Stóra brúneggjamálið í hnotskurn


Útlægar sálir á Íslandi

Þjóðsögurnar varðveita sagnir um útilegumenn en tæpast eru allar þær sagnir taldar áreiðanlegar heimildir. En hvaða heimildir af alþýðufólki eru svo sem sannleikanum samkvæmar? Sennileg væri svarið við þeirri spurningu; þær sagnir sem skjalfestar hafa verið af yfirvaldinu í gegnum tíðina, s.s. dómsmál og annað því um líkt. Það er sigurvegarinn skráir opinberu útgáfu sögunnar, en sú sanna getur samt allt eins haldið áfram að lifa með fólkinu sem þjóðasaga. 

Þeir útilegumenn sem ekki er efast um að hafi verið uppi á Íslandi eru t.d. Halla og Eyvindur og svo náttúrulega Grettir. En þjóðsögurnar segja frá miklu fleira fólki og jafnvel heilu byggðarlögunum í afdölum inn á hálendi landsins. Stundum hafa þessi byggðalög uppgötvast í seinni tíð með því að til eru skráðar opinberar heimildir um fólk sem þar bjó og þá er hvorki um útilegumenn né þjóðsögu að ræða.

Lónsöræfi kort

Einn af þeim afdölum sem líklegt er að hafi verið byggður útilegufólki í gegnum aldirnar er Víðidalur á Lónsöræfum. Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1963 var dalnum gerð rækileg skil með tveimur greinum. Sú fyrri heitir Litizt um í Víðidal og byggir að miklu leiti á ferðabókum Þorvaldar Thoroddsen, þar má m.a. lesa;

"Víðidalur í Stafafellsfjöllum er óraleið frá mannabyggðum, og er mikið torleiði þangað að sækja um reginfjöll og jafnvel jökla. En hann er gróðursæll og á liðinni öld freistaði hann jarðnæðislausra manna. Hvað eftir annað tóku menn sig upp niðri í byggðum, fluttu í dalinn og reistu þar bú. En öræfadalurinn var harður börnum sínum, þótt hvönnin angaði ljúft á fitjum og lækjarbökkum á sumrin. Þar gerðust miklar harmsögur, og þaðan komust ekki allir lifandi. Enn er þar í gömlum túnfæti kuml þeirra, er þar biðu bana með válegum atvikum."

"Landslag er um þessar slóðir stórhrikalegra en víðast annars staðar á Íslandi, fjallstindarnir hvassir og himinháir, gljúfrin ægileg, bergtegundirnar margbreyttar og marglitar, klungrin óteljandi, skriðjöklar og hjarn skaflar í lautunum innan um eggjar og kamba. Ljósið skrámir í augu manns, er það kastast aftur frá hinum marglitu fjallshlíðum, og í fljótu bragði sýnist ófært að ferðast um slík klungur."

Illikambur

 Göngufólk á Illakambi við minni Víðidals mynd Iceland Magazine

þetta hrikalega landslag sem þarna er lýst hefur orðið vinsæl gönguleið á seinni tíð, þar sem gengið er jafnvel alla leið úr Lóni í Austur-Saftafellssýslu að Snæfelli í Norður-Múlasýslu og er sú leið nú kölluð Austurstræti. Á heimasíðu Vegagerðarinnar má einnig sjá frásögnina "Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi" sem ætla má að hafi verið fjölfarinn til forna, en þar liggur leiðin upp úr suðurdal í Fljótsdal og suður í Lón með viðkomu í Víðidal.

Frásagnir af þeirri byggð sem vitað er með vissu að var í Víðidal eru þjóðsögum líkastar. þaðan sem dagleið var til byggða hið minnsta og harðir vetur.  Ekki var búið í Víðidal Þegar náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen kom í dalinn árið 1882 í fylgd Sigfúsar Jónssonar, bónda á Hvannavöllum í Geithellnadal. Er talið að sú för og gróskan í dalnum hafi átt drjúgan þátt í ákvörðun Sigfúsar á Hvannavöllum að flytja í dalinn vorið eftir ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Jónsdóttur, og tvítugum syni þeirra, Jóni. Voru þau þriðju og síðustu ábúendurnir í dalnum sem vitað er um á 19. öld og af þeim fara mestar frásagnir.

Í sendibréfi frá Sigfúsi á Grund sem birtist í Austra 27.08.1884 lýsir hann aðdraganda flutninganna í Víðidal. "Það þótti mikið áræði af mér, jafngömlum –og ónýtum að flytja búferlum í Víðidal, jafnvondan veg sem yfir þarf að fara. Ég tók þetta fyrir því að ég fékk ekkert jarðnæði sem mér líkaði og hægt var að flytja á." Byggðu þau bæ sinn fyrst á rústum fyrri bæjar en fljótlega nokkru neðar í túninu. Bæinn nefndu þau Grund og bjuggu þar ellefu manns er flest var við þokkalegan hag í fjórtán ár eða til vors 1897. Fjárfellir í harðindum þann vetur mun hafa ráðið mestu um að þau yfirgáfu dalinn.

Kollumúli

Kollumúli við Víðidal, mynd pahuljica.blog.is

Þar áður höfðu búið í dalnum Þorsteinn Hinriksson frá Hafursá í Skógum og Ólöf Nikulásdóttir, ættuð af Síðu. Fluttu þau í Víðidal úr vinnumennsku árið 1847, með tvo kornunga syni sína og dóttur Ólafar á fermingaraldri. Settust þau að í eyðibæ eftir fyrri íbúa dalsins. Búseta þeirra hlaut hörmulegan endi á öðrum eða þriðja vetri.

"Á þrettánda degi jóla ... hljóp snjóflóð á bæinn er Þorsteinn hafði lokið húslestrinum og fórst hann ásamt báðum drengjunum. Mæðgurnar sluppu ... Ólöf viðbeinsbrotin. Lifðu þær við harmkvæli í rústunum og höfðu helst hrátt hangikjöt og slátur sér til matar, en húsdýr öll fórust ... Eru þær taldar hafa verið þarna 5-6 vikur uns þær afréðu að koma sér til byggða sökum vistaskorts. Þær villtust og grófu sig í fönn en þremur dægrum eftir það komu þær fram á svonefnda Sniðabrún fyrir ofan bæinn Hvannavelli ... Fundust mæðgurnar þarna aðframkomnar en þó tókst að bjarga þeim." (-Úr bókinni "Svei þér þokan gráa" eftir Stefaníu Gísladóttir í Seldal um ævi austfirsku skáldkonunnar Guðrúnar Ólafsdóttur).

Minnisvarði er í túninu um Þorstein og drengina tvo, þar sem talið er að bærinn hafi staðið.

Grund í Víðidal

Grund í Víðidal, mynd eirag.blog.is

Íbúar dalsins þar á undan voru þau Stefán sterki Ólafsson úr Húsavík eystri og Anna Guðmundsdóttir frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Komu þau sér upp nýbýli í Víðidal sumarið 1835 en höfðu líklega flutt þangað sumarið áður og því búið þar sem útilegufólk í eitt ár. Með þeim flutti vinnukona og smali.

Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar af þessum hjónum og sennilega er saga þeirra óvíða svo vel skráð annarsstaðar. Samkvæmt þjóðsögunum á Stefán sterki að hafa verið viðsjálvert skrautmenni, rólegur og latur. Hann var grunaður um að hafa átt þátt í dauða Eiríks á Aðalbóli, fyrri manns Önnu. Þau Anna héldust ekki við á Aðalbóli eftir dauða Eiríks, kom þar til óvild ættmenna Önnu út í Stefán.

Þau fluttust þá niður í Húsavík til Ólafs föður Stefáns sem eftirlét þeim Litlu-Breiðuvík. Ólánið elti þau, Stefán gerði hverja vinnukonuna á eftir aðra ólétta. Önnur þeirra var tilvonandi tengdadóttir Hafnarbróðirins Hjörleifs sterka og fóru þeir feðgar í heimsókn í Breiðuvík þegar þeir fréttu af óléttunni. En þá var Guðrún orðin léttar og höfðu Stefán og Anna ákveðið að láta sem Anna ætti barnið. Við þetta reiddust þeir feðgar Hjörleifur og Árni og tóku með sér þaðan Guðrúnu og barnið og hófu málaferli á hendur Stefáni. Þegar þau Stefán og Anna höfðu búið 10 ár í Breiðuvík voru þau búin að koma sér þannig að ekki var um annað að gera en að láta sig hverfa. 

Þá fór Stefán að kynna sér Víðidal því hann hafði heyrt að þar hefðu útilegumenn búið í gegnum aldirnar, hann komst að því að engin hafði eignarhald á dalnum og flutti þangað. Þau Anna bjuggu í dalnum fram undir 1840 en þá var vinnukonan farin og smalinn allur. Í þjóðsögum Sigfúsar segir svo um þetta; "Smali sá er hjá þeim hafði verið varð nú leiður á leti og ásælni Stefáns og bar þeim á milli og svo fór að drengurinn andaðist þar með skjótum og tortryggilegum atburði; gróf Stefán hann hjá kofunum. En síðar, þegar loks þau Stefán sáu sig engan fengið geta sér til aðstoðar og óhróður um lát drengsins barst til byggða, þá sáu þau sér nauðugan einn kost að flytja þaðan. Höfðu þau bein drengsins með sér og létu jarða þau að Stafafelli. Varð engin rannsókn hafin út af hans snögga fráfalli. Það var árið 1840 að þau flosnuðu upp í Víðidal. Fór Anna þá að Aðalbóli til dóttur sinnar en Stefán á flæking."  

Tröllakrókar

Tröllakrókar, mynd; Vatnajökulsþjóðgarður

Samkvæmt þjóðsögunni frétti Stefán af því að Þorsteinn og Ólöf hefðu flust í Víðidal eftir hans og Önnu daga í þá kofa sem þau höfðu byggt og sagði við það tækifæri; "Hum, hum, vel mátti hann flytja í dalinn án míns leyfis en kofana átti ég og hefði hann getað fengið leyfi mitt til þess að búa í þeim því þá á ég með öllum rétti. Mun þetta hann til ills draga." Þessi ummæli Stefáns festu margir í minni og þóttu all--ægileg því sumir hugðu hann vita fleira en almenning frá sér. Varð mönnum að trú sinni því á þriðja ári sínu þar var þorsteinn að lesa húslestur á helgidegi; þá hljóp snjó- og aurhlaup úr fjallinu og braut bæjarkofana. (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Í Þjóðsögum Sigfúsar er sagt frá Gerðissystkinunum, þeim Jóni og Sigríði sem bjuggu eftir foreldra sína í Víðivallagerði í Fljótsdal seinnihluta 17. aldar. Þegar þjóðsagan gerist "voru bæði fríð sýnum og atgerfisfólk, fullþroska, vinsæl og vel látin". Sveitungar þeirra tóku eftir því að Sigríður var ófrísk án þess að nokkur vissi til að hún hefði verið við karlmann kennd og því kom upp sú getgáta að það væri eftir Jón bróðir hennar. Á þessum árum var Jón Þorláksson sýslumaður í Fljótsdal, "eftirgangsamur um smábrot sem siður var margra stórmenna á þeirri tíð" (Stóridómur tók hart á sifjaspellsmálum). Sýlslumaður og Fljótsdælingar vildu taka Sigríði og yfirheyra hana. Á þessum tíma var Böðvar Sturluson prestur á Valþjófsstað, vinur þeirra Gerðisyssystkina. Hann taldi ekkert liggja á best væri að gefa Sigríði næði til að eiga barnið og feðra það í framhaldinu.

Þegar kom að því að sýslumaður heimsótti Víðivallagerði voru þau systkinin horfin og auðsjáanlegt á því sem þau tóku með sér að þau gerðu ekki ráð fyrir því að koma aftur, framkvæmd var ítarleg leit en árangurslaust. Sagan segir að Þorlákur prestur hafi látið gera margt undarleg næstu áratugina, m.a. látið reka fé á fjall í þeim tilgangi að það skilaði sér ekki aftur. Sent trúnaðarmann sinn um ókunnan fjallveg um há vetur uppfrá Sturluflöt í suðurdal Fljótsdal suður öræfin í þeim tilgangi að færa kolleiga sínum á Hofi í Álftafirði bréf.

Lónsöræfi

Göngufólk á Lónsöræfum, mynd; Land og saga

Eins og þjóðsagan lýsir þeim fjallvegi leynir sér ekki að um sama forna fjallveg er að ræða og má lesa um á síðu Vegagerðarinnar. Enda villtist þessi trúnaðarmaður prestsins á Valþjófstað í óveðri í afskektan dal þar sem tveir bæir voru með útilegufólki. Annar bæinn taldi hann vera byggðan af þeim systkinum í Víðivallagerði og dóttur þeirra.

Mörgum áratugum eftir að systkinin hurfu frá Víðivallagerði kom ung kona í Fljótsdal sem flestir töldu sig kannast við, var þar á ferð Sigríður dóttir þeirra Jóns og Sigríðar Víðivallagerðis systkina. Voru foreldrar hennar þá bæði dáin, lét þá Þorlákur prestur gera leiðangur eftir þeim í afskekta dalinn og voru þau jarðsett að Valþjófsstað. Þarna telur Sigfús þjóðsagnaritari um Víðidal að ræða. Margar fleiri þjóðsögur um útilegumenn í safni Sigfúsar gætu átt við Víðidal.

Eins og ætla má þá eru til mestar heimildir af síðustu íbúum Víðidals, fjölskyldum þeirra feðga Sigfúsar og Jóns sem bjuggu þar á síðustu áratugum 19. aldar. Í Sunnudagsblaði Tímans er frásögn eftir Helga Einarssona bónda og hreppstjóra á Melrakkanesi, síðar Djúpavogi, þar sem hann segir frá lífinu í Víðidal en þar ólst hann upp hjá skyldfólki á fyrstu árum ævi sinnar. Hann telur að búskapurinn í Víðidal hafi ekki verið frábrugðin þess tíma, nema hvað þar var afskekkt og erfitt með aðföng. "Fólk fékk hvort tveggja, fæði og klæði, nær eingöngu af jörðinni og sauðkindinni. Veiðiskapur var enginn, nema hvað rjúpur voru skotnar við og við að vetrinum".

Einnig vitnar Helgi í bréf sem Jón Sigfússon skrifaði honum, en Jón mun hafa haldið dagbók mest allan þann tíma sem þeir feðgar bjuggu í Víðidal. Auðbjörg Jónsdóttir vinnukona í Víðidal dó árið 1887, þar vitnar Helgi í bréf Jóns . "Dauða Auðbjargar bar með voveiflegum hætti, og hefur Jón Sigfússon sagt svo frá tildrögum þess atburðar í bréfi til mín: "Auðbjörg heitin villtist úr grasatínslu 5. Ágúst 1887, og leituðum við í viku og fundum ekki. En 20. sama mánaðar fannst hún af pabba sálaða í húsi í Þormóðshvömmum, þá með lífsmarki. Pabbi reið strax í hasti út í Kambsel. Þar bjó þá Jón Árnason, hálfbróðir pabba, og var hún dáin, þegar þeir komu inn eftir." í embættisbókum Hofsprestakalls segir og, að hún hafi dáið 20. ágúst, "varð úti á grasaheiði, fannst á Geithellnadal".

Eins segir Jón Sigfússon frá því hvað skíði voru mikið notuð af Víðidalsmönnum t.d. til dægrastyttinga. "Það bjargaði okkur í Víðidal, að við vorum allir góðir á skíðum, enda gafst okkur færi á að æfa vel skíðaferðir. Einu sinn kom mikill snjór í Víðidal. Þá var öllu gefið inni. Þá sagði ég við Bjarna frænda, að nú skyldum við taka okkur skíðatúr. "Já, hvert skulum við þá fara?" "Upp á há-Hofsjökul"; sagði ég. "Það er þá aldeilis sprettur", sagði Bjarni. Svo lögðum við af stað og gengum alltaf á skíðunum upp og alveg upp á jökulinn, þar sem hann er hæstur. Þaðan sáum við út á sjó í Álftarfirði og Búlandstind og norður á Fljótsdalsheiði. Alls staðar var hvítt, nema Kverkfjöllin voru að sjá mikið auð og randir meðfram Fellunum, helzt í Snæfellshálsinum. Ekki man ég, hvað við vorum lengi upp á jökulinn neðan frá bænum. En fimmtán mínútur vorum við niður að bænum. Úr Víðidal mátti fara til byggða á skíðum, þegar mikill snjór var, út í Lón, Álftarfjarðardali alla, til Fljótsdals og Skriðdals og Hrafnkelsdals, án þess að fara fyrst til Fljótsdals. Það var bein leið af Marköldunni í Laugarfjall, yzta hnúkinn af Fellunum og úr Laugarfelli út og norður í Aðalból".

Það er nokkuð ljóst að útilegumenn til fjalla á Íslandi hafa verið fleiri í gegnum aldirnar en Grettir, Eyvindur og Halla.


Í sannleika sagt er 90% lygi


Íslenska tímatalið

Í bók Gísla Hallgrímssonar á Hallfreðsstöðum, "Betur vitað" sem kom út 1992, er kafli sem heitir "íslenska tímatalið". Það er margt í hugleiðingu Gísla sem er athyglivert, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að bók hans kemur út fyrir tíma internetsins og aðrar leiðir þurfti til að afla óhefðbundinna upplýsinga en nú á tímum. Gísli telur í það fyrsta að gamla íslenska tímatalið byggi ekki á gömlu norrænu tímatali;

"Margt bendir til þess að tímatal, sem íslendingar tóku upp líklega þegar Alþingi var stofnað 930 hafi átt rætur sínar að rekja til Babýlon og Persíu. Ef til vill má rekja sumt í tímatalinu til finnskra þjóða, sem ríktu um mörg þúsund ára skeið í löndunum frá Finnlandi til Úralfjalla. Finnsk þjóð lagði undir sig ríki sunnan Kákasusfjalla og lærði þá menningu sem þar var. Menning frá Asíuþjóðum kom norður í Evrópu með Skýþum og svo vestur og norður að Eystrasalti með Gotum. Náskyldar þjóðir áttu vafalítið heima á þessum tíma (400-800 e. kr.)á Austur-Englandi og víða í kringum Eystrasalt. Innhöf tengdu þessar þjóðir saman.

Íslendingar virðast vera komnir af þessum þjóðum, og enn má sjá líkt fólk í Bretlandi, Íslandi og Eystrasaltslöndunum. Flestir af þessari þjóð, sem sest höfðu að á vesturströnd Noregs munu hafa farið til Íslands. Þess vegna eru Norðmenn ekki mjög líkir Íslendingum.

Íslenska árið byrjaði með heyönnum, um 20. júlí eins og hjá Babýloníumönnum. Síðan kemur tvímánuður, haustmánuður, gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður harpa, skerpla, og sólmánuður. Á eftir Sólmánuði í árslok voru svo 4 aukanætur. Allir 12 mánuðirnir voru þrítugnættir, svo árið allt var 364 dagar, eða sléttar 52 vikur. 24 árum eftir Alþingisstofnun fundu hinir fornu Íslendingar að sumarbyrjun hafði flust aftur til vorkomu þ. e. um einn mánuð. Trúleg hefur þá ekki verið kominn gróður handa hestum þegar Alþingi skyldi háð.

Þá fann Þorsteinn Surtur upp það ráð að bæta inn í árið viku sumarauka sjöunda hvert ár. Þetta ráð var upp tekið. Sjöunda hvert ár var sumarið aukið með einni viku. Það ár er 53 vikur eða 371 dagur. Nú voru Íslendingar komnir með ár, sem var að meðaltali 365 dagar að lengd. Árið 954 hefur skekkjan, sem orðin var eflaust verið leiðrétt þ. e. sumarbyrjun færð á réttan stað.

Ennþá var tímaskekkja á hverju ári samkvæmt júlíanska árinu. Það ár kom með kristninni. Samkvæmt júlíanska tímatalinu þarf sumarauki oftast að vera 6. hvert ár, en stundum á fimm ára fresti. Eitt af einkennum íslenska ársins er vikukerfið. Veturinn er 26 vikur í venjulegu ári, og rúmar 27 vikur í sumaraukaári. Veturnætur og sumarmál eru til samans í viku.

Síðustu 2 dagar sumars eru kallaðar veturnætur og 5 síðustu vetrardagar eru sumarmál. Sérhver mánuður byrjar ætíð á sama vikudegi. Við búum enn við þetta tímatal að hálfu. Enn byrjar harpa og sumar á fimmtudegi og gormánuður með vetri á laugardegi. Enn getum við lesið í almanaki um veturnætur, sumarmál og aukanætur í sumri í árslok. Í þessu gamla ári okkar er margt miðað við nætur. Þrítugnættir mánuðir, aukanætur, gestanætur, þriggja nátta fiskur.

Þess mætti geta hér að norræna tímatalið var annað en það íslenska. Þar var árið 365 dagar og notuð voru fimmt í stað vikna. Í gömlu kvæði er talað um órofi alda. Gísli Konráðsson telur að með því sé átt við þann tíma, sem var áður en fór að rofa til, þ. e. áður en farið var að telja í árum og öldum. Erfitt væri nútímamönnunum að hugsa sér lífið án tímatals.

Íslenska árið er miðað við það að ólæsir og óskrifandi menn eigi auðvelt með að fylgjast með tímanum er hann líður. Árið er útfært á tvo vegu. Annars vegar eru 12 þrítugnættir mánuðir og 4 aukanætur. Þetta ár hefur 5 mánaða sumar, eins mánaðar haust, 5 mánaða vetur og vor, sem er einn mánuður. Hins vegar er 52 vikna árið, sem hefur tvær árstíðir, sumar og vetur. Eru 180 dagar í vetri og 184 dagar í sumri. Í sumarauka ári eru 191 dagur í sumri.

Allar árstíðir byrja ennþá eftir íslenska árinu. Í 26. viku vetrar eru aðeins 5 dagar af því sumar byrjar 2 dögum fyrr í vikunni. Í 27. (eða 28.) viku sumars eru 2 dagar. Síðan byrjar vetur. Sumarauki fluttist um 1928 frá sumarlokum til ársloka á miðju sumri. Sérhver vika á vetri byrjar á laugardegi, en allar sumarvikur á fimmtudegi. Veturnætur eru alltaf fimmtudagur og föstudagur, en sumarmál hinir dagar vikunnar.

Íslenska árið var áður mikið notað með tvennu móti. Annars vegar var fardagaár. Fardagar eru 3 fyrstu dagar þ. e. fimmtudagur, föstudagur og laugardagur í 7. viku sumars. Þessa daga höfðu bændur til ábúðaskipti á jörðum. Ábúendaskipti á jörðum voru á hverju ári mjög algeng. Vissu þó gamlir menn að langir búferlaflutningar voru ámóta dýrir og húsbruni.

Hins vegar var skildagaárið. Þann 14 maí hafði vinnufólk vistaskipti. Þetta hefur verið í þriðju viku sumars samkvæmt íslenska árinu, en er nú alltaf miðað við Gregoríska árið. Hið einfalda og fasta form hjálpaði ólærðu fólki mjög mikið við að telja tímann rétt."

Þessi bókarkafli Gísla Hallgrímssonar í "Betur vitað" er settur hér vegna þess að á árinu 2015 grúskaði ég í þeim fróðleik sem má finna á netinu um gömlu íslensku mánuðina og má finna þær upplýsingar hér á síðunni undir "gamla tímatalið". Í því grúski var leitað í Vísindavef Háskóla Íslands, Wikipadia, Árnastofnun og víðar. Margt af því sem kemur fram hjá Gísla er öðruvísi en hægt er að finna á vefnum. Hvaðan Gísli hefur haft sinn fróðleik annarsstaðar en af sínu lífi er ekki gott að sjá. En þó kemur manni til hugar, vegna skoðana hans um uppruna íslenska tímatalsins, að hann hafi komist í kynni Freystein Sigurðsson auk þess sem hann nefnir alþýðufræðimanninn Gísla Konráðsson.

 

 


Steypt list

IMG_8372

Ein af þeim byggingum sem setja svip á Egilsstaði er menntaskólinn. Þó svo að skólinn standi ekki hátt þar sem hann hvílir í hvarfi norðan undan Gálgaklettinum og kirkjunni þá ætti þessi bygging ekki að fara fram hjá neinum þeim sem til Egilsstaða koma, svo vel blasir hún við frá Egilsstaðanesinu þar sem hringvegurinn liggur og flugvöllurinn er staðsettur. Eftir því sem árin líða þá finnst mér meira til þessa mannvirkis koma. Mér finnst þetta mannvirki bera íslenskri byggingalist verðugt vitni.

IMG_3342

Það var árið 1965 sem sett voru lög er heimiluðu stofnun menntaskóla á Austurlandi. Árið 1971 ákvað Gylfi Þ Gíslason að menntaskólinn skyldi verða á Egilsstöðum, og 1972 tók til starfa undirbúningsnefnd sem í voru; Lúðvík Ingvarsson, Vilhjálmur Sigurbjörnsson og Sigurður Blöndal. Þann 13. október 1975 tók svo Vilhjálmur Hjálmarsson þáverandi menntmálaráðherra fyrstu skóflustungu að tilvonandi menntaskóla, þá höfðu setið í byggingarnefnd skólans frá 1973 þeir Þórður Benediktsson, Þorsteinn Sveinsson og Hjörleifur Guttormsson.

IMG_2254

Fjórum árum seinna, haustið 1979 tók skólinn til starfa í þeim áfanga sem Vilhjálmur tók skóflustunguna af 1975. Sá áfangi var um 760 m2 að grunnfleti en heildarflatarmálið um 1550 m2 og hýsti heimavist, eldhús og matsal en kennslustofur voru allstaðar sem þeim var við komið í sölum, á göngum og í skúmaskotum. Hótel Valaskjaálf var nýtt á vetrum í tengslum við skólann á meðan húsnæði skorti. Árið 1983 var tekin í notkun nýr áfangi við heimavist sem í var einnig íbúð. Það var ekki fyrr en 1989 sem fyrstu eiginlegu kennslustofur skólans, sem byggðar voru sem slíkar, voru teknar í notkun. Árið 2006 var svo byggt enn frekar við kennsluálmu skólans.

IMG_2262

Arkitektar voru þeir Ormar Þór og Örnólfur Hall. Hvað þeim gekk til með útliti bygginganna hef ég ekki heyrt um. En auðvelt var að geta sér þess til að þær ættu að falla vel að klettunum sem þær standa næst, enda voru húsin upphaflega ómáluð steypugrá, og þannig heyrði maður að þau ættu að verða til framtíðar. Um tíu árum eftir að fyrstu húsin risu voru þau máluð hvít. Hefur mér eftir það dottið í hug að þessi húsaþyrping eigi að líkjast jökullóni. Allavega er útlitið ramm íslenskt.

IMG_2068

Þó svo að ég hafi aldrei sest á skólabekki menntaskólans á Egilsstöðum né annarra menntaskóla þá hóf ég nám við það sem ég hef haft lífsviðurværi mitt af síðustu 40 árin eða svo í menntaskólanum. En þar fór ég á samning í múrverki 17 árar gamall og hef komið að múrverki á hverjum einasta byggingar áfanga menntaskólans frá byrjun. Síðustu árin hef ég haft byggingarnar fyrir augunum þegar ég vakna á morgnanna því þær eru fyrir utan stofugluggann, ásamt Gálgaklettinum, kirkjunni og Snæfellinu.

IMG_2059

Það er ekki hægt að segja annað en að hver einasta mínúta í tilveru menntaskólans á Egilsstöðum hafi verið nýtt til þess ýtrasta. Þegar ekki hefur verið um hefðbundna skólastarfsemi að ræða hafa byggingarnar verið nýttar til hótelreksturs, en um hann hefur Hótel Edda séð frá upphafi. Yfirleitt er það svo að í byrjun sumars tekur Hótel Edda við helgina eftir að skóla líkur og að hausti líður helgi frá því að Edda skilar og skóli tekur við.

IMG_9985

Umhverfi skólans hefur tekið miklum stakkafskiptum frá því að hann var byggður í túninu við Búbót, sem var samyrkjubú frumbyggja í Egilsstaðakauptúni. Að austan birgja himinháar aspir sýn þar sem skurðbakkinn var áður og inn á milli bygginganna eru skrúðgarðar. Því verður ekki á móti mælt að Menntaskólinn á Egilsstöðum er íslenskt listaverk. Þar sem steypumölin fenginn úr hinni fornu Jöklu, innveggir hlaðnir úr gjósku íslenskra eldfjalla og vinnuaflið til byggingarinnar fengið fyrir tíma erlendra starfsmannaleiga. Það eina sem skyggir á sögu skólans er að nú vill ekki nokkurt skólað ungmenni vinna með höndunum að því að skapa listaverk til gagns landi og þjóð.

IMG_2072


Sannleikurinn úr sófanum


Ferðin á Font

Nú þegar skuggarnir eru farnir að lengjast og daginn tekið að stytta fer ferðalögunum fækkandi. Síðast liðinn vetur fjárfesti ég í gömlum Cherokee sem átti að nota til 4X4 ferða þetta sumarið. Einn af þeim stöðum sem voru á dagskránni var Fontur á Langanesi, eða réttara sagt allt Langanesið því það er einu sinnu svo að það er ferðalagið sem sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn. Þess vegna förum við Matthildur allra okkar ferða án landakorts, hvað þá að GPS sé haft með í för, sólin er eina leiðsögutækið. Í gær var svo ferðin farin á Font með sólina í sigtinu allan tímann. 

IMG_0166

Þegar komið er að Langanesinu að austan blasir Gunnólfsvíkurfjall við

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég kemst í námunda við Langanesið þó svo að aldrei hafi verið farið á Font. Á árunum 1988-1993 var ég mánuðum saman við vinnu á Þórshöfn við Þistilfjörð, en Langanesið nær 50 km út í haf norðaustur af Þórshöfn. Þegar komið er að Langanesinu Bakkaflóa megin þá rifjaðist upp í kollinum að sumarið og haustið 1988 vorum við steypu-félagarnir við störf á Gunnólfsvíkurfjalli þar sem verið var að byggja ratsjárstöð fyrir NATO. Mér fannst við hæfi að bjóða Matthildi upp á Gunnólfsvíkurfjall á svona heiðskírum sólardegi því þá myndum við rata betur út Langanesið. En vegurinn upp á fjallið var lokaður með keðju og þó við værum á fjallabíl þá þorðum við ekki í gegnum keðju Landhelgisgæslunnar sem hefur í seinni tíð tekið upp á því að loka hlutum landsins fyrir íbúum þess með því að bera fyrir sig "valdstjórninni".

IMG_0173

Á Þórshöfn rifjaðist upp hvar lunganu úr sumrinu 1993 var varið 

Blessuð sólin sá um að lýsa okkur út allt Langanes þar sem sjórinn er blárri en blátt en á það til að sjást ekki fyrir rekavið sem þekur alla fjörukamba, þess á milli eru þverhnípt fuglabjörgin í sjó fram. Undirlendið á útnesinu er urð og grjót en þó eru grasbali í fjöru hér og þar sem hafa staðið bæir á árum áður, þekktastir eru Skoruvík og Skálar. Víða eru rústir gamalla torfbæja sem litlar sögur fara af, saga fólksins sem byggði þetta nes fer ekki hátt enda hefur það verið alþýðufólk. Það tók tímann að keyra þessa 50 km leið enda þurfti að stoppa og skoða margt. Í Skoruvíkur fjörunni var félagslyndur músarindill sem þurfti að spjalla við í góða stund og á Fonti var það Fálki sýndi ferðalöngum áhuga. 

IMG_0260

Fontur er ysti hluti Langaness þar er 50-70 m hátt bjarg á því stendur viti byggður árið 1950. Við Font hafa orðið skipskaðar síðast hausti 1907. Þá fórst þar norskt skip,sem var að koma frá Jan Mayen með 17 menn í áhöfn allir fórust nema einn. Í bjarginu stutt frá vitanum er rauf sem kölluð er Engelskagjá. Sagan segir að áhöfn af ensku skipi, sem strandaði endur fyrir löngu undir Fontinum, hafi komist í land og upp gjána. Á leiðinni til bæja varð áhöfnin úti, nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur kross á miðju nesinu milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem lík Englendinganna eru heygð.  

IMG_0282

Á krossinum stendur "Hér hvíla 11 enskir menn" 

Skálar eru stórmerkilegt eyðiþorp á austanverðu nesinu. Þar var vísir að kauptúni og töluvert útræði á fyrri hluta 20.aldar. Árið 1910 hófst útgerð fyrir alvöru með hafnarbótum, byggingu verbúða, frystihúss( eitt af fyrstu vélfrystihúsum landsins), saltverkunarhúss og bræðslu auk verslunarhúsa. Voru 117 manns heimilisfastir þar 1924 auk lausafólks. Leituðu menn þangað úr ýmsum landshlutum til sjóróðra og jafnvel frá Færeyjum. Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var.

Skálar

Á árum síðari heimstyrjaldarinnar ráku á land tundurdufl sem höfðu losnað úr tundurduflagirðingu bandamanna við Austfirði. Tvö dufl sprungu í fjörunni á Skálum veturinn 1941-42 og eyðilögðu tvö hús. Sumarið eftir fluttu síðustu fjölskyldurnar, veturinn 1943 var því engin búsettur á Skálum. Þá kom hópur bandarískra hermanna sem dvöldu þar til stríðsloka. Flestar minjar verstöðvarinnar á Skálum eru nú horfnar nema helst húsgrunnar og gamall grafreitur. Sunnan við Skála er Skálabjarg, fuglabjarg, rúmlega 130 m hátt.

IMG_0332

Ofan við fjöruna á Skálum eru björgunarskýli og kamar

Á skálum hittum við einn "lonely rider" á mótorhjóli, vinalegan íslending á sjötugs aldri, sem sagði okkur að hann hefði verið hjá gæslunni árið 1969 og hefði þá tekið þátt í að ferja girðingastaura klofna úr rekaviði úr fjörunni í Skoruvík. Þetta hefði verið mikið ævintýri því gúmmíbátnum sem notaður var til flutninganna út í varðskipið hefði hvolft og höfðu þeir þurft að synda í land áður en þeir hefðu getað haldið áfram að koma rekanum fyrir Skoruvíkurbóndann um borð í Þór. Það var sama sagan með þennan fyrrverandi sjóliða Landhelgisgæslunnar og okkur, hann hafði ekki treyst sér til að keyra í gegnum keðju valdstjórnarinnar við Gunnólfsvíkurfjall til að njóta útsýnisins yfir Langanes.

IMG_0261

Eins og ævinlega urðum við Matthildur dagþrota á Langanesi enda kannski ekki skrýtið þegar daginn er tekið að stytta. Það verður því að bíða betri tíma að keyra upp á Heiðarfjall þar sem Ameríski herinn hafði aðsetur um árabil, en þar má víst njóta góðs útsýnis yfir Langanes þó að ekki sé það jafn hástemmt og af Gunnólfsvíkurfjalli.

 

IMG_0324

 

IMG_0243

 

IMG_0237

 

IMG_0348

 

IMG_0191

 

IMG_0227

 

IMG_0169

 

IMG_0230

 

IMG_0258


Sannleikurinn um lygina


Hvað með Hróarstungu?

Hvort Hróar Tungugoði hafi átt víkingasverðið og lærbeinið sem gæsaskyttur fundu að Ytri Ásum er ekki gott að vita. En það eru til fleiri kenningar um hvar goðorð Hróars Tungugoða hafi verið og ef eitthvað er til í þeim þá fluttist Hróar alla leið austur á Fljótsdalshérað.

Í Lesbók Morgunnblaðsins 13. ágúst 1994 má lesa eftirfarandi grein eftir Sigurð Sigurmundsson; 

"Í Landnámu segir, að Uni son Garðars Svavarssonar, þess er fyrst fann Ísland, hafi farið þangað með ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs og var hún með barni um vorið. Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaptafellssýslu. En lok málsgreinarinnar eru þessi: "Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði. Hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti Arngunni dóttur Hámundar systur Gunnars á Hlíðarenda. Þeirra son var Hámundur hinn halti er var enn mesti vígamaður." Sagt er að til hafi verið sjálfstæð saga Hróars Tungugoða sem glötuð sé. Frá henni muni þessar frásagnir vera runnar og Sturla Þórðarson styðjist við hana í Landnámugerð sinni. Hann virðist ætla að Hróar og Arngunnur Hámundardóttir hafi búið í Skógahverfi syðra, en getur aðeins Hámundar halta sem vígamanns, nefnir ekki bústað hans.

Þá er næst, til samanburðar, að geta þess hvað Njála hefur til þessara mála að leggja. Fræðimenn telja fullvíst að Njála sé óháð Landnámu enda ættartölur hennar aðrar. Höfundurinn hefur þá heldur ekki þekkt hina glötuðu sögu Hróras Tungugoða og frásögn Landnámu af hrakningi Una suður í Skaptafellsþing og búsetu Hróars þar. Í 19. kapitula Njálu er Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda fyrst kynntur og ættfærður. Síðan kemur eftirfarandi málsgrein: "Arngunnur hét systir Gunnars; hana átti Hróar Tungugoði sonur Una eins óborna Garðarssonar; sá fann Ísland. Son Arngunnar var Hámundur halti er bjó á Hámundarstöðum."

Þá er að huga að því hvernig hugur Njáluhöfundar var að verki er hann samdi þessa málsgrein. Það er ekki að sjá að hann viti annað um Hróar en nafn hans og hjónaband þeirra Arngunnar og soninn Hámund halta, sem Njála telur búa á Hámundarstöðum. Að lokinni þessari málsgrein fer vart á milli mála hvar hugur Njáluhöfundar dvelur. Hann virðist þekkja bæjarnafnið Hámundarstaði svo vel, að hann gleymir að taka fram að þeir séu í Vopnafirði. Höfundur Fljótsdælu nefnir og Hróar Tungugoða sem búið hafi á Hofi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði og hún dregið nafn af honum. Þar sem Njáluhöfundur hefur engar spurnir af öðrum Hróari má nærri víst telja að hann álíti að Arngunnur Hámundardóttir hafi verið gift honum og þau búið á Hofi í Hróarstungu. Höfundur Fljótsdælu segir Hróar barnlausan, en þar ber þeim ekki saman þar sem hinn (Njáluhöfundur) segir Hámund halta á Hámundarstöðum son þeirra. En tveir synir hans koma síðar fram í Njálu í liði Flosa eftir Njálsbrennu, Hróar Hámundarson og Vébrandur, en ekkert segir af heimkynnum þeirra. Þeir gátu verið norðan úr Vopnafirði. Komið hefur fram sú skoðun, að þessi Hróar Tungugoði hafi aldrei verið til, bær hans Hof, ekki fundist, en þjóni vissu hlutverki í Fljótsdælasögu sem skáldverki. En Njáluhöfundur má hafa vitað betur. Gagnmerkur fræðimaður, Halldór heitinn Pétursson, upprunninn úr Hróarstungu, lét sér ekki lynda að þessi Hróar hafi aldrei verið til, en setur fram þá skoðun sem hér fer á eftir: "Hér bendir ekkert til þess að Hróar hafi komið sunnan úr Skaptártungu. Hitt sýnist mér liggja beint fyrir að hér hafi kunnugur maður um vélt, því að dagleið er frá Hofi í Krossavík. Það hefur alltaf verið vefengt að Hof í Hróarstungu hafi verið til, en þar er ég á öðru máli. Skulum við nú snúa okkur að hinum týnda stað og freista þess að leita Hofs í Hróarstungu. Það skal fyrst hafa í huga, að yfirleitt voru ekki Hofsnöfnin lögð niður með kristni, en slíkt gat átt sér forsendur ef Hofsbær var færður úr stað. Milli Gunnhildargerðis og Kirkjubæjar í Hróarstungu heitir Fornistaður og stendur á samnefndum ás. Þarna eru geysimiklar rústir sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Fleirum en mér mun finnast nafnið "Fornistaður", búa yfir einhverju ósögðu, hér hljóti að búa einhver saga á bakvið."

Halldór Pétursson var sannfærður um að Austfirðingur hafi skrifað Njálu. Hann gerði merkar staðfræðilegar athuganir þeirri skoðun til styrktar. Niðurstöður þeirra athugana, sem hér hafa verið fram bornar, verða því sem hér segir: Njáluhöfundur sem best þekkti til á Austurlandi (að líkindum upprunninn frá Valþjófsstað) virðist telja að Arngunnur Hámundardóttir hafi gifst Hróari Tungugoða á Fljótsdalshéraði og Hámundur halti búið á Hámundarstöðum sem áður getur. Virðist ekkert mæla á móti því að svo hafi verið."

Greinina má lesa í heild sinni hér.


mbl.is Átti Hróar Tungugoði sverðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Völundarhús

Upp úr 1970 og árunum þar á eftir var komið fyrir fjölda húsa á öræfunum norðan Vatnajökuls. Þessi hús voru af sumum kölluð Völundarhús. Þetta hefur verið rifjað upp núna í sumar þegar ég fór í fyrsta skipti um þessi öræfi, en mörg þessara húsa og eftirmyndir þeirra standa enn út í auðninni ferðafólki til handa, nú sem fyrr til þess að þjóna kalli náttúrunnar.

IMG_9013

Völundarhús við Dreka, Snæfellið gnæfir yfir öræfunum hvítt í fjarska

Völundarhús, voru fyrstu húsin sem ég fékk greiðslu fyrir að taka þátt í að byggja. En allt frá bernskudögum hafði kofasmíði verið líf mitt og yndi. Því lá beinast við um 12 ára aldurinn að spyrjast fyrir um vinnu við húsbyggingar hjá Völundi Jóhannessyni, sem var yfirsmiður hjá Trésmiðju Kaupfélags Héraðsbúna. Við vorum nágrannar á Hæðinni undir Hömrunum á Egilsstöðum, þar sem Trésmiðja KHB var til húsa. Lóð sem lengi var óbyggð á móti íbúðarhúsi Völundar við Hjarðarhlíðina hafði verið helsti starfsvöllur okkar hæðarstráka við kofasmíði, svo hann þekkti til mín, auk þess eigum við saman ættir að rekja norður í Aðaldal hvort svo sem varð til þess að ég var strax ráðinn.

IMG_8952

Nýjasta gerð í Krepputungu, með nútíma þægindum

Fyrsta Völundarhúsið mun hafa verið byggt í kringum 1970 og er nú í Grágæsadal. Völundur sagði mér þegar ég heimsótti hann heim í dalinn í sumar, að yfirsmiður þess húss hafi verið Halldór heitinn Sigurðsson listasmiður og smíðakennari á Miðhúsum, aðstoðarsmiður var Eiríkur Þorbjarnarson húsasmiður á Egilsstöðum og Jónas heitinn Pétursson f.v. alþingismaður, síðar tilraunastjóri á Skriðuklaustri fékk að vera með vegna áhuga síns á framkvæmdinni; " svona sem sérlegur aðstoðarmaður, eða nokkurskonar handlangari. En þetta er náttúrulega bara kamar, sjáðu“. 

Það leynir sér samt ekki hvað Völundur er ánægður með "kamarinn", á því hvernig hann staðsetur hann í skrúðgarðinum sem hann hefur komið upp lengst inn á öræfum. Þegar Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson heimsóttu hann til að ná af honum tali í Ferðastiklum RUV kom vel fram hvernig hver og einn sem heimsækir garðinn verður að ganga hálfhring í kringum listaverk þeirra smiðanna og alþingismannsins, eins og má sjá hér í stiklunni Grasagarður í meira en 600 m hæð.

IMG_7779

Völundur við fyrsta húsið í garðinum í Grágæsadal 

Heimsóknin í sumar til Goðans í Grágæsadal bar upp á 19. júlí, en svo er Völundur stundum nefndur og jafnframt talinn vörslumaður hálendisins og var hann heiðraður á degi íslenskrar náttúru árið 2015. Þann 19. júlí er ævinlega flaggað í hálfa stöng í dalnum. Völundur sagði að svo væri vegna þess að þann dag árið 2002 hefðu stjórnvöld skrifað undir viljayfirlýsingu við Alcoa vegna byggingar álvers í Reyðarfirði og þá ljóst orðið að til yrði Hálslón þar sem hluta víðernanna norðan Vatnajökuls yrði sökkt. Einhverjir sveitastjórnarmenn á Austurlandi hvöttu til þess opinberlega, að austfirðingar flögguðu þennan dag til að fagna tímamótum í austfirskri atvinnuuppbyggingu.

Aftur á móti flögguðu unnendur víðernanna þann dag í hálfa stöng, við Skála ferðafélaganna og hvar sem því var við komið á hálendinu. Einn landvörður, sem flaggaði þá í hálfa stöng var kostaður af ríkinu, og varð hann snarlega atvinnulaus. Völundur fór árið eftir með flaggstöng og gaf nýjum landverði ríkisins hana, en sagði honum jafnframt að hann yrði bara að passa sig á því að taka frí í vinnunni rétt á meðan hann flaggaði. Síðan þá hefur verið flaggað í hálfa stöng þann 19. júlí ár hvert í Grágæsadal, þó svo að sá siður sé nú aflagður í öðrum fánastöngum hálendisins norðan Vatnajökuls.

IMG_7787

Í Grágæsadal leynir sér ekki hvaða húsgerð hefur átt hug og hjarta Völundar

Ég hef alla tíð búið að því að hafa fengið vinnu hjá Völundi 12 ára gamall og vinna undir hans stjórn hvert sumar til 17 ára aldurs eða þangað til að steypan heltók hugann. Vinnan já Völundi var reyndar mest við mun stærri byggingar en Völundarhúsin því á þessum árum voru sumar stærstu steinsteyptu byggingar KHB reistar af starfsmönnum Trésmiðju kaupfélagsins undir styrkri stjórn Völundar. Er mér það til efa að í annan tíma hafi eins stórt hlutfall ungra drengja fengið vinnu við eins mikil mannvirki, þá voru oft ekki margir fullorðnir í drengjahópnum, stundum Hermann Eiríksson smiður og Reynir Kjerúlf þeir einu sem komnir voru af táningsaldri. Þegar kom að viðhaldi mannvirkja KHB í seinni tíð s.s. sláturhúss, bakarís og mjólkurstöðvar leitaði Völundur til okkar Djúpavogs drengja með að klæða veggi og gólf með epoxy steypu.

En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar. Og sem dæmi get ég nefnt að þegar nýja mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".

IMG_0147

Þetta kvenna og karla náðhús var lengi við Hafnarhólmann á Borgarfirði eystri, sennilega hafa Borgfirðingar sjálfir séð um smíðina en það leynir sér ekki hvert andagiftin við hönnunina hefur verið sótt 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband