalds. Fóru, -á meðan ættingjar skröpuðu saman ættarsilfrinu, norður á firði og rændu og drápu menn í Súgandafirði auk þess að nauðga þeim konum sem þá listi á leiðinni.
Ræningjar þessir stoppuðu við í Skutulsfirði vegna byr-leysis inn Djúp, þar höfðu þeir fregnað að fólk ætti sjóði silfurs. þar sem hægt væri að krefjast lausnargjalds og biðu á Eyri á meðan þess var aflað. Heimildirnar herma að tveir þessara sjóræningja hafi verið drepnir af vestfirskum konum.
Hjónin á Ögri fengu skipstjóra frá Holsetalandi til að fara á fund ræningjanna með lausnargjald, sem safnað var. Um hálftunna af smíðasilfri og slegnum peningum, þar á meðal kvensilfur á allt að þrettán kvenbúninga. Þetta dugði sjóræningjunum ekki og tóku þeir eiða um að meira yrði afhent seinna í Hollandi á gjaldaga sem þeir settu. Annars kæmu þeir árið eftir sjö sinnum verri.
Rétt er að skoða sjórán 17. aldarinnar í ljósi siðaskipta 16. aldar, þó svo að þau gerist áratugum síðar. -Og þá sér í lagi Baskavígin, sem á eftir komu og þykja með ógeðfelldari níðingsverkum sem framin hafa verið af Íslendingum.
Þegar á þessa óöld sjórána leið, þvarr silfrið á heimilum landsmanna og dæmi þess að heimilisfólki hafi þá verið stolið svo hundruðum skipti, flutt úr landi og selt í þrældóm, -þar sem það eina sem gat bjargað því þaðan var lausnargjald kóngsins í Kaupmannahöfn.
Þegar svokallaðir Tyrkir rændu Berunes við Berufjörð var eitthvað eftir að silfri á heimilum landsmanna, -allavega á Berunesi. En þar bjuggu Bjarni Jónsson silfursmiður og Sigríður Einarsdóttir, dóttir séra Einars Sigurðssonar prests í Eydölum, sem frægur er fyrir að hafa ort eitt af helgiljóðum Íslendinga sem enn er sungið eftir að það verður heilagt, -Nóttin var sú ágæt ein.
Heimilisfólkið á Berunesi flúði í ofboði undan Hundtyrkjanum yfir Strandarfjöllin í Breiðdal, -til ættingjanna á Eydölum. Þjóðsagan segir að orðið hafi að skilja eftir gamlar og veikburða kellingar heima í bæ. Þeim hafði verið komið fyrir á milli þils og veggja svo Tyrkir finndu þær ekki. Sjóræningjarnir brutu upp kistur og koffort í bænum og fundu silfrið, létu það glamra úr greipum sér aftur í kistuna til að bera á brott með sér.
-Ja, svona átti það að fara, silfrið hennar Siggu minnar! -datt upp úr einni kellingunni. Þetta heyrði Hundtyrkinn og misstu hún við það lífið snarlega. Já þær mættu alveg leiða hugann að því kellingarnar, -af öllum kynjum, ekki síður en þær sem kenna sig við valkyrjur og spranga um síðbuxna, hvernig ættarsilfrið er til komið og hvers vegna formæður þeirra hafa varðveitt það í þjóðbúningnum allt fram á þennan dag.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.3.2025 | 01:02
Móráð skipstjóri
Svona til að skerpa tímanna tákn má rifja upp að sumarið 1627 voru gerðar þrjár innrásir hér á landi, -einhverjar verstu hernaðaraðgerðir sem landinn hefur mátt þola. Árásirnar voru engin tilviljun. Um aðdraganda þeirra segir svo í heimildum:
Historian sjálf byrjast þannin. Af upptökum þeirra ferðalags, kunna menn ekki að segja með fullum sanni. Þó hafa nokkrir sem frá þeim hafa sloppið það svo fortalið að tveir af þeim æðstu í Tyrkjans veldi hafi veðsett það hvorir við aðra hvort mögulegt vera mundi að sækja til Íslands þann minnsta hellustein þeir þessu kappi fram héldu gjörði annar þeirra út tólf skip sem reisa skyldu til Íslands þar heyrst hefur eftir þeim grimmu morðingjum að eitt barn héðan skyldi kosta í Asíulöndum 300 dali.
Ætla mætti að 12 skip hafi lagt úr höfn í Barbaríinu og sigld áleiðis til Íslands. Heimildir eru til um fjögur skip af þessum toga sem komu að íslandsströndum þetta sumar. Eitt til Grindavíkur tvö til Austfjarða, þar sem það þriðja bættist við úr hafi þegar þau skip héldu suður með landi til Vestmannaeyja. Leiðangrar þessir voru tveimur skipum ríkari þegar haldið var til baka og höfðu í lestum skipanna um 400 Íslendinga sem seldir voru á þrælamörkuðum Barbarísins.
Ósennilegt verður samt að teljast að tveir af æðstu mönnum Tyrkjaveldis hafi skipulagt árásirnar. En skipstjórarnir voru báðir kallaðir Murate Reis upp á Barbarísku, en Murate eru algeng Arabísk og Tyrknesk nöfn, -reis er orð yfir skipstjóri.
Það er meir að segja ólíklegt að þessir tveir sjóræningja kapteinar hafi lagt á ráðin í sameiningu um Íslandsferðina sumarið 1627. Sá fyrri kom í júní, skömmu fyrir Jónsmessu, -til Grindavíkur og rændi bæði Danska kaupstaðinn og hertók Danskt kaupskip, -auk þess að hernema 15 Grindvíkinga.
Síðan sigldi sá kapteinn tvískipa vestur fyrir Reykjanes inn á Skerjafjörð og gerði atlögu að Bessastöðum sem mistókst. Skotið var að skipunum þegar þau nálguðust Seiluna, hörfuðu þau þá frá og annað þeirra, -sjóræningja skipið, tók niðri á Lönguskerjum.
Þegar skipið losnaði var haldið vestur undir Snæfellsnes, og eru talin hafa verið áformuð sjórán við Vesturland. En hætt hafi verið við þegar vart var við herskip sem fylgdu erlendum fiskiskipum hér við land. Var þá stefnan tekin suður í haf til heima hafnar, -Salé í Marokkó.
Annar leiðangur og öllu ískyggilegri kom upp að Austfjörðum stuttu síðar þetta sumar. Voru þar á ferð tvö skip, -annað firna stórt. Þau komu inn á Berufjörð 6. júlí um sólarupprás og köstuðu akkerum úti á firðinum, -milli Djúpavogs sunnan fjarðar, og Beruness norðan fjarðar. (Sé tekið mið af Júlíanska tímatalinu, sem var notað til 1700, þá hefur dagsetningin verið 16. júlí.)
Djúpivogur, gömlu Dönsku verslunarhúsin til vinstri, Strandarfjöll ofan Beruness sjást yfir þokuröndina, handan fjarðar á Berufjaðarströnd. Sjóræningjaskipin köstuðu akkerum þar sem farþegaskip gera það þessi árin og setja fleiri hundruð farþega í land á léttabátum
Skotið var strax út bátum og farið að Dönsku verslunarhúsunum á Djúpavogi og allt fólk þar hertekið í svefnrofunum, -ásamt skipverjum Dansks kaupskips. Farið var með þetta fólk út í skipin. Skömmu síðar voru bátar sendir til beggja átta út frá skipunum, bæði til Djúpavogs og Beruness. Talið er að um 300 þrautþjálfaðir hermenn hafi tekið þátt í aðgerðinni.
Strax varð ljóst hvað fyrir þessu liði vakti. Komst hluti af þeim sem vöknuð voru á Berunesi til fjalls, -upp í þokuna sem lá niður í miðjar hlíðar. Þaðan yfir fjöllin til Breiðdals, ekki voru samt allir svo heppnir á Berunesi og varð gamalt fólk og veikburða fyrir barðinu á Barbörunum og lét þar líf sitt. Eða svo segja sagnir frá fyrstu landtöku þessa liðs á Berufjarðarströnd;
og hittu fyrst smalann frá Berunesi, hvör er var hálfvaxinn piltur, Páll að nafni. Hann tóku þeir og reyrðu böndum og létu liggja svo í vegi fyrir sér til þess þeir færu aftur til baka. þann pilt er þeir fyrst fundu, hann lá bundinn í einu klettaeinstigi til þess þeir héldu aftur til skips, tóku hann síðan og skáru fyrir þvert andlitið, flettu svo augabrúnunum ofan fyrir augun. Síðan skáru þeir hans báða huppa fyrir neðan síðurnar og lét hann þar sitt líf, þar sem síðan kallast Pálsgjögur.
Ekki er meiningin að gera atburðarásinni í landi tæmandi skil í þessum pistli enda má um hana fræðast í Tyrkjaránssögu. Pistlinum er ætlað að varpa ljósi á hverjir voru skipstjórar þessara skipa og hverskonar illþýði áhafnir þeirra höfðu að geyma.
Skipin héldu síðar austur með fjörðum þar til þau snéru við Reyðarfjörð. Úr hafi kom svo þriðja skipið og hélt þessi floti suður með landinu allt til Vestmannaeyja með afleiðingum sem flestir þekkja. Því þegar þessi herflokkur kom til Vestmannaeyja voru aðfarirnar hrikalegar og flestar lýsingar óhugnaðurinn einn.
Þegar skipin yfirgáfu Eyjar hafði þessi her tekið vel á fjórða hundrað manns í lestar skipanna og drepið um fimmtíu í landi, -fyrir austan og í Eyjum. Í kveðjuskyni smöluðu þeir gamalmennum inn í Dönsku verslunarhúsin og lögðu að þeim eld. Þegar skipin sigldu út með Heimakletti flutu lík í kjölfarinu.
þeir tóku að kveikja eldinn sinn í hvoru húsi, en sem þar var fyrir þeim ein kona sem þoldi ei að ganga með þeim herteknu gripu þeir hana strax með sínu tvævetru barni og köstuðu báðum á bálið. En sem hún og barnskepnan veinuðu, kallandi á guð sér til hjálpar, grenjuðu þeir með óhljóðum, hrindandi þeim með spjótsoddum inn í bálið sem þau út skriðu, og pikkuðu svo líkamina í brunanum.
Já hverjir voru þessir Muratar sem fóru fyrir þessum óaldalýð, og hvaðn komu þeir? -í sumum íslenskum textum eru þessir skipstjórar kallaðir Amórað og Mórað Fleming. Kemur skýrt fram að þarna er ekki um sama manninn að ræða, og sennilegast tvo svo til óskylda leiðangra.
Talsverðar heimildir eru um Murate Reis (Amórað) frá Salé í Marokkó, þann sem fór fyrir árásinni á Grindavík. Sá maður hét upphaflega Jan Jansson og var frá Haarlem í Hollandi. Hann hafði verið hertekin af sjóræningjum úr Barbaríinu þegar hann var á skipi á Lanzerote á Kanaríeyjum. Síðan seldur á þrælamarkaði í Salé.
Jan Janson gerðist trúskiptingur, enda það eina leiðin til að eiga mannsæmandi líf sem þræll í Barbaríinu. Hann nýtti fljótlega kunnáttu sína og gerðist sjóræningi sem vann sig upp í að verða virtur flotaforingi í Salé.
Talsvert er til um Jansson m.a. vegna þess að hann skrifaði bréf til yfirvalda í Englandi og reyndi að fá þar hæli, en það var því sem næst vonlaust fyrir Múslima á þessum tíma að fá hæli í Evrópu, hvað þá trúskiptinga sem stundað höfðu sjórán. Vitað er að hann kom til Hollands og hitti fjölskildu sína, en þar hafði hann verið kvæntur og átti börn áður en hann var seldur í þrældóm.
Ein Hollensk dóttir Jans Jansson heimsótti hann til Marokkó og settist að í nágreni Salé um tíma. Hann var margkvæntur í Marokkó og á m.a. afkomendur í Ameríku sem settust í fyrstu að í New York sem þá hét New Amsterdam. Murat Reis komst ekki aftur til Evrópu hann endaði sína ævi sem ríkur maður í Marokkó.
Uppruni hins Murat Reis (Mórað Fleming) er meira á huldu og það eru m.a. íslenskar heimildir sem gera það full ljóst að um tvo menn er að ræða þegar Murate Reis er annars vegar. Til eru heimildir í Algeirsborg um mikinn flotaforingja sem kallaður var Murate Flamenco Reis. Sá var upprunalega frá Antwerpen.
Talið er að Fleming hafi verið atvinnulaus málaliði úr stríðum Evrópu. Hann hafi siglt til Alsír, gerst þar trúskiptingur, tekið upp nafnið Murate og farið fyrir sjóránum frá Algeirsborg, enda var það ábatasamt. Fram kemur í sögnum af Tyrkjaráninu að stór hluti áhafna hans hafi verið Evrópumenn, m.a. Danir, Englendingar og Þjóðverjar.
Sagnir úr Vestmanneyjum geta þess hvað þessir Evrópumenn voru miskunnarlausir, mun verri en norður Afríku mennirnir sem í áhöfnunum voru. Einn Danskur maður er sértaklega nafngreindur og talinn hafa verið oft áður við Ísland og leiðangrinum til ráðuneytis.
Á suðvestur Írlandi í bænum Baltimore var gerð svipuð innrás fjórum árum seinna, eða 20. júní 1631, -um sumarsólstöður. Norður-Írski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Des Ekin hefur kafað í það sjórán og gefið út um það bók sem heitir: The Stolen Village - Baltimore and the Barbary Pirates.
Baltimore, -The Cove er fyrir miðri mynd
Des Ekin kemst að þeirri niðurstöðu að sá sem þar fór hafi verið Morate Reis. Hann telur að vísu að Morate Reis sé einn og sami maðurinn, Jan Janson, -og hafi bæði verið flotaforingi í Salé og Algeirsborg. Íslenskir heimildir sanna það að þessir Muratar voru sitt hvor maðurinn og sá sem rændi Baltimore var Móráð Fleming, það sést á því að hann átti heimahöfn í Algeirsborg í Alsír þar sem hann seldi fólkið frá Baltimore á þrælamarkaði.
Í Baltimore var rænt 109 manns, sem er svipaður fjöldi og við Berufjörð. Það sérstaka við Baltimore ránið er að fólkið sem hertekið var þar voru einungis Englendingar, en ekki Írar eins og ætla mætti, þetta sást m.a. á nöfnunum.
Fólk sem var selt á þrælamarkaði var yfirleitt nafngreint og haldið um það bókhald í Barbaríinu. Því stór hluti af ágóða mansals gátu verið lausnagjöld að heiman. Ekki er vitað nema um tvær konur frá Baltimore sem snéru aftur.
Bókin Stolen Village er yfir 400 bls og frekar torlesin en vel þess virði að halda athyglinni til enda. Því ránin í Baltimore virðast hafa verið þaulskipuleg aðgerð. Sá hluti bæjarins sem var rændur, var fátækt fiskimannaþorp og sá hluti byggður Englendingum. Þeir höfðu fengið þar ábúð samkvæmt flókinni atburðarás og samningi í 21 ár.
Des Ekin leiðir að því sannfærandi líkum eftir skriflegum skjölum þessa tíma, sem allt of langt mál er að gera skil í stuttum pistli, að Írskur landeigandi, sem bjó þá á Spáni, hafi gert samning við Murate Reis um að fjarlægja Enska fólkið úr bænum.
Því Englendingarnir virtust hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að fólkið þyrfti ekki að yfirgefa The Cove í Baltimore samkvæmt samningnum, það ætti því sem næst orðið landið samkvæmt úrskurði Enskra yfirvalda þess tíma.
Það var svo upp á dag, 21 ári eftir að samningurinn var gerður, og hann þann dag útrunninn, -sem Murate Reis kom með flota sinn og rændi þann hluta Baltimore sem kallaðist The Cove og var byggður Englendingum. Aðra hluta Baltimore lét hann í friði.
Það sem Enskum yfirvöldum undraði mest var að sjóræningarnir skildu ekki ráðast á bæ í nágreninu, sem var mun ríkari. En þar voru reyndar Ensk varðskip til varnar því þeir vissu af Murate Reis rásandi um með skip sín við strendur suður Englands og Írlands.
Það má því fastlega gera að því skóna að Tyrkjaránin við Íslands strendur sumarið 1627 hafi verið þrælskipulögð hernaðaraðgerð. Þó svo ekki sé víst að þessir tveir Muratar hafi verið þeir sem veðjuðu. Murate frá Marokkó virðist hafa verið annars eðlis.
Í áhöfnum Móráð Fleming flotaforingja frá Alsír voru allra þjóða kvikindi. Hans hertækni var að yfirvinna aðstæður með fjölmenni og lamandi ógn. Þeir sem sýndu minnsta vott um mótþróa voru umsvifalaust drepnir eða misþyrmt á grimmilegan hátt.
Svo sögðu sumar heimildir úr Eyjum að það hafi verið Íslendingur sem lóðsaði 300 hermenn upp á Heimaey. Á stað þar sem heimamenn áttu sér þess síst von að ókunnugt herliðið kæmist á örskotsstund í land. Þar heitir nú Ræningjatangi.
Brimurð og Ræningjatangi á sunnanverðri Heimaey þar sem 300 hermenn tóku land sumarið 1627
Skógabók segir m.a. svo frá hörmungum Eyjakvenna þegar ræningjarnir fóru um Heimaey: -"Tvær kvensniftir urðu eftir sem seinfærar voru. Önnur þeirra kvenna hafði tvö börn, þau með móðurinni emjuðu ógurlega, en þeir tóku börnin og brutu þeirra háls í sundur, síðan hvört bein mölvuðu þeir í sundur við klettana og köstuðu þeim síðar í sjó, en móðurina með gríðarlegum hljóðum svo ei mátti standast það að heyra. En þeir tóku hana með hinni, lágu þær í þessum hörmungum sem þær höfðu, höfðu þær svo með sér að Dönsku húsum"
Heimildir:
Skógabók
Reisubók Ólafs Egilssonar
Karl Smári Hreinsson
Corsairs and Captives/Adam Nichols
Stolen Village/Des Ekin
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.3.2025 | 07:38
Spekingar spjalla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.2.2025 | 05:37
The Art of the Deal
Það hefur verið undarlegt að fylgjast með hveitibrauðsdögum Valkyrju- stjórnarinnar. Byrjað var á að óska eftir sparnaðartillögum frá almenningi, og í kjölfarið hamrað á því að ekki yrði farið í nein ný fjárútlát á árinu, nema skorin yrðu niður útgjöld á móti.
Síðan fetuðu tvær valkyrjur, -þær með skúffuna og pottinn, -í fótspor Davos dúkkulísanna, sem smurðu kyssitauið reglulega eins og kannski einhver gullfiskurinn man, -og héldu til Kænugarðs til að tárast með afskrifuðum stríðsherra, sem hefur talið fraukum Evrópu trú um að vera að verja fyrir þær lýðræðið.
Innsti koppur í búri, -já einmitt sá með ríkiskassann, -hefur ekki haft tóm til að nýta sér sparnaðar tillögur almennings hvað þá skera niður. Ef hann hefur ekki verið upptekinn viða að telja krónur í Kúlulánadrottninguna eða Lukkupottinn, þá hefur hann verið að verja vini sína í klaninu vegna ostasvindlsins. Nú liggur loks fyrir fordæmi hvernig farið var með sígrettusvindlið, sem nýlega var tekið til dóms, svo kannski fer að gefast tími.
Bara frá áramótum hafa verið bornar í umboðslausa stríðsherrann í Kænugarði, -ekki bara hundruð íslenskra milljóna, heldur þúsundir, -til viðbótar við fjárútlát dúkkulísanna frá fyrri árum. Á meðan blæðir þjóðveginum sem aldrei fyrr, er gott sem ónýtur eftir farið var að smyrja holurnar að innan með matarolíu, og þær kallaðar innviðir að hætti dýralæknanna.
Hvaða farið hefur úrskeiðis á milli eyrnanna á sprengjudúkkum, -æðandi með ríkissjóð á wokesterum til Evrópu, er ekki fyrir meðalgreindan mann að átta sig á. Enda efast ég um að þó reynt yrði að fá skýringar Kúlulánadrottningarinnar og Lukkupottsins að þær skildu þær sjálfar. Á meðan sitjum við, sem enn búum í Barbaríinu, og horfum dofin á.
Íslendingar virðast helst vilja láta erlent vald frelsa þá frá sjálfstæðinu og krónunni í kassanum, -landinn búinn að steingleyma að hvorki gekk né rak að komast út úr moldarkofunum með þeirri Dönsku eða Skandinavíska ríkisdalnum á öldum áður. Enda eru flestir núorðið með höfuðið á sama stað og strúturinn við að telja tær í sandinum á Tene.
Það var ekki fyrr en krónan tók við, og moldarkofarnir voru að hruni komnir, að eitthvað fór að rofa til upp úr 1919, -og þá með þeirri íslensku. Spurning hvort Lukkupotturinn og Valkyrjurnar, ættu ekki allavega í það minnsta, að taka eins og eitt Trump á fraukuna Fredriksen áður en anað er í ESB.
Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur, -var vel þekkt orðatiltæki á hátindi feðraveldisins. Nú virðist fraukurnar í forynjuveldi ESB endanlega hafa tapað áttum og kasta stríðsæsingum á báða bóga við fögnuð Valkyrjanna. Á meðan semja þeir Selinskí, Pútín og Trump, -The Art of the Deal.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2025 | 03:43
Konudagatal
Nú er upp komin sú staða á Íslandi, að konur gegna öllum helstu embættum landsins. Þær eru ekki bara uppalendur okkar strákanna, heldur eru þær líka ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar í borg og stærstu bæjum, borgar- og bæjarstjórar, biskup, forseti, ráðherrar og foraætisráðherra þríhöfða valkyrjur ríkisstjórnarinnar, þar sem sprengjudúkkur hafa farið fyrir stríðsæsingum þessi árin, -og bara til að nefndu það, -þá verður formaður Sjálfstæðisflokksins kona innan skamms.
Já og vel á minnst tappi er kallkyns, jafnvel þó hann sé áfastur úr plasti. Annars ætlaði ég í dag, sjálfan konudaginn, -ekki að fjargviðrast um kellingavaðalinn, þó svo Íslendingar virðist staðráðnir að fá upp í kok af konum í eitt skipti fyrir öll eftir allan hrútspungafnykinn úr Hádegismóum. -Mér væri kannski nær að gera orð þjóðskáldsins að mínum þegar kemur að stríðsþyrstum konum; -gefðu þeim blóm.
Ég ætlaði að nota þennan pistil í fabúleringar um dagana en ekki staðreyndir um stöðu konunnar nú á dögum. En þar sem konudagurinn er í dag þá er þessi útúrdúr í formála fyrirgefanlegur sérstaklega ef orð skáldsins sem á eftir koma eru höfð í huga. Einnig er nú fyrsti dagur mánaðarins Góu, sem er annar mánuður útmánaða, -á seinni hluta vetrar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu.
Erfitt er að finna eldri heimildir fyrir sérstökum degi konunnar, en frá því upp úr miðri 20. öld, -hvað þá að haldið hafi verið upp á þann dag. En auðvitað er sá dagur samt rökrétt framhald bóndadags, á fyrsta degi Þorra, -og í takt við eftirbátana, yngissveinadag á fyrsta degi Einmánaðar, og yngismeyjadag, sumardaginn fyrsta, -fyrsta dags Hörpu.
Líklegast er að konudagsblómsala Lionsmanna eigi heiðurinn af því að gera konudaginn að þjóðlegum degi í hugum landans. En sú þjóðrækni kemur í raun frá fjáröflunarsölu Lionsmanna í USA sem þeir ástunduðu fyrir Valentínusardag þar vestra. Sá dagur er í grennd við fyrsta dag Góu og íslenskir Lionsmenn tóku upp eftir bræðrum sínum í Ameríku, að kaupa blóm í heildsölu upp úr miðri 20. öld og ganga í hús til að selja kynbræðrum sínum svo þeir gætu glatt sína heittelskuðu á svokölluðum konudegi, sem þeir vildu náttúrulega meina að væri þjóðlega hefð.
Í mínu smáheimabæ olli þessi blómasala talsverðri úlfúð á sínum tíma, vegna þess að eina blómabúð bæjarins var í eigu konu, og karlar voru ekki að kaupa blóm á hverjum degi í þá daga, enda helst að þau væru keypt á líkkistur. Blómasölukonan taldi sig því sitja sorgmædd með sárt ennið allt í kringum þennan dag vegna uppátækis Lionsmanna, og hennar maður kunni ekki við að kaupa blóm til að gleðja hana við það tækifæri.
Annars er sama hvar í heiminum er, og á hvaða tíma, -þá er eitt sem flest samfélög hafa rambað á, það er að hafa vikudagana sjö, og að lengi getur manneskjan á sig blómum bætt. Kannski er enn merkilegra að dagarnir eiga sér svipaðan uppruna. Eins er það athyglivert að fáar þjóðir hafa gengið lengra í að afmá goðsögur vikudagana og Íslendingar með því að breyta nöfnum þeirra til veraldlegri merkingar.
Biblían segir að Guð hafi skapað heiminn á 6 dögum og hvílst dag af því loknu, þess vegna séu dagar vikunnar sjö. Svo er stundum sagt að fjöldi atriða, sem meðalmaðurinn getur sett á minnið séu sjö, þess vegna hafi dagar vikunnar orðið sjö. Talan sjö er auk þessa frumtala og einungis hægt að deila henni með einum í sig sjálfa, og nöfn vikudaganna eru sjö, eitt fyrir hvern dag.
Hér á landi var nöfnum vikudagana breytt, aðallega fyrir tilverknað Jóns Ögmundssonar biskups. Á 12. öld hlutu flestir íslensku dagana þau nöfn sem notuð eru í dag. Áður voru þeir með svipuðum nöfnum og í nágrannalöndunum eða; Sunnudagur, Mánadagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Lokadagur. Meir að segja var reynt að breyta Sunnudegi í Drottinsdag og Mánadegi í Annadag.
Líklegt er að skipan vikunnar sé gyðingleg og eigi sér uppruna í gamla testamentinu þó svo að vikudagarnir hafi borðið nöfn heiðinna goða. Þetta sést best á því að þó nöfnum daganna sé breytt þá stendur sunnudagur sem fyrsti dagaur vikunnar sé miðað við miðvikudag, -en er orðin að hvíldardegi að Kristnum sið. Gyðingar halda sinn hvíldardag á laugardegi.
Á norðurlöndunum eru nöfn dagana Sondag, Mandag, Tirsdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og Lordag, enn þann dag í dag kenndir við nöfn hinna fornu goða nema Sunnudagur og Mánudagur sem kenndir eru við himintungl. Á ensku eru dagarnir kenndir við sömu goð, í sömu röð, nema Lokadagur - Saturday er kenndur við stjörnuna Satúrnus eða rómverska goðið Saturn. Miðvikudagur sem er Wedensday á ensku var t.d. áður skrifaður Wodensday, sem Óðinsdagur.
Uppruni vikudagana um víða veröld er talinn eiga meira sammerkt en að vera sjö talsins og sumstaðar goðsöguleg nöfn, því goðin eru talin hafa haft sína skírskotun til himintunglanna. Það segir sig sjálft að sunnudagur er sólardagur og mánudagur er mánadagur. Vikudagarnir á íslensku hafa flestir tínt sínum upphaflegu goðsögulegu einkennum, auk þess sem aðeins tveir þeirra eigi enn sína stjarnfræðilega tengingar.
Einkenni dagana gætu hafa verið eitthvað á þennan veg í gegnum tíðina:
Sunnudagur til sigurs, er fyrsti dagur vikunnar / Sól, gull = Sunnudagur; uppljómun hin skínandi gyðja uppljómunar, ákvarðanir, leiðandi, afl. Sólin hefur verið tilbeðin um allan heim og goð henni tengd. Ra var t.d. sólguð í fornegypskri goðafræði sem réð yfir himni og jörð. Ra var guð hádegissólarinnar, um tíma höfuðguð trúarbragða Egypta.
Mánudagur til mæðu, er annar dagur vikunnar og fyrsti virki dagur vikunnar / Máni, silfur = Mánadagur; hugur, tilfinningar, hjartnæmi, samhygð. Máninn hefur ekki verið talinn álitlegur til tilbeiðslu í gegnum tíðina. Orðið Luna er Máninn á grísku og rót enska orðsins lunatic sem gæti útlagst hugsjúkur, þýtt beint á íslensku tunglsjúkur. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn"(Matth 17:15)
Þriðjudagur til þrautar, er eins og nafnið gefur til kynna þriðji dagur vikunnar / Mars, járn = Týsdagur; hamingja, velferð, réttlæti, lög, tærleiki, hreysti (hin guðlegu alheimslög)lögmál náttúru. Týr er guð hernaðar, en einnig goð himins og þings. Týr var hugprúðastur og djarfastur allra ása. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna.
Miðvikudagur til moldar, hefur það í nafninu að bera upp á miðja viku / Merkúr, kvikasilfur = Óðinsdagur; vitund skilningur rökhugsun. Óðinn er æðstur goða í norrænni goðafræði, guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn birtist mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt, slóttugur og gengur undir mörgum nöfnum.
Fimmtudagur til frama, er fimmti dagur vikunnar / Júpíter, tin = Þórsdagur; kraftur, þekking, viska. Þór er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og er mest dýrkaður að fornu og nýju. Himnarnir skulfu er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu við þrumur og eldingar sem fylgdu honum, hamar hans Mjölnir er tákn þrumu og eldinga.
Föstudagur til fjár, er dagur sem skal nota til föstu samkvæmt kaþólskum sið / Venus, kopar = Freyjudagur; ást, sköpun, laðar að fólk. Freyja var gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Valdamikil gyðja, dýrkuð af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar, veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn, var valkyrja sem átti hálfan valinn á móti Óðni.
Laugardagur til lukku, lokadagur vikunnar, / Saturnus, blý = Lokadagur; efnishyggja, völd, veraldarhyggja. Er nú sagður til hreingerninga og var um tíma nefndur þvottadagur. Loki var brögðóttastur allra ása, ekki hafa fundist merki þess að Loki hafi nokkurstaðar verið tilbeðinn eða dýrkaður opinberlega sem goð, enda tákn efnishyggju og undirferlis. Hnötturinn Saturnus er stundum kallaður hringa drottinn tákngervingur bragða, valda og græðgi. Ætla mætti að nafnið Satan væri þaðan komið, en verður samt ósennilegt við það að þessi dagur er hvíldardagur þess drottins sem skapaði jörðina samkvæmt gamla testamentinu.
Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi að mestu komist að sömu niðurstöðu um víða veröld hvað eiginleika dagana varðar, með sömu kenndir og sama himinhvolf til að styðjast við, -kennt þriðjudaginn við Mars, miðvikudaginn við Merkúr, fimmtudaginn við Júpíter, föstudaginn við Venus og laugardaginn við Satúrnus auk Sunnu og Mána.
Ef einhver kona lítur hér inn þá óska ég henni til hamingju með alla daga blómalaust, -annað gæti bara valdið misskilningi, enda ekki svo langt síðan að þjóðskáldið gaf tóninn:
Ég er fæddur hjá frjálsri þjóð, í ljómandi fallegu landi,
sem laust er við heimskingja, afætur, gula og svarta.
En nú sækir stíft að oss aríum mikill voði og vandi,
þessi vesældarlýður hefur birst hér að betla og kvarta.
Mér finnst ekki rétt þegar heimurinn hagar sér svona.
Hefnd vofir yfir. - Jafnvel forsetinn sjálfur er kona !
Í örvænting minni ég hrópaði á alvaldsins herra:
Hvað get ég gert ! - Svarið það minnti á hnerra.
Gefðu þeim blóm.
Gefa þeim blóm!
Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum.
Því miður er fluttur í götuna okkar kornúngt kynvillingsgrey
Karlmönnum, einsog mér, verður illt við það eitt að sjá-ann.
Ég spurð-ann útí búð svo allir heyrðu hvort hann væri hrein mey.
Helvítis auminginn roðnaði og mig langaði langmest að slá-ann.
Hann dillar sér alveinsog graðnaut með grettum og hlær.
Ég greip-ann hér niðrá horni í myrkrinu í gær.
Þegar ég ætlaði að berja-ann duglega og kýl-ann í klessu
Þá kallaði til mín þessi rödd eins og prestur við messu:
Gefð-onum blóm.
Gef-onum blóm!
Já, gefð-onum blómavönd og rúsínupoka með hnetum.
Ég er ekki með neina fordóma eða fornaldarviðhorf í neinu.
Aðeins frábrugðinn mönnum sem þora ekki að taka af skarið.
Mér finnst það sjálfgefið viðhorf að halda landinu hreinu,
hreinsa burt mannlífssorann svo við föllum ekki í sama farið
og stórþjóðir margar sem vandann vilja ekki sjá.
Slík viðhorf mega aldrei hérlendis fótfestu ná.
En ef maður segir eitthvað gegn þessum múhameðs durtum og dóti
þá drynur þessi rödd fyrir ofan alltaf á móti.
Gefðu þeim blóm.
Gefa þeim blóm!
Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum. (Hörður Torfason)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2025 | 05:56
Newspeak og orðhengilsháttur
Orð geta verið samsett og eru þá oft sögð meina eitthvað allt annað en þau merkja. Það að tengja t.d. orðið frelsi við samsetta orðið öryggi er vinsæll útúrsnúningur sem oft er beitt af valdhöfum. Á meðan frelsið er opið óteljandi möguleikum er öryggi hlekkir búnir til af yfirvöldum.
Orðið ör-yggi er samsett; fyrrihlutinn -ör; -þýðir t.d. að vera ör, -menn eru t.d. örgeðja samanber æstir. Yggi er komið af uggur samanber ótti ör-uggur er því æstur ótti samkvæmt orðsifjum þessa samsetta orðs. Að vísu getur ör líka verið forskeyti sem á þá að merka lítill ótti.
Öryggi er ofnotað orð í íslensku nú um mundir, -rétt eins og security í ensku. Security kemur úr latínu í gegnum frönsku í ensku og er ágætis newspeak dæmi um útúrsnúning, -þó gamalt sé. Latneska orðið se-curitas þýðir í raun óháður, sá sem þarfnast ekki aðstoðar, sjálfbjarga, -eða þannig.
Orðhengilsháttur valdhafa í gegnum tíðina er margskonar. Talað er um þjóðaröryggi, -jafnvel þjóðaröryggisráðsráð, sem er frjór samsett orðskrípi og mörgum finnst hljóma traustvekjandi. En er í raun viðvörun til almennings um það þegar opinbert vald æsir til múgsefjunar. Rétt eins og orðsifjar samsetningarinnar segja séu þær raktar.
Skemmst er að minnast þess þegar Þjóðaröryggisráð Íslands fór í samstarf við Vísindavef HÍ árið 2020, varðandi opinbera covid-19 umræðu. Markmiðið var að samræma upplýsingar, sem almenningi bærust, og sigta út óæskilega umræðu um opinberar upplýsingar.
Einnig er rétt að minnast þess, að í kjölfarið reið yfir múgsefjun, með þríeykið reglulega á seiðhjallinum og þann klára skrækjandi í fjölmiðlum, þar til kátt varð í höllinni með DJ og alles, -eða þannig.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.2.2025 | 15:34
Umboðslausir leiðtogar
Nú ríður á, sjálfur verndarengill lýðræðisins, hinn lýðræðislega umboðslausi Slenski, -hefur sagt að engin friðarsamningar verði undirritaðir án sinnar aðkomu. Skrifræðisveldið Evrópu, sem engin á Íslandi kaus, er að fara á límingunum.
-Hvað með alla peningana sem er búið að fjárfesta í þessu stríði? -Eiga þeir bara að brenna upp í friði? -Hafa allir þjóðarleiðtogarnir sem sækja fundinn sótt sér lýðræðislegt umboð til að fjármagna stríðrekstur í Úkraínu?
Það er kostulegt að heyra George Galloway fara yfir stöðuna sem var komin upp í Evrópu nú í upphafi viku.
![]() |
Kristrún tekur þátt í neyðarfundi Macrons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.2.2025 | 05:09
Fjórir Jónar og jafnmargar Margrétar
Öldin sautjánda hefur hér á landi verið kölluð brennuöldin eða öld galdrafárs, en ætti kannski með réttu að vera kölluð sjóræningjaöldin. Hér á eftir fer örstutt æviágrip fjögurra Jóna þessu til undirstrikunar og í lífi eins þeirra koma við sögu fjórar Margrétar. Allir tengdust þessir Jónar með einum eða öðrum hætti og áttu sitt blómaskeið á fyrri hluta 17. aldar.
Í júnímánuði árið 1614 kom til Vestmannaeyja stórt vígbúið sjóræningjaskip undir stjórn tveggja Englendinga. Sjóræningjarnir settust upp í Heimaey, rændu þar og rupluðu. Meðal þess sem þeir stálu var kirkjuklukkan í Landakirkju.
Skipstjóri sjóræningjaskipsins hefur verið kallaður hér á landi Jón Gentlemann, en hét í raun James Gentleman og var hér í ránsleiðangri ásamt félaga sínum William Clark. Sumar sagnir segja að sjóræningjar þessir hafi komið við í Papey og jafnvel á Djúpavogi.
Séra Jón Halldórsson prestur í Hítardal segir svo frá ráninu í Biskupssögum: -voru Vestmanneyjar rændar- Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og barka þeim íslensku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst með spotti og skellihlátri, drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu.sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki. Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir voru á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin, var hún þremur árum síðar send aftur til Vestmannaeyja eftir skipun Jacobs kongs á Einglandi.
Örlög Jóns og Williams urðu þau, að nokkru síðar voru þeir teknir höndum í Englandi, dregnir fyrir dóm og hengdir, meðal annars fyrir ránið í Vestmannaeyjum. Danakonungur hafði skrifað Jakob 1. Englandskonungi kvörtunarbréf vegna ránanna. Eyjamenn endurheimtu því kirkjuklukkuna, en áletrunin á klukkunni sannaði hvaðan hún var.
Samkvæmt kvæði séra Jóns Þorsteinssonar sóknarprests í Eyjum voru ensku sjóræningjarnir þar í 28 daga. Hélt séra Jón því fram að Vistmanneyingar hefðu kallað ránið yfir sig sjálfir með óguðlegu líferni, -og orti bæði kvæði um atburðina og það sem ætti eftir að koma yfir Eyjamenn ef þeir bættu ekki ráð sitt.
Spá séra Jóns Þorsteinssonar átti heldur betur eftir að rætast, 13 árum seinna, 1627 rændu Tyrkir Vestamanneyjar og drápu þá séra Jón ásamt fjölda fólks. Eftir það var hann kallaður Jón Píslarvottur, var hann sagður hafa liðið píslarvættisdauða, og er hann eini sannlegi píslarvotturinn á Íslandi.
Þegar sjóræningjar óðu um Vestmannaeyjar í Tyrkjaráninu faldi séra Jón sig ásamt fjölskyldu og heimilisfólki í Rauðhelli, skammt frá Kirkjubæ, en ræningjarnir urðu þeirra varir vegna þess að gamall karl, sem var heimilismaður Jóns, var svo forvitin um framferði Tyrkja að þeir sáu til hans utan við hellinn.
Þeir komu þangað og fundu fólkið, en tvær konur höfðu falið sig í sprungu þar nærri og ræningjarnir sáu þær ekki, en þær fylgdust með því sem gerðist. Þær sögðu að séra Jón hefði gengið á móti ræningjunum, sem hefðu höggvið hann þrisvar í höfuðið en hann mælti guðsorð við hvert högg.
Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: -Það er nóg, herra Jesú! meðtak þú minn anda. Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt, -segir í Tyrkjaránssögu. Frásögnin er með nokkrum ólíkindablæ, en hetjuleg framganga séra Jóns Þorsteinssonar hefur vafalaust stuðlaði að því að hann fékk píslarvottsnafnbótina.
Kona séra Jóns Píslavotts, Margrét Jónsdóttir, var flutt til Algeirsborgar ásamt tveimur börnum þeirra, Margréti og Jóni yngra, og voru þau seld þar á þrælamarkaði. Prestfrúin dó innan fárra ára, dóttirin Margrét var seld spænskum eða frönskum kaupmanni sem giftist henni síðar.
Á Miðjarðarhafi tíðkaðist að nota galeiður sem voru með fábreyttan seglabúnað svo treysta þurfti á árar. Mikill markaður var því fyrir þræla undir árar galeiðnanna. Nánast eina úrræðið fyrir þræla var að snúast til Íslam vildu þeir betra hlutskipti. Að vera galeiðuþræll var það versta af öllu, þeir voru hlekkjaðir berir undir árar, keyrðir áfram með svipu og gátu verið við róðra klukkustundum saman. Brauði var dýft í súpu eða vín og því slengt í andlitið á þeim með skafti svo ekki yrði hlé á róðrinum. Þegar þeir gáfust upp var gengið úr skugga um að þeir væri dauðir og þeim hent í sjóinn.
Jón, sonur séra Jóns og Margrétar, var 15 ára þegar honum var rænt. Hann kastaði fljótlega trúnni, gerðist Múslimi og komst til þeirra metorða í Barbaríinu að verða sjóræningi á Miðjarðarhafi. Hann tók upp nafnið Vestamann og var eftir það kallaður Jón Vestmann.
Jón Vestmann kom sér vel í Barbaríinu. Fyrst í stað virðist hann samt hafa búið við harðan kost, það má ráða af bréfi sem Grindvíkingurinn Jón Jónsson, skrifaði til foreldra sinna á Íslandi árið 1630. Þar segir Jón svo um nafna sinn Vestmann: - ég skrifaði fyrir Jón son síra Jóns heitins Þorsteinssonar um hans sálugu móður í guði sofnaða til hans bræðra og lögmannsins herra Gísla Hákonarsonar, því hans ógnarlegi patron leið honum eigi að skrifa langort bréf.
Jón Vestmann hefur vafalaust verið reyndur af því hvort hann væri heill í hinni nýju trú. Hann hefur auðsýnilega staðist prófið, því hann komst til álits og fékk mannaforráð. Í Algeirsborg var á þessum tímum mikil velmegun og auður, en það breytti samt ekki því að þræll var ávalt þræll þó svo að hann gengist Íslam á hönd og efnaðist.
Sjóræningjar, sem höfðu aðsetur í Algeirsborg, stunduðu rán á siglingarleiðum til kristinna landa við Miðjarðarhafið og rændu einnig við strendur Vestur Evrópu. Jón Vestmann varð brátt í miklu áliti og varð foringi eða skipstjóri á ránsferðum um Miðjarðarhafið.
Jón Vestmann ól þá von í brjósti að hann slyppi úr Barbaríinu og kæmist aftur á heimaslóðir. Eitt sinn skipulagði hann flótta ásamt Norskum skipstjóra, sem eins var komið fyrir, hugðust þeir komast til Danmerkur, en það komst upp um þá og þeir máttu þola harðræði í kjölfarið.
Jón Vestamann vann sér smá saman aftur traust Tyrkja og hóf á ný sjórán á Miðjaðarhafi. Í eitt sinn féll hann í hendur óvinarins og stóð þá til að hengja hann. Þá bar að Spánverja, sem komst að því að Jón var norrænn maður í ánauð, og fékk Spánverjinn hann lausan undan hengingunni.
Jón Vestmann hóf ferðina heim, kom við í Marseille og hitti systur sína, en þar bjó þá Margrét. þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar. Hann ílentist í Kaupmannahöfn og var þar mikils metinn þrátt fyrir menntunarleysi, þótti bæði reyndur og sigldur.
Jón Vestmann kom til Danmerkur árið 1645, 18 árum eftir að honum var rænt og hann seldur á þrælamarkaði. Hann er sagður hafa kennt Dönum að smíða hjólbörur, en þesskonar tækniundri hafði hann kynnst í þrældómi Barbarísins. Eins var hann skipaður af konungi til að gera sjókort vegna siglingareynslu sinnar
Það varð snöggt um Jón Vestmann hann lærbrotnaði í Kaupmannahöfn veturinn 1649, fékk sýkingu í brotið og dó í kjölfarið 37 ára gamall, og komst því aldrei aftur heim. Hann var gefin saman við danska konu á sjúkrabeði, sem hét Margrét. Seinna sama ár fæddi hún dóttir þeirra sem einnig var skírð Margrét.
Einn af þekktustu menntamönnum Danmerkur þessa tíma, Ole Worm, sagði í bréfi til Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem ritað er 10. maí 1649: -Vér höfum misst landa yðar Jón Vestmann, vissulega frábæran mann að gáfum og margskonar þekkingu. Ég harma lát hans næsta mjög, því að hann var náinn vinur minn.
Á úthöfunum þurfti öflugri skip en galeiður, sem treysta þurftu á árar, -og til sjórána á Atlantshafi. Þess vegna og þóttu góðir skipstjórnarmenn á úthafskipin vera frá norður- og vestur Evrópu
Sumarið 1615, ári eftir að Jón Gentleman gerði sig heimakominn í Vestmanneyjum, sigldi Jón Ólafsson, -ungur Vestfirðingur, með ensku skipi til Englands og þaðan lá leið hans til Kaupmannahafnar. þar sem hann gerðist fallbyssuskytta á herskipum Kristjáns IV Danakonungs.
Auk þess að starfa við lífvörð konungs lá leið Jóns fljótlega norður til Svalbarða. Árið 1622 sigldi hann með kaupskipi suður fyrir Afríku, og upp Indlandshaf til Ceylon, -sem nú heitir Srí Lanka. Síðar dvaldist hann í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi.
Í september árið 1624 slasaðist Jón illa við sprengingu í fallbyssu, -var hann 30 ára. Þá var hann fluttur til Danmerkur og kom til Kaupmannahafnar um sumarið ári seinna, eftir hrakninga og vetursetu í Írlandi. Hann kom svo til Íslands aftur árið 1626 og settist að í Álftafirði við Ísafjarðardjúp, sinni gömlu heima sveit. Seinna réði hann sig um tíma til að sjá um varnir Vestmanneyja.
Jón skrifaði reisubók sína á alþýðumáli lausu við guðsorðastagl og útúrdúra menntamanna þessa tíma. Bókin kom fyrst út á Íslandi á 20. öldinni. Hann var hér á landi kallaður Indíafari, enda lengi vel eini Íslendingurinn sem hafði komið til Indlands svo vitað væri.
Jón Indíafari var góður sögumaður og eru lýsingar hans á mannlífi Kaupmannahafnar og siðum framandi þjóða skemmtilegar. Reisubókin þykir einstæð heimild um mannlíf og herþjónustu í danska flotanum á 17. öld. Útdrátt úr henni hefur mátt finna sem kennsluefni barna og unglinga í dönskum skólum.
Hægt er að staðfesta frásagnir Jóns Indíafara með samtímaheimildum, auk þess sem í sjóræningjasögum hans er hægt að finna samsvörun enn þann dag í dag, líkt og er við flóann á milli Sómalíu og Jemen á hafsvæði Húta: -Eitt eyland, liggjandi í því Rauða hafi, kallast Zocotora og heyrir til Afríka. Það með lyktar hér um meira að tala. Út af því Rauða hafi koma þrátt í veg fyrir Indíafara nokkur smáskip og skútur, sem kallast barkar, hver skip þeir taka með harðri hendi og alla vöru. Á þeim eru egypskir og arabískir menn. Sumum sleppa þeir tómhentum, en suma aflífa þeir, sem morðingjar og sjóreyfarar. Þar fá þeir oftlega mikið herfang, og nær svo ber við, að þessi smáskip koma út af þeim Rauða sjó í móti þeim, en á vorri leið skeði það ei, og ei komum vér við nokkur lönd, fyrr en við komum að Ceylon.
Jón Indíafari kom við sögu í Tyrkjaráninu sumarið 1627. Þegar Murat Reis, sá sem rændi Grindavík, sigldi fyrir Reykjanes eftir rán í Grindavík, þá er talið að hann hafi ætlað að ráðast á Bessataði, höfuðvígi landsins, þá hafði verið hlaðið í flýti með skreiðapökkum á milli fallbyssa, einungis til þess að sýndist vera virki.
En Holgeir hirðstjóri konungs, sem sat á Bessastöðum, hafði haft spurnir af sjóráninu í Grindavík. Þá var Jón Indíafari nýkominn að vestan í Bessataði með bréf frá Ara sýslumanni í Ögri og gaf ráð við varnirnar. Því þar var kominn fallbyssuskytta úr sjóher konungs á ögurstund og maður sem var vanur hernaði. Þó svo að varnirnar á Bessatöðum væru aumar, virkuðu þær.
Svo fór, hvort sem það var Jón Indíafara að þakka, eða það var einhver annar sem sá um fallbyssuskotin, sem beint var að skipum Murat, að hann hörfaði frá. Þar sem það var lágsjávað þá tók stærra skipið niðri á Lönguskerjum. Holgier hirðstjóri ákvað að aðhafast ekki frekar og fór Morat skipstjóri vestur með landi þegar skipið losnaði, áður en hann tók kúrsinn til Salé í Marokkó.
Þeir sjóræningjar sem kallaðir voru Tyrkir voru ekki eiginlegir Tyrkir eins og við köllum þá í dag. Skip þeirra komu frá N-Afríku og voru að talsverðu leiti mönnuð sjómönnum frá V-Evrópu. Tyrkjanafnið kom til vegna þess skipin áttu heimahafnir innan Ottómanveldisins, -með Soldán sitjandi í Istanbúl, og var því kallað Tyrkjaveldi.
Sumarið 1627 var mesta sjóræningjasumar sem sögur fara af í Íslandssögunni. Tveir sjóræningjaleiðangrar komu frá N-Afríku, annar frá Salé í Marokkó og hinn frá Algeirsborg í Alsír. Sjóræningjaleiðangurinn frá Marokkó rændi Grindavík og reyndi við Bessastaði. Sá frá Alsír rændi í nágreni Djúpavogs og í Vestmannaeyjum. Alls var um 400 manns rænt og fólkið selt á þrælamörkuðum N-Afríku. Talið er að um 50 hafi verið drepnir í sjóránunum.
Skipstjórar sjóræningjaleiðangranna voru tveir og báðir kallaðir Murat Rais. Murat er algengt arabískt og tyrkneskt nafn, Rais þýðir skipstjóri. Vitað er að sá Murat sem kom frá Marokkó hét Jan Janson áður en hann tók upp nafnið Murat. Hann ver Hollenskur að uppruna frá Haarlem.
Alsírski Murat var af svipuðum uppruna, til eru heimildir í Alsír um að hann hafi verið kallaðu Murat Flamenco eða Flemming, hans heimaslóðir voru í nágrenni Antwerpen. Sennilega hafa báðir Muratarnir verið undir sömu sök seldir og Jón Vestmann, þeim hafi verið rænt og seldir í þrældóm.
Þó svo að sjóræningjaskipstjórar kæmust í góð efni eftir að hafa snúist til Íslam þá var ekki svo auðvelt að snúa aftur heim, þó svo að hugur og fjárráð stæðu til þess. Til eru heimildir um að sjóræningjaskipstjórar hafi reynt að kaupa sig heim fyrir stórfé og reynt að ná samningum við yfirvöld í heimalöndunum.
Það kemur fram í sögu Jóns Vestmann, að eftir hann kom til Danmerkur lenti hann í vanda þegar upp komst að hann var umskorinn að hætti Múslima. Var farið fram á um tíma að honum yrði hengt stranglega, jafnvel með lífláti. En Jón komst í gegnum þau mál með lipurð og var aftur tekinn í Kristinna manna tölu.
Svo segir frá aðförum Tyrkja við mannránin í Eyjum. -Meðal þeirra voru hjónin Jón Jónsson og Oddný Þorsteinsdóttir. Víkingarnir fundu þau með barn sitt eitt skammt frá bæ, og varð þar hörð viðureign, en ekki löng. Hjuggu þeir höfuðið af Jóni bónda, en misþrymdu konunni, slitu af henni hár og fatnað og drógu hana síðan nær dauða en lífi niður í kaupstaðinn
Heimildir:
Saga Vestmanneyja
Tyrkjaránssaga
Tyrkjaránið / Jón Helgason
Undir Tyrkjans sverði / Jón Gíslason
Karl Smári Hreinsson
Adam Nichols
Wikipedia
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)