Smalinn - 3. hluti

Það er nú ekki meiningin að fara út um þúfur með þessa frásögn um smalann, en með útúrdúrum þó. Segja má að kunnasta opinbera heimildin um ævikjör smaladrengsins sé eitthvað á þá leið, sem þjóðskáldið úr Öxnadalnum kom í bundið mál;

Vorið góða, grænt og hlýtt,

græðir fjör um dalinn,

allt er nú sem orðið nýtt,

ærnar, kýr og smalinn.

 

Kveður í runni, kvakar í mó

kvikur þrastasöngur;

eins mig fýsir alltaf þó:

aftur að fara í göngur.

Annað þjóðskáld, Steingrímur Thorsteinsson, lýsti starfsumhverfi smalans ekki á síðri hátt en Jónas Hallgrímsson;

Út um græna grundu

gakktu, hjörðin mín.

Yndi vorsins undu.

Ég skal gæta þín.

 

Sól og vor ég syng um,

snerti gleðistreng.

Leikið, lömb, í kringum

lítinn smaladreng.

Þess vegna kom upp í hugann að ef um nöturleg örlög smaladrengs væri að ræða þá hlytu þau að heyra til undatekninga. Að vísu hafði ég rekið augun í skuggalegri hliðar á lífi smaladrengsins í frásögn Hrólfs Kristbjörnsson (1884-1972) bónda á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal, þegar hann réð sig sem ársmann þá 13 ára gamall árið 1899, að bænum Þuríðarstöðum sem stóð þar sem kallað er í Dölum upp með Eyvindaránni ofan við Egilsstaði. Þessa lýsingu Hrólfs má finna bæði í bók hans Skriðdælu og í tímaritinu Glettingi: 

Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum.

Í handriti því sem Sigfús Sigfússon vann upp úr frásögn sína af Tungu-Bresti má greina feril munnmælasögunnar í öllu sínu veldi, þegar ung stúlka á að hafa setið ein yfir kindum, þegar úrsvöl næturþokan grúfði sig yfir sveitinni, nóttina sem Þorkels smala bróðir Páls í Kverkártungu varð síðast vart á lífi í Öxnadal;

Vinnukona ein, er var samtíða frú Guðbjörgu Hjartardóttir á Hofi sagði henni frá því að hún hefði verið samtíða vinnukonu er Jóhanna hét sem sagði henni að hún hefði setið yfir ám þessa nótt á Engimýri gagnvart Þverbrekku og hefði þá heyrt mikil angistarhljóð fyrir handan ána. En svartaþoka var svo hún sá ekki yfir hana.

Örlög smalans voru orðin mér hugleikin, því fór ég í að leita mér upplýsinga um lífshlaup þeirra bræðra, Páls og Þorkels Pálssona úr Öxnadalnum, og fikra mig niður tímalínuna, en um ævi alþýðufólks fyrri tíma er lítið að finna nema rétt á meðan munnmælin lifa og svo það, sem ratað hefur í þjóðsögurnar eða greint hefur verið frá í annálum.

Nálægt miðri 19du öld fluttust hjón ein úr Norðurlandi austur á Fljótsdalshérað í Múlasýslu. Hann hét Páll og var Eiríksson en hún Guðbjörg Þorkelsdóttir. Það hafði komið fyrir þau raunalegt tilfelli þegar þau voru í Öxnadal og var álit manna að það hefði rekið þau austur. Páll var greindarmaður álitinn. Hann var verkmaður góður og hestamaður mikill; var hann af því kallaður Páll reiðmaður. Guðbjörg var gáfukona talin og valmenni. Mikið þótti kveða af þeim hjónum báðum. Þau voru nokkur ár að Höfða á Völlum hjá Gísla lækni Hjálmarssyni. Páll og Þorkell hétu synir þeirra hjóna. Það hafði borið við þegar þau Páll voru í Öxnadalnum að bóndi sá er bjó á Þverbrekku í Öxnadal og Sigurður hét, stórættaður maður en bráðlyndur, drykkfelldur og ofsamenni við vín, hafði fengið þau Pál til að ljá sér Þorkel son sinn fyrir smaladreng (sumir segja báða drengina á mis) er þá var um fermingaraldur en efnilegur sagður. En á smölum hafði honum áður illa haldist. Þau urðu við bón hans. En það lyktaði þannig að Þorkell hvarf og fannst aldrei.

Þannig hefst frásögnin um Tungu-Brest í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar en frásagnirnar í safni hans eru tvær. Sú fyrri skráð mest eftir handriti frá Benedikt Davíðssyni. Síðari frásög sögunnar hefur Sigfús Sigfússon birt óbreytta eftir handriti Einars prófasts Jónsonar en Einar hafði ritaði eftir frásögn Þóru Þorsteinsdóttir frá Miðfirði á Langanesströnd, sem þekkti vel hjónin í Kverkátungu þau Pál og Helgu. Þó svo að hún hafi verið á barnsaldri þegar Tungu-Brestur kemur upp, þá hafði hún mikið heyrt um aðdraganda þess enda var vinskapur með foreldrum hennar og hjónunum í Kverkártungu.

Sagt var í Öxnadal að þeir synir Páls og Guðbjargar hafi verið þrír Þorkell, Eiríkur og Páll, sem sennilega var þeirra yngstur. Eiríks er hvergi getið í þjóðsögum eftir að hjónin yfirgáfu Öxnadal. Seinna í fyrri frásögn Sigfúsar segir hann þetta;

Páll sonur þeirra mun hafa fylgt þeim. Hann var gáfumaður, atgerfismikill og háttprúður en drykkfelldur nokkuð. Hann gerðist bókbindari. Páll (eldri) spurði Ísfeld skyggna um son sinn. Hann svaraði: -Drengurinn þinn er dáinn. En það kostaði þriggja manna líf að opinbera hversu það skeði og vil ég það eigi segja.- Það er mál manna að Páll (yngri) bæri þungan hug til Sigurðar fyrir orðróminn um hvarf bróður síns. Það er sögn einstakra mann að svo hafi viljað til eitt sinn í kaupstað að Páll lenti í þrasi við mann og báðir drukknir. Segir sagan að þar kæmi að ókenndur maður er gaf orð i á móti Páli. Páll spurði hver hann væri. En er hann fékk að vita það kannaðist hann við manninn, snerist þegar að honum og segir: -Nú það ert þú djöfullinn, sem drapst hann bróður minn. Það var gott að ég fékk að sjá þig.- Er þá sagt að Páll réðist á hann og hrekti hann mjög áður en þeir voru skildir. En að endingu og áður en þeir skildu jós Sigurður alls konar bölbænum yfir Pál og kvaðst skyldi launa honum hrakning þennan og krefjast þess að hann sannaði orð sín og morðáburðinn. Páll kvaðst mundi bíða og óhræddur fyrir honum ganga. En að lokum segja menn að Sigurður hafi kallað á eftir honum og sagt hann skyldi senda honum sendingu og e.t.v. fá að sjá bróður sinn.

Sigfús segir einnig frá málaferlum á milli þeirra Páls yngri og Sigurðar, þar segir að Páll hafi haft Þorsteinn Jónson kansellíráð fyrir málsfærslumann fyrir sína hönd, en ekki sé vitað hvort það var áður en hann tók Múlasýslu og kom að Ketilsstöðum á Völlum. Ekkert varð á Sigurð sannað þar sem vitni stóð ekki við orð sín. Páli þótti Þorsteinn linur í málinu og sagt hafi verið að hann neitaði að borga Þorsteini eins mikið og hann setti upp fyrir málssóknina.

Þessu á Þorsteinn að hafa reiðst og ráðist á Pál en orðið undir. Þá á að hafa verið sagt að Þorsteinn segði í reiði sinni: Ég skal senda þér pilt sem þú færð nóg af. Samkvæmt fyrri frásögn Sigfúsar eru þessar ástæður nefndar, sem hugsanlegar orsakir Tungu-Brests, auk þessara er Önnu fyrri konu Páls getið sem hugsanlegrar ástæðu, þar sem hún hafði farið fram á við Pál í draumi að hann léti skíra dóttir þeirra Helgu í höfuðið á sér og Páll lofað því en ekki getað staðið við það, þar sem Helga var því ekki samþykk. Anna hafði látist af barnförum sjö árum áður en Tungu-Brestur kom upp. En flesta hafi samt sem áður grunað að Sigurður hefði magnað ættarfylgjuna Þorkel og sent bróður hans til að hefna fyrir hrakning sinn í kaupstaðnum.

Í seinni frásögn Sigfúsar eru orsakir Tungu-Brests sagðar Þorkell bróðir Páls enda hann nefndur í fleirum þjóðasagnasöfnum sem orsök reimleikanna í Kverkártungu. Þorkell er þar yfirleitt sagður ættarfylgja foreldra Páls, sem hann hafi tekið við eftir lát föður síns. Þá skýringu gaf Helga kona Páls á Tungu-Bresti, en til Helgu er mest til vitnað í þjóð- og munnmælasögum.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er látið að því liggja neðanmáls að foreldrar Þorkels hafi þegið fé fyrir að sækja ekki mál á hendur Sigurði bónda á Þverbrekku vegna hvarfs Þorkels sonar þeirra. Saga Tungu-Brests er til í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum landsins í fleiri en einni útgáfu og hefur ævinlega tengingu í Öxnadal við sögu Þorkels bróður Páls. Lítið er um skjalfestar heimildir, sem sína fram á að eftirmál hafi orðið út af hvarfi Þorkels. Saga hans virðist að mestu varðveitt í Þjóðsögunni. Þó er eitthvað til af skjalfestum gögnum og virðist mörgu hafa verið haldið til haga án þess að vera sveipað sérstökum þjóðsagnablæ.

Þennan texta má finna í 19. Aldar annál þar, sem farið er yfir atburði ársins 1828. Piltur hvarf um sumarið frá Þverbrekku í Yxnadal, Þorkell að nafni Pálsson Eiríkssonar. Móðir hans, Guðbjörg Þorkelsdóttir, bjó ekkja að Hraunshöfða, hafði hún ljeð son sinn Sigurði bónda Sigurðssyni, prests að Bægisá, fyrir smala. Var drengsins leitað af mörgum mönnum og fannst hann hvergi. Ætluðu margir að af manna völdum mundi vera og drógu það af grunsamlegum líkum, en ekkert varð sannað, enda mun ekkjan hafa átt fáa formælendur. (Annáll 19. aldar I, bls 396 / sr. Pétur Guðmundsson.)

það má kannski ætla að annálar fyrri alda séu sambærilegir við fjölmiðla dagsins í dag, þeir skrái fréttir opinberlega og séu þær samtímasagnir áreiðanlegri en þjóðsagan. En rétt eins og með fjölmiðla okkar tíma þá greina annálar aðeins frá smábroti af sögunni og ekki alltaf rétt frá.

Þjóðsögurnar og munnmælin greina mun betur frá því hvaða fólk kom við sögu vegna hvarfs Þorkels smala í Öxnadal og hvað um hann varð. Það sem strax ber á milli í fátæklegri frásögn 19. aldar annálsins og þjóðsögunnar er að Guðbjörg móðir Þorkels smala er sögð í annálnum ekkja þegar hann hvarf en þjóðsagan hefur það að geyma sem réttara reynist. Páll og Guðbjörg voru bæði á lífi og bjuggu á Hraunshöfða í Öxnadal þegar atburðir þeir gerðust, sem annállinn  greinir frá með svo naumum orðum, en þjóðsagan geymir söguna alla. (framhald)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús.

Hef lesið alla smalapistlana þína enda er ég gamall smali sjálfur þótt ólíku sé saman að jafna. Þín frásögn rifjaði upp fyrir mér hugleiðingar úr Fátæku fólki eftir Tryggva Emilsson þar sem hann fjallar á sinn hátt um Þverbrekkumálið. Það er sorgarsaga og svo var um kjör og aðbúnað margra smaladrengja og stúlkna. En einnig eru til aðrar og gleðilegri frásagnir af ógleymanlegri yfirsetu og manndómsvígslu sem fylgdi því að fara í göngur. Saga sem ekki má gleymast.

Bestu kveðjur.

sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 2.2.2020 kl. 17:23

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Sigurður, og þakka þér fyrir athugasemdina. Já ég get rétt ímyndað mér að það hafi orðið til margar gleðistundir og manndómsvígslur við það að vera smali. Enda komast þjóðskáldin vel að orði hvað ánægju stundir varðar. Sjálfur hef ég smalað sauðfé og hef fengið örlítinn smjörþef af hve holl og gefandi svoleiðis útivera er, en sennileg hefur verið mun átakanlegra að sitja sólahringum saman yfir kindum rétt eftir að lömbin voru færð frá fyrr á tímum.

Þessi smalasaga sem ég setti saman er af öðrum meiði en lýsing þjóðskáldanna enda fór hún af stað við grúsk útfrá starfsorkumissi vegna hjartaáfalls, þegar mér datt það í hug að hjartaáfall gæti orsakast af sendingu af gömlu gerðinni.Svo sennilega varð þetta óþarflega þunglyndisleg og svört smala saga fyrir vikið, og alls ekki dæmigerð fyrir starfkjör smala á fyrri tíð.

Það var þannig að þegar ég var að lesa þjósöguna um Tungu-Brest fyrir nokkrum árum, þá stakk ég  niður allskonar punktum í tölvuna hjá mér, úr þjóðsögum, samtölum og af netinu, sem sögunni tilheyrði. Til að að klára rannsóknina um samhengi draugagangs og hjartaáfalls og raða þessum punktum í heillega mynd þá varð til þessi frásögn um smalann.

Ég las bók Tryggva Emilssonar fátækt fólk, og varð frásögn hans af Þverbrekkusmalanum m.a. ein kveikjan að þessari rannsókn minni. Í næsta hluta mun ég gera grein fyrir því við hvaða munnmæli og heimildir er stuðst varðandi Þverbrekkusmalann og hygg ég að þær séu sömu og Tryggvi hafði í huga. 

Með bestu kveðju og þökk fyrir lesturinn.

Magnús Sigurðsson, 2.2.2020 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband