3.12.2017 | 07:36
Flestir gera sér ekki grein fyrir hvað er í vændum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2017 | 21:14
Myrkurtíð
Passið ykkur á myrkrinu var hinn þjóðkunni útvarpsmaður, Jónas Jónasson, vanur að segja við gesti sína í lok þátta á gufunni í denn. Árni Tryggvason leikari átti gott með að fá fólk til að hlæja, en talaði líka um svarta hundinn sem ætti það til að glefsa í skammdeginu. Þó rétt sé að passa sig á svörtum hundum myrkursins, þá felst sú þversögnin í ógnum skammdegis myrkursins að það getur þurft að draga sig úr erli dagsins og stíga út fyrir raflýsingu borga og bæja til að sjá ljós dagsins, svo skær er sjónhverfing rafljósanna.
Það virðist vera fjarlægt íslensku þjóðarsálinni að njóta kyrrðar hinnar myrku árstíðar og hægja á erli dagsins í takt við sólarganginn, líkt og náttúran gerir um þetta leiti. Fyrir norðan heimsskautsbaug kemst sólin ekki einu sinni upp yfir hafflötinn um nokkurt skeið á ári hverju. Margar byggðir Noregs eru langt fyrir norðan heimskautsbaug og því eiga norðmenn sér angurværa söngva um fallega bláa ljósið sem fylgir dimmri árstíðinni. Nú mætti halda að þar sem skammdegið er svo mikið að sólin nái ekki einu sinni að kíkja upp fyrir hafflötinn ríki algert myrkur jafnt á lofti og láði, sem í sál og sinni, en svo er ekki bjartur dagurinn er á himninum og kastar blárri birtu yfir freðna jörð.
Þó svo skammdegið eigi það til að vera erfitt með öllum sínum andans truntum þá er það sá tími sem mér finnst maður komast einna næst kjarna tilverunnar. Þetta er sá tími sem ég hugsa venju fremur til þeirra sem horfnir eru og voru mér kærir. Því er það kannski bara eðlilegt að það dragi úr athafnaþránni í myrkrinu og tíminn fari í að leita inn á við. Það er kannski líka heldur ekki undarlegt að vísindin hafi lagt talsvert á sig með gleðipillum og skærum ljósum við að forða fólki frá skammdegis hugans mórum og skottum, sem þjóðsagan hefur gert skil í gegnum tíðina. Það væri nefnilega stórvarasamt fyrir hagvöxtinn ef við kæmumst ævinlega að þeirri niðurstöðu að það sem er dýrmætast fáist ekki fyrir peninga.
Þegar ég var í þriggja ára Noregs útlegð, og saknaði fjölskyldunnar hvað mest heima á landinu bláa, þá bjó ég án sjónvarps og útvarps, en með skaftpott og örbylgjuofn. Þar gafst tími til að uppgötva aftur skammdegi bernskunnar, með því að stíga út fyrir raflýsinguna og paufast á svellum um nes niður við sjó og horfa út yfir Vogsfjörðinn. Það var eitthvað þarna í skímunni, sem gerði að það sást út yfir allan tíma, ég var aftur orðinn þriggja ára drengur í heimsókn með mömmu og pabba hjá afa og ömmu í Vallanesinu. Þarna í fjörunni sá ég alla leið yfir hafið og heim, þar sem augnablikið er alltaf það sama þó svo það komi aldrei til baka.
Á 69°N, þar sem sólin kemur ekki upp úr sjónum vikum saman, er þessi bláa angurværa og órafmagnaða birta kölluð mørketid sem mundi útleggjast á íslensku myrkurtíð.
Ps. Myrkan norskan sálm má nálgast hér
Dægurmál | Breytt 6.1.2018 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2017 | 22:26
Skessugarðurinn; á sér enga líka
Gamli vegurinn um Jökuldalsheiði og Möðrudalsfjallgarða liggur um ævintýraleg hrjóstur. Hann var áður þjóðvegur nr. 1, eða allt fram undir árslok 2000 þegar Hárekstaðaleið leysti hann af hólmi. Þessi vegur hefur núna síðustu árin komist inn á gps punkta erlendra ferðamann.
Ferðamenn á Möðrudalsfjallgarði-vestari virða fyrir sér Möðrudal
Þó svo að ég hafi farið þennan veg oftar en tölu verður á komið frá því fyrst ég man eftir, þá eru þau undur, sem við veginn liggja enn að koma á óvart. Sum þeirra hafa farið fram hjá mér alla tíð vegna þess að þarna er um öræfi að fara, sem þurfti að komast yfir á skemmstum tíma.
Eitt af þeim undrum, sem ég uppgötvaði ekki fyrr en fyrir 5 árum síðan, vegna þess að mér var þá bent á það er Skessugarðurinn, sem er á Grjótgarðahálsi 2 km innan við veginn þar sem hann þverar hálsinn. Skessugarðurinn sést vel frá veginum en einhverra hluta vegna hefur hann ekki gripið athyglina umfram aðra urð og grjót við veginn í gegnum tíðina. En eftir að ég vissi af honum hefur hann dregið mig til sín hvað eftir annað.
Gamli þjóðvegur nr 1 um Geitasand, sem er á milli Möðrudalsfjallgarða
Það hefur verið fámennt við Skessugarðinn í þau skipti sem ég hef komið og virðist hann ekki hafa vakið eftirtekt ferðamanna frekar en mína í hálfa öld. En þetta gæti nú farið að breytast og er þá eins víst að Grjótgarðaháls gæti orðið eins og hver önnur Reynisfjara þar sem ferðafólk mátar sig í umhverfi sem einna helst má líkja við tunglið.
Vísindalega skýringin á Skessugarðinum er að þarna hafi Brúarjökull skriðið fram og skilið eftir sig ruðning. En hvernig það stendur á því að aðeins risasteinar eru í þessum ruðningsgarði er erfiðara að skýra. Telja vísindamenn einn helst að hamfara flóð hafi skolað öllum fínefnum og smærri steinum úr garðinum þó svo að erfitt sé að ímynda sér hvernig. En jökulruðnings skýringuna má sjá hér á Vísundavefnum og segir þar að hér sé um að ræða fyrirbæri, sem á fáa eða enga sína líka í heiminum.
Heljardalur við Möðrudalsfjallgarð-eystri
Önnur skíring er sú að tvær tröllskessur hafi hlaðið garðinn og verður það alveg að segjast eins og er að sú skýring er mun sennilegri. Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna skessu skýringuna á fyrirbærinu:
"Það er gömul tíska á Austurlandi að kalla Möðrudals- og Tungnaheiði Norðurheiðina en Fljótsdalsheiðina Austurheiði. Mun það runnið upp á Jökuldal því hann gengur sem kunnugt er inn á milli þessara heiða.
Svo er sagt að til forna bjó sín skessan í hvorri heiði og voru þær systur; er við Fljótsdalsheiðarskessuna kenndur Skessustígur í Fljótsdal. Skessurnar lifðu mest á silungsveiði og fjallagrösum er hvort tveggja var nægilegt í heiðum þessum en þrátt fyrir það nægði hvorugri sitt hlutskipti og stal hvor frá annarri; gengu þær yfir Jökulsána á steinbrú ofarlega á Dalnum.
Einu sinni hittust þær og slóst þegar í heitingar með þeim og álög. Norðanskessan mælti þá: "Það legg ég á og mæli um að allur silungur hverfi úr Austurheiðarvötnunum í Norðurheiðavötnin og sérðu þá hvern ábata þú hefur." Austanskessan greip þegar orðið og mælti: "En veiðist treglega og komi jafnan á sporðinn og það legg ég á enn fremur að öll fjallagrös hverfi úr Norðurheiði í Austurheiði og mun þetta þá jafna sig."
"Haldist þá hvorugt," sagði norðanskessan. "Jú haldist hvoru tveggja," mælti hin og hefur af þessu eigi brugðið síðan að nægur þykir silungur í Norðurheiðinni en veiðitregur og kemur jafnan öfugur upp en í Austurheiði skortir eigi fjallagrös.
Þegar stundir liðu fram undi hvorug þeirra sínum hlut að heldur og stálu hvor enn frá annarri á mis og þó austanskessan enn meir. Reiddist norðanskessan því og brá þá fæti á steinbogann og braut hann af ánni. Systir hennar varð samt ekki ráðalaus og annaðhvort stökk yfir ána eða óð hana þegar henni sýndist. Lögðu þær þá enn mót með sér og sömdu mál sín á þann hátt að þær skyldu báðar búa í Norðurheiðinni og skipta landi með sér til helminga.
Tóku þær þá til starfa og ruddu síðan stórbjörgum og hlóðu merkisgarð þann er æ síðan heitir" Skessugarður (tröllkonugarður)..... og er þess eigi getið að þeim hafi borið síðan neitt á milli."
Nú hefur erlendur ferðabloggari uppgötvað Skessugarðinn og birt þaðan myndir á bloggsíðu sinni auk þess að birta video á youtube þannig að ekki er víst að eins friðsælt verði við Skessugarðinn og hefur verið frá því skessurnar sömdu um friðinn.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 23.10.2017 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2017 | 15:52
Veturnætur
Þessir tveir síðustu dagar sumars, fimmtudagurinn í dag og föstudagurinn á morgunn, voru kallaðir veturnætur samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Íslenska tímatalið var notað þar til það júlíanska, eða nýi stíll, tók við og hlutar þess jafnvel fram á 20.öldina. Mánaðaheiti gamla tímatalsins miðast við árstíðir náttúrunnar. Því er skipt í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Þannig hefst mánuðurinn á ákveðnum vikudegi, en ekki á föstum tölusettum degi ársins.
Árið var talið í 52 vikum og 364 dögum. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var m.a. skotið inn svokölluðum sumarauka. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær veturnætur og varð sumarið því alls 26 - 27 vikur og tveir dagar. Í mánuðum taldist árið vera 12 mánuðir þrjátíu nátta og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumaraukinn taldist heldur ekki til neins mánaðar.
Veturnætur voru forn tímamótahátíð sem haldin var hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni. Heimaboða, sem kölluðust dísarblót, er getið í fornsögum og eiga að hafa átt sér stað fyrir kristnitöku. Blót þessi munu hafa verið haldin í námunda við veturnætur eða á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir. Heimboða um veturnætur er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu.
En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Vetur konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þessa árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld stendur, öllu verri er veturinn en Tyrkinn. Ekki er vitað hve hefðin er gömul, minnst er á veturnætur í ýmsum íslenskum handritum þótt ekki komi fram nema mjög lítið um hvernig hátíðin fór fram. Í Egils sögu, Víga-Glúms sögu og fleiri handritum er þar einnig minnst á dísablót sem haldin voru í Skandinavíu í október og má skilja á samhengi textanna þar að þau hafi verið haldin í námunda við vetrarnætur.
Dísir voru kvenkyns vættir, hugsanlega gyðjur eða valkyrjur og vetrarnætur því oft kenndar við kvenleika. Talið er að kvenvættir líkar Grýlu og nornum úr evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessum fornu dísum. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýra og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar. Eftir að norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa kirkjunnar, sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember, ímynd þessara hausthátíða. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna því að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum og dísablótum eða öðrum heiðnum hausthátíðum.
Helsta einkenni gamla íslenska tímatalsins er hversu nátengt það var hringrás náttúrunnar. Á meðan tímatal seinni tíma er tengt trúarhátíðum kirkju og nú síðast neyslu. Reyndar er tímatal nútímans svo ótengt hringrás náttúrunnar að við notumst enn þann dag í dag við gamla tímatalið til skipta árstíðum náttúrunnar, t.d. sumardaginn fyrsta og fyrsta vetrardag. Tímatal nútímans heggur sífellt nær neytandanum með sínum svarta föstudegi og trúarhátíð vantrúar, sem barðist fyrir bingói föstudaginn langan svo megi hafa búðina opna dagana alla. Hafa þannig trúarhátíðir kirkjunnar smá saman orðið að hátíðum Mammons. Þannig má nú varla finna orðið dag allan ársins hring, sem ekki er helgaður neytandanum. Svo ágeng er neyslan hina myrku daga eftir veturnætur, að jafnvel hátíð ljóssins getur orðið sumum fyrirkvíðanleg.
Hægt ég feta hálan veg,
heldur letjast fætur.
Kuldahretum kvíði ég,
komnar veturnætur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2017 | 20:41
Héraðssandur
Það hefur ekki farið framhjá neinum hvað svartur sandur er "inn" þessi misserin. Svartir sandar, hrjóstur og örfoka land eru heimsótt af fólki úr öllum heimshlutum í von um að upplifa ævintýrið undir skini miðnætursólar eða norðurljósa. Í stærstum hluta heimsins svipar nútíma landslagi meira til afþreyingar en ævintýris. Þess vegna þykja svartir sandar og hrjóstur Íslands ævintýralega óbeisluð þó svo á hafi gengið með sáningu Alaska lúpínu, Beringspunts og gróðursetningu Síberíu lerkis í boði ríkisins. Svo hefur náttúran sumstaðar fengið að sjá um sig sjálf líkt og á Skeiðarársandi þar sem óvænt er að vaxa upp einn fallegasti birkiskógur landsins.
Það er svo sem ekkert skrítið að óþolinmæði hafi verið farið að gæta vegna þess hvað náttúrunni gengi hægt að græða upp sandauðnir Íslands og ekki datt nokkrum heilvita manni í hug fyrir nokkrum árum að hægt væri að byggja ferðamannaiðnað á örfoka landi. Nútíminn er hraðans og neyslunnar, þar af leiðandi allt miðað við getu meðalmannsins til að kaupa sér afþreyingu. Þannig hefur ferðaþjónusta orðið af skiptimynnt til þeirra sem hafa efni á að ferðast. Þess vegna hefur náttúran víðast hvar í heiminum verið markaðsvædd og hún mótuð í manngerða landslagspakka. Nema á stöðum eins og á Íslandi þar sem enn má finna víðáttur svartra sandauðna, þó svo flestir erlendir ferðamenn láti sér nægja valda útsýnistaði á við Reynisfjöru, Skógasand og Dyrhólaey.
Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég tal við Amerísk hjón sem voru á ferð um landið. Eftir að hafa komist að því að þau voru ekki "meðaltals" ferðamenn sem bruna hringinn á 3-4 dögum, heldur höfðu tekið sér 4 vikur til að skoða Ísland, sperrtust eyrun. Þau sögðu í stuttu máli að við íbúarnir virtumst ekki gera okkur grein fyrir í hverskonar ævintýri við lifðum, milli svartra sanda, hárra fjalla og friðsælla auðna. Sjálfsagt ættum við okkar vandamál eins og aðrir íbúar heimsins, en guð minn góður dagar þeirra í þessu landi væri á við andlega heilun; - þessi hjón voru reyndar frá New York.
Við sem höfum farið í gegnum tíðina með verðtryggðu vistarbandi, veðrabrigðum vetrarins og hamförum íslenskrar náttúru vitum að það er ekki alveg svo, þrátt fyrir svarta sanda. En samt sem áður mættum við vekja okkur oftar til vitundar um kostina við að búa í örfoka landi, sem sumir segja að minni á tunglið, stað sem fáir hafa á komið. Hvað mig varðar þá hafa svörtu sandarnir verið hluti af mínu lifibrauði í gegnum árin, sem múrari hef ég notað þá í byggingarefni, það er að segja í steypu og pússningarsand. Samt hafa auðnir og kyrrð sandanna alltaf heillað, svo ekki sé talað um þar sem úthafshaldan brotnar á þeim í fjörunni.
Þrátt fyrir allan túrismann má víða finna staði á Íslandi þar sem hægt er að njóta friðsældar, jafnvel andlegrar heilunar og yfirleitt þarf ekki að leita langt yfir skammt. Núna í veðurblíðu síðustu daga sporuðum við hjónin berfætt um sand sem er því sem næst við útidyrnar. Fyrir botni Héraðsflóa breiðir úr sér um 25 km löng svört sandströnd sem kölluð er Héraðssandur eða Héraðssandar. Þau er þrjú stórfljótin sem falla í Héraðsflóann. Selfljót er austast með ós undir Vatnsskarði, Lagarfljót og Jökulsá á Dal sem hafa sameiginlegan ós fyrir miðjum flóanum, svo fellur Kaldá vestast með ós undir Hellisheiði.
Sandurinn er að mestu komin úr meira en 120 km fjarlægð frá Brúarjökli sem er skriðjökull í norðanverðum Vatnajökli. það stórfljót sem bar mest af sandi í Héraðsflóann var Jökulsá á Dal áður en hún myndaði Hálslón Kárahnjúkavirkjunar en á nú að mestu sameiginlegan farveg með Lagarfljóti stærstan hluta ársins. Hvort sú staðreynd að Jökulsá á Dal er ekki lengur til sem stórfljót muni hægja á sandburði fram í Héraðsflóann á eftir að koma í ljós. En ekki er ósennilegt að eitthvað af þeim framburði sem hún hefur séð um að flytja í gegnum tíðina sitji hér eftir á botni Hálslóns og Lagarfljóts. Hvar eiginlegur Héraðssandur byrjar og hvar hann endar afmarkast af fjallgörðunum að austan og vestan, en hvað hann nær langt inn á Hérað er ekki eins auðséð.
Þegar gengið er út að sjávarmáli er svartur sandur um 2 km leiðarinnar, en þar fyrir innan gróið land, seftjarnir, grasmóar og mýrar á flatlendinu. Þar sem landið fer að hækka í suðri er Jórvík, þaðan eru 7,5 km norður til sjávar. Skammt frá Jórvík er Arnarbæli sem hefur að geyma fornar rústir sem sumir vilja meina að gæti hafa verið hafnabær á fyrri tímum. Ef Jórvík hefur nánast staðið við sjó á landnámsöld þá skýrir það vel hversvegna ysti hluti flatlendisins á Héraði nefnist Eyjar. Því hefur framburður stórfljótanna verið gríðarlegur í gegnum aldirnar og má þá segja að Héraðssandar þeki nú um 200 ferkílómetra og umlykja þær eyjar sem voru í minni Héraðsflóans við landnám.
Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær;
Horft yfir Héraðsflóa að austan frá Vatnskarði. Ljósgrýti er í fjöllum beggja megin flóans
Horft yfir Héraðsflóa að vestan, frá Hellisheiði. Framburður Lagarfljóts litar sjóinn marga km út frá ströndinni
Þegar farið er út á Héraðssand er fyrst komið á flatlendis móum með mýrum og tjörnum. Gönguleiðin út að sjávarmáli er 3 - 5 km
Rétt innan við sandinn eru harðbalar með hrossnál og sandblautum sefi vöxnum mýrum á milli
Það þarf víða að vaða áður en komið er út í sandhólana sem varða síðasta spölinn
Þegar ströndin nálgast er eins km kafli þar sem er gengið á milli hárra sandhóla, grónum melgresi
Til að hafa sig af stað er gott að gera sér erindi, því ferð á Héraðssand er nánast dagsferð. Í þetta sinn var erindið að safna melkorni
Úti við Atlantshafið blasa við, því sem næst, óendanlegir svartir sandar til beggja átta
Uppruna Héraðssands er að finna 120 km innar í landinu við Vatnajökul. Myndin sýnir hvernig umhorfs er við sporð Brúarjökuls seinnipart sumars
Af setinu, sem vel sést á árbökkunum á þessari mynd, má sjá hvað framburður jökulsins er afgerandi. Myndin er af Töfrafossi, sem var einn af fimm stærstu fossum landsins, en er nú á botni Hálslóns og kemur aðeins í ljós fyrripart sumars þegar lítið er í lóninu
Kárahnjúkastífla við Fremri-Kárahnjúk. Stíflan myndar Hálslón sem er um 57 ferkílómetrar. Fremst á myndinni, við hlið stíflunnar, má sjá yfirfallsrennu lónsins
Hálslón á yfirfalli, bráðnun Brúarjökuls streymir um rennuna niður í farveg Jökulsár á Dal
Á Kárahnjúkastíflu, yfirfall Hálslóns myndar einn af stærri fossum landsins, þar sem það fellur niður í Dimmugljúfur í fyrrum farvegi Jökulsár á Dal
Héraðsflói, á loftmyndinni má vel greina sameiginlegan ós Lagarfljóts og Jökulsár á Dal og þann gríðarlega framburð af sandi sem Jökla ber með sér þann tíma sem hún rennur í öllu sínu veldi, þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun
Ferðalög | Breytt 21.1.2018 kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2017 | 22:25
Algjör steypa
"Það er merkilegt hvað þessi kalla andskoti getur flutt sömu gröfuskófluna fram til baka, hann er búin að vera að flytja hana frá því ég man eftir mér", sagði vinnufélagi minn einn góðviðris morguninn núna í vikunni. Sá með skófluna hafði heyrt og kom kjagandi til okkar og sagði; "það er alveg sama hvað maður á góða gröfu hún gerir ekkert nema hafa skóflu".
Það er orðið svolítið síðan ég hef sett steypu hérna inn á síðuna, en það er ekki vegna þess að það sé ekki verið steypa. Ég var farin að halda fyrir nokkrum árum að ungir menn á Íslandi ættu ekki eftir að steypa og sú virðulega athöfn færi algerlega í hendurnar á pólverjum og öðrum aðfluttum víkingum eftir að við gömlu steypukallarnir brennum út.
Gamli Breiðdælingurinn sem bjástraði við gröfuskófluna sagði eftir að hann hafði útskýrt þetta með gröfuna og skófluna -"Þurfið þið ekkert að vinna strákar mínir og ert þú ennþá að þvælast í kringum steypu, geturðu kannski eitthvað sagt þessum fuglum til?" -"Nei þeir gera þetta bara einhvernvegin, sama hvað ég segi", svaraði ég. -"Og verður þá engin óður lengur, eins og í almennilegri steypu? -"Nei það er orðin afturför í öllu".
Líkt og maðurinn með skófluna þá man ég ekki eftir öðru en steypa hafi verið mitt líf og yndi. Þó svo mikið hafi verið haft fyrir því að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér úr steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta í meira en fjörutíu ár. Mér var sagt að ég hefði ekki skrokk í erfisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bóknáminu.
Núna öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta hvers dags aðeins betur og æsa mig örlítið minna. Því eftir muna standa verkin sýnileg, þó svo vissulega hefði getað verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum, þá jafnast ekkert á við varanleg minnismerki.
Það er gott að eiga félaga sem leyfa manni að steypa af og til sér til samlætis, þeir þurfa allavega ekki í ræktina ungu mennirnir til að halda sér formi.
Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2017 | 20:48
Íslenski torfbærinn - húsagerðarlist á heimsmælikvarða
Löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, byggðu Íslendingar umhverfisvæn hús án þess að vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru en á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum eins og "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið athygli og talin eiga erindi á heimsminjaskrá.
Hinn íslenski torfbær þróaðist út frá langhúsunum, norður-evrópskri byggingarhefð, sem fylgdi landnemunum er þeir námu hér land. Eins og nafnið gefur til kynna þá er torf meginefni bygginganna. Timbur var notað í grindina og klæðningu innanhúss en torf var notað til að mynda veggi og þak. Stundum voru steinar notaðir ásamt torfinu í veggi og steinskífur voru stundum nýttar undir þakið.
Ef það er hægt að eyrnamerkja byggingalist sérstöku landi eða þjóð öðrum fremur, þá er það þegar byggt er úr byggingarefninu sem er á staðnum og með hugviti íbúanna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga orð alþýðumannsins Sveins Einarssonar torfbæjahleðslumeistara frá Hrjót; "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".
Einnig er rétt í þessu sambandi að rifja upp orð heimsmannsins Halldórs Laxness, sem einn íslendinga hefur hlotið Nóbelsverðlaun; "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."
Undanfarin fjögur ár hefur þessi rammíslenska byggingarhefð fangað huga minn á þann hátt að ég hef varla látið fara forgörðum tækifæri til að kynna sér gamla torfbæi þar sem ég hef verið á ferð. Mest sé ég þó eftir hvað ég lét framan af ævi "moldarkofa" máltækið villa mér sýn. Árið 2013 vann ég part úr sumri við að koma steinum í gamla veggi samísks moldarkofa í N.Noregi. Við þá vinnu kviknaði áhuginn á hinni íslensku arfleið. Undanfarin 4 ár hef ég heimsótt margan torbæinn og tóftarbrotið eins og hefur mátt greina hér á síðunni. Myndavélin hefur oft verið með í för og ætla ég nú að gera lítillega grein fyrir þessu áhugamáli.
Glaumbær - Skagafirði
Gamli bærinn í Glaumbæ var friðlýstur árið 1947. Sama ár flutti síðasta fjölskyldan úr bænum. Gamli bærinn tilheyrir húsasafni þjóðminjasafnsins en Byggðasafn Skagfirðinga hefur hann til afnota fyrir sýningar. Húsin hafa staðið á bæjarhlaðinu í meira en 1000 ár eða allt frá 11. öld en talið er að bærinn hafi áður staðið í túninu austan við bæjarhólinn. Glaumbær er með veglegri torfbæjum landsins og hefur frá aldaöðli talist til höfðingjasetra. Guðrún Þorbjarnardóttir og Þorfinnur Karlsefni eignuðust Glaumbæ eftir farsaæla Vínlandsferð. Þar bjó eftir þau Snorri sonur þeirra sem er fyrsta evrópska barnið sem sögur fara af að hafi fæðst á meginlandi Ameríku. Varðveisla Glaumbæjar er ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka, en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu hans strax árið 1938.
Glaumbær er sennilega torfríkasti bær landsins, því varla er grjót að finna í Glaumbæjarlandi. Bærinn er því gott dæmi um hinar ýmsu aðferðir við að búa til byggingarefni úr torfi s.s. klömbruhnausa, sniddur og strengi sem bundu saman vegghleðslurnar.
Burstafell - Vopnafirði
Burstafell er einn af fegurstu torfbæjum á Íslandi. Sérstaða bæjarins felst að miklu leyti í því hversu glöggt hann miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Sama ættin hefur búið á Burstarfelli í tæplega 500 ár. Bærinn telst til betri bæja enda var setur sýslumanna að Burstafelli á öldum áður.
Burstafellsbærinn sýnir vel hvað strengur úr torfi í bland við grjót var algeng byggingaraðferð austanlands, en lítið um klömbruhnausa. Búið var í bænum fram á sjöunda áratug 20. aldar og tók hann breytingum samkvæmt tímanum t.d. er bárujárn undir torfþekjunni.
Galtarstaðir fram - Hróarstungu
Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornri gerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Bærinn er með svokallaðri fjósbaðstofu. Baðstofuloftið var þá yfir fjósinu og ylurinn af kúnum nýttist til húshitunar. Bærinn er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og velur þjóðminjasafnið að kalla byggingarstíl bæjarins "svokallaða Galtarstaðagerð" má ætla að þessi húsaskipan hafi verið algeng í bæjum alþýðufólks á Austurlandi, eða á svokölluðum kotbæjum. Byggingarstíllinn var t.d. mjög svipaður á Þuríðarstöðum í Eyvindarárdal.
Galtastaðir eru í Tungunni u.þ.b. 15 min. akstur frá Egilsstöðum. Bærinn er lokaður almenningi og því ekki hægt að komast inní hann. Það væri verðugt verkefni að gera Galtastaðabæinn sýningarhæfan sérstöðu hans vegna. Áfast gamla bænum er nýrra hús sem búið var í þar til búsetu á Galtastöðum lauk fyrir nokkrum árum. Nokkur stök útihús úr torfi eru í námunda við bæinn.
Laufás - Eyjafirði
Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni en í elsta hluta gamla bæjarins sem nú stendur er talið að séu viðir allt frá 16. og 17. öld. Bærinn kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvaður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur. Laufás hefur því talist til höfðingjasetra og algengt var að tuttugu til þrjátíu manns væru til heimilis í Laufási, því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð.
Bæjarhúsin á Laufási eru byggð úr torfi og grjóti. Þar má sjá listilega fallegt handverk s.s. klömbruveggi samanbundna með streng. Matjurtagarði haganlega fyrirkomið inn á milli húsanna og hlaðið fyrir með grjóti.
Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843. Búið var í bænum í heila öld. Flutt var úr bænum árið 1943. Árið 1992 lét Jökuldalshreppur endurbyggði bæjarhúsin. Þar er nú rekin ferðaþjónusta. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu Sjálfstætt fólk. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar.
Bærinn í Sænautaseli er lifandi dæmi um þá útsjónasemi sem þurfti til að byggja hús fjarri mannabyggðum. Þar viðhafði Sveinn Einarsson frá Hrjót orðin "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum", þegar hann endurbyggði bæinn ásamt ungdómnum á Jökuldal.
Lindarbakki - Borgarfirði eystra
Lindarbakki er lítið torfhús, upphaflega byggður sem þurrabúð rétt fyrir aldarmótin 1900. Búið var í húsinu fram undir lok 20. aldar en nú er það sumarbústaður. Sennilega er þetta eitt mest ljósmyndaða hús á Borgarfirði.
Það má segja að húsið beri íslenskri húsagerðarlist vitni á fleiri en einn hátt. Auk þess að vera úr torfi eru stafnar þess bárujárnsklæddir.
Skógar - undir Eyjafjöllum
Gamli torbærinn að Skógum samanstendur af krossbyggðu fjósi frá um 1880, skemmu frá um 1830, baðstofu frá um 1850, stofu frá um 1896 og svefnherbergi frá 1838. Bærinn er hluti af byggðasafninu á Skógum. Gömlu húsin voru endurbyggð 1968 og hafa frá þeim tíma verið einn megin þáttur safnsins að Skóum. Byggðasafnið á Skógum er stórt og mikið safn. Þar er m.a. samgöngusafn þar sem má skoða gamla bíla.
Í bæjarhúsunum á Skógum sést vel hvað grjót spilar stórt hlutverk í sunnlenskum torfbæjum. Undir torfi í þökunum er steinhellum raða til að gera þau vatnsheld, sem var algengt sunnanlands á meðan hrís var oftar notað undir torf í þaki og þau þétt með kúamykju ef með þurfti þar sem veðrátta var þurrari.
Hof - Öræfum
Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954.
Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju er ekki síður athyglisverður, með öllum sínum upphleyptu leiðum þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa ofan í svörðinn.
Hrútshóll - undir Eyjafjöllum
Manngerðir hellar eru víða á Suðurlandi, vitað er um hátt á annað hundrað manngerða hella syðra á meðan aðeins er vitað um fjóra nyrðra. Hrútshellir einn af þeim merkari, framan við hann er hlaðið fjárhús úr torfi og grjóti. Inn af því eru tveir hellar höggnir í móbergið. Stór hellir sem notaður er sem hlaða og er um 20m langur. Annar lítill gengur þvert á þann stóra og er kallaður Stúkan. Dr. Walter Ghel rannsakaði Hrútshelli árið 1936 og komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði verið heiðið hof. Ristir hafa verið krossar í hellin sem bæði geta vísað til heiðinna og kristinna tákna.
Færeyskt hús - Kunoy
Þetta hús gekk ég fram á í Kúney snemma í sumar. Færeyingar hafa notað grjót í veggi og torf á þök húsa í gegnum tíðin. Mikinn fjöldi þesskonar húsa má finna uma allar eyjarnar, jafnvel heilu þorpin. Í mörgum þeirra er enn búið en þetta hús er sennilega notað sem sumarhús. Færeyingar hafa lagt mun meiri rækt við að varðveita byggingarsögu sína en Íslendingar.
Vilgesvárre - Troms
Til gamans læt ég fylgja með litla kofann í Bláfjöllum N.Noregs sem varð til þess að áhuginn á torfbænum kviknaði. Þetta er Samaískur torfbær sem Samarnir kalla Gámma. Vilgesvárra var í ábúð sömu fjölskyldunnar í 90 ár samtímis heiðarbýlunum í Jökuldalsheiðinni. Búset hófst þar af sömu ástæðum og á heiðarbýlum Íslands þ.e.a.s. vegna skorts á landnæði. Vilgesvárre er nú Samískt safn.
Upp í Bláfjöllum, í Vilgesvárre upplifði ég þá reynslu að gistaí torfbæ víðsfjarri mannabyggðum. Án rafmagns, rennandi vatns og allra nútímaþæginda. Vatnsbólið var í túnfætinum neðan við bæinn, eldavélin var gömul viðareldavél og moldargólf í framhelmingnum en þiljuð vistarvera þar sem var sofið og eldað.
Það væri hægt að segja svo miklu meira um torfbæina, en suma þeirra hef ég aðeins átt kost á að skoða að utan. Þeir sem eru opnir almenningi eru yfirleitt söfn. Þeir eru oftar en ekki stút fullir af erlendum feðamönnum og þegar inn er komið er þar heil veröld annars tíma, en hér læt ég staðar numið.
Hús og híbýli | Breytt 26.11.2017 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2017 | 21:24
Himnaríki eða helvíti sjálfstæðs fólks
Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri furðu ljótur, heldur þótti Mývatsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því. Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kendi Jónas Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag. Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynnslu og horfa út um glugga uppí sveit.
Þennan texta má finna í bókinni "Reginfjöll að haustnóttum" eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldastöðum efri, og er í formála bókarinnar, sem Nóbelskáldið skrifaði. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér framan af ævi og fyrri alda íslendingum, að hafa ekki þótt mikið til fegurðar fjallana koma frekar en annarra faratálma.
Á seinni árum hefur komist í tísku að kalla stóran hluta heiða, fjalla og óbyggða Austurlands, víðernin norðan Vatnajökuls. Hluti þessara víðerna er svæði sem oft er kallað Jökuldalsheiðin og er jafnvel talið að Nóbelskáldið hafi sótt þangað efniviðinn í sína þekktustu bók Sjálfstætt fólk. Þar hafi Bjartur í Sumarhúsum háð sína sjálfstæðisbaráttu.
Það má segja að það hafi ekki verið fyrr en í fyrrasumar að ég fór að gefa Jökuldalsheiðinni gaum þó svo að hún hafi allt mitt líf verið í næsta nágrenni og ég hafi farið hana þvera oftar en tölu verður á komið, þó svo að ég hafi ekki fyrr en fyrir nokkrum árum áttað mig á helgi hennar. En eftir að hún fangaði athygli mína má segja að hún hafi haft hana óskipta eins og Hjaltastaðaþingháin hefur fengið að finna fyrir síðustu árin.
Sænautasel stendur við suðurenda Sænautavatns
Í síðustu viku keyrði ég, ásamt Matthildi minni og Helga frænda mínum sem var í Íslandsheimsókn frá Ástralíu, heiðina þvera og endilanga. Sú leið lá frá Kárahnjúkum út á miðheiðina við Sænautavatn fyrsta daginn, þar sem drukkið var kaffi og kakó ásamt lummum í rafmagnslausu torfbænum í Sænautaseli.
Næsta dag var farið í Vopnafjörð og upp á heiðina í Möðrudal og gamla þjóðveginn þaðan yfir hana þvera austur með viðkomu á Grjótgarðahálsi í Skessugarðinum. Um þetta stórmerkilega náttúrufyrirbrigði má fræðast á Vísindavefnum. Einnig er þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar, sem ekki er síður sennileg, sem greinir frá því að þarna sé um fornan landamerkjagarð að ræða sem tvær skessusystur gerðu í illindum sín á milli.
Á Grjótgarðahálsi, norðan við Skessugarðinn
Núna á sunnudaginn hófum við svo þriðja heiðar daginn í morgunnkaffi og lummum í Sænautaseli. Þennan dag þræddum við slóðana meðfram vötnunum suður heiðina í sólskini og 24°C hita. Fórum svo vestur yfir í Möðrudal fyrir sunnan Þríhyrningafjallgarðinn og þaðan út á gamla þjóðveg eitt norður í Möðrudal, ævintýralega hrjóstruga leið.
Í þessum sunnudagsbíltúr heimsóttum við þau heiðarbýli sem við vegslóðana voru. En alls urðu heiðarbýlin 16 sem byggðust af sjálfstæðu fólki um og miðja 19. öldina. Um þessa heiðarbyggð í meira en 500 m hæð má lesa í I bindi Austurland safn austfirskra fræða. Þar segir Halldór Stefánsson þetta um tilurð þessarar heiðarbyggðar. Bygging þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri. Á þessum sunnudegi náðum við að heimsækja 5 býlanna.
Halldór Laxness gerði kröpp kjör þessara heiðarbúa heimsfræg í bókinni Sjálfstætt fólk. Það er erfitt að ímynda sér annað á góðviðrisdögum sumarsins en að heiðarlífið hafi verið himnaríki á jörð. Allt við höndina, mokveiði silungs í bláum vötnunum, gæsavarp í mýrunum, hreindýr, túnræktun óþörf því laufengi og mýrar eru grasmikil og búsmalinn á beit heima við bæ. Þó svo veturinn væri harður þá komið sumarið yfirleitt eins og hendi væri veifað.
Í Skessugarðinum
En það gat líka verið hart að búa á heiðinni af fleiri orsökum en Nóbelsskáldið tilgreindi. Í byrjun árs 1875 hófst eldgos í Dyngjufjöllum. Á páskadag hófust gríðarlegar sprengingar í Öskju, sem sendu vikurmökk út yfir Mið-Austurland. Vilborg Kjerúlf, sem þá var átta ára gömul stúlka á Kleif í Fljótsdal, lýsir morgni þessa páskadags svo í Tímanum 1961.
Mamma vaknaði um morguninn áður en fólk fór að klæða sig, og sá eldglæringarnar, sem komu hvað eftir annað. Það var hlýtt og gott veður og féð látið vera úti um morgunninn, en það tolldi ekki við og rásaði fram og aftur. Það fann á sér gosið. Klukkan 10 kom það. Það voru nú meiri ósköpin þegar það dundi yfir. Myrkrið varð alveg biksvart, og maður sá ekki handa sinna skil. Það var alveg voðalegt þegar þrumurnar riðu yfir og hávaðin óskaplegur. Það glumdi svo mikið í hamrabeltinu fyrir ofan bæinn. Svo lýstu eldingarnar upp bæinn þegar dynkirnir riðu yfir. Það var eins og snjóbyljir kæmu yfir þegar askan dundi á húsinu. Já það voru nú meiri ósköpin.
Kleif í Fljótsdal er í rúmlega 70 km fjarlægð frá Öskju. Um það hvernig umhorfs var eftir að sprengingunum lauk, segir Vilborg þetta; askan lá yfir öllu, og ég man að ég sópaði henni saman með höndunum og lék mér að henni, og hún var glóðvolg í höndunum á mér. Mér fannst þetta vera hnoss og hafði gaman að leika mér að henni. Hún var svona í ökkla í dældunum. Það var svo einkennilegt, að þykkasti mökkurinn fór aðallega út Jökuldalinn, og lenti meira þar en hjá okkur.
Tóftir Heiðarsels við suðurenda Ánavatns
Öskulagið var víða 20 cm á Jökuldalnum og heiðinni, enda lagðist byggð því sem næst af um tíma í heiðinni, og bar ekki sitt barr eftir Öskjugosið. Mikið af heiðafólkinu flutti til Ameríku og síðasti bærinn Heiðarsel fór í eyði 1946. Það var undir lok byggðarinnar sem Halldór Laxness fór um heiðina.
Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði m.a. frá kynnum af sínum nágrönnunum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli; Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.
En nú er svo komið fyrir mér eins Höllu hans Eyvindar, að mig dregur þrá. En þau Eyvindur og Halla dvöldu lengi vel á öræfunum suður af heiðinni og austur af Öskju, og um þessa þrá hafði Nóbelsskáldið þetta að segja í formála bókarinnar Reginfjöll að haustnóttum;
Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítifjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg. Hversu marga landa höfum við ekki þekt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: "fagurt er á fjöllum núna".
Lautarferð á laufengi í heiðanna ró
Ferðalög | Breytt 21.1.2018 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2017 | 19:53
Fjallið og Múahameð
Þegar fjallið kemur ekki til Múhameðs má segja sem svo að Múhameð verði að fara til fjallsins. Eitthvað á þennan veg hefur sjálfsagt margur landinn hugsað þegar utanlandsferðin í sólina hefur verið versluð þetta sumarið. Þó svo sumarið sem af er hafi verið með betri sumrum hvað gróanda jarðar varðar og langt frá því að vera með meiriháttar úrkomusumrum, hvað þá kalt, þá hefur sólina vantað. Og þegar gengi krónunnar er sterkt þá bíður landinn ekki eftir sólinni að sumarlagi heldur fer þangað sem hún skín.
Það er fjall hérna rétt innan við hús, sem í skyggni gærdagsins var þrjóskara en fjallið sem kom til Múhameðs, þannig að við hjónakornin ákváðum að fara til fjallsins. Fjallið, sem er hæsta fjall landsins utan jökla og trúað var fram eftir öldum að væri hæsta fjall Íslands. Þetta fjall blasir við úr stofuglugganum flesta daga en í gær morgunn voru skúrir og þokubólstrar á víð og dreif sem skyggðu sýn á Snæfellið.
Það var því ekki um annað að ræða en láta sig hafa það að panta sólarlandaferð í 16 stiga hita og skúrasömu blíðviðri, eða leggja upp í óvissuferð til fjallsins og sjá hvernig viðraði þar um slóðir. Síðan Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika er auðvelt að skjótast inn að Snæfelli, ferðlag sem tók jafnvel einhverja daga fyrir nokkrum árum tekur nú fáar klukkustundir. Og þó svo að ekki sé hægt að hringkeyra Snæfellið þá er hægt að fara því sem næst inn að rótum Vatnajökuls bæði að austan- og vestanverðu um útilegumannaslóðir þjóðsagnanna.
Við Laugafell, horft með austanverðu Snæfelli inn að Eyjabakkajökli
Við byrjuðum á því að fari inn með því að austan í sólskini og sunnan blæ, þó svo hitastigið væri ekki nema 12 14 gráður þá mátti vel búast við meiru þegar liði á daginn enda enn bara miður morgunn. Þarna er hægt að keyra á malbikuðum vegum Landsvirkjunar langleiðina inná Eyjabakka, þ.e.a.s. að uppistöðulónum Ufsaveitu. Þarna er með góðum vilja hægt að hæla Landsvirkjun fyrir fleira en veginn, því þar hefur nokkurn veginn tekist varðveitt sýnishorn af fyrrum Vatnajökulsbláa lit Lagarfljóts í lónunum neðan við Eyjabakkana sem náttúrverndarfólki tókst að fá þyrmt í stærstu framkvæmd íslandssögunnar.
Þegar við fórum þarna um kom lítil saga upp í hugann sem ég rakst óvænt á í bókinni "Syndir feðranna" og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur þarna í nágreninu, nánar tiltekið við Hornbrynju. Dýjakot, sem ég minnist ekki að hafa heyrt getið um, gæti hafa staðið á þessum slóðum miðað við staðarlýsingar í sögunni, eða rétt austan við Laugarfell. Það er reyndar ýmislegt í sögunni sem passar ekki alveg við þær hugmyndir sem sagnfræðin hefur komið inn hjá manni í gegnum tíðina.
Þessir atburðirnir er sagðir gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 1787. Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í sögubókum.
Norður af Ufsaveitu, þar sem Dýjakot gæti hafa staðið. Laugarfell ber hæðst vinstra megin
En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Hann fer sunnan við Hornbrynju niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.
Í sem stystu máli lendir hann í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft. Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum og enn pakkar Þórður honum saman.
Þórður á að hafa farið sömu leið heim, um þriggja daga ferðalag. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot. Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í göngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju í, illa farið og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu.
Vestan við Snæfell á bökkum Hálslóns, fremri Kárahnjúkur fyrir miðri mynd
Eftir að hafa ferðast um í kyrrðinni austan við Snæfellið, þar sem einungis urðu tvenn þýsk hjón á vegi okkar fórum við vestur fyrir fjallið á hin margrómuðu Vesturöræfi. þar sem hreindýraskyttur og gangnamenn einir kunnu áður fyrr að greina frá undrum Svörtugljúfra, Kringilsárrana, Töfrafoss o.fl., sem nú er á botni Hálslóns. Á leiðinni norðan við Snæfell tókum við ungt par frá Frakklandi uppí, en þau voru á leið í Kárahnjúka og svo þaðan vestur í Öskju, með engan farangur, en full eftirvæntingar og bjartsýni. Þau höfðu verið við vinnu á Héraði frá því í maí og ætluðu að nota tímann þar til í September til gönguferða um hálendið norðan Vatnajökuls.
Sauðfé, sem lengi var talið mesti skaðvaldur íslenskrar náttúru, á fyrrum Vesturöræfum nú uppgræddum bökkum Hálslóns. Snæfell í baksýn
Við keyrðum svo vestan við Snæfellið inn með Hálslóni Kárahnúkastíflu eins langt og við komumst á vegi Landsvirkjunar. Þarna var allt annað skyggni en í tæra fjallaloftinu austan við Snæfell því það rauk af leirum Hálslóns í suðvestan golunni og byrgði sýn. Í suðvestan átt getur það verið fleira en þoka, ský og skúrir sem byrgja útsýnið á Snæfellið úr stofuglugganum heima. Það eru nefnilega líka dagar sem fokið af leirunum kemur í veg fyrir skyggni, jökulryk sem hefur sama lit og Lagarfljótið hefur núorðið.
En ekki er víst að mögulegt hefði verið að skoða stóran hluta víðernanna norðan Vatnajökuls á dagsstund án afleiðinga Kárahnjúka.
Við Kárahnjúkastíflu á góðviðrisdegi, Snæfell í fjarska hægra megin
Laugafellsskáli, rétt austan við Snæfell
Horft í áttina að Hálslóni og Vesturöræfum úr lofti í suðvestan golu, Snæfell í baksýn
Ferðalög | Breytt 21.1.2018 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)