11.10.2024 | 13:49
Aumt er þetta af "bændum"
Árum saman hafa bændur á Suðurlandi legið á þingmönnum með það að fá að drepa álftir. Þeir segja að þær eyðileggi akrana. Fyrst héldu þeir því fram að þær ætu frá þeim allt kornið, en nú eru þeir farnir að halda því fram að auki að þær bæli niður grasið, eftir að hafa verið staðnir að lyginni og þess í stað sé erfitt að vinna akrana að vori, -og þá væntanlega bæla álftirnar grasið meira en stærstu traktorarnir þeirra sem notaðir eru til að vinna flögin.
Heyrst hefur að á Suðurlandi stundi bændur einhverja þá al-ógeðslegustu ferðaþjónustu sem fyrirfinnst í landinu. Eftir að gæsaveiðitímabilið hefst selji þeir ferðaþjónustufyrirtækum aðgang að lendum sínum sem koma með drápsóða túrista sem fá afhentar haglabyssur við komu að morgni og driti niður gæsir sér til skemmtunar á morgunnfluginu. Að lokinni slátruninni, sem getur talið hundruð fugla í hvert skipti, halda túristarnir í sína dagsferð, en bóndinn hirðir dauðann fuglinn af akrinum, sker úr honum bringuna og selur veitingahúsum hana sem villibráð.
Þetta er aðferðafræði sem er nokkuð á pari við þá bændur sem vitað er af í öðrum landshlutum og hafa ræktað kornakra til að leigja íslenskum gæsabringuveiðimönnum með góðum ágóða. Það sem bændur á Suðurlandi eru þarna að fara fram á er í raun að veiðitímabilið sé ótakmarkað á lendum þeirra frá vori til hausts, allan þann tíma sem farfuglar eru á landinu. Auk þess að það taki til grágæsa og heiðargæsa, sem það gerir nú þegar eftir 20. ágúst, þá taki það einnig til helsingja og álfta, sem voru í útrýmingarhættu fyrir nokkrum áratugum síðan.
Það að að halda því fram að um offjölgun á álftum sé að ræða, þó að þær telji nokkra tugi þúsunda á landinu öllu, og að þær eyðileggi akra bænda í stórum stíl er fyrirsláttur, og ömurlegt þegar fjölmiðlar taka þátt í þannig einhliða rangfærslum. Það ætti ekki annað eftir að sannast á auðkeypt alþingi, en að það leyfi ótakmarkað dráp á farfuglum sem koma til landsins vegna svona ömurlegs málatilbúnar.
![]() |
Bændur vilja skjóta álftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.10.2024 | 16:38
Why Iceland viðundrið sagði brandara og salurinn hló
Man einhver hvaða brandara Why Iceland sagði fyrir tæpum 20 árum? Samt faglega sagt hjá viðundrinu og fallega gert hjá hreppsómögunum að hlæja á réttum stað, -eins og hver önnur fífl, sem þau reyndar eru.
Why Iceland hefði mátt minnast á að vegna stórkostlegra hæfileika hans og hans líka, þá streymir fólk frá Evrópulöndunum til landsins, frekar en til Tene, á meðan venjulegir Íslendingar hafa varla efni á að búa í eigin landi, -hvað þá að ferðast um það, -og það á meðan flækingarnir byggja yfir hvorir aðra á okurvöxtum.
Hann bendir á fádæma hagvöxt, -sem búin er til með skuldsettri verðbólgu og innflutningi á flækingum, þakkar síðan sjálfum sér fyrir að verðbólgan sé á leiðinni niður eftir 14 vaxtahækkanir sem eru að hafa þakið af ungum Íslendingum.
Á meðan eina ástæðan fyrir því að verðbólgan var á leiðinni niður í síðustu mælingu er sú, -og ég endurtek sú aleina, -að fíflin sem hlógu í salnum gefa nú skólabörnum frítt að éta á kostnað vinnandi fólks landinu.
Þessi salur væri betur allur með tærnar upp í loft alla daga, -jafnvel á Tene.
![]() |
Mættu hafa í huga þar sem þeir kvarta á Tene |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2024 | 06:20
Tilkynning frá landvættunum
Nú hyllir í það sama hjá Ríkisstjórn Íslands og litlu lukkudýrunum sem fyrst flýja sökkvandi skip og trúa að fúið haldreipið fyrstir fái.
En sú tíð er liðin. Púkarnir á fjósbitunum hafa þegar selt landið undan þjóðinni ef ekki á carbfixuðu Reykjanesi, þá beint í gegnum Þorlákshöfn og vindrellandi auðrónum til hamafaóræktar víða um land.
Firðirnir, fossarnir og heilu fjallasalirnir hafa verið eyrnamerktir alþjóðlegum auðrónum, sem stundum kalla sig Svarthamar, á glópelskum markaði lífeyrissjóðanna.
Það mun taka mútuþegana u.þ.b. þrjár kynslóðir að tapa öllum ávinningnum. Þá tekur við 7 alda eftirsjá og sjálfstæðisbarátta fíflaðrar þjóðar í rændu landi þ.e.a.s. ef hún lifir af hamfarirnar.
![]() |
Stjórnarsamstarfið geri markmið Íslands torsótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2024 | 01:22
When I'm Sixty-Four
Móða liggur yfir landi
-dularfullir klettar
-veðurbarðir girðingastaurar
og slakur gaddavír
spegla sig í lygnri tjörn
Um bjarta sumarnótt
yfir húmbláum fjöllum
bjarmaði eitt sinn
af bleikum morgni
fjarlægrar fægðrar
Móðan stígur nú upp til stjarnanna
lík óræðum anda úr 1001 nótt
-upp í ævintýralega birtuna
við eftirvæntingu
barna-barnanna
Nú, þá og þegar
ég er sextíu og fjögra
spyr ég afturábak
-út í andaktina
og inn í haustið
Hvert fer draumurinn
lífið sem ég þrái
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.9.2024 | 05:14
Eftirlits-þjóðfélagið og torkennileg skítseyði
Nú er migið á báða lófa og fiskað í gruggugum ólgusjó. Verkalýðsforustan og stjórnmálamenn, auk alls málsmetandi fólks ofbýður mansalsiðnaðurinn og þjóðinni er jafnvel nóg boðið.
En er það nú alveg svo? -vill einhver viðurkenna að þetta sé samfélagslegs eðlis? -þjóðinni sé nákvæmlega sama á meðan hún á fyrir okurvöxtunum, fær greiningar um kulnun á kaupi og fer í sína Tene túra?
Það virðist hið besta mál að flutt sé inn erlent vinnuafl á mansalslaunum svo lengi sem einhver hirðir ekki alveg allan mismuninn, alla vega ekki það sem á að fara í eftirlitið. Enda gengur þetta þjóðfélag víst ekki upp öðruvísi í praxís, -ekki frekar en Sameinuðu Arabísku furstadæmin.
Samfélag sem er hætt að nenna að þrifa skítinn eftir sjálft sig og það heima hjá sér, -fær til þess erlent vinnuafl. Þjóðfélag sem telur sig upptekið við allt annað og uppbyggilegra, -ef ekki reglugerða eftirlit, þá á Tene eða í hvíldar kulnun.
Já ég er gnafinn og gneiptur þessa dagana. Í vikunni sá ég af ungum vinnufélaga til Noregs. Gullmoli sem kom 17 ára til að verða steypukall eins og afi sinn, mér var falin umsjáin af vinnuveitandanum. Við vorum búnir að vera vinnufélagar í fimm ár.
Svo verð ég að segja það alveg eins og er að ég stalst til að horfa á marg-mærðan mansalsþátt Kveiks í tölvunni, -eftir allt umtalið. En á fréttir í sjónvarpi hef ég ekki haft geð í mér til að horfa á í ártugi, nánast ekki síðan þjóðarsáttin kvað uppmælingaaðalinn í kútinn.
Já það er ánægt slektið yfir verðbólgnum virðisaukanum af flækingunum, sem skilar sér alla leið í ríkissjóð, þó svo að það kunni að hneykslast á réttum stöðum, -og tala um að lausnin sé meiri peninga í vel launað eftirlitið.
Vinnufélagarnir eru á því að gullmolinn skili sér heim aftur þegar fram líða stundir, -reynslunni ríkari. Ég var búin að segja yfirmönnum að ungir menn væru mestu verðmæti fyrirtækis. En allt kom fyrir ekki, þeir sögðu kærustuna ráða för.
Ég þekki Norðmenn af því að kunna betur að meta steypukalla en kulnandi þjóðin á klakanum, og er því ekkert sérstaklega bjartsýnni á að afburða steypukall snúi heim frekar en þúsundir iðnaðarmanna sem yfirgáfu landið bláa í hinu svo kallaða hruni.
Nú verð ég gamli steypukallinn að treysta á Rúmenana, en þeim langar til að eiga heima heima hjá sér án þess að hafa efni á því frekar en steypukallar og skúringakonur almennt.
Já ég kvaddi ungan vinnufélaga minn í vikunni, daginn sem hann tók bátinn, og sagði honum að hann yrði ekki í vandræðum með að fá að vinna við steypu í Noregi.
Þar þyrfti hann ekki annað en sýna sig. Ég gæti svo sagt honum það að skilanaði, -af fenginni fimm ára reynslu, að hann væri með þeim albestu vinnufélögum sem ég hefði unnið með í steypunni.
Hús og híbýli | Breytt 14.10.2024 kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.9.2024 | 13:48
Sérstök sólarupprás
Hér á síðunni hefur áður verið sagt frá dularfullu sólarupprásinni hans séra Sigurjóns undir Dyrfjöllum. Af því að nú eru haustjafndægur er allt í lagi að minna á hana aftur. En í vikunni var 19. september og þá kemur sólin upp í dyrum Dyrfjalla séð frá í Kirkjubæ í Hróarstungu. Um þetta sjónarspil á séra Sigurjón að hafa haft þessi orð í stólræðu árið 1951 á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju.
Undir Dyrfjöllum. Ég hef dvalið í 36 ár. Dyrfjöll eru meðal fegurstu fjalla á Íslandi. Þau eru með höfuð helgidóma íslensks hálendis. Sólin kemur upp í skarðinu, ár hvert, þann 25. marz kl 7 að morgni á rás sinni til hækkandi dags. Hún birtist einnig í skarðinu 9. september á för sinni á skammdegisskeið. Vart getur fegurri sjónar en þeirrar, er hún birtist í skarðinu og varpar ljóma yfir svipmikið hérað.
Ég hafði á orði 18. september s.l., þegar við Matthildur mín vorum heimsókn hjá syni okkar og tengdadóttur til að hjala við litla ömmugullið hana Matthildi Helgu, að á morgum kæmi sólin upp í dyrum Dyrfjalla. Þá skipti engum togum að ákveðið var af unga fólkinu að þetta must see moment yrði að bera augum. Morgunninn eftir var brunað út í Kirkjubæ til að sjá sólarupprásina.
Tvisvar á ári má sjá sólina kom upp í dyrum Dyrfjalla, frá sáluhliðinu við Kirkjubæ. Þetta er nokkrum dögum fyrir haustjafndægur og nokkrum dögum eftir vorjafndægur. Tvisvar hef ég orðið vitni af þessu magnaða sjónarspili.
Það tekur sólina rúma mínútu að fara fyrir dyrnar og læt ég hér að neðan fylgja nokkrar myndir af þessu sjónarspili. Ekki er sjálfgefið að sjá þessa sjón, hvað þá á dagsetningunni sem tilgreind er til skammdegisskeiðs í ræðu séra Sigurjóns, en um það má lesa hér.
Skömmu fyrir sólarupprás logar allt að baki Dyrfjalla
sólin gægist upp í norðaustur horni dyranna
komin vel á veg
á miðri leið fyrir dyrnar
Vart getur fegurri sjónar en þegar sólin í skarðinu varpa geislum sínu yfir Hérað
Eftir að sólin hefur risið er einna líkast því að hún hafi farið í gegnum dyr fjallanna
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.9.2024 | 17:23
Opinber tilkynning frá landvættunum
Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum hve átakanlegt dauðastríði Ríkisstjórnar Íslands er, -eða kannski réttara sagt dauðakippirnir.
Sálin hefur fyrir löngu yfirgefið líkið. -Sál sem svo smekklega er kölluð bakland eða grasrót á tyllidögum af uppvakningum í aðalhlutverkum til að villa um fyrir almenningi.
Dauðakippunum mun ekki linna að sinni svo nokkru nemi, og hræið mun áfram stórskaða sjálft sig með hverri uppákomunni annarri lygilegri.
Það ætti öllum að vera orðið ljóst að nárinn hangir einungis saman vegna landráðaliðs stjórnsýslunnar. Þar til eignir almennings, -sem einhvern aur gefa, hafa komist í réttra auðróna hendur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.9.2024 | 18:17
Töpuð tálsýn - #meetoo ADHD
Það er kona með keðjusög í næsta húsi
sem lifir örorku drauma minna
Hún býr við líkamlega atorku
en glímir við kulnun
-tálsýna sinna
Konan er búin að saga trén
úr garðinum sínum -
Til að tikka í öll boxin
og taka kolefnissporin
-sagar hún nú tré
með rafmagnskeðjusög
úr garðinum mínum
Læknarnir gáfu henni rítalín
í staðin fyrir amfetamín
vegna tapaðrar tálsýn
Á tímanna tvinna
þau kunna að spinna
-bæði til að vinna
og umbera minna
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.9.2024 | 06:01
Þjóðsaga
Hún hefur verið frekar blökk birtan á landinu bláa þetta sumarið, og hér austanlands voru dagarnir venju fremur dökkir í ágúst. Ég hef haft lítinn áhuga á að blogga undanfarið, er því sem næst hættur að fylgjast með fréttum og hef því lítið um að skrifa sem ekki má allt eins geyma í skúffunni.
Að skrifa bók daganna á blogg er nánast næsti bær við æ góði bestu þegiðu -hvað vinsældir og að vekja áhuga varðar, þegar sóst er eftir því þá er árangursvænna að súpa af krananum.
Þó má segja frá því, -sem nokkurskonar frétt, að ég fékk heiðursmenn í heimsókn þegar skammt var liðið á ágúst, amerískan prófessor, -Adam Nichols, og mbl bloggara, -Jóhann Elíasson. Við gömlu mennirnir höfðum með okkur góðan félagskap í þrjá daga í Austfjarðaþokunni, og tvo þeirra með kvikmyndatökumanninum, -Hjalta Stefánssyni. þessir dagar voru ætlaðir til töku á punktum í heimildamynd um Tyrkjaránið 1627 sem styttist í að 400 ár verði liðin frá.
Þessir kvikmynda upptökur eru framhald 5 sjálfstæðra bóka sem sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols hafa gefið út á ensku um Tyrkjaránin á Íslandi. Hafa sumar verið þýddar á fjölda tungumála og til stendur að þýða þær yfir á eina íslenska. Mín aðkoma að verkefninu var að benda á sögustaðina á Austurlandi. En Jóhann Elíasson bloggar hafði lesið blogg hjá mér, fyrir mörgum árum síðan, og bent þeim Karli og Adam á að þeir skildu tala við mig ef þeim vantaði staðkunnugan mann.
Töku dagarnir voru langir, víða farið og reynt að ná örstuttum punktum á söguslóðinni innan um túristavaðalinn. Að kvöldi var spjallað um heima og geima og hvílst á Sólhólnum úti við ysta haf yfir nóttina, og að morgni borðaður hafragrautur úti á palli við öldunnar nið í Þúfnafjörubásnum. Að morgni þriðja samverudags kom til tals hjá prófessornum að þetta væri orðin lengsti samfeldi kafli í lífi hans án internetssambands og heimsfrétta á þessari öld, -and it feels great I have to say.
Þar sem mér hefur oft fundist það brenna við hjá fræðimönnum að þeir vantreysti þjóðsögunum, sem hverri annarri steypu, þá hef ég í kynnum mínum við þá sagnfræðiprófessorana haldið því til streitu sem finnst í þjóðsögunum um Tyrkjaránið austanlands. Enda er öll hin íslenska Tyrkjaránssaga í grundvallaratriðum þjóðsaga, og þykir úti í hinum stóra heimi einmitt merkileg sem slík.
Það er nefnilega svo til einstakt í heimsögunni að sagnir frá venjulegu fólki um upplifun þess af því að hafa verið rænt, og flutt í hlekkjum á markaðstorg, þar sem það var selt mansali skuli fyrirfinnast. Varðandi Tyrkjaránið á Íslandi eru til þannig sagnir í bundnu máli svo sem Reisubók séra Ólafs Egilssonar úr Vestamannaeyjum og bréfaskriftir þeirra Guttorms Hallsonar ungs manns frá Búlandsnesi á Djúpavoga, Guðríðar Símonardóttir (Tyrkja Guddu) úr Vestmannaeyjum sem varð eiginkona séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds og Jóns Jónssonar frá Járngerðarstöðum í Grindavík.
Aðrar Evrópu þjóðir, sem urðu fyrir því sama, eiga kannski opinber gögn um hvar fólki var rænt, hversu mörgum og hvert það fór, en engar heimildir frá fólkinu sem fyrir þessu varð s.s. persónulegar sagnir um afdrif þess. Opinber gögn köllum við staðreyndir en ekki þjóðsögur. Á meðan þjóðsagan er í raun sú staðreynd sem byggð á reynslu almúgans, og getur jafnvel verið sannari eftir að sagan hefur farið í gegnum fleiri, er þá til frá mörgum hliðum. Þá er þjóðsagan oftast orðin ýtarlegri staðreynd en opinbera sagan sem er lítið annað en einhliða opinber fréttatilkynning.
Þetta höfum við Íslendingar, sem þjóð, alltaf vitað. Enda varðveittum við Fornaldarsögur norðurlanda, rituðum Íslendingasögurnar og höfum átt fjölda þjóðsagnasafnara í gegnum tíðina sem hafa skráð sögu okkar eftir munnmælum almúgafólks og er þannig orðið til saga þjóðar á íslensku. Ég hef stundum sagt við þá prófessorana að þeir eigi eftir að gera sig og þessa þjóðsögu um Tyrkjaránið á Íslandi heimsfræga.
Síðasta samverudag okkar gömlu mannanna, sem var án kvikmyndatökumannsins, fórum við á Djúpavog, minn gamla heimabæ. Þar sýndi ég prófessor Adam stað, sem nánast er kominn undir hringveginn, þar sem kona frá Hamri bar beinin eftir að Tyrkir höfðu misþyrmt henni. Þjóðsagan um konuna á þessum stað kom í ljós snemma á 20. öldinni og var skráð af dr Sigurði Norhdal.
Það er of langt mál að segja þá þjóðsögu hér eða hversu magnaður og vandfundinn þessi staður er, en frá því hef ég áður sagt í bloggi um Krossflöt. Ég sýndi Adam staðinn vegna þess að mér fannst lítið hafa síast inn í kollinn á prófessornum um sannleiksgildi þjóðsögunnar.
Þegar við stóðum þar í vegakantinum með túristavaðalinn brunandi á öðru hundraðinu eftir þjóðveginum svo hárið á okkur þyrlaðist í kjalsogi bílaleigubílanna sagði Adam mér þá frá stað við Stonehenge sem hann hafði komið á, þar sem stórbrotin tilfinning hefði gripið hann svo hann settist niður hljóður og sat með sjálfum sér þar til samferðahópurinn kom og raskaði ró hans og leiðsögumaðurinn sagði þú hefur þá fundið staðinn á undan okkur.
Hann spurði mig hvað heldur þú að hafi getað orsakað þessa undarlegu tilfinningu. Ég var snöggur til svars og sagði honum að sumir staðir geymdu mikla sögu og hefðu minni, sem engar heimildir væru til yfir, og þannig staðir gætu talað til manna sem hlustuðu. Hann leit í augun á mér og kinkaði kolli.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.8.2024 | 18:05
Dáðadrengir
Skínandi sólstafir
féllu himninum frá
Sortaský huldu
heiðhvolfin blá
Á grænum grundum
dansaði sólargeisli sá
líkt og skafrenningur
köldum vetrardegi á
Þessi þungi þanki
svalan júní morgunn
Þessi kólgu bakki
napran ágúst dag
þessi miskunnarlausu örlög
með feigðar fréttum
nístu hjarta ræturnar
Þú svo ungur fallinn frá
ert nú kornungum
syni þínum hjá
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)