Smalinn - 1. hluti

Það er sennilega þannig með þjóðsöguna, að í hugum flestra er hún lygasaga. Og ef hún er um drauga þá er hún að auki hindurvitni. En oft er draugasaga besta heimildin um það sem raunverulega gerðist. 

Fyrir nokkrum árum síðan heimsótti mig heilsubrestur, sem varð til þess að ég má taka því rólega. Hjartað hikstaði á þann hátt að það varð svokallað áfall, sem þýðir að það dælir ekki lengur blóðinu um líkamann af fullum krafti. En það var ekki beint heilsubrestur sem ég ætla að tala um heldur annar brestur sem er sending af gömlu gerðinni.

Málið er nefnilega það að ég komst fljótlega að því að hjartaáfall átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig, sem hafði engar fræðilegar forsendur til þess, s.s. háan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursíki eða ættarsögu. Því fór mig fljótlega að gruna að þarna hefði verið á ferðinni sending af gömlu gerðinni, sem lesa má um í þjóðsögunum. Ef ég orðaði þetta við hjartalækninn þá var boðið upp á þunglyndislyf, eins og það væri eitthvert svar.

Þar sem ég fékk nægan tíma í kjölfar heilsubrestsins þá ákvað ég að leita upplýsinga um sendingar af gömlu gerðinni í Þjóðsögunum, fyrir valinu urðu Þjóðsögur Sigfúsar. Fljótlega rakst ég á söguna um Brest eða réttara sagt Tungu-Brest en hún á að vera um sendingu sem Páli bónda Pálssyni var send í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld.

Það sem vakti öðru fremur athygli mína á þessari sögu var kannski ekki sagan sjálf heldur endalok Páls, sem komu fram í eftirmála. Nokkrum árum eftir að Páll hafði bæði hrökklast frá Kverkártungu og flosnaður upp úr sambúð við konu sína, fór hann til Vopnafjarðar og fékk sér ótæpilega neðan í því af brennivín sem talið var svikið. Á þriðja degi var Páll aftur orðinn allsgáður og fór þá til Andrésar vinar síns í Leiðarhöfn á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki.

Það sagði Andrés velkomið en fannst ekkert benda til þess af útliti Páls að dauðinn væri á næsta leiti, enda var hann ekki nema 55 ára. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því væri ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi fótkuldi Páls sem fékk mig til að taka eftir sögunni um Tungu-Brest, því fótkuldinn hlyti að stafa af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

En sendingin sem Páll fékk í heimsókn á bæ sinn Kverkártungu var tilkominn nokkru áður en svikna brennivínið lenti ofan í hann á Vopnafirði. Um Kverkártungu drauginn eða Tungu-Brest er getið í flestu Þjóðsagnasöfnum sem fyrir finnast á Íslandi. Enda er draugurinn sennilega ein af mest rannsökuðu sendingum landsins og sá sem miklar skráðar heimildir eru til um, jafnvel af hinum lærðum mönnum, sem ekki vilja láta það um sig spyrjast að þeir láti bábiljur og hindurvitni byrgja sér sýn.

Að minnsta kosti þrjár tilgátur voru nefndar í þjóðsögunum um ástæður sendingarinnar. Þær helstar; að Páll hafði dreymt fyrri konu sína, sem þá var látin, sem fór fram á það við hann, þar sem komið var að því að hann og seinni konan skírðu dóttur sína, að dóttirin yrði nefnd eftir sér, þessu lofaði Páll í draumnum en móðir stúlkunnar vildi ekki nafnið og lét Páll hana ráða.

Önnur tilgáta var á þá leið að Páll hafði átt bróðir þegar hann var drengur í Öxnadal, sem hafði horfið á vofeigilegan hátt og átti hann að hafa tekið við draug bróður síns, sem var nokkurskonar ættarfylgja, eftir lát föður þeirra en honum á sá draugur að hafa fylgt fram á gamalsaldur.

Þriðja tilgátan var af sama meiði en Páll hafði átt í útistöðum við þann mann, sem sekur var talin um hvarf bróður hans og átti meðal annars að hafa tapað málaferlum fyrir honum. Páll hafði bæði lent illilega upp á kannt við þann ákærða og þann sem sótti málið fyrir hann, því hann neitaði að borga málsóknina þar sem hann taldi hana hafa verið slælega unna. Báðir þessir menn höfðu haft opinberlega í heitingum við Pál.

Þessi saga gaf lítil svör um sendingar fyrri ára og engin um það hvernig sendingar gætu orsakað hjartaáföll. En þegar ég hafði rekist á efni tengt þessari sögu þrisvar sinnum úr ólíkum áttum á u.þ.b. þriggja mánaða tímabili þá fór atburðarásin að líkjast sendingu. En sagan um Tungu-Brest, í allra stystu máli, er í Gráskinnu hinni meiri eftir þá Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson:

Hann var uppi um 1870 og var ósýnilegur, en gerði vart við sig með hljóðum. Var stundum sem vatn drypi, stundum sem högg og slög, en stundum sem dynkir eða brestir, og af því fékk hann nafnið Brestur. Þá bjó í Kverkártungu Páll bókbindari. Hann var fluttur vestan úr Þingeyjarsýslu eða lengra að. En sagan af uppruna Brests var sú, að hann væri meðaladraugur, - og fleiri sögur heyrði ég um meðaladrauga. Páll átti bróðir, er fór ungur í vist, og varð fljótt um hann. Ætluðu menn, að af mannavöldum væri. Var þó ekki við því hreift. Þegar Páll komst til manns, vildi hann hefna bróður síns, vakti upp draug og kom honum í meðul. En fyrir mistök eða kunnáttuleysi fór svo, að draugurinn snérist að Páli sjálfum og gerðist svo umsvifamikill, að kona hans Helga Friðfinnsdóttir, varð að flýja heimilið um skeið. Helgu þessari var ég samtíða og heyrði hana segja frá Bresti. Þó þori ég ekki að fara með þá sögu, enda mun hún vera í safni Sigfúsar.

Eins og greint er frá hér að ofan þá hafði ég fyrst rekist á söguna við að leita upplýsinga um sendingar í þjóðsögunum og er hún mun ítarlegri annarsstaðar m.a. hjá Sigfúsi, og frásögn Gráskinnu er sú eina sem segir Pál hafa vakið upp lyfja draug. Næst rakst ég á frásögn í bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem ég áttaði mig á að mundi vera af Þorkeli bróður Páls, unglings sem hvarf í Öxnadal. Þriðja frásögnin var í bók Árna Óla, Reimleikar, þar sem hann fer yfir dularfull fyrirbæri á Íslandi, sem rannsökuð hafa verið og skjallegar heimildir eru til um meðan á þeim stóð, en samt sem áður ekki fengist haldbærar skýringar á af hverju stöfuðu.

Jón Illugason hreppstjóri á Djúpalæk var einn af þeim sem hafði skráð reimleikana í Kverkártungu meðan þeir áttu sér stað. Á Kverkártungu á Langanesströndum býr bóndi, Páll að heiti, son Páls Eiríkssonar er ferðaðist suður á land og víðar. Í fyrrahaust var Páll bóndi að leysa hey í hlöðu að kveldi dags, þá heyrir hann barið högg ofan í þekjuna. Hann fer út, en sér engan; það gengur þrisvar að hann verður við engan mann var. Hann lýkur við verk sitt, en finnst þó ei til. (Hann er á lífi, frí við öll hindurvitni og hugleysi.) Hann gengur heim eftir þetta, en í því hann kemur á hlaðið er maður þar kominn og segir honum lát Páls föður hans. Í mæli hefir verið að eitthvað hafi fylgt þeim Páli. Eftir þetta fer að bera á reimleika á bænum, að bæði Pál og fólkið dreymir illa; hann og það sér stundum á kveldin hvítan strók, stundum þokumökk, stundum eins og hálft tungl; oft sá bóndi þetta í fjárhúsunum. Svo fóru leikar að allt fólkið og konan fór á burt í vor og á annan bæ, en Páll varð eftir og kveðst aldrei skuli þaðan fara, hvað sem á gangi, og sagt er að þá Páll væri orðinn einn hafi hann komist í meiri kröggur. En í haust varð Páll minna var við þetta, en kona hans sá þetta oftar og óttalegra en fyrr og skal hún vera orðin sinnisveik af hræðslu. Lengra er ekki komið sögunni og ætla ég við að bæta ef eitthvað fréttist um þetta. (Þjóðsagnasafn JÁ) Áframhald skráðra þjóðsagna byggir m.a. á frásögnum Helgu konu Páls.

Í bók Árna Óla var á það minnst að til væru í handritum Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara minnispunktar á Þjóðskjalasafni Íslands, þar sem Sigfús getur þess að fjórða tilgátan um uppruna Tungu-Brests sé sú sennilegasta, en á hana sagðist Sigfús ekki geta minnst nokkru orði vegna þess að þar sé um of viðkvæmt mál að ræða í sveitinni, þar sem Brestur gerði vart við sig þ.e.a.s. á Langanesströnd.

Svo gerðist það þegar ég var að lesa bók Árna að það hóf maður störf á mínum vinnustað sem nýlega var hættur búskap á Langnesströnd og hafði búið í grennd við Kverkártungu, sem fyrir löngu er komin í eyði. Þessi maður er kominn á eftirlaunaaldur en eins og margir af hans kynslóð þá vildi hann hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni og réð sig í byggingarvinnu. Mér datt því í hug að spyrja hann hvort hann þekkti til þess hvað hefði verið svo viðkvæmt mál í hans sveit að ekki hefði mátt á það minnast í þjóðsögu.

Hann sagðist hafa heyrt ástæðu þess frá gömlum manni þegar hann hóf búskap, ungur og aðfluttur maður, í sveitinni. En í stuttu máli var hún sú að í Kverkártungu hefði drengur horfið, sem var smali en talið væri hvarf hans mætti rekja til illrar meðferðar. Hann sagði að gamli maðurinn, sem sagði honum frá þessu, hefði bent sér á staðinn þar sem drengurinn hefði verið urðaður þegar þeir voru í smalamennsku í landi Kverkártungu.

Í fyrstu efaðist ég um að þetta gætu verið réttar upplýsingar þar sem Páll hefði verið yngri bróðir drengs sem hvarf í Öxnadal og var talin hafa sætt illri meðferð sem smali. Þarna gætu eitthvað hafa blandast þjóðögur og munnmæli. (framhald)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband