Flýðu

segir sá sagna besti hér á blogginu – en hvert spyrja menn. Það er ekki nýtt að fólk þurfi að flýja á landinu bláa, síðast gerðist það í hinu svo kallaða hruni, en nú segir sá sagna besti að ekki einu sinni hrun komi til bjargar. Tilveran sé fjörkippur án gríns.

Rjómi verkfærra Íslendinga á besta aldri flúði landi í kjölfar hins svokallaða hruns og mun aldrei koma til baka, enda var þeim ekki á nokkurn hátt bættur skaðinn, þess í stað var tekin meðvituð ákvörðun um að skipta um þjóð í landinu.

Forsmekkur að ámóta flótti varð skömmu fyrir 1970, í kjölfari síldarhruns og hafísára. Þá flúði fjöldi ungs fjölskyldufólks land og komu fæstir til baka. Þeir sem það reyndu, -jafnvel eftir að hafa komið vel undir sig fótunum erlendis, -voru í besta falli hafðir að féþúfu snéru þeir heim, -Shanghiaðir á góðri íslensku.

Svona hefur þetta gengið allt frá Vesturferðum 19.aldar á landinu bláa. Almúginn hefur mátt flýja landið á meðan aðallinn treður í sína vasa öllu steini léttar, enda lítur ekki nokkurt frjálst samfélag við aðkomnum aðli, hvað þá kúkalöbbum með drulluna upp á bak.

Þar áður var ekki svo auðvelt fyrir almúgann að flýja hyskið, hvað þá móðuharðindi. Hvað gerði fólk þá? Hvert flúði það? Til þess að eignast líf í frelsi þá flúðu margir til fjalla eða ystu annesja. Hornstrendingar voru litnir hornauga vegna frelsis síns og að ekki var hægt að kúga þá.

Hornstrandir voru víða á landinu bláa. Má þar t.d. nefna svæði, sem í dag eru kallaðar Víknaslóðir, svæðið frá Borgarfirði-eystra í Loðmundarfjörð. Eins má nefna heiðarbýlin á heiðum austanlands, Vopnafjarðarheiði og Jökuldalsheiði, þar sem skáldsögurnar Sjálfstætt fólk og Heiðarharmur eiga sínar rætur.

Í Mávabrík Ármanns Halldórssonar segir frá Benoní og Ólöfu sem flúðu í Hvalvík, örlitla víkurskoru úti við ysta haf norðan undir fjallinu Gletting. Settu upp sitt bú og bjuggu þar í 10 ár, en fluttu þá á Glettinganes sem var enn síður í alfara leið. Heimildir geima lýsingu af fyrstu dögunum Ólafar og Benonís í Hvalvík.

Þau gerðu sér bráábyrgðaskýli í graslaut sem þau tjölduðu yfir með bátssegli og notuðu mastur til að halda seglinu uppi. Ólöf var þá vanfær og í þessu afdrepi ól hún tvíbura 25. júní – “við bú í Hvalvík” stendur í kirkjubókinni. Börnin skírði séra Benedikt Þórarinsson sem fékk Desjamýrarprestakall þetta vor, stúlku og dreng, stúlkan skýrð Brandþrúður, sem sennilega er eina nafn á landinu fyrr og síðar þessarar samsetningar, og drenginn Jóhann Magnús. Hann átti aðeins fimm daga ævi, þannig byrjaði búskapurinn upp á líf og dauða. (Mávabrík – Ármann Halldórsson bls 71)

Það er ómengað sjálfsþurftarsnið á búskapnum í Hvalvík. Þar er flest – reyndar allt sem með þarf og verður að nægja til nauðþurfta – í matföngum, klæðnaði, húsum, eldsneyti og ljósmeti -sótt í náttúruna umhverfis, landið og sjóinn. Benoní eignaðist bát, stundaði sjóinn frá Glettinganesi, fór hina örðugu sjávargötu yfir Gletting og hefur byrjað að róa þaðan fyrir 1839. Almælt er að Ólöf hafi róið með honum, en óvíst hvort það hefur verið meðan þau bjuggu í Hvalvík. (Mávabrík – Ármann Halldórsson bls 80)

Það er í náttúra landsins, og stund með sjálfum sér sem er besti flóttinn. Ég flúði landið bláa með tárin í augunum í hinu svo kallaða hruni, en eftir það hef ég lofað því að láta hyskið aldrei flæma mig aftur úr landi.

Í náttúru heiða- og víknaslóðir höfum við Matthildur mín flúið margan dagpartinn hvert sumar s.l. 10 ár, undan síbyljunni. Ég hef sagt frá þessu sjálfstæða flóttafólki annesja og heiða í pistlum hér á blogginu, -sumarhúsunum á Sænautaseli og konunum í Kjólsvík.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Nafn Jehóva er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er óhultur. (Ok. 18:10).

Þegar ég þjónaði sem prestur í hinu gamla Svalbarðsprestakalli, sem hafði fengið nafnið Raufarhafnarprestakall, var enn í notkun kirkjubók, sem átti upphaf sitt 1850.

Við lestur bókarinnar sá ég að um helmingur sóknarbarnanna hafði flust búferlum til Vesturheims kringum aldamótin 1900.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 19.4.2024 kl. 10:33

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Flóttinn vestur um haf var gríðarleg blóðtaka fyrir margar byggðir. Í myndinni um heiðarbýlin hér neðst í blogginu kemur fram hvað það var skammgóður vermir að flýja til fjalla, mikið af því fólki endaði á að fara vestur.

Það sem maður óttast núna er að enn eitt tímabilið sé að rennu upp þar sem ungt barnafólk íslenskt barnafólk yfirgefur landið uppgefið á vaxtaokrinu.

Undanfarna áratugi hefur flóttinn verið keyrður áfram af hreinn græðgi ef ekki illsku, -ekki nokkur leið að kenna náttúruöflunum um eins og stundum á árum áður.

Magnús Sigurðsson, 19.4.2024 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband