18.3.2017 | 21:40
Sjö sinnum það sagt er mér
Þær fréttir sem ítrekað berast af húsnæðisvanda fólks eru þyngri en tárum taki. Meir að segja hefur þingkona nýlega lýst ráðaleysi við að komast undir eigið þak þrátt fyrir að hafa hátt í eina og hálfa milljón á mánuði.
Hvernig fólk fór að því áður fyrr við að koma þaki yfir höfuðið virðist ekki eiga við nú á dögum. Reglugerðafargan nútímans, með öllum sínum kostnaði og kröfum, virðist vera komið á það stig að ekki er neinum meðal Jóni mögulegt að byggja.
Leiði þeirra Möðrudalshjóna, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen og Stefáns Jónsonar
Tilefni þessara vangaveltna eru að í sumar sem leið var sýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, um þúsundþjala smiðinn Jón Stefánsson í Möðrudal. Jón í Möðrudal var engin meðal Jón og vílaði fátt fyrir sér.
Ég hafði hugsað mér að gera þessari áhugaverðu sýningu skil hérna á síðunni, en finn ekkert af því efni sem ég var búin að viða að mér og hef þar að auki glatað flest öllum myndum frá sumrinu 2016 í tölvuóhappi.
Því verð ég að gera þessari merkilegu sýningu öðruvísi skil en ég hafði hugsað mér og er þá efst í huga kirkjan sem hann byggði í Möðrudal. Því það vafðist vel að merkja ekki fyrir Jóni að koma sér upp kirkju, frekar en þaki yfir höfuðið. Kirkjuna byggði hann með eigin höndum fyrir eigin reikning.
Ég rakst á skemmtilegt viðtal við Jón á youtube þar sem hann lýsir því fyrir Stefáni Jónssyni fréttamanni hvernig og hvers vegna hann byggði kirkjuna. Jón var einnig listamaður og málaði altaristöfluna sjálfur auk þess að smíða rammann utan um hana. Hann fékk svo biskupinn til að vígja kirkjuna.
Í þessu örstutta viðtali lýsir Jón þessu auk þess að syngja ljóð og lag um Hallgrím Pétursson. Seinni hluti viðtalsins er við annan höfðingja austanlands sem vandar ekki hagfræðingum kveðjurnar og gæti umræðuefnið eins haf verið í dag og fyrir tæpum 60 árum.
Ps. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvað listamenn dagsins í dag gera með söng Jóns í Möðrudal þá má smella á þetta remix hér.
Hús og híbýli | Breytt 19.3.2017 kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2017 | 19:19
Hrævareldar
Eru hrævareldar sem loga um nætur villuljós, sem eiga sér enga samsvörun í upplýstum heimi nútímans og eiga þar með það sameiginlegt með álfum og huldufólki þjóðtrúarinnar að hafa horfið af sjónarsviðinu þegar raflýsingin hélt innreið sína?
Eða eru hrævareldar kannski til? og gæti þá líka verið að það mætti sjá álfa við rétt skilyrði?
Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna lesturs bókar Halldórs Pálssonar um Knútsbyl, sem gekk yfir Austurland 7. janúar 1886, en þar er að finna þessa frásögn frá Ósi í Breiðdal; Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hrævarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.
Þarna er sagt þannig frá hrævareldum, líkt og þeir ættu að vera hverju mannsbarni þekktir ekki síður en norðurljósin, sem hafa heillað ljósmyndara nú á tímum. Þegar ég las frásögnina hugsaði ég með mér "já, það er mýri þarna fyrir innan fjárborgina" en í votlendi grunaði mig að gæti verið von hrævarelda, þó svo að ég hafi þá aldrei séð og þekki engan sem það hefur gert, og viti varla hvernig þessari hugmynd skaut niður í kollinn. En eitthvað truflaði hugmyndina um mýrarljósið, því Knútsbylur var fárviðri og því ekki líklegt að logi lifði í þeim veðraham, hvað þá að Jón hafi séð frá sér á móti dimmviðrinu. Því fór ég að grennslast fyrir um eðli Hrævarelda sem þjótrú fyrri alda er full af frásögnum af, en fáir virðast hafa séð nú á tímum.
Kleifarrétt, þar sem Jón gætti fjárins niður við sjó í Knútsbyl, skarð hefur verið gert fyrir þjóðveginn í gegnum klettinn
Strax í fornsögunum er hrævarelda getið. Í Grettissögu segir frá því þegar Grettir kom til Háramarsey á Suður Mæri í Noregi og sá elda á haug Kárs gamla og gekk í hauginn, rændi gulli Kárs og afhöfðaði draug hans með sverðinu Jökulnaut. Gullið færði Grettir syni Kárs, Þorfinni bónda á Háramarsey. Samkvæmt frásögninni má ætla að það hafi verið hrævareldar eða mýrarljós, sem loguðu á haug Kárs og vísaði Grettri á grafhauginn. Því í vísu um þennan gjörning talar hann um "Fáfnis mýri" eftir að hafa áður haft á orði að "margt er smátt það er til ber á síðkveldum".
Þjóðsaga segir að sjá hafi mátt bjarma frá landi við Djúpavog, sem loga átti á haug Melsander Raben úti í Papey. En engin vissi fyrir víst hvar Melsander hafði borið beinin né hvað af auðæfum hans varð, því hvoru tveggja hvarf vofaginlega þar úti í eynni. Samt grunar mönnum að gull Melsanders kunni að vera grafið undir kirkjugólfinu. Þessi hrævarelda bjarmi sem menn töldu sig áður fyrr verða vara við út í Papey gætu því verið af sama toga og greint er frá í öllum þeim þjóðsögum, sem til eru um gull á álagablettum en þegar reynt var að grafa það upp þá sýndist kirkjan loga.
Eftir að hrævareldar hafa komið við sögu í þjóðtrúnni í þúsund ár, viðurkenna vísindi nútímans að stundum sé nokkur sannleikskorn í alþýðutrúnni. Samkvæmt Vísindavef Háskólans er skýringin á fyrirbærinu; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli".
Þó verður það að teljast undarlegt að um leið og vísindavefurinn viðurkennir hrævarelda sem eðlilegan bruna metangass, þá er þetta einnig tekið fram; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau". Það undarlega er að ef gengið er að metangasloga úr prímus, þá færist hann ekki undan. Það má því segja að vísindin komist að svipaðri niðurstöðu og þjóðtrúin gerði, þ.e. að hrævareldar geti leitt menn út í kviksyndi eða aðra villu vegar.
Í athyglisverðri grein Ólafs Hanssonar í Mánudagsblaðinu 5. október 1959 segir; "Oft eru hrævareldar settir í samband við haugaelda og þeir taldir loga yfir gröfum, þar sem gull er fólgið. Stundum loga þeir á leiðum, þó að ekkert gull eða fé sé þar. Þetta mun ekki vera eintóm hjátrú, það er talin staðreynd, að hrævareldar sjáist mjög oft í kirkjugörðum, og mun rotnun líkanna valda þeim með einhverjum hætti. Það er ekki að furða, þótt þetta fyrirbæri í reit hinna dauðu hafi komið margvíslegri hjátrú af stað. Sú skoðun er talsvert algeng, að eldarnir séu sálir framliðinna. Einna almennust er sú skoðun, að hér séu á ferðinni sálir sjálfsmorðingja, sem séu á sífelldu reiki og finni engan frið. Líka þekkist sú trú, að hér séu andar manna, sem hafi látizt af slysförum, og reiki æ síðan um í námunda við slysstaðinn. Sú trú, að slíkir andar séu á sveimi í námd við slysstaði er mjög algeng á Íslandi".
Gamla fjárborgin á Ósi hægra megin við þjóðveg 1, mýrin vinstra megin
Samt sem áður getur þetta varla verið skýringin á þeim hrævareldum sem getið er um að Jón hafi séð við fjárborgina á Ósi í Knútsbyl, þó svo mýrin sé nálæg, því varla hafa verið veðurskilyrði fyrir slíkan loga í því aftaka veðri sem talið er hafa farið yfir með fellibylsstyrk.
Á heimasíðu Veðurstofunnar segir frá hrævareldum af öðrum toga, þeim sem fylgja veðrabrigðum s.s. eldingarveðri. Þar er lýsing þriggja manneskja sem telja sig hafa upplifað hrævarelda á Eiríksjökli 20 ágúst 2011, þó svo engin hafi verið þar eldurinn. Þar segir m.a.; "Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós (will-o´-the-wisp á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri". Frásögnin á Eiríksjökli segir af hagléli og réttum viðbrögðum við eldingahættu, þegar umhverfið er orðið það rafmagnað að hárin rísa. Þessi réttu viðbrögð stemma við þau ráð sem gefin voru í þjóðtrúnni, sem sagði að ekki mætti benda á eða berja hrævarloga því þá gætu þeir ráðist á menn og brennt og ef reynt væri að slökkva hrævareld af vopni dytti maður dauður niður.
Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1772 er lýsingu úr Kjósarsýslu þar sem segir: "Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helst verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum".
Líklegast er því að hræfareldarnir sem Jón Einarsson frá Ósi sá við fjárborgina í Knútsbyl hafi stafað af völdum rafmagnaðra veðurskilyrða, svipaðra og greint er frá á síðu Veðurstofunnar að fólkið á Eiríksjökli hafi upplifað sumarið 2011. Líklega hafi þetta því verið sú tegund hrævarelda sem getið er í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, og sagt er þar að menn kalli snæljós. En greinilegt er að hrævareldar hafa verið fólki mun kunnuglegra fyrirbæri hér áður fyrr en þeir eru nú til dags. Og virðast vísindin ekki skýra til fulls þá tegund hrævarelda sem stundum voru kallaðir mýrarljós eða haugeldar.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 19.3.2017 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2017 | 18:53
Vandamálið er verkfræðin og veðráttan
Það er gott til þess að vita að verkfræðistofurnar eru farnar að gera sér mat úr myglu og vonandi á verkfræðin eftir að gangast þar við ábyrgð.
Það er margt til í máli Ríkharðs Kristjánssonar þó svo að full mikil einföldun sé að einskorða vandamálið við hinn "íslenska útvegg". Myglu má reyndar finna í flestum húsum enda væri rétt fyrir íbúana að forða sér út ef engin mygla lifði af í gerilsneyddu húsi, því þá væri eins víst að næst væri komið að þeim sjálfum.
En höfuð vandinn varðandi myglu er að ekki eru viðhafðar byggingaraðferðir sem hæfa íslenskri veðráttu, sem er eins og flestir þekkja umhleypingarsöm og vot. Því er rétt að hús hafi góða veðurkápu alveg eins og mannfólkið og það er rétt að betra er að einangra steinsteypta veggi að utan. Þetta hefur verið þekkt í áratugi þó svo hönnuðir og verkfræðingar hafi oft kosið að líta fram hjá þessum staðreyndum.
Síðan er rétt að geta þess að mygla hefur margfaldast sem vandamál eftir að farið var að nota pappaklætt gifs bæði við að klæða útveggi að innanverðu og í milliveggi. Þessir veggir eru oftar en ekki með tvöföldu gifsi og ef kemst raki í pappann á milli gifslaga þá verður þar mögnuð mygla sem er ósýnileg, en getur valdið fólki ama, jafnvel heilsutjóni án þess að orsökin verði sýnileg.
Rétt eins og með torfbæina, sem þjónuðu íslendingum í þúsund ár, þá leikur veðráttan og umgengni íbúanna aðalhlutverkið varðandi heilnæmi húsa. Torfbærinn gat enst vel í 50-100 ár inn til landsins norðan heiða á meðan vætan og umhleypingarnar við ströndina syðra gerðu það að verkum að endingin var styttri og myglan meiri.
Í nútímanum hefur verkfræðin síðan átt sinn þátt í myglu með svipuðum hætti og umhleypingasöm veðráttan, sem sjá má á sögu flatra þaka á Íslandi. Þau skjóta upp kollinum með vissu millibili, að því að virðist vegna þess eins að sigldum hönnuðum finnst fallegt eyðimörkinni, því ekki er góðri reynslu fyrir að fara af flötum þökum í íslenskri veðráttu.
Það má segja að Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrverandi menntamálaráðherra hafi hitt naglann á höfuðið varðandi íslenskar byggingaraðferðir þegar hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka".
![]() |
Vandamálið er hinn íslenski útveggur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2017 | 19:07
Knútsbylur
Það hefur verið vetrarveður núna síðustu dagana eftir einstaklega hlýjan og snjóléttan vetur. Meir að segja komst ég í þá aðstöðu að vera fastur í skafli á Vatnsskarði s.l. þriðjudag. Það hvessir hressilega á Vatnsskarði og hefur vindmælir vegagerðarinnar þar ósjaldan fokið, þannig að ekki er ólíklegt að þar hafi verið slegin vindmet.
Þó áður fyrr hafi ekki verið óvanalegt að leiðin til Borgarfjarðar-eystri væri lokuð vegna snjóa á þessum árstíma er nú svo komið að erlendir ferðamenn bruna í alla skafla á smábílunum og því er reynt að halda opnu flesta daga vikunnar. Enda leið ekki löng stund þar til að ég hafði félagskap ungs Japansks pars.
Alveg símasambandslaust var í skaflinum, sem betur fer kom eftir stutta stund vel bílandi innfæddur Borgfirðingur en ekki vildi betur til en að þegar hann ætlaði að snúa á veginum bakkaði hann ofaní ræsi, þannig að bílarnir voru þá orðnir þrír fastir tvist og bast í blindunni. Sá innfæddi vissi um blett um það bil 1 km neðar í fjallinu þar sem hægt var að ná símasambandi og fór þangað og hringdi í björgunarsveitina sem kom svo til að bjarga málum.
En ekki var nú meiningin að segja frá svona smá skafrenningi á fjallvegi heldur frá sjálfum Knútsbyl, um það mannskaðaveður las ég í blíðviðrinu í vetur, kannski ekki laust við að maður væri farin að sakna vetrarins sem nú virðist loksins kominn í venjulegan gír.
"Skaðaveðrið 7. janúar 1886 var kennt við almanaksnafn dagsins og kallað Knútsbylur. Veðrið gekk mest yfir Múlasýslur og Austur-Skaftafellssýslu. Það skall á snemma dags á milli miðmorguns og hádegis svo snöggt sem kólfi væri skotið. Víðast hvar var búið að reka fé til beitar, en stöku menn voru svo veðurglöggir eða höfðu þann veðurugg, að þeir ráku ekki fé frá húsi. Hvergi varð fé, sem út hafði verið látið náð í hús um daginn. Næsta dag var upprof en frosthelja. Náðist þá megin hluti fjárins hrakið og úr fönn dregið, en víðast fórst til dauðs fleira og færra. Sumstaðar hraktist fé í vötn og sjó. Þannig hrakti flesta sauðina í Hrafnsgerði í Lagarfljót og í Fjörðum sumstaðar rak fé undan veðrinu í sjó.
Mikill mannskaði og margskonar annar skaði varð í þessu veðri. Sex menn urðu úti, þrír á Fljótsdalshéraði, tveir í Reyðarfirði og einn í Breiðdal. Bátur fórst frá Nesi í Norðfirði með 4 mönnum og annar í Reyðarfirði með 5 mönnum norskum. Þrjár skútur rak á land í Seyðisfirði og brotnuðu tvær þeirra mikið. Þök rauf af húsum víða og mörg urðu fleiri smærri tjón. Mikið tjón á sauðfé varð í Knútsbyl í Austur-Skaftafellssýslu. Á þremur bæjum rak allt sauðfé í sjó og hross sumstaðar. Kirkjan fauk á Kálfafellstað og þök af húsum víða."
Þetta má lesa í Austurland III bind um bylinn sem kenndur er við Knút hertoga. Um þetta óveður hefur einnig verið skrifuð heil bók sem nefnist Knútsbylur og hefur Halldór Pálsson þar tekið saman frásagnir eftir fólki á Austurlandi sem mundi eða hafði heyrt talað um þetta veður. Þar segir að bylurinn hafi verið líkari fellibyl en aðrir byljir vegna mikils vindstriks. Lítillega hafði snjóað nóttina fyrir bylinn en logn var á undan honum, svo flestir settu út sauðfé til beitar, en þetta reyndist svikalogn því veðrið brast á í einni svipan með ægilegum vindstyrk snjókomu og frosti. Margar frásagnir greina frá því hve erfiðlega gekk að koma forystu fé úr húsum þennan morgunn og í sumum tilfellum mun veðurskyggni forustufjárins hafa komið í veg fyrir tjón. Eins er víða sagt frá veðurdyn sem heyrðist rétt á undan veðrinu þó svo lygnt væri og varð það einhverjum til bjargar.
Í Suðursveit var snjólaust þegar gekk í Knútsbyl en þar fauk m.a. kirkjan á Kálfafellstað, um eftirköstin segir: Eftir Knútsveðrið var jörð mjög illa farin. Allur jarðvegur var skafinn upp, og þar sem áður voru fallegir víðirunnar, blasti við svart flag. Víða var jarðvegurinn í fleiri ár að ná sér eftir þetta áfall.
Í Breiðdal segir Sigurður Jónson sem var unglingur að Ósi m.a. svo frá eftir að hann reyndi að komast úr fjárhúsi örstutta leið heim í bæ þegar veðrið brast á: ...uns ég kom að bæjarhorninu sem ég þurfti að beygja fyrir til þess að komast að bæjardyrunum. Þá hrakti stormurinn mig frá veggnum, því út með norðurhlið bæjarþorpsins stóð stormurinn, og ég rann undan vindinum niður hlaðbrekkuna. Líklega hefði ég reynt að skríða upp bæjarbrekkuna og heim í bæjardyrnar, sem voru á norðurvegg bæjarþorpsins, en hvort það hefði tekist, er óvíst, því að áður en til þess kæmi, að ég reyndi það, var tekið í mig og ég leiddur heim í bæjardyrnar. Þetta gerði Gunnar Jósepsson húsbóndinn á bænum.
Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hræfarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.
Það var farið að daga þegar lagt var af stað að heiman og út með sjónum til að leita föður míns og fjárins. Þeir mæta föður mínum, þar sem heitir Ósleiti, á réttri leið heim til bæjar, en stirður var hann þá til gangs,mest vegna þess að klakahella svo mikil var fyrir andliti hans, að hann sá varla nema upp í himininn. Hann var maður alskeggjaður, svo að í skegginu og andlitinu fraus hríðarkófið sökum líkamshitans. Fram eftir nóttu braut hann af andlitinu svellhúðina, svo hann sæi frá sér, en svo fór andlitið að sárna undan sífelldu nuddi með frosnum vettlingum, svo hann varð að hætta að hreinsa af andlitinu klakann, en öndun hans hélt þó opnum götum, að hann sá nokkuð upp fyrir sig. Er klakinn var þíddur af andlitinu, kom í ljós að hann var blóðrisa, einkum á enninu, nefinu og kinnbeinunum.
Við þetta má bæta að trúmennska Einars við Ósféð var svo mikils metin að Guðmundur húsbóndi á Ósi gaf honum bestu kindina sína eftir þetta veður enda lifði allt féð sem var úti við Kleifarrétt.
Í Mýnesi í Eiðaþinghá á Héraði bjó í Knútsbyl Ólafur Magnússon ásamt Guðmundi tengdasyni sínum. Hjá Ólafi var þá Einar sonur hans, rösklega tvítugur að aldri. Hann hirti fé á beitarhúsum austur frá Mýnesi, hafði látið féð út þennan morgun, var komin heim aftur og var að hjálpa föður sínum við að taka til nauthey í hlöðu, þegar hríðin skall eins og reiðarþruma á þekjuna. Þreif hann vettlinga og hljóp út í fárviðrið lítt búinn og hugðist bjarga fénu í hús, en kom eigi aftur. Þegar veður tók að lægja, svo komist var í húsin, voru húsin tóm. Fannst Einar daginn eftir, helfrosinn skammt frá túninu í Mýnesi. Það heita Vallnaklettar, þar sem hann fannst. Ólafur Sigurðsson vinnumaður Sigfúsar Oddsonar á Fljótsbakka, fannst frosinn í hel á holtunum út af Mýnesi , niður af Skagagili, hann var sagður 36 ára.
Þessi húsgangssaga er frá Ketilstöðum á Völlum: Sigurður hét vinnumaður Sigurðar bónda Hallgrímssonar. Hann var að reka sauðina í haga upp til fjalls, er í bylinn gekk. Hann kom sauðunum í Beinárgilið stutt frá Flatarhúsunum. Þetta voru 100 sauðir. Hann stóð hjá sauðunum þann dag og næstu nótt og lét þá ekki fenna. Ekki er vitað um klæðnað hans, en ókalin komst hann heim. Fjármaður Gunnars Pálssonar, er hirti féð á Grundinni, hafði meðferðis tvo poka úr togbandi. Er bylinn gerði, var hann á milli fjárhúsa og bæjar, fer hann þá í annan pokann, en setur hinn yfir höfuð sér, lagðist síðan niður og lét fenna yfir sig. Þannig bjargaðist hann ómeiddur frá þessum voða byl.
Úr dagbók Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal: 7. Janúar 1886, norðan bráðófært veður, það allra hvassasta. Hann var bjartur fyrst um morgunninn, svo búið var að setja út féð í Hrafnsgerði, en veðrið kom á smalann, og hann missti féð úr höndum sér, og það hrakti í fljótið, en meðfram landi var krapi, sem það festist í, svo fraus að því um nóttina, og drapst 56 en 56 fannst hjarandi. 8. Janúar, norðan með kófi -14°C. Við vorum að bjarga því sem lifandi var af Hrafngerðis fénu, úr fljótinu og grafa það í fönn.
Frásögn Gísla Helgasonar í Skógargerði Fellum: Í Hrafnsgerði í Fellum voru sauðir heima á túni, og vildi smalinn reka þá allsnemma þennan morgun. Svartur forustusauður var í húsinu og fékkst ekki út. Hann hljóp kró úr kró. Þá vildi smalinn handsama sauðinn og draga út úr húsinu, en það tókst ekki, því að þá stökk Svartur upp í garðann og yfir hann; þó hann hefði aldrei verið garðakind. Varð úr þessu garðaleikur, sem sauðamaður tapaði. Þá tók hann það ráð að leita liðveislu hjá fjósamanni. Tókst þeim í félagi að handsama Svart og draga hann út. Síðan rak sauðamaður hópinn yfir Hrafngerðisána, og segja þó sumir, að þá væri veðrið að skella yfir, er hann hélt heimleiðis. Ekki þarf að orðlengja um það, að þessi hjörð týndist öll í Lagarfljótið, sem þá var að leggja, en engri skepnu fært.
Vissi ekki Svartur lengra fram en maðurinn?
Landsins-saga | Breytt 7.2.2023 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2017 | 19:01
Jarðálfarnir aftur komnir á kreik
Nú eru þeir sprottnir fram enn og aftur gömlu Geysir green energy heimsmetshafarnir í útrás og boða hvorki meira né minna en byltingu á heimsvísu.
Þeir eru ekki af baki dottnir jarðálfarnir sem véluðu hitaveituholurnar af almenningi eftir að bæjarstjórnirnar höfðu verið fábjánavæddar.
Hvað jarðálfarnir ætla svo að gera við heimsmetið er hulin ráðgata. Nema kannski að nýju viðreisn sé ætlað að veita ívilnanir fyrir hönd skattgreiðenda til að reisa fleiri kísilver í þéttbýli.
En það vefst nú varla fyrir Bjarna ice-hot, Þorgerði kúlu, Bensa frænda og sakleysingjanum henni Þórdísi að finna út úr því, ásamt hinum álfunum á alþingi.
![]() |
Gæti leitt til byltingar á heimsvísu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2017 | 23:26
Grasa-grautur
Í Landnámu er sagt frá Atla graut Þiðrandasyni sem nam austurströnd Lagarfljóts þ.e. frá Atlavík út undir Vallanes. Viðurnefnið grautur segir þjóðsagan að Atli hafi fengið vegna fjallagrasa sem hann sauð í graut eftir að hann hafði verið dæmdur skógarmaður, þ.e. 20 ára útlegð frá Íslandi, réttdræpur ella. Atli vildi ekki yfirgefa landnám sitt og leyndist í Hallormstaðaskógi og lifði á grösum og því sem bóndadóttirin á Hallormstað gaukaði að honum. Þjóðsögurnar greina víða frá því að íslenskir útilegumenn hafi lifað á fjallagösum. Það þarf reyndar ekki þjóðsögur til, því enn í dag eru margir sem tína fjallagrös sér til lífsnauðsynlegrar heilsubótar í seyðið eða grautinn.
Alla okkar búskapartíð höfum við Matthildur mín haft það fyrir sið að fara í berjamó, fyrst barnanna okkar vegna og núna í seinni tíð vegna barnsins í okkur sjálfum. Aðallega er tínt upp í sig og berin étin dag hvern á meðan berjatíminn er og getur hann staðið hátt í tvo mánuði. Ef vel viðrar fara því margir eftirmiðdagarnir út um þúfur ár hvert. Þau bláber sem ekki er torgað á berjatínslutímanum fara svo í frost og eru höfð út á hafragrautinn á morgnanna. Frosnu berin hafa enst stöku sinnum fram yfir áramót og er eftir það sárt saknað fram á næsta haust.
Því fórum við fyrir nokkru síðan að huga að fleiru sem hægt væri að hafa út úr því að fara út um þúfur sem mætti nota í grautinn. Fljótlega lá svarið ljóst fyrir og hafði legið fyrir fótum okkar alla tíð, en það voru fjallgrös. Fjallagrösin má auk þess tína allt árið og hafa þau núna síðustu árin gefið okkur ástæðu til að fara ýmsar fjallabaksleiðir þegar vel viðrar, því hvað er betra fyrir sálina en tína fjallgrös við svanasöng og sól í heiði. Nú er svo komið að þúfna gangurinn er orðinn að fíkn og móinn maulaður við morgunnverðarborðið svo til allt árið því byrgðir af frosnum bláberjum endast núorðið nánast allan veturinn og fjallagrösin má nálgast um leið og snjóa leysir.
Morgunngrauturinn hefur því þróast í tímans rás úr því að vera venjulegur hafragrautur með smá múslí og rúsínum saman við, í magnaðan grasa-graut með bláberjum og öðru gúmmelaði. Uppistaðan er auðvitað áfram gamli góði hafragrauturinn með ristuðum sesamfræja og hessleyhnetu múslí, en soðin með lúka af fjallgrösum og saltið í grautinn Himalaya. Út á þetta er svo sáldrað hampfræi, grófu kókosmjöli og hnetukurli. Auk þess að vera bragðgóður þá er þessi grasagrautur einstaklega seðjandi, maður finnur ekki til svengdar næstu 5-6 klukkutímana. En það var ekki fyrr en ég fór að kanna það á gúugúl að ég komst að því sem mig grunaði, að þessi grautur er meinhollur.
Rétt eins og á landnámsdögum Graut-Atla þá er á fjallagrösum nánast hægt að lifa enn þann dag í dag. Árið 1972 safnaði þjóðminjasafnið upplýsingum um notkun íslendinga á fjallagrösum í gegnum tíðina. Þau má nota til matar á margvíslegan hátt, auk þess sem þau hafa lækningarmátt og styrkja ónæmiskerfið. Í Læknablaðinu 4. tbl. 2000 er fróðleg grein um fjallagrös eftir Hallgerði Gísladóttur. Hún segir m.a.: "Íslendingar notuðu fjallagrös gríðarmikið á fyrri öldum til að drýgja naumt kornmeti í brauð og grauta. Auk þess voru þau mikill læknisdómur,,," og eru þau þannig notuð enn í dag, hér á landi og víðar. Sem dæmi þá hafa Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkt notkun fjallagrasa til að meðhöndla slímhúðarertingu í munni og hálsi, eins eru þau víða seld dýrum dómum í apótekum og heilsubúðum.
Nútímavísindi segja ýmislegt um gagnsemi fjallagrasa t.d. gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - eru slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur sem verða aumar og bólgnar vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann þegar það hafði ekkert annað til að borða.
Varðandi Bláber hefur það lengi verið þekkt að þau eru full af andoxunarefnum sem vinna á móti hrörnun líkamans og einnig hefur verið sýnt fram á með nútíma rannsóknum að bláber geta fyrirbyggt ristilkrabbamein. Bláber eru líka sögð holl hjartanu þar sem þau vinna á slæma kólesterólinu og þau gagnast einnig við þvagfærasýkingum. Bláberin eru einstaklega holl meltingunni þar sem þau bæði verka á niðurgang og harðlífi. Þau minnka einnig bólgur í meltingarvegi og vinna gegn bakteríusýkingum.
Salt er ekki bara salt því gott salt hefur fjölda steinefna sem eru holl líkamanum, en venjulegt borðsalt er í raun iðnaðarframleiðsla því sem næst gjörsneytt steinefnum. Himalaya salt hefur fjölmörg steinefni umfram hefðbundið borðsalt, sem hefur oft á tíðum verið hreinsað af steinefnum um leið og mengunarefni hafa verið aðskilin við vinnslu. Himalaya salt er margra milljóna ára gamlir bergkristallar, því hreint og ósnortið af nútíma mengun. Það inniheldur 84 steinefni sem eru líkamanum nauðsynleg. Himalayasaltið gengur undir nafninu "hvíta gullið" fyrir mannslíkamann.
Hafrar eru uppistaðan í grautnum, og um þá þarf ekki að hafa mörg orð, svo vel þekkja flestir til hafragautsins sem helst hefur haft það óorð á sér að vera tengdur við nánasarhátt og kenjar. Um hollustu hafra hefur aftur á móti enginn þurft að efast. Auk þess að vera lágir í kaloríum innhalda þeir mikið af trefjum og prótíni, eitthvað sem fer fram úr villtustu vonum þeirra sem versla inn dýrindis fæðubótarefni.
Ef dægurflugan hefur farið með rétt mál um árið þegar hún suðaði að það væri "þjóðlegasti siður að koma útsæðinu niður" þá má segja það að svona grautargerð sé hreinasta afdalamennska í sinni tærustu mynd.
Dægurmál | Breytt 29.1.2017 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2017 | 17:35
Missing Links
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2017 | 19:38
Lygin sem við lifum
Undanfarið hef ég verið að lesa bókina "Leitin af svarta víkingnum". Þetta er bók þar sem Bergsveinn Birgisson rithöfundur og norrænu fræðingur segir frá því hvernig hann fór að því að skrifa sögu Geirmundar heljarskinns. Eins leyndardómsfyllsta landnámsmanns Íslandssögunnar. Geirmundur var sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, "göfugastur landnámsmanna" samkvæmt Landnámu, og á að hafa riðið um sveitir Íslands með áttatíu vígamenn, átt mörg stórbú þar sem hann hélt mörg hundruð þræla. Lítið meira er til um hann í fornum heimildum, en Bergsveinn grófst fyrir eftir krókaleiðum um hver maðurinn var og ritaði sögu hans fyrir nokkrum árum sem kom upphaflega út 2013 á norsku undir heitinu "Den svarte viking", en árið 2015 á íslensku sem "Saga Geirmundar heljaskinns".
Án þess að ég ætli að tíunda frekar hér hvers Bergsveinn varð áskynja um Geirmund, þá má segja í stuttu máli að þrælaveldi Geirmundar við norðanverðan Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Hornströndum var tilkomið vegna rostunga. En tó úr rostungaskinni og lýsið þótti í þá tíð nauðsynleg heimsmarkaðsvara til gerðar og viðhalds víkingaskipa. En það sem mér þótti ekki minna athyglivert var hvernig höfundurinn lýsti þrælahaldi á upphafstímum Íslandsbyggðar og hvernig það má sjá óslitin þráð allt til okkar daga. Það má segja að þrælahaldið hafi gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. mansal, vistarband, verðtrygging, mismunandi eftir því hvort þrælahöfðinginn sá um fæði og húsnæði í skiptum fyrir vinnuframlag.
Bergsveinn segist vera kominn í 30. lið af Geirmundi, reyndar setti ég sjálfan mig inní Íslendingabók og komst að því sama. En það sem ekki síður er merkilegt í bók Bergsveins er það sem hann segir frá sinni fjölskyldu sem bjó í landnámi Geirmundar s.s. af búsetu afa síns og ömmu í Hrappsey á Breiðafirði.
"Hér bjó móðurfjölskylda mín frá 1940-1945; foreldrar móður minnar, Magnús og Aðalheiður með börnin sín tíu; þau urðu þrettán í allt. Fjölskyldan hefur einatt verið fámál um árin í Hrappsey og smásaman hefur mér orðið ljóst hversvegna. Einar einn móðurbræðra minna, sagði síðar ef ekki hefði verið fyrir byssu afa míns, hefðu þau haft lítið sem ekkert að borða. Leigan fyrir að búa í Hrappsey var nefnilega 24 kg af hreinsuðum æðardún sem var nákvæmlega það sem eyjan gaf af sér. Á tilteknum tíma árlega átti að afhenda dúninn Magnúsi á Staðarfelli, en hann var forsvarsmaður Háskóla Íslands, sem þá var orðinn eigandi þessa eggvers. Eitt árið náðu þau ekki að safna 24 kílóum. Ekki fóru menn í mál við þau af þessum sökum, en af heimildum að dæma lá þeim við refsingu. Afi fór margsinnis í land og reyndi að semja um að fá leiguna lækkaða en allt kom fyrir ekki.,,,Afi og amma voru því tekjulaus á meðan þau bjuggu í Hrappsey. Allt vinnuframlag þeirra gekk upp í leigukostnað."
Í bók Bergsveins kemur fram að á dögum Geirmundar heljarskinns voru dæmi þess að þrælar við Breiðafjörð hefðu keypt sér lausn með þriggja ára launum af vinnu sem þeim til féll samhliða þrældómnum. "Afi Magnús hefði hefði hinsvegar aldrei náð að kaupa sér lausn frá Hrappsey ef hann hefði verið þræll þar".
Hvers vegna erum við í fangelsi þegar dyrnar standa galopnar?
Flestir kannast við það að þegar þeir eru í fríi þá líður tíminn hratt og eyðslan miðar að því að peningarnir endist út fríið, svo framarlega sem "draumaferð í krúser" um karabíska hafið hefur ekki verið valin. Oftast er tilhlökkunin fyrir næsta fríi og hugsanir skjóta upp kollinum á fyrstu vinnudögum eftir frí "þarf þetta að vera svona". Nú á dögum þegar það er til of mikið af öllu má segja að það sem helsta vantar sé lítið.
Það eru nokkur ár síðan að ég neyddist til að fara víking til Noregs, í þriggja ára útlegð, þar sem hver einasta króna útilegunnar gekk upp í skuld við bankann, "heljarskinns" okkar tíma. Þessi skuld var ekki beint tilkomin vegna húsnæðis heldur vegna tímabundinnar persónulegrar ábyrgðar í atvinnurekstri á byggingastarfsemi, starfsemi sem hvarf í hruninu. Í Noregi eignaðist ég samt annað verðmætara en peningana sem bankinn fékk, en það var skilningurinn á því í hverju verðmæti eru fólgin, eða á frelsinu með því að ráða eigin tíma.
Þá staðfestist sú vissa að hægt væri að lifa ágætu lífi af mun minni vinnu og því sem nemur lægri tekjum, meir að segja heima á Íslandi. En umhverfið er yfirleitt þannig að maður vinnur 40 tíma vinnuviku eða hefur ekki vinnu. Atvinnurekendur, viðskiptavinir og vinnufélagar eru venjulega í þéttsetinni 40 tíma-plús vinnuviku rútínu, svo það er varla raunhæft að biðja um að hafa frið eftir hádegi, jafnvel þó hægt væri að sannfæra sjálfan sig og vinnuveitandann.
Fyrir rúmum tveimur árum hafði ég fært þetta oftar en einu sinni í tal við vinnufélagana en fengið dræmar undirtektir um að þetta gengi upp í samvinnu við aðra. Svo gerðist það um svipað leiti, að heilsan bilaði og ég var tilneyddur til að slá af og virtist sem það myndi verða varanlega. En vinnuveitandinn bauð mér að vera áfram á þann hátt sem ég vildi og gæti. Í ljós kom að heilsunni hæfir ca. 4 tíma vinnudagur. Ég hef því fengið tækifærið á því að sannreyna kenninguna.
Hefðbundinn átta tíma vinnudag má rekja til iðnbyltingarinnar í Bretlandi á 19. öld. En tækni og aðferðir hafa þróast þannig að starfsmenn í öllum atvinnugreinum eru færir um að framleiða meira en þörf er fyrir á styttri tíma. Þetta hefur vissulega leitt til til styttri vinnudaga en var á tímum iðnbyltingarinnar þegar þeir voru jafnvel 14-16 tímar, en samt ekki stillt vinnutíma fyrir þarfir einstaklingsins.
Það er vegna þess að 8 klst vinnudagar eru arðbærir fyrir hagkerfið, ekki vegna þess að afköst í átta tíma séu endilega hagkvæmust þannig (meðaltals skrifstofumaðurinn fær minna en 3 tíma verkefni á 8 tíma vinnudegi og því fer mikið af vinnudegi hans í að láta tímann líða). Ef Þú hefur heyrt um Parkinsons lögmálið þá veistu að; því meiri tími sem hefur verið gefinn til að koma einhverju í verk, því meiri tíma mun það taka. Það er ótrúlegt hverju er hægt að koma í verk á tuttugu mínútum ef aðeins tuttugu mínútur er í boði. En ef þú hefur heilt síðdegi, myndi það líklega taka það sem því nemur. Þetta sama lögmál var útskýrt í stuttu máli á þá leið að hægt væri að setja á stofn 500 manna vinnustað án þess að það þyrfti nokkhverntíma að leita að verkefnum útfyrir hann, vinnustaðurinn yrði sjálfbær hvað verkefni varðaði.
Vegna þess hvað það gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti vinnustaða tæknisamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á sjónvarpið, og auglýsingar af því sem er sagt að því vanti.
Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað skorta.
Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa eyðslu. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa dót sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma. Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa.
Vandamál, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, eru tilkomin vegna kostnaðarirns við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst því ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.
Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera það kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við fylgjum í þessum heimi. Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt.
Þrælaveldi Geirmundar heljarskinns leið undir lok þegar rostungum hafði verið gjöreytt úr landnáminu, þá fóru sögur af þrælum sem teknir voru fyrir suðaþjófnað. Fer eins fyrir þrælum hagvaxtarins, missa þeir máltíðir þrælahöfðingjans þegar kemur að því að peningar eru allt?
Dægurmál | Breytt 17.3.2017 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2016 | 10:27
Þú vissir af fiylgifiskum hátíðanna - You've Felt It Your Entire Life
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2016 | 18:42
Hér er enginn guð
Í gegnum tíðina hafa fjöllin fangað hugann, augun og fjarlægðin gert þau blá. Eitt af þeim fjöllum sem þetta á við frá því að ég fór að muna eftir er Skagafellið sem klýfur Fagradal, þar sem þjóðvegurinn liggur frá Héraði til Reyðarfjarðar, frá því sem kallað var inn í Dölum af Eiðaþinghármönnum. En nefndist Eyvindardalur í fornsögum, og er kallaður Eyvindarárdalur í dag þó þar séu dalir inn af dal. Einu nafni hafa þessir dalir á stundum verið kallaðir Reyðarfjarðardalir þó svo þeir séu í efra en ekki í neðra.
Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir, þá hef ég undanfarið haft áhuga á torfbæjum. Einn sá bær sem ég hef verið að snudda í kringum tóftirnar af eru Þuríðarstaðir sem mun hafa verið efsti bær í svokölluðum Eyvindardal. Ég hef nokkrum sinnum gert mér ferð þarna upp eftir enda ekki nema nokkurra mínútna akstur frá Egilsstöðum. Gallinn er bara sá þó svo að tætturnar séu mjög skírar í túninu þá eru Þuríðarstaðir nú æfingarsvæði skotveiðimanna. Því hef ég oftar en ekki þurft frá að hverfa enda er skotlínan í áttina að tóftunum, eða réttara sagt í bakkann þar sem þær standa. Það fór samt svo að fyrir rest tókst mér að skoða þær nokkuð vel, bæði á staðnum og með því að fljúga yfir á Google earth.
Meiningin var að reyna að gera mynd af bænum eftir frásögn sem ég hafði lesið. Þegar ég fór að leita eftir lýsingum af torfbæjum frá sama tíma rakst ég á aðra frásögn í Múlaþingi sem einmitt segir frá byggð í Eyvindarárdal, og viti menn þar er tilgátumynd af bænum á Þuríðarstöðum teiknuð af Páli Sigfússyni. Er ástæða til að ætla að hann hafi teiknað myndina eftir frásögn því Sigfús faðir hans bjó á næsta bæ, Dalhúsum 1928-1931. Þannig að þarna var ég komin með í kollinn ljóslifandi mynd af bænum þar sem ekki hefur verið búið síðan 1905, - með því að skoða tóftirnar og tilgátumynd Páls, sem passar við húsaskipan tóftanna, og lesa lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar frá vinnumanns ári sínu á Þuríðarstöðum. Hafði ég allt þetta þó svo bærinn hafi horfið ofan í svörðinn löngu fyrir mína tíð.
Í Múlaþings greininni er þremur efstu bæjunum í Eyvinarárdal gerð skil og því sem má finna í heimildum um fólkið þar, sérstaklega Þuríðarstöðum. En þessir bæir voru Dalhús, Kálfhóll og Þuríðarstaðir. Bærinn Kálfhóll var aðeins til um skamman tíma, en hann var byggður 1850 og fór í eiði 1864. Kálfhóll var byggður af Magnúsi Jónsyni f. 1802 og var hann uppalinn á Strönd og Kollstaðagerði en þar hafði faðir hans búið. Magnús var tvíkvæntur og það var með seinni konunni, Þuríði Árnadóttir frá Sævarenda í Loðmundafirði sem hann bjó á Kálfhól. Þau bjuggu þar með fjögur börn, tvö úr fyrra hjónabandi Magnúsar og tvö eigin, auk þess átti Þuríður dóttir sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem kemur við sögu á Þuríðarstöðum.
Eyvindarárdalur séður frá Egilsstaðahálsi, með Gagnheiði, Tungufelli, Skagafelli og Hnútu í baksýn. Bærinn Kálfhóll hefur staðið fyrir miðri mynd í skugganum af Gagnheiði
Vorið 1860 verður Magnús úti á Eskifjarðarheiði, pósturinn Níels Sigurðsson fann lík hans seinna um sumarið undir stórum steini með baggann á bakinu og skríðandi maðkinn út og inn um vitin. Þuríður býr á Kálfhól með börnum þeirra eftir það í eitt ár. Þegar að Rósa dóttir hennar og Gísla á Þuríðarstöðum er farin að búa á Nýabæ á Hólsfjöllum flytur hún til hennar og síðan með fjölskyldunni til Ameríku. Vorið 1861 flytja Bjarni Eyjólfsson og Eygerður Gísladóttir í Kálfhól og bjuggu þar til 1864 og lauk þar með 13-14 ára ábúð. Hvergi getur um í skráðum heimildum, og ekki í þjóðsögum, að búið hafi verið á Kálfhól í annan tíma, en húsin þar munu hafa verið notuð sem beitarhús frá Dalhúsum fram til 1945 þegar hætt var að búa á þeim bæ.
Talið er að búið hafi verið á Þuríðarstöðum af og til í gegnum aldirnar og er jafnframt talið að átt sé við Þuríðarstaði í Austfirðingasögum þó bærinn sé þar ekki nafngreindur. Þjóðsagan segir að fyrst til að búa á Þuríðarstöðum hafi verið Þuríður blákinn og hún hafi verið systir Gróu á Eyvindará. Ef þjóðsagan fer með rétt mál er allar líkur á að Þuríðarstaðir hafi þegar verið í ábúð fyrir árið 1000 og jafnvel frá landnámi. Skráðar heimildir s.s. annálar, kirkju- og dómabækur virðast þó ekki hafa að geyma jafn langa búsetusögu því fyrst er á bæinn minnst með nafni í Gíslamáldaga 1575, þá sem eyðijarðar. Í Múlaþingsgrein Sigurðar Kristinssonar "Heimbyggð í Heiðardal" er sagt að bærinn hafi verið upp byggður 1856.
"Sóknartal greinir fyrst frá býlinu í apríl 1857. Hefur því verið byggt þar upp sumarið 1856. Það gerði Gísli Nikulásson frá Dalhúsum f. um 1785 og kona hans Margrét Árnadóttir frá Gilsárteigi, 64 ára. Höfðu áður búið á Dalhúsum og Breiðavaði, áttu mörg börn þá uppkomin og flest gift. En hjá þeim var telpa á tólfta ári. Hét hún Rósa og var dóttir Gísla. Nærri sextugur tók hann fram hjá konu sinni með Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Hún var þá vinnukona á Miðhúsum. Þessi Þuríður giftist svo Magnúsi Jónssyni og þau byggðu upp á Kálfshól 1850. En Gísli og Margrét sáu um uppeldi stúlkunnar, sem fluttist fullorðin til Ameríku."
Tilgátuteikning Páls Sigfússonar, samkvæmt lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar er baðstofan í húsinu fyrir miðri mynd sem snýr þvert á burstirnar. Baðstofu gluggarnir hafa verið með tveimur rúðum samkvæmt frásögninni í stað fjögurra
Gísli og Margrét búa aðeins eitt ár á Þuríðarstöðum. Við tekur búsetusaga fjölda fólks og eru að mér telst til nefnd til sögunar a.m.k. 14 hjón sem ábúendur næstu 47 árin auk tuga fólks sem hafði heimili á bænum, flestir stoppa stutt við. Búsetu saga þessa fólks er mikil sorgarsaga, samkvæmt heimildum deyja á Þuríðarstöðum þennan stutta tíma þrettán manns á besta aldri, þar af sjö börn. Það heyrir til undantekninga ef fólk er lengur en 1-3 ár á bænum. Sóknarmannatal vantar frá sumum árana, en nefna má að 4 júní 1865 dó Sigurbjörg Sigurðardóttir 28 ára gömul, Hálfdán maður hennar fer á brott strax eftir lát hennar. Þau höfðu flust í Þuríðarstaði um vorið.
Átakanlegastar eru búsetur tveggja hjóna. Stefáns Jónsonar frá Kirkjubóli í Norðfirði og Guðrúnar Einarsdóttir flytja í Þuríðarstaði árið 1861 með sex börn. Sama ár í júlímánuði deyr Guðrún og í ágúst eru fjögur af börnum þeirra dáin. Árið 1892 flytja í Þuríðarstaði Friðrik Halldórsson 25 ára og Gróa Jónsdóttir 28 ára ásamt syni sínum og móður Friðriks. Sama ár í júní deyr Gróa, viku síðar Jón Björn sonur þeirra, Friðrik verður úti á Eskifjarðarheiði veturinn eftir. Eftirtektar vert er að samkvæmt skjalfestum heimildum flyst fjöldinn allur af því, fólki sem hafði viðdvöl á Þuríðarstöðum þessi ár og komst þaðan lifandi, til Ameríku.
Um aldarmótin 1900 búa þau Halldór Marteinsson úr Helgustaðhreppi og Guðrún Jósefsdóttir úr Tungu á Þuríðarstöðum, en þau hjón bjuggu þar hvað lengst eða frá 1889-1903. Aðeins þau Jón Bjarnason úr Fellum og Vilborg Indriðadóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði höfðu búið þar lengur, eða 1870-1890. Það var 1899 sem Hrólfur Kristbjörnsson hafði ráðið sig sem ársmann á Þuríðarstöðum þá 13 ára gamall. Það var frásögn hans sem varð til þess að ég fór að snudda í kringum Þuríðarstaða þúfurnar.
"Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.
Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði, og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.
Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju."
Síðustu ábúendur voru þau Gunnar Sigfússon frá Gilsárteigshlálegu í Eiðaþinghá og Anna Jónsdóttir frá Fjarðarkoti í Mjóafirði bjuggu þau þar til 1905 og lauk þar með tæplega 50 ára skráðri búsetu á þessu afdalabýli. það er samt nokkuð víst að búseta nær mun lengra aftur en skráðar heimildir herma, það segir allavega þjóðsagan.
Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá ferð Hallgríms í Sandfelli (sem svo var kallaður þó svo að hann hafi búið að Þorvaldstöðum þegar sagan gerist)og Ingibjargar ekkju á Þingmúla niður í Mjóafjörð til að falast eftir hvalreka hjá Hermanni höfðingja í Firði, en hann var uppi 1749-1837. Sagan gæti því verið 50-60 árum fyrir skráða búsetu. Þessi för varð ekki til fjár því þau frændsystkinin Hallgrímur og Ingibjörg hrökkluðust upp yfir Mjófjarðaheiði hvallaus eftir að Hermann hafði reynt heiftarlega við Ingibjörgu. Á Hermann að hafa samið vísu af þessu tilefni um kynni þeirra Ingibjargar, sem varð til ævilangra vinslita þegar hún fréttist upp í Hérað.
Í Mjóafjörðinn vasa vann
var sú bl,,, ,, neðan,
fjandans skíta frethettan
falaði hval á meðan.
Sagt var að Hallgrímur hefði verið skyldur sálmaskáldinu Péturssyni og bæri nafn hans, því eru vísur þessu tengdu mun fleiri í Þjóðsögum Sigfúsar. Gekk reyndar ævilangt á með sendingum á millum þeirra fyrrum vinanna eftir hvalreka ferðina.
Eyvindaráin fyrir neðan Þuríðarstaði í skammdegisskímunni um daginn
En þau Ingibjörg og Hallgrímur komu semsagt hrakin í snjófjúki af Mjóafjarðaheiði að Þuríðarstöðum um hánótt og ætluðu að biðjast þar gistingar. En það sem þau vissu ekki þá var að ábúendurnir voru nýlega fluttir í burtu. Þegar Hallgrímur bankaði á baðstofugluggann var honum svarað "hér er enginn guð". Fannst honum þetta skrítinn húmor. En fór inn í bæinn og fann þar ekki nokkurn mann, komst svo við illan leik út aftur og sagði för sína ekki góða þó svo að hann vildi gista í bænum. Ingibjörgu var orðið illt af hræðslu út á hlaði og tók ekki í mál að gista mann- og guðlausan bæinn. Hallgrímur fer niður að Eyvindará að sækja henni vatn að drekka og heyrir þar undarleg hljóð rétt hjá sér, en lét sér samt ekki bregða og segir "Skíttu á þig hver sem þú ert". Ætluðu sumir að Hermann hefði sent draug á eftir þeim, en fleiri álitu að það myndi hafa verið bæjarfylgjan á Þuríðarstöðum sem hefði þarna gert vart við sig, því hennar höfðu margir orðið varir.
Eftir að hafa paufast í skammdegisskímunni um rústirnar af Þuríðarstöðum, þar sem dynkirnir úr haglabyssum skotmannanna yfirgnæfðu niðinn í Eyvindaránni og hvæs haglanna þytinn í golunni þegar þau grófu sig í bakkann þar sem bærinn stóð. Jafnvel þó ég hafi lesið 50 ára hörmungarsögu íbúa kotbæjarins í þessum fallega heiðardal sem stóð undir hlíðum Gagnheiðarinnar sem gnæfir í yfir 1000 metra hæð með austfirska sjónvarpsmastrið ofaná, og með dumbbláar hlíðar Skagafellsins beint á móti. Þá varð auðvitað sú skammdegis mynd sem fæddist á striganum þessa dimmu daga eins og eftirprentun sem hékk í veglegum ramma berskuheimilisins og hafði yfirskriftina "Drottinn blessi heimilið". Gleðileg jól.
Heimildir;
Múlaþing 34-2007/ Heimbyggð í Heiðardal, Sigurður Kristinsson
Skriðdæla, Hrólfur Kristbjörnsson
Þjóðsögur, Sigfús Sigfússon
Hús og híbýli | Breytt 1.2.2020 kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)