Breyttur lífstíll

Þeir Kjartan og Wallevik koma inn á það að ýmsar mismunandi ástæður geti verið fyrir myglu en hvers vegna hún varð af faraldri á Íslandi er þeim ráðgáta. 

Vinnufélagi minn sem hefur unnið við húsbyggingar og viðhald ævina alla viðraði þá hugmynd, við litla hrifningu viðstaddra, að mygla hefði ekki verið vandamál í húsum fyrr en hætt var að reykja innandyra. Það skildi ekki vera að hann hefði eitthvað til síns máls, því meiri loftræsting fylgdi reykingunum.

Eins má nefna að nú á tímum fer flest fólk í sturtu einu sinni á dag og því fylgir mikill raki innandyra. En fyrir nokkrum áratugum var laugardagur hinn heilagi baðdagur.

Þó svo að böð hafi verið stunduð af flestum um langa hríð oftar en einu sinni í viku hefur ýmislegt breyst til dagsins í dag í því sambandi. T.d. eru flestir sturtubotnar sjálft gólfið, jafnvel á timburgólfum.

Áður var notast við vatnsþétt baðkör og sturtuklefa með botni, sem þóttu erfiðari í umgengni. Frágangur gólfniðurfalla er t.d. annar og lakari á Íslandi en í Noregi.

Einnig má nefna það að allur þvottur er nú orðið þurrkaður innandyra í stað þess að blakta úti á snúrum. Þó svo að þurrkarar eigi að vera það fullkomnir að þeir skili rakanum frá sér á réttan stað þá þekkja sjálfsagt flestir hvað þungt og rakt loftið getur verið í þvottaherberginu.

Hér er minnst á fleiri ástæður fyrir myglu sem sjaldan er talað um


mbl.is Blómabeðið getur valdið myglu innandyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta aðferðin til að ná árangri í lífinu


Undir grænni torfu týndist tíminn

IMG 1455

Það er stundum sagt um tímaskin Færeyinga að þar sé ávalt nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgun. Dagskrá landans er öllu strekktari þó svo að Bjartmar hafi fyrir skemmstu sungið um "flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið þar sem af týndum tíma er af nægu að taka" um leið og hann bauð landann "velkomin á bísan", þegar allt virtist stefna í að leita þyrfti í reynslubanka Bjarts í Sumarhúsum.

Eftirminnilegt er að Færeyingar hikuðu ekki við að lána Íslendingum stórfé á meðan hinar frændþjóðirnar veltu vöngum ásamt alþjóða gjaldeyrissjóðnum yfir því hvernig mætti koma böndum á fjármálaverkfræði sem kennd var við útrásarvíking. Úti í hinum stóra heimi þótti þetta náttúrulega ekki gáfulega farið með fé hjá frændum vorum í Færeyjum, en þeir sögðu þá bara að gáfur og gæska þyrftu ekki endilega að fara saman. Skilyrðislaust bæri að hjálpa sínum bróðir í neyð.

Í síðustu viku fórum við Matthildur mín loksins í langþráða Færeyjaferð og vorum yfir Hvítasunnuhelgina. Þetta var nokkurskonar systraferð þar sem við tengdasynir Sólhóls fengum að fljóta með sem bílstjórar á Norrænu frá Seyðisfirði til Þórshafnar. Þessi ferð hafði verið á dagskrá í mörg ár og má segja að við skipulag hennar hafi lífsspeki Færeyinga verið höfð að leiðarljósi, um að á morgun komi meiri tími.

Daginn fyrir brottför bað góður Borgfirðingur mig um að skila kveðju til allra sem ég hitti í Færeyjum, því þar byggi besta fólk í heimi, svo vel fann hann í hjarta sínu gæsku Færeyinga. Auðvitað reyndi ég að koma kveðju hans til skila þegar gafst til þess tími. Þessi Hvítasunnuhelgi er samt ekki sú fyrsta sem ég dvel í Færeyjum því fyrir 33 árum síðan átti ég því láni að fagna sem ungur maður að kynnst þessum frændfólki okkar, þá hafði ég ráðið mig í vinnu hjá dönskum múrarameistara í Þórshöfn og var þar fram eftir sumri.

Eftir Hvítasunnuhelgina í denn þurfti ég að tína saman tómu bjórflöskurnar úr herberginu og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni. Því við félagarnir sem leigðum þá á farfuglaheimili Verkakvennafélags Þórshafnar höfðum týnt útborgununum okkar í miklum gleðskap undir grænu torfþaki farfuglaheimilisins og áttum ekki fyrir mat, en nóg af tómum bjórflöskum. Þegar ég hafði sett flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær allt of þungar til að bera og stútarnir stungust út úr skósíðum pokanum, sem ég var að sligast undan. Því varð að ég hnupla hjólbörum rogast með flöskupokann upp í þær.

Þó ekki væri torfærunum fyrir að fara og leiðin greið niður á við í hverfisbúðina á horninu, þá var hjólið á börunum ryðgað fast. Því þurfti ótrúleg átök í að ýta þeim niður brekkuna og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn. Ég veit ekki enn í dag rúmum 30 árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélagsins eða liðka hjólbörurnar fyrir þær,sem varð til þess að okkur var ekki vísað á dyr, en það hafði mér verið tilkynnt að stæði til í upphafi ferðar, en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað.

IMG_1928

Kirkjubær; Múrinn til vinstri, Reykstofan fyrir miðju og kirkja Ólafs helga til hægri.

Þann stutta tíma, sem ég vann við múrverk í Færeyjum fékk ég að taka þátt í skemmtilegum verkefnum. Eitt af þeim var að gera við vegghleðslur kirkju Ólafs helga í Kirkjubæ og endurkalka hvíta veggi hennar. Þá vann ég með dönskum og færeyskum múrurum og hafði ekki grænan grun um hvað merkilegt verkefnið var, hvað þá þolinmæði fyrir svona fornminja gaufi. Enda leið ekki á lögnu þar til ég var settur í nýbyggingar verkefni þar sem ungur athafnamaður, Jakub A Dul, byggði sinn fyrsta Rúmfatalager, ef ég man rétt. Auk þessa vann ég við að banka steinhellur niður í stéttar og bílastæði tryggingafélags.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði hversu sérstakt verkefnið var í Kirkjubæ. Þar eru tvær eldgamlar kirkjubyggingar, það er kirkja Ólafs helga sem er sögð byggð á 12. öld og dómkirkja Magnúsar sem er í daglegu tali kölluð Múrinn byggð um 1300, en sú bygging komst aldrei undir þak. Síðustu ár hefur verið unnið að viðgerðum á hleðslum í Múrsins. Einnig er Reykstofan í Kirkjubæ, sem er byggð í kringum 1100 og talin eitt elsta timburhús í heimi sem enn er í notkun.

IMG_1915

Þegar steinar losna í hlöðnum veggjum Múrsins, Ólafskirkju og Reykstofunnar í Kirkjubæ, er gert við þá með því að raða flötum smásteinum á milli þeirra í kalk-múrblöndu til að festa þá á sínum stað. Þetta er mikið þolinmæðisverk og hefur viðgerð veggja Magnúsar kirkju tekið mörg ár.

Auðvitað voru gömlu staðirnir mínir skoðaðir í ferðinni. Kirkjurnar í Kirkjubæ voru á sínum stað, meir að segja voru hellurnar ennþá í stéttunum og bílastæðunum í Þórshöfn. En þegar komið var í gömlu götuna mína reiknaði ég með að hjólbörurnar væru undir skrifstofuglugga verkakvennafélagsins, en þar brá mér heldur betur í brún. Gamla notalega svarta timburhúsið með torfþakinu, þar sem hægt var að opna kvistgluggann út á græna grasþekjuna til að reykræsta herbergið, var horfið. Þess í stað var komið nýtísku íbúðarhús og engin merki sáust um hjólbörur, ekki einu sinni svört hjólförin í malbikinu, hvað þá glerbrot eða tægjur af svörtum ruslapoka. Og litla búðin niður á horni orðin að íbúð.

Annars er það heilt yfir svo í Færeyjum að engu líkara er, en að þegar jarðýtan var flutt til Íslands um árið, og hér notuð á árangursríkan hátt við að jafna byggingasöguna við jörðu, þá hafi hún algerlega farið fram hjá Færeyjum og á það helvíti er varla hægt að minnast ógrátandi. Þar má finna heilu þorpin ennþá úr torfi og grjóti, meir að segja er búið í mörgum þessara húsa.

Hvernig myndi t.d. Þórshöfn líta út ef hún hefði farið í gegnum sama Dubai drauminn og Reykjavík? Þá væru grænu torfþökin nú komin undir malbik og þar væru svartir turnar klæddir í gler og innfluttar flísar, sem teygðu sig upp í þokuna. Það væru dapurleg skipti miðað við líflegan gamla bæinn, sem geymir söguna til dagsins í dag. Við skulum því rétt vona að það sé ekki bara vegna þess að Færeyingar vita að á morgun komi meiri tími, sem þeir hafa ekki ennþá ræst jarðýtuna eins og tímatrekktir frændur þeirra á sögueyjunni.

 

IMG_1922

Múrinn, eða dómkirkja Magnúsar í Kirkjubæ

 

IMG 1893

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1884

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1861

Þinganes í Þórshöfn, stjórnarráð Færeyja

 

IMG_1968

Þorp í Húsavík á Sandey

 

IMG 1835

Færeyskt hús í Kúney

 

IMG_1634

Saksun

 

IMG_1590

Bær á Vogey

 

IMG_1737

Stéttar í Þórshöfn

 

IMG_1908

Höfundur á fornum slóðum 


Jón hrak

IMG_1259

Það má segja að sagan af Jóni hrak verði undarlegri með hverri jarðarförinni. Ég hafði lengi hugsað mér að kanna sannleiksgildi hennar og fara að leiði þessarar dularfulli þjóðsagna persónu. En hann á að vera grafinn í gamla kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og því stutt að fara.

Í dag fórum við hjónin svo á glæsilegt kaffihlaðborð í klausturkaffi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri þar sem hægt er að éta á sig tertusvima á vöffluverði. Eftir kræsingarnar fórum við á efri hæðina og fengum leiðsögn um vistarverur Gunnars Gunnarssona, rithöfundarins sem sumir segja að hafi ekki verið verður Nóbelsins vegna óljósra tengsla við nasismann. En Gunnar er eini íslendingurinn sem vitað er til að hafi átt fund með Hitler og lengi gekk sú saga að glæsihús hans á Skriðuklaustri hafi verið teiknað af sama arkitekt og teiknaði Arnarhreiðrið fyrir Hitler.

Við vorum ein á ferð með leiðsögumanninum og fljótlega barst talið að uppgreftrinum á klaustrinu sem fór fram á fyrstu árum þessarar aldar. Klaustrið mun hafa verið nokkurskonar sjúkrahús og fólk komið víða að til að leita sér lækninga við hinum ýmsu meinum ef marka má þau bein sem upp komu úr kirkjugarðinum. Fljótlega bryddaði ég upp á áhugamáli mínu um það hvernig best væri að finna leiði Jóns hrak og vísaði leiðsögumaðurinn okkur á leiðið á mynd af uppgreftrinum á klaustrinu.

IMG_1261

 

Þjóðsögur Jóns Árnasonar hafa þetta að segja um Jón hrak:

Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:

Köld er mold við kórbak,

kúrir þar undir Jón flak.

Ýtar snúa austur og vestur

allir nema Jón flak,

allir nema Jón flak.“

Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. – Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.

Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:

Kalt er við kórbak,

hvílir þar Jón hrak;

allir snúa austur og vestur

ýtar nema Jón hrak.

Kalt er við kórbak.

Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.

Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.

IMG_1253

Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum og hafði leiðsögumaðurinn upplýst okkur um það, að þegar uppgröfturinn á klaustrinu og garðinum fór fram 2002-2012 þá hafi sérstaklega verið athugað hvort Jón væri á sínum stað undir steininum. En á honum stendur daufum stöfum JÓN HRAK. Svo einkennilega hefði viljað til að undir þeim steini fundust engin bein og ekki var hægt að ætla að önnur bein sem upp komu í þessum mikla uppgreftri tilheyrðu Jóni.

Það er því búið að grafa Jón hrak tvisvar upp samkvæmt heimildum og í annað sinn kom í ljós að hann var ekki við kórbak. Leiðsögumaðurinn hafði heyrt eina munnmælasögu sem segði að vetrarhörkur hefði verið og frost í jörðu þegar átt hafi að jarðsetja Jón og því hefðu menn sennilega losað sig við líkið á auðveldari máta. En hvar og í hvaða skipti vissi engin.


Byggingar í böndum bírókratísins

Það brást ekki að vorið kom með trukki á nýju tungli þann 24. síðasta mánaðar. Einhvern veginn er það alltaf þannig á vormorgnum þegar sól skín í heiði og fuglasöngur fyllir loftið þá kviknar framkvæmdaþráin, jafnvel hjá gömlum safnvíkingum. Hér á árum áður hefðu svona ljúfir vordagar ekki verið látnir fara forgörðum, steypihrærivélin hefði verið ræst og byrjað að byggja. Þó svo að ég vinni við sömu iðn og áður, þar sem pólskir vinnufélagar mínir sjá nú orðið um að gera það skemmtilega, þá er því ekki lengur svo fyrir að fara að framkvæmdaviljinn, steypuhrærivélin og vinnuaflið dugi til að byggja hús. Nú sem aldrei fyrr hefur allt verið niðurnjörvað með reglugerðarfargani.

Pólverjar hafa hirt flest skemmtilegustu störfin frá íslendungu án þess að landinn hafi heilaburði til að fatti það, innihúkandi rígnegldur fyrir framan tölvuskjáinn við að koma heim og saman á exele skjali hvernig skuli fara að því að gera hvað sem er arðvænlegt fyrir fjárfesta. Einagnveginn tekst samt að fá í útkomuna hvernig svoleiðis húsnæði hentar ungu fólki sem sárvantar hagkvæmt húsaskjól. Öllum þessum vandræðum samfara þarf langskólagenginn landinn að greiða af námslánunum og er því eina leiðin til að halda sjó að útbúa regluverkið það flókið að hæfi sérstaklega vel borgaðri menntun, alls óskildri þekkingu á húsbyggingum. þannnig regluverk ræður svo úrslitum um hvort hús verður byggt.

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn. Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem vottað er af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki þurft að hafa það frumkvæði til að bera að byggja steinsteypt hús eftir að hafa ekki þekkt annað en torfbæi þá var ennþá hægt að hrinda húsbyggingu í framkvæmt á hagkvæman hátt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Að því leitinu var byggingaaðferðin áþekk torfbæ, að við notuðumst mikið við heimafengið í sinni tærust mynd, það er eigið hugmyndaflug, afl og mölina, sem lá því sem næst undir fótunum.

En þess ber að geta að á þeim tíma vorum við lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits voru farin að gera afdalmennsku óhægt um vik.


Bölvaður sé sá er mígur upp við vegg

IMG 1662

Það kannast flestir iðnaðarmenn við hvað aðstöðuleysi til að létta á sér getur verið bagalegt. Þó svo að sumir verið sér úti um færanlegan kamar þá er sjaldnast gert ráð fyrir slíkum kostanaði þegar unnið er fyrir Pétur og Pál út um borg og bý. Eitt sinn þegar ég vann utanhúss múrverk við íbúðarhús víðlesins spekings kom til umræðu lögmál sem hefur leitað á hugann þegar mér verður mál utandyra allar götur síðan. Í meira en 30 ár þar til í gær að ráðgátan upplýstist.

Eins og oft vill verða á vinnustað þar sem er ekkert klósett þá hafði ég farið bak við hús til að míga og vonaðist til að ekki sæist til mín. Þegar ég var rétt byrjaður þá kom húseigandinn fyrir hornið. Hann sagði ábúðarfullur „bölvaður sé sá er mígur upp við vegg“. Um afleiðingar þessa gæti ég lesið mig til um í Biblíunni.

Ég var snöggur að svara honum að því lygi hann, ég væri búin að lesa Biblíuna spjaldanna á milli og þetta stæði hvergi í henni. Hann þagði í smástund en sagði svo íbygginn á svip að þetta stæði kannski ekki í allra nýjustu útgáfu hennar. Auðvita laug ég því að hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli. En þetta samtal varð til þess þegar ég lét verða af því hafði ég það í huga hvort það gæti virkilega verið að þetta stæði í hinni helgu bók.

Eftir lestur næst nýjustu útgáfu Biblíunnar gat ég hvergi greint að ígildi þessarar bölbænar væri þar finna. Svo var það í gær að ég las bók Stefáns Jónssonar, Ljós í róunni. Þar er áhugaverð úttekt á þessari biblíutilvitnun og það sem meira er Stefán hafði rannsakað, gjörsamlega út í hörgul, sannleiksgildi þess að hana mætti finna í hinni helgu bók. Því rétt eins og ég trúði hann því ekki að óséðu.

Rannsókn Stefáns leiddi það í ljós að þessi tilvísun í bölvunina fyrir að míga upp við vegg væri í erlendum útgáfum Biblíunnar, en hefði af einhverju undarlegum ástæðum ævinlega verið sleppt við þýðingu hinnar helgu bókar yfir á íslensku. Tilvitnunina mætti finna í annarri konungabók þar sem Guð talaði í gegnum Elísa spámann um Jeróbam konung.

Komst Stefán helst að því að ástæða þess að þetta vantaði í íslensku útgáfur Biblíunnar væri af svipuðum toga og það að austfirðingar eru öðruvísi en annað fólk. En austfirðingurinn lætur segja sér það þrisvar sem nægir að ljúga einu sinni í suma aðra. Og sumu trúir hann aldrei hvað oft sem hann heyrir því logið.

Það er oft þannig með lausn á ráðgátum að þegar ein leysist þá virðist svar við annarri berast á undarlegan hátt á sama tíma og þá oft úr ólíkri átt. En nú var það ekki svo í þetta sinn, heldur rakst ég fyrir stuttu á texta Þórbergs Þórðarsonar, sem einnig er rithöfundur úr austfirðingafjórðungi. Þar varpar hann ljósi á það sem margir telja landlæga plágu nú á tímum þó svo að ekki séu bölbænir við gjörningnum að finna í Biblíunni.

Þó að iðnaðarmenn eigi til að leggja metnað sinn í að míga úti þá er fáheyrt að þeir geri stærri stykki utandyra. En eins og flestir hafa frétt, eða jafnvel séð myndbirtingar af á facebook, þá hefur borið á því að túristar skíti á víðavangi þrátt fyrir að salerni séu á næsta leiti. Jafnvel hefur mörgum komið til hugar að réttast væri að láta þá borga fyrir að gera þarfir sínar því svo vel sé fólk skólað í að greiða fyrir að vera til, að því detti ekki í hug að fara á salerni ókeypis.

En texti Þórbergs í Bréfi til Láru upplýsir hvað fer raunverulega fram í sálarlífi túristans við þessar aðstæður. Og við því geta hvorki fjársektir né Biblían átt nægilega sterkar viðvaranir, hvað þá að gjaldskyldir kamrar komi að gagni.

Það var logn og heiður himinn. Sól skein í suðri. Sumarfuglarnir sungu suðræn ástarljóð í runnum og móum. Fram undan blasir við fagurt hérað, skrýtt skógarkjarri og grösugum eldfjöllum. Fjöllin eru frumlega gerð og einkennileg, rétt eins og forsjónin hefði skapað þau með sáru samviskubiti út af hrákasmíð sinni á Rangárvöllum. Fyrir neðan skógarbrekkurnar glampar á hafið himinblátt, alsett eyjum og vogum, - helgi og fegurð svo langt sem augað eygir.

Þetta er dásamlegur heimur. Þessi mjúka stemming yfir hafi og hauðri, ilmur úr grænu grasi og skógarangan. Hvar er ég? Er ég komin suður á Ítalíu? Er þetta hið himinbláa Miðjarðarhaf, sem Davíð Stefánsson kvað um pervislegt kvæði? Eða er þetta kannski sumarlandið, þar sem Raymond drakk himnesk vín og reykti vindla sáluhólpinna tóbakssala? Ég settist niður í skógarrunn og skeit. Á setum sínum kemst maður í andlegt samfélag við náttúruna.


Svartidauði í sparifötum


Mojo

Hversu oft hefur einhver sem þú þekkir orðið ölvaður og hagað sér á þann hátt sem ekki var von á? hækkað róminn óvanalega mikið við að upphefja eigið ágæti, jafnvel beitt ofbeldi, gert sig sekan um kynferðislegt lauslæti, orðið valdur af eyðileggingu á eignum, eða staðið að einhverjum öðrum neikvæðum aðgerðum sem ekki eru eðlislægar?

Hugleiddu þetta í augnablik - eins hvort þetta eigi eitthvað skylt við birtingarmyndir heilsteypts persónuleika, kærleika eða jákvæðni? - Samfélagið viðurkennir áfengi sem félagslega jákvætt hjálparmeðal og þar með væntanlega birtingamyndir þess, jafnvel þó það þurfi stundum að nota afsakanir á við; hann eða hún gat nú lítið að þessu gert sökum ölvunar.

Þetta sama samfélag telur sjálfsagt að gera einstaklingnum erfitt fyrir við að skaða sjálfa sig og aðra með tóbaksreykingum þar sem fólk hittist á almannafæri. Þó svo að fylgifiskar tóbaks séu ekki sambærilegir, þá eru þær saklausar hjá andsetningu persónuleikans. Það er t.d. óþekkt að einhver hafi tapað sér við að reykja pakka af sígarettum og hafi af þess völdum gengið í skrokk á öðrum, splundrað heimili eða drepið mann.

Þrátt fyrir að áfengi hafi fylgt manninum í gegnum aldirnar þá hefur almenningur sennilega aldrei verið fjær því að fá haldbærar skýringar á þeim andlegu afleiðingum sem neysla þess veldur. Skaðsemi áfengis á mannsandann getur verið djöfulleg og ætti því að vera opinberlega viðurkennt að orsakanna er að leita í ósýnilegum andaheimi, - en það er ekki svo í heimi nútíma efnishyggju.

alcohol

Til að átta sig á hvers konar öfl er við að eiga er rétt að skoða merkingu orða sem höfð eru yfir áfengi, s.s. brennivín, vínandi (spíritus), alkóhól osfv. Þarna er um líkingamál að ræða, sem á m.a. að höfða til lífsins vatns, að mestu ættað úr Mið-Austurlenskri gullgerðarlist.

Það mætti ætla að orðið vínandi skýrði sig að fullu sjálft í því samhengi þegar talað er um huga, líkama og sál. Með skírskotun til þess að andinn sé sá hluti þeirrar þrenningar sem samsvari sálinni. Þessari merkingu vínandans hefur þó verið haldið til hlés í vestrænu samfélagi þar sem alkahól er viðurkennd efnafræði til félagslegra nota.

Efnafræðilega skíringin á vínanda er sú að hann sé gerður úr gerjuðum vökva, sem er hitaður og sýður þá áfengið á undan vatninu og myndar gufu. Þegar gufan er leidd í rör og kæld þéttist hún og verður að vökva sem er mun sterkara áfengi en t.d. vín og bjór. Slíkur vökvi fékk latneska heitið spíritus, -vínandi. 

Orðið alkóhól er sagt upphaflega dregið af arabíska orðinu "Al-Kuhl" enska afsprengið er „alcohol“. En samkvæmt arabísku er Al-Kuhl eða al-gohul, „andinn yfirtekur holdið“. Alkóhól er, samkvæmt þessari Mið-Austurlensku þjóðtrú, illur andi sem sækist eftir mannsholdi.

Þetta er eftirtektarvert í því ljósi að áfengi er bannað til félagslegrar iðkunnar í flestum Mið-Austurlanda. Í vestrænum ríkjum þykja áfengisbönn bábiljur og hér á landi kallaði ríkið sinn vínanda "Íslenskt Brennivín".

Það fór samt ekki fram hjá þjóðarsálinni um hverskonar anda var að ræða, sem kallaði Brennivín ríkisins umsvifalaust Svartadauða. Eins þekkir þjóðarsálin hugmyndir um að drukkið sé í gegnum einhvern, þegar persónuleiki viðkomandi verður óþekkjanlegur vegna áfengisdrykkju.

vínandi

Við getum litið svo á að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hefur að geyma persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin er hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið.

Með eimingu áfengis er kjarna vínanda náð. Með því að setja alkóhól í líkamann þá er þessi andi innbyrtur, sem gerir einstaklinginn berskjaldaðri fyrir nálægum öflum sem mörg hver eru á ósýnilegri tíðni. Þetta telja flestir áhættunnar virði til að losa um félagsleg höft t.d. feimni og stundum er sagt að öl sé innri maður.

En jafnhliða slævir áfengið dómgreind og þegar of mikið er drukkið slokknar á henni og hugurinn dettur út af og til eða jafnvel sofnar. Það sama þarf samt ekki að gerast með líkamann það er hægt að vaknað upp síðar á allt öðrum stað en þeim sem hugurinn hvarf frá, jafnvel frétta af fullu fjöri í aðstæðum sem ekki er kannast við, þetta er stundum kallað blackout, og öl verður annar maður.

Blackout

Það sem gerist í blakcout er að sá góði andi sem við köllum sál ákveður að yfirgefa partýið vegna þeirrar eitrunar sem hefur orðið á huga og líkama. Orkubrautir sálarinnar eru ekki lengur tengdar líkamanum, ókunnug myrk öfl hafa yfirtekið stýrikerfið og halda partý í blokkinni til að fróa sínum sjálfhverfu hvötum í líkama annars manns burtséð frá hans anda og eðli. Það verður erfiðara eftir því sem þetta gerist oftar fyrir sálina að snúa til baka í óreiðuna og persónuleikinn getur brenglast varanlega.

Efist einhver um að blackout geti haft svo geigvænlegar afleiðingar að jafnvel illir andar taki yfir persónuna þá eru til mýmörg dæmi þess og þarf ekki að fara aftur í tíma Jóns Hreggviðssonar til að finna hliðstæður. Nú á tímum getur andsetning meir að segja orðið svo alger að erfitt getur reynst að finna DNA slóð þess einstaklings sem er andsetinn á vettvangi. Það er örfá ár síðan dómsmál vegna manndráps sýndi þetta svo ekki verður um villst, sjá hér.

Til að endurheimta sálu sína verður að endingu það eitt til ráða að leita aðstoðar þeirra sem hafa komist út úr vítahring alkóhólisma með andlegri vakningu. Losa þannig um ógnartök ókunnra afla alkóhólsins hvort sem við köllum þau Svartadauða upp á íslensku eða Al-ghoul upp á Mið-Austurlenskan máta. Þá verður einungis hægt að viðurkenna vanmátt sinn gegn áfengi og treysta á æðri mátt. 

Nú vil ég taka fram að ég tel mig ekki vera fanatískan bindindismann og er ekki að leggja öðrum lífsreglur. En vegna reynslu minnar af áfengi vildi ég reyna að benda á hvað leynist undir spariklæðnaði þeirra myrku afla sem eru fylgifiskar áfengisneyslu.

 


Séra Jón - aumasti prestur á Íslandi

Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.

goodfriday

Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.

Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.

Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.

Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði „aumasta prest á Íslandi“. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.

Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.

Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.

Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.

Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða „Tuttugubýla Brynki“.

Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann „aumasta prest á Íslandi“ í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.

Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).

Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.

Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.

Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.

Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu „og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.“

Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.

Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.

Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.

Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.

Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir.“ (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.

Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; „... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta ...“. Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.

Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.

Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.

Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.

Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.

Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.


Mara, sendingar og sálfarir

Fyrir stuttu var athyglisvert frásögn á Vísi, sem byggir á viðtali við þekktan sjónvarpsmann þar sem hann lýsti svefntruflunum sem höfðu angrað hann fyrr á ævinni. Truflanirnar sagði hann hafa verið líkar því að hafa eitt heilu nóttunum í forgarði helvítis. Frásögnin var notuð til fræðilegrar skýringar á því sem kallað er svefnrofalömun við kynningu á nýrri bók Erlu Björnsdóttur um svefn, en Erla er doktor í sálfræði. Í bókinni, sem heitir einfaldlega Svefn, segir að svefnrofalömun lýsi sér í því að einstaklingurinn lamast algjörlega þegar hann sofnar eða þegar hann vaknar. Þá getur hann hvorki hreyft legg né lið en er þó með fullri meðvitund. Ofskynjanir geta stundum verið hluti af svefnrofalömun en lömunin varir oftast stutt og er hægt að fá viðkomandi úr þessu ástandi með því að snerta hann eða tala við hann.

Þriðja augað líf og dauði

Það sem ekki var síður athyglisvert, en frásögn sjónvarpsmannsins, voru kommentin sem lesendur settu undir fréttina. Því flest þeirra bættu talsverðu við þessa örstuttu fræðilegu skýringu á svefnrofalömun. Í kommentum mátti finna frásagnir fólks sem hefur frá svipaðri reynslu að segja, svo sem þessar:

Þetta er ásókn illra afla handan þessa heims. Þekki þetta af eigin reynslu....

Hef upplifað þetta síðan ég var unglingur og kemur enn (51 árs) en sem betur fer ekki oft. Síðast reyndi ég að kalla á manninn minn sem var frammi (ég heyrði vel i honum) hann heyrði einhvern kalla og fór í herbergi sonar okkar því hann heyrði karlmannsrödd...ég fann líka að þetta var ekki mín rödd, heldur djúp karlmannsrödd þegar ég kallaði á hann og þurfti ég að kalla mörgum sinnum þangað til að hann áttaði sig hver þetta væri....

Ég er 42 ára og hef barist við þetta alla ævi síðasta kastið fékk ég í gær og var það mitt fyrsta á erlendri grund. Ég heyrði mikinn barnsgrátur og var sannfærður um að þar færi draugur látins barns á ferð og öskraði ég á hjálp til móður minnar sem sat ekki nema 3 metra frá mér en hún heyrði ekki píp í mér, oftast eru þetta draugar eða árar en einstaka sinnum börn að leik og grínast þau í mér og verð ég ekki hræddur....

Ég hef dílað við þetta nkl sama og þú líka síðan ég var 14 ára. Ég náði ekki að losna við þetta fyrr en ég eitt skiptið alveg ómeðvitað, ákveð að krossa mig í þessum aðstæðum....

Bara kalla á Jesú ef þetta gerist þannig sigraðist ég á þessu....

Það sama geri ég þegar ég er lömuð og veit ég um aðra konu sem kallar líka á Jesú og það virkar....

Þetta ástand hefur alltaf kallast "sálfarir", ég hef glímt við þetta síðan ég var barn og hef mikla reynslu í þessu ;) þetta gerist þegar sálin er að tengjast líkamanum eftir að hafa verið fjarverandi, þetta getur gerst bæði þegar maður er að fara að sofa og þegar maður vaknar en yfirleitt gerist þetta þegar maður vaknar, þá "lamast" maður oft á meðan sálin er að ná tengingu við líkamann....

Þetta hefur verið þekkt öldum saman og þetta er einfaldlega ásókn drauga og púka og hefur ekki með neitt annað að gera....

Það finnst flestum sínir draumar merkilegir og að þeir hljóti að boða eitthvað. Jafnframt þá hafa fáir mikinn áhuga á draumum annarra og geta venjulega tekið undir þau sjónarmið að draumar séu ekki til að hafa miklar áhyggjur af, en Erla segir; "Þetta tengist oft álagi, óreglulegum svefntímum og þetta er ekki hættulegt. Það er mjög mikilvægt að maður viti það þegar þetta gerist því þetta er mjög óhugnanlegt og óþægileg reynsla." En í þessu tilfelli þar sem martröð fylgir svefnrofalömun virðist flestir hafa frá ógn að segja og ekki er það af kommentunum að skilja að um meinlausa upplifun sé að ræða.

Án þess að fara djúpt í það, þá hef ég sjálfur orðið fyrir svipuðum upplifunum í svefni. Fyrr á ævinni tengdi ég þetta óreglu, eins kom fyrir að svipuð líkamleg áhrif gerðu vart við sig í vöku, þ.e. andnauð og brjóstverkur sem varði yfirleitt í stutta stund. Eftir að hafa gist hjartadeild fyrir 16 árum síðan, með tilheyrandi rannsóknum sem leiddu ekki ljós læknisfræðilega áhættuþætti hjartasjúkdóma né að sérstakrar eftirfylgni væri þörf, gerðist það fyrir tveimur árum að hjartað skemmdist við að upplifa þessa tilfinningu síendurtekið í vöku, sem svefni, og þá með tilheyrandi draumarugli. Hjartaáfall var eitthvað sem átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig. Vegna eftirkastanna hef ég mikið velt fyrir mér hverju sætir. Einna helst hefur mér dottið í hug aðsóknir fyrirbrigða, sem kallast í þjóðsögunum mara og sendingar.

Mara er samkvæmt þjóðtrúnni, óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Það að fá martröð er að vera troðin af möru. Í orðabók Menningarsjóðs, 1988, er mara skilgreind sem óvættur sem ætlað var að træði á fólki eða þjarmaði að því í svefni; sbr. martröð: mara treður einhvern; það hvíldi á honum eins og mara, sem í yfirfærðri merkingu þýðir að hann hafði þungar áhyggjur. Venjulega finnur sá sem fyrir martröð verður eitthvað þrýsta fast á bringu sér, svo að það verður óbærilegt. Læknavísindin rekja þetta til hindrunar á andardrætti, sökum veikinda t.d. kæfisvefn, eða jafnvel óþægilegrar legu og þess að rúmföt hafi dregist yfir vitin.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar frásagnir af fyrirbærinu. Þar er frásögn af möru sem Sveinn Jóhannesson frá Seljamýri í Loðmundarfirði fékk á Skálum á Langanesi þegar hann var þar á vertíð 1914. Það vildi þá til Sveini fannst komið að sér og lagst ofan á sig svo úr honum dró allan mátt og leið honum þá mjög illa áður en af honum létti og hann gat snúið sér. Sveinn hugsaði nú að þetta kæmi til af óhentugri legu og óhagkvæmri blóðrás. Skömmu síðar kom þó aftur fyrir það sama og öllu verra nema nú gat hann brotist um og snúið sér og hvarf þá loks maran. En enn skýrði Sveinn þetta sem fyrr á lækna vísu. Í þriðja sinn kom mara og tróð Svein. Var það nú svo lengi að honum þótti tvísýnt hversu færi þangað til hann gat rekið upp org og létti þá á honum. Þá var Sveinn orðinn reiður mjög, því skapríkur var hann þótt stilltur sé. Kallar hann þá hástöfum: Ef hér er nokkur djöfullinn sem er að ónáða og kvelja mig þá fari hann til Helvítis. Upp frá þessu tróð engin mara Svein að Skálum.

Ein frásögn Sigfúsar er frá Víðivöllum í Fljótsdal þar sem sama maran leggst hvorki meira né minna en á fjóra í svefni sömu nótt, hvern á fætur öðrum. Sá fyrsti hafði verið vakin af öðrum þegar hann varð var við martröð hans, sá sofnað síðan, en ekki sá sem fyrir mörunni varð. Síðan fær sá martröð stuttu seinna og sá sem hana fyrstur fékk vakti þá hann. Þar sem þeir lágu nú báðir andvaka verða þeir varir við að þriðji félagi þeirra er kominn með martröð svo þeir vekja hann. Þegar þeir þrír bera sig saman um hvað þá hafi dreymt var það eins hjá öllum, þeim fannst eitthvað hafa lagst ofan á sig. Á meðan þeir eru að tala saman heyra þeir uml í stúlku sem svaf við stigaskör fyrir ofan þá og vekja hana. Þegar hún var spurð hvað hefði angrað hana segir hún að einhver djöfullinn hafi lagst ofan á sig.

Fleiri sagnir af möru eru í þjóðsögum Sigfúsar og þar er m.a. sagt frá því hvað Færeyingar kalla fyrirbærið. Eins má lesa samantekt Þorsteins frá Hamri um möru í Þjóðviljanum frá því 1975 og hversu útbreidd vitneskjan um hana hefur verið frá fyrstu tíð. Mörunnar verður vart um allan heim og talið er að 1 af hverjum 5 verði fyrir barðinu á henni einhvertíma á lífsleiðinni. Á doktor.is má sjá svar Bryndísar Benediktsdóttur um möru, hún er sérfræðingur í heimilislækningum, með svefnrannsóknir sem sérsvið.

Þegar ég skoðaði hvort þjóðsögurnar greindu frá aðsóknum, þar sem svipuð líkamleg þyngsli koma fram í vöku og þegar mara treður mann í svefnrofalömun, þá rakst ég fljótlega á söguna um Brest. Þar segir frá Páli Pálssyni, sem bjó í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld og fékk sendingu sem hann vildi aldrei tjá sig um og fór því sennilega vitneskjan um hvers eðlis sendingin raunverulega var í gröfina með Páli. En þessi sending fór samt ekki fram hjá neinum sem umgengust hann í lifanda lífi eftir að ásóknin hófst. Þetta er ein þekktasta frásögn af sendingu og er í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum. Auk þess að vera ekki einungis munnmælasaga, heldur skráð heimild þegar atburðirnir gerast. Það sem vakti öðru fremur athygli mína, var ekki sagan af sendingunni sjálfri, heldur endalok Páls.

Þegar að Páll hafði flosnað upp og nokkru eftir að konan hrökklaðist að heiman, fór hann til vinar síns á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki. Vinurinn bauð hann velkominn, en fannst ekkert benda til að hann væri dauðvona. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því yrði ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi útlimakuldi Páls sem fékk mig til að taka sérstaklega eftir sögunni um Brest, því kuldinn hlyti að hafa stafað af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

Þjóðsögurnar hafa að geyma sagnir af ýmsum gerðum sendinga, og með hvaða kunnáttu þær voru uppvaktar. Tilgangur þeirra til forna er aðallega talinn hafa verið að leita fregna um það sem fram ætti eftir að koma. En á seinni öldum sýnist tilgangur sendinga  vera stefnt til höfuðs öðrum. Sigfús Sigfússon segir að munurinn á sendingum og afturgöngum sé sá að sendingar séu séu uppvaktar af eigingirni manna sem knýi þær til illra verka í sína þágu, á meðan afturgöngur fari um af eigin hvötum. Sendingum sé ætlað að fullnægja verstu hvötum mannsins s.s.heiftarhefnd og drápi, þó séu þær einnig stöku sinnum framkallaðar af fégræðgi. Algengastir voru snakkar, tilberar og árar.

Ætla mætti að allar þessar gerðir sendinga væru það sem einu nafni kallast púkar, eða djöflar í Biblíunni. En það er þó ekki svo einfalt. Samkvæmt Íslenskri orðabók Máls og menningar er sending, -ar 3 uppvakningur, sendur til að gera öðrum mein, sem er í fullu samræmi við Sigfús. Þar er djöfull 1 illur andi, andskoti, fjandi, púki, og samkvæmt sömu orðabók er púki 1 ári, smádjöfull. Þetta má svo finna um djöful í Biblíunni, Opinberun Jóhannesar 12.9; Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. Það er því nokkuð ljóst að sendingar eru í sjálfu sér ekki djöflar, heldur eru þeir sem þær uppvekja og senda, haldnir djöflum.

Reyndar er gert ráð fyrir því í flestum trúarbrögðum að jörðin sé djöfulsins. Í norrænni goðafræði var afkvæmi Loka, Miðgarðsormurinn erkifjandi Ása, sem umlukti Miðgarð mannanna. Í Múhameðstrú búa púkar meðal mannanna sem kallast Jinn, ámóta mýtur má finna í flestum trúarbrögðum. Margir líta á frásagnir Opinberunarbókar Nýja testamentisins af djöflinum, sem og annarra trúarrita, sem hið mesta óráðshjal eða í mesta lagi spádóm sem gæti átt eftir að koma fram.

En allt eins getur verið að gjörföll heimsbyggðin sé nú þegar afvegaleidd af djöflinum. Þannig að þeir sem verða fyrir því, sem kallað var sendingar sendi þær sjálfum sér. Í Nýja testamentinu er þess getið hvernig Jesú losaði þá við illa anda sem voru þeim haldnir. Matth 8.16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá er sjúkir voru læknaði hann.

"Með orði einu" hvernig má það nú vera? -það orð inniheldur vissuna um að allt fari vel. Þannig að ef trúin væntir einungis þess góða og þá verður útkoman eftir því. Þetta er sama trúin og flytur fjöll, nokkurskonar ímyndun, placebo effect. Illir andar og sjúkdómar fá ekki staðist fyrir slíku. Sömu áhrif má virkja í gagnstæða átt. Það hefur sjúkdómavæðingin gert í gegnum fjölmiðla. Þar er fólki talin trú um að það fái litlu ráðið um eigin heilsu án hjálpar lyfja, sem hefur með tímanum leitt til þess að maðurinn er sjúkasta dýrategund jarðar og hefur undirgengist þrælsok huglægs ótta.

Hvað er það sem hugsar? Það eru augun sem sjá, eyrun sem heyra, nefið sem finnur lykt, tungan bragð og fingurgómarnir sem snerta, kölluð skilningsvitin fimm. En höfum við einhverntíman velt því fyrir okkur hvað það er er sem hugsar? Sjálfsagt myndum við í fljótu bragði álykta sem svo að það værum við sjálf með heilanum. En með innrætingu frá blautu barnsbeini hefur okkur verið tamið að hugsa með heilanum á rökrænan hátt. Hugsanir eru sú tegund orku sem stýra okkur meðvitað fram á veginn.

Það hefur komið í ljós að þegar heilinn er í slökun s.s. í hugleiðslu, þá fer minna í árvekni, rökhugsun, gagnrýni og streitu. Við slökun er jafnvel talið að sálfarir geti átt sér stað, þar sem sálin yfirgefur líkamann um stund en kemur síðan aftur. Þær eiga sér því oft stað í svefni eða svefnrofum þegar hugsunin veldur ekki áreiti. Sálfarir lýsa oftar en ekki góðri tilfinningu sem inniheldur fagra drauma, en geta jafnframt verið þess eðlis að vitneskja fæst um ýmislegt sem er fjarlægt.

Stundum geta sálfarir verið ferðalag utan tíma og rúms um fjarlægar slóðir og lýst atburðum sem þar gerast án þess að sá sem förina fór hafi átt nokkurn möguleika á að vita um atburði öðruvísi. Þetta er því stundum kallað þriðja augað eða astral travel og mætti jafnvel líkja við gandreið þjóðsagnanna nema sá fararmáti þarfnaðist skuggalegri undirbúnings en hugleiðslu og slökunar.

Eitt af kommentunum við fréttina á Vísi gerði ráð fyrir að svefnrofalömun stafaði af sálförum. Annað lýsti sálförum; Sem unglingur þá gat ég stundum þegar ég var að festa svefn, ferðast úr líkamanum, horft á sjálfa mig í rúminu og svifið yfir fallega dali. (man mest eftir fallegu landslagi) Mér fannst þetta magnað og gaman, það var ekkert illt í þessu, engar verur eða neitt og tilfinningin var stórkostleg. Ég las mig til um að þetta sé algengt á unglingsárunum. Man samt ekki eftir að ég hafi lamast. Kannski annað fyrirbrigði.

Það hafa sjálfsagt allir dreymt fagra drauma í svefni þar sem þeir eru á ferð um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Fyrir nokkru dreymdi mig að ég kom á byggingarstað, sem systir mín og mágur voru að byggja sér hús í suður Frakklandi. Það var ekkert óeðlilegt við það að mig dreymdi þennan draum vegna þess að þau voru að byggja hús á þessum tíma og fluttu í það fyrir rúmu ári síðan. Draumurinn var um stað sem ég hafði einu sinni komist í grennd við áður, en það var fyrir rúmum tuttugu árum við brúðkaup litlu systur. Þá var farið í heimsókn til tengdamóður hennar, sem bjó í smábæ. Hún átti smá landskika hinu megin við götuna skáhalt á móti húsinu hennar utan í skógivaxinni hæð.

Þennan landskika hafði hún seinna gefið ungu hjónunum og á hann var ég kominn í draumi til fylgjast með húsbyggingunni. Ég horfði niður að húsi tengdamömmu systur minnar og sá því að ég var á réttum stað. Þarna kom svo systir mín með börnunum sínum án þess að þau yrðu mín vör. Þetta var kannski ekkert skrýtið vegna þess að ég hafði oftar en einu sinni rætt það við systur í síma hvar nákvæmlega húsið yrði staðsett og taldi mig vera með nákvæma mynd í huganum af því hvernig landið lá þó svo að ég hefði aldrei komið þarna megin við götuna, upp á þessa hæð.

Það sem mér fannst sérkennilegra við drauminn og gera hann óraunverulegan var hvað það var mikið af öðrum húsum ofar á hæðinni. Eftir að systir og fjölskylda höfðu flutt í húsið hugkvæmdist mér að heimsækja hana á google earth og ganga síðasta spölinn á street wiew. Og viti menn húsin sem höfðu gert drauminn óraunverulegan voru á street view nákvæmlega eins og í draumnum.

Séra Jakob Jónsson lýsir sálförum í tímaritinu Morgunn 2 tbl árið 1940. Þessa för hafði mágur hans farið til að heimsækja systur sína yfir langan veg og greint frá um leið og henni lauk. Það var því vitað að hann átti ekki að geta vitað um það sem hann varð áskynja, nema hafa verið á staðnum þegar atburðurinn gerðist. Séra Jakob hafði þetta að segja um sálfarir; Læt ég lesendum mínum eftir að hugleiða það, hvers eðlis hinar svonefndu sálfarir eru í sjálfu sér; sjálfur nota ég orðið í þeirri merkingu, að sá hluti persónuleikans, sem skynjar og hugsar, hafi fluzt um stundarsakir úr efnislíkamanum, og sé því ekki háður skynfærum hans og heilastarfsemi, svo að fundið verði.

Það má því segja að heimarnir sem við upplifum í vöku og svefni geti því allt eins verið jafn sannir og í báðum tilfellum upplifum við líf okkar. Munurinn á þessum tveimur vitundarstigum er að upplifanirnar verða til vegna mismunandi næmni okkar innra sjálfs. Draumaheimurinn er ekki bundinn þeirri rökhugsun sem okkur er innrætt frá blautu barnsbeini, hvað er raunverulegt er svo okkar að meta.

Í myndinni hér að neðan er svefnrofalömun í hinum ýmsu menningarheimum gerð skil á einstaklega áhugaverðan hátt.

 


Galdur, fár og geimvísindi

Magic

Það er sagt að galdur sé andstæðan við vísindi, svona nokkurskonar bábiljur á meðan vísindin byggi á því rökrétta. Því séu þeir sem trúi á galdur draumórafólk í mótsögn við sannleik vísindanna.

Svo hafa þeir alltaf verið til sem vita að galdur byggir á hávísindalegum lögmálum sem hafa mun víðtækari tengingar en rökhyggjan, s.s. krafta náttúrunnar, traustið á æðri mætti og síðast en ekki síst vissunni fyrir eigin getu við að færa sér lögmálin í nyt.

Ef sönn vísindi væru einungis rökhyggja sem byggði á því sem þegar hefur verið reynt, væru þau þar að leiðandi eins og sigling þar sem stýrt er með því að rýna í straumröst kjölfarsins. Þá nýta þau fortíðar staðreyndir sem ná ekki að uppfylla þrána eftir því óþekkta. Þannig vísindi munu aðeins færa rök gærdagsins á meðan þau steyta á skerjum og missa af draumalöndum sem framundan eru vegna trúarinnar á að best verði stýrt með því að rýna í kjölfarið.

Um miðjan áttunda ártug síðustu aldar tók það um ár fyrir geimförin Víking 1 og 2 að komast til Mars, lögðu þau af stað frá jörðu 1975 og lentu á Mars 1976. Mun lengri tíma tekur að fá úr því skorið hvort líf gæti verið á rauðu plánetunni og það eru ekki nema örfá ár síðan að almenningi voru birtar myndir frá ökuferð þaðan. NASA sendi svo Voyager nánast út í bláinn 1977 til að kanna fjarlægustu plánetur í okkar sólkerfi. Og fyrir nokkrum árum komst hann þangað, sem að var stefnt fyrir áratugum síðan, vegna þess að markmiðið var fyrirfram skilgreint úti í blánum.

Nýlega voru kynntar niðurstöður geimvísindamanna sem höfðu fundið sólkerfi sem hafi plánetur svipaðar jörðinni, þar sem talið er að finna megi líf. Plánetur sem eru þó í tuga ljósára meiri fjarlægð en en þær fjarlægustu í okkar sólkerfi þangað sem Voyager komst nýlega. Með tilliti til vísindalegra mælieininga s.s. ljóshraða og fjarlægðar er ekki nema von að spurningar vakni um hvernig geimvísindamenn komust að þessari niðurstöðu úr fjarlægð sem fyrir örfáum árum síðan var sögð taka mannsaldra að yfirvinna, jafnvel á ljóshraða.

Það þarf að láta sig dreyma eða detta í hug töfrandi skáldskap, nokkurskonar galdur, til að skýra hvernig fjarlægðir og tími er yfirunninn geimvísindalega. Þá er líka skýringin einföld; tíminn er mælieining sem vanalega er sett framan við fjarlægðina að takmarkinu, með því einu að setja þessa mælieiningu aftan við fjarlægðina þá er hægt að komast án þess að tíminn þvælist fyrir, hvað þá ef bæði fjarlægðin og tíminn eru sett fyrir aftan takmarkið.

Þannig draumkennda galdra virðast geimvísindamenn nota við að uppgötva heilu sólkerfin og svartholin í órafjarlægð. En þarna er hvorki um að ræða skáldskap né rökfræði, samt sem áður fullkomlega eðlilegt þegar haft er í huga að tíminn er ekki til nema sem mælieining. Það sama á við um fjarlægðina sem gerir fjöllin blá með sjónhverfingu.

Sjónhverfingar mælieininganna má best sjá í peningum sem eru mælieining á hagsæld. Síðast kreppa íslandssögunnar stóð yfir í góðæri til lands og sjávar, ekkert skorti nema peninga sem eru nú orðið aðallega til í formi digital bókhaldstalna.

Allar mælieiningar búa við þau rök að verða virkar vegna þess samhengis sem við ákveðum þeim. Það dettur t.d. engum í hug að ekki sé hægt að byggja hús vegna skorts á sentímetrum, en flestir vita jafnframt að sentímetrar eru mikið notuð mælieining við húsbyggingar. En varla er hægt að byggja hús nú til dags ef peninga skortir þó nóg sé til af byggingarefni, vinnuafli og sentímetrum.

Svo lengi sem við samþykkjum hvernig með mælieiningarnar skuli farið þá verður okkar veruleiki byggður á þeim, rétt eins og víst er að tveir plús tveir eru fjórir, eða jafnvel verðtryggðir 10, svo lengi sem samkomulagið heldur.

Þeir sem á öldum áður fóru frjálslega með viðurkenndar mælieiningar voru oftar en ekki, rétt eins og nú litnir hornauga, jafnvel ásakaðir um fjölkynngi eða fordæðuskap. Hvoru tveggja eru gömul íslensk orð notuð yfir galdur. Fjölkynngi má segja að hafi verið hvítur galdur þar sem sá sem með hann fór gerði það sjálfum sér til hagsbóta án þess að skaða aðra. Fordæðuskapur var á við svartan galdur sem var ástundaður öðrum til tjóns. Síðan voru lögin notuð til að dæma, og viðurlögin voru hörð.

Nú á tímum er auðvelt að sjá að mælikvarðar laganna sem notaðir voru til að brenna fólk á báli vegna galdurs voru hinn raunverulegi fordæðuskapur. En það var ekki svo auðvelt að sjá galdrabrennurnar í því ljósi á þeim tíma sem mælikvarðar galdrafársins voru í gildi. Rétt eins og nú á tímum eru tölur með vöxtum og verðbótum viðurkenndar sem mælikvarði á hagsæld, burt séð frá dugnaði fólks og hagfelldu árferði, ef reglum mælistikunnar er fylgt. 

Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625, og er 17. öldin stundum kölluð brennuöldin, en talið er að 23 manneskjur hafi þá verið brenndir á báli. Þetta gerðist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu náðu hámarki. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir fjölfrótt fólk þegar þekking þess var lögð að jöfnu við galdra. Tímabil þetta er talið hafa náð hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.

Því hefur verið haldið fram í seinni tíð að geðþótti og fégræðgi valadamanna hafi verið orsök galdrabrenna á Íslandi, en ekki almanna heill. Þorleifur Kortsons sýslumaður í Strandasýslu átti þar stóran hlut að máli umfram aðra valdsmenn, þó er þessi neikvæðu mynd af honum ekki að finna í ritum samtímamanna hans. Hvort þeir hafa haft réttara fyrir sér en þeir sem stunda seinni tíma fréttaskíringar sem gera hann að meinfisum  fjárplógsmanni fer eftir því við hvað er miðað. Þorleifur átti til að vísa málum aftur heim í hérað og krefjast frekari rannsóknar ef honum fannst rök ákærunnar léleg. Röksemdir Þorleifs breytir samt ekki þeim mælikvarða að hann er sá íslenski valdsmaður sem vitað er að dæmdi flesta á bálið.

Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur fyrir kunnáttu sína með rúnir. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, sem og að hafa þekkingu á grösum til lækninga, en slíkt bauð heim galdragrun.

Hin fornu fræði, sem í dag eru talin til bábilja, sem var svo viðsjálfvert að þekkja á 17. öldinni voru á öldum þar áður talin til þekkingar. Í fornsögunum má víða lesa um hvernig fólk færði sér þessa þekkingu í nyt. Eru margar frásagnir af þeim fræðum hreinasta bull með mælikvörðum nútímans. Nema þá kannski geimvísindanna.

Egilssaga segir frá þekkingu Egils Skallagrímssonar á rúnum og hvernig hann notaði þær í lækningarskyni þar sem meinrúnir höfðu áður verið ristar til að valda veikindum. Eins notaði hann þessa þekkingu sína til að sjást fyrir sér til bjargar í viðsjálu.

Grettissaga segir frá því hvernig Grettir var að lokum drepinn út í Drangey með galdri sem flokkaðist undir fordæðuskap og sagan segir líka hvernig sá sem átti frumkvæðið af þeim galdri varð ógæfunni að bráð með missi höfuðs síns.

Færeyingasaga segir frá því hvernig Þrándur í Götu beitti galdri til að komast að því hvað varð um Sigmund Brestisson og lýsir hvernig hann leiddi fram þrjá menn til vitnisburðar sem höfðu verið myrtir.

Í Eiríkssögu rauða segir frá Þorbjörgu lítilvölvu, sem sagan notar orðið "vísindakona" yfir, þar sem hún breytir vetrarkulda í sumarblíðu. Þetta gerði Þorbjörg vísindakona á samkomu sem líst er í sögunni, sem tilkomu mikilli skrautsýningu með hænsnafiðri og kattarskinni svo áhrifin yrði sem mest. Þar voru kyrjaðar varðlokur sem þá var kveðskapur á fárra færi, svona nokkurskonar Eurovision.

Allar sagnir af galdri bera það með sér að betra er að fara varlega þegar hann er við hafður, því fordæðuskapur þar sem vinna á öðrum mein kemur undantekningalaust til með að hitta þann illa fyrir sem þeim galdri beitir. Hins vegar má sega að fjölkynngi hafi oft komið vel og til eru heimildir um fólk sem slapp við eldinn á brennuöld vegna kunnáttu sinnar. Má þar nefna heimildir tengdar Jóni lærða Guðmundssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur Galdra Imbu.

Nú á tímum er gengið út frá því að snilli mannsandans sé hugsunin, sú sem fer fram í höfðinu. Á meðan svo er þá er rökfræðin oftast talin til hins rétta og ekki rúm fyrir bábiljur. Jafnvel þó svo að rökfræðin takamarki okkur í að svara sumum stærstu spurningum lífsins, líkt og um ástina, sem seint verður svarað með rökum.

Áskoranir lífsins eru náttúrulega mismunandi eins og þær eru margar, sumar eru rökfræðilegar, á meðan öðrum verður ekki svarað nema með hjartanu. Svo fjölgar þeim stöðugt nú á 21. öldinni, sem þarfnast hvoru tveggja.

Það er sagt að heilinn ráði við 24 myndramma á sekúndu sem er ekkert smáræði ef við búum til úr þeim spurningar sem þarfnast svara. Svo er sagt að við hvert svar verði til að minnsta kosti tvær nýjar spurningar. Upplýsingatækni nútímans ræður við, umfram mannsheilann, milljónir svara sem býr til síaukinn fjölda spurninga á sekúndu. Þannig ætti hver viti borinn maður að sjá að rökhugsun mannsins ein og sér er ofurliði borin.

Því er tími innsæisins runnin upp sem aldrei fyrr. Þess sem býr í hjartanu, því hjartað veit alltaf hvað er rétt. Nútíma töframenn vita að galdur felur í sér visku hjartans við að koma á breytingum í hugarheiminum, sígilda visku Gandhi þegar hann sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum".

Fólk á brennuöld gat verið sakað um galdur fyrir það eitt að fylgja innsæinu opinberlega. Langt fram eftir síðustu öld fann hinsegin fólk sig knúið til að vera í felum vegna fordóma ef það opinberaði hjarta sitt.

Galdur sem fjölkynngi er byggður á margþættri vísindalegri greind, á tónum mannsandans þegar hann hefur slitið sig úr viðjum tíðarandans til að njóta töfra tímaleysisins og verður því sjaldnast sýnilegur með mælikvörðum samtímans, því ef svo væri gengi fjölkunnáttan oftar en ekki í berhögg við lög fordæðunnar.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband