28.7.2024 | 05:00
Handbremsubeygja
Þau okkar sem eru orðnir eldri en tvævetra þekkja fleira en blæðandi þjóðveg. Muna jafnvel þegar vegrykið elti bílinn hringinn í kringum landið og lausamöl spýttist í alla áttir. Þá þurfti að halda fullri athygli á stýrinu svo ekki færi illa á blindhæðum eða skrænsað yrði í beygjum og dekk hvellspryngju í holum. Oft hélt pústurrörið bílstjóranum vel vakandi, vegna þess að það var annaðhvort á leiðinni undan bílnum eða farið út í móa með hjólkoppunum.
Það getur verið dýrt nú eins og þá að vera fátækur, en þá voru verkstæði við þjóðveginn og jafnvel hægt að fá gert við dekk til sveita án virðisaukaskatts. Mér varð það á að spara sumardekkjakaup í vor, ímyndaði mér að ég kæmist upp með að keyra á gömlu túttunum um blæðandi þjóðveginn þetta sumarið. Um síðustu helgi fórum við Matthildur mín í Sólhólinn úti við ysta haf. Hún átti afmæli á sunnudeginum, var ég í baxi með að finna afmælisgjöf við hæfi og ekki búin að koma neitt til hugar á laugardagskvöldi.
Afmælisgjafirnar, sem ég hef gefið henni Matthildi minni í gegnum tíðina, hafa s.s. aldrei verið merkilegar en einhvern veginn hefur samt alltaf ræst úr, oft með því einu að fara gamla malarslóða og rifja upp með henni gamla daga t.d með því að feta slóðina yfir Lónsheiði á gamla Grand, eða fara gömlu fjallgarða leiðina í Möðrudal með viðkomu í Sænautaseli og bjóða upp á lummu-kaffi. Stafafellsfjöll í Lóni redduðu málinu eitt árið eða bara um fjölskylduslóðann á Öxi.
Eftir óvenju góðan nætursvefn aðfaranótt sunnudags var ég búin að steingleyma hvaða dagur var en spurði Matthildi mína hvort það væri ekki örugglega sunnudagur, -jú það passaði. Eigum við þá ekki að fara á Djúpavog í dag og kíkja barnabörnin stakk ég upp á. Jú það fannst henni alveg ljómandi. Á Djúpavogi var tekið á móti henni með fagnaðarlátum, faðmlögum og árnaðaróskum. Varð ég þá ekki lítið skrýtinn og skömmustulegur. Ákvað að láta mig hverfa, -þó ekki niður úr gólfinu, -fór þess í stað niður á bryggju og þvoði bílinn.
Við þvottinn sá ég að steinn stóð í dekki vandlega límdur í tjöru. Ég tók steininn úr og sparkaði svo í öll dekkin að gömlum og góðum sið, og fann þá að misjafnt var í þeim loftið. Eftir að hafa pumpað í dekkin keyrði ég hugsandi lengri leiðina til baka og velti fyrir mér hvernig væri best að redda restinni af afmælisdeginum þetta árið. Þá heyrðist ógurlegt hviss og síðan kom hökt, svo ég varð að stoppa til skipta um dekk.
Þegar ég tók dekkið undan sá ég að það var orðið svo næfurþunnt að steinn hafði stungist í gegn. Skoðaði þá hitt framdekkið og þar var sama sagan. Þannig að nú fór málið fyrst að vandast. Við vega- og dekkjalaus á Djúpavogi á sunnudegi, -þar að auki á afmælissunnudegi. Ég byrjaði að hringja eins og vitfirringur en fékk auðvitað ekkert svar, fyrr en ég hringdi í vin sem ég vissi að átti dekk uppi á Egilsstöðum.
Síðan fengum við lánaðan bíl og brunuðum með felgur með sprungnum og ósprungnum dekkjum yfir Öxi í Egilsstaði. Korter yfir átta á mánudagsmorguninn voru komin heilleg dekk á felgurnar svo við brunuðum aftur yfir Öxi. En auðvitað var þessi rúntur frekar léleg afmælisgjöf.
Vegna þess hversu úttaugaður ég var orðin fórum við og hvíldum okkur á Sólhólnum en ég hafði mig samt í að bjóða Matthildi minni upp á fisk og franskar í Kaupfélaginu á Breiðdalsvík í tilefni dagsins áður kvöldið eftir.
Haukstjörn, kúrekakletturinn gægist upp fyrir hæðina
Það var ekki fyrr en þann þriðja í afmæli að við loksins komumst í að halda upp á daginn þar áður. Við höfðum ákveðið að skoða Haukstjörn en hún er sunnan við Þvottá upp á hjalla við þjóðveginn. Þangað hafði ég aldrei komið og eins hélt Matthildur. Þegar við komum þangað fór heldur betur að rofa til, Matthildur mín mundi skyndilega eftir 42 ára gömlum göngutúr á bökkum Haukstjarnar um bjarta júlí nótt.
Til að rifja atburðinn betur upp fórum við niður fyrir Kúrekaklettinn sem er við norðaustur bakka Haukstjarnar og vorum þá komin á mosavaxinn gamla þjóðveginn sem bugðaðist í beygjum yfir hæðir og kringum hrauka fram hjá kletti sem aldrei hefur verið kallaður annað en kúrekakletturinn í okkar eyru, en heitir víst Blábjargastapi.
Um þetta ævintýra land lá fyrst þjóðvegurinn suður í Þvottár- og Hvalnesskriður, eftir að þjóðvegurinn um Lónsheiði var lagður af. Líklega hefur afbýlið Kambar frá Þvottá staðið nær ströndinni skammt frá þessum klettarana. Afbýli sem hét Fauskasel var í dalverpi við Mælifell, sunnar og nær Þottárskriðum
Það var Síðu-Hallur, sem var frægastur fyrir að hafa búið á Þvottá, jörðin var í landnámi Þorsteins trumbubeins og hét þá Á. Þegar Þangbrandur prestur kom til Íslands til að kristna landsmenn þá kom hann fyrst að Á og skírði Síðu-Hall og hans fólk í ánni við bæinn, eftir það hefur áin og jörðin heitið Þvottá og var syðsti bær í hinu forna Múlaþingi, og syðsti bær Suður-Múlasýslu, og er nú syðsta byggða ból í sveitarfélaginu Múlaþingi.
Styrmishöfn, skammt austan við höfnina er klettastapi sem kallaður er biskupshöfði. Þar á Guðmundur biskup góði að hafa komið úr hafi og stigið á land til að spyrjast fyrir hvar hann væri staddur auk þess að taka vatn. Síðast var róið frá Styrmishöfn 1949 á sexæringi Guðmundar Eyjólfssonar frá Þvottá og fengust 130 fiskar
Við þræddum síðan slóðina frá Kúrekaklettinum sunnan við Þvottá austur í Styrmishöfn, útróðrarhöfn Álftfirðinga í gegnu aldirnar. Nafn hafnarinnar er frá því á söguöld og er kennt við Styrmi sem bjó í Fauskaseli sunnan við Þvottá nær Þvottárskriðum. Við lendingu í höfninni fórst Styrmir og fékk hún nafn af honum. Aðeins er vitað um eitt annað slys þar, sem varð um 1700, en þá fórst Ófeigur, báðir bjuggu þeir Ófeigur og Styrmir í Fauskaseli. Við höfðum áður komið í Styrmishöfn á rauðri Lada Sport fyrir rúmum 30 árum með Jóni faðir Matthildar en hann var sjómaður og áhugasamur um að sjá þessa höfn.
Þau eru mörg blábjörgin í fjörum Þvottár. Mælifell í fjarlægð með sínum Þvottárskriðum. Þegar fjarar er hægt að komast undir sjávarmál og ganga um ævintýraveröld, en það er eins gott að vera búin á ákveða hvar á að komast á þurrt áður en flæðir aftur
Síðan þræddum við gamla þjóðveginn suður í Stapavík, sem er undir þvottárskriðum, og litum á leiðinni niður í litríkar fjörur. Það var einmitt þar sem göngutúrinn hennar Matthildar minnar hófst fyrir 42 árum. Þær höfðu farið á ball fjórar Djúpavogsdætur til Hornafjarðar á fólksvagni. Brunuðu meira en hundrað kílómetra eftir malarslóðanum með rykmökkinn í eftirdragi og grjóthríðina allt í kringum rauða bjölluna.
Stapavík; þar sem farið er upp í Þvottárskriður að austan. Þar hefur Vegagerðin gert vinsælan áningastað fyrir ferðamanna. Ströndin liggur til suðurs undir Þvottárskriðum í Mælifelli, sunnar eru Hvalnesskriður í Krossanesfjalli. Um Krossanessið sem gengur í sjó fram undir Hvalnesskriðum liggja landamerki Þvottár og Hvalness í Lóni
Seinni hluta nætur í bakaleiðinni, þegar þær komu niður úr Þvottárskriðunum, varaði Matthildur þá sem keyrði við því að beygja væri á veginum framundan. Það þyrfti að hægja á bílnum í lausamölinni. Það skipti engum togum að bílstjórinn togaði í handbremsuna við það tók bjallan handbremsu beygju þvert á veginum og rúllaði tvær og hálfa veltu áður en hún stoppaði á toppnum á malarpúða utan við veg.
Séð niður í Stapavík þegar komið er úr Þvottárskriðum, greina má gamla þjóðveginn hlykkjast um hrauka fyrir ofan klettótta ströndina í áttina að Þvottá sem er um 5 km norðar í Álftafirði
Þegar um fór að hægast lá Matthildur neðst á toppnum með vinkonu ofan á sér og hélt að þær væru allar dánar í bílnum. En svo hreyfðist einn fótur í kösinni og hún sá að þetta var hennar fótur. Þær komust svo tvær út úr flakinu og gátu dregið hinar tvær út, þar sem þær skildu við þær liggjandi púðanum og hófu síðan þrautargönguna í Þvottá.
Matthildur að líta eftir glerbrotum þar sem rauð Volgswagen bjalla lá á toppnum fyrir 42 árum síðan. Nú er búið að setja bundið slitlag í handbremsubeygjuna sjálfa enda er þessi hluti gamla þjóðvegarins notaður sem aðkeyrsla að áningastað Vegagerðarinnar við Stapavík
Matthildur hafði aldrei alveg vitað hvaða leið þær gengu því þær styttu sér leið með því að fara ekki allan þjóðveginn. En núna 42 árum seinna komst hún að því að þær hefðu farið upp á hæðina við Haukstjörn og síðan niður að Þvottá, þar sem þær gerðu rúmrusk.
Þegar var búið að flytja þær Djúpavogsdætur á Djúpavog kom í ljós að meiðsli voru til allrar guðs lukku með minnsta móti, miðað við aðstæður. Ein hafði þó fengið hnykk á hálsinn og þurfti að hafa kraga um tíma, í Matthildi þurfti að sauma nokkur spor.
Þær vinkonurnar tvær, sem gengu í Þvottá, fóru síðan á sjó um hádegi eftir næturgöngutúrinn og saumaskap morgunsins. Þær voru munstraðar sem kokkar á Krossanesinu frá Djúpavogi sem landaði afla sínum í hinum ýmsu höfnu austanlands þetta sumar, allt frá Borgarfirði-eystra til Hafnar í Hornafirði.
Já svona var nú glíman við handbremsubeygjurnar á þjóðveginum í denn, -þegar amma var ung.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2024 | 05:14
Á meðan sakleysingjarnir sofa
-liggja víxlararnir andvaka yfir því hvernig megi færa hagvöxtinn úr verðbólgnum gróða svo hægt sé að hirða allan mismun.
Og nú er að fjara undan, -ferðamönnunum fækkar, loðnan brást og ríkiskassinn er tómur. Búið að skrúfa vextina upp úr þakinu eftir að blaðran var blásin af Why Iceland viðundrinu sem sett var í Seðlabankann fyrir fimm árum síðan til að bústa eignasafn gamma sem þeir fengu á verði frá ríkinu sem engin má vita. Eignir fólks sem gert var að öreigum í hinu svokallaða hruni.
Já og vel á minnst, -verðbólgu gróðinn hættir bráðlega að tikka í kassann, sá sem Landsbankinn fékk út úr okurvöxtunum til að kaupa TM af Kviku svo náhirðin gæti leyst til sín kvikan gammagróðann til að kaupa restina af Íslandsbanka. Og mbl vitnar nú í Viðskiptaráð, dag eftir dag, um slakan árangur ungmenna sem búið er að Písa til andskotans með innflutningi á ódýru vinnuafli við að hirða mismun. Verðhjöðnun er það versta sem víxlararnir vita því þá er engin mismunur fyrir þá sem ekkert geta.
Aðferðafræðin; hvað mikið er hægt að græða í stað þess hvað þarf til að reka sómasamlegt samfélag er nú komin á endastöð. Húsnæðiskostnaður, gistináttagjald, skattar og lifibrauð er allt komið upp í rjáfur og þar bítur hver púkinn í annars skott á fjósbitanum til að detta ekki ofan í froðuna á hlandforinni og þurfa þá að skíta út hendurnar við að bjarga sér og sínum. -Og hvað gera bláu dúkkulísurnar og kellingarnar í framsókn þá?
Nú er ekki um annað að ræða en byrja upp á nýtt fyrir þau hagfræðiséníin á þeim bæ. Setja unga fólkið og þjóðina, -sem var skipt um í landinu eftir hið svokallað hrun og hefur dregið gullvagninn í okurþjóðfélagi náhirðarinnar, -út á Guð og gaddinn. Sennilega komast vinnandi hendur úr landi í tíma með SAS eins og síðast. En það styttist óðum í að ekki verði hægt að fara eða koma frá og til Tene með Icelandair og Play. -Eru Guðni, Þórólfur og Valgerður á landinu?
Eftir munu sitja á klakanum steingeldir gamlingjar yfir galtómum lífeyrissjóðum og stútfullum skrifstofum af skaðmenntuðum dúkkulísum og flissandi fábjánum úr fáviskufabrikkum ríkisins og taka nýjan snúning með helferðarhyskinu undir forystu þeirrar dúkkulísunnar sem datt í lukkupottinn þegar gammagróðinn rann í gegnum kviku, -nokkurskonar frelsishetjur vinnandi stétta, rétt eins og þegar tími húsbréfa Jóhönnu og Evrópusambands Gunnarsstaða-móra kom á landinu bláa.
Guð blessi Ísland.
Dægurmál | Breytt 4.8.2024 kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.7.2024 | 17:04
Carbfix
Trukkarnir bruna
í gegnum nóttina
um malbikaða
ódáinsakra allsnægtanna
með björgina í Bónus
- - og sementið í steypuna
Við sitjum skaðmenntuð
og carbfixuð
í blæðandi vegkantinum
með hangandi höfuð
Og hendur í snjallvæddu skauti
Teljum kolefnissporin
og bætum í bókhaldið
- - - þrjár nætur frá hungursneyð
Ljóð | Breytt 28.12.2024 kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2024 | 05:03
Blóðberg og blóðbönd
Þessu litla bleika blómi íslenskarar náttúru hefur áður verið gerð skil á þessari síðu. Bæði vegna þess hvað blómið á stóra sögu í náttúrulækningum fyrri alda á Íslandi og vegna þess hvað það er áberandi þessa dagana þá má alveg minnast á það aftur, -þó ekki væri nema vegna blessaðra barnanna.
Í sögu grasalækninga er blóðbergið mjög áberandi jurt og í dag er hún viðurkennd sem áhrifarík lækningajurt, bæði til innvortis notkunar fyrir öndunarfæri og meltingarveg og ekki síður til notkunar útvortis sem verkjastillandi á vöðva og gigtarverki. Áhrif hennar gegn bakteríu- og sveppasýkingum og styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið eru ekki síður þekkt svo og bólgueyðandi og græðandi áhrif á útbrot og sár sem gróa seint og illa. (sjá meira)
Ég hef verið í sumarfríi síðustu viku og þessa. Það byrjaði á því að ég þurfti að leita á náðir blóðbergsins. Fyrstu dagarnir fóru í að fara snemma út á morgnanna og tína blóðberg í pott þar sem ég sauð það saman við fjallgrös og hunang. Andaði að mér gufunni úr suðunni og drakk síðan seyðið sem te. Þetta gerði ég 2-3 sinnum á dag.
Málið var að ég hafði fengið óstöðvandi hósta, sama eðlis og í vetur sem endaði þá með því að ég leitaði læknis sem greindi mig með berkjubólgu og vatn í lunga. Berkjubólgu sagði læknirinn að tæki 10 daga til 3 vikur að losna við og ekkert einfalt ráð væri til, -s.s. sýklalyf vegna þess að hún stafaði í mínu tilviki ekki af bakteríusýkingu. Ég yrði því bara að láta mig hafa það, en hún ávísaði samt á lyf í apótekinu og sagði að ég yrði að lesa mig vel til um aukaverkanir.
Þess er skemmst að geta að eftir að hafa tekið lyfið tvisvar voru einkenni verstu aukaverkunarinnar auðsjáanleg. Ég fór því í blóðbergs baukinn minn og notaði aðferðina sem ég lýsti hér að ofan og var laus við berkjubólguna og vatnið úr lunga á 10 dögum. Það fékk ég svo staðfest í heimsókn til læknisins og hún spurði hvort lyfið hefði virkað svona vel. Ég sagði henni eins og var, -þá sagði hún; það var rétt hjá þér hætta að taka lyfið strax og gott hjá þér að nota þetta gamla læknisráð.
Þrír ættliðir líta eftir blóðbergi, -mæðgur og Óri
Sumarfríið byrjaði sem sagt á óstöðvandi hóstagelti. En núna losnaði ég við að fá vatn í lungu, enda byrjaði ég á blóðbergs meðferðinni strax. Ég hef ekki þurft að halda mig heima og svo sem farið allra minna ferða. það má því segja að allt komi til þess sem heima situr. Því hjá okkur Matthildi minni hafa verið kærir gestir flesta daga, börn, barnabörn, frændfólk á ferðalagi og til að vitja átthaganna, -sem sagt sannkölluð sumarsæla.
Tækifærið hefur verið notað til að fara í firðina neðra og um bakka Fljótsins í efra. Austustu firði og víkur landsins skoðaðir með frændfólki í einmuna veðurblíðu. Farið með barnabörnunum út í Tjaldastaði í útilegu þar sem Ævi hjálpaði afa að tína blóðberg og Óri æfði sig í að hósta eins og afi. Hjá Ævi hefur það tilheyrt sumrinu, síðan hún fyrst man, að tína blóðberg, sem við sötrum te af að kvöldi og þurrkum afganginn til vetrarins.
Ævi spyr ennþá snemma að vori, -afi förum við ekki út í Tjaldastaði í sumar? -og á við að fara með tjald og nesti út í gamlar steypumalarnámur við Lagarfljótið þar sem blóðbergið litar steypumölina bleika úr hinni fornu horfnu Jöklu. Þar er tjaldað og sumarblíðunnar notið við vellandi spóa og forvitna kjóa, enda alltaf einhversstaðar skjól í gömlu grúsunum á Tjaldastöðum. Um daginn bættist forvitinn selur í flóruna og auðvitað var Ævi fyrst til taka eftir honum.
Ævi og Óri á Tjaldastöðum
Síðan sumarfríið byrjaði hefur verið farið á Boggann til að vera við Dyrfjallahlaup þegar börnin komu í mark. Farið á Dalatanga með systur og hennar fólki sem dvaldi hér fyrir austan í þrjár vikur. En systir varð sextug á árinu og var með ljósmyndasýningu um upplifun sína af Skorrastað í Norðfirði, -og mágur kom með uppistöðuna úr æsku bandinu, -Kvöldverður á Nesi. Bandið kallaðist Völusteinar í þetta sinn og spilaði við opnun sýningarinnar í Þórsmörk ásamt tveimur hljómleikum sem fóru fram sitt hvort kvöldið í Egilsbúð í Neskaupstað og Tehúsinu á Egilsstöðum, þar sem söngkonan Vala gerði m.a. Heyr mína bæn einstök skil fyrir fullum sal.
Systir Matthildar og mágur komu svo í austfjarðablíðuna um síðustu helgi með hjólhýsið sitt og var tækifærið notað til að heimsækja Norðfjörð og Vöðlavík sitthvorn daginn. Við komum á Skorrastað til að kveðja systur og hennar fólk áður en þau fóru suður. Þar hittum við Jóhönnu á Skorrastað tengdamóðir systur, sem fædd er 1930, alltaf jafn ung í anda eins og fólkið af 30 kynslóðinni.
Mágur Matthildar, sem er Húsvíkingur, spurði Jóhönnu að því hvort hún kannaðist nokkuð við ömmu hans sem hefði verið ljósmóðir um árabil á Norðfirði um miðja síðustu öld. Jú heldur betur, hún hafði tekið á móti tveimur af hennar börnum auk þess sem það kom í ljós að hún hafði tekið á móti tengdadóttir hennar sem stödd var á Skorrastað um leið og við.
Daginn eftir var farið í Vöðlavík og horft á Gerpi austasta fjall á Íslandi í heiðskýru, logni og yfir 20°C. Við Matthildur mín jöguðumst um hvort við hefðu keyrt yfir lækinn út á sandinn yst í Vaðlavíkinni til að drekka kaffi við öldunið undir melgresishól í þau skipti sem við höfðum komið þar áður, en það taldi Matthildur elliglöp í mér, við hefðum stokkið yfir lækinn í öll skiptin.
Þó hún sé víða grýtt leiðin okkar Matthildar minnar þá verður hún bara fallegri með árunum
Mágur hennar var bílstjórinn og stoppaði því hennar megin við lækinn þar sem við drukkum kaffi á grasbala í blíðunni, en svo fór hann niður í fjöru. Ég spurði hann þegar hann kom til baka hvort hann hefði fundið brú yfir lækinn, nei ég stökk, sagði hann rétt að verða sjötugur.
Þannig að ég gafst upp á að tuða um að mér yrði skutlað yfir lækinn og fann þess í stað hvar styst var á milli bakka og sýndist mér sjá að ekkert mál væri að stökkva. Tók tilhlaup en steig of langt, alla leið ofan í lækinn, náði ekki spyrnu og endaði stökkið úti í miðjum læk. Mátti þakka fyrir að hafa ekki steypst á hausinn í leiðinni.
Í bakaleiðinni úr Vaðlavík komum við svo við á Reyðafirði til að heilsa upp á yngsta sólargeislann okkar, hana Matthildi Helgu, sem fæddist í síðasta mánuði. Svona er nú að vera orðinn gamall og fótafúinn í sumarfríi, við ilm af blóðbergi umvafin blóðböndum á austfirskum sólskinsdögum, -og fyrir löngu laus við ákafasta hóstann.
ps. Hér má sjá myndir frá sumrinu 2024.
Dægurmál | Breytt 4.8.2024 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2024 | 18:23
Call Me The Breeze - það er engin beyting á veðrinu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2024 | 04:04
Þrjár stuttar sumarhugleiðingar
Þeistareykir (7. júlí 2016)
Blíðum í blænum
líður sumarið hjá
Með laufvindum ljúfum
hvíslar vindurinn frá
Af þverrandi mætti
fyllist hjartað af þrá
- 0 - 0 - 0 -
Glugginn (16. júlí 2020)
Í einsemd utan við gluggann
býr óhamingja sveitarinnar
En í minningu gleymdra sumra
blakta tannlaus bros
í eldhúsgardínunni
- 0 - 0 - 0 -
Á Egilsstaðanesi (9. júlí 2023)
Það er sumar við völd
byggið bylgjast í blænum
blíðan brosir við bænum
laufið hvíslar að trjánum
Í kyrrð um kvöld
fregn af söltum tárum
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.7.2024 | 17:01
La Grange - hrútaskýringar eru ekki flóknar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.7.2024 | 07:25
Kellingarnar í framsókn
Það er verið að kellingavæða þetta allt saman sagði Óli Þórðar þegar hann hætti í boltanum um árið og fór aftur að keyra vörubíl. Já það er margt merkilegt í kýrhausnum þegar það er sett í samhengi gullfiskaminnisins.
Sumarið 2022 var spretthóp startað til að koma suðkindinni fyrir kattanef. Gunnarsstaðamóri var fenginn til að hlaupa með keflið enda alið allan sinn aldur við jötuna. Þá reyndar komin á eftirlaun sem ekki dekka ferðkostnað á lögheimilið sem nú er komið í sameign auðróna dorgandi á Old Traffort.
Það verður ekki annað sagt en að sprettur móra hafi verið snarpur, suðfé hefur sennilega ekki verið færra á fróni frá landnámi, -ef móðuharðindin eru undanskilin, - og hefur fækkað um tugi þúsunda síðan sprettinum lauk.
Í framhaldinu taka alþingi og afurðastöðvar sig saman um að kaupa út offjárfestinguna fyrir milljarða á kostnað bænda og neytenda til að geta haldið henni áfram með þeim formerkjum að samkeppnin við suðkindina komi að utan.
Jötuliðið situr svo út á Tene lungan úr árinu, -semur ályktanir með þeim orkupökkunum Guðna og Valgerði á bak við eldavélina, -sendir síðan hugheilar kveðjur heim á klakann.
![]() |
Segir samkeppnina frá útlöndum mikla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2024 | 05:50
Hindurvitni og kynjasögur
Nú er fyrsti dagur í sumarfríi og þó svo að helgin hafi verið köld þá lofar þjóðtrúin framhaldinu góðu. Nýtt tungl var á föstudag og stórstreymi í gær. Samkvæmt gömlum hindurvitnum á veðrið ekki að geta klikkað og fræðingarnir spá nú 20°C og yfir ágerist þegar á vikuna líður hér Austanlands, en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni það sem af er sumri.
Það styttist því í að setið verði á sólpallinum úti við ysta haf og horft út á hafið bláa hafið yfir á Kambanesið við prjónaglamur og kaffiilm. Sólhóll, guli bárujárnshjallurinn okkar Matthildar minnar, stóð áður á Kömbum á Kambanesi, eða allt til ársins 1944 en húsið var byggt á Kömbum fyrir hart nær hundrað árum.
Í tilefni þessa ætla ég að setja hér inn kynjasögu sem er brot úr frásögn sem birtist í nýjasta hefti Múlaþings, -og mér þykir stórmerkileg. Ekki bara fyrir tenginguna við Kamba, heldur vegna þess að þar segir ungur drengur þjóðsögur. Þetta er brot úr endurminningum Guðbrands Erlendssonar sem fluttist ungur til Kanada og bjó síðar í N-Dakota.
Amerískur fræðimaður fann handrit Guðbrandar eftir hans daga og þótti skrifin merkileg. Kom til landsins og alla leið austur á Kambanes og fékk Sturlaug Einarsson á Heyklifi á Kambanesi til að sýna sér staðhætti. Síðar sendi hann Stulla vini mínum kafla úr handritinu sem tekur til ára Guðbrands á Kömbum á milli 5 og 11 ára aldurs.
Það er ótrúlega margt sem kemur fram í þessu stutta handriti, sem í vor var birt í ritinu Múlaþing, er kastar ljósi á mikla atburð. Sagnir sem hingað til hafur ekki verið hægt að heimfæra á sannfærandi hátt því brot af sögu þessari eru einungis til í þjóðsagnasöfnum.
Fyrir tveimur árum birti ég frásögn Guðjóns Brynjólfssonar Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja en þar er sagt frá fiskibátnum Hamarsfirði. Margt í þeirri frásögn hafði hnikast til um ættlið og varð því þjóðsaga en ekki talin áreyðanleg heimild.
Í byrjun frásagnarinnar af seglbátnum Hamarsfirði er sagt frá hákarlaskútunum á Djúpavogi og dapurlegum afdrifum nokkurra þeirra. Í handriti Guðbrands er nákvæm lýsing á hvað kom fyrir hákarlaskúturnar og hvað þær hétu.
Svona getur nú þjóðsagan verið merkileg þegar kurl koma til grafar. Reyndar er mun fleira stórmerkilegra sagna í þessu stutta endurminningabroti ungs drengs frá Kömbum á Kambanesi frá miðri 19. öldinni en það sem hér birtist. Móðir Guðbjartar átti t.d. 3 eiginmenn og missti þá alla áður en hann varð 6 ára, tvo í hafið og faðir Guðbrandar, sem var í miðið, -úr lungnabólgu.
Hann segir frá skyggni móður sinnar þegar þriðji eiginmaðurinn fórst á sjó við Kambanes og orðum hennar; -mér er ekki tamt að æðrast en nú er öll von úti. Og þegar nágranni kom í Kamba til að tilkynna henni sjóslysið; -þú munt kominn til að segja mér sorgartíðindi, segðu mér allt sem þú veist um þau, ég er undir það búin að hlusta á þau. Og þegar komumaður lauk máli sínu; -enn á ný hef ég mikið misst, -en Guð gaf og Guð tók, sé nafn hans vegsamað. Hann gaf mér þrjá ágætismenn, hann átti frjálst með að kalla þá á undan mér.
Þó svo að nú sé sumar og gleðjist gumar því gaman er í dag og brosi veröld víða veðurlagsins blíða, þá ætla ég að hefja þessa blíðviðrisviku í sumarfríinu á því að birta frásögn Guðbrandar frá Kömbum af bátabylnum eins og hún er í Múlaþing. En til að skilja til fulls hversu merkileg hún er er rétt að lesa líka frásögn Guðjóns Brynjólfssonar af sjóhrakningnum frá Djúpavogi.
Færeyingar gerðu út skútur lengur en Íslendingar, hér er ein slík á Stöðvarfirði sumarið 1944, sama sumar og húsinu á Kömbum var fleytt af Kambanesi yfir Stöðvarfjörð þar sem það fékk nafnið Sólhóll
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Bátabylurinn
Hvort hinn svonefndi Bátabylur átti sér stað vorið 1850 eða árið 1849 get ég ekki sagt með vissu en það sem ég man til hans er þetta. Ekki blöktu hár á höfði, ég geng með mömmu út að fiskiklöppinni, þar fleygja þeir upp fiski úr Spes, faðir minn og Ólafur á Einarsstöðum binda hana svo við klöppina til þess strax og þeir höfðu neytt miðdegisverðar að sækja aðra hleðslu út á Stöðvarfjörðinn.
En þegar þeir voru að stíga í bátinn brast í byl svo snarpan að þeir áttu erfitt með að koma bátnum í naustið. Grimmdarfrost og fannkynngi hélst upphaldslaust í marga daga. Loks þegar veður þetta hætti gerði logn og sást þá frá Gvendarnesi bátur er barst með sjávarfalli. Reyndist þetta vera Morgunnroði, skipaður dugandi mönnum er allir höfðu látið lífið og lágu í bátnum.
Það var mál manna að þeir hefðu haldist við undir skeri á milli Skrúðs og lands. Morgunnroði hafði dekk í fram og afturskut, opinn í miðju, sömuleiðis setubátarnir Fortúna og Berufjörður. Eina skipið sem bjargaðist var þilskipið Bóthildur, sex lesta skip, var formaður hennar Einar á Streiti, tengdafaðir Sveins Pálssonar. Einn af hásetum hennar var Sigurður föðurbróðir minn.
Ég man eftir ýmsu er ég heyrði hann segja föður mínum rétt eftir bylinn. Bóthildur lá til drifs meðan á veðrinu stóð. Urðu skipsmenn því ekki lítið undrandi er þeir sáu Fortúna með segl uppi skjótast fram hjá þeim, það var það seinasta sem til hennar sást. Ekki gátu þeir á Bóthildi eldað sér mat, gerðu þó tilraun til þess, en þeir höfðu skjólið undir þiljum, það hélt í þeim lífinu. Þegar veðrinu létti hafði þá drifið langt í haf. Tók það langan tíma að sigla til lands.
Á öllum þessum bátum voru eftir því sem ég heyrði sagt úrvals menn. Hér tek ég upp sögu sem er ég heyrði Höskuld Bjarnason á Þverhamri segja:
Við skutum út bát fjórir saman og rerum út til flæmskrar fiskiskútu sem lagst hafði innarlega á Breiðdalsvíkinni. Eins og við áttum að venjast tóku Flandrarar vel á móti okkur. Eftir þáðar veitingar undir þiljum stönsuðum við á dekkinu, gengur þá að mér einn skipsmaðurinn, horfir stíft á mig og spyr Heitir þú Höskuldur? Ekki átti ég því að venjast að heyra nafn mitt svona skýrt nefnt af útlendum manni eins og maður þessi gjörði, játa því og spyr hvernig honum sé kunnugt um nafn mitt, af því segir hann, að þú ert svo líkur bróðir þínum Stefáni. Hvar hefur þú séð hann? spyr ég. Tvö ár eru liðin síðan við landsmenn mínir vorum hér undan landi í því versta veðri sem ég hef litið. Það var á öðrum degi bylsins að skip það er ég var háseti á bar að bát sem var að sökkva í bylgjur hafsins. Það eina sem við gátum gert fyrir vesalings skipshöfnina var að kasta út kaðli um leið og okkur bar framhjá bátnum. Þrír náðu haldi á kaðlinum er við skjótlega drógum inn í skipið. Þeir voru Stefán bróðir þinn, Brynjólfur Jónsson og danskur maður sem var kapteinn bátsins. Lét ég í ljós að mér þætti þetta ekki sennilegt: Óhætt er þér að trúa því sem ég segi og því til sönnunar get ég sagt þér að Stefán á hér konu og börn en ekki mun hann hingað leita því hann er giftur og á búgarð í Frakklandi.
Gleymt hef ég hvað hann sagði börnin mörg en rétt sagði Flandrarinn um það. Höskuldur sagðist ekki hafa ástæðu til að rengja þessa sögusögn, spurði manninn hvort hann gæti komið bréfi til bróður síns og játaði hann því, en ekkert hef ég fengið svar upp á bréfið sem ég skrifaði bróðir, sagði Höskuldur.
Þórunn í Snæhvammi var kona Stefáns þessa og Jón maður Guðrúnar Vigfúsdóttur sonur þeirra. Guðrún kona Ólafs Einarssonar var dóttir þeirra en Erlendur Höskuldsson sem ég minntist á í Markland var sonur þess hér oft nefnda Höskuldar. Brynjólfur Jónsson var sonur Guðnýjar á Reyðará í Lóni, hún var systir afa, Brynjólfs á Hlíð í Lóni.
Þetta þótti kynjasaga en sökum rökfærslu hásetans var henni trúað. Yfirleitt þótti það kynlegt að mennirnir skyldu ekki vitja átthaga sinna, sögðu þá sumir að það væri nú ekki svo óskiljanlegt með Stefán því kalt hefði verið með þeim hjónum en hvað Brynjólf snerti væri það ráðgáta.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Þarna koma sömu skipsnöfn fram á hákarlaskútunum sem fórust frá Djúpavogi og í Hrakningasögu bátsins Hamarsfjarðar til Vestamannaeyja, þ.e. Morgunnroði og Fortúna auk þess nafn þriðju hákarlaskútunnar sem fórst -Berufjörður, en nafn hennar þekkti Guðjón Brynjólfsson ekki í frásögn sinni sem birtist Þjóðasagnasafninu Grímu. Ekki hef ég séð þess getið annarstaðar að allar þessar hákarlaskútur hafi farist í einu og sama veðrinu.
Eins kemur nafn Brynjólfs frá Hlíð í Lóni fram í báðum frásögnunum og ýmis fjölskyldutengsl. Virðast Guðný móðir Guðbrands Erlendssonar og Hildur amma Guðjóns Brynjólfssonar hafa verið systur báðar Brynjólfsdætur frá Hlíð í Lóni. Þarna eru brot úr stórri sögu skútuútgerðar til hákarlaveiða við Ísland varðveitt í þjóðsögum og endurminningum í Vesturheimi.
Dægurmál | Breytt 9.7.2024 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)